Öryggi og varnir Íslands – og stríðið í Úkrænu 

Eins og vænta mátti standa lykilforsendur, sem varða hernaðarlegt öryggi Íslands, áfram óbreyttar eftir innrásina í Úkrænu. Hún boðar ekki tímamót í íslenskum öryggismálum líkt og fjallað var um hér á vefsíðunni í mars síðastliðnum, skömmu eftir innrásina. 

Ísland hefur strategíska hernaðarlega þýðingu, aðallega á norðurslóðum en þær tengjast náið fælingar- og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi, loftvörnum Norður-Ameríku og Rússlands og kjarnavopnajafnvæginu milli Bandaríkjanna og Rússlands. 

Hernaðarógn steðjar ekki að Íslandi af völdum Úkrænustríðsins nema það leiði til þess að stefni í annað stríð, það er milli NATO og Rússlands. 

Meginspurning varðandi hernaðarlegt öryggi Íslands og Úkrænustríðið er því hvort það kunni að stigmagnast í átök NATO og Rússlands. 

Stutta svarið er að það sé ekki útilokað en virðist almennt talið ólíklegt. 

Úkrænustríðið hefur veikt Rússland verulega í hernaðarlegu tilliti. Ekki sér fyrir endann á því en þegar er útlit fyrir að það taki mörg ár að byggja upp rússneska herinn á ný eftir manntjón og hergagnatjón, sem hann hefur orðið fyrir í Úkrænu, sem og að laga marga alvarlega veikleika sem hrjá hann og stríðið hefur afhjúpað. 

Þá á eftir að reyna á að hve miklu leyti efnahagur Rússlands getur staðið undir nauðsynlegum endurbótum og endurnýjun hersins. Efnahagslegar refsiaðgerðir Vesturlanda gegn Rússlandi munu hafa alvarleg áhrif á efnahaginn en einnig verulegar afleiðingar fyrir hergagnaframleiðsluna. Þar á meðal er bann við sölu hátæknibúnaðar til Rússa, sem er hergagnaframleiðslunni nauðsynlegur. Stríðið veldur því auðvitað einnig að það gengur mjög á vopnabúrið. Þar á meðal eru birgðir hátæknivopna eins og langdrægra stýriflauga og útlit fyrir að mörg ár taki að endurnýja þær birgðir að fullu. 

Þessar afleiðingar Úkrænustríðsins fyrir rússneska herinn hafa áhrif á öryggi og varnir Íslands og annarra NATO ríkja. Svo lengi sem afleiðingarnar vara minnkar hætta á hugsanlegri rússneskri árás á NATO-ríki. Þar með dregur mjög úr hættu á átökum milli bandalagsins og Rússlands á meginlandi Evrópu, sem mundu ná til norðurslóða og til Íslands.

Stríðið virðist þegar þetta er skrifað stefna í áframhaldandi og jafnvel langvinn átök í Úkrænu. Úkrænski herinn á góða möguleika að sækja áfram inn á hertekin svæði, en hve hratt og hve langt og hvernig Rússar bregðast við – allt á það eftir að skýrast.

Innrásin í Úkrænu hefur leitt til aukinna hernaðarlegra umsvifa af hálfu NATO í nágrannaríkjum Rússlands á meginlandi Evrópu. Þetta eru varúðarráðstafanir gerðar til að undirstrika skulbindingar bandalagsins í garð þessara ríkja og styrkja fælingarstefnu þess gegn hugsanlegri árás á þau. 

Úkrænustríðið hefur hins vegar ekki leitt til aukinna hernaðarumsvifa á Norður-Atlantshafi eða á norðurslóðum – hvorki af hálfu NATO né Rússlands.

Ef hið ólíklega gerðist og stefndi í átök milli NATO og Rússlands yrði öryggi Íslands komið undir fælingarstefnu NATO og Bandaríkjanna, varnarsamningi Íslands við Bandaríkin og framkvæmd varnaráætlunar Bandaríkjahers fyrir landið. 

