Ísland og umheimurinn 2020-2050 Fyrsti hluti: Í nýrri heimsmynd

Ágrip: Með falli Sovétríkjanna 1991 færðist Ísland á jaðar alþjóðakerfisins eftir að hafa tengst þungamiðju þess náið af herfræðilegum ástæðum í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu. Þá lá þungamiðjan á Evró-Atlantshafssvæði heimsins í pólitísku, efnahagslegu og hernaðarlegu tilliti. Nú liggur hún á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. 

Íslandi hefur farnast vel á jaðri kerfisins undanfarna áratugi og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. Efnahagsleg velgengni hefur verið mikil á heildina litið á tímabilinu. Þá hefur öryggi þjóðarinnar verið tryggara en þegar lega landsins tengdi það náið við helstu átök og ágreining í heiminum. Þrátt fyrir stirð samskipti NATO og Rússlands eru átök milli þeirra almennt talin ólíkleg. Hernaðarleg umsvif á norðurslóðum hafa aukist en eru enn miklu minni en í kalda stríðinu og að að mestu leyti langt fyrir norðan Ísland.

Eftir því sem Asía eflist minnkar hlutfallslegt vægi Evró-Atlantshafssvæðisins í heimsbúskapnum, hlutur Evrópusambandsríkjanna meira en hlutur Bandaríkjanna en þar hefur hagvöxtur verið meiri en í ESB. Bandaríkin eru risaveldi sem fyrr og lykilríki í hinni nýju þungamiðju alþjóðakerfisins á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Samrunaþróunin í ESB, sem hefur verið fyrirferðarmikil saga á Evró-Atlantshafssvæðinu einkennist nú af mikilli óvissu. Það að samruninn hefur ekki leitt til sambandsríkis kann ásamt langvarandi efnahagserfiðleikum í sumum aðildarríkjum að leiða til þess að þau yfirgefi evruna. Það er útbreidd skoðun að þessi hætta hljóti að beina ESB í átt til sambandsríkis. Hinsvegar er því haldið fram að ESB ríkin séu þegar allt kemur til alls of ólík til að geta náð samkomulagi um þá leið. 

Drifkraftar alþjóðamála liggja í aðalatriðum annarsstaðar en á Evró-Atlantshafssvæðinu og það virðist einnig eiga við helstu áhrifaþætti þegar kemur að stöðu Íslands. Beggja vegna Atlantshafs eru stærstu markaðir fyrir íslenskar vörur og þjónustu. Hlutur ESB í utanríkisviðskiptum landsins hefur þó minnkað vegna útgöngu Bretlands og mjög líklegt að hlutfallið minnki enn frekar vegna vaxandi viðskiptasamstarfs milli Íslands og Asíuríkja. Sama á við vægi Bandaríkjamarkaðar. 

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína hefur orðið meginþáttur alþjóðamála og margt bendir til að hún harðni í bráð og lengd og við það er miðað í greininni. Einnig er gengið út frá því að hafís hörfi áfram á Norður-Íshafi, sem veldur auknum alþjóðlegum áhuga á norðurslóðum, þar á meðal af hálfu Kína og Bandaríkjanna. Samkeppni þessara stórvelda og bráðnun heimskautsíssins virðast lykilforsendur þegar lagt er mat á stöðu Íslands næstu áratugi. 

Mest áhrif hefði ef stefndi í að Norður-Íshaf opnaðist vegna bráðnunar heimskautsíssins. Aðdragandi þess mundi í mikilvægum atriðum litast af samkeppni Kína og Bandaríkjanna á norðurslóðum. Hún er enn mjög takmörkuð á svæðinu og umsvif Kínverja þar afar lítil nema í norður Rússlandi þar sem þeir taka þátt í hratt vaxandi olíu- og gasvinnslu. Hinsvegar má gera ráð fyrir að Ísland verði líkt og önnur ríki fyrir þrýstingi af völdum samkeppninnar á heimsvísu. Þegar eru uppi mál í henni, sem kalla á afstöðu íslenskra stjórnvalda og hagsmunamat. 

Gera verður ráð fyrir að Ísland þurfi á næstu árum og áratugum að taka afstöðu til ýmissa deilumála stórveldanna og að hún kunni að snerta mikilvæga íslenska hagsmuni. Hvert verður svigrúm Íslands? Stundum kann niðurstaðan að vera augljós vegna skýrra hagsmuna og grundvallarreglna, í öðrum tilvikum kann að vera möguleiki fyrir Ísland að standa á hliðarlínunni, í enn öðrum leyfir hagsmunamat ef til vill ekki slíkt svigrúm. Miklu getur skipt að utanríkisviðskiptin verði ekki um of háð Kínamarkaði. Aukinn áhugi stórveldanna tveggja á norðurslóðum og hugsanlegir miklir framtíðarhagsmunir þeirra þar kunna að veita Íslandi meira svigrúm en ella væri.

