Heræfingin Trident Juncture 2018 og hernaðarleg þýðing norðurslóða

Heræfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, verður haldin á næstu vikum, aðallega í Noregi og Noregshafi, en í  aðdraganda æfingarinnar þar verða þrjár minni æfingar á Íslandi.

Ef svo ólíklega færi að til átaka kæmi milli Rússlands og NATO mætti búast við árás á Noreg því Rússum yrði í mun að koma í veg fyrir að frá Noregshafi og Norður Noregi mætti ráðast gegn eldflaugakafbátum Norðurflotans í Barentshafi og stöðvum hans á Kolaskaga. Þessir eldflaugakafbátar bera langdrægar kjarnaflaugar og hafa í áratugi verið hryggjarstykki í kjarnorkuherstyrk Rússland.

Trident Juncture 2018 minnir að mörgu leyti á heræfingar á níunda áratugnum vegna varna Noregs og áætlana NATO um að sækja í stríði norður Noregshaf til árása á sovéska norðurflotann. Markmiðið með þeirri stefnu var, auk þess að verja Noreg, að halda Norðurflotanum uppteknum við að verja eldflaugakafbáta í Barentshafi og hafnir og flugvelli á Kolaskaga. Það átti meðal annars að létta á herjum NATO gegn ofurefli Sovétríkjanna og bandamanna þeirra á meginlandi Evrópu. Þetta varð mikilvægur þáttur í fælingarstefnu NATO gegn Sovétríkjunum. Nú eru aðstæður allt aðrar á meginlandinu og rússneski flotinn miklu minni en sá sovéski var. Flotastyrkur NATO ríkjanna er einnig mun minni en í kalda stríðinu. Hins vegar og líkt og þá er kjarnavopnajafnvægið milli Bandaríkjanna og Rússlands áfram lykilatriði varðandi hernaðarlega þýðingu norðurslóða og hugsanleg átök þar.  Af þessum ástæðum hafa Norður Noregur og Noregshaf sem fyrr hernaðarlega þýðingu og vægi í fælingarstefnu NATO gegn Rússlandi. Ísland tengist þeirri stöðu.

 

Á leiðtogafundi NATO 2014 var ákveðið að fjölga heræfingum á vegum bandalagsins og stækka þær, meðal annars til að gera herstyrk þess og æfingar sýnilegri en ella, væntanlega til að efla fælingargildi þeirra. Á þessum tíma höfðu samskipti við Rússland versnað mjög í kjölfar Úkrænudeilunnar.

Fyrsta Trident Juncture æfingin var haldin haustið 2015 aðallega á og yfir hafsvæðum við Portúgal, Spán og Ítalíu og tóku þátt í henni um 36.000 manns.

Trident Juncture 2018 fer fram á Íslandi á tímabilinu 16.-21. október og í Noregi 25. október til 23. nóvember. Í æfingunni taka þátt um fimmtíu þúsund hermenn og borgaralegir sérfræðingar frá meira en þrjátíu aðildarríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum, þar á meðal Svíþjóð og Finnlandi.  Langstærstur hluti æfingarinnar á sér stað í Noregi. Gert er ráð fyrir að 150 flugvélar, 60 skip og 10.000 farartæki taki þátt og verður þetta stærsta heræfing í Noregi frá því á níunda áratug síðustu aldar og stærsta æfing NATO síðan 2015. Meðal herskipa í æfingunni verður bandaríska flugvélamóðurskipið Harry S. Truman en bandarískt flugvélamóðurskip hefur ekki komið á þessar slóðir síðan 1987.

Trident Juncture 2018 hefur verið í undirbúningi frá hausti 2014 þegar norsk stjórnvöld buðust til að vera gestgjafar æfingarinnar, en hún er talin munu kosta norska herinn jafnvirði rúmlega tíu milljarða íslenskra króna.  Æfingin veitir tækifæri til að æfa saman herlið NATO ríkja og til að æfa á norðlægum slóðum meðal annars í kulda og torfæru landslagi. Afar mikilvægur þáttur er að láta reyna á getu Norðmanna til að taka á móti herliði, birgðum og hergögnum frá öðrum bandalagsríkjum. Einnig verða beinlínis æfðar varnir gegn árás frá aðila, sem kallast „norðurherinn“ (northern force)  á landi á Noreg og fer sá hluti æfingarinnar fram 25. október til 7. nóvember suður af Þrándheimi og í Heiðmörk inni í landi.  Á hafinu verða varnir æfðar einkum í Noregshafi frá Björgvin til Vesturfjarðar í Norðurlandsfylki. Einnig munu flughersveitir æfa yfir landi og sjó. Sérstök æfing bandarískra landgönguliða fer fram í Norðurlandsfylki nálægt Tromsö og einhver hluti mun ná alla leið til Alta í Finnmörku.  Í kjölfar þessara æfinga allra fer fram svonefnd stjórnunaræfing (Command Post Exercise) 14.-23. nóvember.

