Loftslagsstefna Íslands er í ógöngum og samræmist ekki grundvallarreglum í alþjóðasamstarfi

Ríki heims eiga afar langt í land með að minnka losun gróðurhúsalofttegunda svo hægi á hlýnun Jarðar í samræmi við markmið Parísarsamningsins sem var gerður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 2015. 

Sá grundvallarmunur er á Íslandi og öðrum ríkjum að hlutfall endurnýjanlegrar orku í íslenskum orkubúskap er þegar mjög hátt og miklu hærra en í næstum öllum öðrum ríkjum. 

Það hjálpar Íslandi þó ekki til að ná yfirlýstum markmiði um kolefnishlutleysi Íslands 2040. 

Hið háa hlutfall endurnýjanlegrar orku veldur því þvert á móti að Ísland á færri kosti en önnur ríki til að minnka umtalsvert losun með þeirri undantekningu sem er losun frá framræstu votlendi.

Önnur sérstaða Íslands er einmitt sú að meirihluti losunar er frá framræstu votlendi. Átak í kolefnisbindingu og endurheimt votlendis hefur verið lýst sem lykilatriði við að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Að ná markmiðinu með endurheimt votendis – með því að fylla framræsluskurði – er hins vegar að tálsýn meðal annars og einkum vegna aðferðafræðilegrar óvissu um árangur af því fyrir loftslagið.

Af þessum sökum eru möguleikar til að minnka losun á Íslandi enn frekar en orðið er fáir, dýrir og mun dýrari en hjá öðrum enda hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskapnum miklu hærra á Íslandi en víðast annarsstaðar. 

Ólíklegt má telja að vilji verði til þess hjá íslenskum stjórnmálamönnum, fyrirtækjum og samfélagi að bera slíkan kostnað og það umfram aðra.

Auk auk beins kostnaðar fyrir samfélagið vegna aðgerða til að minnka losun þyrftu ríki og fyrirtæki að kaupa losunarheimildir í stórum stíl á alþjóðamarkaði í flestum tilvikum af ríkjum sem stæðu Íslendingum langt að baki í nýtinu endurnýjanlegra orkugjafa.

Ísland á samvinnu með ESB um markmið í loftslagsmálum.  En endurnýjanlegir orkugjafar mæta 85 prósentum af orkuþörf á Íslandi meðan hlutfallið er innan við 20 prósent hjá ESB. Íslensk loftslagsstefna er þannig í ósamræmi við grundvallaratriði í alþjóðasamstarfi um að það byggi á sameiginlegum forsendum og hagsmunum.

Til að halda áfram að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eiga ríki ESB sem fyrr þann kost að hækka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Þau eiga einnig áfram mikilvæga kosti, sem Ísland á vitanlega ekki, og lúta að því að breyta notkun jarðefnaeldsneytis með því að auka hlut jarðgass og þann möguleika að auka beislun kjarnorku og minnka þannig notkun jarðefnaeldsneytis. 

Framan af hvíldi loftslagsstefna Íslands á áherslu á sérstöðu landsins í orkumálum og í krafti hennar á undanþágur í alþjóðasamningum um loftslagsmál. En á árinu 2009 var kúvent með þeim rökum í grunninn af hálfu stjórnvalda að sérstaðan þýddi að ekki þyrfti undanþágu Íslandi til handa í stað þess að sérstaðan gæfi tækifæri til þess að fá slíkt svigrúm. 

“Íslenska ákvæðið” í Kyoto-bókuninni um loftslagsmál var fellt niður og hafið samstarf í loftslagsmálum við ESB og þátttaka í viðskiptakerfi þess með losunarheimildir. Eftir það þurftu íslensk fyrirtæki að kaupa losunarheimildir.

Niðurfelling íslenska ákvæðisins og þátttaka  í viðskiptakerfi ESB fól í sér að íslensk fyrirtæki – stóriðjuver, flugfélög og flutningaskipaútgerðir – voru sett á sama stall og fyrirtæki í ríkjum þar sem hrein endurnýjanleg orka er almennt notuð í miklu minni mæli en á Íslandi. Með stefnubreytingu íslenskra stjórnvalda var Ísland almennt sett á sama stall og ríki þar sem hrein endurnýjanleg orka er almennt notuð í miklu lægra hlutfalli en á Íslandi.

Líkur benda því til að í samstarfinu við ESB komi til þess að Ísland verði að fara fram á að mega bíða með aðgerðir þangað til Evrópuríkin hafi að minnsta kosti nálgast verulega stöðu Íslands í orkumálum. Á hinn bóginn er ástæða til að ætla að ESB gæti ekki fallist á slíka undanþágu vegna meginreglna í starfsemi þess. 

Mestar líkur eru reyndar á að hvorki ESB né aðrir nái yfirlýstum markmiðum um samdrátt í losun. Hins vegar væri ólíklegt af pólitískum ástæðum að ESB hætti að reyna það fyrir sitt leyti. Vandi íslenskrar loftslagsstefnu gagnvart ESB væri því áfram til staðar. 


Flest bendir til að það komi að því að Ísland hverfi aftur til áherslu á eigin stefnu sem byggi á sérstöðu landsins í og kröfu um svigrúm í krafti hennar í stað þess að íslenskur almenningur og fyrirtæki taki á sig sama kostnað og aðrir óháð sérstöðu Íslands og háu hlufalli hreinnar og endurnýjanlegrar orku í orkubúskapnum. Ástæða er til að ætla að eigin stefna byggð á augljósri sérstöðu Íslands í orkumálum fengi hljómgrunn á alþjóðavettvangi.

Helsta niðurstaða þessarar greinar er að hyggja þurfi að loftslagsstefnunni í þessu ljósi og svara því hvaða áhrif það hefur og afleiðingar að Ísland er á allt öðrum stað en flest önnur ríki í orkumálum.

Efnisyfirlit: Sérstaða Íslands og samstarf þess við ESB um loftslagsmál Áhersla á sérstöðu var lykilatriði í stefnu Íslands ; Horfið frá áherslu á sérstöðu og á undanþágur í krafti hennar ; Kostir þess að taka aftur upp loftslagsstefnu byggða á sérstöðu Íslands ; Niðurstaða

Sérstaða Íslands og samstarf þess við ESB um loftslagsmál 

Samstarf Íslands við önnur ríki í loftslagsmálum fer aðallega fram á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). ESB og EFTA/EES ríkin Ísland og Noregur hafa almenn sameiginleg markmið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda til að fullnægja svonefndu Parísarsamkomulagi frá 2015 um loftslagsmál. Þar er markmiðið að halda hlýnun Jarðar á öldinni vel undir tveimur gráðum. ESB, Noregur og Ísland standa einnig að viðskiptakerfi með svonefndar losunarheimildir.

Stefnt er að því að árið 2030 verði losun á “beinni ábyrgð Íslands” 55 prósentum minni en hún var árið 2005. “Ábyrgð Íslands” á við þá losun sem er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Hún nær ekki til losunar sem fellur undir viðskiptakerfi ESB en það tekur til losunar frá stóriðju, frá innanlandsflugi og frá millilandaflugi og skipaflutningum á EES svæðinu.

Þó þarna sé um að ræða losun sem er ekki á “beinni ábyrgð” íslenskra stjórnvald lendir kostnaður af aðgerðum til að minnka hana auðvitað á íslenskum aðilum og neytendum. 

Til viðbótar kostnaði af aðgerðum kæmi kostnaður vegna kaupa ríkis og fyrirtækja á losunarheimildum.

“Á beinni ábyrgð Íslands” er í raun orðaleikur því kolefnishlutleysi – sem Ísland ætlar að ná 2040 – er vitanlega á kostnað alls samfélagsins, þar á meðal auðvitað fyrirtækja þess stórra og smárra. Til að ná kolefnishlutleysi þarf að minnka neyslu og umsvif í samfélaginu. 

Markmið um kolefnishluteysi Íslands er auðvitað á “beinni ábyrgð” íslensk samfélags.

Kolefnishlutleysi felst í því að losun minnki að því marki að jafnvægi náist milli losunar og bindingar þannig að nettó losun verð á núlli.

Íslenskt samfélag á langt í land með að ná framangreindum markmiðum fyrir árin 2030 og 2040. Heildarlosun frá landinu jókst um 23% milli 1990 og 2020 og heldur áfram að vaxa.

Ísland stefnir að því að ná kolefnishlutleysi á árinu 2040. ESB ætlar sér það 2050.

Grundvallarmunur er á ESB ríkjunum og Íslandi í loftslagsmálum og felst í því að Íslendingar hafa náð mjög langt í að nýta hreina og endurnýjanlega orku en ESB ekki. Beislun orkunnar hófst á Íslandi að ráði á fjórða áratug 20. aldar og hlutfall endurnýjanlegrar orku er margfalt hærra á Íslandi en víðast annarsstaðar. Á Íslandi var nánast lokið við fyrir árið 1990 að koma allri húshitun og raforkuframleiðslu undir endurnýjanlega orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis.

Þessar staðreyndir hjálpa Íslandi þó ekki að ná yfirlýstum markmiðum. Þvert á móti eins og útskýrt er hér á eftir.

Norðmenn eru nálægt því að nýta endurnýjanlega orku í sama mæli og Íslendingar. Í ljósi þess að það sem hér fer á eftir fjallar um ólíka hagsmuni Íslands og samstarfsríkja þess er Noregur því til einföldunar undanskilinn þegar talað er í greininni umsamstarfsríki Íslands sem þannig á eingöngu við ríki ESB.

Ísland á minni möguleika en ríki ESB til að minnka frekar losun gróðurhúsalofttegunda

Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap á Íslandi er rúmlega fjórfalt hærra en í ESB – um 85 prósent á Íslandi, undir 20 prósentum í ESB. Í háu hlutfalli endurnýjanlegrar orku felst að Ísland hefur minnkað mikið losun gróðurhúsalofttegunda í samanburði við að áfram hefði verið treyst alfarið jarðefnaeldsneyti. Um er að ræða margar milljónir tonna gróðurhúsalofttegunda á ári – allt að tæplega 20 milljónir tonna samkvæmt tölum Orkustofnunar. Til samanburðar var heildarlosun Íslands um 14 milljónir tonna á árinu 2021.

Þessi árangur og hið háa hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi skapar þó ekki til svigrúm til að minnka losun þar enn frekar en orðið er og hófst á fyrri hluta 20. aldar. Þvert á móti er svigrúmið miklu þrengra á Íslandi en hjá evrópsku samstarfsríkjunum. 

Það stafar af því að þegar minnka á losun gróðurhúsalofttegunda verða hagkvæmustu og ódýrustu kostirnir fyrst fyrir hendi. Eftir því sem ríki ná lengra í að minnka losun eykst kostnaðurinn við að halda áfram og efnahagslegt og pólitískt svigrúm til frekari aðgerða þrengist í takt við það.

Samstarfsríki Íslands í ESB eiga flest möguleika á að minnka með ýmsum hætti losun frá jarðefnaeldsneyti. Þau eiga kosti í þeim efnum sem Ísland á ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Orkuskipti í íslenska bílaflotanum eru möguleg með skattaívilnunum, sem nú er reyndar verið að draga verulega úr og hefur áhrif á hraða orkuskiptanna. Aðalatriði er þó að losun frá íslenska bílaflotanum er mjög lítill hluti heildarlosunar á landinu – um 6  prósent. Og þá eru meðtaldir vörflutningabílar og rútubílar sem af tæknilegum ástæðum eru ekki almennt á leið í orkuskipti og verða ekki fyrr en síðar – jafnvel miklu síðar. En jafnvel þá mundi heildarlosun frá Íslandi ekki minnka með róttækum hætti.

Samstarfsríki Íslands í ESB geta minnkað frekar notkun kola og olíu í orkubúskapnum en aukið áfram notkun jarðgass sem losar mun minna. Þau eiga þess einnig kost að auka almennt hlut endurnýjanlegrar orku og þau eiga þann möguleika í miklu meiri mæli en Íslendingar – einfaldlega og augljóslega sakir þess hve hátt hlutfallið er þegar á Íslandi. Loks geta samstarfsríkin aukið rafmagnsframleiðslu með kjarnorku í stað jarðefnaeldsneytis og það er í bígerð hjá nokkrum þeirra. Kjarnorka stendur þegar undir meirihluta rafmagnsframleiðslu í sumum ríkjum ESB.

Eini kostur Íslands – að nokkru sambærilegur við möguleika ESB – væri að fylla framræsluskurði í stórum stíl og telja slíka endurheimt votlendis upp í markmið Íslands í loftslagsmálum.

Ein sérstaða Íslands er einmitt að meirihluti losunar á landinu er frá framræstu votlendi ekki frá fyrirtækjum eða almenningi. Endurheimt þess er því mikilvæg ef ná á markmiðum Íslands um minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Á hinn bóginn fæst endurheimt votlendis ekki alþjóðlega viðurkennd að því marki að miklu skipti fyrir markmið Íslands í loftslagsmálum. Það stafar frá ýmsum þáttum en í grunninn frá óvissu af vísindalegum og tæknilegum ástæðum um árangur þess fyrir loftslagið að endurheimta votlendi. 

Af þessum sökum öllum og vegna þess hve hátt hlutfall endurnýjanlegar orku er á Íslandi virðist þurfa – til að ná loftslagsmarkmiðum – að draga úr helstu atvinnustarfsemi, meðal annars en ekki síst veiða minna af fiski, taka á móti færri erlendum ferðamönnum og framleiða minna af áli og öðrum afurðum stóriðju.  Það þyrfti að skerða lífskjör Íslendinga og breyta verulega lífsháttum þeirra með minni neyslu, minni bílnotkun, færri ferðalögum til útlanda o.s.frv.

Það hlýtur að teljast afar ólíklegt að vilji verði til þess í íslenskum stjórnmálum og samfélagi að bera slíkan kostnað – og það umfram aðra.

Auk kostnaðarins sem félli á fyrirtæki og almenning þyrfti íslenska ríkið og fyrirtæki að kaupa í síauknum mæli losunarheimildir á markaði svo ná mætti yfirlýstum loftslagsmarkmiðum. Og þó að það sé ekki aðalatriði er ekki úr vegi að benda á að heimildirnar þyrfti að kaupa af ríkjum sem eru afar langt frá því hlutfalli endurnýjanlegrar orku sem náðst hefur á Íslandi. Óháð þessu yrði vafalítið erfitt að ná samkomulagi á Íslandi um að verja háum fjárhæðum til að kaupa loftslagsheimildir.

Eina færa leiðin út úr þessum vanda væri að Ísland léti – með tilvísan til sérstöðu þess í orkumálum – reyna á það í loftslagssamstarfinu við ESB hvort Ísland gæti farið miklu hægar fram í að minnka losun en evrópsku samstarfsríkin. Eðlilegt væri að slík undanþága gilti þar til þeim hefði tekist að nýta endurnýjanlega orku að því marki að þau að minnsta kosti nálguðust Ísland í þeim efnum. Meginreglur í samstarfi ESB valda því hins vegar – eins og segir hér á eftir – að ólíklegt má telja að slík undanþága fengist.

Áhersla á sérstöðu var lykilatriði í stefnu Íslands

Í Kyoto bókuninni – alþjóðasamningi um minni losun sem gerður var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í japönsku borginni Kyoto á árinu 1998 – var viðmiðunarárið 1990. Mælikvarði á árangur einstakra ríkja við að standa við skuldbindingar í bókuninni fólst í samanburði á losun 2012 og 1990. Síðara ártalið hentaði ríkjum ESB en ekki Íslandi. Það hentaði ESB ekki síst vegna falls kommúnismans í Evrópu 1989 og síaukinnar nýtingar jarðgass í ESB í stað olíu og kola. Í kommúnistaríkjunum var gífurleg mengun sem borgaði sig að minnka óháð öðru og það var gert tiltölulega auðveldlega. Jarðgas losar umtalsvert minna af gróðurhúsalofttegundum en olía og kol 

Sambærilegt ártal fyrir Ísland hefði verið 1930 áður en hitaveituvæðing hófst og styttist í umtalsverða raforkuframleiðslu með virkjun fallvatna. Þetta var auðvitað áratugum áður en fyrst var rætt um gróðurhúsaáhrif og hlýnun Jarðar af þeirra völdum og löngu áður en önnur ríki hófu að reyna að minnka losun.


“Íslenska ákvæðið”

Ísland varð aðili að Kyoto bókuninni á árinu 2002 – alþjóðasamningi um minni losun – af því “íslenska ákvæðið” svonefnda náðist fram á aðildarríkjafundi árið áður. Það var skilyrði þess að Ísland gæti tekið þátt og jafnframt hrint í framkvæmd áætlunum um aukna álframleiðslu og virkjanir hennar vegna. Án íslenska ákvæðisins hefði Ísland staðið utan Kyoto bókunarinnar. 

Það varð reyndar niðurstaða nokkurrra ríkja að verða ekki aðilar, ríkja eins og Bandaríkjanna, Japans, Ástralíu og Rússlands – þó af öðrum ástæðum væri en þeirri sem áttu við Ísland – eins og síðar verður vikið að.

Í grunninn fólst í “íslenska ákvæðinu” að losun frá nýjum stóriðjuverum eða stækkun þeirra sem fyrir voru væri undanþegin ákvæðum Kyoto bókunarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda enda væri notuð hrein og endurnýjanleg orka í verunum. Að auki var hnykkt frekar á sérstöðu Íslands með því að tekið var tillit til smæðar hagkerfisins og hlutfallslega mikils þjóðhagslegs vægis stórra framkvæmda eins og byggingar álvera og virkjana tengdum þeim. 

Þessi skilyrði lutu einnig að því að Ísland hefði svo mikla sérstöðu að íslenska ákvæðið gæti ekki orðið fordæmi fyrir aðra og opnað þeim leið undan skuldbindingum í Kyoto bókuninni. Lykilllinn að undanþágunni sem fólst í íslenska ákvæðinu var að endurnýjanleg orka væri notuð en enginn vafi lék auðvitað á að hún væri ráðandi í orkubúskap Íslendinga. 

Samþykkt ákvæðisins var einnig háð því skilyrði að losun á Íslandi sem væri undanþegin mætti ekki verða meiri en 1,6 milljónir tonna. Það var tala einkum byggð á íslenskum upplýsingum og útreikningum á losun vegna fyrirhugaðrar aukinnar álframleiðslu. Annað skilyrði var að Íslendingar stunduðu ekki viðskipti með losunarheimildir meðan ákvæðið væri í gildi og loks náði undanþágan einungis til losunar á koltvísýringi en ekki öðrum gróðurhúsalofttegundum. 

Horfið frá áherslu á sérstöðu Íslands og á undanþágur í krafti hennar

Í maí 2009 tók við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Í lok mánaðarins gaf umhverfisráðuneytið út féttatilkynningu um “Tímamót í stefnu ríkisstjórnar Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda”. 

Þar sagði að íslensk stjórnvöld vildu draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 15% til 2020, miðað við árið 1990. Það yrði tilkynnt á næsta samningafundi á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og yrði það í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld tilkynntu á alþjóðavettvangi að þau væru tilbúin að taka á sig skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þarna var verið að vísa til þess að Ísland fékk  – til viðbótar íslenska ákvæðinu varðandi stóriðju – heimild í Kýótó bókuninni til að auka almenna losun um 10 prósent.

Ennfremur sagði í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins að fyrir lægi að losun frá stóriðju á Íslandi mundi samkvæmt EES samningnum falla undir reglur viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Samningurinn gat ekki auðvitað sjálkrafa skikkað Ísland til þátttöku í kerfinu heldur gat það einungis gerst með ákvörðun íslenskra stjórnvalda.

Munurinn á þáttöku í viðskiptakerfinu og íslenska ákvæðinu var auðvitað sá að samkvæmt ákvæðinu var losun frá stóriðju almennt undanþegin í Kýótó bókuninni. Í viðskiptakerfi ESB þyrfti að kaupa losunarheimildir fyrir stóriðjuna og í síauknum mæli þegar fram í sækti.

SA, ASÍ og Landsvirkjun vildu áfram undanþáguna sem fólst í íslenska ákvæðinu

Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Landsvirkjun gerðu athugasemdir við þá stefnubreytingu stjórnvalda að hverfa frá áherslu á sérstöðu landsins. 

Samtök atvinnulífsins sögðu að svo að orkufrekur iðnaður á Íslandi stæði jafnfætis keppinautum í Evrópu yrðu íslensk stjórnvöld að tryggja að íslenska ákvæðið héldi gildi sínu og halda uppi “virkri baráttu” til að viðhalda því.

Alþýðusambandið kvað ríkisstjórnina þurfa að gefa út skýr skilaboð, eins og það var orðað, um að barist yrði fyrir hagsmunum Íslands með því sérstaklega að tryggja að íslenska ákvæðið gilti áfram.

Landsvirkjun kvaðst líta svo á að samþykkt ákvæðisins á vettvangi Kyoto bókunarinnar sýndi að ríkur skilningur hefði verið á mikilvægi þess að nýta endurnýjanlegar orkulindir. Ísland ætti því að vera í sterkristöðu til að tryggja í þeim í viðræðum sem í hönd færu um hvað tæki við af Kyoto bókuninni að „íslenska ákvæðið“ eða ígildi þess héldi áfram.

En stefna stjórnvalda hafði gerbreyst

Í stað þess að fara, eins og í Kýótó bókuninni, fram á undanþágur í krafti sérstöðu í orkumálum var stefnan orðin sú að Ísland mundi ganga á Kaupmannahafnarfundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í desember 2009 “til liðs við þau ríki sem ætla sér að vera í framvarðasveit í baráttunni gegn loftslagsbreytingum”. 

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu umhverfisráðuneytis kom fram að “íslenska undanþáguákvæðið verður vonandi óþarft í Kaupmannahöfn og losun sem fellur undir það nú verður vonandi færð undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins. Þar munu íslensk stóriðjufyrirtæki, bæði gömul og ný, taka á sig sömu skuldbindingar og fyrirtæki innan ESB.” Því þyrftu íslensk stóriðjufyrirtæki að búa sig undir að heimildir þeirra til losunar mundu þrengjast í framtíðinni. Þeim yrði gert að kaupa heimildir í vaxandi mæli í viðskiptakerfi ESB. Undanþágur á borð við íslenska ákvæðið mundu heyra sögunni til. 

Einnig kom fram að það væru hagsmunir íslenskrar stóriðju að geta keypt losunarheimildir í kerfi þar sem þau fyrirtæki sem menguðu minnst þurfa minnst að greiða. Það breytir ekki því að íslensk fyrirtæki sem nota alfarið endurnýjanlega orku voru nú í aðalatriðum sett á sama stall og þau sem treysta að mestu leyti á jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku.

Þá var auðvitað sá munur áfram á að íslenska ákvæðið fól í sér að ný stóriðjuver á Íslandi á þyrftu ekki að kaupa heimildir heldur var losun þeirra vegna undanþegin.

En það höfðu orðið “þáttaskil í stefnu Íslands” í loftslagsmálum, eins og umhverfisráðherra orðaði það í viðtali, af því Ísland hefði komið fram með “metnaðarfull losunarmarkmið með það að leiðarljósi að skipa sér í röð fremstu þjóða heims hvað þetta varðar.” Það þýddi að Ísland væri “ekki að leita að undanþágu.” 

