Ísland og umheimurinn 2020-2050 Annar hluti: Á norðurslóðum

Ágrip: Öryggismál á meginlandi Evrópu leiddu til þess að um fimmtíu ára skeið á 20. öld tengdist Ísland náið þungamiðju alþjóðakerfisins á Evró-Atlantshafssvæði heimsins. Það stafaði af legu landsins á Norður-Atlantshafi í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu, sem gaf Íslandi hernaðarlega þýðingu, einkum fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.  

Allt aðrir þættir koma til sögu þegar reynt er að leggja mat á stöðu Íslands fram á miðja þessa öld. Þeir eru bráðnun hafíss á Norður-Íshafi vegna loftslagsbreytinga og samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu. Ennfremur er ekki um að ræða að þróun mála hefði aðallega hernaðarlegar afleiðingar fyrir Ísland eins og áður heldur hefði hún einnig efnahagslega möguleika í för með sér vegna siglinga og fiskveiða á norðurslóðum. 

Vaxandi siglingar með norðurströnd Rússlands eins og nú eiga sér stað í kjölfar bráðnunar heimsskautsíssins breyta ekki stöðu Íslands í neinum aðalatriðum. Öðru máli gegndi yrði fært um Norður-Íshaf. Þá mundi Ísland tengjast um norðurslóðir við þungamiðju alþjóðakerfisins sem liggur nú á Asíu-Kyrrahafssvæðinu

Spár gera ráð fyrir að Norður-Íshaf opnist, að einhverju marki að minnsta kosti, um og upp úr 2050. Stefndi í slíkar grundvallarbreytingar á heimsmyndinni mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þeirra á norðurslóðum að líkindum hefjast á næstu 10-20 árum og litast af samkeppni Kína og Bandaríkjanna. Kínaher skortir enn flest sem þarf til að standa undir verulegum hernaðarumsvifum þar, sem að sumu leyti að minnsta kosti krefðist aðstöðu hjá Rússum. Ekki væri víst að hún stæði til boða. Meginforsendur hagvaxtar í Rússlandi liggja í náttúruauðlindum á norðurslóðum og því hugsanlegt að Rússum yrði í mun að stuðla að stöðugleika fremur en aukinni hervæðingu. 

Öryggishagsmunir og stefna Rússa á norðurslóðum eru í aðalatriðum þekkt og það á einnig við hagsmuni Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi á svæðinu. Þó er í gangi hertækniþróun sem mun gera Rússum í vaxandi mæli kleift að ná með stýriflaugum til skotmarka í Evrópu og Norður Ameríku frá flugvélum og kafbátum langt inni á norðurslóðum; þróun sem dregur úr tilteknum veikleikum Rússlandshers. Hún mun líklega leiða til aukinna hernaðarumsvifa á svæðinu af hálfu Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja, en stefna þeirra þar er í grunninn óbreytt.

Markmið íslenskra stjórnvalda er að norðurslóðir verði áfram “lágspennusvæði”. Hinsvegar þarf að gera ráð fyrir að á næstu árum og áratugum gæti þar vaxandi stórveldaspennu og hernaðarumsvifa, þar á meðal á vegum nýs aðila – Kína. Ennfremur má búast við að þessari þróun allri fylgdi þrýstingur á utanríkismál Íslands og að auknar líkur yrðu á fjölþátta ógnum, en þær fela í sér íhlutun og undirróður af ýmsu tagi.

Ísland fengi hins vegar ekki sama hernaðarlegt mikilvægi vegna norðurslóða og það hafði fyrir Bandaríkin í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu vegna legu landsins á Norður-Atlantshafi. Ólíklegt virðist að aftur kæmi til fastrar viðveru Bandaríkjahers á Íslandi. 

Því lengra sem hafísinn hörfar þeim mun sunnar verður Ísland í hernaðarlegu tilliti. Langdrægari stýriflaugar munu einnig mikil áhrif í þessu efni. Þá getur Bandaríkjaher brugðist við hernaðarlegri þróun á norðurslóðum  annarsstaðar en á Íslandi. Hann á þess kost í nyrstu héruðum Kanada í samstarfi við kanadíska herinn, í Thule-herstöðinni á norður Grænlandi og frá herstöðvum í eigin landi í Alaska.

Efnisyfirlit: Ef Norður-Íshaf opnast – Nýjar siglingaleiðir – Fiskveiðar – Hervæðing – Staða Íslands

Ef Norður-Íshaf opnast
Yrði útlit fyrir að bráðnun hafíss næði svo langt að Norður-Íshaf opnaðist milli Norður-Atlantshafs og Norður-Kyrrahafs væri heimsmyndin að breytast með miklum efnahagslegum og strategískum afleiðingum. Þótt líklega séu minnst 30-40 ár í það mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi slíkra grundvallarbreytinga hefjast mörgum árum áður. Hann er reyndar hafinn, eins og fjallað var um í fyrsta hluta greinarinnar, en að mjög takmörkuðu leyti. Kína og Bandaríkin hafa þó sýnt norðurslóðum aukinn pólitískan áhuga og Bandaríkjaher hefur mótað sérstaka stefnu varðandi norðurslóðir. Þá hafa kínverskir hernaðarsérfræðingar bent á að norðurslóðir geti haft strategíska þýðingu fyrir kínverska herinn.

