Íslensk öryggismál ekki á neinum tímamótum vegna stríðsins í Úkrænu

Lítil sem engin hernaðarleg umsvif á Keflavíkurflugvelli eftir að Úkrænustríðið hófst 

Að svo komnu hefur lítið sem ekkert herflug átt sér stað um Keflavíkurflugvöll frá upphafi Úkrænustríðsins. Auðvelt er að fylgjast í aðalatriðum með hernaðarlegum umsvifum á flugvellinum eins og ítrekað og nákvæmlega hefur verið útskýrt og upplýst á vefsíðunni. Þá er sem fyrr byggt meðal annars á aðgengilegum upplýsingum á netinu um ferðir herflugvéla í heiminum.

Það kemur ekki á óvart að lítil sem engin umsvif hafi verið á Keflavíkurflugvelli vegna styrjaldarinnar í Úkrænu. Ástæða þess er að engir stórfelldir herflutningar eru hafnir hennar vegna frá Bandaríkjunum til Evrópu og virðast ekki í bígerð enda ætla Bandaríkin ekki að hafa hernaðarleg afskipti af stríðinu. Enn síður eru Bandaríkin og NATO að undirbúa hernaðaraðgerðir í norðurhöfum gegn Rússlandi en flugvélar frá Keflavíkurflugvelli mundu styðja við slíkar aðgerðir. Þó ekki í þeim mæli sem hefði orðið ef kalda stríðið hefði breyst í heitt stríð.

Eftir að Úkrænustríðið hófst hefur þunginn í starfsemi bandarískra kafbátaleitar- og eftirlitsflugvéla af því tagi sem hafa haft tímabundna viðveru á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár verið skiljanlega annarsstaðar en í námunda við Ísland. Næst Íslandi hefur slíkra bandarískra flugvéla orðið vart að undanörnu yfir Norðursjó en þær hafa ekki komið þangað frá Keflavíkurflugvelli heldur frá bækistöð breska flughersins í Lossiemouth í Skotlandi. Sú breyting varð á að kvöldi 6. mars að þá hélt bandarísk P-8 kafbátaleitar og eftirlitsflugvél frá Keflavíkurflugvelli í fyrsta sinn á þessar slóðir eftir að stríðið hófst. Hver tilgangurinn er með flugi yfir Norðursjó er ekki vitað en margt kemur til geina, þar á meðal æfingar og þjálfun.

Umsvif á Keflavíkurflugvelli munu væntanlega aukast á næstunni vegna svonefndrar Cold Response heræfingar í Noregi sem nú er í undirbúningi en hefst um miðjan mars. Þá á að æfa varnir Noregs gegn rússneska hernum og er megináherslan sem fyrr á öryggi norður Noregs. Í byrjun síðustu viku áðu á Keflavíkurflugvelli nokkrar orrustuþotur bandaríska landgönguliðsins af Harrier gerð, sem voru á leið til Noregs til þátttöku í æfingunni.

Hins vegar er það svo að stór hluti landherssveita og landgönguliðssveita Norðurflotans rússneska var fluttur fyrir innrásina í Úkrænu frá norðvestur Rússlandi til landamæranna við Úkrænu og til Svartahafs. Það segir sögu um forgangsröðun Rússa að þessu leyti á norðurslóðum samanborið við aðra staði, og jafnframt að ekki hafi verið uppi væntingar í Rússlandsstjórn um að átökin í Úkrænu breiddust út. 

Ekki til staðar hernaðarleg ógn við Ísland …með einni undantekningu

Vegna Úrænustríðsins hafa dúkkað upp skoðanir um að þess vegna þurfi að hyggja að nýju að hernaðarlegu öryggi Íslands. Umræða um öryggismál er af hinu góða en þarf að byggja á réttum forsendum. Þá kann hún að valda fólki óþörfu áhyggjum með tali um ógn við Ísland í tengslum við innrásina í Úrkænu og harmleikinn þar.

Ísland er augljóslega ekki nágrannaland Rússlands og íslensk öryggismál eru ekki á neinum tímamótum vegna Úkrænustríðsins. Bandaríkjaher er ekki þess vegna eða af öðrum ástæðum á leið til að hafa fast aðsetur á Keflavíkurflugvelli. 

Enda steðjar engin hernaðarleg ógn að Íslandi.

Nema að einu leyti. 

Það yrði í þriðju heimsstyrjöldinni.

Hún er hins vegar og sem betur fer ekki í uppsiglingu vegna Úkrænustríðsins enda standa Úkrænumenn einir hernaðarlega gegn Rússum, eins og kunnugt er, og gera áfram af því Bandaríkin og NATO ætla ekki að verja Úkrænu. Það er skiljanlegt í ljósi áhættunnar sem því fylgdi. 

Í ólíklegri þriðju heimsstyrjöld mætti hins vegar gera ráð fyrir að Keflavíkurflugvöllur yrði skotmark rússneskra stýriflauga sem skotið yrði af stað langt frá landinu – líklega í 3000-5000 kílómetra fjarlægð. 

Til varnar flugvellinum gegn stýriflaugunum yrðu væntanlega bandarískar orrustuþotur og AWACS ratsjárþotur. Þær síðarnefndu mundu skipta miklu máli því ratsjárstöðvarnar á landinu hefðu takmarkað gildi gegn lágfleygum stýriflaugum, jafnvel enga þýðingu gegn þeim.

Því má bæta við að nánast engin rússnesk hernaðarumsvif í námunda við landið á árinu 2021 og lítil árin á undan –  og afar lítil samanborið við það sem var í kalda stríðinu. 

Til að fræðast frekar um þessi atriði bendi ég áhugasömum lesendum á að um þau hefur verið fjallað í greinum á vefsíðunni – síðast 27. janúar 2022.

One thought on “Íslensk öryggismál ekki á neinum tímamótum vegna stríðsins í Úkrænu

  1. Haukur Ólafsson

    Það er gleðiefni, Albert, að lesa svo skynsamlega og vel rökstudda afstöðu, þó í örstuttu máli sé, sem þú setur fram í dag 7. mars 2022 og vonandi verður hún krufin með athygli bæði á Rauðarárstíg og við Lækjargötu!

    Haukur Ólafsson

    Like

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s