Alþjóðasamvinna á krossgötum

Hinn 18. apríl stóðu Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Norðurlönd í fókus og utanríkisráðuneytið fyrir ráðstefnu í Norræna húsinu undir heitinu Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? Mér var boðið að flytja erindi í lok ráðstefnunnar undir liðnum Litið fram á veginn: Hvert á Ísland að stefna? Ég fór meðal annars  yfir öryggismál í okkar heimshluta, Evrópumál, norðurslóðir og Íshafssiglingar og fjallaði einnig ítarlega um Parísarsaminginn um loftslagsmál. Hér er erindið:

„Á tuttugustu öld hafði Ísland í áratugi áhrifastöðu í öryggismálum heimsins, hlutverk í sjálfri heimssögunni. Það réðist af staðsetningu landsins, af því hvernig hún tengdist náið stórum breytingum á alþjóðakerfinu og breytingum á hernaðartækni – og loks af því hvernig þessi atriði leiddu til þess að Ísland varð afar mikilvægt fyrir þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna og síðar bandalagsríkja okkar í NATO.

Í síðari heimsstyrjöld réðu bækistöðvar bandamanna á Íslandi miklu um sigur gegn kafbátum þýska flotans í orrustunni um Atlantshaf. Í kalda stríðinu varð Ísland útvörður Bandaríkjanna á Norður Atlantshafi, lykilstaður fyrir þá stefnu NATO að fæla Sovétstjórnina frá því að taka ákvarðanir sem gætu leitt til átaka – og lykilstaður ef fælingin mistækist og það leiddi til þriðju heimsstyrjaldarinnar.

Mestu skipti, hvað Bandaríkin varðaði, valdajafnvægið á meginlandi Evrópu. Næði stórveldi – fyrst kom Þriðja ríkið til greina og svo Sovétríkin – drottnandi stöðu í Evrópu var litið svo á að öryggi Bandaríkjanna yrði fyrr en síðar ógnað.

Eftir hrun Sovétríkjanna við lok kalda stríðsins var ekkert stórveldi á meginlandinu, sem gæti náð drottnandi stöðu þar. Áhugi Bandaríkjamanna á herstöð á Íslandi hvarf. Núna hafa þeir áhuga á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli en hann lýtur ekki að fastri viðveru, heldur tímabundinni staðsetningu kafbátaleitarflugvéla. Ferðir rússneskra kafbáta við Ísland virðast þó enn mjög fátíðar eftir að hafa alfarið hætt um margra ára skeið.

Hernaðarlega skipta norðurslóðir Rússa áfram máli því þar er að finna um þriðjung langdrægra kjarnorkuvopna Rússlands. Þetta eru vopn í kafbátum, sem er aðallega haldið úti langt norður í Barentshafi.

Mjög alvarlegur hættutími í alþjóðamálum gæti snert kjarnavopnajafnvægið milli Rússlands og Bandaríkjanna á norðurslóðum. Þetta er fjarlægur möguleiki, en kæmi hann upp mætti búast við að það leiddi – auðvitað – til spennu og aukins hernaðarlegs viðbúnaðar á norðurslóðum, þar á meðal á Íslandi.

En í aðalatriðum er það svo að eftir kalda stríðið eru möguleikar á stórátökum í heiminum fjarri Íslandi, þótt afleiðingar slíkra átaka í öðrum heimshlutum, gætu auðvitað haft alvarleg efnahagsleg áhrif hér.

Í Evrópu, vettvangi heitra og kaldra stríða megnið af tuttugustu öldinni, eru ekki miklar líkur á átökum þrátt fyrir stirð samskipti vesturlanda og Rússlands. NATO ríkin ætla ekki að hagga við áhrifasvæði Rússa, sem nær til nágrannaríkja þess. Þetta þýðir til að mynda að stríð við Rússa vegna Úkrænudeilunnar er nánast útilokað. Samskipti Rússlands við Eystrsaltsríkin eru erfið en almennt ekki talið líklegt að til átaka komi þeirra vegna.

Átök verða áfram í Miðausturlöndum. Þar bendir þó ýmislegt til að deilur Ísraela og Palestínumanna verði fyrirferðarminni en áður en átök milli súnna og síta, milli Sádí Araba og Írana miklu meira áberandi.