Úkrænustríðið hefur ekki haft neinar afleiðingar sem veikja þessar undirstöður íslenskra öryggis- og varnarmála. 

Grundvallaratriði sem varða öryggi og hervarnir Íslands

Fyrsta grundvallaratriðið er að Ísland hefur sem fyrr strategíska hernaðarþýðingu og hlutverk. Úkrænustríðið er takmarkað og staðbundið – ekki strategískt.  Hernaðarlega tengist Ísland stöðum á norðurslóðum – aðallega í “hánorðri” (high north), sem eru mikilvægir fyrir fælingarstefnu NATO gegn hugsanlegri árás frá Rússlandi á bandalagsríki á meginlandi Evrópu og fyrir kjarnorkujafnvægið milli Bandaríkjanna og Rússlands. Ennfremur hefur svæðið lykilþýðingu fyrir loftvarnir bæði Norður Ameríku og Rússlands. 

Starfsemi bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli lýtur að langmestu leyti að tímabundinni viðveru Boeing P-8 kafbátleitar- og eftirlitsflugvéla þar og flugi þeirra þaðan í margskonar tilgangi. Þessi starfsemi hefur augljóslega ekki áhrif á möguleika rússneska hersins í Úkrænu. Stríðið þar getur því ekki leitt til aðgerða af hálfu Rússa gegn landinu. 

Öðru máli gegndi ef stefndi í átök milli NATO og Rússlands. Það er enn sem komið er talið ólíklegt en styrjöld af því tagi mundi óhjákvæmilega ná til norðurslóða og Íslands, sem fengi hernaðarlegt hlutverk í átökunum.

Annað grundvallaratriðið sem varðar öryggi og varnir Íslandslýtur því að þeirri spurningu hvort Úkrænustríðið kunni að leiða til átaka milli NATO og Rússlands. Það er ekki útilokað en virðist almennt talið ólíklegt.

Bandalagið hefur gert ráðstafanir með auknum hernaðarlegum viðbúnaði í nokkrum nágrannaríkjum Rússlands í Austur-Evrópu. Það er til að undirstrika skuldbindingar í þeirra garð og styrkja fælingu, en felur ekki í sér beinan undirbúning varna gegn rússneskri innrás. Enda á rússneskur liðssafnaður sér ekki stað nálægt þessum ríkjum. Þá er vafamál að rússneski herinn hafi, í ljósi ófara hans og tjóns í Úkrænu, burði til að ráðast á NATO-ríki hvað þá að takast í kjölfarið á við bandalagið í styrjöld.

Í júní virtist ljóst – að áliti yfirmanns breska hersins – að Rússum hefði þegar mistekist í Úkrænu og Rússland veikst sem stórveldi. Nýlega var haft eftir embættismönnum í breska landvarnarráðuneytinu að rússneskar hersveitir, sem voru einar þær öflugustu í rússneska hernum og ætlaðar gegn NATO herjum kæmi til styrjaldar við bandalagið, hefðu orðið fyrir svo miklu tjóni í Úkrænu að líklega tæki mörg ár að bæta það og byggja þessar sveitir upp á ný. 

Það mun því taka langan tíma að bæta heildartjónið sem herinn hefur þegar orðið fyrir í Úkrænustríðinu og endurbyggja hann svo um muni – að því gefnu að versnandi efnahagur Rússlands standi undir því og refsiaðgerðir vesturlanda gegn Rússum á hátæknisviði dragi ekki úr möguleikum til að byggja herinn upp á ný. Líkur er á að aðgerðirnar muni einmitt gera það. Þá endurspegla hrakfarir og rússneska hersins í Úkrænu og veikleikar hans meðal annars og ekki síst veikleika í stjórnarfarinu, stjórnkerfinu, hagkerfinu og hergagnaframleiðslunni – þar á meðal mikla og alþekkta spillingu á öllum sviðum.

