Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands

Hinn 4. maí síðastliðinn sigldu þrír bandarískir tundurspillar og bresk freigáta ásamt birgðaskipi úr Bandaríkjaflota inn á Barentshaf. Bandarísk herskip höfðu ekki komið þangað frá því um miðjan níunda áratuginn. Þann 1. maí höfðu bandarísku og bresku skipin æft gagnkafbátahernað í norður Noregshafi vestur af Tromsö ásamt bandarískri eftirlits og kabátaleitarflugvél og bandarískum kafbáti.

Yfirlýst markmið með leiðangrinum í Barentshaf var að sýna áhuga Bandaríkjanna og Bretlands á norðurslóðum, undirstrika frelsi til siglinga þar, sýna flaggið eins og sagt er, sem og að æfa og þjálfa við aðstæður í norðri. Skipin sigldu til baka úr Barentshafi 8. maí.

Leiðangurinn felur í sér enn eina vísbendingu á undanförnum árum um hvernig hernaðarleg þungamiðja á Atlantshafi færist miklu norðar en áður. Jafnframt breytist hernaðarleg staða Íslands og hlutverk, þar á meðal varðandi eftirlit og kafbátaleit með flugvélum. Eftirliti yfir norður Noregshafi og Barentshafi verður einkum sinnt frá norður Noregi en einnig virðist Skotland hafa hlutverki að gegna.

Vægi Íslands og GIUK-hliðsins svonefnda (hafsvæðin milli Grænlands, Íslands, Færeyja, og Bretlands) minnkar vegna tveggja stórra áhrifaþátta, sem færa þungamiðjuna norðar. Í fyrsta lagi er Norðurfloti Rússlands of lítill til að ógna hagsmunum NATO á úthafinu. Engar líkur eru á að það breytist. Þvert á móti. Norðurflotinn kemur lítið út á Atlantshaf, enda verður hann að beina takmörkuðum styrk að því að sinna forgangsverkefninu, sem er að verja mikilvægan hluta kjarnorkuherstyrks Rússlands í kabátum i Barentshafi. Í öðru lagi hafa komið til sögu hjá Norðurflotanum langdræg vopn sem annars vegar valda því að hann þarf miklu síður að sækja út á Atlantshaf og hins vegar því að þýðing Barentshafs og norður Noregshafs eykst verulega fyrir NATO (um þetta var ítarlega fjallað hér á vefsíðunni í pistli 29. janúar 2020).

Þrátt fyrir lok kalda stríðsins og fall Sovétríkjanna 1991 héldu Rússar áfram úti í Barentshafi kafbátum búnum langdrægum eldflaugum sem bera kjarnaodda. Það lýtur að grundvallarhagsmunum Rússlands. Af þeim sökum eru varnir Barentshafs forgangshlutverk Norðurflotans rússneska sem hefur bækistöðvar á Kolaskaga.

Í kalda stríðinu miðaði sovéski Norðurflotinn við að í stríði yrðu framvarnir úti á Norður Atlantshafi við GIUK-hliðið svonefnda milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands. Nú hefur rússneski Norðurflotinn takmarkaða burði til þess enda miklu minni en sovéski forverinn.

Norðurflotinn kemur því í litlum mæli út á Atlantshaf. Kafbátar hans hafa verið þar í aðeins örfá skipti á undanförnum árum. Ofansjávarflotinn er ekki úthafsfloti nema að litlu leyti. Í honum eru aðallega skip af smærri gerðum til verndar heimahöfum. Af þessum sökum má ætla að Norðurflotinn geri fremur ráð fyrir framvörnum Barentshafs í norðanverðu Noregshafi en við GIUK-hliðið. Til marks um það er að í ágúst 2019 æfði hann á því svæði vestur af Tromsö. Þá fór stærsta kafbátaæfing hans í mörg ár fram á svipuðum slóðum í október-nóvember það ár og reyndar einnig enn norðar í “hliði” milli Bjarnareyjar og norður Noregs. Bresk-bandaríska æfingin 1. maí, sem fyrr var getið, var einmitt haldin í norður Noregshafi vestur af Tromsö. 

Annað sem veldur því að hernaðarleg þungamiðja færist langt norður fyrir Ísland og GIUK hliðið er að Norðurflotinn er að byrja að taka í notkun langdrægar stýriflaugar af svonefndri Kalibr gerð í herskipum og kafbátum. Það mun auka verulega hernaðarþýðingu norðurslóða, gefa þeim nýtt og stóraukið hlutverk varðandi hernaðarjafnvægið í Evrópu. Það ræðst af því að nýju flaugarnar geta náð til skotmarka á meginlandinu frá skipum og kafbátum í norðanverðu Noregshafi og Barentshafi. Það hefði mikla hernaðarlega þýðingu færi svo ólíklega að til átaka kæmi milli NATO og Rússlands. Jafnframt eykst mikilvægi þessara svæða fyrir NATO sem þyrfti í átökum enn frekar en áður að geta sótt inn á þau til þess meðal annars að ná til herskipa og kafbáta sem bæru stýriflaugarnar.