Nýjar siglingaleiðir 
Bráðnun hafíss hefur þegar leitt til þess að norðurleiðin svonefnda (Northern Sea Route), siglingaleið úti fyrir norðurströnd Rússlands, er fær milli Atlantshafs og Kyrrahafs síðsumars og fram eftir hausti. Flutningar á norðurleiðinni hafa vaxið hratt vegna olíu- og gasvinnslu í norður Rússlandi, sem á eftir að aukast enn frekar. Þessu fylgja stórauknar siglingar frá stöðum á norðurströndinni og ýmist í vestur eða austur um norðurleiðina eftir árstíma og þörfum – oft með stuðningi ísbrjóta. Heildarflutningar námu um 30 milljónum tonna á árinu 2020. Þar af var jarðgas í vökvaformi um 20 milljónir tonna, afgangurinn var mest olía en einnig eiga sér stað flutningar á málmum og kolum. Fyrirætlan er uppi um mikla aukningu á kolaflutningum frá nýjum námum á svæðinu. 

Kaupendur á olíu og gasi eru í Evrópu og Asíu. Kínverjar eru stórir kaupendur ásamt Japönum og Kínverjar eru einnig stórir fjárfestar í vinnslunni. Enn fer þó mest af afurðunum til Evrópu og þannig verður ef til vill áfram því Kínverjar kaupa mikið af gasi frá Mið-Asíuríkjum og geta aukið þau kaup. Indverjar munu verða stærstu kolakaupendurnir. Rússnesk stjórnvöld spá því að 2035 fari samtals 160 milljónir tonna frá stöðum á norðurströndinni, þar af verði 80 prósent jarðgas í vökvaformi. 

Flutningar eftir norðurleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs eru hins vegar enn mjög litlir samanborið við flutningana frá stöðum við leiðina. Megnið af siglingum eftir allri norðurleiðinni  – nú nokkrir tugir skipa á ári – er ríkisrekið, aðallega á vegum rússneskra stjórnvalda. Þau spá því að 2 milljónir tonna fari milli heimshafanna um norðurleiðina á árinu 2030 en síðan verði mikil aukning upp í 10 milljónir tonna 2035. Það er þó smáræði samanborið við flutninga um leiðina sem liggur um Súez skurð, sem nema um þúsund milljón tonnum á ári; og tæp fimm hundruð milljón tonn fara um Panama skurðinn. 

Þótt norðurleiðin yrði fær miklu stærri hluta úr ári en nú er, og jafnvel allt árið, kæmi hún að takmörkuðu gagni hvað varðar möguleika á stórfelldum skipaflutningum milli heimshafanna tveggja. Það stafar af því að vegna grunnsævis hentar hún ekki fyrir risatankskip eða risagámaflutningaskip. Sama á við norðvesturleiðina við Kanada og Alaska en flutningar á henni eru enn mjög litlir.

Gámaflutningar eru ólíkir þeim flutningum sem eiga sér stað frá höfnum á norðurleiðinni, sem eru flutningar á olíu, gasi, kolum og málmum. Í þannig flutningum er yfirleitt allur farmurinn í eigu eins viðskiptavinar og siglt frá einni höfn til annarrar. Siglingatími er sveigjanlegur að einhverju marki og stundvísi upp á dag ekki aðalatriði. 

Á hinn bóginn eru forsendur hagkvæmra gámaflutninga milli heimshafa að þeir fari fram með sem mestri stærðarhagkvæmni, en einnig eftir nákvæmum áætlunum um afhendingu til margra viðskiptavina. Svo að hagkvæmir gámaflutningar gætu hafist milli Atlantshafs og Kyrrahafs þyrfti Norður-Íshaf að opnast en þar væri nægilegt dýpi fyrir risaskip. Þessi leið væri einnig á alþjóðlegu hafsvæði og siglingar um hana ekki háðar leyfi Rússa eins og á norðurleiðinni.

Þar með hefði komið til sögu stysta siglingaleiðin milli Asíu og Evrópu, svonefnd norðurskautsleið (Transpolar Sea Route). Hafa ber í huga að þó talið sé hugsanlegt að hún opnist um miðja öldina þá er óljóst hve stóran hluta úr ári það væri. Einnig er afar líklegt að rekís, óstöðugt veðurfar og aðrar umhverfisaðstæður mundu torvelda umferð þótt segja mætti að leiðin hefði opnast. Slíkt drægi auðvitað úr hagkvæmni og gæti jafnvel komið í veg fyrir stórfellda flutninga á norðurskautsleiðinni fram eftir öldinni.

