Norðurskautsráðið byggir að segja má á sameiginlegum skilningi aðildarríkanna á skýrum hagsmunum íbúa norðurslóða á sviði loftslagsmála, mengunarmála, líffræðilegs fjölbreytileika, málefna hafsins og náttúruvár. Í grunninn er áherslan í starfi ráðsins á sjálfbæra þróun og umhverfisvernd til að vinna að velferð samfélaga á norðurslóðum og ráðið er leiðandi vettvangur fyrir samstarf, samræmingu og samráð um þessi mál milli ríkisstjórna, frumbyggja og annarra íbúa svæðisins. Í starfsemi ráðsins er sjónum í vaxandi mæli beint að loftslagsmálum því haldi hlýnun Jarðar áfram mun það hafa róttæk áhrif á á samfélög og lífskjör á norðurslóðum; og kalla á sameiginleg viðbrögð á svæðinu, sem einungis Norðurskautsráðið verður fært um að móta og samræma. Ráðið getur þannig gegnt lykilhlutverki í heimshluta sem líkur benda til að eigi eftir að fá mjög aukið vægi í heimsmálum eftir því sem líður á öldina.
Aðildarríki ráðsins eru Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Svíþjóð og Rússland. Að auki eiga fimm frumbyggjasamtök aðild að ráðinu. Áheyrnaraðilar eru Bretland, Frakkland, Holland, Ítalía, Japan, Kína, Pólland, Spánn og Þýskaland. Ísland hefur haft formennsku í ráðinu frá 2019 en á ráðherrafundi þess í Reykjavík 19.-20. maí tekur Rússland við og hefur formennskuna með höndum til 2023.
Með stofnun Norðurskautsráðsins fyrir 25 árum var notað tækifæri sem gafst norðurslóðaríkjunum, þegar stórveldadeilur kalda stríðsins stóðu ekki lengur í vegi, til að fást sameiginlega við málefni norðurslóða og tryggja hagsmuni samfélaga þar varðandi sjálfbæra þróun og umhverfismál. Jafnframt var ákveðið að hernaðarleg öryggismál yrðu ekki þáttur í starfsemi ráðsins, enda mundu þau trufla hana.
Að halda norðurslóðum sem “lágspennusvæði” er yfirlýst stefna allra aðildarríkja norðurskautsráðsins sem og að halda samkeppni og hernaðarlegum umsvifum stórveldanna utan við starfsemi ráðsins. Það hefur tekist þrátt fyrir afar stirð samskipti að öðru leyti milli Rússlands og annarra aðildarríkja ráðsins í kjölfar Úkrænudeilunnar 2014.
Hvort norðurslóðir verða áfram lágspennusvæði ræðst aðallega af samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands. Þegar fram í sækir, og að því gefnu að stefni í að hlýnun Jarðar leiði til þess að Norður-Íshaf opnist, mun þróun mála einnig litast mjög af samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu og samkeppni þeirra á norðurslóðum. Til skemmri tíma litið verður gangur mála aðallega háður samkeppni Bandaríkjanna og Rússlands.
Hernaðarlegir hagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum hafa þróast þannig í veigamiklum atriðum að leitt hefur til nýrra og aukin umsvifa þeirra á svæðinu:
Norðurfloti Rússlands er lítill miðað við sovéska forverann. Hernaðarleg þýðing Íslands og Norður-Atlantshafs hefur minnkað af þeim sökum frá því sem var í kalda stríðinu, enda koma skip og kafbátar Norðurflotans lítið út á Norður-Atlantshaf en halda sig að mestu við forgangsverkefni í heimahöfum og nálægum svæðum, það er í norður Noregshafi, Barentshafi og Hvítahafi.
Til að komast í tæri við Norðurflotann í eftirlits og æfingaskyni og til að undirstrika fælingarstefnu gegn Rússlandi þarf Bandaríkjaher því í vaxandi mæli að halda lengra norður en áður – inn á athafnasvæði Norðurflotans. Sömu áhrif hefur að Norðurflotinn er að taka í notkun langdrægar stýriflaugar sem gerir kleift að ná til skotmarka í Norður-Evrópu frá heimahöfum og nærliggjandi svæðum. Þegar fram í sækir mun bæði rússneski flotinn og flugherinn ráða yfir stýriflaugum sem mundu ná til skotmarka í Evrópu og Norður -Ameríku frá skipum, kafbátum og flugvélum langt inni á Norður-Íshafi.