Gangi eftir spár um að Norður-Íshaf opnist virðist það ekki verða að einhverju marki fyrr en um eða upp úr 2050. Þá mundi Ísland tengjast um norðurslóðir við hina nýju þungamiðju alþjóðakerfisins á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.  Alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi slíkra grundvallarbreytinga á heimsmyndinni sem fælust í opnun Norður-Íshafs gæti hafist í alvöru á næstu 10-20 árum. Um hann verður fjallað í öðrum hluta greinarinnar um Ísland og umheiminn 2020-2050.

Efnisyfirlit: Umskipti á stöðu Íslands með falli Sovétríkjanna – Þungamiðja alþjóðakerfisins liggur nú hinum megin á hnettinum og samkeppni Bandaríkjanna og Kína er ráðandi þáttur alþjóðamála – Samkeppni Bandaríkjanna og Kína snertir norðurslóðir og íslensk stjórnvöld eru krafin um afstöðu til deilumála stórveldanna – Hvert verður svigrúm Íslands?

Umskipti á stöðu Íslands með falli Sovétríkjanna 

Í síðari heimsstyrjöld tengdist Ísland náið þungamiðju alþjóðakerfisins, sem lá á Evró-Atlantshafssvæðinu. Það nær til Norður-Ameríku, Atlantshafs og meginlands Evrópu. Á þessu svæði voru ríkin sem mestu réðu á 20.öld. Drifkraftar alþjóðamála og heimssögunnar fólust einkum í samskiptum þeirra, deilum og átökum, þótt Japan hefði einnig áhrif. Lega Íslands og herstöðvar Bandamanna þar höfðu umtalsverð áhrif á gang mála í heimsstyrjöldinni og þannig fékk landið tengsl við þungamiðju alþjóðakerfisins sem þá var. 

Mesta þýðingu fékk Ísland fyrir þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Það átti bæði við í heimsstyrjöldinni og í kalda stríðinu allt til þess að Sovétríkin féllu 1991.  Eftir það hafði Ísland miklu minna hernaðarlegt vægi en áður fyrir Bandaríkin. Meginatriði var að með Sovétríkjunum hvarf ekki bara tiltekinn andstæðingur heldur einnig sá möguleiki að stórveldi gæti náð ráðandi stöðu á meginlandi Evrópu og orðið ógn við öryggi á Norður-Atlantshafi og vesturhveli.

Um þessar grundvallarbreytingar, áhrif þeirra á stöðu Íslands og þróun öryggismála eftir kalda stríðið hefur verið fjallað ítarlega í fyrri greinum á vefsíðunni og því látið nægja hér að rifja upp aðalatriði. Hernaðarleg umsvif í nágrenni Íslands eru miklu minni en í kalda stríðinu og hernaðarlegir meginþættir, eins og þeir þróast á norðurslóðum, eru langt fyrir norðan Ísland. Keflavíkurflugvöllur hefði hlutverki að gegna á hættutíma í Evrópu, aðallega varðandi flutning á herliði og búnaði í lofti yfir Atlantshaf til meginlandsins og einnig að einhverju leyti varðandi stuðning kafbátaleitarflugvéla og eldsneytisflutningaflugvéla frá landinu við aðgerðir á norðurslóðum. Ísland hefur að þessu leyti áfram gildi fyrir fælingarstefnu NATO á meginlandi Evrópu og þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna, þó ekki í líkingu við mikilvægi landsins hefði komið til átaka í kalda stríðinu. Ísland tengist áfram stöðu öryggismála í Evrópu þótt hún sé önnur en þegar Sovétríkin voru uppi og gátu hugsanlega náð ráðandi stöðu þar. Norðurfloti þeirra var og margfalt stærri en sá rússneski er nú. Þá er svo að þrátt fyrir stirð samskipti er stríð milli NATO og Rússlands almennt talið ólíklegt. 