Fiskveiðar
Miðbik Norður-Íshafs er alþjóðlegt hafsvæði álíka að flatarmáli og Miðjarðarhaf. Úthaf þetta hefur að mestu verið lokað fyrir fiskveiðum og rannsóknum af augljósum ástæðum og því lítið vitað um veiðimöguleika. Frá 2015 hefur verið undirbúið að koma á milliríkjasamstarfi til að forða því að stjórnlausar veiðar hefjist á úthafssvæðinu hörfi hafísinn enn frekar en orðið er.  Aðilar eru strandríkin á norðurslóðum – Bandaríkin, Danmörk, Ísland, Kanada, Noregur og Rússland – auk þátttöku Japans, Suður-Kóreu, Kína og ESB. Samningur frá 2018 bannar veiðar á svæðinu í að minnsta kosti 16 ár frá gildistöku meðan rannsóknir á því fari fram. Jafnframt er stefnt að því að koma á sameiginlegri rannsóknaáætlun og stofna samtök um fiskveiðistjórnun. 

Hér eru mál vitanlega á frumstigi og óvíst hvort og þá hve miklar sjálfbærar fiskveiðar eru mögulegar á alþjóðlega svæðinu.

Aukin hervæðing
Bandaríska varnarmálaráðuneytið og deildir Bandaríkjahers hafa á síðustu árum mótað stefnu um norðurslóðir. Hún er fremur almennt orðuð og í henni er horft til næstu áratuga (the decades ahead). Meðal annars kemur fram í stefnunni að litið sé á norðurslóðir sem mögulegan vettvang fyrir vaxandi stórveldasamkeppni og yfirgangssemi (“potential avenue for expanded great power competition and aggression”). Einnig er bent á að auk þess að norðurslóðir hafi áfram mikla þýðingu fyrir varnir Norður-Ameríku tengi þær Kyrrahaf og Atlantshaf. Tryggja þurfi að aðgang að norðurslóðum svo þaðan megi styðja við Bandaríkjaher eftir þörfum á þessum lykilsvæðum.

Einnig segir að takmarka þurfi möguleika Kína og Rússlands til að nýta norðurslóðir til að styðja við strategísk markmið þeirra, þar á meðal með því að hefta frelsi Bandaríkjanna til siglinga og flugs á norðurslóðum Þá séu áfram líkur á að krísur eða átök í öðrum heimshlutum nái til norðurslóða og leiði til átaka þar. Loks er litið svo á að norðurslóðir hafi aukna beina þýðingu fyrir varnir Bandaríkjanna. Yfirmaður loftvarna Norður-Ameríku bendir á að norðurslóðir feli í vaxandi mæli í sér mögulega leið fyrir andstæðinga Bandaríkjanna til árása á Norður-Ameríku. 

Þótt bandarísk stjórnvöld – þing, ráðuneyti, og herinn – horfi mun meira en áður til norðurslóða er stefnan þeirra vegna enn þess eðlis að fjárveitingar tengdar henni eru hlutfallslega mjög litlar; enda enn ekki vitað hve langt eða hve hratt heimskautsísinn kann að hörfa. 

Athafnasemi Bandaríkjahers á norðurslóðum – einkum flughers og flota – hefur aukist á undanförnum árum. Umsvifin eru þó lítil hvað varðar ferðir herskipa og þær hafa að mestu átt sér stað á Noregshafi norðanverðu og á Barentshafssvæðinu. Skiljanlega er ekki vitað náið um ferðir kafbáta. Þó liggur fyrir að bandarískir kafbátar hafa á undanförum árum haft oftar viðkomu í norður-Noregi en áður til að fá þjónustu og vegna áhafnaskipta. Langdrægum sprengju- og stýriflaugaþotum Bandaríkjahers hefur á undanförnum árum verið stefnt á norðurslóðir meðal annars langt inn á Barentshaf.  Loks eru bandarískar kafbátaleitarflugvélar og njósnaflugvélar nokkuð tíðir gestir yfir Barentshafi og norðanverðu Noregshafi. 

Bandaríkjaher er vanbúinn til þess að halda úti skipum á norðurslóðum nema þegar greiðfært er takmarkaðan tíma úr ári. Það vantar ísbrjóta svo breyta megi þessu en einnig vantar herskip styrkt til siglinga í hafís. Áætlun um smíði 6 ísbrjóta hefur nú verið hrint í framkvæmd og stefnt að því að hinn fyrsti þeirra verði afhentur 2024. Engar áætlanir liggja fyrir um smíði styrktra herskipa, enda ekki tímabært að áliti sjóhersins. Auk ísbrjóta og sérútbúinna herskipa skortir hafnir eða aðstöðu í höfnum til að styðja við umsvif flotans á norðurslóðum. Það virðast því allmörg ár í að bandarísk  herskip verði í auknum mæli á svæðinu nema þá takmarkaðan hluta úr ári.