Umhverfisráðherra sagði jafnframt hreint út í fyrrnefndu viðtali að “hið íslenska ákvæði er hlutur sem við viljum fyrir alla muni losna við og freista þess að fara í þetta evrópska umhverfi…” Ráðherrann bætti við að það væru “hagsmunir allra, ekki síst íslenskrar náttúru og ímyndar Íslands, að fara út úr því umhverfi að vera að sækja um sérstaka undanþágu.”Þá væri ekki “góður svipur á því fyrir ríka þjóð að vera að óska eftir undanþágum í þessu efni. Ég er þannig afar stolt yfir að hafa tekið þennan kúrs fyrir Ísland.“

Hér fór ekkert milli mála. Loftslagsstefnunni hafði verið gerbreytt með áherslu á að krafa um sérstöðu og undanþágu væri í senn röng og óþörf – þótt engum áþreifanlegum upplýsingum væri teflt fram því til stuðnings og þrátt fyrir að atvinnulíf og launþegasamtök vildu halda í íslenska ákvæðið. 

Í júní 2009 kom fram að íslensk stjórnvöld ættu í viðræðum við ESB um hvernig mætti samræma skuldbindingar Íslands gagnvart EES samningnum og væntanlegu nýju alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál. Hugsanlegayrði það best gert með því að Ísland tæki á sig sameiginleg markmið með ESB-ríkjunum. Reyndar sagði: “Við höfum lagt þar áherslu á að leita leiða til þess að komast að samkomulagi við Evrópusambandið um að vera þátttakendur í markmiðum þess fram til 2020.” Um þetta leyti stóð fyrir dyrum leiðtogafundur loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn og samningaviðræður um hvað tæki við af Kyoto bókuninni. 

Stefna stjórnvalda 2009 var nú í reynd að staða Íslands væri ekki sérstök heldur hin sama og hjá öðrum ríkjum. Ekki ætti að nýta sérstöðu landsins í orkumálum til að fá undanþágu. Þvert á móti kom fram sem fyrr sagði sú skoðun stjórnvalda að það væri bæði neikvæð stefna og óþörf og þá að því að virtist af því Íslands stæði svo vel í orkumálum. 

Stefnan var orðin sú að vegna sérstöðunnar þyrfti ekki sérlausn í stað þess sérstaðan leyfði slíka lausn og réttlætti hana.

Ennfremur var litið svo á að það að framlengja íslenska ákvæðið væri “slæmur kostur”. Það væri “vont að þurfa að byggja á undanþágum í alþjóðlegu kerfi, sérstaklega fyrir ríki sem hefur alla burði til að vera fyrirmyndarríki í loftslagsmálum.” Losun sem félli undir íslenska ákvæðið yrði “vonandi færð undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins. Þar munu íslensk stóriðjufyrirtæki, bæði gömul og ný, taka á sig sömu skuldbindingar og fyrirtæki innan ESB.”

Þá gáfu stjórnvöld sér að það að óska eftir framlengingu á íslenska ákvæðinu “myndi vekja neikvæð viðbrögð og grafa undan stöðu Íslands” í viðræðunum á Kaupmannahafnarfundinum, en hvernig það mundi gerast var óútskýrt. Sama átti við þá fullyrðingu að “þegar leið að öðru skuldbindingartímabili (2013–2020) var ljóst að losun frá stóriðju myndi falla undir viðskiptakerfi ESB og að frekari undanþága fyrir stóriðju innan Kyoto-bókunarinnar yrði torsótt.” Einnig var gefið að enginn jarðvegur væri fyrir því að biðja um nýjar undanþágur þegar öll þróuð ríki tækju á sig niðurskurð, líka þau fáu ríki sem, eins og Ísland, fengu heimild til í Kyoto til að auka losun. 

Reyndar varð Kaupmannahafnarfundurinn árangurslaus einmitt af því að þróuð ríki neituðu með tilliti til samkeppnisstöðu að taka á sig samdrátt í losun nema þróunarríki gerðu það einnig. Í framhaldinu varð úr að Japan, Kanada, Nýja Sjáland og Rússland sögðu sig frá því að framlengja Kyoto bókunina fyrir sitt leyti, en það hafði augljóslega ekki áhrif á stefnu Íslands.

Ríkisstjórnin vann að því að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu en umhverfisráðherra sagði í viðtali við Fréttablaðið 10. október 2009 að loftslagsstefnan sem mótuð hefði verið væri óháð aðildarumsókninni og aðild yfir höfuð. Og í sjálfu sér má segja að það virðist rétt en um leið ljóst að með aðild hefði Ísland auðvitað sjálfkrafa orðið þátttakandi í loftslagsstefnu ESB og viðskiptakerfi þess með losunarheimildir. 

Parísarsamningurinn um loftslagsmál 2015: Ísland valdi milli samstarfs við ESB eða að senda inn sjálfstætt markmið

Í innsendu landsmarkmiði Íslands vegna Parísarsamningsins um loftslagsmál 2015 var greint frá áformum um að taka þátt í sameiginlegu markmiði með ESB. Fram kom að íslenska samninganefndin hefði metið það svo að skynsamlegt væri að skoða möguleika á sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB þar sem um 40% af losun Íslands félli undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, skv. ákvæðum EES-samningsins. “Að öðrum kosti hefði Ísland þurft að senda inn sjálfstætt markmið varðandi skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum um samdrátt í losun á tímabilinu 2021–2030 sem taka þarf til allrar losunar, þ.m.t. stóriðju.”

Í stefnumótuninni var því valið milli tveggja kosta; að vera með ESB eða senda inn sjálfstætt markmið. Að vera í samvinnu við ESB varð fyrir valinu. Þetta var áréttað í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 þar sem bent var á að samninganefnd Íslands hefði komist að þeirri niðurstöðu að “áfram væri skynsamlegast fyrir Ísland að vera með í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja.” Almenn og torskilin skýring var að þar með mætti “forðast misræmi í bókhaldi og markmiðum samkvæmt EES-reglum annars vegar og alþjóðasamningum hins vegar.” 

Jafnframt kom fram að stefnan sem tekin var hefði falið í sér að losun frá stóriðju yrði “á ábyrgð viðkomandi fyrirtækja og Evrópuríkjanna í heild undir hatti viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS) en ekki á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda.” Hvernig þetta fyrirkomulag væri betra en það sem fólst í íslenska ákvæðinu og undanþágu fyrir fyrirtækin var ekki útskýrt.

En eins og bent var á hér að framan gat þátttaka í viðskiptakerfi ESB ekki komið í staðinn fyrir íslenska ákvæðið um að losun frá stóriðju á Íslandi væri undanþegin ákvæðum alþjóðasamninga um samdrátt í losun. Nú var stóriðja á Íslandi ekki lengur sérstök, heldur vandi sem aðildin að viðskiptakerfi ESB leysti en með kostnaði fyrir fyrirtækin.

Kostir þess að taka aftur upp loftslagsstefnu byggða á sérstöðu Íslands

Þegar hætt var 2009 við áherslu á sérstöðu í loftslagsstefnunni virðist hafa verið horft fram hjá því að vegna hins háa hlutfalls endurnýjanlegrar orku í orkubúskapnum lenda Íslendingar miklu fyrr en flestir aðrir á þeim stað að verða að fara í afar dýrar aðgerðir eigi að minnka losun umtalsvert og þurfa að auki að kaupa losunarheimildir. 

Stærsti kosturinn við eigin stefnu byggða á sérstöðunni væri að losna úr þessari klemmu þannig að aðgerðir á Íslandi mundu bíða þar til önnur ríki nálguðust að minnsta kosti stöðu Íslands hvað varðar hlutfall endurnýjanlegrar orku. 

Nær allir erlendir ferðamenn sem til Íslands koma, eða 96%, eru jákvæðir gagnvart endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi. Þetta sést í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Landsvirkjun. Þar af eru 80% mjög jákvæð en innan við 1% neikvæð.

97 prósent ferðamannanna koma vegna náttúru landsins, sem hlýtur að stafa frá jákvæðri ímynd þeirra a íslenskri náttúru. Þá gefa 67 % Íslandi einkunnina 9-10 fyrir frammistöðu í umhverfismálum og sjálfbærni samkvæmt skoðanakönnun sem ferðamálastofa lét gera.

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er vissulega mikil á mann, en það stafar af því að Íslendingar framleiða mikið – ál og aðrar afurðir stóriðju, sem og sjávarvörur og reka túrisma í stórum stíl – og eru fáir. Þá kemur mikill meirihluti losunar á Íslandi eins og fyrr sagði frá framræstu votlendi, umhverfisspjöll sem má bæta með endurheimt og í hana ætti að ráðast óðháð öðru.

Þegar miðað er við þjóðartekjur og framleiðslu – það er losun miðað við það sem kallað er “Per unit of GDP” – sýna tölur Sameinuðu þjóðanna að Ísland er fremst í flokki ásamt Sviss, Svíþjóð, Írlandi og Danmörku. Þau ríki eru í efstu sætum með Íslandi fyrir tilstilli jarðgass og/eða kjarnorku en einnig að hluta vegna þess að vindorka á vaxandi hlut í rafmagnsframleiðslunni, einkum á Írlandi og í Danmörku.

Höfundur þessarar greinar var á sínum tíma fulltrúi forsætisráherra í samninganefnd um “íslenska ákvæðið” í Kyoto bókuninni og vitni að því að ekki var almenn eða hörð andstaða frá öðrum ríkjum við tillögu Íslands. 

Þó bar á áhyggjum örfárra af því að undanþága fyrir Íslandi yrði fordæmi fyrir aðra til að komast hjá skuldbindingum; fordæmi fyrir “aðra og stærri fiska” en Íslendinga eins og einn viðmælandi úr hópi suðurhafseyjaríkja orðaði það. 

Það bar helst á andstöðu Kanada við „íslenska ákvæðið“ sem réðist af hagsmunum og samkeppnisstöðu kanadísks áliðnaðar en ekki af efasemdum um grundvallaratriði í málstað Íslands. ESB hélt einnig uppi andófi og vildi skilyrða samþykkt íslenska ákvæðisins.

Málið leystist í aðalatriðum þannig að samþykkt ákvæðisins var háð því skilyrði að losun á Íslandi sem væri undanþegin Kyoto-bókuninni mætti ekki verða meiri en 1,6 milljónir tonna. Það var ekki vandamál, enda talan einkum byggð á íslenskum upplýsingum og útreikningum á losun vegna fyrirhugaðrar aukinnar álframleiðslu. Annað skilyrði var að Íslendingar stunduðu ekki viðskipti með losunarheimildir meðan ákvæðið væri í gildi og loks náði undanþágan einungis til losunar á koltvísýringi en ekki öðrum gróðurhúsalofttegundum. 

Þessi saga bendir til að ekki sé ástæða til að ætla annað en að Ísland fengi hljómgrunn fyrir loftslagsstefnu sem hvíldi á skýrri sérstöðu þess.

Jafnframt er ljóst að lykilspurning er að hve miklu leyti ESB geti tekið tillit til sérstöðu Íslands og fallist á undanþágu fyrir það. Í henni fælist eins og fyrr sagði að Ísland færi miklu hægar fram en ESB ríkin í aðgerðum til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og þar til ríki sambandsins hefðu að minnsta kosti nálgast sama hlutfall endurnýjanlegrar orku og á við íslenskan orkubúskap. 

En náið og víðtækt samstarfið sem á sér stað í ESB hvílir eðlilega ekki á sérstöðu og undanþágum heldur fyrst og síðast á meginreglum sem lúta að samþættingu og einsleitni. Þá á samstarf Íslands við ESB í loftslagsmálum ekki eingöngu við sameiginleg markmið varðandi losun heldur og sameiginlegt viðskiptakerfi með losunarheimildir. 

Af þessum ástæðum – ekki endilega af því að skilning skorti á sérstöðunni – má ætla að erfitt reyndist að fá viðurkenningu á sérstöðu Íslands í samstarfinu við ESB í loftslagsmálum.

Er tímapressa í málinu?

Þótt samstarfsríki Íslands í ESB standi sig almennt skár en önnur í loftslagsmálum er frammistaða þeirra þrátt fyrir það “ófullnægjandi” að áliti aðila eins og hugveitunnar Climate Action Tracker. Þessi einkunn felur í sér að veröldin mundi hitna um 2-3 gráður á öldinni en ekki vel innan við 2 gráður stæðu önnur ríki sig í loftslagsmálum með sama hætti og ESB. 

Það er því alls ekki ljóst og reyndar frekar ólíklegt að ESB nái yfirlýstum markmiðum um minni losun, hvað þá kolefnishlutleysi.

Þannig kemur hugsanlega ekki að því að slitni upp úr samstarfi Íslands og ríkja ESB í loftslagsmálum einfaldlega vegna þess að þau muni gefast upp við að ná settum markmiðum. Undanþága fyrir Ísland væri aukaatriði.

Mestar líkur eru þó á að ríki ESB næðu ekki samkomulagi um annað en halda stefnunni til streitu jafnvel þótt ljóst væri í að markmið hennar næðust ekki – í það minnsta alls ekki á tilsettum tíma.

Allt bendir því til að Ísland þurfi að fá áðurnefnda undanþágu  – fá að fara fram miklu hægar en samstarfsríkin en hætta samstarfinu ella.

Að fá svigrúm með eigin stefnu í krafti sérstöðu

Það er auðvitað svo að langflest ríki heims hafa eigin loftslagsstefnu, það er að segja önnur en þau sem eru í ESB eða í samstarfi við það í loftslagsmálum líkt og Ísland og Noregur. 

Parísarsamkomulag Sameinuðu þjóðanna frá 2015 um loftslagsmál er ekki bindandi að öðru leyti en því að segja má að aðildarríkin þurfa að hafa markmið í loftslagsmálum og veita upplýsingar um stöðu mála í eigin ranni.

Þegar hætt var 2009 við áherslu Íslands á sérstöðu í loftslagsstefnunni virðist hafa verið horft fram hjá þeirri afleiðingu sérstöðunnar að Íslendingar lenda miklu fyrr en aðrir á þeim stað að verða að fara í afar dýrar aðgerðir eigi að minnka losun umtalsvert og meiri kostnað en önnur ríki. Stærsti kosturinn við eigin stefnu væri sem fyrr sagði að losna úr þessari klemmu.

Með eigin stefnu gæfist ennfremur svigrúm til að láta reyna á þann möguleika að fá sérstöðu landsins í orkumálum viðurkennda í tengslum við alþjóðsamninga um loftslagsmál. Engin áþreifanleg ástæða er, eins og fyrr sagði, til að ætla að það gengi ekki. Andstaða gegn því hlyti að teljast óbilgjörn í ljósi þess hve hlutfall endurnýjanlegrar orku er hátt á Íslandi og miklu hærra en víðast annarsstaðar. Líklegt er að mörg ríki hefðu skilning á því að það þrengir mjög möguleika til að minnka enn frekar losun gróðurhúsalofttegunda nema með með miklum tilkostnaði umfram aðra. 

Þá er það auðvitað svo að það þyrfti ekki stuðning annarra ríkja til þess að fullvalda ríkið Ísland hefði eins og önnur ríki eigin stefnu í loftslagsmálum.

Eigin stefna Íslands mundi væntanlega hafa í för með sér meira svigrúm en nú er til að telja fram ávinning af endurheimt votlendis. Af því Ísland hefur sameiginleg markmið í loftslagsmálum með ESB og einnig sameiginlegt viðskiptakerfi með losunarheimildir fylgir Ísland reglum ESB sem lúta að losun frá votlendi og endurheimt þess.Í regluverki ESB er þegar háð ýmsum skilyrðum að hve miklu leyti aðgerðir varðandi landnotkun mega telja uppí skuldbindingar um samdrátt í losun. 

Á hinn bóginn er ólíklegt að eigin stefna geri kleift að telja miklu meiri ávinning en ella upp í losunarmarkmið Íslands af endurheimt votlendis. Það væri vart trúverðugt. En eigin stefna gæti skilað meiru en samflotið með ESB og á það mundi einfaldlega reyna. 

Stóriðjan mundi ekki þurfa að kaupa losunarheimildir nema íslensk stjórnvöld ákvæðu það. 

Ísland mundi einnig ákveða sjálft hvort flugfélög og skipafélög ættu að kaupa heimildir og þá að hvaða marki. Samtals er um marga milljarða króna að ræða á ári sem leggjast á íslensk fyrirtæki og almenning. Auðvitað kæmi til greina að leggja á slíka skatta en þá með sjálfstæðri ákvörðun sem tæki tilliti til áhrifa á samkeppnisstöðu og landfræðilegrar sérstöðu Íslands.

Niðurstaða

Rík sérstaða Íslands hvað varðar hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku veldur því að svigrúm til að minnka frekar losun gróðurhúsalofttegunda er þröngt. 

Á hinn bóginn veitir sérstaðan tækifæri til að taka upp trúverðuga stefnu sem taki tillit til þess að hlutfall endunýjanlegrar orku er miklu hærra á Íslandi en í öðrum ríkjum. 

Framan af hvíldi loftslagsstefna Íslands á sérstöðu landsins og kröfu um undanþágu í alþjóðasamningum í krafti hennar. Það gat af sér “íslenska ákvæðið” í Kyoto bókuninni sem fól í sér að losun frá stóriðju á Íslandi var undanþegin skuldbindingum sem bókunin fól í sér um minni losun gróðurhúsalofttegunda. 

En 2009 var horfið frá þessari stefnu – ákveðið að sérstaða í orkumálum réttlætti ekki undanþágu heldur skyldi þvert á móti byggja á þeirri forsendu að vegna sérstöðunnar þyrfti ekki undanþágu. Jafnframt var ákveðið að hefja samstarf við ESB um markmið í loftslagsmálum og hefja þátttöku í viðskiptakerfi þess með losunarheimildir.

Þegar kom að Parísarsamningnum 2015 var samvinna við ESB áfram valin fram yfir þann möguleika að Ísland tæki upp eigin loftslagsstefnu.

Samstarfið við ESB í loftslagsmálum og núverandi loftslagsstefna Íslands átti þannig rætur í því að stefnunni var kúvent – en án þess að aðstæður hefðu breyst í orkumálum á Íslandi. 

Þær voru auðvitað áfram sömu og áður og gerólíkar því sem var hjá ESB. Þannig virðist hafa verið horft fram hjá því að samstarfið sem var valið væri á skjön við þá meginreglu í alþjóðasamstarfi að það byggi á sameiginlegum hagsmunum og forsendum.

Jafnframt virðist hafa verið horft fram hjá því að sakir þess hve hlutfall endurnýjanlegrar orku er hátt  á Íslandi er það á þeim stað í loftslagsmálum að eiga aðallega eftir dýra kosti til að minnka losun og miklu dýrari en evrópsku samstarfsríkin – auk þess að þurfa að kaupa losunarheimildir í síauknum mæli.

Gera verður ráð fyrir vegna meginreglna í starfsemi ESB að ekki yrði unnt að ná samkomulagi við það um að vegna sérstöðu í orkumálum mundi Ísland hægja verulega á aðgerðum til að minnka losun og þyrfti ekki að kaupa losunarheimildir til að ná markmiðum. 

Þannig eru líkur á að þegar fram í sækir fjari undan samstarfinu og að Ísland taki upp eigin stefnu byggða á sérstöðu þess. 

Með því að taka upp eigin stefnu mundi Ísland fá svigrúm til að láta loftslagsstefnuna taka aðallega mið af íslenskum aðstæðum. 

Það tókst á sínum tíma með þeim árangri að “íslenska ákvæðið” – náðist fram í Kyoto bókuninni. Ekki er ástæða til að ætla annað en að Ísland fengi hljómgrunn fyrir loftslagsstefnu sem hvíldi á skýrri sérstöðu þess í orkumálum.

Flest bendir til þess að Ísland hverfi aftur til áherslu á eigin stefnu sem byggi á sérstöðu landsins í og kröfu um svigrúm í krafti hennar – í stað þess að íslenskur almennningur og fyrirtæki taki í grunninn á sig sama kostnað og aðrir óháð aðstæðum á Íslandi og árangri við beislun hreinnar og endurnýjanlegrar orku.

Hyggja þarf að loftslagsstefnunni í þessu ljósi og svara því hvaða áhrif það hefur og afleiðingar fyrir hana að Ísland er á allt öðrum stað en flest önnur ríki í orkumálum.

Heimildir

Eru Rússar að sigra í Úkrænu?

Stutta svarið við spurningunni er Nei, þótt rússneski herinn hafi að undanförnu náð takmörkuðu frumkvæði í stríðinu.

Það breytir því ekki að Úkræna er í þröngri stöðu. 

Á hinn bóginn hefur stríðið frá upphafi leitt í ljós grundvallar veikleika í rússneska hernum og hann hefur orðið fyrir miklu manntjóni og tapað gríðarlegum fjölda hergagna.

Bandaríkin og önnur NATO ríki geta, ef viji er til þess, snúið taflinu við á allra næstu árum með því að láta Úkrænu fá nóg af vopnum og annan nauðsynlegan stuðning – í krafti yfirburða þessara ríkja yfir Rússland. 

Hinn 8. janúar síðastliðinn talaði ég á fundi hjá Rotary Reykjavík miðborg um Úkrænustríðið og átök Hamaz og Ísraelshers á Gaza ströndinni. Eftirfarandi er í aðalatriðum það sem ég benti á varðandi stríðið í Úkrænu:

Úkrænumenn hafa ekki hernaðargetu til að reka innrásarher Rússa af höndum sér. Misheppnuð gagnsókn Úkrænuhers síðastliðið sumar bendir til að Úkrænuher verði að hafa mun meiri slagkraft en hann hefur haft hingað til. Honum þarf að berast mun meira en áður af hergögnum af flestu tagi frá Vesturlöndum og liðsmenn hans þurfa betri og lengri þjálfun en þeir hafa hlotið. Úkrænuher þarf með öðrum orðum tíma til að byggja sig upp og eiga möguleika á að sækja og sigra í stríðinu.

Hernaðarlegur stuðningur Evrópuríkja hefur verið of lítill og borist of hægt. Stuðningur Bandaríkjanna hefur skipt sköpum. Það stefnir í að hann haldi áfram á þessu ári en er óviss þegar fram í sækir vegna bandarískra stjórnmála – einkum þing og forsetakosninga í haust.

Rússar eru ekki í sterkri stöðu í stríðinu til skemmri tíma litið. Hrakför rússneska hersins í Úkrænu og á Svartahafi heldur í grunninn áfram. 

Það sem hefur breyst Rússum í vil í stríðinu er að öflugar varnarlínur þeirra hafa komið til sögu og torvelda möguleika Úkrænuhers til að sækja á vígvellinum. 

Rússar eru og þrátt fyrir allt í þeirri stöðu að hafa lagt undir sig milli 15 og 20 prósent af Úkrænu í innrásinni fyrir tæpum tveimur árum – á Krímskaga og í suður og austurhluta landsins. 

Til lengri tíma litið njóta þeir þess ennfremur að vera miklu fjölmennari þjóð en Úkrænumenn og hafa miklu stærra hagkerfi og hergagnaiðnað. 

En þeir þættir duga ekki einir sér. Eftir sem áður eru til staðar þeir alvarlegu veikleikar hjá rússneska hernum sem stríðið hefur leitt í ljós og lúta að forystu hans, skipulagi, þjálfun, aðflutningum og búnaði. Sá mikilvægi hluti hersins sem líta mátti á sem fastaher og atvinnuher virðist að miklu leyti úr leik; flestir liðsmanna hans fallnir eða særðir. Og áfram má gera ráð fyrir að landlæg spilling og vanhæfni sem af henni leiðir hái hernum og hergagnaframleiðslunni. 