Þungamiðja alþjóðakerfisins liggur nú hinum megin á hnettinum – Samkeppni Bandaríkjanna og Kína er ráðandi þáttur alþjóðamála

Helstu ríki heims – Bandaríkin, Kína, Indland – eru á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Þar er að finna drifkrafta alþjóðakerfisins; í stjórnmálum, efnahagsmálum, tæknilegum efnum, viðskiptum og öryggismálum. Samkeppni milli Bandaríkjanna, mesta stórveldis heims, og Kína sem er rísandi stórveldi, hefur orðið ráðandi þáttur í alþjóðamálum. Hún birtist sérstaklega í austur Asíu en einnig á Asíu-Kyrrahafssvæðinu öllu sem og á heimsvísu. Uppgangur Kína hefur þegar valdið grundvallarbreytingu á strúktúr alþjóðakerfisins, breytingu sem veikir Bandaríkin og sem þau hljóta að bregðast við – og gera í síauknum mæli.

Kína býr við ýmsa innri veikleika sem kunna að hægja á efnahagslegum vexti þess og draga samkvæmt því úr samkeppninni við Bandaríkin. Í þessari grein og næsta hluta hennar er gert ráð fyrir að Kína eflist áfram og samkeppnin harðni, enda er ætlunin með þessum skrifum að átta sig á hvort búast megi við miklum breytingum á norðurslóðum og stöðu Íslands. Það verður endanlega háð hlýnun Jarðar og bráðnun hafíss af hennar völdum, sem er meginástæða aukins áhuga stórveldanna tveggja á norðurslóðum. 

Kína hefur þegar náð að verða stærsta hagkerfi heims á eftir því bandaríska og styttist í að hið kínverska verði stærst, þótt þjóðartekjur á mann séu enn um fjórfalt hærri í Bandaríkjunum en í Kína. Það er einnig orðið stórveldi á ýmsum tæknilegum sviðum,  og á í mjög harðnandi samkeppni við Bandaríkin í þeim efnum, en er enn ekki herveldi til jafns við keppinautinn, sérstaklega hvað varðar möguleika á að beita sér á fjarlægum slóðum. Kínverjar eru um 1400 milljónir á móti 330 milljónum Bandaríkjamanna. Nálgist Kínverjar að hafa þjóðartekjur á mann á við til dæmis Suður Kóreu, Hong Kong eða Singapore verða heildarþjóðartekjur Kína miklu meiri en Bandaríkjanna; jafnvirði nokkurra tuga trilljóna dollara á ári. Framlög í Kína til utanríkismála  – þar á meðal til ýmiskonar fjárhagsaðstoðar við önnur ríki – og til hermála mundu endurspegla það.

Rússland er stórveldi í Evrópu þótt það sé ekki, eins og fyrr sagði, arftaki Sovétríkjanna að þessu leyti. Efnahagslega er Rússland á svipuðum stað og Ítalía þegar kemur að heildarþjóðartekjum. Þjóðartekjur á mann eru hins vegar mun lægri en á Ítalíu því Rússland er fjölmennara; og munar 80 milljónum manna. Þrátt fyrir þetta eiga Rússar öflugri her en Ítalir sem endurspeglar meðal annars ólíkan pólitískan vilja í þessum efnum og ólíkt stjórnarfar. Þá fær Rússland af ýmsum fjárhagslegum ástæðum meira en Ítalía og önnur NATO ríki fyrir fjármuni sem varið er til vopnakaupa og annarra útgjalda til hermála. Mannfjöldi og þjóðartekjur segja því alls ekki alla söguna þegar kemur að hernaðarmætti.

Rússland á sameiginlegt með Kína að vera endurskoðunarsinnað (revisionist) stórveldi; að vilja grafa undan ríkjandi fyrirkomulagi heimsmála í þeim tilgangi að auka eigin völd og virðingu og veikja önnur stórveldi. Markmið Rússa og Kínverja er auðvitað fyrst og fremst að veikja stöðu Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu. 

Harðni samkeppni Kína og Bandaríkjanna enn frekar verður rökrétt afleiðing, einkum ef samskipti NATO og Rússlands verða áfram svo stirð sem nú er, að böndin milli Kína og Rússlands verði enn nánari en ella. Það er þó ekki víst að svo fari. Ýmsir hagsmunir Kínverja og Rússa eru ólíkir og Kína er auðvitað margfalt fjölmennara en Rússland og miklu öflugra í fjárhagslegu og tæknilegu tilliti. Bandalag milli þeirra yrði ekki á jafningjagrundvelli sem kynni að há nánari samvinnu.

