Fyrirlestur í boði Þjóðminjasafns Íslands í tilefni af ljósmyndasýningunni Straumnes
Ratsjárstöðin á Straumnesfjalli á Hornströndum var reist á sjötta áratug síðustu aldar en lögð niður fljótlega eftir að hún var tekin í notkun. Það var í sparnaðarskyni en einnig var svo að sovéskar herflugvélar létu ekki sjá sig í námunda við Ísland – fyrr en á sjöunda áratugnum skömmu eftir að stöðin á Straumnesfjalli var lögð niður. Eftir það önnuðust aðrar ratsjárstöðvar á landinu loftvarnirnar ásamt sérstökum ratsjárflugvélum.
Ratsjárstöðin á Straumnesfjalli skipti því ekki máli hernaðarlega. En hún var angi – örítill angi – af langri sögu náins hernaðarlegs samstarfs að segja má milli Íslands og Bandaríkjanna.
“Hernaðarlegs samstarfs að segja má” – Hvað á ég við með því? Jú, Ísland lagði auðvitað ekki herstyrk til samstarfsins, heldur land; nánar tiltekið aðstöðu á landinu fyrir Bandaríkjaher. En samstarfið var meira en nam þessu fyrirkomulagi. Samstarfið varði í áratugi, mestan hluta síðari heimsstyrjaldar og allt kalda stríðið. Og íslensk stjórnvöld lögðu til ríkan pólitískan stuðning og á þau reyndi oft í því efni vegna innanlandsdeilna um samstarfið.
Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna var bandalag, sem hvíldi á frjálsum samningum milli ríkjanna, á sameiginlegum hagsmunum þeirra, á sameiginlegum gildum og á því sameiginlega markmiði bæði í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu að lýðræðisríki bæru sigur og einræðisríki ósigur.
Ég ætla að fara í stuttu máli og mjög stórum dráttum yfir sögu þessa bandalags Íslands og Bandaríkjanna, hvernig henni lauk fyrir rúmlega þremur áratugum og hvernig hún hefur, þó með öðrum formerkjum sé en áður, átt endurkomu á undanförnum átta árum eða svo.
Og þar með kemur að Úkrænu- og því hvernig Bandaríkjaher hefur í vaxandi mæli frá 2014 notað aftur aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og Ísland aftur fengið hernaðarlega þýðingu þó við aðrar aðstæður sé og með mun veigaminni hætti en var í heimsstyrjöldinni og í kalda stríðinu.
Sagan sem ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af stóð í 50 ár – frá 1941 til 1991. Þetta var einstakt tímabil í Íslandssögunni – þegar Ísland hafði viss áhrif á gang heimsmála legu sinnar vegna og bandalagsins við Bandaríkin.
Helstu áfangar í þessari sögu voru annars vegar koma Bandaríkjahers til Íslands 1941 í kjölfar herverndarsamnings milli landanna og hins vegar varnarsamningur þeirra 1951. Hann leiddi til þess að Bandaríkjaher hafði – eftir nokkurra ára hlé – aftur fasta viðveru á Íslandi með varnarliðinu eins og það var kallað. Því var komið á fót á grundvelli varnarsamningsins og það hafði aðallega aðsetur á Keflavíkurflugvelli – herstöðinni í Keflavík.
Áður hafði NATO verið stofnað – það var 1949 – og Íslendingar gerst stofnaðilar, þótt herlausir væru, meðal annars vegna þess að það var vilji háttsettra manna í Bandaríkjastjórn sem vísuðu til hernaðarlegs mikilvægis landsins. Grænland skipaði einnig slíkan sess í huga þessara aðila. Varnarsamningurinn var tvíhliða en gerður innan vébanda NATO. Keflavíkurherstöðin var bandarísk og hún og hervarnir lands og þjóðar undir stjórn bandarískra hermálayfirvalda – endanlega forseta Bandaríkjanna.
Saga bandalags Íslands og Bandaríkjanna – 1941-1991 eins og áður sagði -átti reyndar rætur sem rekja má fyrir 1941 -nánar tiltekið til júní 1940 með falli Frakklands undan sókn þýska hersins í síðari heimsstyrjöldinni.
