Öryggismál á norðurslóðum

Ég talaði á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? semalþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir 20. apríl.  – Ég var beðinn um að halda stutt erindi um hvaða “smitáhrif” stríð í Evrópu geti haft á norðurslóðir. 

Hér er erindið:

Á þeim knappa tíma sem ég hef ætla ég að reyna að gera viðfangsefninu skil með því að setja fram og svara fjórum spurningum – fjórum spurningum um Úkrænustríðið og öryggismál á norðurslóðum – og víkja jafnframt að stöðu og hlutverki Íslands.

Ég kemst ekki yfir að ræða sum mikilvæg öryggismál sem nú eru í þróun á norðurslóðum í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu – þar á meðal hugsanleg aðild Finna og Svía að NATO. Þá eru líkur á að skilvirkt samstarf á vegum norðurskautsráðsins muni liggja niðri jafnvel í mörg ár í vegna stríðsins.

Áður en ég sný mér að spurningunum fjórum sem ég nota til að skipuleggja þessa stuttu framsögu  – þarf að taka fram að í kalda stríðinu voru tengsl milli norðurslóða annars vegar og öryggismála á meginlandi Evrópu hins vegar. Hættutími á meginlandinu hefði náð inn á norðurslóðir með stórauknum hernaðarlegum umsvifum þar. En til þess – og það er lykilatriði – hefði þurft alvarlegan hættutíma, í raun aðdraganda hugsanlegs stríðs milli NATO og Sovétríkjanna.

Fyrsta spurning mín af fjórum um Úkrænu og norðurslóðir er, hefur stríðið sem hófst 24 febrúar síðastliðinn með innrás Rússa í landið haft áhrif á hernaðarleg umsvif á norðurslóðum?

Stutta svarið er nei. Innrásin hefur ekki leitt til hernaðarlegra umsvifa á norðurslóðum sem neinu nemur umfram þau sem áttu sér stað á árunum fyrir innrásina – eða voru í bígerð vegna æfinga. 

Að fylgjast með þessu í aðalatriðum er fremur auðvelt á internetinu – auk þess að ekki yrði reynt að halda viðbrögðum leyndum. Því þá yrði tilgangnum með þeim ekki náð. 

Lítil eða engin hernaðarleg viðbrögð á norðurslóðum við innrásinni koma ekki á óvart, enda hefur ekki hafist aðdragandi að stríði milli NATO og Rússlands. Sama forsenda um að alvarlegan hættutíma milli stórveldanna þurfi til – hún á við nú líkt og í kalda stríðinu. Eftir að Úkrænustríðið hófst hafa báðir aðilar forðast að hrinda af stað slíkri atburðarás. Hún er áfram talin afar ólíkleg. 

En stríð í Úkrænu hófst ekki með innrásinni 24. febrúar síðastliðinn, heldur eins og kunnugt er fyrir átta árum – á árinu 2014 – þegar Krímskagi var hernuminn og mannskæð borgarastyrjöld hófst með rússneskri íhlutun í austurhluta Úkrænu. Samskipti NATO og Rússlands versnuðu eftir þetta – og mjög svo – og auðvitað.

Önnur spurning mín í dag er því þessi: Hafa versnandi samskipti NATO og Rússlands frá 2014 – haft áhrif á öryggismál á norðurslóðum?

Stutta svarið við þessari spurningu er: Já. Áhrifin hafa einkum birst í verulega auknum umsvifum Bandaríkjahers -og eftir atvikum annarra NATO herja – á norðurslóðum, nánar tiltekið norðurhöfum. Umsvif þessara aðila á svæðinu voru lítil fram til 2014. Tilgangurinn með að auka umsvif í norðurhöfum er væntanlega sá að minna Rússa á strategískan áhuga og hernaðargetu NATO þar, og mikilvægi norðurhafa fyrir bandalagið. Þessi auknu umsvif á undanförnum átta árum hefur mátt greina á láði og legi – og í lofti – og vitað er að umferð vestrænna kafbáta hefur einnig aukist. 

Með norðurhöfum er átt við norður Noreg og svæði þar úti fyrir og úti fyrir Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Þetta eru einkum norður-Noregshaf og Barentshaf – en einnig Norður Íshaf að segja má.

Á sama tíma og samskipti NATO og Rússlands hafa versnað vegna Úkrænu frá 2014, hafa hernaðarumsvif Bandaríkjahers komið aftur til sögu á Keflavíkurflugvelli einkum með tímabundinni viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla af gerðinni P-8 Poseidon. Viðvera þeirra hefur vaxið verulega á tímabilinu frá 2014 vegna æfinga og þjálfunar – og vegna eftirlits með Rússum.

Rússnesk hernaðarumsvif hafa þó verið mjög lítil úti Atlantshafi á svæðum í námunda við Ísland. Þetta á bæði við herskip og herflugvélar Rússa. Rússneskum kafbátum hefur reyndar verið fylgt eftir frá Keflavíkurflugvelli en þeir hafa verið fáir – að meðaltali einn kafbátur á ári frá því þeirra varð aftur vart 2014. Enginn rússneskur kafbátur virðist hafa komið út á Atlantshaf og á svæði við Ísland í fyrra. Það ár voru nánast engin rússnesk hernaðarumsvif á svæðum í námunda við Ísland. 

Til að komast í tæri við rússneska norðurflotann þarf því að fara langt norður í Noregshaf og Barentshaf. Þar heldur flotinn sig aðallega – af ýmsum ástæðum – og litlar líkur eru á að það eigi eftir að breytast að ráði. Á síðustu árum hafa P-8 flugvélar einmitt haldið í eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli langt norður í höf – stundum með stuðningi frá eldsneytisþotum frá bandarískum herbækistöðvum á Bretlandi. 

Hlutverk Keflavíkurflugvallar er að styðja við fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum. Í þessu felst helsta hernaðarlegt framlag Íslands til NATO – þó það sé mun veigaminna en í kalda stríðinu. Þá var Ísland “hjörin” sem stefnan varðandi norðurhöf hékk á eins og það var orðað.

Annað og nýtt framlag Íslands í þágu fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum – er að veita tímabundna aðstöðu fyrir langdrægar bandarískar sprengjuflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Önnur Evrópuríki hafa veitt slíka aðstöðu – þar á meðal Noregur. 

Markmiðið er að gera Rússlandsher erfiðara fyrir að vita hvar bandarískar langdrægar sprengjuflugvélar er að finna á hverjum tíma. Þannig er reynt að flækja hernaðaráætlanir Rússa og styrkja fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO – þar á meðal á norðurslóðum. Bandarískar sprengjuflugvélar hafa farið tíðar ferðir yfir norðurhöf á síðustu árum meðal annars í samstarfi við norska flugherinn. Slíkar vélar höfðu í fyrsta sinn viðdvöl á Íslandi í fyrra þegar þrjár þeirra voru á Keflavíkurflugvelli til æfinga í þrjár vikur.

Þriðja spurningin mín af fjórum er hvað felst í fyrrnefndri fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum?

Stefnan lýtur í aðalatriðum að því að sýna Rússlandsstjórn fram á að kæmi til átaka við NATO á meginlandi Evrópu yrði Rússlandsher ekki látið eftir að halda átökunum þar. Þess í stað yrði hann neyddur til að berjast víðar, þar á meðal í norðurhöfum. Þar eru afar mikilvægir rússneskir hagsmunir; – það er að segja rússneski Norðurflotinn, bækistöðvar hans á Kolaskaga og eldflaugakafbátar hans í Barentshafi. Í þeim er stór hluti langdrægra rússneskra kjarnavopna. Varnir þessara kafbáta lúta að grundvallar hernaðarhagsmunum Rússlands og þær eru forgangsverkefni rússneska Norðurflotans.

Síðasta og fjórða spurning mín í dag er um eftirmál innrásar Rússa í Úkrænu. Munu þau birtast í norðurhöfum?

Úkrænustríðinu munu auðvitað fylgja stór og erfið eftirmál. Þau kalla á  trúverðuga stefnu af hálfu NATO ríkjanna og ráðstafanir bæði til að tryggja enn frekar öryggi aðildarríkja við Eystrasalt og í austur Evrópu eins og gert hefur verið eftir innrásina; og einnig til að tryggja sterka stöðu bandalagsins þegar kemur að endurreisn öryggiskerfis í Evrópu. 

Fælingar og hernaðarstefna NATO fær eðli máls samkvæmt aukið vægi í eftirmálum Úkrænustríðsins – þar á meðal í norðurhöfum. Gera má ráð fyrir auknum hernaðarlegum umsvifum bandalagsríkja þar og stærri og tíðari æfingum. Hernaðarleg umsvif af því tagi sem verið hefur undanfarin ár á Keflavíkurflugvelli kunna að aukast. 

En þungamiðja hernaðarlegra viðbragða NATO við innrásinni í Úkrænu verður að líkindum áfram við Eystrasalt og í Austur Evrópu – í ríkjum sem eiga landamæri að Rússlandi. Hernaðarleg umsvif á norðurslóðum hafa ekki aukist af hálfu NATO eftir innrásina í Úkrænu svo neinu nemi líkt og ég benti á og augljóslega ekki verið talin þörf á því vegna innrásarinnar.

Aðalatriði er að áfram gildir sama lykilforsenda og í kalda stríðinu. Forsenda mjög aukinna hernaðarlegra umsvifa á norðurslóðum væri hættutími milli NATO og Rússlands þannig að stefndi í hugsanleg átök þeirra í milli. Þau eru áfram talin afar ólíkleg. Báðir aðilar hafa – eins og ég nefndi – forðast að hrinda af stað slíkri atburðarás.

Ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af sögu sem er löngu lokið – og þó ekki

Fyrirlestur í boði Þjóðminjasafns Íslands í tilefni af ljósmyndasýningunni Straumnes

Ratsjárstöðin á Straumnesfjalli á Hornströndum var reist á sjötta áratug síðustu aldar en lögð niður fljótlega eftir að hún var tekin í notkun. Það var í sparnaðarskyni en einnig var svo að sovéskar herflugvélar létu ekki sjá sig í námunda við Ísland – fyrr en á sjöunda áratugnum skömmu eftir að stöðin á Straumnesfjalli var lögð niður. Eftir það önnuðust aðrar ratsjárstöðvar á landinu loftvarnirnar ásamt sérstökum ratsjárflugvélum.  

Ratsjárstöðin á Straumnesfjalli skipti því ekki máli hernaðarlega. En hún var angi – örítill angi – af langri sögu náins hernaðarlegs samstarfs að segja má milli Íslands og Bandaríkjanna. 

“Hernaðarlegs samstarfs að segja má” – Hvað á ég við með því? Jú, Ísland lagði auðvitað ekki herstyrk til samstarfsins, heldur land; nánar tiltekið aðstöðu á landinu fyrir Bandaríkjaher. En samstarfið var meira en nam þessu fyrirkomulagi. Samstarfið varði í áratugi, mestan hluta síðari heimsstyrjaldar og allt kalda stríðið. Og íslensk stjórnvöld lögðu til ríkan pólitískan stuðning og á þau reyndi oft í því efni vegna innanlandsdeilna um samstarfið. 

Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna var bandalag, sem hvíldi á frjálsum samningum milli ríkjanna, á sameiginlegum hagsmunum þeirra, á sameiginlegum gildum og á því sameiginlega markmiði bæði í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu að lýðræðisríki bæru sigur og einræðisríki ósigur. 

Ég ætla að fara í stuttu máli og mjög stórum dráttum yfir sögu þessa bandalags Íslands og Bandaríkjanna, hvernig henni lauk fyrir rúmlega þremur áratugum og hvernig hún hefur, þó með öðrum formerkjum sé en áður, átt endurkomu á undanförnum átta árum eða svo.

Og þar með kemur að Úkrænu- og því hvernig Bandaríkjaher hefur í vaxandi mæli frá 2014 notað aftur aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og Ísland aftur fengið hernaðarlega þýðingu þó við aðrar aðstæður sé og með mun veigaminni hætti en var í heimsstyrjöldinni og í kalda stríðinu.

Sagan sem ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af stóð í 50 ár – frá 1941 til 1991. Þetta var einstakt tímabil í Íslandssögunni – þegar Ísland hafði viss áhrif á gang heimsmála legu sinnar vegna og bandalagsins við Bandaríkin. 

Helstu áfangar í þessari sögu voru annars vegar koma Bandaríkjahers til Íslands 1941 í kjölfar herverndarsamnings milli landanna og hins vegar varnarsamningur þeirra 1951. Hann leiddi til þess að Bandaríkjaher hafði – eftir nokkurra ára hlé – aftur fasta viðveru á Íslandi með varnarliðinu eins og það var kallað. Því var komið á fót á grundvelli varnarsamningsins og það hafði aðallega aðsetur á Keflavíkurflugvelli – herstöðinni í Keflavík.

Áður hafði NATO verið stofnað – það var 1949 – og Íslendingar gerst stofnaðilar, þótt herlausir væru, meðal annars vegna þess að það var vilji háttsettra manna í Bandaríkjastjórn sem vísuðu til hernaðarlegs mikilvægis landsins. Grænland skipaði einnig slíkan sess í huga þessara aðila. Varnarsamningurinn var tvíhliða en gerður innan vébanda NATO. Keflavíkurherstöðin var bandarísk og hún og hervarnir lands og þjóðar undir stjórn bandarískra hermálayfirvalda – endanlega forseta Bandaríkjanna.

Saga bandalags Íslands og Bandaríkjanna – 1941-1991 eins og áður sagði -átti reyndar rætur sem rekja má fyrir 1941 -nánar tiltekið til júní 1940 með falli Frakklands undan sókn þýska hersins í síðari heimsstyrjöldinni.

Fall Frakklands 1940? Hvað með það? Jú, óvænt og dramatískt fall Frakklands sumarið 1940 boðaði mikla hættu í augum stjórvalda í Washington. Hún batt enda á einangrunarstefnu Bandaríkjanna. Það var rótttæk stefnubreyting sem birtist sumarið 1941 – meðal annars í því að Bandaríkjaher kom til Íslands í kjölfar herverndarsamnings landsins við Bandaríkin.

Stefnubreytingin réðist í grunninn af því markmiði þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna – og þetta er lykilatriði – að koma í veg fyrir að stórveldi næði ráðandi stöðu á meginlandi Evrópu. Það mundi fyrr en seinna leiða til þess að slíkt drottnandi stórveldi mundi sækja frá meginlandinu út á Norður Atlantshaf, í átt að vesturhveli Jarðar og loks Bandaríkjunum sjálfum. Þetta voru stóru drættirnir í þeirri geópólitík og sögu sem meðal annars gat af sér bandalag Íslands og Bandaríkjanna.

Í síðari heimsstyrjöld leit þetta svona út í örstuttu máli: Félli Bretland í kjölfar falls Frakklands 1940 eða eftir að Þjóðverjar hefðu sigur í innrásinni í Sovétríkin 1941 – líkt og óttast var í Washington – þá hefði styrjöldin í kjölfarið náð á einhverjum punkti af fullum þunga út á Atlantshaf í átt að vesturhveli og Bandaríkjunum sjálfum. Atlantshaf hefði orðið vettvangur stórfelldra hernaðarátaka milli Bandaríkjanna og Þýskalands. Ísland hefði orðið vígvöllur í þeim hildarleik.  

Íslendingar og Bandaríkjamenn áttu þannig augljósa sameiginlega þjóðaröyggishagsmuni sem réðust af gangi mála og valdastöðu milli stórvelda á meginlandi Evrópu. Í kalda stríðinu hefði svipuð staða getað komið upp á endanum ef Sovétríkin hefðu náð að drottna yfir meginlandinu.

Hernaðaraðstaða á Íslandi hafði verulega þýðingu fyrir gang mála í afdrifaríkri atburðarás. Í síðari heimsstyrjöld gegndi hernaðaraðstaða á landinu um tíma mikilvægu hlutverki fyrir Bandaríkjamenn og Breta í langri og harðvítugri orrustu; – orrustunni um Atlantshaf. Einnig fóru þúsundir herflugvéla frá Bandaríkjunum um Ísland til Evrópu.

Í kalda stríðinu hafði Keflavíkurherstöðin í aðalatriðum þýðingu framan af fyrir hernaðaráætlanir Bandaríkjanna með langdrægum sprengjuflugvélum gegn Sovétríkjunum, síðan fyrir varnir Bandaríkjanna -bæði loftvarnir og varnir gegn kafbátum sem á sjöunda áratugnum urðu að fara um hafsvæði við Ísland og suður Atlantshaf til að ná með kjarnavopnaflaugum til skotmarka í Bandaríkjunum. Þessi þörf Sovéthersins hvarf eftir 1970 með langdrægari flaugum sem gerðu kleift að halda kafbátum þeirra úti langt norður í höfum – aðallega í Barentshafi. Island hafði einnig auðvitað almenna þýðingu fyrir yfirráð Bandaríkjanna og annarra sjóvelda NATO á Norður Atlantshafi – leiðinni milli Norður Ameríku og Evrópu sem hafði haft grundvallarþýðingu í síðari heimsstyrjöld.

