Öryggismál á norðurslóðum

Ég talaði á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? semalþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir 20. apríl.  – Ég var beðinn um að halda stutt erindi um hvaða “smitáhrif” stríð í Evrópu geti haft á norðurslóðir. 

Hér er erindið:

Á þeim knappa tíma sem ég hef ætla ég að reyna að gera viðfangsefninu skil með því að setja fram og svara fjórum spurningum – fjórum spurningum um Úkrænustríðið og öryggismál á norðurslóðum – og víkja jafnframt að stöðu og hlutverki Íslands.

Ég kemst ekki yfir að ræða sum mikilvæg öryggismál sem nú eru í þróun á norðurslóðum í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu – þar á meðal hugsanleg aðild Finna og Svía að NATO. Þá eru líkur á að skilvirkt samstarf á vegum norðurskautsráðsins muni liggja niðri jafnvel í mörg ár í vegna stríðsins.

Áður en ég sný mér að spurningunum fjórum sem ég nota til að skipuleggja þessa stuttu framsögu  – þarf að taka fram að í kalda stríðinu voru tengsl milli norðurslóða annars vegar og öryggismála á meginlandi Evrópu hins vegar. Hættutími á meginlandinu hefði náð inn á norðurslóðir með stórauknum hernaðarlegum umsvifum þar. En til þess – og það er lykilatriði – hefði þurft alvarlegan hættutíma, í raun aðdraganda hugsanlegs stríðs milli NATO og Sovétríkjanna.

Fyrsta spurning mín af fjórum um Úkrænu og norðurslóðir er, hefur stríðið sem hófst 24 febrúar síðastliðinn með innrás Rússa í landið haft áhrif á hernaðarleg umsvif á norðurslóðum?

Stutta svarið er nei. Innrásin hefur ekki leitt til hernaðarlegra umsvifa á norðurslóðum sem neinu nemur umfram þau sem áttu sér stað á árunum fyrir innrásina – eða voru í bígerð vegna æfinga. 

Að fylgjast með þessu í aðalatriðum er fremur auðvelt á internetinu – auk þess að ekki yrði reynt að halda viðbrögðum leyndum. Því þá yrði tilgangnum með þeim ekki náð. 

Lítil eða engin hernaðarleg viðbrögð á norðurslóðum við innrásinni koma ekki á óvart, enda hefur ekki hafist aðdragandi að stríði milli NATO og Rússlands. Sama forsenda um að alvarlegan hættutíma milli stórveldanna þurfi til – hún á við nú líkt og í kalda stríðinu. Eftir að Úkrænustríðið hófst hafa báðir aðilar forðast að hrinda af stað slíkri atburðarás. Hún er áfram talin afar ólíkleg. 

En stríð í Úkrænu hófst ekki með innrásinni 24. febrúar síðastliðinn, heldur eins og kunnugt er fyrir átta árum – á árinu 2014 – þegar Krímskagi var hernuminn og mannskæð borgarastyrjöld hófst með rússneskri íhlutun í austurhluta Úkrænu. Samskipti NATO og Rússlands versnuðu eftir þetta – og mjög svo – og auðvitað.

Önnur spurning mín í dag er því þessi: Hafa versnandi samskipti NATO og Rússlands frá 2014 – haft áhrif á öryggismál á norðurslóðum?

Stutta svarið við þessari spurningu er: Já. Áhrifin hafa einkum birst í verulega auknum umsvifum Bandaríkjahers -og eftir atvikum annarra NATO herja – á norðurslóðum, nánar tiltekið norðurhöfum. Umsvif þessara aðila á svæðinu voru lítil fram til 2014. Tilgangurinn með að auka umsvif í norðurhöfum er væntanlega sá að minna Rússa á strategískan áhuga og hernaðargetu NATO þar, og mikilvægi norðurhafa fyrir bandalagið. Þessi auknu umsvif á undanförnum átta árum hefur mátt greina á láði og legi – og í lofti – og vitað er að umferð vestrænna kafbáta hefur einnig aukist. 

Með norðurhöfum er átt við norður Noreg og svæði þar úti fyrir og úti fyrir Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Þetta eru einkum norður-Noregshaf og Barentshaf – en einnig Norður Íshaf að segja má.

Á sama tíma og samskipti NATO og Rússlands hafa versnað vegna Úkrænu frá 2014, hafa hernaðarumsvif Bandaríkjahers komið aftur til sögu á Keflavíkurflugvelli einkum með tímabundinni viðveru kafbátaleitar og eftirlitsflugvéla af gerðinni P-8 Poseidon. Viðvera þeirra hefur vaxið verulega á tímabilinu frá 2014 vegna æfinga og þjálfunar – og vegna eftirlits með Rússum.