Fall Frakklands 1940? Hvað með það? Jú, óvænt og dramatískt fall Frakklands sumarið 1940 boðaði mikla hættu í augum stjórvalda í Washington. Hún batt enda á einangrunarstefnu Bandaríkjanna. Það var rótttæk stefnubreyting sem birtist sumarið 1941 – meðal annars í því að Bandaríkjaher kom til Íslands í kjölfar herverndarsamnings landsins við Bandaríkin.
Stefnubreytingin réðist í grunninn af því markmiði þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna – og þetta er lykilatriði – að koma í veg fyrir að stórveldi næði ráðandi stöðu á meginlandi Evrópu. Það mundi fyrr en seinna leiða til þess að slíkt drottnandi stórveldi mundi sækja frá meginlandinu út á Norður Atlantshaf, í átt að vesturhveli Jarðar og loks Bandaríkjunum sjálfum. Þetta voru stóru drættirnir í þeirri geópólitík og sögu sem meðal annars gat af sér bandalag Íslands og Bandaríkjanna.
Í síðari heimsstyrjöld leit þetta svona út í örstuttu máli: Félli Bretland í kjölfar falls Frakklands 1940 eða eftir að Þjóðverjar hefðu sigur í innrásinni í Sovétríkin 1941 – líkt og óttast var í Washington – þá hefði styrjöldin í kjölfarið náð á einhverjum punkti af fullum þunga út á Atlantshaf í átt að vesturhveli og Bandaríkjunum sjálfum. Atlantshaf hefði orðið vettvangur stórfelldra hernaðarátaka milli Bandaríkjanna og Þýskalands. Ísland hefði orðið vígvöllur í þeim hildarleik.
Íslendingar og Bandaríkjamenn áttu þannig augljósa sameiginlega þjóðaröyggishagsmuni sem réðust af gangi mála og valdastöðu milli stórvelda á meginlandi Evrópu. Í kalda stríðinu hefði svipuð staða getað komið upp á endanum ef Sovétríkin hefðu náð að drottna yfir meginlandinu.
Hernaðaraðstaða á Íslandi hafði verulega þýðingu fyrir gang mála í afdrifaríkri atburðarás. Í síðari heimsstyrjöld gegndi hernaðaraðstaða á landinu um tíma mikilvægu hlutverki fyrir Bandaríkjamenn og Breta í langri og harðvítugri orrustu; – orrustunni um Atlantshaf. Einnig fóru þúsundir herflugvéla frá Bandaríkjunum um Ísland til Evrópu.
Í kalda stríðinu hafði Keflavíkurherstöðin í aðalatriðum þýðingu framan af fyrir hernaðaráætlanir Bandaríkjanna með langdrægum sprengjuflugvélum gegn Sovétríkjunum, síðan fyrir varnir Bandaríkjanna -bæði loftvarnir og varnir gegn kafbátum sem á sjöunda áratugnum urðu að fara um hafsvæði við Ísland og suður Atlantshaf til að ná með kjarnavopnaflaugum til skotmarka í Bandaríkjunum. Þessi þörf Sovéthersins hvarf eftir 1970 með langdrægari flaugum sem gerðu kleift að halda kafbátum þeirra úti langt norður í höfum – aðallega í Barentshafi. Island hafði einnig auðvitað almenna þýðingu fyrir yfirráð Bandaríkjanna og annarra sjóvelda NATO á Norður Atlantshafi – leiðinni milli Norður Ameríku og Evrópu sem hafði haft grundvallarþýðingu í síðari heimsstyrjöld.
Á níunda áratugnum – síðasta áratug kalda stríðsins – varð Ísland burðarás í áætlun NATO, en einkum Bandaríkjahers, um sókn upp Noregshaf gegn sovéska flotanum og bækistöðvum hans á Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Þessi áætlun var lykilþáttur í fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum gegn Sovétríkjunum.