Þannig hafa NATO-ríki aukinna hagsmuna að gæta í lofti og á legi lengra inni á norðurslóðum en áður líkt og ítarlega hefur verið fjallað um í fyrri greinum á þessari vefsíðu. Hernaðarleg umsvif Bandaríkjanna og eftir atvikum annarra NATO-ríkja á svæðinu hafa sem fyrr sagði breyst og aukist í takt við áðurnefnda þróun og enn hefur bæst við á síðustu vikum:
Í fyrsta lagi fær Bandaríkjafloti samkvæmt nýlegu samkomulagi Bandaríkjanna og Noregs sérstaka aðstöðu á herflugvelli í Norður-Noregi fyrir kafbátaleitarflugvélar. Flotinn fær að byggja flugskýli og eldsneytisgeyma og leggja eldsneytiskerfi. Þetta er skýr vísbending um enn aukna áherslu Bandaríkjaflota á norður Noregshaf og Barentshaf;
í öðru lagi hafa norsk stjórnvöld ákveðið að Bandaríkin og önnur NATO ríki fái aðgang fyrir kjarnorkuknúna kafbáta að höfn skammt frá Tromsö í norður Noregi vegna áhafnaskipta og til að taka vistir og varahluti. Slíkur aðgangur sparar tíma, sem annars færi í að sigla til flotahafna í suðurhluta Noregs eða Skotlandi, og eykur tímann sem gefst til athafna á þeim stöðum í norðri þar sem Norðurflotinn heldur sig aðallega;
þá er athyglisvert að AWACS ratsjárþota NATO flaug yfir Norður-Íshafi fyrir norðan Grænland 23. mars síðastliðinn vegna loftvarnaæfingar. Flug þotunnar sést á twitter síðunni Aircraft Spots þennan dag. Um var að ræða reglubundna æfingu á vegum NORAD (North American Aerospace Defense Command), sem er sameiginleg loftvarnaherstjórn Bandaríkjanna og Kanada. Æfingin fór fram 20.-26. mars og náði frá Alaska til Thule á Grænlandi. Þáttaka ratsjárþotu frá NATO skýrist væntanlega af því að herstjórnarsvæði Evrópuherstjórna Bandaríkjanna og NATO nær meðal annars yfir Grænland og inn á Norður-Íshaf. Orrustuþotur og eldsneytisþotur sem tóku þátt í æfingunni komu frá Bandaríkjunum og Kanada. Þess má vænta að loftvarnaviðbúnaður og æfingar nái í auknum mæli inn á Norður-Íshaf vegna fyrrnefndra langdrægra rússneskra stýriflauga og viðbragða við þeim.
Hvað varðar hagsmuni Rússlands þá hafa norðurslóðir mikla efnahagsleg þýðingu. Þegar koma um 10 prósent af þjóðartekjunum og 20 prósent af útflutningnum frá norðurslóðum – málmar, gas, olía og kol – og auðlindir á svæðinu eru lykilþáttur í væntingum og áætlunum um hagþróun í landinu.
Norðurflotinn og stöðvar hans á Kolaskaga á norðvestur Rússlandi skipta Rússa afar miklu máli. Hryggjarstykki í rússneska kjarnorkuhernum er í eldflaugakafbátum Norðurflotans. Kjarnavopn kafbátanna og öryggi þeirra lúta frá sjónarhóli stjórnvalda að tilvistarhagsmunum Rússlands og kjarnorkuherinn hefur lykilþýðingu fyrir stefnu og stöðu þess í heiminum. Endurnýjun eldflaugakafbátanna og árásarkafbáta til að gæta öryggis þeirra fyrrnefndu í Barentshafi hefur verið forgangsatriði við framkvæmd áætlunar Putin-stjórnarinnar undanfarin 15 ár um endurnýjun og uppbyggingu hersins í kjölfar margra ára vanrækslu og fjársvelti eftir fall Sovétríkjanna.
Þó hefur Norðurflotinn minnkað mjög sem fyrr sagði og sú þróun heldur áfram í mikilvægum atriðum. Þannig er nú útlit fyrir að eldflaugakafbátar hans gætu orðið 7 talsins um 2030 (en voru 40 á árinu 1985) og að kjarnorkuknúnir árásarkafbátar, af því tagi sem geta athafnað sig á úthöfum, verði einungis 4-8 (eru nú 13-17 – næstum allir frá Sovéttímanum – en voru 75 talsins á árinu 1985). Þess ber að geta að einungis tekst, og með ærnum tilkostnaði, að halda úti helmingi kafbátanna á hverjum tíma. Herskip Norðurflotans af því tagi sem beita má á úhöfum eru orðin örfá og ekki útlit fyrir að þeim fjölgi. Hins vegar er verið að endurnýja minni skip af því tagi sem gæta heimahafa og nærsvæða þeirra. Einnig er verið að efla loftvarnir norðurslóða Rússlands.