Kínverjar líta greinilega á norðurslóðir sem mikilvægan heimshluta. Þeir hafa aukið umsvif sín þar en einkum á stöðum á norðurströnd Rússlands vegna olíu- og gasvinnslu þar sem þeir eru fjárfestar og kaupendur eins og fyrr sagði. Þeir taka þátt í starfi Norðurskautsráðsins sem áheyrnaraðilar og hafa mótað og birt sérstaka norðurslóðastefnu. Ennfremur hafa þeir unnið að því að fá norðurslóðaríki til þátttöku í Belti og braut-áætluninni, sem þá er kölluð Silkileið norðursins (Polar Silkroad), og um var fjallað í fyrsta hluta greinarinnar. Loks eru Kínverjar þátttakendur í samstarfi um rannsóknir á fiskistofnum í Norður-Íshafi og þeir hafa löngum stundað ýmsar vísindarannsóknir á svæðinu.

Kínverjar eiga tvo ísbrjóta sem báðir hafa siglt á norðurslóðum á undanförnum árum og áætlanir eru í gangi um að smíða fleiri og stærri slík skip. Vísindarannsóknir, svo sem á hafsbotninum vegna áhuga á auðlindum, geta gagnast hugsanlegri hernaðarlegri starfsemi. Í norðurslóðastefnu Kína frá 2018 er ekki talað um hernaðarhagsmuni á svæðinu og ekki er kunnugt um kínversk hernaðarleg umsvif þar. Enn virðist nokkuð í að kínverski flotinn verði almennt að úthafsflota en hann er á leið til þess. Þá er viðbúið að Kyrrahafssvæðið hafi forgang fram yfir norðurslóðir þegar kemur að flotaumsvifum. Kínversk herskip sjást því varla í einhverjum mæli á norðurslóðum fyrr en eftir allmörg ár. Kínverskir hernaðarsérfræðingar horfa þó þegar til þess að með hlýnun Jarðar fengju norðurslóðir þýðingu fyrir kínverska flotann eftir því sem hafísinn hörfaði. Þar mætti halda Bandaríkjunum uppteknum við að bregðast við athafnasemi kínverska flotans og um leið veikja þau á öðrum svæðum.

Kínaher er að byrja að taka í notkun kjarnorkuknúna kafbáta sem bera langdrægar eldflaugar með kjarnaodda.  Kínverskir herforingjar hafa bent á að með því að halda slíkum kafbátum úti í Norður-Íshafinu megi auka öryggi kjarnorkuhersins og efla fælingarmátt hans. Að því kann að koma að áliti bandarískra hernaðaryfirvalda að kínverjar haldi úti eldflaugakafbátum á Norður-Íshafi. Það mundi vafalítið kalla á önnur kínversk hernaðarumsvif með kafbátum, flugvélum og herskipum til að fylgjast með herjum annarra og koma í veg fyrir hugsanlega ógn við öryggi kínversku eldflaugakafbátanna.

Kínverjar eiga enn ekki nógu marga eldflaugakafbáta til að geta stöðugt haldið úti einhverjum bátum í Norður-Íshafi. Einnig munu þeir eiga mikið verk óunnið við að gera kafbáta almennt hljóðlátari en þeir eru nú, sem er lykilatriði varðandi öryggi bátanna.  Því er óvíst hvenær Kínverjar gætu átt þess kost að halda úti eldflaugkafbátum á svæðinu en líklegt að allmörg ár séu í það. Sá kostur mundi vissulega auka öryggi og fælingarmátt kjarnorkuhersins. Öryggið ykist mest ef hægt væri að halda kafbátum undir hafís. Hyrfi hann mundi Norður-Íshaf eftir sem áður gefa möguleika umfram aðra staði til að ná til skotmarka í Norður Ameríku og Evrópu.

Af þessum sökum öllum virðist ekki yfirvofandi að mjög aukin hernaðarumsvif verði á hafinu á norðurslóðum á vegum Kína og Bandaríkjanna. Umferð bandarískra herflugvéla og kafbáta gæti aukist mun fyrr. Bandaríski flugherinn á margar langdrægar flugvélar og þessháttar kjarnorkuknúna kafbáta sem vitað er að sigla reglulega á norðurslóðir og hafa gert um áratuga skeið. Þá er næsta víst að samskonar breskir og franskir kjarnorkukafbátar sigli reglulega á norðurslóðir. Kínverjar vinna að því að fjölga langdrægum kjarnorkukafbátum en hafa ekki sent þá til norðurslóða svo vitað sé.