Þótt ástæða sé til að efast um að Rússar hefðu burði til að stigmagna átökin með því að ráðast inn í NATO-ríki, ættu þeir þann hernaðarlega kost að gera flugskeytaárásir á staði í NATO-ríkjum, einkum Póllandi, til að freista þess að hefta vopnaflutninga til Úkrænu. Áhætta Rússa af slíkum árásum væri mikil því NATO mundi líta á þær sem árás á bandalagið. 

Þá horfa sumir til þess að Rússar kynnu að nota efnavopn, en þó einkum “taktísk” – þ.e. “lítil” – kjarnorkuvopn, gegn úkrænska hernum teldu þeir sig tapa stríðinu að öðrum kosti. Markmiðið væri að koma í veg fyrir það, ná hernaðarlegum ávinningi sem og að brjóta baráttuvilja Úkrænumanna. 

Svo afdrifaríka stigmögnun er auðvitað ekki unnt að útiloka, en á móti kemur að kjarnavopn þjóna trauðla eða alls ekki hernaðarlegum eða pólitískum markmiðum. Notkun kjarnavopna felur í reynd ekki í sér stigmögnun – heldur þáttaskil – og kjarnavopn eru almennt talin hafa fyrst og síðast fælingargildi til að tryggja svonefnda tilvistarhagsmuni (existential interest). 

Þá gæti notkun efnavopna eða kjarnavopna hæglega bitnað á rússneskum hersveitum í nágrenninu og geislavirkt úrfelli náð inn í Rússland sjálft. Notkun kjarnavopna í Úkrænu mundi stórskaða stöðu Rússlands í heiminum og samskipti þess við önnur ríki. Þar á meðal væru Kína og Indland, sem hafa mikla og mjög vaxandi pólitíska og efnahagslega þýðingu fyrir Rússland eftir innrásina í Úkrænu.

Rússar eiga aðra möguleika í Úkrænu en að hefja styrjöld við NATO – “þriðju heimsstyrjöldina” eins og sagt er – og hætta þar með á kjarnorkuátök við Bandaríkin. Þar á meðal er að kalla út meira herlið og herða róðurinn í stríðinu. Einnig að setja rússneska herinn í Úkrænu í varnarstöðu til að fá tíma til að endurskipuleggja hann og undirbúa fyrir sóknaraðgerðir. Jafnframt eiga þeir þess kost að auka enn árásir á innviði og á bæi og borgir. Við bætist að loka alveg fyrir gasútflutning til Evrópuríkja til að reyna að grafa undan einingu NATO og stuðningi við Úrkænu. Það eitt mundi þó ekki veikja Úkrænuher því langmest af þeim vopnum sem hann hefur fengið að utan hafa komið frá Bandaríkjunum.

Það er gjarnan sagt að öll stríð taki enda og það muni Úkrænustríðið óhjákvæmilega gera. Það er klisja að öll stríð taki enda – auðvitað gera þau það – en mörg vara árum saman og hugsanlegt að það geti orðið raunin í Úkrænu. Aðalatriði er að hvorki Rússar né Úkrænumenn virðast nú í stöðu til að fallast á vopnahlé og friðarsamninga. 

Samningsstaða Rússa er veik í ljósi árangurs Úkrænuhers við Kyiv í vor, við Kherson að undanförnu og þó einkum nú síðast í Kharkiv héraði. Þessir ósigrar hljóta að þrýsta á áframhaldandi hernað til að freista þess að ná styrkja stöðuna. Ennfremur á Rússlandsstjórn eftir að sýna heima fyrir fram á árangur sem réttlæti innrásina og fórnir rússneska hersins og rússnesks samfélags.

