Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom við á Íslandi vegna Kínverja og Rússa á norðurslóðum

Fyrir heimsókn Pompeo, utanríkisráherra, sagði ónefndur háttsettur embættismaður í utanríkisráðuneytinu í Washington við bandaríska fréttamenn að Ísland væri staður þar sem Kínverjar mundu vilja ná fótfestu vegna norðurslóða. Meðal annars fyrir hafnaaðstöðu og flutningamiðstöð. Þá var eftirtektarvert í máli Pompeo í heimsókn hans til Íslands 15. febrúar að hann talaði um að veita Rússum og Kínverjum viðnám á norðurslóðum.

Hinn 8. febrúar síðastliðinn var kynning (preview) á símafundi utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna vegna ferðar Pompeo, utanríkisráðherra, í síðustu viku til Evrópulanda, þar á meðal til Íslands. Að umræddri kynningu vegna ferðar Pompeo komu tveir ónefndir “háttsettir embættismenn”. Þessi háttur við að veita upplýsingar um mál er algengur í bandaríska stjórnkerfinu.

Annar hinna háttsettu embættismanna á kynningarfundinum svaraði spurningu blaðamanns frá vefmiðlinum Washington Examiner. Spurningin var “Telur þú að Kína vilji sýna hernaðarmátt á norðurslóðum?” Einnig var spurt um afleiðingar (ramifications) fyrir Bandaríkin af samkeppni við Kína og Rússland á norðurslóðum.

Embættismaðurinn háttsetti svaraði því til að spurningin ætti vel við og bandarísk stjórnvöld hefðu “miklar áhyggjur” (enormous concern) af þessum málum, sem hefði ekki verið sinnt sem skyldi. Kínverjar og Rússar hefðu orðið á undan Bandaríkjunum og Evrópusambandinu að átta sig á mikilvægi norðurslóða og náttúruauðæfa þar.

Þá bætti embættismaðurinn við að “…hluti af skýringunni á því hversvegna [Pompeo] hefur viðkomu á Íslandi…er sá vandi að keppinautar vesturlanda eru að vinna að því að ná fótfestu í ýmsum heimshlutum. Við lítum svo á að Ísland sé staður þar sem Kínverjar mundu vilja ná fótfestu, meða annars með hafnaaðstöðu, í þeim tilgangi að Ísland yrði að flutningamiðstöð (hub) fyrir þá vegna norðurslóða… Ísland er klassískt dæmi um stað þar sem Bandaríkin þurfa að vera diplómatískt sýnilegri en þau eru til að sýna bandamönnum að þeir eigi okkar stuðning vísan og til að veita þeim aðra kosti en biðlun Kínverja (alternatives to Chinese courtship).”

Á fréttamannafundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, benti Pompeo á að bandarískur utanríkisráðherra hefði ekki heimsótt Ísland síðan 2008. Obama stjórnin hefði vanrækt Ísland og sama ætti við um þau mið- og austur Evrópulönd sem hann hefði heimsótt í þessari ferð. Þetta tímabil vanrækslu væri á enda. Pompeo bætti við að „Við munum ekki lengur taka vini, sanna bandamenn og samstarfsaðila sem sjálfsagðan hlut. Við höfum hreinlega ekki efni á að vanrækja þá. Við sækjumst líka eftir raunverulegu samstarfi við ykkur á Norðurslóðum, sem verða sífellt mikilvægari, og hlökkum til að vinna með ykkur að þeim málum.” Pompeo setti umrædda vanrækslu í garð Íslands í samhengi við samkeppni við Kínverja og Rússa á norðurslóðum og sagði “Við vitum að þegar Bandaríkin hörfa, fylla Kínverjar og Rússar í skarðið, það er óhjákvæmilegt ef við erum ekki þar.”

Pompeo fór ekki út í hvaða vandi fylgdi Kínverjum og Rússum á norðurslóðum, en í máli hans á fréttamannafundinum kom fram að það fyrsta sem þyrfti að gera til að veita Rússum og Kínverjum viðnám (counter) væri “að finna vini og bandamenn á svæðinu, vinna með þeim og sinna þeim og eiga viðræður við þá um hvernig eigi að fara að (you work alongside them and you show up and you have serious discussions with them about how best to approach it). Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí næstkomandi. Pompeo tók undir með utanríkisráðherra Íslands að markmiðið væri, sem og verkefnið í Norðurskautsráðinu, að tryggja að norðurslóðir væru friðsamt lágspennusvæði (peaceful low tension area), að þar væru friðsamlegar aðstæður (peaceful environment).