Á níunda áratugnum – síðasta áratug kalda stríðsins – varð Ísland burðarás í áætlun NATO, en einkum Bandaríkjahers, um sókn upp Noregshaf gegn sovéska flotanum og bækistöðvum hans á Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Þessi áætlun var lykilþáttur í fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum gegn Sovétríkjunum.

Þetta var á valdatíma stjórnar Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og stefnan í norðurhöfum – í hverri Ísland var burðarás eins og ég nefndi – var þáttur í miklu stærri fyrirætlan en bara að halda aftur af Sovétríkjunum. Ætlunin var að sigra Sovétríkin í kalda stríðinu – án átaka – en meðal annars og ekki síst með stórfelldri uppbyggingu Bandaríkjahers og með með ákveðnari og trúverðugri fælingar og hernaðarstefnu en áður. Tilgangurinn var að sýna Sovétríkjunum, sem þá voru á fallandi fæti efnahagslega, að þau hefðu ekki fjárhagslega eða tæknilega burði til að keppa við Bandaríkin á hernaðarsviðinu; mundu veikjast æ meira efnhagslega og loks kikna undan samkeppninni og tapa þannig kalda stríðinu. – Og það gekk eftir.

Þess er vitanlega ekki kostur hér að fara ítarlega í þennan eða aðra merka kafla í sögu bandalags Íslands og Bandaríkjanna, en áhugasamir geta kynnt sér hana nánar meðal annars á vefsíðu minni um alþjóða og utanríkismál. Fyrsta greinin á henni  birtist 2018 og heitir Hernaðarleg staða Íslans í sögu og samtíma. Henni fylgir ítarlega skrá yfir útgefnar heimildir um þessa sögu alla – þar á meðal  eru rit og greinar íslenskra höfunda. 

Í fyrrnefndri grein minni 2018 um hernaðarlega stöðu Íslands í sögu og samtíma kemur að kafla um horfnar forsendur eins og þar segir. Hvað er átt við með horfnum forsendum?

Jú, þar var komið sögu 1989-91 – að kommúnisminn hrundi í Evrópu og Sovétríkin féllu. Þar með var ógnin við NATO ríkin horfin; strategíska forsendan – lykilatriðið – sem hnýtti þjóðaröryggi Íslands við þjóðaröryggi Bandaríkjanna. — Það er að segja hættan á að stórveldi næði að drottna yfir meginlandi Evrópu og sækja út á Atlantshaf og að vesturhveli eins og ég nefndi áðan.

Sovétríkin hurfu en jafnframt skipti miklu fyrir öryggi Íslands og samstarfið við Bandaríkin eftir kalda stríðið – og hér er annað lykilatriði – að Rússland er ekki og verður ekki arftaki Sovétríkjanna. Hefði með öðrum orðum ekki burði til að ná drottnandi stöðu á meginlandinu og sækja út á Atlantshaf og að vesturhveli – jafnvel þótt rússneska ráðamenn langaði til þess, sem ekkert bendir reyndar til.

Eftir að hættan frá Sovétríkjunum hvarf á meginlandi Evrópu og augljóslega enginn arftaki þeirra í sjónmáli fækkuðu Bandaríkin stórlega í liði sínu í Evrópu. Forsendur fyrir föstu bandarísku herliði á Íslandi voru horfnar – reyndar var eftir þetta ekki bandarískur áhugi á neinu herliði hér umfram tímabundna viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla og áhafna þeirra. Sá áhugi hvarf einnig nokkrum árum eftir kalda stríðið enda bólaði ekki á rússneska flotanum eða rússneskum herflugvélum á Norður Atlantshafi.

Strax eftir kalda stríðið fækkaði Bandaríkjaher í mannskap og búnaði í Keflavíkurherstöðinni og 1993 komu fram tillögur um enn frekari fækkun, sem í reynd hefði leitt til þess að herstöðin hefði fljótlega lagst af. Henni var þó ekki lokað fyrr en 2006. Sú staðreynd að bandarískt varnarlið var áfram á landinu svo lengi eftir kalda stríðið og gegn vilja Bandaríkjahers er önnur saga sem ekki er kostur að fjalla um hér – en sú saga hafði ekki með strategíu eða geópólitík að gera. Ég bendi aftur á greinina á vefsíðu minni um hernaðarlega stöðu Íslands í sögu og samtíma þar sem er nokkuð ítarleg umfjöllun um af hverju varnarliðið var hér áfram þótt Bandaríkjaher telda það óþarfa. Það vill svo til að ég var þáttakandi frá fyrsta til síðasta dags í þeirri sögu.

Góðir áheyrendur, í heiti fyrirlestursins segir að ratsjárstöðin á Straumnesfjalli hafi verið angi af sögu sem sé löngu lokið og þó ekki. 

Henni lauk með falli Sovétríkjanna, eins og ég hef vikið að – “og þó ekki”. Hvað þýðir það?

Jú, versnandi samskipti NATO og Rússlands í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga í Rússland 2014 og hófu íhlutun í átök í austurhluta Úkrænu hafa leitt til þess að Ísland og Bandaríkin hafa á þessum tíma aftur átt hernaðarlega samvinnu á landinu. Og nú hefur innrás Rússa í Úkrænu komið til sögu. 

Versnandi samskipti vegna Úkrænu hafa meðal annars stuðlað að því eftir 2014 að Bandaríkjaher hefur veitt fé til að viðhalda og stækka flughlöð á Keflavíkurflugvelli, og, sem meiru skiptir, hefur aftur nýtt aðstöðu á vellinum fyir tímabundna viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla. Miklu af viðverunni hefur verið varið til þjálfunar og æfingar en einnig hefur verið flogið frá vellinum meðal annars langt norður í höf til að fylgjast með rússneska norðuflotanum og þá gjarnan í samvinnu við eldsneytisflutningaflugvélar frá bandarískri herstöð á Bretlandi. Þetta tengist fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi almennt, en þeirri stefnu bandalagsins í norðurhöfum sérstaklega. 

Með “norðurhöfum” á ég aðallega við norður Noregshaf og Barentshaf – hafsvæðin úti fyrir norður Noregi og Kolaskaga í norðvestur Rússlandi.

Starfsemi Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli í þágu fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum er meginframlag Íslands í hernaðarlegu tilliti. Um það lykilatriði er ekki fjallað í íslenskri umræðu um öryggis og varnarmál.

Það litla sem dúkkar stundum upp í umræðunni hefur einkum snúið að smávægilegum framkvæmdum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, einnig að rússneskum hernaðarumsvifum í námunda við landið þótt þau umsvif hafi verið mjög lítil og virðist fara enn minnkandi. Voru nánast engin á árinu 2021. Loks eru reglulega fréttir af loftrýmisgæslu NATO ríkja á Íslandi en hún er stopul og hefur því takmarkaða hernaðarlega þýðingu og enga að heita má fyrir öryggi Íslands nema hvað varðar loftrýmisgæslu á vegum Bandaríkjahers. Hún er reyndar stopul einnig en Bandaríkin eru þó skuldbundin til að sinna vörnum Íslands ef á þyrfti að halda. Það eru hin NATO ríkin ekki.

Og nú  síðast hefur öryggi Íslands komið til umræðu vegna innrásar Rússa í Úkrænu, þó innrásin hafi ekki áhrif á hernaðarlegt öryggi Íslands; enda hefur hún ekki leitt til hernarðarlegra viðbragða á Íslandi eða á Norður Atlantshafi, hvorki af hálfu Bandaríkjanna né annarra NATO ríkja. Þá vildi svo til að nokkurra vikna loftrýmisgæslu portúgalska flughersins á Íslandi var hætt á dögunum. Það var gert samkvæmt áætlun, sem innrásin í Úkrænu hafði greinilega engin áhrif á, enda ekki ástæða til auðvitað.

Þá hefur komið upp að mikilvægi ESB fyrir Ísland hafi aukist vegna Úkrænustríðsins. En auk þess að Úkrænustríðið felur ekki í sér hernaðarógn við land og þjóð þá hefur ESB ekki með hervarnir að gera og ekki líkur á að svo verði um fyrirsjánlega framtíð – og alls ekki þannig að máli skipti fyrir Ísland. Bandaríkin eru eina Atlantshafsveldið, eina flotaveldið sem máli skiptir í okkar heimshluta, og áfram máttarstólpinn þegar kemur að fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum. Ekkert ESB ríki er flotaveldi  á við Bandaríkin – langt í frá að svo sé. 

Góðir áheyrendur,

Sem fyrr – og hér er enn eitt lykilatriði – eru einungis Bandaríkin – sem svo vill til að eru mesta herveldi heims – skuldbundin til að annast hervarnir Íslands. Engin ástæða er til að ætla annað en að þær verði nægilega tryggar ef á þarf að halda, en auðvitað og eðlilega er það hlutverk íslenskra stjórnvalda á hverjum tíma að fylgjast með því í samráði við bandarísk stjórnvöld að svo sé. Ekki er ástæða til að ætla að því sé ekki sinnt.

Á hættutíma í aðdraganda hugsanlegrar styrjaldar milli NATO og Rússlands mundi Bandaríkjaher tryggja loftvarnir landsins og gera aðrar ráðstafanir í samræmi við áætlanir og starfsferla. Svo vill til að á næstu dögum hefst hér á landi á vegum Bandríkjahers æfingin Norður Víkingur samkvæmt samningum og æfingaáætlun, sem, meðal annarra orða og til að fyrirbyggja misskilning, er miklu eldri en innrásin í Úkrænu. Mikilvægur hluti æfingarinnar verður varnir hernaðarlega mikilvægra innviða á landinu.

En víkjum aftur að þátttöku Íslands í fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum með þvi að láta Bandaríkjaher – og eftir atvikum öðrum NATO ríkjum en aðallega Bandaríkjaher – í té aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. 

Um hvað snúast þessi lykilatriði, sem lúta að helsta framlagi Íslands til NATO en rata ekki í íslenska umræðu um öryggis og varnarmál? Hver er fælingar og hernaðarstefna Bandaríkjanna og NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum? Hvert er framlag Íslands til hennar?

Fælingar og hernaðarstefnan lýtur að því að sýna Rússlandsstjórn fyrirfram að kæmi til átaka við NATO á meginlandinu yrði Rússum ekki látið eftir að halda átökunum þar – til dæmis við Eystrasalt. Þess í stað yrðu þeir neyddir til að berjast víðar, þar á meðal í norðri til að verja sjálft Rússland, rússneska flotann þar, bækistöðvar hans á Kolaskaga og eldflaugakafbáta hans í Barentshafi; en í þeim er stór hluti rússneskra kjarnavopna. Einnig er Norðurflotinn að eignast langdrægar stýriflaugar sem ná mundu í stríði frá heimahöfum hans til skotmarka á meginlandi Evrópu.

Á hættutíma mundi NATO – þó einkum Bandaríkjaher – undirbúa varnir norður Noregs og hernaðaraðgerðir gegn Norðurflotanum og norðvestur Rússlandi. Framlag Íslands að þessu leyti yrði aðallega aðstaða á Keflavíkurflugvelli fyrir annars vegar kafbátaleitar og eftirlitsflugvélar sem mundu taka þátt í hernaðaraðgerðum langt fyrir norðan landið – norðanverðu Noregshafi og Barentshafi; hins vegar yrði framlag Íslands aðstaða fyrir eldsneytisflugvélar. 

Hernaðarleg þungamiðja í okkar heimshluta er mun norðar en í kalda stríðinu og því fjær Íslandi. Fyrir því eru þrjár meginástæður. Í fyrsta lagi er rússneski norðurflotinn miklu minni en sovéski forverinn og sá rússneski er að mjög litlu leyti úthafsfloti. Hann heldur sig aðallega á hafsvæðum nálægt Rússlandi. Í öðru lagi er forgangsverkefni Norðurflotans að verja Barentshaf og norðvestur Rússland. Í þriðja lagi hefur hann minni þörf en áður fyrir að sækja út á Norður-Atlantshaf vegna þess að hann ræður yfir langdrægari vopnum en áður gegn aðvífandi ógn og gegn skotmörkum á meginlandi Evrópu sem fyrr sagði. 

Sakir þess að hernaðarlega þungamiðjan hefur færst miklu norðar en hún var áður – og reyndar austar einnig – er vel hugsanlegt að flugbækistöðvar í norður Noregi og jafnvel Skotlandi mundu hafa stærra hlutverki að gegna en Keflavíkurflugvöllur og þá fyrir jafnt bandarískar, norskar og breskar kafbátaleitarflugvélar.

Um framlag Íslands til fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum  – helsta framlag okkar – er eins og ég nefndi áðan ekki rætt á Íslandi. Sést ekki í opinberum skýrslum eða að öðru leyti opinberlega af hálfu íslenskra stjórnvalda. 

Að þannig hátti með umræðuna skiptir máli almennt séð auðvitað, en einnig sakir þess að stefna NATO í norðurhöfum fær ef að líkum lætur aukið vægi í kjölfar Úkrænustríðsins.

Annað framlag Íslands til fælingar og hernaðarstefnunnar kemur til greina og Bandaríkjaher hefur sýnt því áhuga bæði í orði og á borði en það ratar heldur ekki í íslenska umræðu. Það framlag mundi lúta að tímabundinni aðstöðu fyrir langdrægar bandarískar sprengjuflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Önnur Evrópuríki veita slíka aðstöðu. Markmiðið með því að halda langdrægum sprengjuflugvélum úti tímabundið utan Bandaríkjanna er að gera fælingar og hernaðarstefnu þeirra og NATO öflugri og trúverðugri en ella. Íslensk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um þetta mál – amk ekki opinberlega – þar á meðal ekki eftir að þrjár langdrægar sprengjuflugvélar höfðu með tilheyrandi mannskap viðdvöl á Keflavíkurflugvelli til æfinga í þrjár vikur í ágúst og september í fyrra.

Dvöl sprengjuflugvélanna hér, starfsemi þeirra frá Keflavíkurflugvelli, samhengi við nýja stefnu flughersins og ummæli talsmanna hersins meðan flugvélarnar voru á Íslandi – þetta voru samanlagt stærstu tíðindi í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna frá því í kalda stríðinu. Engin umræða.

Spurningar sem vakna: Hvernig var koma flugvélanna hingað ákveðin? Verður framhald á þessu?

Góðir áheyrendur,

Fælingar og hernaðarstefna NATO yrði auðvitað ekki gangsett og virkjuð í norðurhöfum, frekar en annarssstaðar, nema á hættutíma, nánar tiltekið í aðdraganda hugsanlegra átaka milli Rússlands og NATO.  Þriðju heimsstyrjaldar. Markmiðið með því að virkja stefnuna og efla í kjölfarið viðbúnað og herstyrk i norðurhöfum væri að reyna að gera fælinguna trúverðuga koma í veg fyrir að hættutíminn endaði í stríði.

Kæmi til þess engu að síður yrði líklegasta hernaðarógnin gegn Íslandi árás á Keflavíkurflugvöll. Gera verður ráð fyrir að reynt yrði að setja hann úr leik og og þá að öllum líkindum með stýriflaugum sem sendar yrðu af stað langt í norðri – frá rússneskum flugvélum, skipum eða kafbátum í 3000-5000 kílómetra fjarlægð frá Íslandi. Stýriflaugar fljúga lágt á 8-900 kílómetra hraða. Gegn þeim eru að heita má engar varnir mögulegar nema tiltölulega nálægt skotmörkum. Jafnvel þar eru varnir torveldar.

Og þá er ég kominn aftur að ratsjárstöðvum sem ég skildi við í byrjun þegar ég nefndi stöðina á Straumnesfjalli. Það er ekki víst – jafnvel ólíklegt – að ratsjárstöðvarnar sem eru á hverju landshorni dygðu til þess yfir höfuð að finna stýriflaugar sem nálguðust landið á 800-900 km hraða og væru komnar niður í jafnvel hundrað metra hæð; hvað þá finna flaugarnar í tæka tíð svo orrustuþotur eða loftvarnaskeyti á landi næðu að granda þeim. Tiil að eiga möguleika í þessum efnum þyrfti ratsjárþotur og jafnvel einnig stuðning frá gervitunglum. 