Her Úkrænu hefur staðið sig miklu betur en flestir töldu mögulegt og fær mörg öflug og hátæknivædd vopn frá NATO ríkjum. Úkrænuher á hins vegar mikið verk óunnið ef ætlunin er að hrekja Rússa úr landinu og það mundi að líkindum kosta miklar fórnir. Úkrænumenn hafa tapað um fimmtungi af landi sínu og um þriðjungi af framleiðslugetunni og efnahagur landsins er afar bágur. Samningsstaða þeirra er veik nema þeim takist að ná verulegum hernaðarlegum ávinningi til viðbótar því sem þegar hefur áunnist. Allt bendir til að þeir ætli sér það og til þess hafa þeir augljóslega áræði, sjálfstraust og hæfni. Þeim hefur vaxið mjög ásmegin í hernaðarlegum efnum, náð að fjölga í hernum og þjálfa nýliða, og mega eiga von á áframhaldandi vopnasendingum utan frá. 

Fáir sérfræðingar hafa reynst spámannlega vaxnir varðandi þróun stríðsins og haft rangt fyrir sér bæði um frammistöðu Úkrænuhers og burði rússneska hersins. Þegar hann stefndi að höfuðborginni Kyiv á fyrstu stigum innrásarinnar höfðu Bandaríkjamenn ekki meiri trú á Úkrænuher en svo að þeir buðu fram aðstoð til að forða Zelensky, Úkrænuforseta, úr borginni undan sókn Rússa. 

Þótt áfram megi ekki útiloka að Úkrænustríðið magnist í átök milli NATO og Rússlands, sérstaklega ef Rússar teldu að þeir væru að tapa og stigmögnuðu til að reyna að hindra það, benda líkur til að stríðið stefni í langvinn átök. Það gæti staðið í að minnsta kosti mánuði eða misseri og þá í austur og suðurhluta landsins. Það er þó sagt með þeim mikilvæga fyrirvara að þegar þetta er ritað hefur frammistaða úkrænska hersins enn einu sinni komið á óvart og rússneski herinn enn einu sinni farið hrakför – nú .eins og fyrr var nefnt, í Kharkiv-héraði í norðaustri auk þess að eiga undir högg að sækja við Kherson í suðvestri.

Norðurslóðir og Úkrænustríðið: Á þeim rúmu sex mánuðum sem liðnir eru frá innrásinni 24. febrúar hafa ekki sést aukin hernaðarleg umsvif á norðurslóðum – hvorki af hálfu Rússa né NATO. Strax var ljóst að umsvif á norðurslóðum væru ekki að aukast eftir innrásina líkt og kom fram á vefsíðunni síðastliðið vor. Eins og ítrekað hefur verið útskýrt þar er fremur auðvelt að afla upplýsinga um ferðir herskipa og herflugvéla – þar á meðal á alnetinu. Einnig má draga ályktanir – meðal annars af upplýsingum á netinu – um ferðir kafbáta og þannig að ekki sé líklegt að skeiki miklu hvað fjölda kafbátaferða varðar.

Yfirmaður norska hersins hefur sagt að hernaðarleg umsvif Rússa á norðurslóðum hafi verið “óvenju lítil” í kjölfar innrásarinnar í Úkrænu (“Chief of Defence to HNN: Russian Military Activity is Unusually Low in the High North”, Highnorth News, 19. ágúst 2022.). Hann hefur jafnframt bent á að mikil fækkun í landherliði Rússa á Kolaskaga og við landamæri Finnlands vegna liðsflutninga frá þessum stöðum til Úkrænu bendi til að Rússar telji stöðugleika ríkja á norðurslóðum. 

Þá hefur komið fram af hálfu norskra stjórnvalda að innrásin í Úkrænu hafi leitt til aukinnar árvekni við norður Noreg og ákvarðana um aukin framlög til landvarna, en einnig að  norsk stjórnvöld líti ekki svo á að aukin hernaðarógn steðji að Noregi í kjölfar innrásarinnar. 