Rússar eiga ekki – að minnsta kosti ekki á næstu árum – möguleika á sigri í þeim skilningi að ná upphaflegum markmiðum hvað landvinninga varðar, hvað þá leggja Úkrænustjórn að velli með hertöku höfuðborgarinnar. Það tókst þeim ekki, eins og frægt er, á fyrstu vikum innrásarinnar og urðu frá að hverfa.

En dragist stríðið á langinn án nauðsynlegs stuðnings Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja er hætta á að Úkrænu bíði með tímanum að verða almennt afar veikburða ríki og að auki með verulegan hluta landsins áfram í höndum innrásarhersins og innlendra leppa Rússa. 

Aðild Úkrænu að ESB og NATO yrði endanlega úr sögunni. Úkræna sæti í grunninn föst á rússnesku áhrifasvæði.

Í Rússlandi yrði slík niðurstaða álitin fela í sér sigur. Að koma í veg fyrir aðild Úkrænu að NATO og ESB er eitt helsta markmið Rússa.

En að ná þeim árangri væri ekki nóg því hann mundi ekki styrkja Rússland til að verða stórveldi á pari við Vesturlönd. Að því hefur verið stefnt um langa hríð – bæði í Sovétríkjunum sálugu og á tímum rússneska keisaradæmsins. Það hefur auðvitað ekki náðst en virðist útilokað í huga Kremlverja gengi Úkræna þeim úr greipum.

Enginn grundvöllur virðist fyrir friðarsamningum. Úkrænustjórn þvertekur fyrir að kaupa frið með því að gefa eftir landssvæði sem Rússar hertóku í innrásinni 2022. Ekkert bendir til að breytinga sé að vænta á stefnu Rússlands gagnvart Úkrænu. 

Bandarískir fjölmiðlar fullyrða að innan Biden stjórnarinnar megi finna þá skoðun að samingaviðræður um frið séu eina færa leiðin fyrir Úkrænu. Stuðningur Bandaríkjanna við hana hljóti að snúast um að reyna að tryggja samningsstöðu hennar gagnvart Rússum í friðarviðræðum.

Donald Trump, væntanlegt forsetaefni repúblikana, telur sig geta beitt bæði Úkrænu og Rússland þeim þrýstingi að leiði hratt til friðarsamninga.

Í báðum tilvikum yrðu Úkrænumenn að láta af hendi land til Rússa.

Tveir kostir virðast uppi:  

Annarsvegar langvarandi átök sem leiði til þess með tímanum að Rússland nái undirtökum í Úkrænu sem verði hluti af áhrifasvæði Rússa.

Hins vegar að Úkrænumenn reki Rússa af höndum sér á næstu árum með auknum stuðningi Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja.

Stöðugleiki í öryggismálum á norðurslóðum 

Meðfylgjandi er krækja á grein á netsíðu tímaritsins Foreign Policy. Titill hennar er Europe’s Northern Flank Is More Stable Than You Think (https://foreignpolicy.com/2023/07/28/arctic-nato-russia-china-finland-sweden-norway-northern-europe-defense-security-geopolitics-energy/) Greinin er eftir tvo sérfræðinga hjá “rannsóknastofnun varnarmála í Noregi” (Institutt for forsvarsstudier).

Foreign Policy er þekkt tímarit um alþjóðamál. Í umræddri grein fara höfundar yfir helstu áhrifaþætti í þróun öryggismála á norðurslóðum. Inntak greinarinnar er að á “norðurvæng” Evrópu og norðurslóðum ríki stöðugleiki í öryggismálum og ólíklegt, í náinni framtíð að minnsta kosti, að það breytist. 

Þessi niðurstaða er í aðalatriðum í samræmi við það, sem komið hefur fram um norðurslóðir í greinum á þessari vefsíðu á undanförnum árum, þar á meðal eftir innrás Rússa í Úkrænu í febrúar 2022. Norðurslóðir eru lágspennusvæði, eins og það er kallað. Sú hefur í aðalatríðum verið staða mála um langa hríð og þar hefur ekki gætt aukinnar spennu eða aukinna hernaðarlegra umsvifa vegna Úkrænustríðsins.

Sunnar – á svæðum í nágrenni Íslands – bendir flest til að rússnesk hernaðarumsvif séu áfram mjög lítil. Rússnesk herflugvél kom síðast í námunda við landið sumarið 2020. Rússneskur tundurspillir sást þar 2021 en þá höfðu rússnesk herskip vart komið þangað svo áratugum skipti. Loks virðast ferðir rússneskra kafbáta áfram mjög strjálar um svæði nálægt Íslandi. Það sést meðal annars af því að bandarískar eftirlitsflugvélar af gerðinni Boeing P-8 Poseidon fara, eins og undanfarin tvö ár, tíðar eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli til Eystrasalts fremur en stunda þær aðallega yfir Norður-Atlantshafi. Um allar þessar vísbendingar um hernaðarlegan stöðugleika á svæðum í námunda við Ísland var síðast fjallað hér á vefsíðunni í byrjun þessa árs (“Sinna íslensk stjórnvöld ekki sem skyldi öryggis- og varnarmálum?”, 4. janúar 2023.).

Að öryggismál séu í aðalatriðum í föstum skorðum á norðurslóðum hefur einkennt stöðu mála þar um áratuga skeið frá í kalda stríðinu. 

Norðurslóðir hafa fyrst og síðast strategíska þýðingu í hernaðarlegu tilliti. Hún tengist annarsvegar kjarnorkujafnvæginu, og hinsvegar möguleika á stríði milli NATO og Rússlands sem brytist út á meginlandi Evrópu. Átök á meginlandinu mundu ná til norðurslóða.

Kjarnorkujafnvægið veldur stöðugleika á svæðinu, sem hefur verið hvorugum í hag að raska – síst Rússlandi. Kjarnorkuvopn lúta að tilvistarhagsmunum og eru til að verja þá. Kjarnorkuvopn Rússlands þess fela ennfremur í sér að þeirra vegna getur það talist stórveldi í hernaðarlegum skilningi og þau skipta enn meira máli en áður að þessu leyti í kjölfar Úkrænustríðsins. Norðurslóðir hafa sérstaka þýðingu í því efni.

Langmikilvægasti eini hernaðarlegi þátturinn á norðurslóðum lýtur að grundvallarhagsmunum Rússlands. Hann felst í því að stór hluti langdrægra kjarnorkuvopna þess er á norðurslóðum – nánar tiltekið í Barentshafi og Íshafi. Eldflaugakafbátar rússneska Norðurflotans bera þessi vopn, sem eru í senn nýjustu og öruggustu kjarnavopn Rússlands. Þegar byrjað var um 2010 að endurreisa rússneska herinn eftir mikla hrörnun hans í kjölfar kalda stríðsins hlutu forgang þessi vopn og kafbátarnir sem bera þau.

Meginbreytingin á stöðunni á norðurslóðum í kjölfar innrásar Rússa í Úkrænu felst í aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO. En hún eflir hernaðargetu og fælingarmátt bandalagsins á norðurslóðum og eykur þannig stöðugleika á svæðinu eins og höfundar umræddrar greinar í Foreign Policy benda á. 

Í lok greinarinnar benda höfundarnir á tvennt sem gæti hróflað við stöðugleika á norðurslóðum. Annar þátturinn lýtur að því að “endurrísandi” (resurgent) Rússland sækti í sig veðrið meðal annars í skjóli þess að Bandaríkin yrðu upptekin af Kína og hugsanlegum ófriði í austur Asíu á kostnað tengsla þeirra við NATO og öryggi í Evrópu.

En svo er komið – og höfundar greinarinnar í Foreign Policy taka undir það – að Rússum mundi reynast örðugt að öðlast þá burði að fæli í sér alvarlega hernaðarleg ógn við Evrópu utan Úkrænu.

Fyrir liggur að mörg ár, jafnvel áratugi, mun taka að bæta tjónið sem rússneski landherinn hefur orðið fyrir í stríðinu í Úkrænu. Jafnframt þarf að laga alvarlega veikleika sem stríðið hefur leitt í ljós og lúta að búnaði, flutningagetu, þjálfun og stjórnun hersins. Einnig hefur birst vandi Rússlandshers vegna landlægrar spillingar í Rússlandi og systur hennar vanhæfninnar. Þá býr þjóðarbúskapur Rússa við ýmsa alvarlega veikleika til viðbótar þeim sem stafa af refsiaðgerðum Vesturlanda vegna Úkrænustríðsins og hann er lítill í samanburði við efnahag vesturlanda. Þjóðarbúskapur Rússlands er til dæmis á við hagkerfi Kanada að stærð þótt íbúar Rússlands séu tæplega 150 milljónir og því næstum fjórum sinnum fleiri en Kanadamenn.

Veikleikarnir sem Úkrænustríðið hefur leitt í ljós, ná auðvitað til annarra deilda Rússlandshers en landhersins. Flugherinn hefur haft sig lítið í frammi í Úkrænustríðinu og á greinilega við ýmsa veikleika að etja, sem lúta meðal annars að þjálfun og virðast koma í veg fyrir að hann geti tekið þátt í samræmdum aðgerðum með landhernum. Þá hefur flugherinn enn ekki ráðist gegn herflutningum til Úkrænuhers frá Póllandi. Þaðan berast vestræn hergögn sem skipta öllu fyrir Úkrænumenn en rússneski flugherinn hefur greinilega ekki burði til að stöðva flutningana. Svartahafsflotinn hefur haldið sig til hlés að mestu eftir apríl 2022 þegar Úkrænumenn, sem eiga ekki flota, sökktu með flugskeytum beitiskipinu Moskvu sem var flaggskip Svartahafsflotans og sérstaklega útbúið til loftvarna. Samt fór sem fór gegn loftárás Úkrænumanna og nýlega stórlöskuðu þeir rússneskt landgönguskip með dróna.

Í Úkrænustríðinu hefur rússneski herinn enn ekki tekist á hendur – í neinum mæli sem máli skipti  – svonefndar samræmdar aðgerðir (combined operations) fótgönguliðs, stórskotaliðs, brynvagna, skriðdreka og flughers. Það er grundvallarveikleiki sem bendir til að rússneski herinn sé að segja má ekki nútímaher. 

Hinn þátturinn sem höfundar Foreign Policy greinarinnar telja að gæti leitt til óstöðugleika á norðurslóðum væri ef Kína yrði herveldi þar í kjölfar þess meðal annars segja þeir að Rússland hefði veikst vegna Úkrænustríðsins og því orðið miklu háðara Kína en áður.  Niðurstaðan er hins vegar að Kína verði vart herveldi á norðurslóðum í náinni framtíð. Það er vafalítið rétt.

Í greinum hér á vefsíðunni hefur verið bent á að stefndi ákveðið í opnun Norður-Íshafs af völdum hlýnunar Jarðar mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þess á norðurslóðum að líkindum hefjast á næstu 10-20 árum. Hann mundi litast mjög af samkeppni Kína og Bandaríkjanna, sem þegar er hafin á heimsvísu og verður að líkindum ráðandi þáttur alþjóðamála á öldinni. Jafnframt sé ljóst að með Úkrænustríðinu hafi samvinna Rússa og Kínverja orðið enn nánari en var, sameiginlegir hagsmunir þeirra og sýn á veröldina enn ljósari en fyrr, og Rússland miklu háðara Kína en áður. Líkur fari þannig vaxandi á að samvinna þeirra nái til norðurslóða og að Kína geri sig hernaðarlega gildandi þar þegar kemur lengra fram á öldina .

Ísland, NATO og Kína

Niðurstöður leiðtogafundar NATO í Vilnius, höfuðborg Litháhens, 11.-12. júlí síðastliðinn voru eftir almennum væntingum hvað Úkrænu varðaði. Úkrænu var ekki boðin aðild að bandalaginu og það stóð ekki til enda eru forsendur fyrir aðild landsins óuppfylltar.  Áður en til hennar getur komið verður stríðið þar að taka enda og varanleg lausn að finnast. Að auki verður Úkræna að uppfylla skilyrði, sem lúta að innri þáttum; reyndar  innri veikleikum, sem meðal annars eiga við spillingu í landinu og réttarríkið. 

Annað stórmál í niðurstöðum NATO í Vilnius er eftirtektarvert. Það lýtur að gagnrýninni og harðnandi afstöðu NATO til Kína. Hún hefur mótast á leiðtogafundum bandalagsins undanfarin ár og tekur mið af því lykilatriði í þróun alþjóðamála,sem felst í samkeppni Bandaríkjanna og Kína á Asíu-Kyrrahafssvæðinu og á heimsvísu. Þá hefur stuðningur Kínastjórnar við hernað Rússa gegn Úkrænu hert afstöðu Kanada og Evrópuríkja NATO til Kína. 

Afstaða NATO til Kína er efni þessarar greinar sem og sú stefna Íslands gagnvart Kína, sem felst í yfirlýsingum leiðtogafunda bandalagsins. Í ljós kemurað afstaða Íslands gagnvart Kína hefur breyst frá því að taka að langmestu leyti til mannréttindamála. Í yfirlýsingum NATO tekur Ísland undir margvíslega gagnrýni á Kína og framgöngu þess á alþjóðavettvangi og undir sjónarmið Bandaríkjanna í samkeppni þeirra við Kína. 

Það er eftirtektarvert en kemur ekki á óvart. Eftir því sem samkeppni  Bandaríkjanna og Kína harðnar og verður æ fyrirferðarmeiri á alþjóðavettvangi mun Ísland – eins og mörg önnur ríki – í vaxandi mæli þurfa að taka afstöðu til hennar bæði almennt og varðandi einstök mál. 

Stefnumótunin gegn Kína á vettvangi NATO undanfarin ár fellur í aðalatriðum að íslenskri utanríkisstefnu, sögu hennar og forsendum, sem og að hugmyndafræði og sýn íslenskra stjórnvalda á alþjóðamál

Jafnframt hefur Ísland líkt og mörg önnur ríki verulegra viðskiptahagsmuna að gæta í samskiptunum við Kína. Þegar fram í sækir mun það að líkindum ásamt harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjann hafa í för með sér að upp komi flækjur og hagsmunárekstrar í utanríkismálum Íslands.

Loks eru líkur á samkeppnin eigi á næstu áratugum eftir að snerta Ísland enn frekar þegar hún nær til norðurslóða – þar á meðal á hernaðarsviði.

Samkeppni Kína og Bandaríkjanna stafar af þeirri grundvallarbreytingu sem orðið hefur á strúktúr – eða uppbyggingu – alþjóðakerfisins og felst í því að Kína hefur orðið það stórveldi og sú áskorun gegn ráðandi stöðu Bandaríkjanna sem raun ber vitni. Í strúktúr felst einn öflugasti drifkraftur alþjóðamála og breytingin sem orðin er á honum mun skila sér um allt alþjóðakerfið og hafa á endanum áhrif á stefnu allra ríkja.

Kanada og Evrópuríki NATO eru ekki beinir þátttakendur í samkeppni Kína og Bandaríkjanna en styðja Bandaríkin í grundvallaratriðum. Sá stuðningur skiptir máli því samkeppnin snýst ekki bara um yfirráð í austur Asíu heldur og um undirtök í alþjóðakerfinu, um alþjóðaviðskipti og um samkeppni á sviði vísinda og hátækni. 

Samkeppnin snertir og náið gerólíka sýn aðila hvað varðar alþjóðamál, stjórnarfar og mannréttindi. Þá hefur innrás Rússa í Úkrænu og beinn og óbeinn stuðningur Kína við hana hert á gagnrýni Kanada og Evrópuríkja NATO á Kína og aukið stuðning þessara aðila við Bandaríkin.

NATO og Kína

Það var í desember 2019 að NATO tók fyrst afstöðu til Kína í yfirlýsingu leiðtogafundar. Þar sagði að stefna Kína á alþjóðavettvangi og vaxandi áhrif þess fælu í sér tækifæri en einnig áskorun sem bandalagsríkin þyrftu að taka sameiginlega afstöðu til.

Að NATO tók þessa afstöðu 2019 var rakið til þrýstings frá bandarískum stjórnvöldum einkum Trump stjórninni. Þá var stefna og framganga Kína á alþjóðavettvangi og í mannréttindamálum orðin með þeim hætti að rök Bandaríkjastjórnar fyrir nauðsyn þess að NATO léti í sér heyra fengu aukinn hljómgrunn.

Á leiðtogafundi í Brussel í júni 2021var mjög hert á afstöðunni til Kína og henni gerð miklu ítarlegri skil en í yfirlýsingu leiðtoganna 2019. Nú sagði meðal annars að “yfirlýst metnaðarmál (stated ambitions) og ágeng (assertive) hegðun” Kína fælu í sér áskorun gegn “lögum og reglu í alþjóðkerfinu” (rules based international order). Einnig var lýst áhyggjum af “nauðungarstefnu” (coercive policies) Kína, uppbyggingu á kjarnorkuherstyrk þess, nútímavæðingu hersins, hernaðarsamvinnu Kína og Rússlands sem og af almennum skorti á gagnsæi í stefnu Kína og “upplýsingafölsun” (disinformation) af þess hálfu. 

Grunnurinn að sameiginlegri afstöðu NATO ríkjanna var því lagður fyrir innrás Rússa í Úkrænu í febrúar 2022 og áður en í ljós kom að Kína fordæmdi ekki hernaðinn gegn Úkrænu heldur studdi Rússa beint og óbeint. Það bendir til að stefnumótun bandalagsins ráðist mjög af því lykilatriði alþjóðamála, sem felst í samkeppni Bandaríkjanna og Kína á Asíu-Kyrrahafssvæðinu og á heimsvísu. Úkrænustríðið hefur bæst við og hert á gagnrýni á Kína.

Í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO í Madrid 2022, sem var haldinn í kjölfar innrásar Rússa í Úkrænu, var fjallað um Kína í grunnninn með svipuðum hætti og 2021. Jafnframt var í sérstöku stefnuskjali sem leiðtogarnir samþykktu um strategískar áherslur NATO til lengri tíma (Strategic Concept) – fjallað ítarlega og á gagnrýnan hátt um Kína og bent á áskoranir sem NATO stæði frammi fyrir vegna stefnu þess og framkomu.

Í stefnuskjalinu sagði að bandalagsríkin væru á einu máli um að stefna Kína fæli í sér “áskoranir gegn hagsmunum, öryggi og gildum” þeirra. Ennfremur sagði að Kína notaði “ýmis pólitísk, efnahagsleg og hernaðarleg tæki til að stækka fótspor (footprint) sitt í veröldinni og sýna vald sitt, en stefnan er jafnframt ógagnsæ hvað varðar fyrirætlanir og hernaðaruppbyggingu. Illgjörnum (malicious) fjölþátta aðgerðum Kína og aðgerðum þess gegn netöryggi er ásamt óvæginni orðræðu og upplýsingafölsun beint gegn aðildarríkjum NATO og skaða öryggi bandalagsins”.

Ásælni Kína á alþjóðavettvangi í efnahagslegum og tæknilegum efnum var gagnrýnd sem og viðleitni þess til að ná yfirráðum yfir mikilvægum hráefnum, innviðum og aðfangakeðjum. Kína “notaði efnahagsleg ítök sín til að skapa sér strategísk yfirráðasvæði og efla áhrif sín” og legði sig “fram um að grafa undan þeim grundvelli alþjóðakerfisins sem felst í lögum og reglu. Vaxandi félagsskapur Kína og Rússlands um að grafa undan alþjóðakerfi byggðu á lögum og reglum gengi gegn gildum bandalagsríkjanna og hagsmunum. 

Fram kom að NATO væri áfram “opið fyrir uppbyggileg samskipti” við Kína en jafnframt sagði að bandalagsríkin mundu “vinna sameiginlega að því með ábyrgum hætti að fást við kerfisbundnar áskoranir sem stöfuðu af Kína gegn öryggi Evró-Atlantshafssvæðisins…” Þau byggju sig undir að “vernda sig gegn þvingunartaktík (coercive tactics) Kína og viðleitni þess til að kljúfa bandalagið. Bandalagsríkin “munu standa vörð um sameiginleg gildi og þann grundvöll alþjóðakerfisins sem byggir á lögum og reglu…”

Í yfirlýsingu Vilnius fundarins í júlí síðastliðinn var mjög svipað orðalag um Kína og var í yfirlýsingu og stefnuskjali leiðtoga NATO á fundi þeirra í Madrid í júní 2022. 

Viðbrögð kínverskra stjórnvalda við Vilniusyfirlýsingunni voru að hún bæri merki “kaldastríðshugsunarháttar og hugmyndafræðilegar slagsíðu (bias)”, grundvallarstaðreyndir væru virtar að vettugi, rangfærslur viðhafðar um stefnu Kína og með yfirlýsingunni væri “vísvitandi verið að sverta Kína.” 

Loks hefur fylgt stefnumótun NATO gagnvart Kína að bandalagið hefur þróað samvinnu við ríki á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Til leiðtogafundar þess í Madrid 2022 var boðið forseta Suður Kóreu, forsætisráðherra Japans, forsætisráðherra Ástralíu og forsætisráðherra Nýja Sjálands. Leiðtogum þessara ríkja var einnig boðið að á fundinum í Vilnius. 

Kína og Ísland

Sem fyrr sagði stafar samkeppni Bandaríkjanna og Kína af grundvallarbreytingu á strúktúr eða uppbyggingu alþjóðakerfisins í kjölfar þess að Kína varð það stórveldi sem við blasir. Það hefur nú þegar orðið keppinautur Bandaríkjanna á nálægt jafningjagrundvelli að ýmsu leyti. Samkeppnin á að líkindum eftir að harðna, verða enn fyrirferðarmeiri í alþjóðakerfinu en þegar er orðið og hafa á endanum áhrif á stefnu allra ríkja í því. 

Í yfirlýsingum NATO felst að afstaða Íslands gagnvart Kína hefur breyst samanborið við fyrri stefnu íslenskra stjórnvalda í garð Kína, sem var gagnrýnin en laut að mestu leyti að mannréttindum. Í því efni var sjónum beint sérstaklega að kúgun og harðýðgi kínverskra stjórnvalda gegn Úígúrum en einnig lýst yfir áhyggjum af mannréttindum í Tíbet og af þróun mannréttinda í Hong Kong. Ísland átti hlut að yfirlýsingum hóps ríkja í þriðju nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um sömu mál. 

Á vettvangi NATO hefur Ísland hins vegar á undanförnum árum tekið almenna afstöðu gegn stefnu Kína í alþjóðamálum og tekið undir stefnu Bandaríkjanna í samkeppni þeirra við Kína. 

Þessi afstaða fellur að utanríkisstefnu Íslands, lykilforsendum hennar og sögu, að þeirri hugmyndafræði sem Íslendingar aðhyllast og að sýn íslenskra stjórnvalda á alþjóðamál og á stjórnarfar og mannréttindi í Kína. Auk almennrar gagnrýni á Kína hafa íslensk stjórnvöld skrifað upp á að NATO þurfi að bregðast við stefnu Kína til verjast áskorun af þess hálfu gegn hagsmunum, gildum og öryggi bandalagsríkjanna. 

En hvert verður framhaldið? 