Þetta var á valdatíma stjórnar Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og stefnan í norðurhöfum – í hverri Ísland var burðarás eins og ég nefndi – var þáttur í miklu stærri fyrirætlan en bara að halda aftur af Sovétríkjunum. Ætlunin var að sigra Sovétríkin í kalda stríðinu – án átaka – en meðal annars og ekki síst með stórfelldri uppbyggingu Bandaríkjahers og með með ákveðnari og trúverðugri fælingar og hernaðarstefnu en áður. Tilgangurinn var að sýna Sovétríkjunum, sem þá voru á fallandi fæti efnahagslega, að þau hefðu ekki fjárhagslega eða tæknilega burði til að keppa við Bandaríkin á hernaðarsviðinu; mundu veikjast æ meira efnhagslega og loks kikna undan samkeppninni og tapa þannig kalda stríðinu. – Og það gekk eftir.
Þess er vitanlega ekki kostur hér að fara ítarlega í þennan eða aðra merka kafla í sögu bandalags Íslands og Bandaríkjanna, en áhugasamir geta kynnt sér hana nánar meðal annars á vefsíðu minni um alþjóða og utanríkismál. Fyrsta greinin á henni birtist 2018 og heitir Hernaðarleg staða Íslans í sögu og samtíma. Henni fylgir ítarlega skrá yfir útgefnar heimildir um þessa sögu alla – þar á meðal eru rit og greinar íslenskra höfunda.
Í fyrrnefndri grein minni 2018 um hernaðarlega stöðu Íslands í sögu og samtíma kemur að kafla um horfnar forsendur eins og þar segir. Hvað er átt við með horfnum forsendum?
Jú, þar var komið sögu 1989-91 – að kommúnisminn hrundi í Evrópu og Sovétríkin féllu. Þar með var ógnin við NATO ríkin horfin; strategíska forsendan – lykilatriðið – sem hnýtti þjóðaröryggi Íslands við þjóðaröryggi Bandaríkjanna. — Það er að segja hættan á að stórveldi næði að drottna yfir meginlandi Evrópu og sækja út á Atlantshaf og að vesturhveli eins og ég nefndi áðan.
Sovétríkin hurfu en jafnframt skipti miklu fyrir öryggi Íslands og samstarfið við Bandaríkin eftir kalda stríðið – og hér er annað lykilatriði – að Rússland er ekki og verður ekki arftaki Sovétríkjanna. Hefði með öðrum orðum ekki burði til að ná drottnandi stöðu á meginlandinu og sækja út á Atlantshaf og að vesturhveli – jafnvel þótt rússneska ráðamenn langaði til þess, sem ekkert bendir reyndar til.
Eftir að hættan frá Sovétríkjunum hvarf á meginlandi Evrópu og augljóslega enginn arftaki þeirra í sjónmáli fækkuðu Bandaríkin stórlega í liði sínu í Evrópu. Forsendur fyrir föstu bandarísku herliði á Íslandi voru horfnar – reyndar var eftir þetta ekki bandarískur áhugi á neinu herliði hér umfram tímabundna viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla og áhafna þeirra. Sá áhugi hvarf einnig nokkrum árum eftir kalda stríðið enda bólaði ekki á rússneska flotanum eða rússneskum herflugvélum á Norður Atlantshafi.
Strax eftir kalda stríðið fækkaði Bandaríkjaher í mannskap og búnaði í Keflavíkurherstöðinni og 1993 komu fram tillögur um enn frekari fækkun, sem í reynd hefði leitt til þess að herstöðin hefði fljótlega lagst af. Henni var þó ekki lokað fyrr en 2006. Sú staðreynd að bandarískt varnarlið var áfram á landinu svo lengi eftir kalda stríðið og gegn vilja Bandaríkjahers er önnur saga sem ekki er kostur að fjalla um hér – en sú saga hafði ekki með strategíu eða geópólitík að gera. Ég bendi aftur á greinina á vefsíðu minni um hernaðarlega stöðu Íslands í sögu og samtíma þar sem er nokkuð ítarleg umfjöllun um af hverju varnarliðið var hér áfram þótt Bandaríkjaher telda það óþarfa. Það vill svo til að ég var þáttakandi frá fyrsta til síðasta dags í þeirri sögu.