Enn fjær Íslandi eru hugsanleg átök í Norðaustur-Asíu vegna kjarnavopa Norður Kóreu. Þá telja ýmsir sérfræðingar að stríð í Asíu milli Kína og Bandaríkjanna sé óhjákvæmilegt eftir að Kína verði stórveldi til jafns við Bandaríkin. Þessi kenning er byggð á sögu og öðrum rökum, en er eftir sem áður einungis kenning. Þá á Kína enn langt i land – áratugi – að verða herveldi til jafns við Bandaríkin. Loks eru efnahagslegir veikleikar Kína umtalsverðir og sumir vaxandi.

Þrátt fyrir ýmsar óvenjulegar hliðar á á Donald Trump, miðað við forverana, og ýmsa nýlundu í yfirlýsingum hans og aðferðum er varða utanríkismál, tel ég ekki að utanríkisstefna Bandaríkjanna breytist í grundvallaratriðum. Enda valda stjórnarskipti í grónum lýðræðisríkjum ekki kollsteypum í utanríkismálum. Og grundvallar hagsmunir breytast ekki eða hverfa. Stefna Trumps endurspeglar þetta allt.

Í grunninn munu Bandaríkjamenn halda óbreyttri stefnu gagnvart Evrópu og NATO.  Hvað Ísland og Bandaríkin varðar þá búum við að löngum og nánum samskiptum við þau á mörgum sviðum og þau verða áfram öflug og dýnamísk öðrum ríkjum fremur, og augljóslega áfram afar mikilvægur markaður fyrir íslenska aðila. En viðbúið er að áhugi bandarískra stjórnvalda á Íslandi verði miklu minni en áður, sem er afleiðing af þeirri gerbreyttu strategísku stöðu í okkar heimshluta miðað við síðustu öld, sem ég nefndi áðan.

Hvað varðar Evrópusambandið er horft mikið til Brexit. Mér finnst ekki ástæða til að gefa sér annað fyrirfram en að skýrir hagsmunir og aðstæður allar ættu að leiða til samnings um hið augljósa: samnings um tengsl Bretlands við ESB sem verða ekki eins náin og þegar Bretland var í sambandinu.

Í kjölfarið snýr málið í aðalatriðum þannig við Íslendingum  að það þarf að ganga frá nýjum samningi um viðskipti við Breta og þá að öllum líkindum með hinum EFTA ríkjunum í EES, Noregi og Liechtenstein. Líkur eru á að það yrði í grunninn svipaður eða sami samningur og þá lægi fyrir milli Bretlands og ESB. – Enda rökrétt í því ljósi að þessi EFTA ríki eru á innri markaði ESB í gegnum EES samninginn.

Með Brexit fer einn mikilvægasti markaður okkar undan regluverki ESB, sem ef til vill opnar nýja tvíhliða möguleika í viðskiptum sem þá þarf að hyggja vel að. Þar verður hörð samkeppni við aðrar viðsktipaviðræður sem bresk stjórnvöld sigta á úti um allar grundir eftir Brexit.

ESB stendur frammi fyrir stærri áskorunum en Brexit. Annars vegar eru pólitískar hræringar til staðar í sumum sambandsríkjunum, sem gætu haft afleiðingar fyrir sambandið. Frakklandsforseti orðaði það svo í ræðu í gær að svo virtist sem „borgarastríð“, hvorki meira né minna, væri innan ESB milli frjáslyndrar lýðræðisstefnu annarsvegar og valdboðsstefnu og þjóðhernishyggju hins vegar.

Annað stórmál fyrir ESB er að ná betri tökum á evrunni og Frakklandsforseti nefndi það líka í ræðu gærdagsins.

Frá upphafi evrunnar hefur verið bent á að gjaldmiðill hljóti að kalla á ríkisvald. Veigamikið skref til að styrkja evruna væri meiri samruni og miðstjórnarvald, að minnsta kosti í ríkisfjármálum, jafnframt því að efnaðri ríkin í Evrulandi tækju á sig í auknum mæli ábyrgð á hinum lakar settu. En um þetta er ekki samkomulag í ESB. Jafnvel þótt stjórnvöld í efnaðri ESB ríkjum yrðu samþykk þessu þá er líklegt að meirihluti kjósenda yrði andvígur.

