Ísland og umheimurinn 2020-2050 Fjórði hluti: forsendur utanríkismálanna

Eftirfarandi samantekt er gerð í kjölfar greina á undanförnum vikum á vefsíðunni um Ísland og umheiminn 2020-2050, og byggir samantektin að mestu á því sem þar kemur fram. Fyrsta greinin fjallaði um Ísland í nýrri heimsmynd, önnur var um þróun mála á norðurslóðum og áhrif hennar á utanríkismálin og hin þriðja um áhrif loftslagsmála á samskipti Íslands við umheiminn.

Loftslagsmálin geta orðið stærsta utanríkismálið og þá sakir þess að illa gangi að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Til að breyta því þurfa þessi mál að ná miklum pólitískum skriðþunga, eða umbylting að verða í orkubúskap mannkyns. Ekkert er útilokað í þessum efnum, en flest bendir þó enn til að Ísland og mörg önnur ríki eigi þegar fram í sækir eftir að standa frammi fyrir afar krefjandi kostum í samskiptum við umheiminn vegna loftslagsmála. 

Þar á meðal er að íslensk stjórnvöld þurfi að taka afstöðu í viðskiptadeilum, sem eru á uppsiglingu á alþjóðavettvangi vegna þess að loftslagsmál snerta náið samkeppnishæfni ríkja. 

Vegna þess hve hlutfall endurnýjanlegrar orku er hátt á Íslandi eru færri raunhæfir og hagkvæmir kostir þar en í öðrum ríkjum til að minnka losun. Því má gera ráð fyrir að Ísland standi fyrr en þau frammi fyrir erfiðum kostum í loftslagsmálum og samskiptum við önnur ríki.

Einn slíkur verður að ákveða hvort kaupa eigi losunarheimildir fyrir háar fjárhæðir á alþjóðlegum markaði til að reyna að ná settum markmiðum. 

Ennfremur þarf að gera ráð fyrir að á einhverju stigi kunni að þurfa að ákveða hvort halda eigi áfram aðgerðum eða draga úr þeim sakir sívaxandi kostnaðar samfélagsins og lítils árangurs í loftslagsmálum á heimsvísu.

Ísland á í sérstöku samstarfi við önnur EES-ríki í loftslagsmálum, þótt hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi sé margfalt hærra en í þessum samstarfsríkjum. 

Því kann að koma til þess að taka þurfi afstöðu til hvort halda eigi áfram samstarfi við hin EES-ríkin eða hverfa til áherslu á íslenska sérstöðu og vísa til hennar í því skyni að reyna að komast hjá kostnaði og deilum við þessi og jafnvel fleiri ríki.

Heimsmyndin hefur breyst í grundvallaratriðum. Þungamiðja alþjóðakerfisins er ekki lengur á Evró-Atlantshafssvæðinu, heldur á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Evrópa og ESB hafa þannig minnkandi vægi, pólitískt og efnahagslega, en Bandaríkin eru áfram risaveldi og lykilaðili á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. ESB er enn fjarri þeim samruna sem þarf til að styrkja stöðu þess á alþjóðavettvangi og óljóst hvort það tekst en til þess þarf ESB að verða í grunninn sambandsríki.

Ísland er því á jaðri svæðis, Evró-Atlantshafssvæðisins, sem er undirkerfi í alþjóðamálum. Þetta er önnur staða en á 20. öld þegar þungamiðja þeirra lá á Evró-Atlantshafssvæðinu og Ísland tengdist henni náið af geópólitískum og herfræðilegum ástæðum sem hurfu með kalda stríðinu.

Ísland fær ekki aftur þá stöðu varðandi hagsmunagæslu, sem hernaðarlegt mikilvægi landsins veitti á stundum í kalda stríðinu. 

Þegar haldið er fram að mikilvægi Íslands hafi aukist á ný í tengslum við aukin hernaðarumsvif Rússa, einkum kafbátaumferð þeirra, á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, þá þarf að setja það í samhengi við að umsvifin voru engin á Norður-Atlantshafi um margra ára skeið eftir fall Sovétríkjanna. Þótt rússnesk umsvif á svæðinu hafi aukist úr engu eru þau lítil og flest bendir til að svo verði áfram. 

Norðurslóðir skipta strategískt meira máli en Norður-Atlantshaf, en Ísland fær ekki þá hernaðarlegu þýðingu vegna norðurslóða, sem það hafði í kalda stríðinu vegna legu þess á Norður-Atlantshafi. Ísland liggur að segja má mun sunnar en áður vegna herfræðilegra þátta sem snúa að Rússlandsher og landið verður enn sunnar í þessu efni haldi heimsskautsísinn áfram að hörfa. 

Það eru því litlar líkur á að aftur komi til fastrar viðveru Bandaríkjahers á Íslandi á friðartímum.

Bandaríkjaher sækir meira en áður inn á norðurslóðir af herfræðilegum og hertæknilegum ástæðum sem tengjast þróun í Rússlandsher og sakir þess að heimskautsísinn hörfar. Öryggishagsmunir Rússlands og umsvif á svæðinu eru hinsvegar þekkt og breytast ekki í grundvallaratriðum.

Átök milli Rússlands og NATO eru ólíkleg. Ísland á áfram almenna öryggishagsmuni með Bandaríkjunum, sem lúta að friði og stöðugleika í Evrópu. Stefna Bandaríkjahers á norðurslóðum tengist fælingarstefnu NATO gegn Rússlandi á meginlandinu. Ísland hefði hlutverki að gegna kæmi til hernaðaraðgerða af hálfu Bandaríkjanna í norðurhöfum, en það yrði mun veigaminna en áður.