Uppgangur Kína hefur gerbreytt strúktúr alþjóðakerfisins, sem fyrr var nefnt, og Kína er langöflugasti keppinautur sem Bandaríkin hafa átt enda samkeppnin við það orðin ráðandi í bandarískri utanríkis- og þjóðaröryggisstefnu. Líkur eru á að samkeppnin verði hörð og einnig að Bandaríkjamenn muni þegar fram í sækir eiga fullt í fangi með að keppa við Kínverja. Samkeppnin mun gera miklar kröfur til Bandaríkjahers á víðáttumiklu Asíu-Kyrrahafssvæðinu og megináherslur hans liggja þar nú þegar. 

Jafnframt því að beina kröftum að Asíu er viðbúið að Bandaríkjamenn horfi mjög inn á við vegna mikilla ríkisskulda, og vaxandi útgjalda sakir hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar. Einnig þarf að bæta lífskjör hópa sem hafa orðið útundan, styrkja menntun, vísindi og rannsóknir og gera stórátak í endurnýjun innviða. Bandaríkjamenn hafa trauðla efni á að leysa þessi stóru og fjárfreku verkefni heima fyrir, beina sífellt meiri diplómatískum og hernaðarlegum kröftum að Asíu-Kyrrahafi og halda jafnframt úti verulegu herliði í öðrum heimshlutum, þar á meðal í Evrópu vegna NATO.

Stöðugleiki og velferð í Evrópu er augljóslega áfram í hag Bandaríkjanna vegna mikilla viðskiptahagsmuna þeirra í álfunni og annarra náinna tengsla við ríki þar. Þáttakan í NATO nýtur stuðnings meirihluta Bandaríkjamanna og mikillar velvildar á þingi og í stjórnkerfinu. Þó eru líkur á til lengri tíma litið að Bandaríkin hætti að miklu leyti, vegna uppgangs Kína og af fyrrnefndum innanlandsástæðum, að hafa herlið í Evrópu; en einnig af því að það er ekki til stórveldi í Evrópu sem getur náð ráðandi stöðu þar og ógnað vesturhveli og Bandaríkjunum í framhaldinu.

Evrópuríki NATO þurfa að bregðast við því að helstu þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna og áherslur Bandaríkjahers eru í Asíu. Evrópsku bandamennirnir verða fyrr en síðar að mæta gerbreyttum aðstæðum með því að leggja mun meira af mörkum til sameiginlegra varna bandalagsins en flestir þeirra gera nú. Framtíð NATO verður undir því komin. Hún verður einnig háð því að Bandaríkin njóti stuðnings Evrópuríkjanna. Víst er að Bandaríkin munu sækja fast að það verði gert af hálfu NATO og ESB. Bæði hafa skilgreint Kína sem keppinaut en á móti kemur að Evrópuríki eiga mikið undir viðskiptum við það; sum þiggja að auki fjárfestingar þeirra og lán gegnum svonefnda Belti og braut áætlun, sem síðar verður nánar vikið að.

Efnahagslegt vægi Evró-Atlantshafssvæðisins í heimshagkerfinu fer hlutfallslega minnkandi. Það stafar af því að Asíu-Kyrrahafssvæðið vex hratt efnahagslega, áætlað að það muni upp úr 2030 standa undir meira en helmingi heimsframleiðslunnar og að meirihluti hagvaxtar í heiminum verði til þar. Hlutfall Bandaríkjanna í heimshagkerfiu hefur minnkað heldur minna en ESB vegna meiri hagvaxtar í Bandaríkjunum. Hagkerfin tvö eru álíka stór hlutfallslega en ESB hefur fleiri íbúa en Bandaríkin. Þá er svo að þótt ESB sé efnahagslegt stórveldi og næstum 450 milljónir íbúa er vægi sambandsins á alþjóðavettvangi ekki í takt við það. 