Ratsjárstöðvarnar á landshornunum okkar fjórum kunna því að hafa takmarkað gildi gegn stýriflaugum. Þá er næsta víst að þær fáu langdrægu sprengjuflugvélar sem Rússar eiga mundu ekki – og þyrftu ekki vegna langdrægu stýriflauganna – að koma svo nálægt landinu að ratsjárstöðvarnar skiptu máli. Til hvers að fara alla þá hættulegu leið ef senda má vopnið af stað í þúsunda kílómetra fjarlægð, sem svo kæmi að skotmarki undir ratsjárgeislum, sem flugvélin ætti erfitt með?

Yrðu sendar skemmdarverkasveitir gegn íslenskum innviðum? Ég hef ekki upplýsingar og forsendur til að meta möguleika Rússlandshers til að koma slíkum sveitum óséðum til Íslands með búnaði til skemmdarverka. Er raunhæft að gera ráð fyrir því? Mér finnst það hæpið og nokkuð ljóst að stýriflaugar yrðu áreiðanlegri og skilvirkari gegn flugvellinum, skotmarkinu sem mestu máli skipti.

Mætti lama varnirnar með nethernaði? Stundum er mikið gert úr getu Rússa og fyrirætlan í rafeinda og nethernaði. Auðvitað þarf netöryggi að vera í lagi hér á landi sem annarsstaðar og það er vissulega áskorun almennt, sem kallar á árvekni og ráðstafanir.  En í Úkrænu hafa Rússar ekki reynst neinir nethermenn yfir höfuð. Það hafa svo gott sem engar fréttir borist af nethernaði af þeirra hálfu þar. Þar virkar netið ágætlega eftir meira en mánaðarlangt stríð. Það sést meðal annars af ræðum Úkrænuforseta á fjarfundum á undanförnum vikum með þingum margra ríkja. Forsetinn er líka virkur á twitter.

Góðir áheyrendur,

Í byrjun fyrirlestursins nefndi ég þau sameiginlegu gildi sem bandalag Íslands og Bandaríkjanna byggði á. Þess er ekki kostur að fjalla nánar hér um þá undirstöðu eða þá frjálsu samninga sem bandalagið hvíldi á. Ennfremur mætti halda til haga þeirri staðreynd að Ísland og Bandaríkin voru í sigurliðinu í þessari sögu – bæði í heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu. Ísland lagði af mörkum fyrir málstað sem var réttlátur og tók í heimsstyrjöldinni þátt – að segja má – í réttlátu stríði. 

Fimmtíu ára sögu bandalags Íslands og Bandaríkjanna lauk vegna grundvallarbreytinga sem urðu á valdajafnvæginu á meginlandi Evrópu með falli Sovétríkjanna. Hætta á styrjöld um yfirráð á Atlantshafi sem leiddi til átaka um Ísland – hún hvarf.

Átökin í Úkrænu á undanförnum átta árum minna hins vegar á dökkar hliðar Evrópusögunnar sem og á það að Íslendingar og Bandaríkjamenn eiga áfram hagsmuni – augljósa hagsmuni – í friði og stöðugleika á meginlandi Evrópu; þótt hernaðarlegt öryggi þeirra sé ekki í húfi með þeim hætti sem var. 

Ég benti á áðan að umræða hér á landi um öryggismál væri lítil og heldur þröng, meðal annars af því að söguleg, geópólitísk og strategísk lykilatriði rata ekki í hana. Þetta á við almennt en einnig við framlag stjórnvalda til umræðunnar.

Þetta má gjarnan breytast af því Ísland er aðili að NATO og þátttakandi í fælingar og hernaðarstefnu þess og framundan eru flóknir og erfiðir tímar í evrópskum öryggismálum. Þess er hins vegar ekki þörf að öryggi Íslands verði að stórmáli vegna Úkrænustríðsins. Höfum aðalaðtriði í huga.

Á Íslandi er eitt auðugasta samfélag heimsins, samfélag sem býr ekki bara við mikla efnalega velferð, heldur stöðugleika og öryggi. Við erum langt frá Úkrænustríðinu og rússneska landhernum, í fjarlægð sem talin er í þúsundum kílómetra. Við eigum enga volduga, ógvekjandi nágranna. 

Við þessa ofgnótt í öryggismálum þjóðarinnar bætist að við höfum hervarnasamning við mesta herveldi Jarðar. Okkur er engin vorkunn að tryggja áfram sjálf-  í krafti okkar lögregluliðs og í samstarfi við önnur ríki og við alþjóðastofnanir- öryggi okkar samfélags eins og við á gagnvart hugsanlegum netógnum, alþjóðlegri glæpastarfsemi eða hryjuverkaöflum.

En við höfum hagsmuni og skyldur á meginlandi Evrópu. Þar eigum við bandamenn, samherja, vini. Og við höfum sömu hagsmuni og þeir af stöðugleika og friði, reyndar bæði á meginlandi Evrópu og utan þess.

Hvernig sem fer í Úkrænustríðinu, og hvort Rússland kemur veikar eða sterkar út hernaðarlega, pólitískt og efnahagslega en það var áður – þá leiðir stríðið vitanlega til stórra og erfiðra eftirmála. Þau kalla á  trúverðuga og burðuga stefnu af hálfu NATO ríkjanna, krefjast einingar meðal þeirra – og útgjalda. Kröfur verða auðvitað gerðar til Íslands í þessum efnum eins og til annarra NATO ríkja. 

Eftir stríðið þarf að endurreisa borgir, bæi og þorp í Úkrænu en einnig þarf að endurreisa öryggiskerfi í Evrópu. Það stefnir í að NATO ríkin muni meðal annars efla varnir og leggja enn ríkari áherslu en áður á trúverðuga fælingar og hernaðarstefnu. Þar á meðal í norðurhöfum.

Stuðningur frá Íslandi við fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum er helsta hernaðarframlag okkar til bandalagsins. Sá stuðningur fær að óbreyttu og eðli máls samkvæmt meira vægi en áður í kjölfar Úkrænustríðsins. Hernaðarumsvif af því tagi sem verið hefur undanfarin ár á Keflavíkurflugvelli kunna að aukast. Gera má ráð fyrir því.

Áfram verður ólíklegt að aftur komi bandarískt “varnarlið” til landsins. Forsenda þess birtist trauðla aftur fyrr en á hugsanlegum hættutíma sem kæmi upp í aðdraganda hugsanlegs stríðs milli NATO og Rússlands. 

Það væri hin svonefnda þriðja heimsstyrjöld, hvorki meira né minna. Hún er afar ólíkleg sakir þess að hún mundi að öllum líkindum leiða til þess á einhverju stigi að kjarnorkuvopn yrðu notuð. Einstakur fælingarmáttur þeirra hefur komið skýrt í ljós í Úkrænustriðinu. Þau hafa að svo komnu haft þau áhrif að staðbinda átökin við Úkrænu, en hafa jafnframt bundið hendur NATO ríkjanna með því að koma í veg fyrir beinan hernaðarlegan stuðning af þeirra hálfu við Úkrænu.

Að lokum þetta: Allar líkur benda til að Bandaríkin leggi á næstu árum og áratugum megináherslu í öryggis og varnarmálum á Asíu en ekki á Evrópu. Bandaríkjaher muni smám saman færa sig að mestu frá Evrópu og Evrópuríki NATO koma í hans stað og taka við vörnum bandalagsins að miklu leyti. Of snemmt er auðvitað að hafa uppi getgátur um hvort og þá hvernig Ísland kæmi að þessu. Þó er víst að Evrópuríki munu ekki um langa hríð -og jafnvel aldrei – taka við hernaðarlegu hlutverki Bandaríkjanna á Norður Atlantshafi og í norðurhöfum. 

Hér er kanske efni í annan fyrirlestur um sögu, geópólitík og strategíu og öryggismál Íslands, en ef til vill ekki í Þjóðminjasafni Íslands. 

Ég þakka safninu aftur fyrir boð um að halda þennan fyrirlestur – og ykkur áheyrendur góðir fyrir áhugann og áheyrnina.

Viðbrögð við greininni “Íslensk öryggismál ekki á neinum tímamótum vegna stríðsins í Úkrænu”

Skrif mín sem birtust hér 7. mars, um Úkrænustríðið og íslensk öryggismál hafa vakið viðbrögð 

…og það er vel. Viðbrögðin hafa aðallega birst á vefsíðu Björns Bjarnasonar (bjorn.is) 8. mars og facebook síðu Baldurs Þórhallssonar undanfarna daga. Í aðalatriðum virðast þeir telja að í kjölfar Úkrænustríðsins sé nauðsyn á varanlegri viðveru herafla á Íslandi í fælingar og varnarskyni. 

Í þessum skrifum, sem birtust 7. mars, bendi ég í grunninn á að Úkrænustriðið – og þá eins og það fer fram en ekki ef svo illa færi að það breiddist út og yrði að stórveldastyrjöld – boði ekki tímamót í íslenskum öryggismálum sem kalli á fasta viðveru. Engin hernaðarleg ógn steðji að Íslandi fyrr en í ólíklegu stórveldastríði – þriðju heimsstyrjöld eins og kallað er – og þá mundi ógnin beinast að Keflavíkurflugvelli, sem að líkindum yrði fyrir árás rússneskra stýriflauga sem skotið yrði af stað í 3000-5000 kílómetra fjarlægð frá landinu.

Líkur á að Rússar leggðu í stórveldastyrjöld í árásarleiðangur gegn Íslandi langt úti á Atlantshafi – þar sem rússnesk hernaðarumsvif hafa verið mjög lítil undanfarin ár og nánast engin 2021 – væru hverfandi litlar. Eini staðurinn á Íslandi sem skipta mundi Rússa máli í stríði við NATO væri Keflavíkurflugvöllur og þeir mundu reyna að setja hann úr leik með áðurnefndum stýrifaugum. Í aðdraganda slíkrar styrjaldar mundu Bandaríkin gera ráðstafanir til að verja Ísland gegn stýriflaugaógn með orrustuþotum og ratsjárþotum. 

Í umræddum skrifum er ég eingöngu að tala um hernaðarlega ógn, og þessa einu ógn, sbr. fyrirsögnina “Ekki til staðar hernaðarleg ógn við Ísland …með einni undantekningu”. Undantekningin lýtur að Keflavíkurflugvelli eins og fram hefur komið.

Aðrar ógnir, sem Baldur Þórhallsson nefnir, svo sem hryðjuverkaógn, eru annars eðlis en hernaðarógn af því tagi sem ég miða við – hefðbundin hernaðarleg ógn – og herlið á Íslandi hefði ekki áhrif á hryðjuverkaógn, hvað þá á öryggi sæstrengja eða á netöryggi. Ríki sem eiga volduga heri verða þrátt fyrir það fyrir hryðjuverkaárásum og netárásum. Þær ógnir heyra í aðalatriðum undir aðra aðila en heri.

Ég vil ekki orðlengja en bendi á vefsíðuna og greinar á henni sem snerta öll þessi atriði.

Björn Bjarnason bendir á að ég hafi á sínum tíma farið fyrir viðræðum við Bandaríkjamenn til að fylgja fram þeirri stefnu ríkisstjórnar Íslands að ekki yrði bundinn endir á fasta viðveru bandaríska varnarliðsins í herstöðinni í Keflavík – og gefur mér það kompliment að ég hafi sýnt “rökfestu og harðfylgi” í þeim. Björn spyr hvort nú sé minni þörf á varanlegri viðveru herafla á Íslandi en fyrir 20 árum.

Viðræðurnar um varnarliðiðið snerust í grunninn um þá kröfu af Íslands hálfu að lágmarksloftvarnir yrðu á landinu. Viðræðurnar byggðu á því að engin hernaðarógn stæði að Íslandi frá tilgreindum aðila. Krafa íslenskra stjórnvalda laut enda ekki að því heldur að á Íslandi ættu að vera lágmarksloftvarnir gegn óþekktum ógnum, 4-6 orrustuþotur. Þetta var eina krafan um fasta viðveru og við bentum henni til stuðnings á að önnur NATO ríki hefðu svipaða stefnu enda ekki lagt niður loftvarnir sínar þrátt fyrir fall Sovétríkjanna og þótt Rússland væri langt í frá hernaðarlegur arftaki þeirra. 

Aðstæður eru auðvitað allt aðrar nú nema að því mikilvæga leyti að Rússland er sem fyrr ekki arftaki Sovétríkjanna á hernaðarsviðinu og alls ekki úti á Norður Atlantshafi. En Rússar eiga ný vopn sem bæta fyrir þann veikleika meðal annarra. Það eru áðurnefndar langdrægar stýriflaugar sem gætu náð til Íslands frá nærsvæðum Rússlands og jafnvel heimahöfum þess. 

Fast herlið á Íslandi mundi engu breyta um þessa hernaðarlegu ógn sem steðja mundi að Íslandi í stórveldastyrjöld. Ráðstafanir til að reyna að fást við hana yrðu gerðar sem fyrr sagði af hálfu Bandaríkjahers í aðdraganda slíkra átaka. Ekki er ástæða til að ætla annað.

Ég hvet sem fyrr til umræðu um öryggismál Íslands – og hef reynt að leggja til hennar undanfarin ár með vefsíðu minni og facebook hópi. 

En ég er áfram á þeirri skoðun að stríðið sem nú geisar í Úkrænu gefi ekki tilefni til þess að endurskoða íslensk öryggismál í hernaðarlegu tilliti og að hér þurfi fast herlið þess vegna. 

En hvað segja ábyrgðarmenn varnarsamningsins? Hvert er þeirra hættumat fyrir Ísland?

Telja bandarísk hermálayfirvöld að þörf sé á varanlegri viðveru herafla á Íslandi og þá hverskonar herafla og til hvers? Fróðlegt væri að vita.

Hér er hlekkur á viðtal við mig í Speglinum á Rás 1 hinn 7. mars: 

https://www.ruv.is/frett/2022/03/08/ekki-thorf-a-her-med-fasta-setu-a-islandi

Íslensk öryggismál ekki á neinum tímamótum vegna stríðsins í Úkrænu

Lítil sem engin hernaðarleg umsvif á Keflavíkurflugvelli eftir að Úkrænustríðið hófst 

Að svo komnu hefur lítið sem ekkert herflug átt sér stað um Keflavíkurflugvöll frá upphafi Úkrænustríðsins. Auðvelt er að fylgjast í aðalatriðum með hernaðarlegum umsvifum á flugvellinum eins og ítrekað og nákvæmlega hefur verið útskýrt og upplýst á vefsíðunni. Þá er sem fyrr byggt meðal annars á aðgengilegum upplýsingum á netinu um ferðir herflugvéla í heiminum.

Það kemur ekki á óvart að lítil sem engin umsvif hafi verið á Keflavíkurflugvelli vegna styrjaldarinnar í Úkrænu. Ástæða þess er að engir stórfelldir herflutningar eru hafnir hennar vegna frá Bandaríkjunum til Evrópu og virðast ekki í bígerð enda ætla Bandaríkin ekki að hafa hernaðarleg afskipti af stríðinu. Enn síður eru Bandaríkin og NATO að undirbúa hernaðaraðgerðir í norðurhöfum gegn Rússlandi en flugvélar frá Keflavíkurflugvelli mundu styðja við slíkar aðgerðir. Þó ekki í þeim mæli sem hefði orðið ef kalda stríðið hefði breyst í heitt stríð.

Eftir að Úkrænustríðið hófst hefur þunginn í starfsemi bandarískra kafbátaleitar- og eftirlitsflugvéla af því tagi sem hafa haft tímabundna viðveru á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár verið skiljanlega annarsstaðar en í námunda við Ísland. Næst Íslandi hefur slíkra bandarískra flugvéla orðið vart að undanörnu yfir Norðursjó en þær hafa ekki komið þangað frá Keflavíkurflugvelli heldur frá bækistöð breska flughersins í Lossiemouth í Skotlandi. Sú breyting varð á að kvöldi 6. mars að þá hélt bandarísk P-8 kafbátaleitar og eftirlitsflugvél frá Keflavíkurflugvelli í fyrsta sinn á þessar slóðir eftir að stríðið hófst. Hver tilgangurinn er með flugi yfir Norðursjó er ekki vitað en margt kemur til geina, þar á meðal æfingar og þjálfun.

Umsvif á Keflavíkurflugvelli munu væntanlega aukast á næstunni vegna svonefndrar Cold Response heræfingar í Noregi sem nú er í undirbúningi en hefst um miðjan mars. Þá á að æfa varnir Noregs gegn rússneska hernum og er megináherslan sem fyrr á öryggi norður Noregs. Í byrjun síðustu viku áðu á Keflavíkurflugvelli nokkrar orrustuþotur bandaríska landgönguliðsins af Harrier gerð, sem voru á leið til Noregs til þátttöku í æfingunni.

Hins vegar er það svo að stór hluti landherssveita og landgönguliðssveita Norðurflotans rússneska var fluttur fyrir innrásina í Úkrænu frá norðvestur Rússlandi til landamæranna við Úkrænu og til Svartahafs. Það segir sögu um forgangsröðun Rússa að þessu leyti á norðurslóðum samanborið við aðra staði, og jafnframt að ekki hafi verið uppi væntingar í Rússlandsstjórn um að átökin í Úkrænu breiddust út. 