ESB og helstu aðildarríki þess hafa mikla fjárhagslega hagsmuni í samskiptum við Kína og reyna enn af þeim sökum – og skiljanlega – að fara bil beggja í samkeppni Kína og Bandaríkjanna. Þannig eiga Frakkland og Þýskaland í miklum viðskiptum við Kína vegna útflutnings þangað, vegna innflutnings þaðan – þar á meðal á mikilvægum sjaldgæfum málum – og fyrirtæki frá þessum Evrópuríkjum eiga miklar fjárfestingar í Kína sem skila þeim verulegum tekjum. 

Líkur eru þó á að Kanada og Evrópuríki NATO styðji í aðalatriðum Bandaríkin áfram í samkeppninni við Kína. Sameiginlegir öryggishagsmunir eru skýrir sem og að Evrópuríkin og Kanada reiða sig á Bandaríkin í öryggismálum og að mörgu öðru leyti einnig á alþjóðavettvangi. 

Innrás Rússa í Úkrænu leiddi í ljós svo ekki varð um villst hvað Kína stendur fyrir og sýndi hvernig Kína og Rússlands hafa sameiginlega sýn á alþjóðamál, alþjóðalög og reglur. Þá er Kína akkur í að eiga Rússland að samstarfsaðila í samkeppninni við Bandaríkin. 

Jafnframt hafa viðbrögð NATO, G-7 hópsins og ESB við innrásinni í Úkrænu sýnt fram á skýra sameiginlega hagsmuni og sýn þessara aðila byggða á sameiginlegri hugmyndafræði þeirra og gildismati. Þessir þættir munu tryggja í meginatriðum samstöðu Kanada og Evrópuríkja NATO með Bandaríkjunum í samkeppninni við Kína. Viðskiptahagsmunir verða þó eðlilega áfram til staðar og munu vafalítið eiga eftir að leiða til árekstra milli Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja en afar ólíklega veikja í grundvallaratriðum samstöðu þeirra gegn Kína.

Ísland mun eiga áfram eiga í verulegum viðskiptum við Kína, sem eiga líklega eftir að aukast. Hins vegar má búast við, meðal annars vegna viðskiptahagsmuna, að samkeppni Bandaríkjanna og Kína muni hafa í för með sér flækjur og hagsmunaárekstra í utanríkisstefnu Íslands eins og reyndar annarra NATO ríkja. 

Í greinaflokki á þessari vefsíðu um Ísland og umheiminn 2020-2050 sagði meðal annars í síðustu greininni 8. apríl 2021:

“Gera verður ráð fyrir að Ísland þurfi á næstu árum og áratugum að taka afstöðu til ýmissa deilumála sem lúta að harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjanna. Stundum kann niðurstaðan að vera augljós vegna skýrra hagsmuna og grundvallarreglna, í öðrum tilvikum kann að vera möguleiki fyrir Ísland að standa á hliðarlínunni, í enn öðrum leyfir hagsmunamat ef til vill ekki slíkt svigrúm…Miklu getur skipt að utanríkisviðskiptin verði ekki um of háð Kínamarkaði og að ekki verði síður sótt á aðra vaxandi markaði í Asíu en þann kínverska.” 

Ennfremur sagði að “Ísland mun þurfa að taka afstöðu til deilumála í harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og það eru meiri líkur en minni á að Ísland standi með Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum fremur en með Kína. Það getur leitt til refsisaðgerða af Kína hálfu gegn Íslandi.

Loks kom fram að “Eiginleg samkeppni Kína og Bandaríkjanna á norðurslóðum er enn ekki til staðar, en samkeppni þeirra á heimsvísu hefur skilað sér þangað. Það hefur þó hingað til aðallega birst í bandarískum yfirlýsingum að því að virðist til að minna Kínverja á að Ísland og Grænland eru á bandarísku áhrifasvæði.”

Verulegar líkur virðast á að samkeppni Kína og Bandaríkjanna eigi eftir að snerta Ísland beinlínis þegar hún nær inn á norðurslóðir, þar á meðal á hernaðarsviðinu. 

Spár gera ráð fyrir að Norður-Íshaf opnist af völdum hlýnunar Jarðar að einhverju marki um og upp úr 2050. Stefndi ákveðið í slíkar grundvallarbreytingu á heimsmyndinni mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þeirra á norðurslóðum að líkindum hefjast á næstu 10-20 árum. Hann mundi litast mjög af samkeppni Kína og Bandaríkjanna og birtast meðal annars í mjög auknum áhuga þeirra á Íslandi.

Kínaher skortir enn flest sem þarf til að standa undir verulegum hernaðarumsvifum á norðurslóðum. Það krefðist meðal annars og ekki síst aðstöðu á svæðinu hjá Rússum. Áður mátti ætla að óvíst væri hún stæði til boða. Rússar hefðu almennt vara á sér gagnvart Kína vegna þess hve miklu öflugra það væri en Rússland. Einnig mátti færa rök fyrir að því að sakir þess að meginforsendur hagvaxtar í Rússlandi lægju í náttúruauðlindum á norðurslóðum yrði Rússum í mun að stuðla að stöðugleika á norðurslóðum fremur en aukinni hervæðingu. 

Með Úkrænustríðinu hafa þessar forsendur gerbreyst. Samvinna Rússa og Kínverja hefur orðið enn nánari en var, sameiginlegir hagsmunir þeirra og sýn á veröldina enn ljósari, og Rússland hefur orðið miklu háðara Kína en áður. Líkur fara þannig vaxandi á að samvinna þeirra nái til norðurslóða og Kína geri sig gildandi þar.

Heimildir

Alþjóðakerfið, loftslagsmál og öryggismál

Mér var boðið að taka þátt í pallborði á ráðstefnu þjóðaröryggisráðs um alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi sem haldin var í Hörpu í gær. Ég talaði um loftslagsmál og öryggismál og hafði þetta að segja:

Ég ætla að verja þeim nauma tíma sem ég hef í að ræða í ofurknöppu máli tengsl alþjóðakerfisins við annarsvegar loftslagsmál og hinsvegar við öryggismál.

Ég hef haldið fram að loftslagsmál gætu orðið vandasamasta utanríkismál Íslands – vegna deilna við önnur ríki og af því um háar fjárhæðir yrði tefla.

Kenning mín byggir að töluverðu leyti á sérstöðu Íslands en loftslagsbreytingar eru og verða átakamál í heiminum af því ekki síst að leiðin sem fara á til að draga úr breytingunum er í grunninn að minnka mikið notkun á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi. Um 80 prósent af orkunotkun í heiminum byggir á jarðefnaeldsneyti og það er lykill að bættum lífskjörum í fjölmennum ríkjum eins og Indlandi og Kína.

Alþjóðakerfið getur ekki að óbreyttu skipt kostnaðinum af því að minnka svo eldsneytisnotkunina að máli skipti og þannig að sátt yrði um.

Alþjóðakerfið er milliríkjakerfi. Það er næstum 400 ára gamalt en er í fullu fjöri. Alls ekki á útleið. Það hvílir í grunninn á andstöðu við yfirríkjavald og varðstöðu um fulllveldið.

Að fást við loftslagsmálin kallar hins vegar á yfirríkjavald og snertir með róttækum hætti innanlandsmál, lífskjör, og samkeppnishæfni. Meginreglur alþjóðakerfisins endurspeglast greinilega í veikleikum alþjóðasamninga um loftslagsmál.

Alþjóðakerfið fellur þannig treglega að baráttu gegn loftslagsbreytingum en gæti hugsanlega átt mikilvægan þátt í stórauknu átaki í vísindum og tækni til að hraða umbyltingu í orkumálum heimsins. Það þyrfti ekki að rekast á meginreglur kerfisins.

Hvað viðvíkur öryggismálum þá hefur strúktúr alþjóðakerfisins almennt mikla þýðingu. Kína er rísandi veldi í kerfi þar sem Bandaríkin eru ráðandi. Þau ætla að koma í veg fyrir að Kína verði ráðandi í Asíu og ógni í kjölfarið öryggi Bandaríkjanna og stöðu þeirra í kerfinu.

Til nánari skýringar – þá hófu Bandaríkin afskipti af styrjöldum og öryggismálum Evrópu á 20. öld af því þau óttuðust að Þýskaland og síðar Sovétríkin gætu orðið ráðandi á meginlandinu og ógnað Bandaríkjunum í kjölfarið. Af þessari ástæðu hafði Ísland þýðingu fyrir heimsmálin í 50 ár – þar til Sovétríkin hrundu. Strúktúr skýrir þannig þetta einstaka tímabil í Íslandssögunni.

Hætta á að stórveldi gæti orðið ráðandi á meginlandi Evrópu hvarf með Sovétríkjunum. Bandaríkin hafa þó verið áfram með her í Evrópu vegna almennra öryggishagsmuna.

Að áliti bandaríska landvarnaráðuneytisins mun Rússland koma frá Úkrænustríðinu sem herveldi í molum (“shattered military power”) eins og það hefur nýlega verið orðað (“Russia will emerge from the Ukraine war a ‘shattered military power,’” top Pentagon official says”, Business insider 28. febrúar 2023 og House Armed Services Committee, 20230228 FC Hearing: Oversight of U.S. Military Support to Ukraine – birt í heild á YouTube.). En það mun einhverntíma aftur hafa burði til að ógna nágrannaríkjum.

Takist Úkrænuher að þjarma enn frekar að rússneska hernum í stríðinu gæti komist á vopnahlé. Í framhaldinu yrði að halda aftur af Rússlandi með úkrænskum her vel búnum vestrænum vopnum. Þannig gæti strúktúr leitt af sér jafnvægi og öryggi. Lengra verður vart komist nema Rússar breyti gagngert stefnu og stjórnarfari í Rússlandi.

Sinna íslensk stjórnvöld ekki sem skyldi öryggis- og varnarmálum?

Sinna íslensk stjórnvöld ekki sem skyldi öryggis- og varnarmálum?

Eftir innrás Rússa í Úkrænu í febrúar 2022 hefur komið fram gagnrýni á íslensk stjórnvöld fyrir “andvaraleysi” og “aðgæsluleysi” í öryggis- og varnarmálum; að þau hafi meðal annars ekki endurmetið varnarhagsmuni þjóðarinnar í kjölfar innrásarinnar. Jafnframt er gjarnan bent á ríkisstjórnarsamstarfið sem skýringu á viðbragðaleysi stjórnvalda. Öryggis- og varnarmál séu viðkvæm á stjórnarheimilinu vegna Vinstri grænna og meðal annars haldið fram að sá flokkur hafi neitunarvald í ríkisstjórninni í öryggismálum og því aðhafist hún ekki sem skyldi í þeim efnum. 

Ásakanir um andvaraleysi í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu standast ekki skoðun né heldur fullyrðingar um gerbreyttar aðstæður í íslenskum öryggis- og varnarmálum hennar vegna.

Innrásin og stríðið í Úkrænu hafa ekki haft neinar afleiðingar sem veikja undirstöður varna- og öryggismála Íslands eða krefjast endurmats á þeim, hvað þá þess að fast herlið verði á landinu – eins og meðal annars hefur verið kallað eftir. Þá er fullyrt að öll bandalagsríki önnur en Ísland hafi endurmetið varnaráætlanir sínar, sem er mjög ofmælt.

Einnig er gjarnan bent á ógn við netöryggi á landinu. Það þarf að tryggja en ekki vegna Úkrænustríðsins því nethernaður mun hafa skipt litlu sem engu máli í því.

Hversvegna innrásin boðar ekki tímamót í íslenskum öryggismálum hefur verið útskýrt í greinum sem birtust á þessari vefsíðu og fésbókarhópi mínum um aþjóða- og utanríkismál. Síðast birtist slík grein 19. september: Öryggi og varnir Íslands – og stríðið í Úkrænu og þar áður 7. mars: Íslensk öryggismál ekki á neinum tímamótum vegna stríðsins í Úkrænu

Hér ætla ég annarsvegarað rifja stuttlega upp meginatriði úr áðurnefndum greinum um Ísland og Úkrænustríðið. 

Úkrænustríðið er staðbundið og líkur á að það stigmagnist í átök milli NATO og Rússlands hafa verið litlar og þær fara minnkandi af því rússneski herinn hefur veikst mjög eftir hrakfarir hans í Úkrænu. Vörnum Íslands er vel fyrir komið í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, langvoldugasta herveldi heims. Úkrænustríðið hefur auðvitað með engum hætti veikt skuldbindingar þess í garð Íslands. 

Hinsvegar fjalla ég í þessari grein um strategísk grundvallaratriði sem varða hernaðarlega stöðu Íslands. Það er lykill að skilningi á íslenskum öryggismálum – fyrr og nú. Hin strategísku lykilatriði eru einföld og skýr og voru til staðar fyrir innrásina í Úkrænu.

Úkrænustríðið hefur ekki veikt undirstöður íslenskra öryggis- og varnarmála

Í fyrsta lagihafa verið litlar líkur á að átökin í Úkrænu breyttust í stríð milli NATO og Rússlands. Slík stigmögnun er ekki útilokuð en hún er almennt talin ólíkleg. 

En slík stigmögnun í stórveldaátök á meginlandi Evrópu væri forsenda þess að hernaðarógn yrði til gegn Íslandi af völdum Úkrænustríðsins. 

Þar er um að ræða staðbundið stríð í landi sem Rússar líta svo á að tilheyri áhrifasvæði þeirra. Ekkert bendir til annars en að þeir ætli að halda hernaði sínum innan landssvæðis Úkrænu. Ennfremur er ljóst að Bandaríkin vilja ekki með neinum hætti stuðla að stigmögnun átakanna í stríð milli NATO og Rússlands.

Þá eru enn minni líkur en áður á stigmögnun með rússneskri árás á eitt eða fleiri NATO ríki eftir stórfellt tjón rússneska hersins í Úkrænu – manntjón og hergagnatjón –  og í ljósi þeirra mörgu og alvarlegu veikleika sem hrjá hann og stríðið hefur afhjúpað. 

Að laga veikleika rússneska hersins og endurreisa hann eftir tjónið sem hann hefur beðið í stríðinu mun taka mörg ár að talið er. Breskur fjölmiðill hefur eftir ónefndum breskum embættismönnum að það muni taka allt að 30 ár að endurreisa her og efnahag Rússlands. Á meðan standa Bandaríkin og önnur NATO ríki auðvitað ekki í stað, heldur munu yfirburðir þeirra yfir Rússland – efnahagslegir og hernaðarlegir – vaxa og verða enn meiri en áður.

Margt benti til þess fyrir innrásina að Rússland væri hnignandi stórveldi. Hrakför rússneska hersins í Úkrænustríðinu og efnahagslegar refsiaðgerðir vesturlanda hraða verulega þeirri þróun. Hvort hún valdi því hugsanlega að aðrar og nýjar hættur stafi frá Rússlandi er annað mál og tíminn verður að leiða í ljós hvað gæti gerst að þessu leyti. Næsta víst er þó að rússneski herinn er í engu standi til að takast á við NATO – var það líklega ekki heldur fyrir innrásina.

Í öðru lagibyggjast varnir Íslands sem fyrr á varnarsamningnum við Bandaríkin, langöflugasta herveldi heims.

Vandséð er hverju þarf við að bæta og að ástæða sé til að hafa áhyggjur af vörnum landsins – nema efast sé um staðfestu Bandaríkjanna. 

Engin ástæða er til að ætla að Bandaríkin mundu ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart Íslandi á hættutíma. Það væri í þágu þjóðaröryggishagsmuna Bandaríkjanna sjálfra. Hernaðargeta þeirra til að verja Ísland er augljós.

Endurmat á varnarhagsmunum Íslands er óþarft. Fyrir liggur hverjir þeir eru og engin breyting orðið þar á. Þeir lúta fyrst og síðast að loftvörnum gegn langdrægum stýriflaugum sem sendar yrðu af stað frá flugvélum, herskipum eða kafbátum frá stöðum allt að 3 þúsund kílómetrum fyrir norðan Ísland en eina skotmarkið að heita má væri Keflavíkurflugvöllur. 

Landhersveitir hurfu úr varnarliði Bandaríkjanna á Íslandi á árinu 1960.

Í gagnrýni á stefnu stjórnvalda hefur verið bent á ógn við netöryggi á landinu. Hún er vafalítið hugsanleg en síst vegna Úkrænustríðsins. Nethernaður mun hafa skipt litlu sem engu máli þar og Rússar ekki reynst miklir nethermenn. Þá er það svo að sé fyrir netvörnum haft bendir flest til að þær séu séu almennt skilvirkar. Það sést meðal annars af tilraunum Rússa til nethernaðar í Úkrænu og Eystrasaltsríkjunum.

Það eru kjarnorkuvopn sem gera Rússland að stórveldi í hernaðarlegu tilliti en eina gildi þeirra er að fæla frá árás á tilvistarhagsmuni – árás sem auðvitað enginn hefur í hyggju að gera á Rússland. Að öðru leyti er notagildi kjarnavopna lítið – ef nokkuð.

Hafa öll önnur NATO ríki en Ísland endurmetið varnaráætlanir sínar eftir innrásina í Úkrænu?

Þessu hefur verið haldið fram í því skyni að gagnrýna meint viðbragðaleysi íslenskra stjórnvalda við innrásinni í Úkrænu. Rétt er að áhersla NATO á austurvæng bandalagsins hefur verið endurmetin og efld. Bandaríkin hafa fjölgað í liði sínu í austur Evrópu um 20 þúsund manns. Þar með eru samtals 100 þúsund í Bandaríkjaher í Evrópu – landher, flota og flugher – og þá er allt talið, ekki bara hermenn heldur margskonar stuðningslið einnig. 

Meginbreyting hvað varðar viðbrögð annarra NATO ríkja við innrásinni í Úkrænu virðist vera að sum þeirra eru að taka sig á í varnarmálum eftir margra ára og áratuga vanrækslu í því efni og leggja nú meira fé af mörkum til landvarna. 

NATO heldur leiðtogafund í Vilnius í Litháen í júlí næstkomandi. Markmið er meðal annars að styrkja frekar fælingu á austurvæng bandalagsins, ákvarða forgangsröðun við uppbyggingu herstyrks bandalagsríkjanna og auka aðstoð við Úkrænu. 

Finnland og Svíþjóð eru svo vitað sé einu ríkin sem hafa endurmetið varnarhagsmuni í grundvallaratriðum eftir innrásina í Úkrænu. Þau hafa horfið frá hlutleysistefnu og sótt um aðild að NATO. 

Finnar og Svíar eru í Evrópusambandinu en telja það greinilega ekki duga til að tryggja öryggi sitt. Bæði Finnland og Svíþjóð höfðu aukið verulega hernaðarlega samvinnu við NATO eftir að harðnaði á dalnum í alþjóðamálum í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga 2014. 

Nú vilja Finnar og Svíar greinilega tryggja sig betur en unnnt er með aðild að ESB og virðast í því skyni vilja komast í bandalag við Bandaríkin, en það er innifalið í aðild að NATO. 

Ólíkt Finnum og Svíum þurfa Íslendingar ekki að endurmeta varnarstefnu sína að þessu leyti því Ísland stofnaði til hernaðarbandalags við Bandaríkin fyrir rúmlega 70 árum!

Það var með aðildinni að NATO árið 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin 1951. Reyndar varð bandalag Íslands og Bandaríkjanna til tíu árum fyrr – í síðari heimsstyrjöld með herverndarsamningnum 1941. Um sögu þessa bandalags fram til okkar tíma fjallaði ég í síðast í fyrirlestri í Þjóðminjasafninu (Ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af sögu sem er löngu lokið – og þó ekki) sem birtist á vefsíðunni og í fésbókarhópnum 1. apríl 2022.

Í ljós gagnrýninnar sem komið hefur fram á íslensk stjórnvöld í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu er fróðlegt að skoða viðbrögð norskra stjórnvalda.

Í fyrrnefndum greinum á vefsíðunni um áhrif Úkrænustríðsins á íslensk öryggismál hefur komið fram að fljótlega eftir innrásina sögu norsk stjórnvöld að stríðið kallaði á aukna árvekni, en fæli ekki í sér beina ógn við Noreg. 

Ekki hefur átt sér stað endurmat á norskum varnaráætlunum og varnarhagsmunum svo vitað sé en viðbragðsstaða hefur verið aukin í norður Noregi – þó ekki fyrr en í nóvember, mörgum mánuðum eftir innrásina.  Norðmenn eiga 200 kílómetra löng landamæri að norðvestur Rússlandi. 

Aukin viðbragðsstaða var kynnt sem almenn varrúðarráðstöfun en hún var ákveðin eftir að upp kom ótti um öryggi gasleiðsla úti fyrir ströndum Noregs eftir að vart varð við það sem menn töldu vera grunsamlegt drónaflug í nágrenni borpalla. Þá eru norsk stjórnvöld, eins og sum önnur NATO ríki, að hraða aukningu útgjalda til hermála til að uppfylla skuldbindingar í NATO. 

Auk þess að ekki er litið svo á að innrásin í Úkrænu feli í sér beina ógn við öryggi Noregs, hafa norsk hermálayfirvöld bent á að rússnesk hernaðarumsvif í nágrenni Noregs hafi verið lítil eftir innrásina. Þá hafi stór hluti rússneskra landherssveita í nágrenni Noregs – á Kolaskaga – verið fluttur til Úkrænu til að berjast þar.  Norsk hermálayfirvöld segja að það sem eftir sé af landhersveitum á Kola sé bara brot af því sem var þar áður. Þá er bent á að þessar rússnesku sveitir hafi orðið fyrir miklu mann- og hergagnatjóni í Úkrænu.

Hvað varðar rússnesk hernaðarumsvif á svæðum við Ísland eftir innrásina bendir allt til að þau hafi eins og undanfarin ár verið mjög lítil. 

Það á við umferð kafbáta og herskipa. 

Rússnesk herflugvél hefur ekki komið í nágrenni við Íslandi í tvö og hálft ár! 

Starfsemi bandarískra herflugvéla sem hafa notað Keflavíkurflugvöll hefur enda ekki beinst að svæðum nálægt Íslandi eins og síðar verður nánar vikið að. 

Og þá er það svo að vegna langdrægra stýriflauga þurfa rússneskar flugvélar, herskip og kafbátar ekki að koma inn á svæði í nágrenni landsins til að árása. Þær yrðu sem fyrr sagði gerðar með langdrægum stýriflaugum frá stöðum langt fyrir norðan landið. Eftirlit með svæðum nálægt Íslandi hefur því fremur lítið með öryggi þess að gera.

Horfa þarf á hernaðarlega stöðu Íslands í strategísku samhengi – það skýrir flest í íslenskum öryggis- og varnarmálum 

Hernaðarlegt öryggi Íslands er háð valda- og hernaðarjafnvægi milli stórvelda á meginlandi Evrópu. Þannig er það og þannig var það – bæði í síðari heimsstyrjöld og í kalda stríðinu.

Hernaðarlegur viðbúnaður á Íslandi á hættutíma mundi einkum lúta að fælingarstefnu NATO á norðurslóðum gegn hugsanlegri hættu á rússneskri árás á bandalagið á meginlandi Evrópu. Slíkur viðbúnaður kæmi til landsins ef talið væri að stefndi í hugsanleg átök við Rússland. Þetta yrðu aðalega loftvarnasveitir, eldsneytisflugvélar og kafbátaleitarflugvélar sem og herlið til að gæta öryggis Keflavíkurflugvallar.