Það háir ESB að samruni í því nær ekki til ríkisfjármála (fiscal union) né heldur til öryggis- og varnarmála og utanríkisstefna er ekki sameiginleg nema að hluta til. Evran er, einn helstu gjaldmiðla, ekki afkvæmi ríkis og á ábyrgð þess. Það er útbreidd skoðun að þarna fari grundvallarveikleiki ESB og evrunnar. Þá er aðallega átt við að ekki er staðið sameiginlega við bakið á gjaldmiðlinum eins og ríki Bandríkjanna standa að dollarnum með sambandsríki. Það felur meðal annars í sér að sambandsríkið getur efnt til skulda sem ríkin bera sameiginlega ábyrgð á. Hér í liggur til dæmis munurinn á viðbrögðum ESB og Bandaríkjanna við fjármálakreppunni 2008 og við kreppunni sem Covid-19 hefur valdið. Hann felst í því að seðlabanki og ríkissjóður Bandaríkjanna geta gefið hagkerfinu miklu öflugri fjárhagslega innspýtingu en mögulegt er af hálfu stofnana ESB; enda er mikill munur á spám um hagvöxt og þenslu í ESB og Bandaríkjunum í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Almennt skortir pólitískan vilja til nánari samruna í ESB, hvort heldur er á sviði ríkisfjármála eða í öryggis- og varnarmálum þótt hann sé gjarnan talinn forsenda þess að ná megi markmiðum um meira vægi sambandsins í heiminum. Einnig er gjarnan bent á að ESB ríkin muni – þrátt fyrir að vera sundurleit (óhjákvæmilega af því þetta eru 27 ríki og um margt ólík hvað varðar tungumál, menningu, sögu, stærð, afl og hagsmuni) og sundurlynd (meðal annars af því aðild að ESB þjónar að nokkru leyti ólíkum markmiðum og hagsmunum eftir aðildarríkjum)— ná saman um að nauðsynlegan aukinn samruna. Á endanum verði ekki komist hjá því að gera það í ríkisfjármálum til að styrkja evruna og skjóta almennt styrkari stoðum undir stöðu ESB. 

Á meðan ríkir óvissa um hvernig evrunni og ESB reiði af. Sum aðildarríki eiga í miklum fjárhagserfiðleikum. Þar á meðal eru stór ríki eins og Spánn og Ítalía og einnig á þjóðarbúskapur Grikkja mjög erfitt. Þótt staða mála sé ekki eins í ríkjunum þremur þá eiga þau sameiginlegt að hafa búið við langvarandi efnahagsvanda og mikla skuldasöfnun. Stór þáttur í þessu hefur verið að gengi evrunnar hefur verið þeim óhagstætt, einkum hvað Grikkland og Ítalíu varðar. Ríki norðar í ESB, með Þýskaland, í fararbroddi vilja ekki bera ábyrgð á skuldum aðildarríkjanna, en einkum á miklum skuldum Grikklands og Ítalíu. Einnig er bent á að það mundi jafnvel auka á agaleysi við efnahagsstjórn í þessum ríkjum og gera illt verra. Hinsvegar sést gjarnan sú skoðun í umræðunni að ESB geti ekki velt málum á undan sér mikið lengur. Fyrr en síðar hljóti að koma að ögurstundu í samrunaþróuninni. Verði ekki tekið á málum sé hætt við að Miðjarðarhafsríkin – eitt eða fleiri – segi sig frá gjaldmiðilssamstarfinu; hætti við evruna til að reyna að bjarga þjóðarbúskapnum. 

Sameiginleg ábyrgð á skuldum kemur ekki til nema ríkisfjármálastefna verði sameiginleg. Samruni að því leyti fæli óhjákvæmilega í sér meira vald í til stofnana sambandsins og til stóru ríkjanna í því í samræmi við ábyrgð þeirra á sameiginlegum skuldum og í takt við stærra umfang ríkisfjármála þeirra samanborið við smærri ríkin. Slík tilfærsla á valdi til stofnana og stóru ríkjanna er þáttur í andstöðu innan ESB við aukinn samruna. 

Þá hefur nýr alvarlegur ágreiningsþáttur komið til sögu í ESB á undanförnum árum. Hann lýtur að uppgangi svonefnds popúlisma í stjórnmálum, sem meðal annars birtist í andófi gegn stefnu og stofnunum sambandsins og andstöðu við aukinn samruna. Vandi ESB að þessu leyti birtist meðal annars í ágreiningi og átökum við Póland og Ungverjaland en einnig Búlgaríu og Slóveníu, þar á meðal um mál sem snerta grundvallaratriði eins og réttarríkið. Í öðrum ESB ríkjum, en einkum Grikklandi, Ítalíu og Spáni, kyndir versnandi efnahagur og vanmáttur stofnana ESB til að fást við fjármálaafleiðingar kórónuveirufaraldursins undir óánægju og popúlisma. Þá hefur vandaræðagangur í ESB vegna bóluefna valdið því að ímynd þess hefur skaðast víða í sambandinu og vantrú á stofnunum aukist.