Í pistli á þessari vefsíðu í janúar síðastliðnum var meðal annars fjallað um framangreinda þróun alla. Þar kom fram að hennar vegna “…yrði floti Bandaríkjanna og flotar annarra NATO ríkja að búa sig undir að geta barist enn lengra í norðri en áður til að koma í veg fyrir ógn frá hinum nýju flaugum Norðurflotans.  Eftir því sem sækja þyrfti lengra inn á meginathafnasvæði hans og heimahöf ykist auðvitað áskorun og áhætta NATO flotans. Geta flota NATO ríkjanna til að berjast við Norðurflotann langt norður í höfum yrði að vera sýnileg og trúverðug til að styrkja fælingarstefnu NATO gagnvart Rússlandi.” Ályktunin var að “Samkvæmt því má búast við auknum umsvifum og æfingum herja NATO ríkja á norðurslóðum.”  Herskipaleiðangurinn í Barentshaf styður þá ályktun.

Ísland gegnir áfram almennu hlutverki varðandi liðsflutninga í lofti til Evrópu og stuðning við sókn NATO norður fyrir GIUK-hliðið og upp Noregshaf í hugsanlegum átökum á norðurslóðum, en þungamiðja aðgerða yrði langt fyrir norðan landið af fyrrnefndum ástæðum. Viðbúnaður á Íslandi yrði miklu minni á hættutíma eða í átökum, en gert var ráð fyrir í kalda stríðinu. Það sést meðal annars af forsendum í áætlunum bandaríska flughersins um viðhald og endurnýjun flughlaða á Keflavíkurflugvelli.

Það er áhugavert frá íslensku sjónarhorni að flugvélar frá Keflavíkurflugvelli tóku hvorki þátt í æfingunni í norður Noregshafi né leiðangrinum í Barentshaf, heldur að því er virðist flugvélar frá stöðvum á Bretlandi og í Noregi (reyndar hafa bandarískar eftirlits og kafbátaleitarflugvélar ekki verið á Keflavikurflugvelli á þessu ári frá því í fyrrihluta janúar).

Þann 4. maí flaug bandarísk kafbátaleitarflugvél af gerðinni P-8 til Barentshafs frá herstöð við Mildenhall á Bretlandi. Það er eina staðfesta ferð bandarískrar kafbátaleitarflugvélar til Barentshafs á þeim tíma, sem bresk-bandarísku herskipin voru á ferðinni (Mil Radar, 1. maí, 2020 – https://twitter.com/MIL_Radar/status/1256295563198435334) Þó má telja víst að slíkar flugvélar hafi verið með í för allan tímann eða því sem næst, ýmist frá Bretlandi eða norður Noregi.

Það kemur ekki á óvart að Keflavíkurflugvöllur hafi ekki verið notaður, enda sést þegar horft er á landakortið að Ísland er bæði sunnarlega og vestarlega miðað við norður Noregshaf og enn vestar miðað við Barentshaf. En fleira kemur til.

Bretar eru að byrja að taka í notkun sveit P-8 eftirlits og kafbátaleitarflugvéla sem verður staðsett í herstöð breska flughersins við Lossiemouth í Skotlandi og þar verða sérstaklega byggð flugskýli og öll nauðsynlega aðstaða að öðru leyti fyrir starfsemi og viðhald P-8 flugvéla. Bandarískar P-8 flugvélar nota Lossiemouth og virðast yfirleitt koma þangað frá Sigonella á Sikiley, þar sem um áratuga skeið hefur verið bækistöð bandarískra kafbátaleitarflugvéla og síðasta áratuginn sú eina í Evrópu. Bandarísku vélarnar hafa tímabundna viðveru í Lossiemouth meðan þær fljúga þaðan í eftirlitsferðir og til æfinga, og halda svo aftur til Sigonella. Nú er verið að endurnýja flugbrautir í Lossiemouth og líklegt að þess vegna hafi Mildenhall stöðin verið notuð, en ekki Lossiemouth, vegna bresk-bandarísku æfingarinnar í Noregshafi og leiðangursins í Barentshaf.

