Alþjóðakerfið, loftslagsmál og öryggismál

Mér var boðið að taka þátt í pallborði á ráðstefnu þjóðaröryggisráðs um alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi sem haldin var í Hörpu í gær. Ég talaði um loftslagsmál og öryggismál og hafði þetta að segja:

Ég ætla að verja þeim nauma tíma sem ég hef í að ræða í ofurknöppu máli tengsl alþjóðakerfisins við annarsvegar loftslagsmál og hinsvegar við öryggismál.

Ég hef haldið fram að loftslagsmál gætu orðið vandasamasta utanríkismál Íslands – vegna deilna við önnur ríki og af því um háar fjárhæðir yrði tefla.

Kenning mín byggir að töluverðu leyti á sérstöðu Íslands en loftslagsbreytingar eru og verða átakamál í heiminum af því ekki síst að leiðin sem fara á til að draga úr breytingunum er í grunninn að minnka mikið notkun á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi. Um 80 prósent af orkunotkun í heiminum byggir á jarðefnaeldsneyti og það er lykill að bættum lífskjörum í fjölmennum ríkjum eins og Indlandi og Kína.

Alþjóðakerfið getur ekki að óbreyttu skipt kostnaðinum af því að minnka svo eldsneytisnotkunina að máli skipti og þannig að sátt yrði um.

Alþjóðakerfið er milliríkjakerfi. Það er næstum 400 ára gamalt en er í fullu fjöri. Alls ekki á útleið. Það hvílir í grunninn á andstöðu við yfirríkjavald og varðstöðu um fulllveldið.

Að fást við loftslagsmálin kallar hins vegar á yfirríkjavald og snertir með róttækum hætti innanlandsmál, lífskjör, og samkeppnishæfni. Meginreglur alþjóðakerfisins endurspeglast greinilega í veikleikum alþjóðasamninga um loftslagsmál.

Alþjóðakerfið fellur þannig treglega að baráttu gegn loftslagsbreytingum en gæti hugsanlega átt mikilvægan þátt í stórauknu átaki í vísindum og tækni til að hraða umbyltingu í orkumálum heimsins. Það þyrfti ekki að rekast á meginreglur kerfisins.

Hvað viðvíkur öryggismálum þá hefur strúktúr alþjóðakerfisins almennt mikla þýðingu. Kína er rísandi veldi í kerfi þar sem Bandaríkin eru ráðandi. Þau ætla að koma í veg fyrir að Kína verði ráðandi í Asíu og ógni í kjölfarið öryggi Bandaríkjanna og stöðu þeirra í kerfinu.

Til nánari skýringar – þá hófu Bandaríkin afskipti af styrjöldum og öryggismálum Evrópu á 20. öld af því þau óttuðust að Þýskaland og síðar Sovétríkin gætu orðið ráðandi á meginlandinu og ógnað Bandaríkjunum í kjölfarið. Af þessari ástæðu hafði Ísland þýðingu fyrir heimsmálin í 50 ár – þar til Sovétríkin hrundu. Strúktúr skýrir þannig þetta einstaka tímabil í Íslandssögunni.

Hætta á að stórveldi gæti orðið ráðandi á meginlandi Evrópu hvarf með Sovétríkjunum. Bandaríkin hafa þó verið áfram með her í Evrópu vegna almennra öryggishagsmuna.

Að áliti bandaríska landvarnaráðuneytisins mun Rússland koma frá Úkrænustríðinu sem herveldi í molum (“shattered military power”) eins og það hefur nýlega verið orðað (“Russia will emerge from the Ukraine war a ‘shattered military power,’” top Pentagon official says”, Business insider 28. febrúar 2023 og House Armed Services Committee, 20230228 FC Hearing: Oversight of U.S. Military Support to Ukraine – birt í heild á YouTube.). En það mun einhverntíma aftur hafa burði til að ógna nágrannaríkjum.

Takist Úkrænuher að þjarma enn frekar að rússneska hernum í stríðinu gæti komist á vopnahlé. Í framhaldinu yrði að halda aftur af Rússlandi með úkrænskum her vel búnum vestrænum vopnum. Þannig gæti strúktúr leitt af sér jafnvægi og öryggi. Lengra verður vart komist nema Rússar breyti gagngert stefnu og stjórnarfari í Rússlandi.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s