Þótt þungamiðja alþjóðamála liggi ekki lengur á Evró-Atlantshafssvæðinu hefur það áfram mikla og augljósa þýðingu fyrir Ísland af pólitískum, menningarlegum og efnahagslegum ástæðum. Beggja vegna Atlantshafs eru stærstu markaðir fyrir íslenskar vörur og þjónustu. Bandaríkin skipta mjög miklu fyrir bæði vöruútflutning og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustu, og markaðsstaða íslenskra fyrirtækja þar er í meginatriðum góð. Bandaríkjamenn eru einnig með miklar fjárfestingar á Íslandi. Þá eru stórir íslenskir hagsmunir sem fyrr komnir undir nánu viðskiptasamstarfi við ESB þótt Bretland, stærsti markaður Íslands fyrir vörur og þjónustu í Evrópu, hafi gengið úr ESB. Ísland er í sterkri stöðu á Evrópumarkaði og allar líkur á að svo verði áfram. Meðal annars er mikil eftirspurn er eftir sjávarvörum í mörgum aðildarríkjum og víst má telja að Ísland verði áfram eftirsóttur áfangastaður evrópskra ferðamanna.

Viðskiptajöfnuður við Kína er Íslendingum afar óhagstæður. Þess má hins vegar vænta að að miklir möguleikar geti verið á næstu árum og áratugum fyrir íslensk fyrirtæki í Kína og í öðrum Asíulöndum. Þar á meðal er Indland sem hefur hartnær sama íbúafjölda og Kína. Meirihluti mannkyns mun brátt tilheyra millistétt og er vöxtur hennar nær allur rakinn til Asíu. Árið 2030 er gert ráð fyrir að tveir þriðju hlutar millistéttar í heiminum verði þar. Neysla þessa fjölmenna hóps eykst hratt eins og við má búast. Með sívaxandi fjölda efnafólks getur Asíumarkaður eflt mjög möguleika íslenskra fyrirtækja til að auka verðmæti útflutningsvara og fá hærra verð fyrir ferðaþjónustu; einnig til að finna nýja samstarfsaðila og fjárfesta þar á meðal á nýsköpunar-  og tæknisviði.

Ísland hefur undanfarna tæpa þrjá áratugi tekið að nokkru leyti þátt í efnahags- og viðskiptalegri samrunaþróun á meginlandi Evrópu sem grunnur var lagður að fljótlega eftir síðari heimsstyrjöld. Frá þeim tíma hefur samrunaþróunin verið fyrirferðarmikil saga á Evró-Atlantshafssvæðinu einkum þó eftir kalda stríðið þegar hún tók eðlisbreytingu sem leiddi til ESB. Þátttaka Íslands í samrunanum hefur að mestu einskorðast við aðild að innri markaðnum í gegnum EES samstarfið, sem hófst 1994. Nú kann að líða að ögurstundu í langri sögu samrunans eins og fyrr var rætt. Annarsvegar er enn hugsanlegt að samrunaþróunin leiði til sambandsríkis – sem hefur gjarnan verið talin rökrétt niðurstaða; auk þess að það er útbreidd skoðun að evran hafi leitt í ljós grundvallarveikleika í ESB sem hrindi því óhjákvæmilega í átt til sambandsríkis. Hinsvegar er því haldið fram að það sé ekki lengur mögulegt, hafi sambandsríki nokkurntíma verið raunhæfur kostur.

Hvort heldur fyrrnefndir veikleikar verða áfram við lýði í ESB eða málum lýkur með sambandsríki má ætla að þessir tveir meginkostir sem sambandið stendur frammi fyrir feli í sér að líkur á aðild Íslands að ESB minnki enn frekar. Annar kosturinn fæli í sér þátttöku í óvissuástandi og fjárhagserfiðleikum, sem virðast aukast fremur en hitt, meðan hinn kosturinn, sambandsríki, fæli í sér að smáríki hefðu enn minna að segja en áður um helstu mál í sambandinu sem nú tæki einnig til ríkisfjármála. Báðir kostirnir eru því þess eðlis að veikja enn frekar forsendur fyrir aðild Íslands, smáríkis þar sem þjóðarbúskapurinn stendur styrkum fótum í grundvallaratriðum og ber hlutfallslega litlar skuldir, og þar sem aðgangur að markaði ESB er í öllum aðalatriðum tryggður. Við bætist að hlutur ESB í utanríkisviðskiptum Íslands hefur minnkað vegna útgöngu Breta úr sambandinu. Loks er þess að vænta að vægi innri markaðar ESB í íslenskum utanríkisviðskiptum minnki enn frekar eftir því sem viðskipti vaxa milli Íslands og Asíu, en afar líklegt má telja að þau eigi eftir að aukast verulega í takt við hagvöxt og samfélagsþróun í Asíuríkjum.