Samningur hefur verið gerður milli Breta og Bandaríkjamanna um samstarf í Lossiemouth og varðandi eftirlit á Norður Atlantshafi. Einnig hefur verið gerður samningur milli þessara aðila og norska hersins um samstarf við eftirlit, en Norðmenn eru líkt og Bretar að kaupa P-8 þotur. Þær verða staðsettar á herflugvelli við Evenes frá og með 2021 og þar verður aðstaða fyrir vélar af þessu tagi líkt og í Lossiemouth. Samstarfssamningarnir fela í sér að P-8 flugvélar þessara þriggja ríkja geta nýtt aðstöðu sem komið hefur verið upp fyrir P-8 flugvélar í Lossiemouth stöðinni, í Evenes stöðinni og á Keflavíkurflugvelli.

Evenes er skammt fyrir sunnan flugvöllinn í Andoya sem bandarískar kafbátaleitarflugvélar hafa notað tímabundið á undanförnum árum og þar hafa slíkar flugvélar norska hersins einnig verið staðsettar. Gera má ráð fyrir að Bandaríkjafloti muni í framtíðinni nota Evenes fyrir P-8 flugvélar eftir þörfum líkt og í Lossiemouth. Þá er þess að vænta eftir að norski herinn tekur P-8 vélar í notkun á árinu 2021 að hann sinni miklu af eftirliti NATO ríkja í norðurhöfum.

Það er álíka löng leið í lofti frá Íslandi og frá Skotlandi til norður Noregshafs og Barentshafs. Frá Andoya er auðvitað miklu styttra til þessara svæða en frá Íslandi eða Skotlandi og sama á við Evenes þegar aðstaðan þar verður tekin í notkun.

Af þessum ástæðum öllum er líklegt og eðlilegt að bandarískar kafbátaleitarflugvélar noti yfirleitt Evenes, og stundum Lossiemouth, vegna eftirlits á hafinu á norðurslóðum fremur en Keflavíkurflugvöll. Flugvélar frá honum komi til leiks ef rússneskir kafbátar eða herskip koma suður og vestur í Atlantshaf. Þannig hefur það verið í þau fáu skipti á undanförnum árum þegar rússneskir kafbátar hafa farið út á Atlantshaf. Þá hafa bandarískar kafbátaleitarflugvélar hafið eftirför frá Andoya og flutt sig til Keflavíkurflugvallar þegar kafbátarnir hafa haldið sunnar og inn á svæði við Ísland.

Þegar bandarísku og bresku herskipin stefndu inn í Barentshaf í byrjun maí hóf rússneski Norðurflotinn að fylgjast með þeim, fyrst með eftirlits og kafbátaleitarflugvélum af gerðinni Tu-142 sem flugu út á Noregshaf. Rússum var tilkynnt um gagnkafbáaæfinguna 1. maí og siglingu skipanna inn í Barentshaf og rússneski herinn fylgdi þeim að eigin sögn eftir í Barentshafi.

Bandaríkjamenn sendu eina njósna- (reconnaisance)fugvél af gerðinni RC-135 frá Mildenhall herstöðinni til Barentshafs 4. maí og breski herinn sendi þangað samskonar flugvél, sem þeir nefna Sentinel, hinn 5. maí frá herstöð við Waddington. Þessar tvær ferðir eru staðfestar (Mil Radar, 4. maí 2020 – https://twitter.com/MIL_Radar/status/125741935974983680 og 5. maí, 2020 – https://twitter.com/MIL_Radar/status/1257763673629700099) en afar líklegt er að fleirir njósnaferðir hafi verið farnar. Þegar bresk-bandaríska flotadeildin sigldi inn á Barentshaf brugðust Rússar auðvitað við eins og fyrr sagði. Það felur í sér ferðir rússneskra herskipa, kafbáta og flugvéla, sem hefur í för með sér mikið af fjarskiptum af margskonar tagi. Könnunarflugvélar eins og RC-135 og Sentinel eru meðal annars sérstaklega gerðar til að fylgjast með slíkum viðbrögðum og greina þau. Ekki er ólíklegt að einn tilgangur með leiðangrinum inn í Barentshaf hafi einmitt verið að fá tækifæri til þeirra hluta.

Greinin tengist eftirfarandi fyrri pistlum á vefsíðunni:

Er aukin samkeppni stórvelda á norðurslóðum? – 29. janúar 2020.

Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland – 2, apríl 2019.

Bandaríski flugherinn hyggur á framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir tæpa sjö milljarða króna – 13. mars 2019.

Heræfingin Trident Juncture 2018 og hernaðarleg þýðing norðurslóða – 14.október 2018.

Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma – 4. mars 2018.

Heimildir

One thought on “Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands

  1. Pingback: Ísland og umheimurinn 2020-2050 – Alþjóðamál og utanríkismál

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s