Hernaðarleg þýðing norðurslóða og kjarnavopnajafnvægið

Hernaðarlegur viðbúnaður Rússa á norðurslóðum á rætur í almennri hernaðar og öryggisstefnu Rússlands, einkum að þeim þætti er lýtur að kjarnorkuheraflanum. Í þeirri endurnýjun rússneska hersins sem nú á sér stað hefur forgang að varðveita öryggi ríkis og ríkisvalds með fælingarmætti kjarnavopna annars vegar og hins vegar með landher sem beita megi til að tryggja áhrifasvæði Rússlands í fyrrum sovétlýðveldum.

Hugsanleg hernaðarleg ógn af hálfu rússneska hersins við norskt landsvæði lýtur einkum að Norður Noregi sem talið er að Rússar mundu reyna að hertaka  í stríði. Það væri til að koma í veg fyrir að nota mætti Norður Noreg og norðanvert Noregshaf til árása á Norðurflota Rússlands á og í Barentshafi og á stöðvar hans á Kolaskaga í Norðvesturhluta landsins.

Þetta er ekki nýtt því á áttunda áratugnum hófu Sovétríkin að taka í notkun svo langdrægar kafbátaflaugar að ekki varð lengur að sigla niður Atlantshaf til að ná til skotmarka í Bandaríkjunum heldur mátti gera það frá norðurhöfum. Upp úr þessu var sovéskum eldflaugakafbátum haldið úti einkum í  Barentshafi, sem gaf norðurslóðum nýja og stóraukna hernaðarlega þýðingu. Forgangsverkefni Norðurflotans varð að geta varið eldflaugakafbáta í Barentshafi og hafnir og herstöðvar á Kolaskaga gegn flugvélamóðurskipum, herskipum, kafbátum, og herflugvélum NATO ríkja, en einkum Bandaríkjanna.

Eldflaugakafbátarnir eru taldir vera 8 að tölu um þessar mundir og eru hryggjarstykki í kjarnorkuherafla Rússlands.  Á Kolaskaga eru auk hafna og herstöðva Norðurflotans einnig flugvellir þar sem langdrægar flugvéla gætu millilent á leið til árása. Þessar flugvélar geta borið kjarnavopn.

Talið er að í átökum mundu Rússar reyna að láta varnarlínu vegna eldflaugakafbátanna ná allt suður að GIUK hliðinu svonefnda, sem er á hafsvæðunum milli Grænlands,Íslands, Færeyja og Bretlands. Tilgangurinn væri að mæta flota Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja eins sunnarlega og unnt væri á leið þeirra norður Noregshaf til varnar Noregi og til árása á Norðurflotann og stöðvar hans. Rússneski flotinn er miklu minni en sá sovéski var, og Rússar hafa ekki herskip sem geta sótt svo langt í suður sem GIUK hliðið er og takmarkaða getu til þess með flugvélum gegn herjum NATO. Framvörnum nálægt Íslandi yrði því fyrst og fremst sinnt með kjarnorkuknúnum árásarkafbátum. Norðurflotinn á hins vegar mjög fáa nútímalega kafbáta af þessari gerð, sem væntanlega dregur úr líkum á að það tækist. Jafnvel þegar slíkum bátum fjölgar á næstu árum verða þeir áfram mjög fáir og hugsanlegt að þeim verði haldið fyrst og fremst í Barentshafi og norðanverðu Noregshafi í samræmi við forgangsverkefni Norðurflotans.  Einnig valda langdrægari og nákvæmari flugskeyti og stýriflaugar en áður því að minni þörf yrði á framvörnum nálægt Íslandi. Þessum flaugum má skjóta frá skipum, kafbátum og flugvélum Norðurflotans á skip og kafbáta í Noregshafi og á skotmörk á landi í allt að 2500 km fjarlægð.