Verði veruleg breyting á stöðu Íslands og samskiptum þess við umheiminn virðist ólíklegt að það ráðist í Evrópu. Líklegri til að hafa slík áhrif verður annarsvegar þróun mála í hinni nýju þungamiðju á Asíu-Kyrrahafi og samkeppni Kína og Bandaríkjanna; hinsvegar bráðnun heimskautsíss og hugsanleg opnun Norður-Íshafs af hennar völdum.

Samkeppni Kína og Bandaríkjanna á heimsvísu snertir norðurslóðir og íslensk stjórnvöld eru krafin um afstöðu til deilumála stórveldanna

Aukinn áhugi kínverskra stjórnvalda á norðurslóðum hefur birst í áheyrnaraðild þeirra frá 2013 að starfi Norðurskautsráðsins. Sérstök norðurslóðastefna Kína var gefin út 2018. Kínverska innviða- og fjárfestingaáætlunin Belti og braut nær til norðurslóða og heitir þá Silkileið norðursins (Polar Silkroad). Vísindamenn þess hafa um langt skeið stundað rannsóknir á norðurslóðum og Kína á ísbrjóta sem undanfarið hafa siglt þar á hverju ári. Þær siglingar þjóna vísindarannsóknum en er væntanlega einnig ætlað að festa Kína í sessi sem “ríki nálægt norðurslóðum” (near Arctic state), eins og þeir kalla það, sem hafi þar réttindi og hagsmuni. 

Þá hefur efnahagsleg athafnasemi Kínverja á norðurslóðum aukist mjög á síðustu árum en einskorðast næstum alfarið við norður Rússland og hratt vaxandi olíu og gasvinnslu þar. Kínverjar eru þegar stórir fjárfestar og kaupendur. Japanar kaupa einnig mikið en meirihluti afurðanna fer þó enn sem komið er á Evrópumarkað. Athafnasemi Kínverja á þessu sviði á væntanlega eftir að vaxa vegna þarfa þeirra fyrir orku og vegna aukins aðgengis í kjölfar hlýnunar Jarðar að miklum náttúruauðlindum á svæðinu. Hve hratt aðkoma Kínverja eykst er þó ekki ljóst. Þeir fá mikið af gasi og olíu annarsstaðar frá, þar á meðal frá nálægum ríkjum í Mið-Asíu.

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu hefur gætt á norðurslóðum. Það er þó með mjög takmörkuðum hætti enn sem komið er og á aðallega við stefnu Bandaríkjanna gagnvart svæðinu, sérstaklega varðandi Ísland og Grænland. Hún virðist einkum felast í að minna Kínverja á að þessi lönd séu á áhrifasvæði Bandaríkjanna.

Það að samkeppni Kína og Bandaríkjanna á heimsvísu birtist á norðurslóðum fremur í bandarískum yfirlýsingum en kínverskum er það sem vænta má. Auk þess að litið er svo á að Grænland og Ísland séu á áhrifasvæði Bandaríkjanna, eiga þau mikið land á norðurslóðum þar sem er Alaska, og þær hafa í áratugi skipt miklu fyrir þjóðaröryggishagsmuni Bandaríkjanna. Áhugi Bandaríkjahers á norðurslóðum hefur aukist á undanförnum árum og deildir hans gefið út skýrslur um hernaðarhagsmuni þar. Einnig hefur Bandaríkjaþing komið að stefnumótuninni. Herinn er hinsvegar vanbúinn að mörgu leyti til að auka verulega hernaðarumsvif á norðurslóðum almennt og á Norður-Íshafi sérstaklega. Það á við ísbrjóta en einkum herskip styrkt til siglina í hafís og nokkuð langt í að það breytist; enda tekið fram að tímaramminn sé næstu áratugir (the decades ahead). 

Á árinu 2019 komu bæði Michael Pence,varaforseti Bandaríkjanna, og Michael Pompeo, utanríkisráðherra, til Íslands – líkt og fjallað var um á þessari vefsíðu í kjölfar heimsóknanna. Heimsóknirnar voru sögulegar í samskiptum ríkjanna; afar sjaldgæft að svo háttsettir Bandríkjamenn heimsæki Ísland. Eftirtektarvert var að báðir notuðu tækifærið að miklu leyti til að tala um norðurslóðir og til að senda Kína merki um að Ísland væri á þeirra áhrifasvæði og Kínverjar ekki velkomnir.

