Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland

Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að almennt sé lítið um rússneskar herflugvélar við Ísland á svonefndu loftrýmiseftirlitssvæði (“Almennt lítið um rússneskar flugvélar”, Morgunblaðið 2. apríl 2019.). Það er byggt á svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins um umferð slíkra flugvéla.

Á þessari vefsíðu hefur komið fram (4. mars 2018, Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma, bls. 35.), byggt á fáanlegum upplýsingum, að vart hafi orðið að jafnaði við þrjár rússneskar herflugvélar á ári við landið. Það er hverfandi lítið miðað við það sem var í kalda stríðinu. Nú kemur í ljós samkvæmt svarinu til Morgunblaðsins að engar slíkar vélar komu nálægt landinu á árunum 2016 og 2017 þannig að meðaltalið lækkar. Þá kemur fram að um eitt skipti var að ræða á árinu 2018 og á vefsíðu landhelgisgæslunnar 18. mars 2019 er greint frá því að það hafi verið í desember.  Þarna virðist hafa verið um að ræða tvær sprengjuþotur sem flugu niður Atlantshafi til Venesúela í desember og voru þar í nokkra daga áður en þær sneru aftur heim. Í mars 2019 var flogið tvisvar í veg fyrir rússneskar herflugvélar nálægt Íslandi, tvær vélar í hvort skipti. Þær voru af gerðinni Tupolev Tu-142, sem eru könnunar- og kafbátaleitarflugvélar (ekki sprengjuflugvélar eins og ranglega hefur komið fram). Ítalskar orrustuþotur flugu til móts við Tu-142 vélarnar en svo vildi til að þotur frá ítalska flughernum voru á Íslandi við loftrýmisgæslu á vegum NATO. Loftrýmisgæslu er einungis haldið uppi hluta af ári en óháð því greina ratsjár íslenska loftvarnakerfisins flugvélar sem koma í námunda við landið.

Til samanburðar má geta þess að þegar mest var á níunda áratugnum flugu orrustuþotur bandaríska varnarliðsins í herstöðinni í Keflavík til móts við um 170 rússneskar herflugvélar á ári; og samtals rúmlega 3000 vélar á árunum 1962-1991 (Albert Jónsson, Ísland, Atlantshafsbandalagið og Keflavíkurstöðin, Öryggismálanefnd 1989.) Eftir kalda stríðið lá flug langdrægra rússneskra herflugvéla utan Rússlands að mestu niðri þar til um og upp úr 2006.

Á alnetinu er unnt að fylgjast með fréttum af ferðum langdrægra rússneskra herflugvéla utan Rússlands undanfarin ár því viðkomandi stjórnvöld greina frá því þegar flugherir þeirra fljúga í veg fyrir vélarnar og fylgja þeim. Tölurnar frá íslenskum stjórnvöldum ríma í aðalatriðum við upplýsingar um hernaðarflug Rússa á undanförnum árum nálægt Bretlandi og við Alaska, en þetta eru þeir staðir, ásamt Íslandi, sem þær koma helst að fjarri Rússlandi. Flestar hafa þær verið við Bretland. Þá hefur verið töluvert um flug rússneskra hervéla nær Rússlandi í námunda við norður Noreg en einnig suður með Noregsströnd og þá oft þær sömu og sjást við Bretland.

Breski flugherinn flaug átta sinnum á ári í veg fyrir rússneskar herflugvélar á árunum 2013, 2014 og 2015, fimm sinnum 2016, 3svar sinnum 2017 (Ministry of Defence, Air Command Secretariat, 2. febrúar 2018) og í eitt skipti 2018 (“RAF fighters intercept Russian bombers near UK”, The Guardian, 15. janúar 2018.). Á þessu ári hefur breski flugherinn flogið tvisvar á móti rússneskum flugvélum.

Við Alaska voru rússneskar herflugvélar einu sinni á árinu 2015, aldrei á árinu 2016 en tvisvar 2017, og 2018 var aftur flogið tvisvar til móts við slíkar flugvélar. Á þessu ári hefur verið flogið einu sinni til móts við rússneskar vélar, þá norður af Kanada.