Góðir áheyrendur, í heiti fyrirlestursins segir að ratsjárstöðin á Straumnesfjalli hafi verið angi af sögu sem sé löngu lokið og þó ekki.
Henni lauk með falli Sovétríkjanna, eins og ég hef vikið að – “og þó ekki”. Hvað þýðir það?
Jú, versnandi samskipti NATO og Rússlands í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga í Rússland 2014 og hófu íhlutun í átök í austurhluta Úkrænu hafa leitt til þess að Ísland og Bandaríkin hafa á þessum tíma aftur átt hernaðarlega samvinnu á landinu. Og nú hefur innrás Rússa í Úkrænu komið til sögu.
Versnandi samskipti vegna Úkrænu hafa meðal annars stuðlað að því eftir 2014 að Bandaríkjaher hefur veitt fé til að viðhalda og stækka flughlöð á Keflavíkurflugvelli, og, sem meiru skiptir, hefur aftur nýtt aðstöðu á vellinum fyir tímabundna viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla. Miklu af viðverunni hefur verið varið til þjálfunar og æfingar en einnig hefur verið flogið frá vellinum meðal annars langt norður í höf til að fylgjast með rússneska norðuflotanum og þá gjarnan í samvinnu við eldsneytisflutningaflugvélar frá bandarískri herstöð á Bretlandi. Þetta tengist fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi almennt, en þeirri stefnu bandalagsins í norðurhöfum sérstaklega.
Með “norðurhöfum” á ég aðallega við norður Noregshaf og Barentshaf – hafsvæðin úti fyrir norður Noregi og Kolaskaga í norðvestur Rússlandi.
Starfsemi Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli í þágu fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum er meginframlag Íslands í hernaðarlegu tilliti. Um það lykilatriði er ekki fjallað í íslenskri umræðu um öryggis og varnarmál.
Það litla sem dúkkar stundum upp í umræðunni hefur einkum snúið að smávægilegum framkvæmdum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, einnig að rússneskum hernaðarumsvifum í námunda við landið þótt þau umsvif hafi verið mjög lítil og virðist fara enn minnkandi. Voru nánast engin á árinu 2021. Loks eru reglulega fréttir af loftrýmisgæslu NATO ríkja á Íslandi en hún er stopul og hefur því takmarkaða hernaðarlega þýðingu og enga að heita má fyrir öryggi Íslands nema hvað varðar loftrýmisgæslu á vegum Bandaríkjahers. Hún er reyndar stopul einnig en Bandaríkin eru þó skuldbundin til að sinna vörnum Íslands ef á þyrfti að halda. Það eru hin NATO ríkin ekki.
Og nú síðast hefur öryggi Íslands komið til umræðu vegna innrásar Rússa í Úkrænu, þó innrásin hafi ekki áhrif á hernaðarlegt öryggi Íslands; enda hefur hún ekki leitt til hernarðarlegra viðbragða á Íslandi eða á Norður Atlantshafi, hvorki af hálfu Bandaríkjanna né annarra NATO ríkja. Þá vildi svo til að nokkurra vikna loftrýmisgæslu portúgalska flughersins á Íslandi var hætt á dögunum. Það var gert samkvæmt áætlun, sem innrásin í Úkrænu hafði greinilega engin áhrif á, enda ekki ástæða til auðvitað.
Þá hefur komið upp að mikilvægi ESB fyrir Ísland hafi aukist vegna Úkrænustríðsins. En auk þess að Úkrænustríðið felur ekki í sér hernaðarógn við land og þjóð þá hefur ESB ekki með hervarnir að gera og ekki líkur á að svo verði um fyrirsjánlega framtíð – og alls ekki þannig að máli skipti fyrir Ísland. Bandaríkin eru eina Atlantshafsveldið, eina flotaveldið sem máli skiptir í okkar heimshluta, og áfram máttarstólpinn þegar kemur að fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum. Ekkert ESB ríki er flotaveldi á við Bandaríkin – langt í frá að svo sé.