Kínverjar eiga herskip sem gætu birst á þessum áratug á úti fyrir norðurströnd Rússlands, þar sem liggur fyrrnefnd norðurleið. Það yrði þó væntanlega í litlum mæli og þá auðvitað með leyfi Rússa því leiðin liggur um rússneska lögsögu. Rússnesk stjórnvöld gera þá kröfu – sem er umdeild – að sækja verði um leyfi til þeirra fyrir hverskyns siglingum í efnahagslögsögu Rússlands á norðurleiðinni.

Hernaðarlegir hagsmunir Rússa á norðurslóðum eru þekktir – líkt og kom fram í fyrsta hluta greinarinnar og fjallað hefur verið um í öðrum fyrri greinum á vefsíðunni(sjá t.d. 29. janúar 2020, “Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum?” og 2. apríl 2019, “Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland”.). Þessir rússnesku hagsmunir breytast ekki í grundvallaratriðum né heldur starfsemi Rússlandshers á svæðinu. Hryggjarstykki í kjarnorkuher Rússa er í eldflaugakafbátum Norðurflotans, sem er aðallega haldið úti í Barentshafi. Meginhlutverk Norðurflotans er annars vegar að tryggja öryggi þessara kafbáta og hins vegar verja Rússland gegn árásum úr lofti frá hafinu (með stýriflaugum sem skotið væri úr flugvélum, herskipum og kafbátum Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja). Rússar hafa eflt hernaðargetu sína á norðurslóðum, aðallega loftvarnir og varnir gegn herskipum, sem miðar að því að gera andstæðingum dýrt að sækja í stríði að Rússlandi (kallað A2/AD – Anti Access/Area Defense). Þar á meðal er ný gerð eldflauga gegn flugvélamóðurskipum sem skotið er frá flugvélum og draga 2000 kílómetra að talið er. 

Norðurfloti Rússlands er að taka í notkun langdrægar stýriflaugar sem draga allt að 2500 kílómetra og gera skipum og kafbátum kleift að ná til skotmarka í norðanverðri Evrópu frá heimahöfum – Barentshafi og Hvíta hafi. Rússneskar sprengjuþotur bera þegar stýriflaugar sem draga 2500-3500 kílómetra. Enn langdrægari gerðir rússneskra stýriflauga munu vera í þróun og verða í herskipum, kafbátum og flugvélum. Flugþol verður allt að 5000 kílómetrar, jafnvel lengra segja sumar heimildir, sem gerir kleift að ná til skotmarka víðsvegar í Evrópu frá heimahöfum Norðurflotans og til staða í Bandaríkjunum frá Norður-Íshafi. 

Langdrægar stýriflaugar draga úr þeim veikleikum Rússlandshers sem lúta að því að hann á miklu færri langdrægar flugvélar en sovéski forverinn og sama á við kafbáta sem bera stýriflaugar. Langdrægari flaugar en áður mæta þessum veikleika; koma í veg fyrir að hætta þurfi dýrmætum flugvélum og kafbátum of nálægt loft- og kafbátavörnum NATO ríkjanna. Líklegt er að þau bregðist við með því að búa sig undir að geta athafnað sig í átökum lengra í norðri en áður, eins og fyrr hefur verið fjallað um á vefsíðunni(28. maí 2020, “Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands” og 29. janúar 2020, “Er aukin samkeppni stórvelda á norðurslóðum?”).

Líkur eru á að enn frekari opnun norðurslóða vegna hlýnunar Jarðar mundi leiða til stórveldasamkeppni þar og aukinnar hervæðingar. Þó er hugsanlegt að mál þróuðust með öðrum hætti. 

Hernaðarlegur viðbúnaður Rússa á norðurslóðum á sér að nokkru leyti skýringar í því feiknastóra haf- og landsvæði og miklu fjárhagslegu hagsmunum sem þeir eiga þar. Víst er að þarna má finna mikið af olíu og jarðgasi, að minnsta kosti 15 prósent af olíulindum Rússlands að talið er og 40 prósent af gaslindum þess. Þá er svæðið ríkt af málmum og kolum. Norðurleiðin hefur því augljóst mikilvægi og öryggi hennar sömuleiðis. Loks eru auðug fiskimið í rússneskri lögsögu og hugsanlegir möguleikar, líkt og nefnt var að framan,  á veiðum á Norður-Íshafi í kjölfar þess að hafísinn hörfi frekar en orðið er. Norðurslóðir gegna því lykilhlutverki hvað varðar framtíðarhorfur í Rússlandi. 