Þannig hafa bæði Bandaríkin og Rússland mikilvægra öryggishagsmuna að gæta á norðurslóðum og herfræðileg þróun og hagsmunir Bandaríkjanna virðast kalla á áframhaldandi aukin umsvif þeirra. Bæði stórveldin láta hvort um sig reglulega í ljós óánægju og tortryggni varðandi aukinn viðbúnað og umsvif hins. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við umsvifum Bandaríkjanna hafa harðnað að undanförnu.
Því vaknar spurning um hve lengi takist að halda stirðum samskiptum stórveldanna frá Norðurskautsráðinu og koma í veg fyrir að hún skaði starfsemi þess. Stundum kviknar umræða – einkum meðal sérfræðinga – um hvort Norðurskautsráðið eigi hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð var við stofnun þess að það haldi sig frá því hermálum. Skoðanir virðast gjarnan skiptast í tvö horn, annarsvegar að ráðið verði að láta hernaðarleg mál til sín taka af því spenna og hernaðarleg umsvif fari vaxandi; hinsvegar að með því muni opnast “askja Pandóru” það er uppspretta deilna og vandræða sem á endanum komi í veg fyrir að ráðið geti sinnt þeim verkefnum sem því var falið í byrjun og skipti afar miklu fyrir íbúa norðurslóða.
Fyrir Úkrænudeiluna átti sér árlega stað formlegt samráð ríkjanna sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu þar sem hermál og öryggismál voru rædd. Þessi vettvangur, sem var utan við ráðið, var lagður niður að frumkvæði NATO í kjölfar versnandi samskipta við Rússland vegna Úkrænudeilunnar. Rússnesk stjórnvöld tala fyrir því að slíku samráði verði aftur komið á.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, munu funda í Reykjavík um samskipti ríkjanna meðan á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Það verður fyrsti tvíhliða fundur svo háttsettra fulltrúa Bandaríkjanna og Rússlands eftir að Biden forseti tók við í janúar og yrði væntanlega mikilvægur liður í undirbúningi fyrir líklegan fund Bidens og Putins, Rússlandsforseta, í júní. Almennt virðast ekki uppi væntingar um að samskipti Rússlands og Bandaríkjanna geti batnað í grundvallaratriðum, hvorki í bráð né lengd.
Blinken kemur við í Kaupmannahöfn á leið á Norðurskautsráðsfundinn í Reykjavík. Í Kaupmannahöfn á Blinken fundi með utanríkisráðherra Grænlands og utanríkisráðherra Færeyja, auk þess auðvitað að hitta danska ráðamenn. Frá Reykjavík heldur Blinken til Grænlands til frekari viðræðna við þarlenda ráðamenn. Það er því greinilega áfram aukin áhersla í stefnu Bandaríkjanna á norðurslóðir, líkt og var hjá Trump stjórninni. Áhugavert verður að sjá hvað ferðir Blinkens nú til norðurslóðalanda leiða í ljós um helstu áhrifaþætti í stefnu Biden stjórnarinnar í málefnum svæðisins; að hve miklu leyti stefnan tekur mið af af umhverfismálum og að hve miklu leyti af hernaðarlegum hagsmunum.
Hvað varðar fundi Blinkens með íslenskum ráðamönnum verður einkum áhugavert að sjá hvað kemur fram um áhrif aukins vægis norðurslóða í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á tvíhliða samskiptin við Ísland – í öryggismálum og viðskiptamálum. Einnig hvort Blinken viðrar svipaðar áhyggjur af Kína almennt og á norðurslóðum sérstaklega og þeir Pence, varaforseti Trumps, og Pompeo, utanríkisráðherra, gerðu í Íslandsheimsóknum 2019.
Loftslagsmál verða vafalaust ofarlega á baugi bæði á tvíhliða fundum og á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Ráðið skiptir miklu varðandi rannsóknir á hlýnun Jarðar og viðbrögð við henni á norðurslóðum, en hefur jafnframt lítið með það að gera að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Ísland og Bandaríkin eiga það sameiginlegt (með næstum öllum ríkjum heims) að mjög langt er í land með að þau nái yfirlýstum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, hvað þá að fullnægi markmiðum Parísarsamningsins um loftslagsmál.
Að öðru leyti er himinn og haf milli Íslands og Bandaríkjanna í loftslagsmálum, af þeirri ástæðu að hlutfall endurnýjanlegrar orku Bandaríkjunum er rúm 10 prósent en um 80 prósent á Íslandi. Þetta mjög háa hlutfall á Íslandi þýðir meðal annars, líkt og fjallað hefur verið um í fyrri greinum á þessari vefsíðu, að Íslendingar eiga dýrari og færri kosti til að minnka losun en á við Bandaríkin og flest önnur ríki í því efni, þótt þeirra kostir séu auðvitað einnig erfiðir.