Ekki til staðar hernaðarleg ógn við Ísland …með einni undantekningu

Vegna Úrænustríðsins hafa dúkkað upp skoðanir um að þess vegna þurfi að hyggja að nýju að hernaðarlegu öryggi Íslands. Umræða um öryggismál er af hinu góða en þarf að byggja á réttum forsendum. Þá kann hún að valda fólki óþörfu áhyggjum með tali um ógn við Ísland í tengslum við innrásina í Úrkænu og harmleikinn þar.

Ísland er augljóslega ekki nágrannaland Rússlands og íslensk öryggismál eru ekki á neinum tímamótum vegna Úkrænustríðsins. Bandaríkjaher er ekki þess vegna eða af öðrum ástæðum á leið til að hafa fast aðsetur á Keflavíkurflugvelli. 

Enda steðjar engin hernaðarleg ógn að Íslandi.

Nema að einu leyti. 

Það yrði í þriðju heimsstyrjöldinni.

Hún er hins vegar og sem betur fer ekki í uppsiglingu vegna Úkrænustríðsins enda standa Úkrænumenn einir hernaðarlega gegn Rússum, eins og kunnugt er, og gera áfram af því Bandaríkin og NATO ætla ekki að verja Úkrænu. Það er skiljanlegt í ljósi áhættunnar sem því fylgdi. 

Í ólíklegri þriðju heimsstyrjöld mætti hins vegar gera ráð fyrir að Keflavíkurflugvöllur yrði skotmark rússneskra stýriflauga sem skotið yrði af stað langt frá landinu – líklega í 3000-5000 kílómetra fjarlægð. 

Til varnar flugvellinum gegn stýriflaugunum yrðu væntanlega bandarískar orrustuþotur og AWACS ratsjárþotur. Þær síðarnefndu mundu skipta miklu máli því ratsjárstöðvarnar á landinu hefðu takmarkað gildi gegn lágfleygum stýriflaugum, jafnvel enga þýðingu gegn þeim.

Því má bæta við að nánast engin rússnesk hernaðarumsvif í námunda við landið á árinu 2021 og lítil árin á undan –  og afar lítil samanborið við það sem var í kalda stríðinu. 

Til að fræðast frekar um þessi atriði bendi ég áhugasömum lesendum á að um þau hefur verið fjallað í greinum á vefsíðunni – síðast 27. janúar 2022.

Norðurslóðir 2021 – Staða Íslands

Ísland hefur áfram þýðingu fyrir hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO eins og hún birtist á norðurslóðum. Hins vegar heldur Norðurfloti Rússa sig sem fyrr að mestu í norður-Noregshafi og Barentshafi og í takt við það er þunginn í umsvifum Bandaríkjanna og NATO áfram miklu norðar en var í kalda stríðinu. Tilkoma langdrægra rússneskra stýriflauga mun styrkja þá þróun enn frekar en orðið er og færa fókusinn en meira á heimahöf Norðurflotans og inn á Norður Íshaf. 

Keflavíkurflugvöllur mundi á hættutíma gegna stuðningshlutverki við aðgerðir NATO í norðurhöfum, einkum með eldsneytisflutningaflugvélum og Boeing P-8 kafbátaleitar- og eftirlitsflugvélum. P-8 flugvélar sinna eftirliti frá vellinum meðal annars yfir norður Noregshafi og Barentshafi. Þær eru þotur ólíkt forveranum, skrúfuþotu af gerðinni P-3 Orion. P-8 eru því fljótari í förum en P-3 var og geta að auki tekið eldsneyti á flugi frá eldsneytisflutningaþotum. Líklegt er að ferðum frá Keflavíkurflugvelli langt norður í höf fækki á næstu árum með nýrri aðstöðu fyrir bandarískar P-8 flugvélar í norður Noregi. 

Einnig hafa P-8 vélar flogið tíðar ferðir frá Keflavíkurflugvelli yfir Eystrasalt, að því er virðist vegna spennu í samskiptum NATO og Rússlands vegna Úkrænu. Eftirlit bandarískra P-8 véla yfir norður Evrópu kann eftir nokkur ár að fara aðallega fram frá Lossiemouth, breskum herflugvelli í Skotlandi, gangi eftir bandarískar áætlanir um að koma upp aðstöðu þar fyrir P-8.

Þá virðist Keflavíkurflugvöllur hafa ásamt ýmsum öðrum stöðum í Evrópu nýlega fengið hlutverk sem útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar bandaríska flughersins. Það kom í ljós þegar B-2 sprengjuþotur höfðu aðsetur á Keflavíkurflugelli í ágúst og september 2021 og fóru þaðan til æfinga, meðal annars með orrustuþotum úr breska og norska flughernum. Útstöð fyrir sprengjuþotur á Íslandi fellur að stefnu Bandaríkjanna og NATO  á norðurslóðum en tengist einnig að sögn talsmanna bandaríska flughersins almennri fælingarstefnu gegn Rússlandi og fælingarstefnu Bandaríkjanna á heimsvísu. “Útstöð” (forward location) felur eingöngu í sér tímabundna viðveru flugvéla. Hvert framhaldið verður kemur í ljós, en íslensk stjórnvöld hafa enn ekki tjáð sig um Keflavíkurflugvöll sem útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar –  að minnsta kosti ekki opinberlega (sjá grein á vefsíðunni 16. nóvember 2021, “Er Keflavíkurflugvöllur ný útstöð fyrir langdrægar bandarískar sprengjuþotur?”). 

Framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli halda áfram samkvæmt áætlun frá 2018 og á að ljúka á árinu 2023. Þetta eru litlar framkvæmdir og kostnaður þeirra vegna smápeningar í hernaðarlegu samhengi. Þær lúta að mestu leyti að endurgerð flughlaða og breytingum á einu flugskýli af tæknilegum ástæðum af því P-8 flugvél er stærri og þyngri en forverinn, P-3. (sjá grein á vefsíðunni 13. mars 2019, “Bandaríski flugherinn hyggur á framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir tæpa 7 milljarða króna”)

Rússnesk hernaðarumsvif á svæðum í námunda við Ísland virðast hafa verið enn minni en undanfarin ár og nánast engin árið 2021 – Í þessu efni er sem áður meðal annars byggt á upplýsingum um ferðir herflugvéla, herskipa og kafbáta á twitter síðum áhugafólks um flug og hermál (Mil Radar360 RadarManu GomezAircraft Spotsthe LookoutRivetJointMilitary Air Tracking AllianceLieseIntel Air & Sea o.fl. – sjá dæmi um upplýsingar af þessu tagi í heimildalista) og á ýmsum vefmiðlum sem fjalla um öryggismál og hernaðarleg málefni. Þessir aðilar byggja meðal annars á vefsíðum eins og flightradar24.com og adsbexchange.com til að fylgjast með ferðum flugvéla víða um heim.

Svo virðist að enginn rússneskur kafbátur hafi farið á árinu 2021 um hafsvæði í námunda við Ísland. Mynstur í flugi kafbátaleitarflugvéla frá Noregi, Íslandi og Azor eyjum, sem verða greinileg þegar kafbátum er veitt eftirför, sáust ekki líkt og hefur gerst á undanförnum árum í þau fáu skipti sem um ræðir. Auðvitað er ekki unnt að útiloka að rússneskir kafbátar hafi verið á ferð á árinu 2021 án þess að vitað hafi verið um þá en það er ólíklegt. Af þeirri kafbátagerð sem kæmi til greina – svonefndir árásarkafbátar – var einungis einn nýr bátur í Norðurflotanum þar til í maí 2021 þegar annar bættist við. Þótt þeir kunni að vera miklu hljóðlátari og torfundnari en eldri rússneskir kafbátar – sem allir eru komnir til ára sinna – verður að telja ólíklegt að nýju bátarnir hafi farið ferðir út á norður-Atlantshaf. Engar vísbendingar komu fram um það eða merki um tilraunir til að finna þá. Hafa ber í huga að grannt er að öllum líkindum fylgst með kafbátalægjum og ferðum kafbáta frá þeim. Þá er forgangsverkefni þessara báta sem annarra í Norðurflotanum að verja úthaldssvæði eldflaugakafbáta í Barentshafi, bækistöðvar Norðurflotans og Rússland sjálft frá árás úr norðvestri.

Eitt rússneskt herskip virðist hafa komið á hafsvæði við Ísland 2021. Rússnesk herskip fóru, samkvæmt ýmsum fjölmiðlum og vefsíðum, um Norður-Atlantshaf en langt fyrir austan Ísland  – aðallega að því er virðist ýmist á leið frá bækistöðvum Norðurflotans á Kolaskaga til Eystrasalts eða Miðjarðarhafs eða á heimleið frá þessum svæðum. Einnig komu skip út á austur Atlantshaf sem voru á leið frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs og til baka 

Eina rússneska herskipið sem vitað er um nálægt Íslandi á árinu 2021 var tundurspillirinn Severomorsk, sem var þar í nokkra daga í ágúst ásamt olíuskipi og björgunarskipi. Severomorsk er einn af fjórum tundurspillum af Udaloy gerð, sem tilheyra Norðurflotanum og voru gerðir fyrir gagnkafbátahernað. Severomorsk var að þessu sinni forystuskip í árlegri ferð á vegum Norðurflotans um norðurslóðir. Óútskýrt er af hverju leiðangurinn lagði lykkju á leið sína svo sunnarlega sem til Íslands. Leiðin lá reyndar fyrst að vesturströnd Svalbarða sem líkt og Íslandsssiglingin var nýlunda í þessum árlegu norðurslóðaleiðöngrum. Nánast allur leiðangurinn fór hinsvegar fram annarsstaðar en við Ísland og Svalbarða og stóð fram yfir miðjan október.  Skipin fóru víða um norðurslóðir Rússlands. Þann 10. september var Severomorsk til dæmis á Yenisei fljóti við æfingu á hertöku bæjarins Dudinka úr höndum óskilgreindra aðila og undir lok september var hann langt í austri á svipaðri æfingu við Kotelny eyju á Laptev hafi úti fyrir strönd Síberíu.

Engar rússneskar herflugvélar komu í námunda við Ísland 2021. Þær sáust eins og undanfarin ár yfir norðanverðu Noregshafi, aðallega úti fyrir norður Noregi, og yfir Barentshafi, en fóru einnig suður í Norðursjó að Bretlandi. Minna var um flug rússneskra herflugvéla við Noreg 2021 en árin þar á undan að sögn norska flughersins. Sama átti við flug rússneskra herflugvéla við Alaska sem voru mun færri 2021 en 2020 þegar flogið var fjórtán sinnum í veg fyrir rússneskar flugvélar. Árið 2021 virðist hafa verið flogið einu sinni í janúar og aftur einu sinni í október og í nóvember.

Umsvif Bandaríkjahers og NATO á norðurslóðum – Sem fyrr er töluverð þróun í öryggis- og hernaðarmálum á norðurslóðum hvað umsvif Bandaríkjahers og Rússlandshers varðar. Í grunninn er þó um að ræða sömu hagsmuni og stefnu og ráðið hefur ferðinni í marga áratugi. 

Megin breyting á undanförnum árum hefur lotið að Bandaríkjaher, sem hefur aukið umsvif sín á norðurslóðum – einkum norður Noregshafi og Barentshafi. Það virðist stafa af stirðari samskiptum við Rússland en áður en einnig og væntanlega ekki síst vegna þess að rússneski Norðurflotinn heldur sig aðallega á þessum hafsvæðum auk Hvítahafs. Til lengri tíma litið eykur þróun langdrægra rússneskra stýriflauga áherslu Bandaríkjahers á norðurslóðir almennt en Norður-Íshaf sérstaklega. Bandaríski flugherinn heldur áfram að senda langdrægar sprengjuflugvélar á norðurslóðir eins og fyrr var nefnt.  Þá hafa Bandaríkin aukið hernaðargetu og viðbúnað í Alaska vegna Rússa en einnig vegna öryggishagsmuna í Asíu varðandi Kína. 

Rússar hafa frá því um 2010 verið að endurnýja herbúnað sinn á norðurslóðum í takt við almenna endurnýjun Rússlandshers. Herstyrkur þeirra á norðurslóðum hefur og verið efldur vegna væntinga um stóraukna nýtingu rússneskra auðlinda og auknar siglingar á víðfeðmum norðurslóðum Rússlands.

Vegna vaxandi mikilvægis norðurslóða, væntanlega bæði hernaðarlega og efnahgslega, fékk Norðurflotinn stöðu sjálfstæðrar herstjórnar og norðurslóðir urðu sérstakt herstjórnarsvæði undir henni, ásamt fjórum herstjórnarsvæðum sem fyrir voru í Rússlandi. Undir herstjórn Norðurflotans falla því gervallar norðurslóðir Rússlands, þar á meðal öryggi norðurleiðarinnar, sem er siglingaleiðin eftir allri norðurstrandlengjunni.  

Sem fyrr eru náin tengsl í hernaðarlegu tilliti milli norðurslóða og meginlands Evrópu. Rússneski Norðurflotinn var því þáttakandi í september í heræfingunni Zapad 2021, stór æfing sem sneri aðallega að Hvíta Rússlandi, vestur Rússlandi og Eystrasalti. Meginframlag Norðurflotans var að æfa á Barentshafi varnir Rússlands gegn árás frá norðurhöfum. 

Herskip frá NATO ríkjum fóru að því er virðist ekki norður í höf 2021 í sama mæli og 2020 þegar þau fóru ítrekað inn á Barentshaf, en kafbátaumferð kann að hafa aukist. Bandarískir kafbátar hafa nú aðgang að höfnum í norður Noregi og víst að breskir og franskir kafbátar fara reglulega norður í Barentshaf. 

Í mars 2022 verður haldin stór heræfing NATO í og við norður Noreg. Hún ber heitið Cold Response og í henni munu taka þátt meðal annars tvær flugvélamóðurskipadeildir, ein bandarísk og ein bresk. Síðast kom flugvélamóðurskip vegna æfinga í norðurhöfum þangað 2018 en þá höfðu slík skip ekki sést á þeim slóðum síðan 1988. Áhugavert verður að sjá hvort og þá hvernig Keflavíkurflugvöllur fær hlutverk í Cold Response æfingunni í mars.

Eftirlit frá Keflavíkurflugvelli yfir Barentshafi  – Bandarískar kafbátaleitar-og eftirlitsflugvélar sjóhersins, af gerðinni Boeing P-8A Poseidon, notuðu Keflavíkurflugvöll mikið á árinu 2021 og meira en áður að því er virðist. Það eru þessar flugvélar sem einkum nota flugvöllinn af hálfu Bandaríkjahers með tímabundinni viðveru. Hún tengdist á árinu 2021 reglubundnum æfingum Bandaríkjaflota og NATO á Norður Atlantnshafi og norðanverðu Noregshafi. Einnig virðast ýmsar aðrar æfingar og þjálfun áhafna skýra tímabundna viðveru bandarískra P-8 flugvéla á Keflavíkurflugvelli. Þar á meðal var þegar P-8 flugvélar þaðan gerðu samræmda “árás” í lok maí með Harpoon flugskeytum á “skotmarkapramma” (target barge) nálægt Andöya í norður Noregi. 

Auk þess að vera leitar og eftirlitsflugvél getur P-8 skotið flugskeytum gegn skotmörkum á láði og legi, beitt tundurskeytum og djúpsprengjum gegn kafbátum og lagt tundurdufl. P-8 er einnig búin nákvæmri ratsjá sem greinir hluti jafnt á sjó sem landi, og hefur búnað fyrir rafeindahernað og ýmiskonar rafræna upplýsingaöflun.

P-8 flugvélar fóru árið 2021 í eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli allt norður í Barentshaf á svæði úti fyrir Murmansk. Þegar þær fara frá Keflavíkurflugvelli norður í Barentshaf taka þær, í sumum tilvikum að minnsta kosti, eldsneyti yfir norður Noregshafi frá bandarískum KC-135 eldsneytisflugvélum frá Mildenhall herstöðinni á Bretlandi. 

Bandaríski sjóherinn áætlar að byggja flugskýli í Evenesflugbækistöðinni í norður Noregi fyrir P-8 flugvélar sínar. Verði af því má gera ráð fyrir að eftirlitsflug langt norður í höf frá Keflavíkurflugvelli minnki eða hætti. Evenes verður líka bækistöð nýrrar P-8 sveitar norska flughersins. Þá er gert ráð fyrir að P-8 vélar breska flughersins, sem hafa bækistöði í Lossiemouth flugbækistöðinni á Skotlandi, noti einnig Evenes. Þær nota reyndar einnig Keflavíkurflugvöll.