Góðir áheyrendur,
Sem fyrr – og hér er enn eitt lykilatriði – eru einungis Bandaríkin – sem svo vill til að eru mesta herveldi heims – skuldbundin til að annast hervarnir Íslands. Engin ástæða er til að ætla annað en að þær verði nægilega tryggar ef á þarf að halda, en auðvitað og eðlilega er það hlutverk íslenskra stjórnvalda á hverjum tíma að fylgjast með því í samráði við bandarísk stjórnvöld að svo sé. Ekki er ástæða til að ætla að því sé ekki sinnt.
Á hættutíma í aðdraganda hugsanlegrar styrjaldar milli NATO og Rússlands mundi Bandaríkjaher tryggja loftvarnir landsins og gera aðrar ráðstafanir í samræmi við áætlanir og starfsferla. Svo vill til að á næstu dögum hefst hér á landi á vegum Bandríkjahers æfingin Norður Víkingur samkvæmt samningum og æfingaáætlun, sem, meðal annarra orða og til að fyrirbyggja misskilning, er miklu eldri en innrásin í Úkrænu. Mikilvægur hluti æfingarinnar verður varnir hernaðarlega mikilvægra innviða á landinu.
En víkjum aftur að þátttöku Íslands í fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum með þvi að láta Bandaríkjaher – og eftir atvikum öðrum NATO ríkjum en aðallega Bandaríkjaher – í té aðstöðu á Keflavíkurflugvelli.
Um hvað snúast þessi lykilatriði, sem lúta að helsta framlagi Íslands til NATO en rata ekki í íslenska umræðu um öryggis og varnarmál? Hver er fælingar og hernaðarstefna Bandaríkjanna og NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum? Hvert er framlag Íslands til hennar?
Fælingar og hernaðarstefnan lýtur að því að sýna Rússlandsstjórn fyrirfram að kæmi til átaka við NATO á meginlandinu yrði Rússum ekki látið eftir að halda átökunum þar – til dæmis við Eystrasalt. Þess í stað yrðu þeir neyddir til að berjast víðar, þar á meðal í norðri til að verja sjálft Rússland, rússneska flotann þar, bækistöðvar hans á Kolaskaga og eldflaugakafbáta hans í Barentshafi; en í þeim er stór hluti rússneskra kjarnavopna. Einnig er Norðurflotinn að eignast langdrægar stýriflaugar sem ná mundu í stríði frá heimahöfum hans til skotmarka á meginlandi Evrópu.
Á hættutíma mundi NATO – þó einkum Bandaríkjaher – undirbúa varnir norður Noregs og hernaðaraðgerðir gegn Norðurflotanum og norðvestur Rússlandi. Framlag Íslands að þessu leyti yrði aðallega aðstaða á Keflavíkurflugvelli fyrir annars vegar kafbátaleitar og eftirlitsflugvélar sem mundu taka þátt í hernaðaraðgerðum langt fyrir norðan landið – norðanverðu Noregshafi og Barentshafi; hins vegar yrði framlag Íslands aðstaða fyrir eldsneytisflugvélar.
Hernaðarleg þungamiðja í okkar heimshluta er mun norðar en í kalda stríðinu og því fjær Íslandi. Fyrir því eru þrjár meginástæður. Í fyrsta lagi er rússneski norðurflotinn miklu minni en sovéski forverinn og sá rússneski er að mjög litlu leyti úthafsfloti. Hann heldur sig aðallega á hafsvæðum nálægt Rússlandi. Í öðru lagi er forgangsverkefni Norðurflotans að verja Barentshaf og norðvestur Rússland. Í þriðja lagi hefur hann minni þörf en áður fyrir að sækja út á Norður-Atlantshaf vegna þess að hann ræður yfir langdrægari vopnum en áður gegn aðvífandi ógn og gegn skotmörkum á meginlandi Evrópu sem fyrr sagði.