Að það séu fremur lítil hernaðarleg umsvif á norðurslóðum nú er í takti við það sem verið hefur undanfarin ár og allar götur eftir kalda stríðið. Rússneski Norðurflotinn er áfram miklu minni en sovéski forverinn, er í aðalatriðum ekki úthafsfloti og kemur lítið út á Atlantshaf. Þegar það gerist eru skip hans og kafbátar gjarnan á leið til eða frá Eystrasalti en þó aðallega til eða frá Miðjarðarhafi vegna íhlutunar Rússa undanfarin 7 ár í borgarastyrjöldina í Sýrlandi. 

Norðurflotinn er jafnframt búinn langdrægum stýrflaugum, sem nota mætti til árása frá heimahöfum á skotmörk á landi á meginlandi Evrópu. Hann þarf því ekki að koma út á Atlantshaf til þeirra hluta. Hann býr og yfir mun langdrægari vopnum en áður gegn herskipum. 

Í júlí síðastliðinn var birt uppfærð flotastefna Rússlands sem setur Atlantshaf í þriðja sæti í forgangsröð á eftir norðurslóðum og Kyrrahafi.

NATO ríki hafa ekki aukið umsvif eða viðbúnað á Norður-Atlantshafi eða norðurslóðum í neinum verulegum mæli eftir innrásina í Úkrænu. Hins vegar er viðbúið að athafnasemi þeirra í norðri aukist eitthvað á næstu misserum og árum til að undirstrika mikilvægi norðurslóða fyrir bandalagið og styrkja fælingarstefnu þess gegn Rússlandi. Það yrði framhald á fyrri þróun því umsvif af hálfu NATO-ríkja á svæðinu höfðu aukist fyrir Úkrænustríðið í kjölfar versnandi samskipta eftir hernám Krímar 2014 og íhlutun Rússa í átök í Donbass héraði í austur-Úkrænu. Innrásin mun líklega herða á þeirri þróun.

Ætlun er að bandaríska flugvélamóðurskipið Gerald R. Ford haldi ásamt fylgdarskipum út á Norður Atlantshaf í október og æfi þar með sjóherjum NATO-ríkja. Þetta mun reyndar hafa verið ákveðið fyrir innrásina í Úkrænu. 

Þá má nefna að í ágúst síðastliðinn kom bandarískur kjarnorkuknúinn kafbátur til Færeyja. Hann lá á Nólseyjarsundi við Þórshöfn og færeyskir ráðherrar og þingmenn voru boðnir um borð. Tilgangur með komu kafbátsins til Færeyja var áhafnaskipti en heimsóknin var einnig að sögn Bandaríkjaflota til þess gerð að sýna mátt hans á hafinu og getu til að standa við varnarskuldbindingar. Um svipað leyti og í sama tilgangi kom bandarískur kafbátur til flotastöðvar við Souda flóa á grísku eyjunni Krít, bandarískt þyrlumóðurskip var á Eystrasalti og tvö flugvélamóðurskip voru samtímis á Miðjarðarhafi (U.S. Naval Forces Europe-Africa/Sixth Fleet, 25. ágúst 2022 – https://nitter.nl/USNavyEurope/status/1562819286548500480#m

Þá má benda á að innrásin í Úkrænu hefur þau einu beinu áhrif við Ísland og það á hverjum degi að farþegaþotur á leið til og frá Japan til áfangastaða í Evrópu fljúga nú yfir Norður-Íshaf í stað Síberíu og margar þeirra nálægt Íslandi eða yfir það. Ástæða þessa er að rússnesk stjórnvöld brugðust við refsiaðgerðum Vesturlanda vegna innrásarinnar með því meðal annars að banna flugfélögum ríkja sem að aðgerðunum standa að fljúga yfir Rússland á leið til og frá Asíu. Sú flugleið opnaðist eftir kalda stríðið, en áður var flogið yfir Norður-Íshafið eins og nú er gert á ný. 