Hernaðarlegur viðbúnaður á Íslandi kæmi ekki í veg fyrir árás á landið – hefur ekki sjálfstætt fælingargildi þar. Það stafar af því að slík ógn yrði því aðeins til ef fæling NATO hefði mistekist – ekki á Íslandi, Norður-Atlantshafi eða á norðurslóðum – heldur mistekist á meginlandi Evrópu. Ógn við Ísland yrði afleiðing þess.

Þessi lykilatriði voru til staðar auðvitað fyrir innrásina. Ein stór strategísk breyting hefur hins vegar orðið vegna Úkrænustríðsins. Hún er að hernaðarmáttur Rússa á meginlandinu hefur minnkað mikið vegna stríðsins eins og áður sagði og mörg ár mun taka að endurreisa herinn og lagfæra marga og alvarlega veikleika hans. Þangað til er hann ekki í standi til að takast á við NATO.

Meðal þess sem talið er að Rússar muni ekki eiga nema í takmörkuðum mæli um ókomin ár eru stýriflaugar af því tagi sem líklegast er að notaðar yrðu í stríði til árása á Keflavíkurflugvöll.

Lítil rússnesk hernaðarumsvif í nágrenni Íslands og strategísk staða landsins valda því að umsvif Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli beinast ekki aðallega að svæðum nálægt Íslandi heldur einkum að fjarlægari stöðum. Þeir tengjast valda- og hernaðarjafnvægi á meginlandinu og fælingu þar, sem og kjarnorkuvopnajafnvæginu milli Rússlands og Bandaríkjanna.

Umsvif Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli eru næstum eingöngu flug P-8 kafbátaleitarflugvéla. Svæðin sem þær fljúga aðallega til í eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli eru einkum norðurhöf, nánar tiltekið “hánorður” (high north), það er norðanvert Noregshaf og Barentshaf. Frá hausti 2021 hafa slíkar flugvélar í verulegum mæli einnig farið ferðir frá Keflavíkurflugvelli til Eystrasalts. 

Hánorður hefur mikla strategíska þýðingu þar á meðal fyrir fælingarstefnu NATO á meginlandinu gegn Rússlandi. Þá er hryggjarstykki í kjarnorkuher Rússa í eldflaugakafbátum Norðurflotans, en þeim er aðallega haldið úti í Barentshafi frá stöðvum á Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Að verja kafbátana er forgangshlutverk Norðurflotans. Það er ekki að sækja út á Norður Atlantshaf, sem hann hefur að auki takmarkaða burði til að gera. 

Í júlí 2022 var birt uppfærð flotastefna Rússlands sem setur Atlantshaf í þriðja sæti í forgangsröð á eftir norðurslóðum og Kyrrahafi. 

Ein afleiðing Úkrænustríðsins verður sú að búast má við að kjarnorkuvopn Norðurflotans og öryggi þeirra fái enn meira vægi en áður – meðal annars til að undirstrika að Rússland sé áfram stórveldi þrátt fyrir hernaðarlegu áföllin miklu í Úkrænu. Þýðing norðurslóða, en einkum Barentshafs og Kolaskaga, fyrir Rússland fer með öðrum orðum vaxandi vegna Úkrænustríðsins. 

Mikilvægi Norðurflotans hefur einnig aukist á undanförnum árum vegna þess að í vopnabúrinu hafa orðið til langdrægar stýriflaugar sem dregið gætu til skotmarka í Evrópuríkjum frá kafbátum eða herskipum í heimahöfum flotans og til Norður Ameríku frá Íshafinu.

Í stríði mundi kafbátaleit frá Keflavíkurflugvelli styrkja varnir Íslands næði hún langt norður í höf, sem hún mundi væntanlega gera, þar sem væru rússneskir kafbátar eða herskip sem bæru langdrægar stýriflaugar sem gætu náð til Íslands. P-8 flugvélar hafa bæði vopn til að granda kafbátum og herskipum. 

Til dæmis um starfsemi P-8 flugvéla frá Keflavikurflugvelli er að síðustu vikur ársins 2022 voru töluvert mikil umsvif þessara flugvéla frá flugvellinum. Þau virtust annarsvegar stafa af þátttöku í æfingu norska flotans (Flotex 22) með skipum og flugvélum annarra NATO ríkja á Noregshafi, og hinsvegar af eftirliti með rússneskri æfingu á Eystrasalti og þátttöku í æfingu NATO þar. 

Fyrir og eftir ármótin 2022/23 var flogið til Eystrasalts til að njósna um starfsemi rússneska hersins í Kaliningrad. P-8 flugvélar eru bæði gerðar til leitar og eftirlits á hafi (maritime patrol) og til að njósna (reconnaisance) yfir hafi eða landi um hernaðarumsvif, herflutninga, fjarskipti o.fl.

Heimildir

Breytt heimsmynd og norðurslóðir

Ég hélt erindi þann 30. september síðastliðinn um breytta heimsmynd og norðurslóðir á málþingi við Háskólann á Akureyri, sem bar yfirskriftina Háskólar, lýðræði og Norðurslóðir – breytt heimsmynd. Málþingið var haldið í tilefni þess að Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri veitti þennan dag Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands, heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda. Hér fylgir erindið (uppfært hvað varðar átökin í Úkrænu): 

Vaxandi líkur eru taldar á að bráðnun hafíss á norðurslóðum af völdum hlýnunar Jarðar leiði til þess – eftir miðja öldina – að Norður-Íshaf opnist fyrir siglingar. Það mundi auðvitað breyta heimsmyndinni í grundvallaratriðum. Og Norðurslóðir yrðu nátengdar umheiminum – og alþjóðakerfinu. 

Alþjóðakerfið hefur þegar breyst með afgerandi hætti og heimsmyndin með. Hér á ég við hvernig strúktúr alþjóðakerfisins hefur þróast; nánar tiltekið að Kína er orðið annað mesta stórveldi heims á eftir Bandaríkjunum og nálgast þau á flestum mælikvörðum. 

Strúktúr alþjóðakerfisins og hlýnun Jarðar eru lykilþættir þegar horft er til norðurslóða næstu áratugi. Hlýnunin af augljósum ástæðum. – Strúktúrinn af því hann knýr stórveldapólitík. —  Í því efni skiptir mestu harðnandi samkeppni í Asíu og á heimsvísu milli Bandaríkjanna og Kína – samkeppni sem verður ráðandi þáttur í alþjóðamálum á öldinni. 

Í stuttu erindi um stórt mál ætla ég í fyrri hluta að fjalla um norðurslóðir og breytta heimsmynd – aðallega út frá strúktúr og stórveldahagsmunum. Í seinni hluta erindisins ræði ég um Úkrænustríðið og afleiðingar þess fyrir norðurslóðir.

Hlýnun Jarðar hefur þegar leitt til þess að norðurleiðin svonefnda – siglingaleið meðfram norðurströnd Rússlands – er nú fær milli Atlantshafs og Kyrrahafs síðsumars og fram eftir hausti – en möguleikar á henni eru takmarkaðir. Svo að hagkvæmar siglingar stórra tankskipa og gámaflutningaskipa gætu hafist um norðurslóðir þyrfti Norður-Íshafið að opnast fyrir siglingar yfir norðurskautið. Þar með yrði til stysta siglingaleið milli Atlantshafs og Kyrrahafs – milli Asíu og Evrópu – svonefnd norðurskautsleið

Vaxandi líkur eru taldar á að leiðin opnist um miðja öldina en jafnframt álitið líklegt að einhver tími líði eftir það þangað til Íshafið verði fært árið um kring. Það mun auðvitað opna stórkostlega möguleika og snerta náið hagsmuni margra ríkja varðandi siglingar, orku og fiskveiðar. 

Og Evró-Atlantshafssvæðið, þar sem þungamiðja alþjóðakerfisins var um aldir, mun tengjast um norðurslóðir við hina nýju þungamiðju alþjóðakerfisins – sem liggur á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. 

Gera má ráð fyrir að alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þessara breytinga hefjist í alvöru á næstu 10-20 árum. Almennur alþjóðlegur áhugi á svæðinu er þegar mjög vaxandi vegna siglinga þar í framtíðinni. Og bæði stórveldin – Kína og Bandaríkin – horfa til norðurslóða  – vegna samkeppninnar þeirra í milli og aukins aðgengis að svæðinu í kjölfar þess að hafísinn hörfar. 

Bandarísk stjórnvöld hafa á síðustu árum mótað stefnu um norðurslóðir þar sem fram kemur meðal annars að Bandaríkjaher líti á þær sem mögulegan vettvang fyrir vaxandi stórveldasamkeppni. Norðurslóðir fái með bráðnun hafíssins mikla þýðingu fyrir þjóðaröryggið því þær tengi Kyrrahaf og Atlantshaf og opni nýjar leiðir að Norður-Ameríku. Auk þess að gera ráðstafanir til að tryggja framtíðarhagsmuni Bandaríkjahers á norðurslóðum þurfi að hefta möguleika Kína og Rússlands til að nota þær í hernaðarlegum tilgangi gegn Bandaríkjunum.

Bandaríkjafloti er enn vanbúinn til umsvifa á norðurslóðum árið um kring af því hann vantar sérstaklega styrkt herskip til þess. Þegar eru hins vegar áætlanir í gangi um fjölgun ísbrjóta. Flotinn hefur haldið úti kjarnorkuknúnum kafbátum í Norður-Íshafi frá því í lok sjötta áratugarins – og fyrir þann tíma lágu ferðir langdrægra bandarískra sprengjuflugvéla og njósnaflugvéla þar um og gera áfram. Þá hafa norðurslóðir lykilþýðingu fyrir loftvarnir Norður-Ameríku. Loks er rétt að nefna að Alaska gerir Bandaríkin að stóru norðursslóðaríki með mikla hagsmuni þess vegna – til viðbótar þjóðaröryggishagsmunum.

Kínverjar hafa aukið umsvif sín á norðurslóðum en næstum alfarið á norðurströnd Rússlands vegna olíu- og gasvinnslu – en í þeim efnum eru þeir stórir fjárfestar og stærstu kaupendurnir. Þeir taka þátt í starfi Norðurskautsráðsins og hafa unnið að því að fá norðurslóðaríki til þátttöku í Belti og braut-fjárfestingaáætluninni, sem þá er kölluð Silkileið norðursins. Loks hafa þeir stundað ýmsa vísindastarfsemi á norðurslóðum.dg

Kínverjar eiga tvo ísbrjóta sem báðir hafa siglt um norðurslóðir og ætla að smíða fleiri og stærri slík skip. Ekki er kunnugt um kínverska hernaðarlega starfsemi á svæðinu hingað til en kínverski flotinn hefur hratt vaxandi getu til að athafna sig á fjarlægum slóðum. 

Kínverskir hernaðarsérfræðingar horfa þegar til þess að með minnkandi hafís megi halda Bandaríkjaher uppteknum við það á norðurslóðum að bregðast við athafnasemi kínverska flotans þar og um leið veikja Bandaríkjaher annarsstaðar. Þá er talið að til þess komi að Kínverjar haldi úti eldflaugakafbátum á norðurslóðum til að auka öryggi kjarnorkuhersins.

Hryggjarstykki í kjarnorkuher Rússa er í eldflaugakafbátum Norðurflotans, en þeim er aðallega haldið úti í Barentshafi frá stöðvum á Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Að verja kafbátanna eru forgangshlutverk flotans. Ennfremur eru flugvellir á Kolaskaga fyrir langdrægar sprengjuflugvélar. Á undanförnum tíu árum  hafa Rússar endurbyggt og tekið í notkun flugvelli og aðrar stöðvar á Norður Íshafssvæðinu sem byggðar voru í kalda stríðinu og einnig endurnýjað orrustuflugsveitir þar. Mikilvægi Norðurflotans hefur aukistverulega á undanförnum árum í kjölfar þess að í vopnabúrinu eru nýjar langdrægar stýriflaugar sem drægju til skotmarka í Evrópu frá kafbátum eða herskipum í heimahöfum flotans og til Norður Ameríku frá Íshafinu.

Hernaðarlegur viðbúnaður Rússa í norðri á sér að verulegu leyti skýringar í því feiknastóra haf- og landsvæði og miklu efnahagslegu hagsmunum sem þeir eiga á norðurslóðum ríkisins. Þar er að finna afar mikið af olíu og gasi og einnig af málmum og kolum. Þessar auðlindir eru lykilatriði í áætlunum um hagvöxt í Rússlandi næstu áratugi. Þá hefur nýja siglingaleiðin úti fyrir norðurströndinni augljóst mikilvægi að þessu leyti fyrir Rússland enda er hún nátengd þjóðaröryggi í augum stjórnvalda.

Af öllu þessu má sjá að ríkar forsendur eru fyrir stóraukinn athafnasemi Bandaríkjanna, Kína og Rússlands á norðurslóðum þegar hafísinn hörfar – þar á meðal hernaðarlegum umsvifum. Og herir fleiri ríkja en stórveldanna þriggja munu auðvitað birtast einnig á svæðinu þó í miklu minni mæli verði en hjá hinum.

Eftir að Rússar innlimuðu Krím 2014 og hófu jafnframt íhlutun í átök í austurhluta Úkrænu leiddu versnandi samskipti Rússlands og NATO til aukinna hernaðarumsvifa á norðurslóðum – þó ekki til neinna stórra breytinga í því efni. – Og allt til innrásarinnar í Úkrænu í lok febrúar síðastliðinn – hélt áfram samstarf allra norðurslóðaríkjanna á vettvangi Norðurskautsráðsins  – og það þrátt fyrir harðnandi deilur vegna Úkrænu og þvingunar- og refsiaðgerðir gegn Rússlandi. 

Með stofnun Norðurskautsráðsins fyrir tuttugu og sex árum var gripið tækifæri sem gafst eftir kalda stríðið til að hefja alþjóðasamstarf um málefni norðurslóða. Ráðið beindi sjónum að hagsmunum íbúa svæðisins á sviði loftslagsmála, mengunarmála, líffræðilegs fjölbreytileika og málefna hafsins. Ráðið varð vettvangur fyrir samstarf, samræmingu og samráð um þessi mál milli ríkisstjórna, frumbyggja og annarra íbúa svæðisins. 

Þótt Norðurskautsráðið væri fremur samstarfsvettvangur en stofnun leiddi starfsemin til þess að málefni norðurslóða voru stofnanavædd – að segja má. Það varð til skipulag og skrifstofa fyrir framkvæmdastjórn. En einnig þróaðist sameiginlegur skilningur á þeim hagsmunum sem lægju undir, og sameiginleg markmið og norm urðu til. 

Í upphafi var ákveðið að hernaðarleg öryggismál yrðu ekki þáttur í starfsemi Norðurskautsráðsins, enda mundu þau trufla hana. Þannig varð til viðmið – og norm í framhaldinu – sem fól í sér að bægja ætti frá ráðinu deilum og árekstrum aðildarríkja þess. Ennfremur varð til markmið, sem öll aðildarríkin lýstu stuðningi við. – Það var að halda norðurslóðum sem “lágspennusvæði” eins og sagt var.  

– Og deilum var bægt frá samstarfinu. – Í átta ár eftir að samskipti Rússlands og Vesturlanda snarversnuðu vegna Krímskaga og Úkrænu sinnti Norðurskautsráðið hlutverki sínu ótruflað af síharðnandi deilum.  – Það er ekki úr vegi að benda á að það gerði einnig Hringborð norðurslóða. 

Í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu varð Norðurskautsráðið hins vegar óstarfhæft – Það er – að svo stöddu – alvarlegasta og afdrifaríkasta afleiðing innrásarinnar fyrir norðurslóðir.  Markmið um norðuslóðir sem lágspennusvæði lætur undan síga. Fljótlega eftir innrásina lýstu önnur aðildarríki en Rússland sameiginlega yfir að vegna innrásarinnar mundu þau hætta að sækja fundi ráðsins. Að auki hafa aðildarríki þess hætt tvíhliða vísindasamstarfi við Rússa um norðurslóðir. 

En hvað með aðrar afleiðingar innrásarinnar fyrir norðurslóðir?  – Jú, hún hefur leitt til þess að tvö norðurslóðaríki, Finnland og Svíþjóð, hafa sótt um aðild að NATO. Hún mundi efla bandalagið hernaðarlega á norðurslóðum -og valda því reyndar einnig að öll Norðurskautsráðsríkin verða NATO ríki, nema Rússland auðvitað.

Innrásin og stríðið í Úkrænu hafa ekki leitt til aukinna hernaðarlegra umsvifa á norðurslóðum – hvorki af hálfu NATO né Rússlands. Það stafar einkum af því að  norðurslóðir hafa sem fyrr strategíska hernaðarþýðingu. Í  því felst að þar eru staðir sem eru mikilvægir fyrir fælingar- og hernaðarstefnu bæði NATO og Rússlands á meginlandi Evrópu – og staðir sem skipta máli fyrir kjarnorkujafnvægið milli Bandaríkjanna og Rússlands. 

Úkænustríðið snertir ekki þessa staði og mun ekki gera nema það leiði til þess að stefni í annað stríð – það er milli NATO og Rússlands. Meginspurning er því hvort átökin í Úkrænu kunni að stigmagnast í átök NATO og Rússlands. Stutta svarið – sem ég þarf að láta nægja hér tímans vegna – er að slík stigmögnun er ekki útilokuð, en ólíkleg.

Fremur lítil hernaðarleg umsvif á norðurslóðum eftir innrásina í Úkrænu er í takti við það sem verið hefur. Hins vegar má búast við að hernaðarleg umsvif eigi eftir að aukast á svæðinu – jafnvel verulega. Af hálfu NATO verði það gert til að undirstrika mikilvægi norðurslóða fyrir bandalagið, sýna hernaðargetu þar og æfa og þjálfa við krefjandi aðstæður.

Nú er talið að það muni taka mörg ár að byggja upp rússneska herinn á ný eftir manntjón og hergagnatjón, sem hann hefur orðið fyrir í Úkrænu – sem og að laga þá mörgu og alvarlegu veikleika sem hrjá herinn og stríðið hefur afhjúpað. Afleiðing alls þessa verður væntanlega mun minni hætta á átökum milli NATO og Rússlands á meginlandi Evrópu – og þar með á norðurslóðum. 

Önnur afleiðing verður sú að búast má við að kjarnorkuvopn Norðurflotans og öryggi þeirra fái enn meira vægi en áður – meðal annars til að undirstrika að Rússland sé áfram stórveldi þrátt fyrir áföllin í Úkrænu. Hernaðarleg þýðing norðurslóða fyrir Rússland fari með öðrum orðum vaxandi vegna Úkrænustríðsins.  – Efnahagslegt mikilvægi eykst einnig.

Olíu-, gas- og kolanámuvinnsla í norður-Rússlandi hefur verið langstærsta efnahagsmál á norðurslóðum og stórar áætlanir uppi í þeim efnum – sem fyrr sagði. Þvingunar og refsisaðgerðir í kjölfar hernáms Krímar og nú innrásarinnar í Úkrænu hafa leitt til þess að frekari uppbygging olíu- og gasvinnslu er í óvissu vegna þess að ekki fæst nauðsynlegur tæknibúnaður til þeirra hluta frá Vesturlöndum.

Á hinn bóginn má telja líkur á að Rússar fái – þegar fram í sækir – aukinn stuðning við þróun olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum frá kínverskum fyrirtækjum. Kínverjar eru þegar mjög stórir kaupendur að rússneskri olíu og gasi og eiga eftir að verða enn stærri, meðal annars vegna Úkrænustríðsins. Bandalag Kína og Rússlands gegn Bandaríkjunum verður enn nánara en áður við þetta. Bandalagið mun birtast á norðurslóðum meðal annars þannig – þegar þar að kemur – að Rússar auðveldi flota og flugher Kína að athafna sig á Norður-Íshafi.

En hvert verður framhaldið í Úkrænu og í samskiptum Rússlands og Vesturlanda? Fáir hafa reynst spámannlega vaxnir um gang mála eftir innrásina og margir haft rangt fyrir sér bæði um frammistöðu Úkrænuhers og burði rússneska hersins – öllu heldur hversu óburðugur hann hefur reynst. Þó er gjarnan talið að langvinn átök séu framundan í Úkrænu – misseri, jafnvel einhver ár. Jafnframt eru vísbendingar um að rússneski herinn sé enn á ný í ógöngum – nú í austurhlutanum. 

Óháð gangi stríðsins má búast við að eftir að einhverskonar hugsanleg lausn finnist, sem er fjarlægari en áður eftir innlimun fjögurra héraða í Úkrænu í Rússland, líði langur tími áður en samskipti NATO og Rússlands lagist að einhverju marki. Á norðurslóðum er brýnt að starfsemi Norðurskautsráðins verði endurvakin og stofnanavæðing haldi áfram, en hvenær forsendur gætu skapast til þess er með öllu óljóst um þessar mundir.

Bandalög og átakalínur hafa skýrst í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu og afleiðingar þess munu sjást á norðurslóðum. Hins vegar – og rétt að leggja áherslu á það – var allt útlit fyrir að strúktúr alþjóðakerfisins og hlýnun Jarðar – lykilþættirnir sem ég leiddi fram í byrjun erindisins – mundu óháð öðru – leiða til samkeppni stórvelda á norðurslóðum sem hafísinn hörfaði. Harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína í Asíu og á heimsvísu mundi birtast á svæðinu.

Niðurstaða mín um breytta heimsmynd og norðurslóðir er því í meginatriðum eftirfarandi: – Strúktúr alþjóðakerfisins hefur breyst með afgerandi hætti og heimsmyndin með og heimspólitíkin. Gangi spár eftir og Norður-Íshaf opnast breytist heimsmyndin í grundvallaratriðum af völdum hlýnunar Jarðar. Norðurslóðir tengjast náið alþjóðakerfinu þar á meðal þungamiðju þess og átakalínum á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. 

Undirbúningur mun hefjast í alvöru fyrir siglingar um Norður-Íshaf milli Asíu-Kyrrahafs og Evró-Atlanthafssvæðisins og norðurslóðir munu þannig snerta efnahagslega hagsmuni fjölda ríkja. Ýmsir möguleikar skapast á svæðinu fyrir norðurslóðaríki og íbúa á norðurslóðum og þeim tækifærum munu auðvitað fylgja bæði kostir og gallar.  

Á þessu stigi – um og upp úr miðri öldinni – má vænta þess að heimspólitíkin hafi skilað sér að fullu á norðurslóðir og í besta falli óvíst að þá verði þær lágspennusvæði. 

Öryggi og varnir Íslands – og stríðið í Úkrænu 

Eins og vænta mátti standa lykilforsendur, sem varða hernaðarlegt öryggi Íslands, áfram óbreyttar eftir innrásina í Úkrænu. Hún boðar ekki tímamót í íslenskum öryggismálum líkt og fjallað var um hér á vefsíðunni í mars síðastliðnum, skömmu eftir innrásina. 

Ísland hefur strategíska hernaðarlega þýðingu, aðallega á norðurslóðum en þær tengjast náið fælingar- og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi, loftvörnum Norður-Ameríku og Rússlands og kjarnavopnajafnvæginu milli Bandaríkjanna og Rússlands. 

Hernaðarógn steðjar ekki að Íslandi af völdum Úkrænustríðsins nema það leiði til þess að stefni í annað stríð, það er milli NATO og Rússlands. 