Óháð þessu fengi Ísland væntanlega hernaðarlega þýðingu í ef til átaka kæmi vegna stuðnings við sókn Bandaríkjaflota og eftir atvikum annarra NATO ríkja norður fyrir GIUK hliðið og upp Noregshaf. Slíkur stuðningur kæmi frá kafbátaleitarflugvélum en einnig væntalega frá orrustuþotum, eldsneytisflutningaþotum og ratsjárþotum. Vert að geta þess að eldsneytisbirgðir ætlaðar til hernaðarnota eru ekki til staðar líkt og fyrrum og geymarými nú notað eingöngu í borgaralegum tilgangi. Nýlega kom hins vegar fram frétt um að NATO hefði aftur áhuga á að geyma bæði skipaolíu og flugvélaeldsneyti á Íslandi. Þá tengist Ísland einnig mikilvægum fjarskiptum við bandaríska kafbáta. Þegar fyrir lá á árinu 2006 að herstöðinni í Keflavík yrði lokað kom í ljós að Bandaríkjafloti vildi áfram hafa aðstöðu á Íslandi að einu leyti.  Það varðaði fjarskiptasendistöð flotans við Grindavík. Um er að ræða langbylgjusendistöð sem rekin er í verktöku af Advania hf. (áður var það Kögun) og þjónar bandarískum árásarkafbátum, sem fylgjast með herskipa-og kafbátaferðum Rússa í norðurhöfum.

Allt á þetta sögulegar rætur í kalda stríðinu en einkum þróun mála á áttunda og níunda áratugnum. Hins vegar er mikill munur á aðstæðum, bæði hvað varðar stöðuna á meginlandi Evrópu þar sem Sovétríkin höfðu hernaðarlega yfirburði á landi og hvað varðar flotastyrk Rússlands, sem er miklu minni en Sovétríkjanna.  Einnig er flotastyrkur NATO ríkjanna mun minni en í kalda stríðinu. Eftir sem áður hafa norðurslóðir, Noregur og Ísland vægi í fælingartefnu bandalagsins gegn Rússlandi. Um þessi atriði var fjallað á vefsíðunni í mars síðastliðnum (4. mars, Hernaðarlega staða Íslands í sögu og samtíma – sjá krækju þar á samnefnda ritgerð og umfjöllun í henni á bls. 20-24 og 32-40.).

Trident Juncture 2018 og Ísland

Í tilkynningu íslenska utanríkisráðuneytisins frá 19. september síðastliðnum um Trident Juncture 2018 segir meðal annars.: „Í aðdraganda aðalæfingarinnar í Noregi fer fram minni æfing hér á landi undir merkjum Trident Juncture 2018. Hún verður haldin þann 16. október í Sandvík, nærri Höfnum í Reykjanesbæ, og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 400 manna bandarískt landgöngulið æfir lendingu í Sandvík en um 120 landgönguliðar verða fluttir með þyrlum á öryggissvæðið þar sem æfð verða viðbrögð við árás á stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands…Sérsveit ríkislögreglustjóra tekur þátt í æfingunni en lögregla og Landhelgisgæsla sjá auk þess um að tryggja öryggi og framfylgja takmörkuðum lokunum á æfingasvæðinu.“

Einnig kemur fram í tilynningu íslenskra stjórnvalda að „Dagana 19.-20. október verður haldin í Reykjavík skipulagsráðstefna vegna aðalæfingarinnar í Noregi. Von er á um tíu herskipum frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku og Kanada hingað til lands með allt að sex þúsund sjóliða. Um leið verður efnt til svonefndrar vetraræfingar í Þjórsárdal með 400 landgönguliðum hvorn dag. Skipin halda svo til Noregs 21. október.“

Æfingin 16. október vegna árásar á stjórnstöð landhelgisgæslunnar er væntanlega miðuð við hugsanlega árás skemmdarverkasveita. Landgönguæfingin í Sandvík og vetraræfingin í Þjórsárdal snúast að öllum líkindum um almenna þjálfun fremur en viðbrögð við hugsanlegri innrás rússnesks herliðs í Ísland, en hana má útiloka. Áhugi landgönguliðsins á æfingunni í Sandvík kann að hafa kviknað vegna þess að þar var verulegur hluti kvikmyndarinnar Flags of Our Fathers tekinn sumarið 2006 undir stjórn leikstjórans og leikarans Clints Eastwood. Kvikmyndin fjallaði um innrás bandarískra landgönguliða á eyjuna Iwo Jima á Kyrrahafi í síðari heimsstyrjöld og og fræga orrustu í kjölfarið við japanskt herlið á eynni.

Heimildir

3 thoughts on “Heræfingin Trident Juncture 2018 og hernaðarleg þýðing norðurslóða

  1. Pingback: Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom við á Íslandi vegna Kínverja og Rússa á norðurslóðum – Alþjóðamál og utanríkismál

  2. Pingback: Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum? – Alþjóðamál og utanríkismál

  3. Pingback: Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands – Alþjóðamál og utanríkismál

Leave a comment