Rússar eru sagðir vera að þróa kjarnorkuknúið tundurskeyti sem bæri kjarnorkusprengju og drægi neðansjávar frá norðurslóðum til árása á austurströnd Bandaríkjanna. Vopnið, sem einnig yrði hjá Rússlandsflota á Kyrrahafi, er talið verða tilbúið innan tíu ára. Hugsanlegt er að viðbrögð Bandaríkjahers leiði meðal annars til áætlana um að reyna að granda slíkum tundurskeytum á leið þeirra suður Atlantshaf í GIUK hliðinu svonefnda milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands. Þótt þetta mál kunni að virðast með ólíkindum er ástæða til að fylgjast með því.

Bandaríkin eru skuldbundin til að verja Ísland og einungis flugher Bandaríkjanna hefur næga burði til að halda uppi loftrýmisgæslu á Íslandi á hættutíma. Varnarsamstarf við Evrópuríki NATO og loftrýmisgæsla sem þau hafa innt af hendi undanfarinn áratug hefur takmarkað gildi hvað varðar beinar varnir landsins.

Á hættutíma mundi loftrýmisgæsla reyndar ekki beinast gegn rússneskum herflugvélum því þær gætu sent stýriflaugar á skotmörk á Íslandi frá stöðum í allt að 3000 kílómetra fjarlægð, og því augljóslega fjarri ratsjám og loftvörnum á landinu. Flugþol rússneskra stýriflauga fer enn vaxandi. Þeim má einnig skjóta frá kafbátum og herskipum langt í norðri frá Íslandi. Varnir gegn stýriflaugum eru torveldar eftir að þær eru sendar af stað til skotmarka. Skásti kosturinn er að grípa til varna tiltölulega nálægt líklegum skotmörkum en jafnvel þá er erfitt að verjast flaugunum sem fljúga undir ratsjárgeislum og gjarnan eftir krókaleiðum.

Auk þess að öryggi Íslands hefur verið tryggara en áður eftir kalda stríðið hefur gengið afar vel efnahagslega þegar litið er á tímabilið í heild. Ísland býr að sterkri stöðu hvað varðar aðgang að mörkuðum, eftirsóttar útflutningsvörur og áhuga ferðamanna á að heimsækja landið. 

Ísland mun (eins og önnur Evró-Atlantshafsríki) horfa í vaxandi mæli á Asíu-Kyrrahafssvæðið í utanríkisviðskiptum til að auka verðmæti útflutningsvara og fá hærra verð fyrir ferðaþjónustu. Hlutdeild þessa svæðis – hinnar nýju þungamiðju heimsins – í íslenskum utanríkisviðskiptum er líkleg til að vaxa verulega. Þar verða einnig aukin tækifæri til að finna nýja samstarfsaðila og fjárfesta þar á meðal á nýsköpunar-  og tæknisviði.

Gera verður ráð fyrir að Ísland þurfi á næstu árum og áratugum að taka afstöðu til ýmissa deilumála sem lúta að harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjanna. Stundum kann niðurstaðan að vera augljós vegna skýrra hagsmuna og grundvallarreglna, í öðrum tilvikum kann að vera möguleiki fyrir Ísland að standa á hliðarlínunni, í enn öðrum leyfir hagsmunamat ef til vill ekki slíkt svigrúm.

Miklu getur skipt að utanríkisviðskiptin verði ekki um of háð Kínamarkaði og að ekki verði síður sótt á aðra vaxandi markaði í Asíu en þann kínverska. Ísland mun þurfa að taka afstöðu til deilumála í harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og það eru meiri líkur en minni á að Ísland standi með Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum fremur en með Kína. Það getur leitt til refsisaðgerða af Kína hálfu gegn Íslandi.

Eiginleg samkeppni Kína og Bandaríkjanna á norðurslóðum er enn ekki til staðar, en samkeppni þeirra á heimsvísu hefur skilað sér þangað. Það hefur þó hingað til aðallega birst í bandarískum yfirlýsingum að því að virðist til að minna Kínverja á að Ísland og Grænland eru á bandarísku áhrifasvæði.

Ef og þegar stefndi ákveðið í að Norður-Íshaf opnaðist vegna bráðnunar mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þess meðal annars birtast með mjög auknum áhuga Kína og Bandaríkjanna á Íslandi, sem og þrýstingi af þeirra hálfu. 

Aukinn áhugi stórveldanna tveggja á norðurslóðum og hugsanlegir miklir framtíðarhagsmunir þeirra þar kunna að veita Íslandi meira svigrúm í utanríkismálum en ella væri. Eftir að samkeppnin næði beinlínis til norðurslóða kynni svigrúmið á einhverju stigi að minnka af því Bandaríkin mundu eftir þörfum reyna að auka þrýsting á Ísland.

Líkur á að norðurslóðir yrðu áfram “lágspennusvæði”, sem er markmið íslenskra stjórnvalda, færu auðvitað minnkandi ef stórveldasamkeppni yxi á svæðinu.

Jaðarstaða Íslands í alþjóðakerfinu breytist augljóslega nái hlýnun Jarðar af mannavöldum því stigi að Norður-Íshaf opnist yfir pólinnn og bein tenging verði þar um norðurslóðir milli Evró-Atlantshafs og þungamiðju alþjóðakerfisins á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Þar yrði svonefnd norðurskautsleið.

Hugsanlegt er, en ekki víst, að Ísland gæti eftir nokkra áratugi orðið mikilvægur staður fyrir umskipun og aðra þjónustu við siglingar á norðurskautsleiðinni.

Leave a comment