Meginspurning varðandi hernaðarlegt öryggi Íslands og Úkrænustríðið er því hvort það kunni að stigmagnast í átök NATO og Rússlands. 

Stutta svarið er að það sé ekki útilokað en virðist almennt talið ólíklegt. 

Úkrænustríðið hefur veikt Rússland verulega í hernaðarlegu tilliti. Ekki sér fyrir endann á því en þegar er útlit fyrir að það taki mörg ár að byggja upp rússneska herinn á ný eftir manntjón og hergagnatjón, sem hann hefur orðið fyrir í Úkrænu, sem og að laga marga alvarlega veikleika sem hrjá hann og stríðið hefur afhjúpað. 

Þá á eftir að reyna á að hve miklu leyti efnahagur Rússlands getur staðið undir nauðsynlegum endurbótum og endurnýjun hersins. Efnahagslegar refsiaðgerðir Vesturlanda gegn Rússlandi munu hafa alvarleg áhrif á efnahaginn en einnig verulegar afleiðingar fyrir hergagnaframleiðsluna. Þar á meðal er bann við sölu hátæknibúnaðar til Rússa, sem er hergagnaframleiðslunni nauðsynlegur. Stríðið veldur því auðvitað einnig að það gengur mjög á vopnabúrið. Þar á meðal eru birgðir hátæknivopna eins og langdrægra stýriflauga og útlit fyrir að mörg ár taki að endurnýja þær birgðir að fullu. 

Þessar afleiðingar Úkrænustríðsins fyrir rússneska herinn hafa áhrif á öryggi og varnir Íslands og annarra NATO ríkja. Svo lengi sem afleiðingarnar vara minnkar hætta á hugsanlegri rússneskri árás á NATO-ríki. Þar með dregur mjög úr hættu á átökum milli bandalagsins og Rússlands á meginlandi Evrópu, sem mundu ná til norðurslóða og til Íslands.

Stríðið virðist þegar þetta er skrifað stefna í áframhaldandi og jafnvel langvinn átök í Úkrænu. Úkrænski herinn á góða möguleika að sækja áfram inn á hertekin svæði, en hve hratt og hve langt og hvernig Rússar bregðast við – allt á það eftir að skýrast.

Innrásin í Úkrænu hefur leitt til aukinna hernaðarlegra umsvifa af hálfu NATO í nágrannaríkjum Rússlands á meginlandi Evrópu. Þetta eru varúðarráðstafanir gerðar til að undirstrika skulbindingar bandalagsins í garð þessara ríkja og styrkja fælingarstefnu þess gegn hugsanlegri árás á þau. 

Úkrænustríðið hefur hins vegar ekki leitt til aukinna hernaðarumsvifa á Norður-Atlantshafi eða á norðurslóðum – hvorki af hálfu NATO né Rússlands.

Ef hið ólíklega gerðist og stefndi í átök milli NATO og Rússlands yrði öryggi Íslands komið undir fælingarstefnu NATO og Bandaríkjanna, varnarsamningi Íslands við Bandaríkin og framkvæmd varnaráætlunar Bandaríkjahers fyrir landið. 

Úkrænustríðið hefur ekki haft neinar afleiðingar sem veikja þessar undirstöður íslenskra öryggis- og varnarmála. 

Grundvallaratriði sem varða öryggi og hervarnir Íslands

Fyrsta grundvallaratriðið er að Ísland hefur sem fyrr strategíska hernaðarþýðingu og hlutverk. Úkrænustríðið er takmarkað og staðbundið – ekki strategískt.  Hernaðarlega tengist Ísland stöðum á norðurslóðum – aðallega í “hánorðri” (high north), sem eru mikilvægir fyrir fælingarstefnu NATO gegn hugsanlegri árás frá Rússlandi á bandalagsríki á meginlandi Evrópu og fyrir kjarnorkujafnvægið milli Bandaríkjanna og Rússlands. Ennfremur hefur svæðið lykilþýðingu fyrir loftvarnir bæði Norður Ameríku og Rússlands. 

Starfsemi bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli lýtur að langmestu leyti að tímabundinni viðveru Boeing P-8 kafbátleitar- og eftirlitsflugvéla þar og flugi þeirra þaðan í margskonar tilgangi. Þessi starfsemi hefur augljóslega ekki áhrif á möguleika rússneska hersins í Úkrænu. Stríðið þar getur því ekki leitt til aðgerða af hálfu Rússa gegn landinu. 

Öðru máli gegndi ef stefndi í átök milli NATO og Rússlands. Það er enn sem komið er talið ólíklegt en styrjöld af því tagi mundi óhjákvæmilega ná til norðurslóða og Íslands, sem fengi hernaðarlegt hlutverk í átökunum.

Annað grundvallaratriðið sem varðar öryggi og varnir Íslandslýtur því að þeirri spurningu hvort Úkrænustríðið kunni að leiða til átaka milli NATO og Rússlands. Það er ekki útilokað en virðist almennt talið ólíklegt.

Bandalagið hefur gert ráðstafanir með auknum hernaðarlegum viðbúnaði í nokkrum nágrannaríkjum Rússlands í Austur-Evrópu. Það er til að undirstrika skuldbindingar í þeirra garð og styrkja fælingu, en felur ekki í sér beinan undirbúning varna gegn rússneskri innrás. Enda á rússneskur liðssafnaður sér ekki stað nálægt þessum ríkjum. Þá er vafamál að rússneski herinn hafi, í ljósi ófara hans og tjóns í Úkrænu, burði til að ráðast á NATO-ríki hvað þá að takast í kjölfarið á við bandalagið í styrjöld.

Í júní virtist ljóst – að áliti yfirmanns breska hersins – að Rússum hefði þegar mistekist í Úkrænu og Rússland veikst sem stórveldi. Nýlega var haft eftir embættismönnum í breska landvarnarráðuneytinu að rússneskar hersveitir, sem voru einar þær öflugustu í rússneska hernum og ætlaðar gegn NATO herjum kæmi til styrjaldar við bandalagið, hefðu orðið fyrir svo miklu tjóni í Úkrænu að líklega tæki mörg ár að bæta það og byggja þessar sveitir upp á ný. 

Það mun því taka langan tíma að bæta heildartjónið sem herinn hefur þegar orðið fyrir í Úkrænustríðinu og endurbyggja hann svo um muni – að því gefnu að versnandi efnahagur Rússlands standi undir því og refsiaðgerðir vesturlanda gegn Rússum á hátæknisviði dragi ekki úr möguleikum til að byggja herinn upp á ný. Líkur er á að aðgerðirnar muni einmitt gera það. Þá endurspegla hrakfarir og rússneska hersins í Úkrænu og veikleikar hans meðal annars og ekki síst veikleika í stjórnarfarinu, stjórnkerfinu, hagkerfinu og hergagnaframleiðslunni – þar á meðal mikla og alþekkta spillingu á öllum sviðum.

Þótt ástæða sé til að efast um að Rússar hefðu burði til að stigmagna átökin með því að ráðast inn í NATO-ríki, ættu þeir þann hernaðarlega kost að gera flugskeytaárásir á staði í NATO-ríkjum, einkum Póllandi, til að freista þess að hefta vopnaflutninga til Úkrænu. Áhætta Rússa af slíkum árásum væri mikil því NATO mundi líta á þær sem árás á bandalagið. 

Þá horfa sumir til þess að Rússar kynnu að nota efnavopn, en þó einkum “taktísk” – þ.e. “lítil” – kjarnorkuvopn, gegn úkrænska hernum teldu þeir sig tapa stríðinu að öðrum kosti. Markmiðið væri að koma í veg fyrir það, ná hernaðarlegum ávinningi sem og að brjóta baráttuvilja Úkrænumanna. 

Svo afdrifaríka stigmögnun er auðvitað ekki unnt að útiloka, en á móti kemur að kjarnavopn þjóna trauðla eða alls ekki hernaðarlegum eða pólitískum markmiðum. Notkun kjarnavopna felur í reynd ekki í sér stigmögnun – heldur þáttaskil – og kjarnavopn eru almennt talin hafa fyrst og síðast fælingargildi til að tryggja svonefnda tilvistarhagsmuni (existential interest). 

Þá gæti notkun efnavopna eða kjarnavopna hæglega bitnað á rússneskum hersveitum í nágrenninu og geislavirkt úrfelli náð inn í Rússland sjálft. Notkun kjarnavopna í Úkrænu mundi stórskaða stöðu Rússlands í heiminum og samskipti þess við önnur ríki. Þar á meðal væru Kína og Indland, sem hafa mikla og mjög vaxandi pólitíska og efnahagslega þýðingu fyrir Rússland eftir innrásina í Úkrænu.

Rússar eiga aðra möguleika í Úkrænu en að hefja styrjöld við NATO – “þriðju heimsstyrjöldina” eins og sagt er – og hætta þar með á kjarnorkuátök við Bandaríkin. Þar á meðal er að kalla út meira herlið og herða róðurinn í stríðinu. Einnig að setja rússneska herinn í Úkrænu í varnarstöðu til að fá tíma til að endurskipuleggja hann og undirbúa fyrir sóknaraðgerðir. Jafnframt eiga þeir þess kost að auka enn árásir á innviði og á bæi og borgir. Við bætist að loka alveg fyrir gasútflutning til Evrópuríkja til að reyna að grafa undan einingu NATO og stuðningi við Úrkænu. Það eitt mundi þó ekki veikja Úkrænuher því langmest af þeim vopnum sem hann hefur fengið að utan hafa komið frá Bandaríkjunum.

Það er gjarnan sagt að öll stríð taki enda og það muni Úkrænustríðið óhjákvæmilega gera. Það er klisja að öll stríð taki enda – auðvitað gera þau það – en mörg vara árum saman og hugsanlegt að það geti orðið raunin í Úkrænu. Aðalatriði er að hvorki Rússar né Úkrænumenn virðast nú í stöðu til að fallast á vopnahlé og friðarsamninga. 

Samningsstaða Rússa er veik í ljósi árangurs Úkrænuhers við Kyiv í vor, við Kherson að undanförnu og þó einkum nú síðast í Kharkiv héraði. Þessir ósigrar hljóta að þrýsta á áframhaldandi hernað til að freista þess að ná styrkja stöðuna. Ennfremur á Rússlandsstjórn eftir að sýna heima fyrir fram á árangur sem réttlæti innrásina og fórnir rússneska hersins og rússnesks samfélags.

Her Úkrænu hefur staðið sig miklu betur en flestir töldu mögulegt og fær mörg öflug og hátæknivædd vopn frá NATO ríkjum. Úkrænuher á hins vegar mikið verk óunnið ef ætlunin er að hrekja Rússa úr landinu og það mundi að líkindum kosta miklar fórnir. Úkrænumenn hafa tapað um fimmtungi af landi sínu og um þriðjungi af framleiðslugetunni og efnahagur landsins er afar bágur. Samningsstaða þeirra er veik nema þeim takist að ná verulegum hernaðarlegum ávinningi til viðbótar því sem þegar hefur áunnist. Allt bendir til að þeir ætli sér það og til þess hafa þeir augljóslega áræði, sjálfstraust og hæfni. Þeim hefur vaxið mjög ásmegin í hernaðarlegum efnum, náð að fjölga í hernum og þjálfa nýliða, og mega eiga von á áframhaldandi vopnasendingum utan frá. 

Fáir sérfræðingar hafa reynst spámannlega vaxnir varðandi þróun stríðsins og haft rangt fyrir sér bæði um frammistöðu Úkrænuhers og burði rússneska hersins. Þegar hann stefndi að höfuðborginni Kyiv á fyrstu stigum innrásarinnar höfðu Bandaríkjamenn ekki meiri trú á Úkrænuher en svo að þeir buðu fram aðstoð til að forða Zelensky, Úkrænuforseta, úr borginni undan sókn Rússa. 

Þótt áfram megi ekki útiloka að Úkrænustríðið magnist í átök milli NATO og Rússlands, sérstaklega ef Rússar teldu að þeir væru að tapa og stigmögnuðu til að reyna að hindra það, benda líkur til að stríðið stefni í langvinn átök. Það gæti staðið í að minnsta kosti mánuði eða misseri og þá í austur og suðurhluta landsins. Það er þó sagt með þeim mikilvæga fyrirvara að þegar þetta er ritað hefur frammistaða úkrænska hersins enn einu sinni komið á óvart og rússneski herinn enn einu sinni farið hrakför – nú .eins og fyrr var nefnt, í Kharkiv-héraði í norðaustri auk þess að eiga undir högg að sækja við Kherson í suðvestri.

Norðurslóðir og Úkrænustríðið: Á þeim rúmu sex mánuðum sem liðnir eru frá innrásinni 24. febrúar hafa ekki sést aukin hernaðarleg umsvif á norðurslóðum – hvorki af hálfu Rússa né NATO. Strax var ljóst að umsvif á norðurslóðum væru ekki að aukast eftir innrásina líkt og kom fram á vefsíðunni síðastliðið vor. Eins og ítrekað hefur verið útskýrt þar er fremur auðvelt að afla upplýsinga um ferðir herskipa og herflugvéla – þar á meðal á alnetinu. Einnig má draga ályktanir – meðal annars af upplýsingum á netinu – um ferðir kafbáta og þannig að ekki sé líklegt að skeiki miklu hvað fjölda kafbátaferða varðar.

Yfirmaður norska hersins hefur sagt að hernaðarleg umsvif Rússa á norðurslóðum hafi verið “óvenju lítil” í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu (“Chief of Defence to HNN: Russian Military Activity is Unusually Low in the High North”, Highnorth News, 19. ágúst 2022.). Hann hefur jafnframt bent á að mikil fækkun í landherliði Rússa á Kolaskaga og við landamæri Finnlands vegna liðsflutninga frá þessum stöðum til Úkrænu bendi til að Rússar telji stöðugleika ríkja á norðurslóðum. 

Þá hefur komið fram af hálfu norskra stjórnvalda að innrásin í Úkrænu hafi leitt til aukinnar árvekni við norður Noreg og ákvarðana um aukin framlög til landvarna, en einnig að  norsk stjórnvöld líti ekki svo á að aukin hernaðarógn steðji að Noregi í kjölfar innrásarinnar. 

Að það séu fremur lítil hernaðarleg umsvif á norðurslóðum nú er í takti við það sem verið hefur undanfarin ár og allar götur eftir kalda stríðið. Rússneski Norðurflotinn er áfram miklu minni en sovéski forverinn, er í aðalatriðum ekki úthafsfloti og kemur lítið út á Atlantshaf. Þegar það gerist eru skip hans og kafbátar gjarnan á leið til eða frá Eystrasalti en þó aðallega til eða frá Miðjarðarhafi vegna íhlutunar Rússa undanfarin 7 ár í borgarastyrjöldina í Sýrlandi. 

Norðurflotinn er jafnframt búinn langdrægum stýrflaugum, sem nota mætti til árása frá heimahöfum á skotmörk á landi á meginlandi Evrópu. Hann þarf því ekki að koma út á Atlantshaf til þeirra hluta. Hann býr og yfir mun langdrægari vopnum en áður gegn herskipum. 

Í júlí síðastliðinn var birt uppfærð flotastefna Rússlands sem setur Atlantshaf í þriðja sæti í forgangsröð á eftir norðurslóðum og Kyrrahafi.

NATO ríki hafa ekki aukið umsvif eða viðbúnað á Norður-Atlantshafi eða norðurslóðum í neinum verulegum mæli eftir innrásina í Úkrænu. Hins vegar er viðbúið að athafnasemi þeirra í norðri aukist eitthvað á næstu misserum og árum til að undirstrika mikilvægi norðurslóða fyrir bandalagið og styrkja fælingarstefnu þess gegn Rússlandi. Það yrði framhald á fyrri þróun því umsvif af hálfu NATO-ríkja á svæðinu höfðu aukist fyrir Úkrænustríðið í kjölfar versnandi samskipta eftir hernám Krímar 2014 og íhlutun Rússa í átök í Donbass héraði í austur-Úkrænu. Innrásin mun líklega herða á þeirri þróun.

Ætlun er að bandaríska flugvélamóðurskipið Gerald R. Ford haldi ásamt fylgdarskipum út á Norður Atlantshaf í október og æfi þar með sjóherjum NATO-ríkja. Þetta mun reyndar hafa verið ákveðið fyrir innrásina í Úkrænu. 

Þá má nefna að í ágúst síðastliðinn kom bandarískur kjarnorkuknúinn kafbátur til Færeyja. Hann lá á Nólseyjarsundi við Þórshöfn og færeyskir ráðherrar og þingmenn voru boðnir um borð. Tilgangur með komu kafbátsins til Færeyja var áhafnaskipti en heimsóknin var einnig að sögn Bandaríkjaflota til þess gerð að sýna mátt hans á hafinu og getu til að standa við varnarskuldbindingar. Um svipað leyti og í sama tilgangi kom bandarískur kafbátur til flotastöðvar við Souda flóa á grísku eyjunni Krít, bandarískt þyrlumóðurskip var á Eystrasalti og tvö flugvélamóðurskip voru samtímis á Miðjarðarhafi (U.S. Naval Forces Europe-Africa/Sixth Fleet, 25. ágúst 2022 – https://nitter.nl/USNavyEurope/status/1562819286548500480#m

Þá má benda á að innrásin í Úkrænu hefur þau einu beinu áhrif við Ísland og það á hverjum degi að farþegaþotur á leið til og frá Japan til áfangastaða í Evrópu fljúga nú yfir Norður-Íshaf í stað Síberíu og margar þeirra nálægt Íslandi eða yfir það. Ástæða þessa er að rússnesk stjórnvöld brugðust við refsiaðgerðum Vesturlanda vegna innrásarinnar með því meðal annars að banna flugfélögum ríkja sem að aðgerðunum standa að fljúga yfir Rússland á leið til og frá Asíu. Sú flugleið opnaðist eftir kalda stríðið, en áður var flogið yfir Norður-Íshafið eins og nú er gert á ný. 

Annað grundvallaratriðið varðandi öryggi og varnir Íslands lýtur að fælingarstefnu NATO og möguleikum hennar til að halda aftur af Rússum almennt en sérstaklega á alvarlegum hættutíma í aðdraganda hugsanlegs stríðs milli Rússlands og NATO. Bandaríkin og NATO hafa alla burði til að halda aftur af Rússlandi ef nauðsyn krefur. Fælingarstefnan er með öðrum orðum almennt trúverðug þótt átök gætu auðvitað brotist út þrátt fyrir það vegna mistaka og misreiknings.

Þótt vitanlega megi ekki draga of víðtækar ályktanir af tölulegum þáttum og forsendum þegar gerður er samanburður á herstyrk þá er NATO miklu öflugra en Rússland mælt á efnahagslegum og hernaðarlegum mælikvörðum. Þá hefur innrásin í Úkrænu, enn sem komið er að minnsta kosti, eflt mjög einingu í NATO og leitt til þess að auki að bandalagið stækkar og styrkist svo um munar með aðild Finnlands og Svíþjóðar. Aðild þeirra mun efla bandalagið hernaðarlega á norðurslóðum og á Eystrasaltssvæðinu.

Og nú bætist við afar slök frammistaða rússneska hersins í Úkrænustríðin og alvarlegir veikleikar hans, sem það hefur leitt í ljós í landher, flugher og flota.

Tilraun hersins á fyrstu stigum til að umkringja eða hertaka höfuðborgina Kyiv varð að hrakför. Eftir það var áhersla lögð á sókn í austurhlutanum, að leggja undir herinn Donbass svæðið þar sem aðskilnaðarsinnar af rússnesku bergi höfðu náð undirtökum í boragarstríði, sem staðið hafði frá 2014 með rússneskri íhlutun, og fengið viðurkenningu Rússlandsstjórnar. Sókn rússneska hersins í Donbass, gengur ýmist hægt eða ekki, sem fyrr sagði, og nú hefur rússneski herinn hrakist frá Kharkiv héraði, sem veikir stöðu rússneska hersins í Donbass.

Ef stefndi í hið ólíklega – stríð milli NATO og Rússlands – kæmi að þriðja grundvallaratriðinu varðandi varnir Íslands. Það er varnarsamningurinn við Bandaríkin en honum fylgir varnaráætlun Bandaríkjahers vegna Íslands.

Úkrænustríðið hefur ekki með neinum hætti veikt þessar undirstöður.

Þótt lega Íslands skipti ekki sama máli fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna og í kalda stríðinu – eða í síðari heimsstyrjöld – hefur hún áfram þýðingu. Bandaríkin eru háð Íslandi vegna þjóðaröryggis eins og þau hafa verið frá 1941 þegar Bandaríkjaher kom fyrst til landsins í síðari heimsstyrjöld, þótt sumar mikilvægar forsendur hafi breyst eða horfið. Rússnesk herskip, kafbátar og langdrægar sprengjuflugvélar geta ógnað Bandaríkjunum frá norðurslóðum með langdrægum stýriflaugum. 

Því leikur svo gott sem enginn vafi á að Bandaríkjaher mundi koma til Íslands á hættutíma og um hernaðarlega burði Bandaríkjanna til að annast varnirnar þarf ekki að fjölyrða. Skuldbindingar Bandaríkjanna í varnarsamningnum hafa því mikið og ótvírætt varnar- og fælingargildi. Það skiptir auðvitað máli í sjálfu sér en einnig af því það er engum öðrum til að dreifa. Önnur ríki NATO hefðu langt í frá burði til að tryggja varnir Íslands, eða sömu hagsmuni af því og Bandaríkin.

Þótt landið hafi minni hernaðarþýðingu en áður, af því hernaðarleg þungamiðja í okkar heimshluta hefur færst miklu norðar undanfarin ár, hefði Keflavíkurflugvöllur áfram hlutverki að gegna á hættutíma eða í stríði. Það sést af starfsemi Bandaríkjahers á landinu – þó hún feli í sér tímabundna viðveru – og af framkvæmdum hersins á Íslandi. Þótt þær séu smávægilegar á hernaðarlegum mælikvörðum lúta þær að því að tryggja umtalsverð afnot af Keflavíkurflugvelli á hættutíma eða stríði. Hlutverk Íslands lyti aðallega að stuðningi flugvéla frá Keflavíkurflugvelli við hernaðaraðgerðir á norðurslóðum. Hafnir á landinu kynnu og að hafa þýðingu. 

Stuðningur frá Íslandi við hernaðaraðgerðir á norðurslóðum mundi einkum byggja á kafbátaleitar- og eftirlitsflugvélum og eldsneytisflugvélum. Þá virðist hugsanlegt að langdrægar bandarískar sprengjuþotur kynnu að nota Keflavíkurflugvöll, meðal annars vegna hernaðar á norðurslóðum. 

Fjórða grundvallaratriðið varðandi öryggi og varnir Íslands er að líklegasta hernaðarógnin gegn landinu yrði árás með langdrægum stýriflaugum á Keflavíkurflugvöll frá herskipum, kafbátum eða flugvélum í allt að 3 þúsund kílómetra fjarlægð norður af landinu.

Varnir gegn stýriflaugum eru því lykilatriði í hervörnum Íslands.

Rússnesk herskip, kafbátar og sprengjuflugvélar þyrftu ekki að koma í námunda við landið til að ráðast á skotmörk þar. Það væri óþarfi sakir þess hve langdrægar flaugarnar eru og jafnframt mjög áhættusamt vegna fjarlægðar frá Rússlandi, öflugra eftirlits- og njósnakerfa Bandaríkjanna, og vegna varna á Íslandi og í Noregi. 