Til lengri tíma litið er þó líklegt að reynt verði, að minnsta kosti, að koma á mun meiri samruna til að styrkja evruna. Þetta snýst einnig um samkeppnisstöðu ESB gagnvart Bandaríkjunum og rísandi stórveldum í Asíu og jafnvel Suður-Ameríku. Loks felst í auknum samruna og miðstjórnarvaldi að stóru ríkin fá meiri áhrif á kostnað smærri ríkjanna, enda þau stóru fyrst og fremst sem mundu skrifa ábyrgjast evruna.

Þessi atriði öll í þróun ESB mundu veikja enn frekar en orðið er forsendur fyrir aðild Íslands að sambandinu.

Möguleikar fyrir Ísland á samstarfi í ýmsar áttir og við ólíka heimshluta og ríki, þar á meðal við Bandaríkin, Rússland, Kína og Japan sem og ESB ríki eru á vettvangi Norðurskautsráðsins. Og á norðurslóðum kunna að verða til tækifæri þegar líður á öldina, sem lúta að siglingum þar vegna bráðnunar heimskaautaíss í kjölfar hlýnunar Jarðar.

Hér hefur verið horft til umskipunar og viðkomuhafna á Íslandi fyrir skip sem sigldu norðurleiðina milli Atlantshafs og Kyrrahafs. Enn eru siglingar á þessari leið þó sáralitlar þótt hún sé opin hluta úr ári. Af tæplega tíu milljóna tonna heildarflutningum með skipum á norðurleiðinni 2017 fóru einungis tæplega 200 þúsund tonn þessa leið milli Atlantshafs og Kyrrahafs. Afgangurinn var að mestu flutningur á gasi í vökvaformi frá Yamal skaga í Síberíu ýmist austur um eða vestur um eftir árstíð og útbreiðslu hafíssins. Norðurleiðin milli Evrópu og Asíu kann að verða samkeppnisfær við stóru flutningaleiðirnar í suðri, en það virðist geta tekið áratugi – og af ýmsum ástæðum öðrum en þeim sem lúta að útbreiðslu hafíss.

Hlýnun Jarðar snertir okkur auðvitað, jafnvel meira en mörg önnur samfélög, vegna hugsanlegra áhrifa á hafið við landið. En hlýnun af mannavöldum stafar frá mannlegari starfsemi; stafar af því að mannkynið er háð jarðefnaeldsneyti. Orkunotkun mannkynsins jókst um tvö prósent í fyrra. Sjötíu prósent aukningarinnar komu frá olíu, gasi og kolum. Hlutdeild þessara orkugjafa í orkunotkun heimsins er um 80 prósent og hefur verið óbreytt í meira en þrjá áratugi. Hún er ekki talin minnka í orkubúskap heimsins nema ef til vill um örfá prósent á næstu tuttugu til þrjátíu árum.

Þótt menn gefi sér langt fram á öldina til ná markmiðum Parísarsamningsins frá 2015 um loftslagsmál, þá er augljóslega hér á ferð afar flókið og örðugt mál, sem lýtur að efnalegri velferð ríkja og samkeppnisstöðu þeirra.

Megin viðfangsefni Parísarsamningsins  – að minnka stórlega notkun á kolum, olíu og gasi  – snertir lífskjör í heiminum, ekki síst væntingar fátækra ríkja um bætta stöðu. Til að mæta þeim væntingum þarf aðgengi að ódýru jarðefnaeldsneyti.

Ennfremur búum við í alþjóðkerfi sem hefur það megineinkenni að þar er ekki yfirríkjavald. Af þeim sökum er Parísarsamningurinn ekki bindandi og engin viðurlög í honum gegn ríkjum sem ekki standa sig. Engin ætlan er uppi um að breyta alþjóðakerfinu að þessu leyti. Þetta, ásamt því hve mannkynið er háð jarðefnaeldsneyti, skýrir að margir hafa ekki miklar væntingar um Parísarsamninginn. Hann muni í besta falli hægja á hlýnun.

Forsenda árangurs er að öll helstu hagkerfi heimsins taki þátt. Bandaríkin hafa sagt sig frá Parísarsamningnum. Það er auðvitað áfall fyrir samninginn, en losun gróðurhúsalofttegunda mun samt halda áfram að minnka umtalsvert í Bandaríkjunum, og meira en víða annarsstaðar, vegna stóraukinnar notkunar á jarðgasi en einnig fjárfestinga í endurnýjanlegri orku.