Sakir þess að hernaðarlega þungamiðjan hefur færst miklu norðar en hún var áður – og reyndar austar einnig – er vel hugsanlegt að flugbækistöðvar í norður Noregi og jafnvel Skotlandi mundu hafa stærra hlutverki að gegna en Keflavíkurflugvöllur og þá fyrir jafnt bandarískar, norskar og breskar kafbátaleitarflugvélar.
Um framlag Íslands til fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum – helsta framlag okkar – er eins og ég nefndi áðan ekki rætt á Íslandi. Sést ekki í opinberum skýrslum eða að öðru leyti opinberlega af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Að þannig hátti með umræðuna skiptir máli almennt séð auðvitað, en einnig sakir þess að stefna NATO í norðurhöfum fær ef að líkum lætur aukið vægi í kjölfar Úkrænustríðsins.
Annað framlag Íslands til fælingar og hernaðarstefnunnar kemur til greina og Bandaríkjaher hefur sýnt því áhuga bæði í orði og á borði en það ratar heldur ekki í íslenska umræðu. Það framlag mundi lúta að tímabundinni aðstöðu fyrir langdrægar bandarískar sprengjuflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Önnur Evrópuríki veita slíka aðstöðu. Markmiðið með því að halda langdrægum sprengjuflugvélum úti tímabundið utan Bandaríkjanna er að gera fælingar og hernaðarstefnu þeirra og NATO öflugri og trúverðugri en ella. Íslensk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um þetta mál – amk ekki opinberlega – þar á meðal ekki eftir að þrjár langdrægar sprengjuflugvélar höfðu með tilheyrandi mannskap viðdvöl á Keflavíkurflugvelli til æfinga í þrjár vikur í ágúst og september í fyrra.
Dvöl sprengjuflugvélanna hér, starfsemi þeirra frá Keflavíkurflugvelli, samhengi við nýja stefnu flughersins og ummæli talsmanna hersins meðan flugvélarnar voru á Íslandi – þetta voru samanlagt stærstu tíðindi í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna frá því í kalda stríðinu. Engin umræða.
Spurningar sem vakna: Hvernig var koma flugvélanna hingað ákveðin? Verður framhald á þessu?
Góðir áheyrendur,
Fælingar og hernaðarstefna NATO yrði auðvitað ekki gangsett og virkjuð í norðurhöfum, frekar en annarssstaðar, nema á hættutíma, nánar tiltekið í aðdraganda hugsanlegra átaka milli Rússlands og NATO. Þriðju heimsstyrjaldar. Markmiðið með því að virkja stefnuna og efla í kjölfarið viðbúnað og herstyrk i norðurhöfum væri að reyna að gera fælinguna trúverðuga koma í veg fyrir að hættutíminn endaði í stríði.
Kæmi til þess engu að síður yrði líklegasta hernaðarógnin gegn Íslandi árás á Keflavíkurflugvöll. Gera verður ráð fyrir að reynt yrði að setja hann úr leik og og þá að öllum líkindum með stýriflaugum sem sendar yrðu af stað langt í norðri – frá rússneskum flugvélum, skipum eða kafbátum í 3000-5000 kílómetra fjarlægð frá Íslandi. Stýriflaugar fljúga lágt á 8-900 kílómetra hraða. Gegn þeim eru að heita má engar varnir mögulegar nema tiltölulega nálægt skotmörkum. Jafnvel þar eru varnir torveldar.
Og þá er ég kominn aftur að ratsjárstöðvum sem ég skildi við í byrjun þegar ég nefndi stöðina á Straumnesfjalli. Það er ekki víst – jafnvel ólíklegt – að ratsjárstöðvarnar sem eru á hverju landshorni dygðu til þess yfir höfuð að finna stýriflaugar sem nálguðust landið á 800-900 km hraða og væru komnar niður í jafnvel hundrað metra hæð; hvað þá finna flaugarnar í tæka tíð svo orrustuþotur eða loftvarnaskeyti á landi næðu að granda þeim. Tiil að eiga möguleika í þessum efnum þyrfti ratsjárþotur og jafnvel einnig stuðning frá gervitunglum.