Rússnesk hernaðarumsvif hafa þó verið mjög lítil úti Atlantshafi á svæðum í námunda við Ísland. Þetta á bæði við herskip og herflugvélar Rússa. Rússneskum kafbátum hefur reyndar verið fylgt eftir frá Keflavíkurflugvelli en þeir hafa verið fáir – að meðaltali einn kafbátur á ári frá því þeirra varð aftur vart 2014. Enginn rússneskur kafbátur virðist hafa komið út á Atlantshaf og á svæði við Ísland í fyrra. Það ár voru nánast engin rússnesk hernaðarumsvif á svæðum í námunda við Ísland. 

Til að komast í tæri við rússneska norðurflotann þarf því að fara langt norður í Noregshaf og Barentshaf. Þar heldur flotinn sig aðallega – af ýmsum ástæðum – og litlar líkur eru á að það eigi eftir að breytast að ráði. Á síðustu árum hafa P-8 flugvélar einmitt haldið í eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli langt norður í höf – stundum með stuðningi frá eldsneytisþotum frá bandarískum herbækistöðvum á Bretlandi. 

Hlutverk Keflavíkurflugvallar er að styðja við fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum. Í þessu felst helsta hernaðarlegt framlag Íslands til NATO – þó það sé mun veigaminna en í kalda stríðinu. Þá var Ísland “hjörin” sem stefnan varðandi norðurhöf hékk á eins og það var orðað.

Annað og nýtt framlag Íslands í þágu fælingar og hernaðarstefnu NATO í norðurhöfum – er að veita tímabundna aðstöðu fyrir langdrægar bandarískar sprengjuflugvélar á Keflavíkurflugvelli. Önnur Evrópuríki hafa veitt slíka aðstöðu – þar á meðal Noregur. 

Markmiðið er að gera Rússlandsher erfiðara fyrir að vita hvar bandarískar langdrægar sprengjuflugvélar er að finna á hverjum tíma. Þannig er reynt að flækja hernaðaráætlanir Rússa og styrkja fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO – þar á meðal á norðurslóðum. Bandarískar sprengjuflugvélar hafa farið tíðar ferðir yfir norðurhöf á síðustu árum meðal annars í samstarfi við norska flugherinn. Slíkar vélar höfðu í fyrsta sinn viðdvöl á Íslandi í fyrra þegar þrjár þeirra voru á Keflavíkurflugvelli til æfinga í þrjár vikur.

Þriðja spurningin mín af fjórum er hvað felst í fyrrnefndri fælingar og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum?

Stefnan lýtur í aðalatriðum að því að sýna Rússlandsstjórn fram á að kæmi til átaka við NATO á meginlandi Evrópu yrði Rússlandsher ekki látið eftir að halda átökunum þar. Þess í stað yrði hann neyddur til að berjast víðar, þar á meðal í norðurhöfum. Þar eru afar mikilvægir rússneskir hagsmunir; – það er að segja rússneski Norðurflotinn, bækistöðvar hans á Kolaskaga og eldflaugakafbátar hans í Barentshafi. Í þeim er stór hluti langdrægra rússneskra kjarnavopna. Varnir þessara kafbáta lúta að grundvallar hernaðarhagsmunum Rússlands og þær eru forgangsverkefni rússneska Norðurflotans.

Síðasta og fjórða spurning mín í dag er um eftirmál innrásar Rússa í Úkrænu. Munu þau birtast í norðurhöfum?

Úkrænustríðinu munu auðvitað fylgja stór og erfið eftirmál. Þau kalla á  trúverðuga stefnu af hálfu NATO ríkjanna og ráðstafanir bæði til að tryggja enn frekar öryggi aðildarríkja við Eystrasalt og í austur Evrópu eins og gert hefur verið eftir innrásina; og einnig til að tryggja sterka stöðu bandalagsins þegar kemur að endurreisn öryggiskerfis í Evrópu. 

Fælingar og hernaðarstefna NATO fær eðli máls samkvæmt aukið vægi í eftirmálum Úkrænustríðsins – þar á meðal í norðurhöfum. Gera má ráð fyrir auknum hernaðarlegum umsvifum bandalagsríkja þar og stærri og tíðari æfingum. Hernaðarleg umsvif af því tagi sem verið hefur undanfarin ár á Keflavíkurflugvelli kunna að aukast. 

En þungamiðja hernaðarlegra viðbragða NATO við innrásinni í Úkrænu verður að líkindum áfram við Eystrasalt og í Austur Evrópu – í ríkjum sem eiga landamæri að Rússlandi. Hernaðarleg umsvif á norðurslóðum hafa ekki aukist af hálfu NATO eftir innrásina í Úkrænu svo neinu nemi líkt og ég benti á og augljóslega ekki verið talin þörf á því vegna innrásarinnar.

Aðalatriði er að áfram gildir sama lykilforsenda og í kalda stríðinu. Forsenda mjög aukinna hernaðarlegra umsvifa á norðurslóðum væri hættutími milli NATO og Rússlands þannig að stefndi í hugsanleg átök þeirra í milli. Þau eru áfram talin afar ólíkleg. Báðir aðilar hafa – eins og ég nefndi – forðast að hrinda af stað slíkri atburðarás.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s