Annað grundvallaratriðið varðandi öryggi og varnir Íslands lýtur að fælingarstefnu NATO og möguleikum hennar til að halda aftur af Rússum almennt en sérstaklega á alvarlegum hættutíma í aðdraganda hugsanlegs stríðs milli Rússlands og NATO. Bandaríkin og NATO hafa alla burði til að halda aftur af Rússlandi ef nauðsyn krefur. Fælingarstefnan er með öðrum orðum almennt trúverðug þótt átök gætu auðvitað brotist út þrátt fyrir það vegna mistaka og misreiknings.

Þótt vitanlega megi ekki draga of víðtækar ályktanir af tölulegum þáttum og forsendum þegar gerður er samanburður á herstyrk þá er NATO miklu öflugra en Rússland mælt á efnahagslegum og hernaðarlegum mælikvörðum. Þá hefur innrásin í Úkrænu, enn sem komið er að minnsta kosti, eflt mjög einingu í NATO og leitt til þess að auki að bandalagið stækkar og styrkist svo um munar með aðild Finnlands og Svíþjóðar. Aðild þeirra mun efla bandalagið hernaðarlega á norðurslóðum og á Eystrasaltssvæðinu.

Og nú bætist við afar slök frammistaða rússneska hersins í Úkrænustríðin og alvarlegir veikleikar hans, sem það hefur leitt í ljós í landher, flugher og flota.

Tilraun hersins á fyrstu stigum til að umkringja eða hertaka höfuðborgina Kyiv varð að hrakför. Eftir það var áhersla lögð á sókn í austurhlutanum, að leggja undir herinn Donbass svæðið þar sem aðskilnaðarsinnar af rússnesku bergi höfðu náð undirtökum í boragarstríði, sem staðið hafði frá 2014 með rússneskri íhlutun, og fengið viðurkenningu Rússlandsstjórnar. Sókn rússneska hersins í Donbass, gengur ýmist hægt eða ekki, sem fyrr sagði, og nú hefur rússneski herinn hrakist frá Kharkiv héraði, sem veikir stöðu rússneska hersins í Donbass.

Ef stefndi í hið ólíklega – stríð milli NATO og Rússlands – kæmi að þriðja grundvallaratriðinu varðandi varnir Íslands. Það er varnarsamningurinn við Bandaríkin en honum fylgir varnaráætlun Bandaríkjahers vegna Íslands.

Úkrænustríðið hefur ekki með neinum hætti veikt þessar undirstöður.

Þótt lega Íslands skipti ekki sama máli fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna og í kalda stríðinu – eða í síðari heimsstyrjöld – hefur hún áfram þýðingu. Bandaríkin eru háð Íslandi vegna þjóðaröryggis eins og þau hafa verið frá 1941 þegar Bandaríkjaher kom fyrst til landsins í síðari heimsstyrjöld, þótt sumar mikilvægar forsendur hafi breyst eða horfið. Rússnesk herskip, kafbátar og langdrægar sprengjuflugvélar geta ógnað Bandaríkjunum frá norðurslóðum með langdrægum stýriflaugum. 

Því leikur svo gott sem enginn vafi á að Bandaríkjaher mundi koma til Íslands á hættutíma og um hernaðarlega burði Bandaríkjanna til að annast varnirnar þarf ekki að fjölyrða. Skuldbindingar Bandaríkjanna í varnarsamningnum hafa því mikið og ótvírætt varnar- og fælingargildi. Það skiptir auðvitað máli í sjálfu sér en einnig af því það er engum öðrum til að dreifa. Önnur ríki NATO hefðu langt í frá burði til að tryggja varnir Íslands, eða sömu hagsmuni af því og Bandaríkin.