Ratsjárstöðvarnar á landshornunum okkar fjórum kunna því að hafa takmarkað gildi gegn stýriflaugum. Þá er næsta víst að þær fáu langdrægu sprengjuflugvélar sem Rússar eiga mundu ekki – og þyrftu ekki vegna langdrægu stýriflauganna – að koma svo nálægt landinu að ratsjárstöðvarnar skiptu máli. Til hvers að fara alla þá hættulegu leið ef senda má vopnið af stað í þúsunda kílómetra fjarlægð, sem svo kæmi að skotmarki undir ratsjárgeislum, sem flugvélin ætti erfitt með?
Yrðu sendar skemmdarverkasveitir gegn íslenskum innviðum? Ég hef ekki upplýsingar og forsendur til að meta möguleika Rússlandshers til að koma slíkum sveitum óséðum til Íslands með búnaði til skemmdarverka. Er raunhæft að gera ráð fyrir því? Mér finnst það hæpið og nokkuð ljóst að stýriflaugar yrðu áreiðanlegri og skilvirkari gegn flugvellinum, skotmarkinu sem mestu máli skipti.
Mætti lama varnirnar með nethernaði? Stundum er mikið gert úr getu Rússa og fyrirætlan í rafeinda og nethernaði. Auðvitað þarf netöryggi að vera í lagi hér á landi sem annarsstaðar og það er vissulega áskorun almennt, sem kallar á árvekni og ráðstafanir. En í Úkrænu hafa Rússar ekki reynst neinir nethermenn yfir höfuð. Það hafa svo gott sem engar fréttir borist af nethernaði af þeirra hálfu þar. Þar virkar netið ágætlega eftir meira en mánaðarlangt stríð. Það sést meðal annars af ræðum Úkrænuforseta á fjarfundum á undanförnum vikum með þingum margra ríkja. Forsetinn er líka virkur á twitter.
Góðir áheyrendur,
Í byrjun fyrirlestursins nefndi ég þau sameiginlegu gildi sem bandalag Íslands og Bandaríkjanna byggði á. Þess er ekki kostur að fjalla nánar hér um þá undirstöðu eða þá frjálsu samninga sem bandalagið hvíldi á. Ennfremur mætti halda til haga þeirri staðreynd að Ísland og Bandaríkin voru í sigurliðinu í þessari sögu – bæði í heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu. Ísland lagði af mörkum fyrir málstað sem var réttlátur og tók í heimsstyrjöldinni þátt – að segja má – í réttlátu stríði.
Fimmtíu ára sögu bandalags Íslands og Bandaríkjanna lauk vegna grundvallarbreytinga sem urðu á valdajafnvæginu á meginlandi Evrópu með falli Sovétríkjanna. Hætta á styrjöld um yfirráð á Atlantshafi sem leiddi til átaka um Ísland – hún hvarf.
Átökin í Úkrænu á undanförnum átta árum minna hins vegar á dökkar hliðar Evrópusögunnar sem og á það að Íslendingar og Bandaríkjamenn eiga áfram hagsmuni – augljósa hagsmuni – í friði og stöðugleika á meginlandi Evrópu; þótt hernaðarlegt öryggi þeirra sé ekki í húfi með þeim hætti sem var.
Ég benti á áðan að umræða hér á landi um öryggismál væri lítil og heldur þröng, meðal annars af því að söguleg, geópólitísk og strategísk lykilatriði rata ekki í hana. Þetta á við almennt en einnig við framlag stjórnvalda til umræðunnar.
Þetta má gjarnan breytast af því Ísland er aðili að NATO og þátttakandi í fælingar og hernaðarstefnu þess og framundan eru flóknir og erfiðir tímar í evrópskum öryggismálum. Þess er hins vegar ekki þörf að öryggi Íslands verði að stórmáli vegna Úkrænustríðsins. Höfum aðalaðtriði í huga.
Á Íslandi er eitt auðugasta samfélag heimsins, samfélag sem býr ekki bara við mikla efnalega velferð, heldur stöðugleika og öryggi. Við erum langt frá Úkrænustríðinu og rússneska landhernum, í fjarlægð sem talin er í þúsundum kílómetra. Við eigum enga volduga, ógvekjandi nágranna.