Ummæli Pompeo og fyrrnefnds háttsetts bandarísks embættismanns á kynningarfundinum 8. febrúar um Rússa, Kínverja og norðurslóðir hljóta að teljast einkar áhugaverð. Vissulega talaði Pompeo á almennum nótum um stórveldapólitík og norðurslóðir, enda á þróun mála þar eftir að koma í ljós í mikilvægum atriðum. Það getur tekið drjúgan tíma og er háð því hvernig hlýnun Jarðar af manna völdum þróast. Um leið er ljóst að Kínverjar eru nú þegar með mikil og vaxandi umsvif á norðurslóðum Rússlands í samvinnu við Rússa hvað varðar nýtingu náttúruauðæfa. Kínverjar hafa ríka þörf fyrir olíu, gas, kol og málma og Rússar vilja stórauka nýtingu norðurslóðasvæða sinna og hagnast á þeim miklu auðæfum sem þar er að finna. Þá er athyglisvert að þau sjónarmið sem Pompeo lét í ljós í Íslandsheimsókninni um Kína og norðurslóðir falla að þeirri stefnu að Bandaríkin líta á Kína sem helsta keppinaut sinn í heiminum. Þau falla einnig að stefnu og viðnámi Bandaríkjanna í harðnandi samkeppni við Kínverja á Asíu-Kyrrahafssvæðinu og víðar. Sama á auðvitað við ummæli fyrrnefnds háttsetts bandarísks embættismanns.

Hinn 11. febrúar síðastliðinn birtist á þessari vefsíðu erindi sem höfundur hennar flutti 30. janúar á ráðstefnu í Reykjavík á vegum Vestnorræna ráðsins. Þar var hann beðinn að tala um “Stöðu vestnorrænu landanna við nýjar geópólitískar aðstæður”. Í erindinu kom meðal annars fram að Bandaríkin mundu hafa gætur á hagsmunum sínum á norðurslóðum í samhengi við vaxandi samkeppni við Kína á heimsvísu. Ennfremur var tekið fram í erindinu að ýmislegt varðandi þróun mála á norðurslóðum kynni að taka áratugi. Þar á meðal væru náin hugsanleg tengsl Íslands við vöruflutninga á norðurslóðum á siglingaleiðum sem kynnu að opnast í kjölfar þess að hafísinn á Norður-Íshafi hörfaði eða hyrfi vegna aukinnar hlýnunar Jarðar af manna völdum. Og hlýnunin er auðvitað háð því að ekki takist að hamla gegn henni með minni losun gróðurhúsalofttegunda eða gerbreyta orkubúskap mannkyns þannig að notkun jarðefnaeldsneytis minnki verulega eða hætti.

Fyrir utan formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og ákvörðun um viðskiptasamráð virðast viðræður Pompeo og Guðlaugs Þórs hafa verið á almennum nótum, þar á meðal um samstarf ríkjanna í öryggismálum. Það endurspeglar að Ísland tengist nú með mun almennari hætti öryggishagsmunum Bandaríkjanna en var í kalda stríðinu. Eftir sem áður hafa Bandaríkin mikilvæga hernaðarlega hagsmuni á norðurslóðum. Þeir lúta, eins og fjallað hefur verið um í fyrri færslum á vefsíðunni sem má sjá hér og hér, aðallega að langdrægum rússneskum kjarnavopnum í kafbátum í norðurhöfum, einkum í Barentshafi.

One thought on “Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom við á Íslandi vegna Kínverja og Rússa á norðurslóðum

  1. Mjög merkilegt Albert… og í raun stór-geópólitísk tíðindi! Ég gaf út bók 2006 um hvers megi vænta ef hlýnunin yrði mikil og ísinn stórminnkaði á norðurslóðum “How the World will Change – with Global Warming.” Hana má lesa hér: https://notendur.hi.is/tv/Content/Books/How%20the%20world%20will%20change%20-%20with%20global%20warming.pdf Mjög löng umfjöllun, í tveimur hlutum, birtust um hana í China Dialogue: https://www.chinadialogue.net/article/show/single/en/1550-How-the-world-will-change-part-one-
    Björn Bjarnason skrifaði um það sem mætti lesa um öryggisþáttinn útfrá bókinni: https://www.bjorn.is/pistlar/2006/08/27
    og Anatoly Karlin hefur töluvert fjallað um bókina, t.d. í “Towards a New Russian Century”: https://www.unz.com/akarlin/towards-a-new-russian-century/ Karlin nefndi í pistli, bókina sem eina af 10 mikilvægustu bókum sl.100 ára. Mbk, TV

    Like

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s