Þótt landið hafi minni hernaðarþýðingu en áður, af því hernaðarleg þungamiðja í okkar heimshluta hefur færst miklu norðar undanfarin ár, hefði Keflavíkurflugvöllur áfram hlutverki að gegna á hættutíma eða í stríði. Það sést af starfsemi Bandaríkjahers á landinu – þó hún feli í sér tímabundna viðveru – og af framkvæmdum hersins á Íslandi. Þótt þær séu smávægilegar á hernaðarlegum mælikvörðum lúta þær að því að tryggja umtalsverð afnot af Keflavíkurflugvelli á hættutíma eða stríði. Hlutverk Íslands lyti aðallega að stuðningi flugvéla frá Keflavíkurflugvelli við hernaðaraðgerðir á norðurslóðum. Hafnir á landinu kynnu og að hafa þýðingu. 

Stuðningur frá Íslandi við hernaðaraðgerðir á norðurslóðum mundi einkum byggja á kafbátaleitar- og eftirlitsflugvélum og eldsneytisflugvélum. Þá virðist hugsanlegt að langdrægar bandarískar sprengjuþotur kynnu að nota Keflavíkurflugvöll, meðal annars vegna hernaðar á norðurslóðum. 

Fjórða grundvallaratriðið varðandi öryggi og varnir Íslands er að líklegasta hernaðarógnin gegn landinu yrði árás með langdrægum stýriflaugum á Keflavíkurflugvöll frá herskipum, kafbátum eða flugvélum í allt að 3 þúsund kílómetra fjarlægð norður af landinu.

Varnir gegn stýriflaugum eru því lykilatriði í hervörnum Íslands.

Rússnesk herskip, kafbátar og sprengjuflugvélar þyrftu ekki að koma í námunda við landið til að ráðast á skotmörk þar. Það væri óþarfi sakir þess hve langdrægar flaugarnar eru og jafnframt mjög áhættusamt vegna fjarlægðar frá Rússlandi, öflugra eftirlits- og njósnakerfa Bandaríkjanna, og vegna varna á Íslandi og í Noregi. 

Erfitt er að verjast stýriflaugum eftir að þær eru sendar af stað af því þær fljúga undir ratsjám og eftir krókaleiðum ef þarf. Þessari áskorun er stundum líkt við það að reyna að granda ör eftir að bogmaður skýtur henni. Skásti möguleikinn væri að reyna varnir nálægt Íslandi eða einstökum skotmörkum eins og Keflavíkurflugvelli en jafnvel þá er erfitt að verjast. AWACS-ratsjárþotur væru nauðsynlegar til að eiga möguleika gegn stýriflaugum sem nálguðust landið en ratsjárstöðvarnar á landshornunum fjórum hefðu takmarkað gildi. Ratsjár AWACS-þotna sjá miklu lengra en landratsjár og þær fyrrnefndu sjá að auki niður á yfirborð jarðar og hafa jafnframt öflugan búnað til að greina stýrflaugar frá umhverfinu. 

Einnig er mikilvægt að geta grandað herskipum, kafbátum og flugvélum á norðurslóðum áður en stýriflaugar þeirra legðu af stað í átt að landinu. Því mundu P-8 flugvélar og eldsneytisflugvélar á Keflavíkurflugvelli – og sprengjuþotur, væri þeim til að dreifa – einnig skipta miklu máli. P-8 vélarnar og hugsanlegar sprengjuþotur mundu sækja langt í norður frá landinu gegn herskipum, kafbátum, stöðvum Norðurflotans og flugvöllum langdrægra rússneskra sprengjuþota. P-8 flugvélar eru búnar vopnum gegn bæði herskipum og kafbátum og sama á við sumar langdrægar sprengjuþotur af gerðinnni B-52 og B-1. Flestar langdrægar sprengjuflugvélar bandaríska flughersins eru búnar stýriflaugum til árása á skotmörk á landi, þar á meðal auðvitað hafnir og flugvelli. 