Eftirlitsflug frá Keflavíkurflugvelli yfir Eystrasalti  – Á árinu 2021 flugu P-8 flugvélar að minnsta kosti nokkrum sinnum frá Íslandi í eftirlitsflug yfir Eystrasalti. Frá því milli jóla og nýárs 2021 og fram til 20. janúar 2022 héldu slíkar flugvélar nánast daglega frá Keflavíkurflugvelli til Eystrasalts. Ætla má að það hafi verið vegna spennunnar í samskiptum NATO og Rússlands vegna Úkrænu. 

Hvað þessar ferðir varðar er byggt á fyrrnefndum twitter síðum sem fylgjast með flugi herflugvéla víða um heim (sjá dæmi í heimildalista um upplýsingar á þessum síðum). Eftirlitsflugvélar sænska hersins hafa einnig verið athafnasamar yfir Eystrasalti, þar á meðal úti fyrir Kaliningrad og einnig breskar og bandarískar hlerunarflugvélar af gerðinni RC-135 eins og einnig sést á áðurnefndum twitter síðum. 

Á Eystrasaltssvæðinu er Eystrsaltsfloti Rússlands – með bækistöðvar við Pétursborg og höfuðstöðvar í Kaliningrad, sem er rússneskt landsvæði milli Litháens. Þar eru einnig mikilvægar bækistöðvar Rússlandshers. Það er því eftir ýmsu að slægjast á Eystrasalti sem getur gefið vísbendingar um fyrirætlanir og viðbúnað Rússlandshers.

P-8 flugvélarnar frá Keflavíkurflugvelli hafa í einhverjum tilvikum tekið eldsneyti á flugi frá eldsneytisþotum sem komið hafa frá Mildenhall flugbækistöðinni á Bretlandi en reiða sig einnig að einhverju marki á aðgang að breska herflugvellinum í Lossiemouth á Skotlandi. 

Um tíma í janúar flugu P-8 flugvélar ennfremur frá Keflavíkurflugvelli yfir Stórabelti, Kattegat og Norðursjó til að fylgjast með 6 rússneskum herskipum, sem áttu leið frá Eystrasalti um þessi svæði, þar á meðal þremur landgönguskipum. Skipin voru á leið til Miðjarðarhafs og halda þaðan að talið er til Svartahafs. P-8 flugvélar breska flughersins tóku og þátt í að fylgjast með rússnesku skipunum. Núna beinist athygli meðal annars að flotaæfingu sem Rússar hafa tilkynnt að þeir ætli að standa að í byrjun febrúar 2021 suðvestur af Írlandi. Skip úr Norðurflotanum eru á leið þangað.

Spurning vaknar um hvers vegna ekki hefur verið notast við flugherstöðina í Lossiemouth í Skotlandi sem er auðvitað nær Eystrasalti og Norðursjó en Keflavíkurflugvöllur. Í Lossiemouth er mikil ný aðstaða fyrir P-8 flugvélar en breski flugherinn er að taka þar í notkun sveit 9 slíkra véla. Skýringin kann að liggja meðal annars í því að áætlun Bandaríkjahers um sérstaka aðstöðu í Lossieouth fyrir P-8 vélar á hans vegum og áhafnir þeirra er ekki komin til framkvæmda.

Ný norðurslóðastefna Bandaríkjanna mótast í áföngum en þróunin verður hægfara eins og efni standa til – Á undanförnum árum hefur verið þrýst á Bandaríkjastjórn – þar á meðal og ekki síst af hálfu þingmanna Alaska – um að mótuð verði norðurslóðastefna umfram þá hernaðarstefnu sem þegar er til staðar og varðar Rússland – þar áður Sovétríkin um áratuga skeið. Nýju stefnunni er einkum ætlað að taka tillit til væntinga um opnun Norður Íshafs á næstu áratugum með hlýnun Jarðar og afleiðinga bráðnunar hafíssins á stórveldasamkeppni á norðurslóðum og þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna. Þá er áfram horft til Rússlands en einnig þess að Kínverjar og Kínaher muni gera sig gildandi á norðurslóðum.

Áfanga í nýju norðurslóðastefnunni má finna í fjárlögum Bandaríkjanna til landvarna fyrir fjárlagaárið 2022, sem samþykkt voru í desember 2021. Í texta þeirra er í fyrsta lagi kveðið á um að lagt verði mat á öryggishagsmuni Bandaríkjanna á norðurslóðum. Í öðru lagi felst í lögunum heimild til landvarnarráðherra til að koma á sérstakri öryggismálstefnu fyrir norðurslóðir – Arctic Security Initiative. Ákveði ráðherrann að nýta heimildina og koma á slíkri stefnu skuli fylgja áætlun til fimm ára um framkvæmd og fjármögnun.

Stefnumótunin mun fremur ráðast af frumkvæði fyrrnefndra þingmanna Alaska en ákveðnum vilja hers og landvarnarráðuneytis. Þá segir í fjárlögunum að það verði landvarnarráðherrans að ákveða hvernig að framkvæmdinni verður staðið. Lisa Murkowski, öldungadeilarþingmaður frá Alaska er meðal þeirra sem látið hafa í ljós vonbrigði með hægagang í fjárveitingum en jafnframt tekið fram að vissulega séu norðurslóðir ekki “spennusvæði” (hotspot). 

Það eru því vísbendingar að framkvæmd stefnunnar kunni að verða hægfara. Enda er tímaramminn rúmur – langt í þann möguleika að Norður-Íshaf verði opið sem og að Kínaher láti að sér kveða að ráði á norðurslóðum. 

Olíu-, gas- og kolanámuvinnsla í Síberíu er sem fyrr langstærsta efnahagsmál á norðurslóðum – Framkvæmd stórfelldra áætlana um olíu-, gas- og kolanámavinnslu við Karahaf í Síberíu heldur áfram í samvinnu Rússa við aðallega Kínverja og Indverja, en einnig eiga japönsk og suður-kóresk fyrirtæki aðild. Í þessum áætlunum felst langstærsta efnhagsmálið sem uppi er á norðurslóðum. Þess vegna halda skipaflutningar á norðurleiðinni sem liggur með norðurströnd Rússlands áfram að aukast mikið. Flutningar eftir norðurleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrhafs eru hins vegar áfram hlutfallslega mjög litlir enda hafa engar verulegar breytingar orðið á lykilforsendum, hvorki fjárhagslegum né hvað varðar bráðnun heimskautaíssins.  Reyndar tepptust siglingar á norðurleiðinni töluvert haustið 2021 vegna meiri kulda og hafíss en undanfarin ár. 

Nú er uppi fyrirætlan um lagningu sæstrengs milli Asíu og Evrópu, frá Japan með norðurströnd Kanada. Strengurinn á að tengjast stöðum í Alaska, norður-Kanada, Grænlandi, Íslandi, Írlandi og koma í land í endastöð í norður Noregi.  Áætlun um lagningu strengs milli heimálfanna tveggja úti fyrir norðurströnd Rússlands hefur verið lögð á hilluna í bili.

Fjármál og geópólitík: Ekki verður úr námavinnslu Kínverja á Grænlandi, en Bandaríkjastjórn hefur hafist handa – Á árinu 2019 lagði Trump Bandaríkjaforseti, sem frægt varð, fram þá hugmynd að Bandaríkin keyptu Grænland. Bandaríkjastjórn var rekin áfram í þessu máli af ótta við ásælni Kínverja á Grænlandi einkum er varðaði áhuga þeirra á námavinnslu. Þær áhyggjur virðast einnig hafa leitt til þess að bandarísk aðalræðisskrifstofa var opnuð í Nuuk og til þess að Grænlendingar fengu bandaríska efnahagsaðstoð – 12 milljónir dala árið 2020 og 10 milljónir 2021.

Ekkert hefur hins vegar orðið úr fyrirætlunum um námavinnslu á Grænlandi tengdri kínverskum fyrirtækjum og ríkisbönkum. Grænlensk stjórnvöld hafa afturkallað leyfi fyrir járnnámu – að því er virðist vegna áhugaleysis kínverska fyrirtækisins sem hlut átti að máli. Þá lítur út fyrir að ekki verði af úranvinnslu á vegum Kínverja vegna andstöðu nýrrar grænlenskrar landstjórnar gegn úranvinnslu almennt. Loks hefur komið í ljós að ástralskt fyrirtæki um zink- og blýnámu, sem kínverskt ríkisfyrirtæki átti hlut í og fjármagna átti gegnum kínverskan ríkisbanka, fær líklega fé til starfseminnar frá bandaríska Export Import bankanum sem er ríkisbanki. Þar með virðist aðild kínverska fyrirtækisins úr sögunni. Kínverjar eru greinilega ekki á leið til Grænlands – ekki í bili að minnsta kosti.

Heimildir

Fall Sovétríkjanna fyrir 30 árum batt enda á áhrif Íslands í heimsmálum


Fyrir þremur áratugum lauk hálfrar aldar tímabili þegar Ísland tengdist beinlínis þróun heimsmálanna og hafði áhrif á þau. Þetta einstaka skeið í Íslandssögunni hófst með hernámi Breta á Íslandi í maí 1940 og falli Frakklands nokkrum vikum síðar undan sókn þýska hersins, og því lauk 1991 þegar Sovétríkin leystust upp og voru formlega lögð niður 26. desember á því ári. 

Lega Íslands á Norður-Atlantshafi réði mestu um þátt landsins í þróun mála, en einnig komu til íslenskar ákvarðanir um herverndarsamning við Bandaríkin 1941, aðild að stofnun NATO 1949 og um varnarsamning við Bandaríkin 1951.

Staða Íslands var aðallega undir því komin að stórveldi gæti hugsanlega náð að verða ráðandi á meginlandi Evrópu og í kjölfarið ógnað Norður Atlantshafi og Norður Ameríku. 

Þessi möguleiki er horfinn. Hann fólst fyrst í uppgangi Þýskalands í fyrri heimsstyrjöld, en einkum voru það þó Þýskaland nasismans og Sovétríkin sem gátu hugsanlega náð á sínum tíma að drottna yfir Evrópu og sækja þaðan út á Atlantshaf og að vesturhveli Jarðar.

Ógn af því tagi gerði Ísland ómissandi fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna en fól einnig í sér að löndin tvö áttu sameiginlega öryggishagsmuni. Drottnun stórveldis yfir meginlandinu hefði fyrr en síðar leitt til styrjaldar á Atlantshafi milli þess og Bandaríkjanna – og óhjákvæmilega til átaka um Ísland.

Í síðari heimsstyrjöld skiptu bækistöðvar bandamanna á Íslandi miklu í orrustunni um Atlantshaf, sem hafði grundvallaráhrif á gang styrjaldarinnar við Þýskaland. Í kalda stríðinu hafði lega Íslands og Keflavíkurherstöðin þýðingu fyrir fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO gegn Sovétríkjunum; mesta á níunda ártugnum þegar Ísland varð lykilstaður fyrir stefnuna og í stórfelldum áætlunum um hernað gegn Sovétríkjunum frá norðurhöfum ef til átaka kæmi.

Rússland er ekki og verður ekki stórveldi í líkingu við Sovétríkin og eftir fall þeirra skipti Keflavíkurherstöðin ekki máli fyrir þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Enda stóð til að leggja stöðina niður að mestu leyti fljótlega eftir að Sovétríkin voru horfin. Henni var ekki lokað fyrr en 2006, en það réðist af stefnu og aðgerðum íslenskra stjórnvalda.

Litlar líkur eru á því að Bandaríkjaher hafi aftur fasta viðveru á Íslandi á friðartímum. Áhugi hersins á Íslandi kviknaði á ný á árinu 2014 af því þá kom rússneskur kafbátur út á Norður-Atlantshaf og í námunda við landið í fyrsta sinn í mörg ár. Áhuginn nú hefur leitt til tímabundinnar viðveru á Keflavíkurflugvelli, einkum kafbátaleitarflugvéla. Aðallega hefur verið um þjálfun og æfingar að ræða því umferð rússneskra kafbáta og önnur rússnesk umsvif hafa verið lítil í námunda við Ísland. Þar til í ár hafði enda fátt borið til tíðinda í hernaðarlegum öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið og ekkert nýtt gerst í þeim efnum. Nú virðist hins vegar að Keflavíkurflugvöllur sé meðal nýrra útstöðva í ýmsum löndum fyrir tímabundna viðveru langdrægra sprengjuflugvéla bandaríska flughersins. Um það er fjallað í grein sem birtist á vefsíðunni 16. nóvember 2021.

Af því tilefni að 30 ár eru frá falli Sovétríkjanna er hér birtur hluti af grein, sem var á vefsíðunni 4. mars 2018 og bar heitið Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma. Greininbyggði á samnefndri ritgerð eftir höfund vefsíðunnar. Í ritgerðinni eru meðal annars dregin fram þau umskipti sem urðu á stöðu Íslands með falli Sovétríkjanna fyrir 30 árum, og fjallað um áhrif þess á varnarsamstarfið við Bandaríkin og á aðdragandann að því að Keflavíkurherstöðin var lögð niður 2006.

Eftirfarandi er umræddur hluti úr greininni frá 2018:

“Á tuttugustu öldinni hófu Bandaríkjamenn þrisvar bein afskipti af öryggismálum í Evrópu. Fyrsta íhlutunin kom í fyrri heimsstyrjöld á árinu 1917, þegar útlit var fyrir að Þýskaland sigraði. Slík grundvallarbreyting á uppbyggingu alþjóðakerfisins og valdajafnvægi á meginlandinu var talin mundu leiða til þess á endanum að vesturhveli jarðar og öryggi Bandaríkjanna yrði ógnað.

Sama átti við í síðari heimsstyrjöld þegar fall Frakklands í júní 1940 leiddi til þess að þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna breyttist í grundvallaratriðum. Eftir að Frakkland var úr leik gat Þýskaland ógnað Bretlandi, sótt enn frekar en orðið var út á Atlantshaf og í kjölfarið orðið ógn við vesturhvel. Þótt stjórnmál í Bandaríkjunum kæmu í veg fyrir beina þátttöku þeirra  í stríðinu  voru útgjöld til hermála margfölduð og sett lög um almenna herkvaðningu. Bandaríkin hófu og haustið 1940 stórfelldan stuðning við Breta með því að senda þeim hergögn og vistir og, örfáum mánuðum síðar, með því að lána þeim í stað þess að krefjast staðgreiðslu fyrir vopn og vistir. Bandaríkjamenn byrjuðu ennfremur að fikra sig inn í átökin á Atlantshafi sem leiddi til þess meðal annars að bandarískar hersveitir voru sendar til Íslands sumarið 1941.

Eftir síðari heimsstyrjöld voru Sovétríkin nálægt því að ná ráðandi stöðu í Evrópu. Þetta leiddi til róttækrar breytingar á stefnu Bandaríkjanna, sem stofnuðu Atlantshafsbandalagið, hófu að halda stóran her á friðartímum og halda úti miklu liði í bandarískum herstöðvum í Evrópu. Markmiðið var að halda aftur af útþenslustefnu Sovétstjórnarinnar og fæla hana frá því að hefja átök við vesturlönd.

Þegar kalda stríðinu lauk með  hruni kommúnismans og Sovétríkjanna varð aftur grundvallarbreyting, en nú í þá veru að ekki stóð lengur ógn af stórveldi á meginlandinu. Lykilforsendur þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna í kalda stríðinu hurfu. Það leiddi til þess að þau minnkuðu stórlega herlið sitt og umsvif í Evrópu og gerðu róttækar breytingar á stærð og starfsemi Bandaríkjahers að öðru leyti til að laga hann að gerbreyttum aðstæðum.

Stórstíg þróun í hernaðartækni hafði og áhrif á þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á tuttugustu öld. Í síðari heimsstyrjöld gátu langdrægar flugvélar sótt sífellt lengra út á Atlantshaf frá meginlandi Evrópu. Í kalda stríðinu gátu flugvélar og eldflaugar borið kjarnavopn frá Sovétríkjunum norðurleiðina til skotmarka í  Norður Ameríku.

Ísland vakti ekki áhuga Bandaríkjamanna í fyrri heimstyrjöld, enda fór hernaðurinn á Atlantshafi fram á austurhluta þess.

Á fyrstu mánuðum síðari heimsstyrjaldar náðu umsvif þýskra kafbáta og skipa vestur til Íslands og Grænlands og flugvélar höfðu margfalt flugþol á við það sem áður var. Það var þó ekki fyrr en stóraukin ógn var talin steðja að Bretlandi og Atlantshafi eftir fall Frakklands sumarið 1940 að Ísland birtist í bandarískum hernaðaráætlunum. Stjórnmál í Bandaríkjunum áttu þátt í að bandarískar hersveitir héldu til Íslands sumarið 1941, en gerbreytt staða á meginlandi Evrópu og áhrif hennar á öryggi vesturhvels voru undirliggjandi ástæður. Í styrjöldinni var landið í lykilhlutverki í orrustunni um Atlantshaf og vegna stórfellds ferjuflugs og annarra loftflutninga frá Bandaríkjunum til Evrópu.