Að minnka losun til að draga úr hlýnun Jarðar snýst um fyrirbæri sem kallað er “sameiginleg gæði” (collective good). Það þýðir þau ríki sem ekkert legðu á sig, eða minna en önnur, til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda mundu samt njóta hugsanlegs árangurs.  Ríki sem með þessum hætti mundi njóta árangurs af erfiði og fórnum annarra, væri það sem kallað er “free rider”,  sem má þýða sem “sníkill”.

Við framkvæmd Parísarsamningins má búast við að öll ríki gæti þess að aðgerðir heima fyrir séu í takt við framlög annarra ríkja. Með öðrum orðum að ekki sé verið að leggja álögur á fyrirtæki og einstaklinga umfram það sem gert sé í öðrum ríkjum, enda mundi það ekki ganga upp pólitískt, að minnsta kosti ekki í lýðræðisríkjum. Þessi þáttur verður mikilvægari þegar fram í sækir og öll ríki eiga að minnka losun gróðurhúsalofttegunda; þar á meðal þróunarríkin þar sem væntingar og vonir um bætt lífskjör eru skiljanlega mestar og rætast ekki að óbreyttu án aðgengis að ódýru jarðefnaeldsneyti. Og eftir því sem á líður verður dýrara fyrir alla að minnka losun því „auðvelda“ minnkunin verður að baki – það er til dæmis að auka hlutdeild jarðgass á kostnað kola eða hætta mengandi starfsemi sem hvort eð er átti að loka af hagkvæmnisástæðum.

Þótt í Parísarsamningnum sé gert ráð fyrir, eins og ég nefndi, að markmið hans náist ekki fyrr en langt verður liðið á öldina verðr það erfitt að óbreyttu. Því má ætla að þegar frammí sæki hljóti að verða hert á leit að hreinni orku og nýjum orkugjöfum.  Hér er ástæða finnst mér til bjartsýni þó ekki sé byggt á öðru en sögu síðustu rúmu hundrað ára og tækniframförum hennar. Þrýstingur mun aukast hygg ég um að bylting í orkumálum verði gerð að öflugu alþjóðlegu átaki.  Og þótt okkar sérþekking Íslendinga, jarðhitinn, dugi auðvitað ekki til að leysa vandann, þá kann hún að eiga möguleika á talsvert auknu framlagi á heimsvísu einkum með því að djúpborun verði þróuð enn frekar.

Hafa ber í huga að í ýmsum efnum er veröldin á góðri leið. Sífellt fleiri njóta heilbrigðisþjónustu, hungur hefur verið á hröðu undanhaldi, sömuleiðis fátækt og lífskjör fara því batnandi. Gott fyrir þróunarríkin en hefur líka áhrif möguleika Íslendinga, sem virðast einkum lúta að eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu, sem íslenskir aðilar kunna að ráða yfir öðrum fremur – svo sem í sjávarútvegi og orkumálum – og vexti millistéttar í heiminum sem hefur efni á því meðal annars að kaupa íslenskar vörur og þjónustu. Þó ekki sé nema af þessum sökum mun ferðamönnum til Íslands fjölga áfram.

Þannig að ef við horfum fram á veginn – þetta 10-20 ár sem ég hef miðað við í mínu erindi – þá snýr umheimurinn í aðalatriðum þannig að okkur Íslendingum – að slegnum hinum klassíska fyrirvara um hið óvænta – að það er rólegt yfir vötnum  í íslenskum utanríkismálum. Við búum í öllum aðalatriðum við frið og öryggi í okkar nágrenni og engin stórmál í deiglu að öðru leyti. Stofnanaþáttaka okkar á alþjóðavettvangi er með ágætum, fullnægjandi fyrir okkar hagsmuni það ég fæ best séð.

En það eru vissulega uppi ýmis verkefni fyrir íslensk stjórnvöld, sem ef þau eru leyst vel af hendi geta hjálpað fyrirtækjum til að efla utanríkisviðskipti með vörur og þjónustu af margvíslegu tagi og auka þannig hagsæld þjóðarinnar. Og veröldin er opnari en nokkru sinni í sögunni og hnattvæðingin heldur áfram með kostum sínum – og vissulega göllum – en aðallega kostum fyrir okkur.

Hvað umheiminn varðar, þá vill svo til að hann virðist okkur hagfelldur í flestu tilliti.“

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s