Erfitt er að verjast stýriflaugum eftir að þær eru sendar af stað af því þær fljúga undir ratsjám og eftir krókaleiðum ef þarf. Þessari áskorun er stundum líkt við það að reyna að granda ör eftir að bogmaður skýtur henni. Skásti möguleikinn væri að reyna varnir nálægt Íslandi eða einstökum skotmörkum eins og Keflavíkurflugvelli en jafnvel þá er erfitt að verjast. AWACS-ratsjárþotur væru nauðsynlegar til að eiga möguleika gegn stýriflaugum sem nálguðust landið en ratsjárstöðvarnar á landshornunum fjórum hefðu takmarkað gildi. Ratsjár AWACS-þotna sjá miklu lengra en landratsjár og þær fyrrnefndu sjá að auki niður á yfirborð jarðar og hafa jafnframt öflugan búnað til að greina stýrflaugar frá umhverfinu. 

Einnig er mikilvægt að geta grandað herskipum, kafbátum og flugvélum á norðurslóðum áður en stýriflaugar þeirra legðu af stað í átt að landinu. Því mundu P-8 flugvélar og eldsneytisflugvélar á Keflavíkurflugvelli – og sprengjuþotur, væri þeim til að dreifa – einnig skipta miklu máli. P-8 vélarnar og hugsanlegar sprengjuþotur mundu sækja langt í norður frá landinu gegn herskipum, kafbátum, stöðvum Norðurflotans og flugvöllum langdrægra rússneskra sprengjuþota. P-8 flugvélar eru búnar vopnum gegn bæði herskipum og kafbátum og sama á við sumar langdrægar sprengjuþotur af gerðinnni B-52 og B-1. Flestar langdrægar sprengjuflugvélar bandaríska flughersins eru búnar stýriflaugum til árása á skotmörk á landi, þar á meðal auðvitað hafnir og flugvelli. 

Líklegasta rússneska vopnið gegn Íslandi yrðu sem fyrr sagði langdrægar stýriflaugar. Líkur eru taldar á að birgðir þeirra fari mjög þverrandi vegna Úkrænustríðsins. Þá hefur framleiðsla rússneskra stýriflauga verið hæg að talið er enda um flókin og dýr tæki að ræða. Hver flaug af nýjustu gerðinni, sem er kölluð Kalibr, er talin kosta um sex og hálfa milljón dollara, eða jafnvirði um 900 milljóna króna. Mikið af íhlutum (components) rússneskra stýriflauga hefur komið frá Vesturlöndum. Það á einkum við nauðsynlegan rafeinda- og hátæknibúnað af ýmsu tagi. Þótt finna megi leiðir fram hjá efnahagslegum refsiaðgerðum, sem banna sölu slíkra íhluta til Rússlands, er líklegt að aðgerðirnar valdi því engu að síður að framleiðsla rússneskra stýriflauga verði hægari en ella. Einnig má búast við að gripið verði til ráðstafana til að reyna að loka eða að minnsta kosti fækka leiðum fram hjá refsiaðgerðunum.

Að lokum má hugsa sér að öryggi Íslands gæti stafað hætta frá skemmdarverkum sérsveita rússneska hersins. Möguleikar þeirra á landinu hljóta þó að teljast hverfandi sakir þess hve erfitt yrði á hættutíma að koma mannskap og nauðsynlegum búnaði á land á fjarlægu Íslandi án þess að Bandaríkjaher, sem væri í viðbragðsstöðu, tæki eftir því.  Þannig má næstum útiloka að það tækist úr lofti eða frá skipi eða kafbáti og vandséð með hvaða öðrum hætti það væri gerlegt. Auðvitað er ekki hægt að útiloka að skemmdarverkamenn kæmu til landsins með farþegaskipi eða í farþegaflugi og þá auðvitað áður en stefndi í átök. Hvað þeir gætu gert sem um munaði í stríði er hins vegar erfitt að átta sig á. Þá er það að koma í veg fyrir skemmdarverkahættu á friðartímum viðfangsefni lögreglu og landamæragæslu, en ekki herliðs.

Hvað sem því líður gerir Bandaríkjaher ráð fyrir að helstu innviðir varna og öryggis á landinu yrðu varðir, þar á meðal og einkum Keflavíkurflugvöllur. Til Íslands kæmi lið til þessara hluta auk þess að flugsveitum sem hingað kæmu fylgdi sjálfkrafa öryggisgæslulið. En einhver veruleg ógn við varnir Íslands mundi afar ólíklega stafa frá liði á landi heldur frá fyrrnefndum langdrægum stýriflaugum. Loks má minna á að eftir 1960 voru engar landherssveitir í varnarliðinu. Þær voru kallaðar frá Íslandi vegna þess auðvitað að ekki var lengur talin þörf á fastri viðveru slíkra sveita.

Nethernaður er ekki viðfangsefni þessarar greinar en hann virðist hafa skipt litlu máli fyrir gang Úkrænustríðsins, sem í öllum aðalatriðum er háð með “gamaldags” aðferðum. Rússar munu hafa gert tilraunir til nethernaðar en augljóslega ekki tekist með þeim að hvorki skaða úkrænska herinn né heldur innviði eins og orkuver, fjarskipti og upplýsingakerfi. Áhöld virðast um hvort Rússar hafi reynt nethernað að þessu leyti. 

Samkvæmt þessu kann nethernaður að vera ógn við öryggi Íslands en Úkrænustríðið virðist ekki hafa sýnt fram á það. 

Í þessari grein hefur eingöngu verið horft til hernaðarlegs öryggis. Fleira hefur auðvitað þýðingu. Átök, óvissa og óstöðugleiki í Evrópu hefur augljós áhrif á almennt öryggi og efnahagslega velferð Íslendinga. Þá eru grundvallarreglur um fullveldi og sjálfstæði ríkja meðal þess sem er í húfi í Úkrænu.

Heimildir

Öryggismál á norðurslóðum

Ég talaði á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? semalþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir 20. apríl.  – Ég var beðinn um að halda stutt erindi um hvaða “smitáhrif” stríð í Evrópu geti haft á norðurslóðir. 

Hér er erindið:

Á þeim knappa tíma sem ég hef ætla ég að reyna að gera viðfangsefninu skil með því að setja fram og svara fjórum spurningum – fjórum spurningum um Úkrænustríðið og öryggismál á norðurslóðum – og víkja jafnframt að stöðu og hlutverki Íslands.

Ég kemst ekki yfir að ræða sum mikilvæg öryggismál sem nú eru í þróun á norðurslóðum í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu – þar á meðal hugsanleg aðild Finna og Svía að NATO. Þá eru líkur á að skilvirkt samstarf á vegum norðurskautsráðsins muni liggja niðri jafnvel í mörg ár í vegna stríðsins.

Áður en ég sný mér að spurningunum fjórum sem ég nota til að skipuleggja þessa stuttu framsögu  – þarf að taka fram að í kalda stríðinu voru tengsl milli norðurslóða annars vegar og öryggismála á meginlandi Evrópu hins vegar. Hættutími á meginlandinu hefði náð inn á norðurslóðir með stórauknum hernaðarlegum umsvifum þar. En til þess – og það er lykilatriði – hefði þurft alvarlegan hættutíma, í raun aðdraganda hugsanlegs stríðs milli NATO og Sovétríkjanna.

Fyrsta spurning mín af fjórum um Úkrænu og norðurslóðir er, hefur stríðið sem hófst 24 febrúar síðastliðinn með innrás Rússa í landið haft áhrif á hernaðarleg umsvif á norðurslóðum?

Stutta svarið er nei. Innrásin hefur ekki leitt til hernaðarlegra umsvifa á norðurslóðum sem neinu nemur umfram þau sem áttu sér stað á árunum fyrir innrásina – eða voru í bígerð vegna æfinga. 

Að fylgjast með þessu í aðalatriðum er fremur auðvelt á internetinu – auk þess að ekki yrði reynt að halda viðbrögðum leyndum. Því þá yrði tilgangnum með þeim ekki náð. 

Lítil eða engin hernaðarleg viðbrögð á norðurslóðum við innrásinni koma ekki á óvart, enda hefur ekki hafist aðdragandi að stríði milli NATO og Rússlands. Sama forsenda um að alvarlegan hættutíma milli stórveldanna þurfi til – hún á við nú líkt og í kalda stríðinu. Eftir að Úkrænustríðið hófst hafa báðir aðilar forðast að hrinda af stað slíkri atburðarás. Hún er áfram talin afar ólíkleg. 

En stríð í Úkrænu hófst ekki með innrásinni 24. febrúar síðastliðinn, heldur eins og kunnugt er fyrir átta árum – á árinu 2014 – þegar Krímskagi var hernuminn og mannskæð borgarastyrjöld hófst með rússneskri íhlutun í austurhluta Úkrænu. Samskipti NATO og Rússlands versnuðu eftir þetta – og mjög svo – og auðvitað.

Önnur spurning mín í dag er því þessi: Hafa versnandi samskipti NATO og Rússlands frá 2014 – haft áhrif á öryggismál á norðurslóðum?

Stutta svarið við þessari spurningu er: Já. Áhrifin hafa einkum birst í verulega auknum umsvifum Bandaríkjahers -og eftir atvikum annarra NATO herja – á norðurslóðum, nánar tiltekið norðurhöfum. Umsvif þessara aðila á svæðinu voru lítil fram til 2014. Tilgangurinn með að auka umsvif í norðurhöfum er væntanlega sá að minna Rússa á strategískan áhuga og hernaðargetu NATO þar, og mikilvægi norðurhafa fyrir bandalagið. Þessi auknu umsvif á undanförnum átta árum hefur mátt greina á láði og legi – og í lofti – og vitað er að umferð vestrænna kafbáta hefur einnig aukist. 

Með norðurhöfum er átt við norður Noreg og svæði þar úti fyrir og úti fyrir Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Þetta eru einkum norður-Noregshaf og Barentshaf – en einnig Norður Íshaf að segja má.

Á sama tíma og samskipti NATO og Rússlands hafa versnað vegna Úkrænu frá 2014, hafa hernaðarumsvif Bandaríkjahers komið aftur til sögu á Keflavíkurflugvelli einkum með tímabundinni viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla af gerðinni P-8 Poseidon. Viðvera þeirra hefur vaxið verulega á tímabilinu frá 2014 vegna æfinga og þjálfunar – og vegna eftirlits með Rússum.

Rússnesk hernaðarumsvif hafa þó verið mjög lítil úti Atlantshafi á svæðum í námunda við Ísland. Þetta á bæði við herskip og herflugvélar Rússa. Rússneskum kafbátum hefur reyndar verið fylgt eftir frá Keflavíkurflugvelli en þeir hafa verið fáir – að meðaltali einn kafbátur á ári frá því þeirra varð aftur vart 2014. Enginn rússneskur kafbátur virðist hafa komið út á Atlantshaf og á svæði við Ísland í fyrra. Það ár voru nánast engin rússnesk hernaðarumsvif á svæðum í námunda við Ísland. 

Til að komast í tæri við rússneska norðurflotann þarf því að fara langt norður í Noregshaf og Barentshaf. Þar heldur flotinn sig aðallega – af ýmsum ástæðum – og litlar líkur eru á að það eigi eftir að breytast að ráði. Á síðustu árum hafa P-8 flugvélar einmitt haldið í eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli langt norður í höf – stundum með stuðningi frá eldsneytisþotum frá bandarískum herbækistöðvum á Bretlandi. 

Hlutverk Keflavíkurflugvallar er að styðja við fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum. Í þessu felst helsta hernaðarlegt framlag Íslands til NATO – þó það sé mun veigaminna en í kalda stríðinu. Þá var Ísland “hjörin” sem stefnan varðandi norðurhöf hékk á eins og það var orðað.

Annað og nýtt framlag Íslands í þágu fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum – er að veita tímabundna aðstöðu fyrir langdrægar bandarískar sprengjuflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Önnur Evrópuríki hafa veitt slíka aðstöðu – þar á meðal Noregur. 

Markmiðið er að gera Rússlandsher erfiðara fyrir að vita hvar bandarískar langdrægar sprengjuflugvélar er að finna á hverjum tíma. Þannig er reynt að flækja hernaðaráætlanir Rússa og styrkja fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO – þar á meðal á norðurslóðum. Bandarískar sprengjuflugvélar hafa farið tíðar ferðir yfir norðurhöf á síðustu árum meðal annars í samstarfi við norska flugherinn. Slíkar vélar höfðu í fyrsta sinn viðdvöl á Íslandi í fyrra þegar þrjár þeirra voru á Keflavíkurflugvelli til æfinga í þrjár vikur.

Þriðja spurningin mín af fjórum er hvað felst í fyrrnefndri fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum?

Stefnan lýtur í aðalatriðum að því að sýna Rússlandsstjórn fram á að kæmi til átaka við NATO á meginlandi Evrópu yrði Rússlandsher ekki látið eftir að halda átökunum þar. Þess í stað yrði hann neyddur til að berjast víðar, þar á meðal í norðurhöfum. Þar eru afar mikilvægir rússneskir hagsmunir; – það er að segja rússneski Norðurflotinn, bækistöðvar hans á Kolaskaga og eldflaugakafbátar hans í Barentshafi. Í þeim er stór hluti langdrægra rússneskra kjarnavopna. Varnir þessara kafbáta lúta að grundvallar hernaðarhagsmunum Rússlands og þær eru forgangsverkefni rússneska Norðurflotans.

Síðasta og fjórða spurning mín í dag er um eftirmál innrásar Rússa í Úkrænu. Munu þau birtast í norðurhöfum?

Úkrænustríðinu munu auðvitað fylgja stór og erfið eftirmál. Þau kalla á  trúverðuga stefnu af hálfu NATO ríkjanna og ráðstafanir bæði til að tryggja enn frekar öryggi aðildarríkja við Eystrasalt og í austur Evrópu eins og gert hefur verið eftir innrásina; og einnig til að tryggja sterka stöðu bandalagsins þegar kemur að endurreisn öryggiskerfis í Evrópu. 

Fælingar og hernaðarstefna NATO fær eðli máls samkvæmt aukið vægi í eftirmálum Úkrænustríðsins – þar á meðal í norðurhöfum. Gera má ráð fyrir auknum hernaðarlegum umsvifum bandalagsríkja þar og stærri og tíðari æfingum. Hernaðarleg umsvif af því tagi sem verið hefur undanfarin ár á Keflavíkurflugvelli kunna að aukast. 

En þungamiðja hernaðarlegra viðbragða NATO við innrásinni í Úkrænu verður að líkindum áfram við Eystrasalt og í Austur Evrópu – í ríkjum sem eiga landamæri að Rússlandi. Hernaðarleg umsvif á norðurslóðum hafa ekki aukist af hálfu NATO eftir innrásina í Úkrænu svo neinu nemi líkt og ég benti á og augljóslega ekki verið talin þörf á því vegna innrásarinnar.

Aðalatriði er að áfram gildir sama lykilforsenda og í kalda stríðinu. Forsenda mjög aukinna hernaðarlegra umsvifa á norðurslóðum væri hættutími milli NATO og Rússlands þannig að stefndi í hugsanleg átök þeirra í milli. Þau eru áfram talin afar ólíkleg. Báðir aðilar hafa – eins og ég nefndi – forðast að hrinda af stað slíkri atburðarás.

Ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af sögu sem er löngu lokið – og þó ekki

Fyrirlestur í boði Þjóðminjasafns Íslands í tilefni af ljósmyndasýningunni Straumnes

Ratsjárstöðin á Straumnesfjalli á Hornströndum var reist á sjötta áratug síðustu aldar en lögð niður fljótlega eftir að hún var tekin í notkun. Það var í sparnaðarskyni en einnig var svo að sovéskar herflugvélar létu ekki sjá sig í námunda við Ísland – fyrr en á sjöunda áratugnum skömmu eftir að stöðin á Straumnesfjalli var lögð niður. Eftir það önnuðust aðrar ratsjárstöðvar á landinu loftvarnirnar ásamt sérstökum ratsjárflugvélum.  

Ratsjárstöðin á Straumnesfjalli skipti því ekki máli hernaðarlega. En hún var angi – örítill angi – af langri sögu náins hernaðarlegs samstarfs að segja má milli Íslands og Bandaríkjanna. 

“Hernaðarlegs samstarfs að segja má” – Hvað á ég við með því? Jú, Ísland lagði auðvitað ekki herstyrk til samstarfsins, heldur land; nánar tiltekið aðstöðu á landinu fyrir Bandaríkjaher. En samstarfið var meira en nam þessu fyrirkomulagi. Samstarfið varði í áratugi, mestan hluta síðari heimsstyrjaldar og allt kalda stríðið. Og íslensk stjórnvöld lögðu til ríkan pólitískan stuðning og á þau reyndi oft í því efni vegna innanlandsdeilna um samstarfið. 

Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna var bandalag, sem hvíldi á frjálsum samningum milli ríkjanna, á sameiginlegum hagsmunum þeirra, á sameiginlegum gildum og á því sameiginlega markmiði bæði í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu að lýðræðisríki bæru sigur og einræðisríki ósigur. 

Ég ætla að fara í stuttu máli og mjög stórum dráttum yfir sögu þessa bandalags Íslands og Bandaríkjanna, hvernig henni lauk fyrir rúmlega þremur áratugum og hvernig hún hefur, þó með öðrum formerkjum sé en áður, átt endurkomu á undanförnum átta árum eða svo.

Og þar með kemur að Úkrænu- og því hvernig Bandaríkjaher hefur í vaxandi mæli frá 2014 notað aftur aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og Ísland aftur fengið hernaðarlega þýðingu þó við aðrar aðstæður sé og með mun veigaminni hætti en var í heimsstyrjöldinni og í kalda stríðinu.

Sagan sem ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af stóð í 50 ár – frá 1941 til 1991. Þetta var einstakt tímabil í Íslandssögunni – þegar Ísland hafði viss áhrif á gang heimsmála legu sinnar vegna og bandalagsins við Bandaríkin. 

Helstu áfangar í þessari sögu voru annars vegar koma Bandaríkjahers til Íslands 1941 í kjölfar herverndarsamnings milli landanna og hins vegar varnarsamningur þeirra 1951. Hann leiddi til þess að Bandaríkjaher hafði – eftir nokkurra ára hlé – aftur fasta viðveru á Íslandi með varnarliðinu eins og það var kallað. Því var komið á fót á grundvelli varnarsamningsins og það hafði aðallega aðsetur á Keflavíkurflugvelli – herstöðinni í Keflavík.

Áður hafði NATO verið stofnað – það var 1949 – og Íslendingar gerst stofnaðilar, þótt herlausir væru, meðal annars vegna þess að það var vilji háttsettra manna í Bandaríkjastjórn sem vísuðu til hernaðarlegs mikilvægis landsins. Grænland skipaði einnig slíkan sess í huga þessara aðila. Varnarsamningurinn var tvíhliða en gerður innan vébanda NATO. Keflavíkurherstöðin var bandarísk og hún og hervarnir lands og þjóðar undir stjórn bandarískra hermálayfirvalda – endanlega forseta Bandaríkjanna.

Saga bandalags Íslands og Bandaríkjanna – 1941-1991 eins og áður sagði -átti reyndar rætur sem rekja má fyrir 1941 -nánar tiltekið til júní 1940 með falli Frakklands undan sókn þýska hersins í síðari heimsstyrjöldinni.

Fall Frakklands 1940? Hvað með það? Jú, óvænt og dramatískt fall Frakklands sumarið 1940 boðaði mikla hættu í augum stjórvalda í Washington. Hún batt enda á einangrunarstefnu Bandaríkjanna. Það var rótttæk stefnubreyting sem birtist sumarið 1941 – meðal annars í því að Bandaríkjaher kom til Íslands í kjölfar herverndarsamnings landsins við Bandaríkin.

Stefnubreytingin réðist í grunninn af því markmiði þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna – og þetta er lykilatriði – að koma í veg fyrir að stórveldi næði ráðandi stöðu á meginlandi Evrópu. Það mundi fyrr en seinna leiða til þess að slíkt drottnandi stórveldi mundi sækja frá meginlandinu út á Norður Atlantshaf, í átt að vesturhveli Jarðar og loks Bandaríkjunum sjálfum. Þetta voru stóru drættirnir í þeirri geópólitík og sögu sem meðal annars gat af sér bandalag Íslands og Bandaríkjanna.

Í síðari heimsstyrjöld leit þetta svona út í örstuttu máli: Félli Bretland í kjölfar falls Frakklands 1940 eða eftir að Þjóðverjar hefðu sigur í innrásinni í Sovétríkin 1941 – líkt og óttast var í Washington – þá hefði styrjöldin í kjölfarið náð á einhverjum punkti af fullum þunga út á Atlantshaf í átt að vesturhveli og Bandaríkjunum sjálfum. Atlantshaf hefði orðið vettvangur stórfelldra hernaðarátaka milli Bandaríkjanna og Þýskalands. Ísland hefði orðið vígvöllur í þeim hildarleik.  

Íslendingar og Bandaríkjamenn áttu þannig augljósa sameiginlega þjóðaröyggishagsmuni sem réðust af gangi mála og valdastöðu milli stórvelda á meginlandi Evrópu. Í kalda stríðinu hefði svipuð staða getað komið upp á endanum ef Sovétríkin hefðu náð að drottna yfir meginlandinu.

Hernaðaraðstaða á Íslandi hafði verulega þýðingu fyrir gang mála í afdrifaríkri atburðarás. Í síðari heimsstyrjöld gegndi hernaðaraðstaða á landinu um tíma mikilvægu hlutverki fyrir Bandaríkjamenn og Breta í langri og harðvítugri orrustu; – orrustunni um Atlantshaf. Einnig fóru þúsundir herflugvéla frá Bandaríkjunum um Ísland til Evrópu.

Í kalda stríðinu hafði Keflavíkurherstöðin í aðalatriðum þýðingu framan af fyrir hernaðaráætlanir Bandaríkjanna með langdrægum sprengjuflugvélum gegn Sovétríkjunum, síðan fyrir varnir Bandaríkjanna -bæði loftvarnir og varnir gegn kafbátum sem á sjöunda áratugnum urðu að fara um hafsvæði við Ísland og suður Atlantshaf til að ná með kjarnavopnaflaugum til skotmarka í Bandaríkjunum. Þessi þörf Sovéthersins hvarf eftir 1970 með langdrægari flaugum sem gerðu kleift að halda kafbátum þeirra úti langt norður í höfum – aðallega í Barentshafi. Island hafði einnig auðvitað almenna þýðingu fyrir yfirráð Bandaríkjanna og annarra sjóvelda NATO á Norður Atlantshafi – leiðinni milli Norður Ameríku og Evrópu sem hafði haft grundvallarþýðingu í síðari heimsstyrjöld.

Á níunda áratugnum – síðasta áratug kalda stríðsins – varð Ísland burðarás í áætlun NATO, en einkum Bandaríkjahers, um sókn upp Noregshaf gegn sovéska flotanum og bækistöðvum hans á Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Þessi áætlun var lykilþáttur í fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum gegn Sovétríkjunum.