Í kjölfar seinni heimsstyrjaldar varð Ísland útvörður vesturhvels. Nú voru það Sovétríkin, sem gátu náð drottnandi stöðu á meginlandinu og við því varð að bregðast. Áhugi Bandaríkjanna af þessum sökum á að halda úti liði og flugvélum á Íslandi leiddi til varnarsamningsins 1951. Tilkoma langdrægra flugvéla sem gátu borið kjarnavopn hafði einnig mikil áhrif á stefnuna á þessum tíma.

Í kalda stríðinu var Ísland lykilstaður fyrir varnir vesturhvels og Vestur-Evrópu. Auk loftvarna tengdist landið upp úr miðjum sjöunda áratugnum í vaxandi mæli vörnum þessara staða gegn sovéskum eldflaugakafbátum sem héldu til í Atlantshafi með eldflaugar sem báru kjarnaodda.

Eftir því sem sovéska norðurflotanum óx ásmegin jókst ógn frá kafbátum hans, herskipum og flugvélum við herflutninga yfir Atlantshaf til Evrópu. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands fór enn vaxandi fyrir áætlanir NATO og fælingarstefnuna gagnvart Sovétríkjunum. Flutningaleiðir yfir Atlantshaf voru taldar mundu skipta sköpum fyrir örlög Evrópu í styrjöld. Ísland tengdist þannig náið þeim grundvallarhagsmunum sem voru í húfi fyrir Bandaríkin og önnur NATO ríki á meginlandinu, sem aftur var nátengt öryggi Bandaríkjanna og loks kjarnavopnajafnvæginu milli þeirra og Sovétríkjanna.

Tengsl Íslands við loftvarnir Bandaríkjanna urðu enn nánari en áður um og eftir 1980 með tilkomu nýrra sovéskra langdrægra stýriflauga sem gátu náð til skotmarka frá flugvélum yfir hafinu suðvestur af landinu.

Hápunkti náði hernaðarlegt mikilvægi Íslands á níunda áratugnum þegar landið hefði í hugsanlegum átökum gegnt lykilhlutverki í stórsókn gegn sovéska flotanum í norðurhöfum og herbækistöðvum hans og sovéska flughersins á Kolaskaga.

Þessi stefna laut einkum að því að sýna sovéskum ráðamönnum með trúverðugum hætti að kæmi til átaka yrði grundvallarþáttum í herstyrk Sovétríkjanna ógnað, það er norðurflotanum, bækistöðvum hans og eldflaugakafbátum í Barentshafi.  Jafnframt yrði öryggi siglingaleiða á Atlantshafi tryggt með því að halda norðurflotanum uppteknum við að sinna því forgangsverkefni hans að verja eldflaugakafbátana, sem voru hryggjarstykki í kjarnorkuherafla Sovétríkjanna. Ennfremur yrði með þessu komið í veg fyrir að flughersstyrk norðurflotans yrði beitt gegn NATO í átökum á meginlandinu og jafnvel að Sovétherinn mundi neyðast til að senda liðsauka frá meginlandinu til norðurflotans. Af öllum þessum ástæðum var stefnan um stórsókn í norðurhöfum talin lykilþáttur í að fæla Sovétstjórnina frá því að hefja styrjöld.

Með falli kommúnismans 1989 og Sovétríkjanna 1991 hurfu lykilforsendur í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Ekki voru lengur neinir þeir öryggishagsmunir í húfi á meginlandinu sem kallaði á fasta viðveru Bandaríkjahers á Íslandi. Sama átti auðvitað við á mörgum öðrum stöðum og fækkun í liði Bandaríkjamanna á Íslandi, sem hófst strax eftir kalda stríðið, var auðvitað hluti af miklu stærri mynd og gerbreyttri stöðu í alþjóðamálum.

Þrettán ár liðu frá því að fyrir lá af hálfu Bandaríkjanna skömmu eftir kalda stríðið að aðstöðu fyrir Bandaríkjaher væri ekki lengur þörf á Íslandi nema að litlu leyti og þar til herstöðinni var lokað haustið 2006.  Það fækkaði þó hratt í Keflavíkurstöðinni fljótlega eftir kalda stríðið og reyndar voru uppi áætlanir sem fólu í sér að starfsemi hennar hefði að mestu leyti lagst niður þegar upp úr 1994.

Ástæða þess að það dróst að loka herstöðinni var andstaða íslenskra stjórnvalda, sem vildu að í landinu væru lágmarksvarnir þrátt fyrir lok kalda stríðsins og líkt og væri í öðrum NATO ríkjum. Án andófs íslenskra stjórnvalda hefðu breytingarnar á uppbyggingu alþjóðakerfisins og valdajafnvæginu á meginlandi Evrópu, sem fólust í lokum kalda stríðsins, alfarið ráðið ferðinni og leitt til þess að varnarliðið færi að mestu úr landi fljótlega eftir kalda stríðið.

Bandaríkjaher hafði eftir lok kalda stríðsins einungis áhuga á að halda úti kafbátaeftirliti frá Keflavíkurstöðinni. Því var hætt 2003 vegna þess að rússneskir kafbátar komu ekki lengur vestur fyrir Norður Noreg út á Atlantshaf. Nokkrum árum áður hafði komum kafbátaleitarvéla til Keflavíkur fækkað mjög vegna þess að rússnesk hernaðarumsvif á Atlantshafi voru nánast engin.

Frá sjónarhóli Bandaríkjanna þjónaði Keflavíkurstöðin ekki lengur öryggishagsmunum þeirra, reyndar heldur ekki hagsmunum Íslands að áliti bandarískra stjórnvalda. Stöðinni var lokað 2006 en varnarsamningurinn var áfram í gildi. Varnaráætlun Bandaríkjahers sem var gerð vegna Íslands við brottför varnarliðsins byggði á þeirri forsendu að fyrirsjáanlega steðjaði ekki hernaðarógn að landinu.

…Rússland er ekki stórveldi á hernaðarsviðinu nema vegna þess að það á kjarnavopn. Engar líkur eru því á að það verði arftaki Sovétríkjanna á meginlandi Evrópu eða yfir höfuð stórveldi þar. En það hefur yfirburði yfir nágrannaríki og er svæðisbundið stórveldi, ef svo má orða það, á áhrifasvæði sem nær til nágrannaríkja og fyrrum Sovétlýðvelda.

Áhugi Bandaríkjahers á Íslandi verður takmarkaður um fyrirsjáanlega framtíð og litlar líkur á að hann hafi hér aftur fasta viðveru á friðartímum. Forsenda þess væri að grundvallarbreytingar yrðu á uppbygginu alþjóðakerfisins og á valdajafnvægi á meginlandinu.”

Greininni á vefsíðunni 4. mars 2018, sem ofangreindur hluti er úr, fylgir hlekkur á ritgerð eftir höfund vefsíðunnar, sem hann samdi fyrir utanríkisráðuneytið á árinu 2017. Ritgerðin heitir Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma og henni fylgir ítarleg heimildaskrá.

Er Keflavíkurflugvöllur ný útstöð fyrir langdrægar bandarískar sprengjuþotur?

(Undanfarið hafa ekki birst greinar á síðunni sakir þess að höfundur tók að sér að leiða kosningaeftirlit á vegum Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í tvo og hálfan mánuð í Georgíu. – Sjá m.a. https://www.osce.org/odihr/elections/georgia/496309)

Aðstæður í öryggismálum á svæðum í námunda við Ísland gerbreyttust eftir kalda stríðið og hernaðarumsvif þar hafa verið lítil eins og fram hefur komið í greinum á þessari vefsíðu um þau efni og það sem ræður þeim. Norðurflotinn rússneski er margfalt minnni en sovéski forverinn. Á því verða ekki breytingar. Að auki hafa þarfir Norðurflotans breyst þannnig að hann fer takmarkað út á Atlantshaf. Litlar líkur eru á að skip og kafbátar flotans, eða langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar, verði þar aftur á ferð í umtalsverðum mæli. 

Enda hefur lítið borið til tíðinda í hernaðarlegum öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið og ekkert nýtt gerst í þeim efnum.

Þar til í ágúst 2021 – Að því er virðist.

Hinn 23. ágúst komu þrjár langdrægar sprengjuþotur bandaríska flughersins af gerðinni B-2 Spirit til Keflavíkurflugvallar. Þær dvöldu á öryggissvæðinu á vellinum til 11. september og flugu þaðan til æfinga. Flugvélar af þessari gerð höfðu ekki komið til Íslands áður með einni undantekningu, þegar slík vél hafði skamma viðdvöl á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2019 til að æfa eldsneytistöku. 

Dvöl sprengjuflugvélanna á Keflavikurflugvelli virðist samkvæmt yfirlýsingum Bandaríkjahers og ummælum fulltrúa hans boða nýtt og aukið hlutverk Íslands í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO. Íslensk stjórnvöld hafa ekki staðfest að svo sé og þau hafa að svo komnu tjáð sig með öðrum og mun almennari hætti en talsmenn Bandaríkjahers um dvöl B-2 sprengjuflugvélanna á landinu.

Áratugum saman hefur lykilatriði í stefnu Bandaríkjanna og NATO verið að kæmi til styrjaldar yrði ráðist á her Sovétríkjanna og síðar Rússlands meðal annars með langdrægum bandarískum sprengjuflugvélum frá norðurslóðum. Varnarviðbúnaður sovéska hersins tók mið af þessu og sama á við viðbúnað Rússlandshers, þar á meðal Norðurflotans.

Á sjötta áratugnum var gert ráð fyrir í bandarískum hernaðaráætlunum að Keflavíkursherstöðin yrði áningarstaður langdrægra sprengjuflugvéla og eldsneytisflugvéla þeirra í hugsanlegri styrjöld við Sovétríkin. Þótt samið væri sérstaklega um allmikil umsvif í æfingaflugi sprengjuflugvéla á landinu voru þær lítið hér. Í lok áratugarins þegar öflugri sprengju- og eldsneytisflugvélar voru komnar til sögu ásamt langdrægum eldflaugum sem báru kjarnavopn var Keflavíkurstöðin tekin út úr áætlunum að þessu leyti. Nú kemur Ísland við sögu á ný.

B-2 þoturnar þrjár komu til Keflavíkurflugvallar beint frá Whiteman flugherstöðinni í Missouri í Bandaríkjunum. Komu þeirra má rekja til breyttrar stefnu bandaríska flughersins varðandi langdrægar sprengjuflugvélar. Aðdragandi hennar nær aftur til 2018 en ný stefna tók formlega gildi í apríl 2020. Hún lýtur að úthaldi langdrægra sprengjuþota flughersins, sem hafa fast aðsetur í herstöðvum í Bandaríkjunum. Eftir breytinguna verður þeim haldið úti í auknum mæli utan Bandaríkjanna með tímabundinni dvöl á ýmsum stöðum í Miðausturlöndum, Asíu og Evrópu. Í Evrópu hafa þeir staðir verið á Bretlandi en einnig á Spáni og í Noregi. 

Keflavíkurflugvöllur er ný útstöð í þessu fyrirkomulagi að sögn bandaríska flughersins (“new forward operating location” – Defense Visual Information Distribution Service, 09.20 2021.). Jafnframt hefur komið fram að engar áætlanir séu uppi um meira en tímabundna dvöl langdrægra sprengjuflugvéla á Íslandi með tilheyrandi mannskap og búnaði líkt og í ágúst og september síðastliðnum. Herstöð við Fairford í Bretlandi verði áfram helsta útstöð slíkra flugvéla Evrópu. Þar er enda sérstök aðstaða fyrir sprengjuflugvélar Bandaríkjahers meðal annars í flugfskýli þar sem sinna má mjög sérhæfðu viðhaldi á B-2 sprengjuþotum. Það lýtur meðal annars að því að halda við lagi af viðkvæmu efni sem þekur flugvélarnar og er þáttur í að gera ratsjám erfitt um vik að greina þær – þ.e. gera þær “torséðar” (stealthy).

Áætlanir um Keflavíkurflugvöll sem nýja útstöð fyrir sprengjuflugvélar passa vel við yfirstandandi endurbætur á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir eldsneytisflugvélar, sem þaðan yrðu gerðar út á hættu- og stríðstímum til stuðnings herflugvélum af ýmsu tagi. Stækkun flughlaða og annarrar aðstöðu í þessu skyni er í gangi og tilheyrandi eldsneytisbirgðastöð hefur verið í undirbúningi.

Yfilýst markmið með hinni breyttu stefnu um úthald langdrægra sprengjuflugvéla utan Bandaríkjanna er að auka hernaðargetu og trúverðugleika fælingarstefnu Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á heimsvísu. Kína og Rússland eru nefnd sérstaklega. Með framkvæmd nýju stefnunnar sé andstæðingum sýnt fram á að flugherinn geti eftir þörfum og hentugleikum beitt langdrægum sprengjuflugvélum frá ýmsum ólíkum stöðum og þannig að andstæðingar sjá ekki fyrir hvar flugvélar kunna að verða staðsettar. Með þessu megi hafa flugvélakostinn “kvikan” (agile) og hefur sú hlið stefnunnar sérstakt heiti – “Agile Combat Employment”. Það flæki áætlanir andstæðinga og geri þeim erfiðara fyrir að ráðast á flugvélar flughersins á jörðu niðri. Vaxandi ógn sé frá eldflaugum, langdrægum stýriflaugum og flaugum sem verið er að þróa til að fljúga á ofurhraða (hypersonic). Vegna ógnar frá þessum vopnum við stöðvar flughersins á stefnan í átt að “kvikari” flugher einnig við úthald orrustuþota, eldsneytisflugvéla og ratsjárflugvéla.

Dvöl sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli tengist þessari stefnu og einnig er sérstaklega bent af hálfu flughersins á að dvöl þotanna þjóni markmiðum herstjórnar NATO í Evrópu. Ennfremur hefur norðurslóðastrategía bandaríska landvarnaráðuneytisins verið nefnd í þessu samhengi.  Loks lýtur mikilvægur þáttur þess að halda tímabundið úti sprengjuþotum utan Bandaríkjanna að þjálfun og hærra viðbúnaðarstigi ásamt því að æfa með flugherjum bandamanna. B-2 flugvélarnar flugu frá Íslandi til æfinga yfir hafinu meðal annars með orrustuþotum breska og norska flughersins og með bandarískum orrustuþotum sem hafa aðsetur í herstöð á Bretlandi. 

Aðrar sprengjuþotur sem sendar eru til tímabundinnar dvalar utan Bandaríkjanna eru af gerðinni B-52 og B-1. Bandaríkjaher ræður yfir samtals tæplega 160 langdrægum sprengjuþotum. Þegar slíkar flugvélar eru gerðar út til tímabundinnar dvalar á stöðum utan Bandaríkjanna er talað um “verkefnissveit sprengjuflugvéla” (Bomber Task Force). Sveitinni sem hingað kom fylgdi 200 manna lið og flutningaflugvélar og hún fékk ennfremur stuðning bandarískra eldsneytisþota frá Bretlandi. 

Allar þrjár tegundir langdrægra sprengjuflugvéla Bandaríkjahers eru gerðar til að bera sprengjur af ýmsu tagi sem og stýriflaugar. Allar tegundirnar geta borið kjarnavopn.

Koma B-2 flugvélanna og – að því er virðist – frekari tímabundin dvöl langdrægra bandarískra sprengjuflugvéla á Íslandi í framhaldi af komu B-2 vélanna fellur að hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO vegna öryggis á meginlandi Evrópu. Hún fellur einnig að vaxandi áherslu Bandaríkjahers á norðurslóðir og loks þeirri stefnu hans um áratuga skeið – og fyrr var nefnd – að í stríði yrði langdrægum sprengjuflugvélum beitt til árása frá norðurslóðum gegn sovéska hernum og nú þeim rússneska.

Dvöl B-2 sprengjuþotanna á Keflavíkurflugvelli telst til verulegra tíðinda í öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið. Fremur lítil umfjöllun varð þó um málið og engin umræða hefur orðið – a.m.k. ekki opinberlega. 

Það sem komið hefur fram í þessari grein um komu B-2 þotanna og hvernig hún tengist áætlunum og markmiðum Bandaríkjahers og NATO er byggt á yfirlýsingum bandaríska flughersins og ummælum foringja í honum.  Af hálfu íslenskra stjórnvalda hafa að svo komnu einungis birst almenn ummæli utanríkisráðherra í frétt Morgublaðsins 8. september síðastliðinn.