Því má ætla að Rússar hafi hag af því að stöðugleiki og lágspenna ríki á norðurslóðum. Jafnframt er ljóst að kínversk herskip fara ekki um norðurleiðina úti fyrir Rússlandsströnd án leyfis þarlendra stjórnvalda. Kínversk herskip á alþjóðlegu svæði á Norður-Íshafi þyrftu væntanlega aðstöðu í rússneskum höfnum, þótt langdrægir kafbátar gætu augljóslega verið undantekning. Kínverjar eiga enn ekki herflugvélar sem gætu athafnað sig á norðurslóðum án þess að þurfa að reiða sig á rússneska flugvelli, en það á væntanlega eftir að breytast með frekari þróun langdrægra kínverskra herflugvéla sem taka eldsneyti á lofti.

Verði samskipti NATO og Rússlands áfram stirð og efnahagslegum refsiaðgerðum viðhaldið gegn Rússum aukast líkur á að þeir halli sér nær Kínverjum en þegar er orðið. Það mundi auðvelda kínversk hernaðarumsvif á norðurlslóðum. Hins vegar kann að koma að því að Bandaríkin leggi kapp á vegna samkeppninnar við Kína að bæta samskiptin við Rússa og reka fleyg milli þeirra og Kínverja.

Þá yrði bæði Kína og Bandaríkjunum væntanlega í mun að siglingar á norðurskautsleiðinni færu þegar þar að kæmi fram við tryggar aðstæður. Þótt þeir hagsmunir kæmu ekki í veg fyrir aukna hervæðingu kynnu þeir að setja henni mörk, kalla á lágmarskssamvinnu og draga þannig úr spennu á norðurslóðum. 

Staða Íslands
Horft hefur verið til þess möguleika að Ísland verði umskipunarstaður fyrir siglingar á norðurslóðum; nánar tiltekið að stórskipahöfn verði gerð í þeim tilgangi við Finnafjörð á Norðausturlandi. Það er hugsanlegt en ekki fyrr en eftir einhverja áratugi.

Þótt flutningar ykjust enn frekar á norðurleiðinni úti fyrir norðurströnd Rússlands virðist afar ólíklegt að Ísland yrði umskipunarstaður á henni. Það stafar af því að áfram yrði hagkvæmast að umskipa alfarið í norðvestur Rússlandi, ef til vill einnig í norður Noregi, í stað þess að sigla að þarflausu mun lengri leið til Íslands. 

Yrði hinsvegar norðurskautsleiðin um Norður-Íshaf fær mundi gegna öðru máli og gæti Ísland ef til vill komið til greina sem umskipunarstaður vegna áframflutninga (transshipment) til margra staða bæði í Evrópu og Ameríku. Þá yrðu einnig flutningar til Íslands frá Evrópu og Ameríku og umskipað þar í skip á leið til Asíu eftir norðurskautsleiðinni. 

Allt yrði þetta þó auðvitað háð fjárhagslegum og viðskiptalegum forsendum og ekki víst að þörf yrði almennt fyrir umskipunarhafnir eða, ef svo væri, að hagkvæmast yrði að hafa viðkomu í höfn á Íslandi. Staðir í Norðanverðum Noregi og á Svalbarða kæmu einnig til greina. 

Hvað sem þessum þáttum öllum líður er langt í – nokkrir áratugir hið minnsta sem fyrr sagði – að stórfelldar siglingar hefjist á norðurskautsleiðinni og að Ísland verði hugsanlega umskipunarstaður á henni. 

Hins vegar má ætla að í aðdraganda þess að Norður-Íshaf opnaðist mundi Ísland finna fyrir vaxandi áhuga og umsvifum af hálfu Bandaríkjanna og Kína á norðurslóðum. Hernaðarleg umsvif Bandaríkjanna á norðurslóðum mundu vaxa hratt; einkum þó ef vart yrði kínverskra hernaðarumsvifa jafnvel þótt lítil væru á því stigi. Ísland og Grænland eru á áhrifasvæði Bandaríkjanna eins og fjallað var um í fyrsta hluta þessarar greinar um Ísland og umheiminn 2020-2050, framvarnir Norður-Ameríku eru á norðurslóðum og loks eiga Bandaríkin mikið land á svæðinu þar sem er Alaska.

Hið augljósa er að opnun Norður-Íshafs mundi hafa áhrif á öryggishagsmuni Bandaríkjanna og auka mjög mikilvægi norðurslóða í þjóðaröryggisstefnunni. Á 20. öld lá þungamiðja alþjóðakerfisins á Evró-Atlantshafssvæðinu og Ísland tengdist henni náið vegna legu landsins á Norður-Atlantshafi sem gaf því mikla hernaðarlega þýðingu. Þegar kemur að norðurslóðum og hugsanlegu strategísku mikilvægi þeirra í framtíðinni birtist önnur mynd.