Við þessa ofgnótt í öryggismálum þjóðarinnar bætist að við höfum hervarnasamning við mesta herveldi Jarðar. Okkur er engin vorkunn að tryggja áfram sjálf- í krafti okkar lögregluliðs og í samstarfi við önnur ríki og við alþjóðastofnanir- öryggi okkar samfélags eins og við á gagnvart hugsanlegum netógnum, alþjóðlegri glæpastarfsemi eða hryjuverkaöflum.
En við höfum hagsmuni og skyldur á meginlandi Evrópu. Þar eigum við bandamenn, samherja, vini. Og við höfum sömu hagsmuni og þeir af stöðugleika og friði, reyndar bæði á meginlandi Evrópu og utan þess.
Hvernig sem fer í Úkrænustríðinu, og hvort Rússland kemur veikar eða sterkar út hernaðarlega, pólitískt og efnahagslega en það var áður – þá leiðir stríðið vitanlega til stórra og erfiðra eftirmála. Þau kalla á trúverðuga og burðuga stefnu af hálfu NATO ríkjanna, krefjast einingar meðal þeirra – og útgjalda. Kröfur verða auðvitað gerðar til Íslands í þessum efnum eins og til annarra NATO ríkja.
Eftir stríðið þarf að endurreisa borgir, bæi og þorp í Úkrænu en einnig þarf að endurreisa öryggiskerfi í Evrópu. Það stefnir í að NATO ríkin muni meðal annars efla varnir og leggja enn ríkari áherslu en áður á trúverðuga fælingar og hernaðarstefnu. Þar á meðal í norðurhöfum.
Stuðningur frá Íslandi við fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum er helsta hernaðarframlag okkar til bandalagsins. Sá stuðningur fær að óbreyttu og eðli máls samkvæmt meira vægi en áður í kjölfar Úkrænustríðsins. Hernaðarumsvif af því tagi sem verið hefur undanfarin ár á Keflavíkurflugvelli kunna að aukast. Gera má ráð fyrir því.
Áfram verður ólíklegt að aftur komi bandarískt “varnarlið” til landsins. Forsenda þess birtist trauðla aftur fyrr en á hugsanlegum hættutíma sem kæmi upp í aðdraganda hugsanlegs stríðs milli NATO og Rússlands.
Það væri hin svonefnda þriðja heimsstyrjöld, hvorki meira né minna. Hún er afar ólíkleg sakir þess að hún mundi að öllum líkindum leiða til þess á einhverju stigi að kjarnorkuvopn yrðu notuð. Einstakur fælingarmáttur þeirra hefur komið skýrt í ljós í Úkrænustriðinu. Þau hafa að svo komnu haft þau áhrif að staðbinda átökin við Úkrænu, en hafa jafnframt bundið hendur NATO ríkjanna með því að koma í veg fyrir beinan hernaðarlegan stuðning af þeirra hálfu við Úkrænu.
Að lokum þetta: Allar líkur benda til að Bandaríkin leggi á næstu árum og áratugum megináherslu í öryggis og varnarmálum á Asíu en ekki á Evrópu. Bandaríkjaher muni smám saman færa sig að mestu frá Evrópu og Evrópuríki NATO koma í hans stað og taka við vörnum bandalagsins að miklu leyti. Of snemmt er auðvitað að hafa uppi getgátur um hvort og þá hvernig Ísland kæmi að þessu. Þó er víst að Evrópuríki munu ekki um langa hríð -og jafnvel aldrei – taka við hernaðarlegu hlutverki Bandaríkjanna á Norður Atlantshafi og í norðurhöfum.
Hér er kanske efni í annan fyrirlestur um sögu, geópólitík og strategíu og öryggismál Íslands, en ef til vill ekki í Þjóðminjasafni Íslands.
Ég þakka safninu aftur fyrir boð um að halda þennan fyrirlestur – og ykkur áheyrendur góðir fyrir áhugann og áheyrnina.