„Þetta er í sam­ræmi við það sem er að ger­ast í ör­ygg­is­mál­um í Evr­ópu og hér á þessu svæði. Æfing­ar sem þess­ar hafa verið að fara fram í Evr­ópu að und­an­förnu,“ út­skýr­ir Guðlaug­ur og seg­ir að vera vél­anna hér sé hluti af gisti­ríkj­astuðningi Íslands við bandalagsþjóðir okk­ar, en vél­arn­ar æfa nú á norður­slóðum. „Það skipt­ir máli fyr­ir okk­ur að hér sé æft reglu­lega og það ör­ygg­is­net sem við reiðum okk­ur á þekki vel til aðstæðna…Okk­ar varn­ir byggj­ast fyrst og fremst á veru okk­ar í Atlants­hafs­banda­lag­inu og tví­hliða varn­ar­samn­ingi við Banda­rík­in. Þess vegna erum við með búnað og aðstöðu hér, til að taka á móti þeim aðilum sem þurfa að sinna vörn­um. Aðkoma Íslands að þess­um æf­ing­um felst fyrst og fremst í gisti­ríkj­astuðningi en starfs­fólk Land­helg­is­gæsl­unn­ar og starfs­stöðvar Atlants­hafs­banda­lags­ins á ör­ygg­is­svæðinu á Kefla­vík­ur­flug­velli kem­ur að æf­ing­unni” 

Blaðamaður Morgunblaðsins spurði: “Er þetta nýr raun­veru­leiki sem við eig­um að venj­ast? Að hér séu sprengjuflug­vél­ar við æf­ing­ar? Svar utanríkisráðherra var að „Við þekkj­um það að út af stór­aukn­um víg­búnaði á þessu svæði erum við að sjá aukn­ingu til varn­ar­mála í öll­um lönd­um sem við ber­um okk­ur sam­an við. Aukn­ing­in er mest, frá fyrri heims­styrj­öld, hjá Sví­um til dæm­is. Það sama má segja um Nor­eg og hin Norður­lönd­in. Þetta end­ur­spegl­ar þá stöðu sem er uppi. Öll lönd í Atlants­hafs­banda­lag­inu hafa stór­aukið fram­lög sín á und­an­förn­um árum. Vendipunkt­ur­inn var árið 2014 eft­ir at­b­urðina á Krímskaga.Það er raun­veru­leik­inn sem við horf­um fram á. Þetta er breytt um­hverfi og banda­lags­ríki okk­ar hafa brugðist við eins og við.”

Spurningar sem vakna

Ekki hefur verið greint frá því hvernig koma B-2 þotanna bar að íslenskum stjórnvöldum – eða hvert verði framhald mála umfram það sem ráða má af þeim upplýsingum hafa komið frá bandaríska flughernum. 

Í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands, sem hefur með öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli að gera, sagði við komu sprengjuþotanna að þær yrðu á landinu “næstu daga”. Það reyndist ríflega hálfur mánuður. Bandaríski flugherinn sagði að koma þeirra hefði lengi legið fyrir (“long-planned”) og afar ólíklegt annað en að einnig hafi verið ljóst þá að þær yrðu hér lengur en í örfáa daga.

Í viðtali Air Force Magazine við Timothy M. Ray, hershöfingja í flughernum, 25. febrúar síðastliðinn sagði að margir möguleikar varðandi tímabundna dvöl sprengjuflugvéla utan Bandaríkjanna væru í skoðun. Ekki væri unnt að fara nánar út í það fyrr en gengið hefði verið frá málum við gistiríki (“until details are worked out with host countries”).

Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja frá Bandaríkjaher má ráða að Ísland hafi fengið nýtt og aukið hlutverk í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO. 

Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki staðfest að Keflavíkurflugvöllur sé ný útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar. Þau hafa tjáð sig með öðrum og mun almennari hætti en talsmenn Bandaríkjahers um komu B-2 sprengjuþotanna til landsins.

Eftir stendur því spurning um hvort Ísland sé ný útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar bandaríska flughersins eða ekki.

Heimildir

Norðurslóðir orðnar viðfangsefni leiðtogafunda

Forsetar Bandaríkjanna og Rússlands ræddu meðal annars um norðurslóðir á fundi sínum í Genf 16. júní síðastliðinn. Í fyrsta sinn voru málefni norðurslóða á dagskrá fundar á æðsta stigi milli þessara stórvelda. Það er sögulegt og til marks um vaxandi mikilvægi svæðisins. 

Þær upplýsingar sem liggja fyrir opinberlega um hvað bar á góma um norðurslóðir komu fram á fréttamannafundum forsetanna, ítarlegast í máli Putins Rússlandsforseta.

Málefni norðurslóða virðast hafa verið rædd á Genfarfundinum að bandarísku frumkvæði. Annarsvegar mun Biden forseti hafa tekið upp aukna hernaðarlega uppbyggingu og umsvif Rússa á svæðinu. Putin svaraði því til, eins og Rússar hafa gert áður, að í grunninn væri ekkert nýtt á ferðinni – heldur væri aðallega verið að hverfa aftur til þess viðbúnaðar sem var áður á Sovéttímanum. 

Hins vegar, og það er athyglisvert, var rætt um norðurleiðina; siglingaleið sem hefur verið að opnast úti fyrir norðurströnd Rússlands vegna þess að hafís hörfar í kjölfar hlýnunar Jarðar. Lögfræðilegur ágreiningur er uppi við Rússland, og reyndar Kanada einnig, sem lýtur að því hve mikil afskipti strandríki megi hafa í lögsögu sinni af siglingum skipa frá öðrum ríkjum á leiðum sem opnast af því hafís hörfar. Á leiðtogafundinum  virðist Biden hafa haldið fram þeim málstað í þessu samhengi að norðurslóðir yrðu “frjálst svæði” (free zone). Hér var verið að horfa til meginreglna og bandarískra lykilhagsmuna á norðurslóðum til lengri tíma litið.  Norðurleiðin verður hins vegar af ýmsum ástæðum ekki til þess að breyta heimssiglingum í grundvallaratriðum og hún mun í sjálfri sér vart snerta stóra bandaríska hagsmuni (sjá nánar um þessi atriði öll í fyrri greinum á vefsíðunni meðal annars í 
Ísland og umheimurinn 2020-2050 – Annar hluti: Á norðurslóðum, 2. febrúar 2021.). 

Meginatriði er að norðurslóðir voru ekki viðfangsefni leiðtogafundarins í Genf vegna hernaðarumsvifa eingöngu heldur einnig vegna hlýnunar Jarðar á norðurslóðum. Áhrif hennar hafa þegar komið í ljós og kunna að verða svo mikil upp úr miðri öldinni að Norður-Íshaf opnist milli Atlantshafs og Kyrrahafs, sem mundi breyta í grundvallaratriðum heimsmyndinni, siglingum, alþjóðapólitík og öryggismálum. Umræðan  á leiðtogafundinum í Genf um norðurleiðina er til marks um almennt vaxandi vitund um þennan möguleika og aukinn áhuga á honum, þótt tímaramminn sé áfram mældur í áratugum.

Þá var í fyrsta sinn fjallað um norðurslóðir í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO, sem var haldinn í aðalstöðvum bandalagsins í Brussel 14. júní síðastliðinn. Í yfirlýsingunni er talað um öryggishagsmuni bandalagsins á norðurslóðum (“high north”) en með almennum og femur varfærnislegum hætti. Við því mátti búast í yfirlýsingu 30 aðildarríkja bandalags sem nær frá norður Noregi til Miðjarðarhafs. Orðalagið breytir ekki því að NATO ríki, en einkum Bandaríkin, hafa mikilla hernaðarlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og hafa haft um margra áratuga skeið. Mikilvægið fer vaxandi sem hafísinn hörfar en einnig til skemmri tíma litið vegna tiltekinna herfræðilegra og hertæknilegra þátta á norðurslóðum, sem snerta lykilatriði í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO (sjá tilvísun að ofan í grein á vefsíðunni og einnig Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands, 28. maí 2020.).

Ennfremur má geta þess að norðurslóðir voru á dagskrá leiðtogafundar ESB í desember 2019 þegar leiðtogaráð sambandsins afgreiddi norðurslóðastefnu, sem hafði verið mótuð á vettvangi framkvæmdastjórnar þess og utanríkisráðherra. Áður hafði ráðið ályktað á árunum 2014 og 2016 að norðurslóðastefna skyldi mótuð. Rétt er að nefna að ráðið tekur fram að ESB hafi ekki beina aðkomu að málefnum norðurslóða heldur sé hún á hendi norðurslóðaríkja þess, þ.e. Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, sem eru aðildarríki Norðurskautsráðsins.ReplyForward

Reykjavíkurfundur Norðurskautsráðsins – Heimsókn utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Íslands

Norðurskautsráðið byggir að segja má á sameiginlegum skilningi aðildarríkanna á skýrum hagsmunum íbúa norðurslóða á sviði loftslagsmála, mengunarmála, líffræðilegs fjölbreytileika, málefna hafsins og náttúruvár. Í grunninn er áherslan í starfi ráðsins á sjálfbæra þróun og umhverfisvernd til að vinna að velferð samfélaga á norðurslóðum og ráðið er leiðandi vettvangur fyrir samstarf, samræmingu og samráð um þessi mál milli ríkisstjórna, frumbyggja og annarra íbúa svæðisins. Í starfsemi ráðsins er sjónum í vaxandi mæli beint að loftslagsmálum því haldi hlýnun Jarðar áfram mun það hafa róttæk áhrif á á samfélög og lífskjör á norðurslóðum; og kalla á sameiginleg viðbrögð á svæðinu, sem einungis Norðurskautsráðið verður fært um að móta og samræma. Ráðið getur þannig gegnt lykilhlutverki í heimshluta sem líkur benda til að eigi eftir að fá mjög aukið vægi í heimsmálum eftir því sem líður á öldina.

Aðildarríki ráðsins eru Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Svíþjóð og Rússland. Að auki eiga fimm frumbyggjasamtök  aðild að ráðinu. Áheyrnaraðilar eru Bretland, Frakkland, Holland, Ítalía, Japan, Kína, Pólland, Spánn og Þýskaland. Ísland hefur haft formennsku í ráðinu frá 2019 en á ráðherrafundi þess í Reykjavík 19.-20. maí tekur Rússland við og hefur formennskuna með höndum til 2023.

Með stofnun Norðurskautsráðsins fyrir 25 árum var notað tækifæri sem gafst norðurslóðaríkjunum, þegar stórveldadeilur kalda stríðsins stóðu ekki lengur í vegi, til að fást sameiginlega við málefni norðurslóða og tryggja hagsmuni samfélaga þar varðandi sjálfbæra þróun og umhverfismál. Jafnframt var ákveðið að hernaðarleg öryggismál yrðu ekki þáttur í starfsemi ráðsins, enda mundu þau trufla hana. 

Að halda norðurslóðum sem “lágspennusvæði” er yfirlýst stefna allra aðildarríkja norðurskautsráðsins sem og að halda samkeppni og hernaðarlegum umsvifum stórveldanna utan við starfsemi ráðsins. Það hefur tekist þrátt fyrir afar stirð samskipti að öðru leyti milli Rússlands og annarra aðildarríkja ráðsins í kjölfar Úkrænudeilunnar 2014. 

Hvort norðurslóðir verða áfram lágspennusvæði ræðst aðallega af samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands. Þegar fram í sækir, og að því gefnu að stefni í að hlýnun Jarðar leiði til þess að Norður-Íshaf opnist, mun þróun mála einnig litast mjög af samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu og samkeppni þeirra á norðurslóðum. Til skemmri tíma litið verður gangur mála aðallega háður samkeppni Bandaríkjanna og Rússlands. 

Hernaðarlegir hagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum hafa þróast þannig í veigamiklum atriðum að leitt hefur til nýrra og aukin umsvifa þeirra á svæðinu: 

Norðurfloti Rússlands er lítill miðað við sovéska forverann. Hernaðarleg þýðing Íslands og Norður-Atlantshafs hefur minnkað af þeim sökum frá því sem var í kalda stríðinu, enda koma skip og kafbátar Norðurflotans lítið út á Norður-Atlantshaf en halda sig að mestu við forgangsverkefni í heimahöfum og nálægum svæðum, það er í norður Noregshafi, Barentshafi og Hvítahafi. 

Til að komast í tæri við Norðurflotann í eftirlits og æfingaskyni og til að undirstrika fælingarstefnu gegn Rússlandi þarf Bandaríkjaher því í vaxandi mæli að halda lengra norður en áður – inn á athafnasvæði Norðurflotans. Sömu áhrif hefur að Norðurflotinn er að taka í notkun langdrægar stýriflaugar sem gerir kleift að ná til skotmarka í Norður-Evrópu frá heimahöfum og nærliggjandi svæðum.  Þegar fram í sækir mun bæði rússneski flotinn og flugherinn ráða yfir stýriflaugum sem mundu ná til skotmarka í Evrópu og Norður -Ameríku frá skipum, kafbátum og flugvélum langt inni á Norður-Íshafi. 

Þannig hafa NATO-ríki aukinna hagsmuna að gæta í lofti og á legi lengra inni á norðurslóðum en áður líkt og ítarlega hefur verið fjallað um í fyrri greinum á þessari vefsíðu. Hernaðarleg umsvif Bandaríkjanna og eftir atvikum annarra NATO-ríkja á svæðinu hafa sem fyrr sagði breyst og aukist í takt við áðurnefnda þróun og enn hefur bæst við á síðustu vikum: 

Í fyrsta lagi fær Bandaríkjafloti samkvæmt nýlegu samkomulagi Bandaríkjanna og Noregs sérstaka aðstöðu á herflugvelli í Norður-Noregi fyrir kafbátaleitarflugvélar. Flotinn fær að byggja flugskýli og eldsneytisgeyma og leggja eldsneytiskerfi. Þetta er skýr vísbending um enn aukna áherslu Bandaríkjaflota á norður Noregshaf og Barentshaf;

í öðru lagi hafa norsk stjórnvöld ákveðið að Bandaríkin og önnur NATO ríki fái aðgang fyrir kjarnorkuknúna kafbáta að höfn skammt frá Tromsö í norður Noregi vegna áhafnaskipta og til að taka vistir og varahluti. Slíkur aðgangur sparar tíma, sem annars færi í að sigla til flotahafna í suðurhluta Noregs eða Skotlandi, og eykur tímann sem gefst til athafna á þeim stöðum í norðri þar sem Norðurflotinn heldur sig aðallega;

þá er athyglisvert að AWACS ratsjárþota NATO flaug yfir Norður-Íshafi fyrir norðan Grænland 23. mars síðastliðinn vegna loftvarnaæfingar. Flug þotunnar sést á twitter síðunni Aircraft Spots þennan dag.  Um var að ræða reglubundna æfingu á vegum NORAD (North American Aerospace Defense Command), sem er sameiginleg loftvarnaherstjórn Bandaríkjanna og Kanada. Æfingin fór fram 20.-26. mars og náði frá Alaska til Thule á Grænlandi. Þáttaka ratsjárþotu frá NATO skýrist væntanlega af því að herstjórnarsvæði Evrópuherstjórna Bandaríkjanna og NATO nær meðal annars yfir Grænland og inn á Norður-Íshaf. Orrustuþotur og eldsneytisþotur sem tóku þátt í æfingunni komu frá Bandaríkjunum og Kanada. Þess má vænta að loftvarnaviðbúnaður og æfingar nái í auknum mæli inn á Norður-Íshaf vegna fyrrnefndra langdrægra rússneskra stýriflauga og viðbragða við þeim.

Hvað varðar hagsmuni Rússlands þá hafa norðurslóðir mikla efnahagsleg þýðingu. Þegar koma um 10 prósent af þjóðartekjunum og 20 prósent af útflutningnum frá norðurslóðum – málmar, gas, olía og kol – og auðlindir á svæðinu eru lykilþáttur í væntingum og áætlunum um hagþróun í landinu.

Norðurflotinn og stöðvar hans á Kolaskaga á norðvestur Rússlandi skipta Rússa afar miklu máli. Hryggjarstykki í rússneska kjarnorkuhernum er í eldflaugakafbátum Norðurflotans. Kjarnavopn kafbátanna og öryggi þeirra lúta frá sjónarhóli stjórnvalda að tilvistarhagsmunum Rússlands og kjarnorkuherinn hefur lykilþýðingu fyrir stefnu og stöðu þess í heiminum. Endurnýjun eldflaugakafbátanna og árásarkafbáta til að gæta öryggis þeirra fyrrnefndu í Barentshafi hefur verið forgangsatriði við framkvæmd áætlunar Putin-stjórnarinnar undanfarin 15 ár um endurnýjun og uppbyggingu hersins í kjölfar margra ára vanrækslu og fjársvelti eftir fall Sovétríkjanna. 