Líklegasta rússneska vopnið gegn Íslandi yrðu sem fyrr sagði langdrægar stýriflaugar. Líkur eru taldar á að birgðir þeirra fari mjög þverrandi vegna Úkrænustríðsins. Þá hefur framleiðsla rússneskra stýriflauga verið hæg að talið er enda um flókin og dýr tæki að ræða. Hver flaug af nýjustu gerðinni, sem er kölluð Kalibr, er talin kosta um sex og hálfa milljón dollara, eða jafnvirði um 900 milljóna króna. Mikið af íhlutum (components) rússneskra stýriflauga hefur komið frá Vesturlöndum. Það á einkum við nauðsynlegan rafeinda- og hátæknibúnað af ýmsu tagi. Þótt finna megi leiðir fram hjá efnahagslegum refsiaðgerðum, sem banna sölu slíkra íhluta til Rússlands, er líklegt að aðgerðirnar valdi því engu að síður að framleiðsla rússneskra stýriflauga verði hægari en ella. Einnig má búast við að gripið verði til ráðstafana til að reyna að loka eða að minnsta kosti fækka leiðum fram hjá refsiaðgerðunum.

Að lokum má hugsa sér að öryggi Íslands gæti stafað hætta frá skemmdarverkum sérsveita rússneska hersins. Möguleikar þeirra á landinu hljóta þó að teljast hverfandi sakir þess hve erfitt yrði á hættutíma að koma mannskap og nauðsynlegum búnaði á land á fjarlægu Íslandi án þess að Bandaríkjaher, sem væri í viðbragðsstöðu, tæki eftir því.  Þannig má næstum útiloka að það tækist úr lofti eða frá skipi eða kafbáti og vandséð með hvaða öðrum hætti það væri gerlegt. Auðvitað er ekki hægt að útiloka að skemmdarverkamenn kæmu til landsins með farþegaskipi eða í farþegaflugi og þá auðvitað áður en stefndi í átök. Hvað þeir gætu gert sem um munaði í stríði er hins vegar erfitt að átta sig á. Þá er það að koma í veg fyrir skemmdarverkahættu á friðartímum viðfangsefni lögreglu og landamæragæslu, en ekki herliðs.

Hvað sem því líður gerir Bandaríkjaher ráð fyrir að helstu innviðir varna og öryggis á landinu yrðu varðir, þar á meðal og einkum Keflavíkurflugvöllur. Til Íslands kæmi lið til þessara hluta auk þess að flugsveitum sem hingað kæmu fylgdi sjálfkrafa öryggisgæslulið. En einhver veruleg ógn við varnir Íslands mundi afar ólíklega stafa frá liði á landi heldur frá fyrrnefndum langdrægum stýriflaugum. Loks má minna á að eftir 1960 voru engar landherssveitir í varnarliðinu. Þær voru kallaðar frá Íslandi vegna þess auðvitað að ekki var lengur talin þörf á fastri viðveru slíkra sveita.

Nethernaður er ekki viðfangsefni þessarar greinar en hann virðist hafa skipt litlu máli fyrir gang Úkrænustríðsins, sem í öllum aðalatriðum er háð með “gamaldags” aðferðum. Rússar munu hafa gert tilraunir til nethernaðar en augljóslega ekki tekist með þeim að hvorki skaða úkrænska herinn né heldur innviði eins og orkuver, fjarskipti og upplýsingakerfi. Áhöld virðast um hvort Rússar hafi reynt nethernað að þessu leyti. 

Samkvæmt þessu kann nethernaður að vera ógn við öryggi Íslands en Úkrænustríðið virðist ekki hafa sýnt fram á það. 

Í þessari grein hefur eingöngu verið horft til hernaðarlegs öryggis. Fleira hefur auðvitað þýðingu. Átök, óvissa og óstöðugleiki í Evrópu hefur augljós áhrif á almennt öryggi og efnahagslega velferð Íslendinga. Þá eru grundvallarreglur um fullveldi og sjálfstæði ríkja meðal þess sem er í húfi í Úkrænu.

Heimildir

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s