| Forsetar Bandaríkjanna og Rússlands ræddu meðal annars um norðurslóðir á fundi sínum í Genf 16. júní síðastliðinn. Í fyrsta sinn voru málefni norðurslóða á dagskrá fundar á æðsta stigi milli þessara stórvelda. Það er sögulegt og til marks um vaxandi mikilvægi svæðisins.
Þær upplýsingar sem liggja fyrir opinberlega um hvað bar á góma um norðurslóðir komu fram á fréttamannafundum forsetanna, ítarlegast í máli Putins Rússlandsforseta.
Málefni norðurslóða virðast hafa verið rædd á Genfarfundinum að bandarísku frumkvæði. Annarsvegar mun Biden forseti hafa tekið upp aukna hernaðarlega uppbyggingu og umsvif Rússa á svæðinu. Putin svaraði því til, eins og Rússar hafa gert áður, að í grunninn væri ekkert nýtt á ferðinni – heldur væri aðallega verið að hverfa aftur til þess viðbúnaðar sem var áður á Sovéttímanum.
Hins vegar, og það er athyglisvert, var rætt um norðurleiðina; siglingaleið sem hefur verið að opnast úti fyrir norðurströnd Rússlands vegna þess að hafís hörfar í kjölfar hlýnunar Jarðar. Lögfræðilegur ágreiningur er uppi við Rússland, og reyndar Kanada einnig, sem lýtur að því hve mikil afskipti strandríki megi hafa í lögsögu sinni af siglingum skipa frá öðrum ríkjum á leiðum sem opnast af því hafís hörfar. Á leiðtogafundinum virðist Biden hafa haldið fram þeim málstað í þessu samhengi að norðurslóðir yrðu “frjálst svæði” (free zone). Hér var verið að horfa til meginreglna og bandarískra lykilhagsmuna á norðurslóðum til lengri tíma litið. Norðurleiðin verður hins vegar af ýmsum ástæðum ekki til þess að breyta heimssiglingum í grundvallaratriðum og hún mun í sjálfri sér vart snerta stóra bandaríska hagsmuni (sjá nánar um þessi atriði öll í fyrri greinum á vefsíðunni meðal annars í Ísland og umheimurinn 2020-2050 – Annar hluti: Á norðurslóðum, 2. febrúar 2021.).
Meginatriði er að norðurslóðir voru ekki viðfangsefni leiðtogafundarins í Genf vegna hernaðarumsvifa eingöngu heldur einnig vegna hlýnunar Jarðar á norðurslóðum. Áhrif hennar hafa þegar komið í ljós og kunna að verða svo mikil upp úr miðri öldinni að Norður-Íshaf opnist milli Atlantshafs og Kyrrahafs, sem mundi breyta í grundvallaratriðum heimsmyndinni, siglingum, alþjóðapólitík og öryggismálum. Umræðan á leiðtogafundinum í Genf um norðurleiðina er til marks um almennt vaxandi vitund um þennan möguleika og aukinn áhuga á honum, þótt tímaramminn sé áfram mældur í áratugum.
Þá var í fyrsta sinn fjallað um norðurslóðir í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO, sem var haldinn í aðalstöðvum bandalagsins í Brussel 14. júní síðastliðinn. Í yfirlýsingunni er talað um öryggishagsmuni bandalagsins á norðurslóðum (“high north”) en með almennum og femur varfærnislegum hætti. Við því mátti búast í yfirlýsingu 30 aðildarríkja bandalags sem nær frá norður Noregi til Miðjarðarhafs. Orðalagið breytir ekki því að NATO ríki, en einkum Bandaríkin, hafa mikilla hernaðarlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og hafa haft um margra áratuga skeið. Mikilvægið fer vaxandi sem hafísinn hörfar en einnig til skemmri tíma litið vegna tiltekinna herfræðilegra og hertæknilegra þátta á norðurslóðum, sem snerta lykilatriði í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO (sjá tilvísun að ofan í grein á vefsíðunni og einnig Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands, 28. maí 2020.).
Ennfremur má geta þess að norðurslóðir voru á dagskrá leiðtogafundar ESB í desember 2019 þegar leiðtogaráð sambandsins afgreiddi norðurslóðastefnu, sem hafði verið mótuð á vettvangi framkvæmdastjórnar þess og utanríkisráðherra. Áður hafði ráðið ályktað á árunum 2014 og 2016 að norðurslóðastefna skyldi mótuð. Rétt er að nefna að ráðið tekur fram að ESB hafi ekki beina aðkomu að málefnum norðurslóða heldur sé hún á hendi norðurslóðaríkja þess, þ.e. Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, sem eru aðildarríki Norðurskautsráðsins.
ReplyForward | |