Þó hefur Norðurflotinn minnkað mjög sem fyrr sagði og sú þróun heldur áfram í mikilvægum atriðum. Þannig er nú útlit fyrir að eldflaugakafbátar hans gætu orðið 7 talsins um 2030 (en voru 40 á árinu 1985) og að kjarnorkuknúnir árásarkafbátar, af því tagi sem geta athafnað sig á úthöfum, verði einungis 4-8 (eru nú 13-17 – næstum allir frá Sovéttímanum – en voru 75 talsins á árinu 1985). Þess ber að geta að einungis tekst, og með ærnum tilkostnaði, að halda úti helmingi kafbátanna á hverjum tíma. Herskip Norðurflotans af því tagi sem beita má á úhöfum eru orðin örfá og ekki útlit fyrir að þeim fjölgi. Hins vegar er verið að endurnýja minni skip af því tagi sem gæta heimahafa og nærsvæða þeirra. Einnig er verið að efla loftvarnir norðurslóða Rússlands. 

Þannig hafa bæði Bandaríkin og Rússland mikilvægra öryggishagsmuna að gæta á norðurslóðum og herfræðileg þróun og hagsmunir Bandaríkjanna virðast kalla á áframhaldandi aukin umsvif þeirra. Bæði stórveldin láta hvort um sig reglulega í ljós óánægju og tortryggni varðandi aukinn viðbúnað og umsvif hins. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við umsvifum Bandaríkjanna hafa harðnað að undanförnu.

Því vaknar spurning um hve lengi takist að halda stirðum samskiptum stórveldanna frá Norðurskautsráðinu og koma í veg fyrir að hún skaði starfsemi þess. Stundum kviknar umræða – einkum meðal sérfræðinga – um hvort Norðurskautsráðið eigi hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð var við stofnun þess að það haldi sig frá því hermálum. Skoðanir virðast gjarnan skiptast í tvö horn, annarsvegar að ráðið verði að láta hernaðarleg mál til sín taka af því spenna og hernaðarleg umsvif fari vaxandi; hinsvegar að með því muni opnast “askja Pandóru” það er uppspretta deilna og vandræða sem á endanum komi í veg fyrir að ráðið geti sinnt þeim verkefnum sem því var falið í byrjun og skipti afar miklu fyrir íbúa norðurslóða.

Fyrir Úkrænudeiluna átti sér árlega stað formlegt samráð ríkjanna sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu þar sem hermál og öryggismál voru rædd. Þessi vettvangur, sem var utan við ráðið, var lagður niður að frumkvæði NATO í kjölfar versnandi samskipta við Rússland vegna Úkrænudeilunnar. Rússnesk stjórnvöld tala fyrir því að slíku samráði verði aftur komið á.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, munu funda í Reykjavík um samskipti ríkjanna meðan á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Það verður fyrsti tvíhliða fundur svo háttsettra fulltrúa Bandaríkjanna og Rússlands eftir að Biden forseti tók við í janúar og yrði væntanlega mikilvægur liður í undirbúningi fyrir líklegan fund Bidens og Putins, Rússlandsforseta, í júní. Almennt virðast ekki uppi væntingar um að samskipti Rússlands og Bandaríkjanna geti batnað í grundvallaratriðum, hvorki í bráð né lengd. 

Blinken kemur við í Kaupmannahöfn á leið á Norðurskautsráðsfundinn í Reykjavík. Í Kaupmannahöfn á Blinken fundi með utanríkisráðherra Grænlands og utanríkisráðherra Færeyja, auk þess auðvitað að hitta danska ráðamenn. Frá Reykjavík heldur Blinken til Grænlands til frekari viðræðna við þarlenda ráðamenn. Það er því greinilega áfram aukin áhersla í stefnu Bandaríkjanna á norðurslóðir, líkt og var hjá Trump stjórninni.  Áhugavert verður að sjá hvað ferðir Blinkens nú til norðurslóðalanda leiða í ljós um helstu áhrifaþætti í stefnu Biden stjórnarinnar í málefnum svæðisins; að hve miklu leyti stefnan tekur mið af af umhverfismálum og að hve miklu leyti af hernaðarlegum hagsmunum.

Hvað varðar fundi Blinkens með íslenskum ráðamönnum verður einkum áhugavert að sjá hvað kemur fram um áhrif aukins vægis norðurslóða í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á tvíhliða samskiptin við Ísland – í öryggismálum og viðskiptamálum. Einnig hvort Blinken viðrar svipaðar áhyggjur af Kína almennt og á norðurslóðum sérstaklega og þeir Pence, varaforseti Trumps, og Pompeo, utanríkisráðherra, gerðu í Íslandsheimsóknum 2019. 

Loftslagsmál verða vafalaust ofarlega á baugi bæði á tvíhliða fundum og á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Ráðið skiptir miklu varðandi rannsóknir á hlýnun Jarðar og viðbrögð við henni á norðurslóðum, en hefur jafnframt lítið með það að gera að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Ísland og Bandaríkin eiga það sameiginlegt (með næstum öllum ríkjum heims) að mjög langt er í land með að þau nái yfirlýstum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, hvað þá að fullnægi markmiðum Parísarsamningsins um loftslagsmál.

Að öðru leyti er himinn og haf milli Íslands og Bandaríkjanna í loftslagsmálum, af þeirri ástæðu að hlutfall endurnýjanlegrar orku Bandaríkjunum er rúm 10 prósent en um 80 prósent á Íslandi. Þetta mjög háa hlutfall á Íslandi þýðir meðal annars, líkt og fjallað hefur verið um í fyrri greinum á þessari vefsíðu, að Íslendingar eiga dýrari og færri kosti til að minnka losun en á við Bandaríkin og flest önnur ríki í því efni, þótt þeirra kostir séu auðvitað einnig erfiðir.

Ísland og umheimurinn 2020-2050 Fjórði hluti: forsendur utanríkismálanna

Eftirfarandi samantekt er gerð í kjölfar greina á undanförnum vikum á vefsíðunni um Ísland og umheiminn 2020-2050, og byggir samantektin að mestu á því sem þar kemur fram. Fyrsta greinin fjallaði um Ísland í nýrri heimsmynd, önnur var um þróun mála á norðurslóðum og áhrif hennar á utanríkismálin og hin þriðja um áhrif loftslagsmála á samskipti Íslands við umheiminn.

Loftslagsmálin geta orðið stærsta utanríkismálið og þá sakir þess að illa gangi að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Til að breyta því þurfa þessi mál að ná miklum pólitískum skriðþunga, eða umbylting að verða í orkubúskap mannkyns. Ekkert er útilokað í þessum efnum, en flest bendir þó enn til að Ísland og mörg önnur ríki eigi þegar fram í sækir eftir að standa frammi fyrir afar krefjandi kostum í samskiptum við umheiminn vegna loftslagsmála. 

Þar á meðal er að íslensk stjórnvöld þurfi að taka afstöðu í viðskiptadeilum, sem eru á uppsiglingu á alþjóðavettvangi vegna þess að loftslagsmál snerta náið samkeppnishæfni ríkja. 

Vegna þess hve hlutfall endurnýjanlegrar orku er hátt á Íslandi eru færri raunhæfir og hagkvæmir kostir þar en í öðrum ríkjum til að minnka losun. Því má gera ráð fyrir að Ísland standi fyrr en þau frammi fyrir erfiðum kostum í loftslagsmálum og samskiptum við önnur ríki.

Einn slíkur verður að ákveða hvort kaupa eigi losunarheimildir fyrir háar fjárhæðir á alþjóðlegum markaði til að reyna að ná settum markmiðum. 

Ennfremur þarf að gera ráð fyrir að á einhverju stigi kunni að þurfa að ákveða hvort halda eigi áfram aðgerðum eða draga úr þeim sakir sívaxandi kostnaðar samfélagsins og lítils árangurs í loftslagsmálum á heimsvísu.

Ísland á í sérstöku samstarfi við önnur EES-ríki í loftslagsmálum, þótt hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi sé margfalt hærra en í þessum samstarfsríkjum. 

Því kann að koma til þess að taka þurfi afstöðu til hvort halda eigi áfram samstarfi við hin EES-ríkin eða hverfa til áherslu á íslenska sérstöðu og vísa til hennar í því skyni að reyna að komast hjá kostnaði og deilum við þessi og jafnvel fleiri ríki.

Heimsmyndin hefur breyst í grundvallaratriðum. Þungamiðja alþjóðakerfisins er ekki lengur á Evró-Atlantshafssvæðinu, heldur á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Evrópa og ESB hafa þannig minnkandi vægi, pólitískt og efnahagslega, en Bandaríkin eru áfram risaveldi og lykilaðili á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. ESB er enn fjarri þeim samruna sem þarf til að styrkja stöðu þess á alþjóðavettvangi og óljóst hvort það tekst en til þess þarf ESB að verða í grunninn sambandsríki.

Ísland er því á jaðri svæðis, Evró-Atlantshafssvæðisins, sem er undirkerfi í alþjóðamálum. Þetta er önnur staða en á 20. öld þegar þungamiðja þeirra lá á Evró-Atlantshafssvæðinu og Ísland tengdist henni náið af geópólitískum og herfræðilegum ástæðum sem hurfu með kalda stríðinu.

Ísland fær ekki aftur þá stöðu varðandi hagsmunagæslu, sem hernaðarlegt mikilvægi landsins veitti á stundum í kalda stríðinu. 

Þegar haldið er fram að mikilvægi Íslands hafi aukist á ný í tengslum við aukin hernaðarumsvif Rússa, einkum kafbátaumferð þeirra, á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, þá þarf að setja það í samhengi við að umsvifin voru engin á Norður-Atlantshafi um margra ára skeið eftir fall Sovétríkjanna. Þótt rússnesk umsvif á svæðinu hafi aukist úr engu eru þau lítil og flest bendir til að svo verði áfram. 

Norðurslóðir skipta strategískt meira máli en Norður-Atlantshaf, en Ísland fær ekki þá hernaðarlegu þýðingu vegna norðurslóða, sem það hafði í kalda stríðinu vegna legu þess á Norður-Atlantshafi. Ísland liggur að segja má mun sunnar en áður vegna herfræðilegra þátta sem snúa að Rússlandsher og landið verður enn sunnar í þessu efni haldi heimsskautsísinn áfram að hörfa. 

Það eru því litlar líkur á að aftur komi til fastrar viðveru Bandaríkjahers á Íslandi á friðartímum.

Bandaríkjaher sækir meira en áður inn á norðurslóðir af herfræðilegum og hertæknilegum ástæðum sem tengjast þróun í Rússlandsher og sakir þess að heimskautsísinn hörfar. Öryggishagsmunir Rússlands og umsvif á svæðinu eru hinsvegar þekkt og breytast ekki í grundvallaratriðum.

Átök milli Rússlands og NATO eru ólíkleg. Ísland á áfram almenna öryggishagsmuni með Bandaríkjunum, sem lúta að friði og stöðugleika í Evrópu. Stefna Bandaríkjahers á norðurslóðum tengist fælingarstefnu NATO gegn Rússlandi á meginlandinu. Ísland hefði hlutverki að gegna kæmi til hernaðaraðgerða af hálfu Bandaríkjanna í norðurhöfum, en það yrði mun veigaminna en áður.

Rússar eru sagðir vera að þróa kjarnorkuknúið tundurskeyti sem bæri kjarnorkusprengju og drægi neðansjávar frá norðurslóðum til árása á austurströnd Bandaríkjanna. Vopnið, sem einnig yrði hjá Rússlandsflota á Kyrrahafi, er talið verða tilbúið innan tíu ára. Hugsanlegt er að viðbrögð Bandaríkjahers leiði meðal annars til áætlana um að reyna að granda slíkum tundurskeytum á leið þeirra suður Atlantshaf í GIUK hliðinu svonefnda milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands. Þótt þetta mál kunni að virðast með ólíkindum er ástæða til að fylgjast með því.

Bandaríkin eru skuldbundin til að verja Ísland og einungis flugher Bandaríkjanna hefur næga burði til að halda uppi loftrýmisgæslu á Íslandi á hættutíma. Varnarsamstarf við Evrópuríki NATO og loftrýmisgæsla sem þau hafa innt af hendi undanfarinn áratug hefur takmarkað gildi hvað varðar beinar varnir landsins.

Á hættutíma mundi loftrýmisgæsla reyndar ekki beinast gegn rússneskum herflugvélum því þær gætu sent stýriflaugar á skotmörk á Íslandi frá stöðum í allt að 3000 kílómetra fjarlægð, og því augljóslega fjarri ratsjám og loftvörnum á landinu. Flugþol rússneskra stýriflauga fer enn vaxandi. Þeim má einnig skjóta frá kafbátum og herskipum langt í norðri frá Íslandi. Varnir gegn stýriflaugum eru torveldar eftir að þær eru sendar af stað til skotmarka. Skásti kosturinn er að grípa til varna tiltölulega nálægt líklegum skotmörkum en jafnvel þá er erfitt að verjast flaugunum sem fljúga undir ratsjárgeislum og gjarnan eftir krókaleiðum.

Auk þess að öryggi Íslands hefur verið tryggara en áður eftir kalda stríðið hefur gengið afar vel efnahagslega þegar litið er á tímabilið í heild. Ísland býr að sterkri stöðu hvað varðar aðgang að mörkuðum, eftirsóttar útflutningsvörur og áhuga ferðamanna á að heimsækja landið. 

Ísland mun (eins og önnur Evró-Atlantshafsríki) horfa í vaxandi mæli á Asíu-Kyrrahafssvæðið í utanríkisviðskiptum til að auka verðmæti útflutningsvara og fá hærra verð fyrir ferðaþjónustu. Hlutdeild þessa svæðis – hinnar nýju þungamiðju heimsins – í íslenskum utanríkisviðskiptum er líkleg til að vaxa verulega. Þar verða einnig aukin tækifæri til að finna nýja samstarfsaðila og fjárfesta þar á meðal á nýsköpunar-  og tæknisviði.

Gera verður ráð fyrir að Ísland þurfi á næstu árum og áratugum að taka afstöðu til ýmissa deilumála sem lúta að harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjanna. Stundum kann niðurstaðan að vera augljós vegna skýrra hagsmuna og grundvallarreglna, í öðrum tilvikum kann að vera möguleiki fyrir Ísland að standa á hliðarlínunni, í enn öðrum leyfir hagsmunamat ef til vill ekki slíkt svigrúm.

Miklu getur skipt að utanríkisviðskiptin verði ekki um of háð Kínamarkaði og að ekki verði síður sótt á aðra vaxandi markaði í Asíu en þann kínverska. Ísland mun þurfa að taka afstöðu til deilumála í harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og það eru meiri líkur en minni á að Ísland standi með Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum fremur en með Kína. Það getur leitt til refsisaðgerða af Kína hálfu gegn Íslandi.

Eiginleg samkeppni Kína og Bandaríkjanna á norðurslóðum er enn ekki til staðar, en samkeppni þeirra á heimsvísu hefur skilað sér þangað. Það hefur þó hingað til aðallega birst í bandarískum yfirlýsingum að því að virðist til að minna Kínverja á að Ísland og Grænland eru á bandarísku áhrifasvæði.

Ef og þegar stefndi ákveðið í að Norður-Íshaf opnaðist vegna bráðnunar mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þess meðal annars birtast með mjög auknum áhuga Kína og Bandaríkjanna á Íslandi, sem og þrýstingi af þeirra hálfu. 

Aukinn áhugi stórveldanna tveggja á norðurslóðum og hugsanlegir miklir framtíðarhagsmunir þeirra þar kunna að veita Íslandi meira svigrúm í utanríkismálum en ella væri. Eftir að samkeppnin næði beinlínis til norðurslóða kynni svigrúmið á einhverju stigi að minnka af því Bandaríkin mundu eftir þörfum reyna að auka þrýsting á Ísland.

Líkur á að norðurslóðir yrðu áfram “lágspennusvæði”, sem er markmið íslenskra stjórnvalda, færu auðvitað minnkandi ef stórveldasamkeppni yxi á svæðinu.

Jaðarstaða Íslands í alþjóðakerfinu breytist augljóslega nái hlýnun Jarðar af mannavöldum því stigi að Norður-Íshaf opnist yfir pólinnn og bein tenging verði þar um norðurslóðir milli Evró-Atlantshafs og þungamiðju alþjóðakerfisins á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Þar yrði svonefnd norðurskautsleið.

Hugsanlegt er, en ekki víst, að Ísland gæti eftir nokkra áratugi orðið mikilvægur staður fyrir umskipun og aðra þjónustu við siglingar á norðurskautsleiðinni.