Ísland fengi ekki sömu hernaðarlega þýðingu vegna norðurslóða og það hafði í kalda stríðinu
Fái norðurslóðir stóran sess í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á næstu áratugum hefði það væntanlega í för með sér að Norður Atlantshaf og nágrenni Íslands fengi almennt vægi í stefnunni. Hún felur hinsvegar í sér breyttar forsendur varðandi þetta svæði frá því sem var í kalda stríðinu (Ítarlega umfjöllun hlutverk landsins þá má finna í grein frá 4.mars 2018, “Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma”). GIUK-hliðið (Greenland-Iceland-United Kingdom Gap) svonefnda (hafsvæðin milli Grænlands og Íslands, Íslands og Færeyja og Færeyja og Skotlands), sem hafði lykilþýðingu í kalda stríðinu nær nú einnig til Noregs og verður í bandarísku skýrslunum um norðurslóðir að “GIUK-N” hliði. Litið er svo á að það eigi eftir að verða “strategískur gangur” (strategic corridor) milli Norðurskautssvæðisins og Norður-Atlantshafs. Ekki er útskýrt hvaða hlutverki slíkur gangur mundi gegna umfram hið augljósa. Hann er svæði allt frá Grænlandi til Noregs og á honum liggur leið frá Norður-Atlantshafi norður í Barentshaf og Norður-Íshaf og jafnframt frá norðurhöfum suður á Atlantshaf. 

Ekki er útilokað að Rússar geri ráð fyrir að senda kafbáta á hættutíma eða í stríði um GIUK-hliðið og út á Atlantshaf til að ná til skotmarka í Norður-Ameríku og sunnanverðri Evrópu. Á móti kemur að rússneski Norðurflotinn ræður yfir einungis örfáum nýjum kafbátum sem gætu hugsanlega komist klakklaust út á Atlantshaf á hættutíma eða í stríði. Jafnframt er forgangsverkefni þessara dýrmætu kafbáta að sinna áðurnefndu meginhlutverki sem er að gæta kjarnorkuherstyrks Rússlands í elflaugakafbátum í Barentshafi. Af þessum sökum má ætla að fremur litlar líkur séu á að reynt yrði að senda þá út á Atlantshaf á hættutíma eða í stríði; og lítil umferð rússneskra kafbáta þangað styður þá ályktun (sjá grein á vefsíðunni 2. apríl 2019, “Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland”). Enn langdrægari stýriflaugar en eru nú í rússneskum kafbátum valda því þegar fram í sækir að það væri alger óþarfi að taka mikla áhættu með því að reyna að koma kafbátum út á Atlantshaf.

Sérfræðingar hafa bent á annað “hlið” en GIUK-hliðið og þá milli norðaustur Grænlands, Svalbarða og norður Noregs. Svonefnt Fram sund milli Grænlands og Svalbarða gæti fengið sérstaka þýðingu eftir því sem hernaðarlegt mikilvægi Norður-Íshafs ykist. Ennfremur þarf að hafa í huga að Beringssund milli Síberíu og Alaska er afar mikilvægur strategískur staður sem tengir Norður-Íshaf við Kyrrahaf. Beringssund skiptir augljósu og vaxandi máli fyrir Bandaríkjamenn og Rússa, en hefur jafnframt greinilega vaxandi þýðingu fyrir Kínverja og aðgang þeirra að norðurslóðum. 

Þá geta Bandaríkin brugðist við hernaðarlegri þróun á norðurslóðum annarsstaðar en á Íslandi. Í Alaska eru stórar flughersstöðvar, sem hafa verið efldar undanfarið. Til að skýra það er vísað til þess að tiltölulega stutt flugleið er frá þessum stöðvum til strategískra staða í Asíu og Rússlandi og ennfremur út yfir Norður-Íshaf. Þá hafa Bandaríkin herstöð langt í norðri í Thule á Grænlandi vegna viðvörunarkerfa gegn eldflaugaárásum (Ballistic Missile Early Warning System). Í Thule er flugvöllur og höfn. Loks hafa Bandaríkin sameiginlega herstjórn og varnir með Kanada þegar kemur að loftvörnum Norður-Ameríku. Það samstarf hefur varað í marga áratugi og snýst einkum um varnir gegn ógn úr norðri og nú með fyrrnefndri áherslu á langdrægar stýriflaugar. Þær fela í sér nýja áskorun sem trauðla verður mætt frá Íslandi því þær mætti senda á skotmörk frá Norður-Íshafi.

Erfitt er að verjast stýriflaugum af því þær fljúga undir ratsjám og eftir krókaleiðum ef þarf. Besti möguleikinn lýtur að því að granda flugvélum, skipum og kafbátum sem bera stýriflaugar áður en þær eru sendar af stað. Eftir það eru varnir mjög torveldar. Þessari áskorun er stundum líkt við það að reyna að granda ör eftir að bogmaður skýtur henni. Skásti möguleikinn væri að reyna varnir tiltölulega nálægt skotmörkum flauganna en jafnvel þá er erfitt að verjast.