Þetta var á valdatíma stjórnar Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og stefnan í norðurhöfum – í hverri Ísland var burðarás eins og ég nefndi – var þáttur í miklu stærri fyrirætlan en bara að halda aftur af Sovétríkjunum. Ætlunin var að sigra Sovétríkin í kalda stríðinu – án átaka – en meðal annars og ekki síst með stórfelldri uppbyggingu Bandaríkjahers og með með ákveðnari og trúverðugri fælingar og hernaðarstefnu en áður. Tilgangurinn var að sýna Sovétríkjunum, sem þá voru á fallandi fæti efnahagslega, að þau hefðu ekki fjárhagslega eða tæknilega burði til að keppa við Bandaríkin á hernaðarsviðinu; mundu veikjast æ meira efnhagslega og loks kikna undan samkeppninni og tapa þannig kalda stríðinu. – Og það gekk eftir.

Þess er vitanlega ekki kostur hér að fara ítarlega í þennan eða aðra merka kafla í sögu bandalags Íslands og Bandaríkjanna, en áhugasamir geta kynnt sér hana nánar meðal annars á vefsíðu minni um alþjóða og utanríkismál. Fyrsta greinin á henni  birtist 2018 og heitir Hernaðarleg staða Íslans í sögu og samtíma. Henni fylgir ítarlega skrá yfir útgefnar heimildir um þessa sögu alla – þar á meðal  eru rit og greinar íslenskra höfunda. 

Í fyrrnefndri grein minni 2018 um hernaðarlega stöðu Íslands í sögu og samtíma kemur að kafla um horfnar forsendur eins og þar segir. Hvað er átt við með horfnum forsendum?

Jú, þar var komið sögu 1989-91 – að kommúnisminn hrundi í Evrópu og Sovétríkin féllu. Þar með var ógnin við NATO ríkin horfin; strategíska forsendan – lykilatriðið – sem hnýtti þjóðaröryggi Íslands við þjóðaröryggi Bandaríkjanna. — Það er að segja hættan á að stórveldi næði að drottna yfir meginlandi Evrópu og sækja út á Atlantshaf og að vesturhveli eins og ég nefndi áðan.

Sovétríkin hurfu en jafnframt skipti miklu fyrir öryggi Íslands og samstarfið við Bandaríkin eftir kalda stríðið – og hér er annað lykilatriði – að Rússland er ekki og verður ekki arftaki Sovétríkjanna. Hefði með öðrum orðum ekki burði til að ná drottnandi stöðu á meginlandinu og sækja út á Atlantshaf og að vesturhveli – jafnvel þótt rússneska ráðamenn langaði til þess, sem ekkert bendir reyndar til.

Eftir að hættan frá Sovétríkjunum hvarf á meginlandi Evrópu og augljóslega enginn arftaki þeirra í sjónmáli fækkuðu Bandaríkin stórlega í liði sínu í Evrópu. Forsendur fyrir föstu bandarísku herliði á Íslandi voru horfnar – reyndar var eftir þetta ekki bandarískur áhugi á neinu herliði hér umfram tímabundna viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla og áhafna þeirra. Sá áhugi hvarf einnig nokkrum árum eftir kalda stríðið enda bólaði ekki á rússneska flotanum eða rússneskum herflugvélum á Norður Atlantshafi.

Strax eftir kalda stríðið fækkaði Bandaríkjaher í mannskap og búnaði í Keflavíkurherstöðinni og 1993 komu fram tillögur um enn frekari fækkun, sem í reynd hefði leitt til þess að herstöðin hefði fljótlega lagst af. Henni var þó ekki lokað fyrr en 2006. Sú staðreynd að bandarískt varnarlið var áfram á landinu svo lengi eftir kalda stríðið og gegn vilja Bandaríkjahers er önnur saga sem ekki er kostur að fjalla um hér – en sú saga hafði ekki með strategíu eða geópólitík að gera. Ég bendi aftur á greinina á vefsíðu minni um hernaðarlega stöðu Íslands í sögu og samtíma þar sem er nokkuð ítarleg umfjöllun um af hverju varnarliðið var hér áfram þótt Bandaríkjaher telda það óþarfa. Það vill svo til að ég var þáttakandi frá fyrsta til síðasta dags í þeirri sögu.

Góðir áheyrendur, í heiti fyrirlestursins segir að ratsjárstöðin á Straumnesfjalli hafi verið angi af sögu sem sé löngu lokið og þó ekki. 

Henni lauk með falli Sovétríkjanna, eins og ég hef vikið að – “og þó ekki”. Hvað þýðir það?

Jú, versnandi samskipti NATO og Rússlands í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga í Rússland 2014 og hófu íhlutun í átök í austurhluta Úkrænu hafa leitt til þess að Ísland og Bandaríkin hafa á þessum tíma aftur átt hernaðarlega samvinnu á landinu. Og nú hefur innrás Rússa í Úkrænu komið til sögu. 

Versnandi samskipti vegna Úkrænu hafa meðal annars stuðlað að því eftir 2014 að Bandaríkjaher hefur veitt fé til að viðhalda og stækka flughlöð á Keflavíkurflugvelli, og, sem meiru skiptir, hefur aftur nýtt aðstöðu á vellinum fyir tímabundna viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla. Miklu af viðverunni hefur verið varið til þjálfunar og æfingar en einnig hefur verið flogið frá vellinum meðal annars langt norður í höf til að fylgjast með rússneska norðuflotanum og þá gjarnan í samvinnu við eldsneytisflutningaflugvélar frá bandarískri herstöð á Bretlandi. Þetta tengist fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi almennt, en þeirri stefnu bandalagsins í norðurhöfum sérstaklega. 

Með “norðurhöfum” á ég aðallega við norður Noregshaf og Barentshaf – hafsvæðin úti fyrir norður Noregi og Kolaskaga í norðvestur Rússlandi.

Starfsemi Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli í þágu fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum er meginframlag Íslands í hernaðarlegu tilliti. Um það lykilatriði er ekki fjallað í íslenskri umræðu um öryggis og varnarmál.

Það litla sem dúkkar stundum upp í umræðunni hefur einkum snúið að smávægilegum framkvæmdum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, einnig að rússneskum hernaðarumsvifum í námunda við landið þótt þau umsvif hafi verið mjög lítil og virðist fara enn minnkandi. Voru nánast engin á árinu 2021. Loks eru reglulega fréttir af loftrýmisgæslu NATO ríkja á Íslandi en hún er stopul og hefur því takmarkaða hernaðarlega þýðingu og enga að heita má fyrir öryggi Íslands nema hvað varðar loftrýmisgæslu á vegum Bandaríkjahers. Hún er reyndar stopul einnig en Bandaríkin eru þó skuldbundin til að sinna vörnum Íslands ef á þyrfti að halda. Það eru hin NATO ríkin ekki.

Og nú  síðast hefur öryggi Íslands komið til umræðu vegna innrásar Rússa í Úkrænu, þó innrásin hafi ekki áhrif á hernaðarlegt öryggi Íslands; enda hefur hún ekki leitt til hernarðarlegra viðbragða á Íslandi eða á Norður Atlantshafi, hvorki af hálfu Bandaríkjanna né annarra NATO ríkja. Þá vildi svo til að nokkurra vikna loftrýmisgæslu portúgalska flughersins á Íslandi var hætt á dögunum. Það var gert samkvæmt áætlun, sem innrásin í Úkrænu hafði greinilega engin áhrif á, enda ekki ástæða til auðvitað.

Þá hefur komið upp að mikilvægi ESB fyrir Ísland hafi aukist vegna Úkrænustríðsins. En auk þess að Úkrænustríðið felur ekki í sér hernaðarógn við land og þjóð þá hefur ESB ekki með hervarnir að gera og ekki líkur á að svo verði um fyrirsjánlega framtíð – og alls ekki þannig að máli skipti fyrir Ísland. Bandaríkin eru eina Atlantshafsveldið, eina flotaveldið sem máli skiptir í okkar heimshluta, og áfram máttarstólpinn þegar kemur að fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum. Ekkert ESB ríki er flotaveldi  á við Bandaríkin – langt í frá að svo sé. 

Góðir áheyrendur,

Sem fyrr – og hér er enn eitt lykilatriði – eru einungis Bandaríkin – sem svo vill til að eru mesta herveldi heims – skuldbundin til að annast hervarnir Íslands. Engin ástæða er til að ætla annað en að þær verði nægilega tryggar ef á þarf að halda, en auðvitað og eðlilega er það hlutverk íslenskra stjórnvalda á hverjum tíma að fylgjast með því í samráði við bandarísk stjórnvöld að svo sé. Ekki er ástæða til að ætla að því sé ekki sinnt.

Á hættutíma í aðdraganda hugsanlegrar styrjaldar milli NATO og Rússlands mundi Bandaríkjaher tryggja loftvarnir landsins og gera aðrar ráðstafanir í samræmi við áætlanir og starfsferla. Svo vill til að á næstu dögum hefst hér á landi á vegum Bandríkjahers æfingin Norður Víkingur samkvæmt samningum og æfingaáætlun, sem, meðal annarra orða og til að fyrirbyggja misskilning, er miklu eldri en innrásin í Úkrænu. Mikilvægur hluti æfingarinnar verður varnir hernaðarlega mikilvægra innviða á landinu.

En víkjum aftur að þátttöku Íslands í fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum með þvi að láta Bandaríkjaher – og eftir atvikum öðrum NATO ríkjum en aðallega Bandaríkjaher – í té aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. 

Um hvað snúast þessi lykilatriði, sem lúta að helsta framlagi Íslands til NATO en rata ekki í íslenska umræðu um öryggis og varnarmál? Hver er fælingar og hernaðarstefna Bandaríkjanna og NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum? Hvert er framlag Íslands til hennar?

Fælingar og hernaðarstefnan lýtur að því að sýna Rússlandsstjórn fyrirfram að kæmi til átaka við NATO á meginlandinu yrði Rússum ekki látið eftir að halda átökunum þar – til dæmis við Eystrasalt. Þess í stað yrðu þeir neyddir til að berjast víðar, þar á meðal í norðri til að verja sjálft Rússland, rússneska flotann þar, bækistöðvar hans á Kolaskaga og eldflaugakafbáta hans í Barentshafi; en í þeim er stór hluti rússneskra kjarnavopna. Einnig er Norðurflotinn að eignast langdrægar stýriflaugar sem ná mundu í stríði frá heimahöfum hans til skotmarka á meginlandi Evrópu.

Á hættutíma mundi NATO – þó einkum Bandaríkjaher – undirbúa varnir norður Noregs og hernaðaraðgerðir gegn Norðurflotanum og norðvestur Rússlandi. Framlag Íslands að þessu leyti yrði aðallega aðstaða á Keflavíkurflugvelli fyrir annars vegar kafbátaleitar og eftirlitsflugvélar sem mundu taka þátt í hernaðaraðgerðum langt fyrir norðan landið – norðanverðu Noregshafi og Barentshafi; hins vegar yrði framlag Íslands aðstaða fyrir eldsneytisflugvélar. 

Hernaðarleg þungamiðja í okkar heimshluta er mun norðar en í kalda stríðinu og því fjær Íslandi. Fyrir því eru þrjár meginástæður. Í fyrsta lagi er rússneski norðurflotinn miklu minni en sovéski forverinn og sá rússneski er að mjög litlu leyti úthafsfloti. Hann heldur sig aðallega á hafsvæðum nálægt Rússlandi. Í öðru lagi er forgangsverkefni Norðurflotans að verja Barentshaf og norðvestur Rússland. Í þriðja lagi hefur hann minni þörf en áður fyrir að sækja út á Norður-Atlantshaf vegna þess að hann ræður yfir langdrægari vopnum en áður gegn aðvífandi ógn og gegn skotmörkum á meginlandi Evrópu sem fyrr sagði. 

Sakir þess að hernaðarlega þungamiðjan hefur færst miklu norðar en hún var áður – og reyndar austar einnig – er vel hugsanlegt að flugbækistöðvar í norður Noregi og jafnvel Skotlandi mundu hafa stærra hlutverki að gegna en Keflavíkurflugvöllur og þá fyrir jafnt bandarískar, norskar og breskar kafbátaleitarflugvélar.

Um framlag Íslands til fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum  – helsta framlag okkar – er eins og ég nefndi áðan ekki rætt á Íslandi. Sést ekki í opinberum skýrslum eða að öðru leyti opinberlega af hálfu íslenskra stjórnvalda. 

Að þannig hátti með umræðuna skiptir máli almennt séð auðvitað, en einnig sakir þess að stefna NATO í norðurhöfum fær ef að líkum lætur aukið vægi í kjölfar Úkrænustríðsins.

Annað framlag Íslands til fælingar og hernaðarstefnunnar kemur til greina og Bandaríkjaher hefur sýnt því áhuga bæði í orði og á borði en það ratar heldur ekki í íslenska umræðu. Það framlag mundi lúta að tímabundinni aðstöðu fyrir langdrægar bandarískar sprengjuflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Önnur Evrópuríki veita slíka aðstöðu. Markmiðið með því að halda langdrægum sprengjuflugvélum úti tímabundið utan Bandaríkjanna er að gera fælingar og hernaðarstefnu þeirra og NATO öflugri og trúverðugri en ella. Íslensk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um þetta mál – amk ekki opinberlega – þar á meðal ekki eftir að þrjár langdrægar sprengjuflugvélar höfðu með tilheyrandi mannskap viðdvöl á Keflavíkurflugvelli til æfinga í þrjár vikur í ágúst og september í fyrra.

Dvöl sprengjuflugvélanna hér, starfsemi þeirra frá Keflavíkurflugvelli, samhengi við nýja stefnu flughersins og ummæli talsmanna hersins meðan flugvélarnar voru á Íslandi – þetta voru samanlagt stærstu tíðindi í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna frá því í kalda stríðinu. Engin umræða.

Spurningar sem vakna: Hvernig var koma flugvélanna hingað ákveðin? Verður framhald á þessu?

Góðir áheyrendur,

Fælingar og hernaðarstefna NATO yrði auðvitað ekki gangsett og virkjuð í norðurhöfum, frekar en annarssstaðar, nema á hættutíma, nánar tiltekið í aðdraganda hugsanlegra átaka milli Rússlands og NATO.  Þriðju heimsstyrjaldar. Markmiðið með því að virkja stefnuna og efla í kjölfarið viðbúnað og herstyrk i norðurhöfum væri að reyna að gera fælinguna trúverðuga koma í veg fyrir að hættutíminn endaði í stríði.

Kæmi til þess engu að síður yrði líklegasta hernaðarógnin gegn Íslandi árás á Keflavíkurflugvöll. Gera verður ráð fyrir að reynt yrði að setja hann úr leik og og þá að öllum líkindum með stýriflaugum sem sendar yrðu af stað langt í norðri – frá rússneskum flugvélum, skipum eða kafbátum í 3000-5000 kílómetra fjarlægð frá Íslandi. Stýriflaugar fljúga lágt á 8-900 kílómetra hraða. Gegn þeim eru að heita má engar varnir mögulegar nema tiltölulega nálægt skotmörkum. Jafnvel þar eru varnir torveldar.

Og þá er ég kominn aftur að ratsjárstöðvum sem ég skildi við í byrjun þegar ég nefndi stöðina á Straumnesfjalli. Það er ekki víst – jafnvel ólíklegt – að ratsjárstöðvarnar sem eru á hverju landshorni dygðu til þess yfir höfuð að finna stýriflaugar sem nálguðust landið á 800-900 km hraða og væru komnar niður í jafnvel hundrað metra hæð; hvað þá finna flaugarnar í tæka tíð svo orrustuþotur eða loftvarnaskeyti á landi næðu að granda þeim. Tiil að eiga möguleika í þessum efnum þyrfti ratsjárþotur og jafnvel einnig stuðning frá gervitunglum. 

Ratsjárstöðvarnar á landshornunum okkar fjórum kunna því að hafa takmarkað gildi gegn stýriflaugum. Þá er næsta víst að þær fáu langdrægu sprengjuflugvélar sem Rússar eiga mundu ekki – og þyrftu ekki vegna langdrægu stýriflauganna – að koma svo nálægt landinu að ratsjárstöðvarnar skiptu máli. Til hvers að fara alla þá hættulegu leið ef senda má vopnið af stað í þúsunda kílómetra fjarlægð, sem svo kæmi að skotmarki undir ratsjárgeislum, sem flugvélin ætti erfitt með?

Yrðu sendar skemmdarverkasveitir gegn íslenskum innviðum? Ég hef ekki upplýsingar og forsendur til að meta möguleika Rússlandshers til að koma slíkum sveitum óséðum til Íslands með búnaði til skemmdarverka. Er raunhæft að gera ráð fyrir því? Mér finnst það hæpið og nokkuð ljóst að stýriflaugar yrðu áreiðanlegri og skilvirkari gegn flugvellinum, skotmarkinu sem mestu máli skipti.

Mætti lama varnirnar með nethernaði? Stundum er mikið gert úr getu Rússa og fyrirætlan í rafeinda og nethernaði. Auðvitað þarf netöryggi að vera í lagi hér á landi sem annarsstaðar og það er vissulega áskorun almennt, sem kallar á árvekni og ráðstafanir.  En í Úkrænu hafa Rússar ekki reynst neinir nethermenn yfir höfuð. Það hafa svo gott sem engar fréttir borist af nethernaði af þeirra hálfu þar. Þar virkar netið ágætlega eftir meira en mánaðarlangt stríð. Það sést meðal annars af ræðum Úkrænuforseta á fjarfundum á undanförnum vikum með þingum margra ríkja. Forsetinn er líka virkur á twitter.

Góðir áheyrendur,

Í byrjun fyrirlestursins nefndi ég þau sameiginlegu gildi sem bandalag Íslands og Bandaríkjanna byggði á. Þess er ekki kostur að fjalla nánar hér um þá undirstöðu eða þá frjálsu samninga sem bandalagið hvíldi á. Ennfremur mætti halda til haga þeirri staðreynd að Ísland og Bandaríkin voru í sigurliðinu í þessari sögu – bæði í heimsstyrjöldinni og kalda stríðinu. Ísland lagði af mörkum fyrir málstað sem var réttlátur og tók í heimsstyrjöldinni þátt – að segja má – í réttlátu stríði. 

Fimmtíu ára sögu bandalags Íslands og Bandaríkjanna lauk vegna grundvallarbreytinga sem urðu á valdajafnvæginu á meginlandi Evrópu með falli Sovétríkjanna. Hætta á styrjöld um yfirráð á Atlantshafi sem leiddi til átaka um Ísland – hún hvarf.

Átökin í Úkrænu á undanförnum átta árum minna hins vegar á dökkar hliðar Evrópusögunnar sem og á það að Íslendingar og Bandaríkjamenn eiga áfram hagsmuni – augljósa hagsmuni – í friði og stöðugleika á meginlandi Evrópu; þótt hernaðarlegt öryggi þeirra sé ekki í húfi með þeim hætti sem var. 

Ég benti á áðan að umræða hér á landi um öryggismál væri lítil og heldur þröng, meðal annars af því að söguleg, geópólitísk og strategísk lykilatriði rata ekki í hana. Þetta á við almennt en einnig við framlag stjórnvalda til umræðunnar.

Þetta má gjarnan breytast af því Ísland er aðili að NATO og þátttakandi í fælingar og hernaðarstefnu þess og framundan eru flóknir og erfiðir tímar í evrópskum öryggismálum. Þess er hins vegar ekki þörf að öryggi Íslands verði að stórmáli vegna Úkrænustríðsins. Höfum aðalaðtriði í huga.

Á Íslandi er eitt auðugasta samfélag heimsins, samfélag sem býr ekki bara við mikla efnalega velferð, heldur stöðugleika og öryggi. Við erum langt frá Úkrænustríðinu og rússneska landhernum, í fjarlægð sem talin er í þúsundum kílómetra. Við eigum enga volduga, ógvekjandi nágranna. 

Við þessa ofgnótt í öryggismálum þjóðarinnar bætist að við höfum hervarnasamning við mesta herveldi Jarðar. Okkur er engin vorkunn að tryggja áfram sjálf-  í krafti okkar lögregluliðs og í samstarfi við önnur ríki og við alþjóðastofnanir- öryggi okkar samfélags eins og við á gagnvart hugsanlegum netógnum, alþjóðlegri glæpastarfsemi eða hryjuverkaöflum.

En við höfum hagsmuni og skyldur á meginlandi Evrópu. Þar eigum við bandamenn, samherja, vini. Og við höfum sömu hagsmuni og þeir af stöðugleika og friði, reyndar bæði á meginlandi Evrópu og utan þess.

Hvernig sem fer í Úkrænustríðinu, og hvort Rússland kemur veikar eða sterkar út hernaðarlega, pólitískt og efnahagslega en það var áður – þá leiðir stríðið vitanlega til stórra og erfiðra eftirmála. Þau kalla á  trúverðuga og burðuga stefnu af hálfu NATO ríkjanna, krefjast einingar meðal þeirra – og útgjalda. Kröfur verða auðvitað gerðar til Íslands í þessum efnum eins og til annarra NATO ríkja. 

Eftir stríðið þarf að endurreisa borgir, bæi og þorp í Úkrænu en einnig þarf að endurreisa öryggiskerfi í Evrópu. Það stefnir í að NATO ríkin muni meðal annars efla varnir og leggja enn ríkari áherslu en áður á trúverðuga fælingar og hernaðarstefnu. Þar á meðal í norðurhöfum.

Stuðningur frá Íslandi við fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum er helsta hernaðarframlag okkar til bandalagsins. Sá stuðningur fær að óbreyttu og eðli máls samkvæmt meira vægi en áður í kjölfar Úkrænustríðsins. Hernaðarumsvif af því tagi sem verið hefur undanfarin ár á Keflavíkurflugvelli kunna að aukast. Gera má ráð fyrir því.

Áfram verður ólíklegt að aftur komi bandarískt “varnarlið” til landsins. Forsenda þess birtist trauðla aftur fyrr en á hugsanlegum hættutíma sem kæmi upp í aðdraganda hugsanlegs stríðs milli NATO og Rússlands. 

Það væri hin svonefnda þriðja heimsstyrjöld, hvorki meira né minna. Hún er afar ólíkleg sakir þess að hún mundi að öllum líkindum leiða til þess á einhverju stigi að kjarnorkuvopn yrðu notuð. Einstakur fælingarmáttur þeirra hefur komið skýrt í ljós í Úkrænustriðinu. Þau hafa að svo komnu haft þau áhrif að staðbinda átökin við Úkrænu, en hafa jafnframt bundið hendur NATO ríkjanna með því að koma í veg fyrir beinan hernaðarlegan stuðning af þeirra hálfu við Úkrænu.

Að lokum þetta: Allar líkur benda til að Bandaríkin leggi á næstu árum og áratugum megináherslu í öryggis og varnarmálum á Asíu en ekki á Evrópu. Bandaríkjaher muni smám saman færa sig að mestu frá Evrópu og Evrópuríki NATO koma í hans stað og taka við vörnum bandalagsins að miklu leyti. Of snemmt er auðvitað að hafa uppi getgátur um hvort og þá hvernig Ísland kæmi að þessu. Þó er víst að Evrópuríki munu ekki um langa hríð -og jafnvel aldrei – taka við hernaðarlegu hlutverki Bandaríkjanna á Norður Atlantshafi og í norðurhöfum. 

Hér er kanske efni í annan fyrirlestur um sögu, geópólitík og strategíu og öryggismál Íslands, en ef til vill ekki í Þjóðminjasafni Íslands. 

Ég þakka safninu aftur fyrir boð um að halda þennan fyrirlestur – og ykkur áheyrendur góðir fyrir áhugann og áheyrnina.