Hvað varðar rússneska kafbáta á Atlantshafssvæðinu í námunda við Ísland, þá mun umferð þeirra hafa aukist undanfarin ár frá því að hafa verið næstum engin um langt árabil eftir kalda stríðið. Rússneskir kafbátar hafa að því er virðist verið afar fáir á hafsvæðum í nágrenni Íslands. Það er byggt á upplýsingum frá Isavia um veru bandarískra kafbátaleitarflugvéla á Keflavíkurflugvelli. Þegar kafbátur er á ferð þarf nokkrar slíkar svo unnt sé að leita að honum eða fylgja honum eftir. Það verður að gera allan sólarhringinn, sem kallar á hóp kafbátaleitarflugvéla til landsins. Byggt á þessari aðferð virðist hafa verið einn rússneskur kafbátur á svæðum í grennd við Ísland frá því þeirra varð fyrst vart 2014. Um þetta var fjallað á vefsíðunni í mars 2018  (Hernaðarlega staða Íslands í sögu og samtíma, bls. 32-33.) Eftir það virðist einn kafbátur hafa komið til viðbótar í námunda við Ísland.

Lítil hernaðarumsvif Rússa nálægt Ísland endurspegla í fyrsta lagi að þótt rússneski herinn sé öflugur í næsta nágrenni Rússlands hefur hann mjög takmarkaða getu utan þess svæðis. Það mun þó breytast að því leyti að skip hans, kafbátar og flugvélar verða í framtíðinni líklega búin langdrægari stýriflaugum en nú er, sem skjóta má frá nærsvæðum Rússlands á skotmörk á landi í allt að 4500 kílómetra fjarlægð.

Í öðru lagi og hvað Atlantshaf varðar þá er forgangsverkefni rússneska Norðurflotans ekki úti á Atlantshafi, heldur að tryggja varnir bækistöðva á Kolaskaga í Norðvestur Rússlandi og kafbáta sem er aðallega haldið úti í Barentshafi og hafa um borð langdrægar eldflaugar sem bera kjarnavopn. Þetta hefur verið forgangsverkefni frá því á áttunda áratugnum en munurinn er sá að í kalda stríðinu var Norðurfloti Sovétríkjanna miklu stærri en sá rússneski er nú. Hvað langdrægar flugvélar varðar, þá réði sovéski herinn yfir mun fleiri slíkum vélum en sá rússneski, sem þarf að auki að reiða sig á flugvélakost frá Sovéttímanum sem er viðhaldsfrekur og bilanagjarn þrátt fyrir uppfærslur. Eftir sem áður virðist talin þörf á að senda flugvélar á fjarlægar slóðir í þjálfunarskyni og til að minna á að Rússland á langdrægar vélar sem geta borið venjuleg vopn eða kjarnavopn.

Rússneskir kafbátar, sem koma út á Atlantshaf, eru svonefndir árásarkafbátar (attack submarine), það er ætlaðir til að granda öðrum kafbátum, skipum eða skotmörkum á landi. Rússar hafa fáa slíka báta, eða 15-17, og þeir eru flestir smíðaðir á níunda áratugnum í kalda stríðinu. Þeir eru því viðhaldsfrekir og gjarnan talið að einungis helmingur þeirra sé nothæfur (operational) á hverjum tíma og jafnvel minna en það. Norðurflotinn hefur tekið einn nýjan árásarkafbát í notkun á undanförnum árum og verið er að prófa annan sömu tegundar áður en hann verður tekinn í notkun. Þetta eru bátar af svonefndri Yasen gerð. Ætlanin er að smíða 6-7 slíka báta á næstu tíu árum, en óvíst mun hvort það tekst af fjárhagsástæðum. Smíði Yasen bátanna hefur gengið hægt enda er hún afar dýr og flókin og sama á við viðhald og rekstur þeirra. Árásarkafbátum Norðurflotans kann því að fækka enn frekar fram til 2030 þegar óhjákvæmilega verður að taka úr notkun báta sem smíðaðir voru á Sovéttímanum.

Heimildir

2 thoughts on “Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland

  1. Pingback: Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum? – Alþjóðamál og utanríkismál

  2. Pingback: Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands – Alþjóðamál og utanríkismál

Leave a comment