Til að mæta ógn frá langdrægum stýriflaugum á norðurslóðum þyrfti að ná til skipa, kafbáta og flugvéla inni á Norður-Íshafi – og langt frá Íslandi. Það er því ólíklegt að slík ógn mundi leiða til beiðni um fasta aðstöðu fyrir bandaríska flugherinn á Íslandi til að mæta henni – hvort heldur rússneskri ógn á næstu árum eða kínverskri í fjarlægari framtíð. 

Hins vegar mun koma til skoðunar í tengslum við fyrrnefnda endurnýjun loftvarnakerfisins Norður-Ameríku að flytja loftvarnasveitir mun norðar en þær eru nú staðsettar, nánar tiltekið til Thule, og jafnvel enn norðar til Ellesmere eyjar, nyrsta hluta Kanada. Þar er nú eftirlits- (SIGINT – Signals Intelligence) og fjarskiptastöð á vegum kanadíska hersins. Af því geislar ratsjárstöðva ná auðvitað takmarkaða vegalengd út á Norður-Íshaf mun í skoðun hvernig einnig megi nota gervihnetti til að finna flugvélar á svæðinu. 

Eftir því sem áhersla Bandaríkjahers á norðurslóðir eykst, vex jafnframt þörf flotans fyrir hafnir á svæðinu. Hve mikil hún yrði og hvar henni yrði mætt er óljóst á þessu stigi enda tímaramminn “næstu áratugir” eins og flotinn bendir á og fyrr var nefnt. Um leið segir að innviðir eins og hafnir yrðu nauðsynlegir vegna fjarlægða og til að stytta siglingatíma. 

Bandaríkjafloti virðist þegar hafa augastað á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi fyrir hafnaraðstöððu, sem er ótilgreind en virðist ekki eiga að verða mikil. Hér má nefna að gerður hefur verið að frumkvæði færeyskra stjórnvalda (nóvember 2020) samstarfssamningur milli Færeyja og Bandaríkjanna. Við Thule herstöðina á norður Grænlandi er höfn og Bandaríkjaher á einnig möguleika í Alaska á enn auknum viðbúnaði og innviðum vegna hugsanlegra aukinna umsvifa. 

Flest bendir því til að Ísland fengi ekki sama vægi í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna vegna norðurslóða og það hafði vegna heimsstyrjaldarinnar og kalda stríðsins. Þótt ekki kæmi ekki til fastrar viðveru Bandaríkjahers á Íslandi mundi landið væntanlega tengjast áhuga hans á norðurslóðum, en ekki er ljóst hvernig það gæti orðið. Hinsvegar er næsta víst að áhugi Bandaríkjanna – og Kína – á Íslandi mundi aukast almennt, jafnvel í því skyni að koma í veg fyrir að keppinauturinn næði einhverskonar fótfestu eða ítökum á landinu. Bandaríkin yrðu af augljósum ástæðum sérstaklega á varðbergi að þessu leyti gagnvart Íslandi og Grænlandi, enda um nágranna að ræða, og mikilvægi Grænlands og herstöðvarinnar í Thule fyrir Bandaríkin augljóst.

Þótt Ísland skipti ekki sama máli og áður fyrir þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna er rík tilhneiging til þess almennt í stórveldasamkeppni að líta svo á að ávinningur keppinautarins, hversu lítill sem hann kann að sýnast, hljóti að skaða mann sjálfan og veikja í samkeppninni (svonefnt zero-sum einkenni). Jafnframt er sóst eftir hylli og stuðningi ríkja, stórra sem smárra, til að styrkja eigin stöðu og loks reynt að grafa undan keppinautnum. Með yfirlýsingum Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra, í Íslandsheimsóknunum 2019 (sjá fyrsta hluta greinarinnar) var með dæmigerðum hætti stórvelda verið að senda Kínverjum merki; skilaboð um að Ísland væri á áhrifasvæði Bandaríkjanna og Kína ekki velkomið.

Ein afleiðing aukinnar stórveldasamkeppni á norðurslóðum yrði á einhverju stigi að þær væru ekki lengur “lágspennusvæði” sem er stefna Íslands og allra aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Jafnframt verður að gera ráð fyrir að í aðdraganda þess að Norður-Íshaf opnaðist ykjust mjög líkur á aukinni hervæðingu og stórveldaspennu. Í kjölfarið mætti búast við fjölþátta ógnum við fullveldi og öryggi Íslendinga; það er áróðri, undirróðri og jafnvel netárásum.

Miklar breytingar á stöðu Íslands eru hugsanlegar vegna norðurslóða – en til lengri tíma litið.  Til skemmri tíma litið er hugsanlegt að alþjóðapólitísk óvissa í loftslagsmálum og erfiðir valkostir í því efni verði fyrirferðarmest í íslenskum utanríkismálum. Um þann möguleika verður fjallað í þriðja hluta greinarinnar um Ísland og umheiminn 2020-2050.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s