Pence varaforseti kom til Íslands í byrjun september, skömmu eftir að Trump forseti viðraði hugmynd um að Bandaríkin keyptu Grænland af “strategískum” ástæðum. Það var í kjölfar frétta af áhuga kínverskra fyrirtækja á verktöku vegna flugvallagerðar á Grænlandi og á námavinnslu, sem hafði verið lengi í bígerð. Eitt námafyrirtækið sóttist eftir að kaupa fyrrum herskipabryggju í nágrenni námu en sagt er að dönsk stjórnvöld hafi eftir þrýsting frá Washington komið í veg fyrir það með því að taka bryggjuna úr sölu. Einnig fréttist af þrýstingi Bandaríkjastjórnar á dönsk stjórnvöld sem hefði leitt til þess að kínverskir verktakar hættu við að bjóða í fyrrnefnda flugvallagerð. 

Hve djúpt áhugi Kína á Grænlandi ristir virðist óljóst að einhverju leyti að minnsta kosti. Grænlenska landsstjórnin mun hafa sýnt frumkvæði í samskiptunum og sóst í alllangan tíma eftir kínverskum fjárfestingum til landsins. Einnig virðist hún hafa átt upptök að því að Kínverjar skoðuðu flugvallargerðina. Þá er undirbúningur að námavinnslu í öðru tilviki af tveimur á vegum ástralsks fyrirtækis með aðkomu kínverskra fjárfesta.

Hvað Ísland varðar hefur gjarnan í erlendum tímaritum og á vefsíðum verið bent á rannsóknastöð sem Kínverjar fjármagna á Kárhóli í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu til marks um ásælni þeirra a á norðurslóðum og viðleitni til að ná fótfestu þar. Á vefsíðu stöðvarinnar segir að hún sé miðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurslóðir í alþjóðlegu samstarfi, s.s. í háloftarannsóknum, rannsóknum á gufuhvolfi og veðurfræði, líf- og vistfræði, haffræði, jöklafræði, jarðfræði, rannsóknum á loftslagsbreytingum og umhverfisrannsóknum. Einnig kemur fram að stöðin sé samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana þar sem Rannís leiði samstarf íslensku aðilanna en kínverska Norðurskautsrannóknastöðin (Polar Research Institute of China) samstarf kínversku aðilanna. 

Rannsóknastöðin er í myndarlegri byggingu sem reist var fyrir hana að Kárhóli og við hlið hennar eru lágreist möstur í röðum sem tengjast væntanlega einhverjum af yfirlýstum rannsóknamarkmiðum. Þegar að er komið er greinilegt af byggingunni að um töluverða kínverska fjárfestingu er að ræða. Frágangi að utan er þó ekki að fullu lokið. Ekki er ljóst hvort og þá hvaða ályktanir má draga af málinu um hugsanlegar fyrirætlanir með rannsóknastöðinni aðrar en þær sem lúta að vísindarannsóknum og almennum samskiptum við Íslendinga. Í Íslandsheimsóknunum nefndu Pence og Pompeo ekki stöðina að Kárhóli, að minnsta kosti ekki opinberlega.  

Pence varaði Íslendinga sérstaklega við kínversku innviðaáætluninni Belti og braut en stjórnvöld höfðu fengið boð um þáttöku Íslands í henni. Áætlunin mun vera upp á jafnvirði 1300 milljarða dollara að minnsta kosti gegnum lánveitingar og fjárfestingar víða um heim. Með henni á meðal annars að tengja Kína nánar við umheiminn með uppbyggingu innviða í öðrum ríkjum, sem einkum lúta að samgöngum, flutningi á orku og fjarskiptum. 

Belti og braut áætlunin lýtur auðvitað að þörfum hagkerfis Kína sem kallar meðal annars eftir miklu af hráefnum og orku frá öðrum löndum, nýjum mörkuðum og eftir betri tengingum við nálæg ríki sem og aðra heimshluta. Tilurð og framkvæmd áætlunarinnar er jafnframt nátengd æðstu ráðamönnum í Kína og kommúnistaflokknum og hún virðist vera einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar. Kínversk ríkisfyrirtæki eru fyrirferðarmikil við framkvæmd áætlunarinnar, líkt og þau eru almennt í kínverskum þjóðarbúskap. Belti og braut áætlunin er umdeild á alþjóðavettvangi og gjarnan talin vera lykilþáttur í sýn kínverskra stjórnvalda á framtíð alþjóðakerfisins, viðleitni þeirra til að móta það og augljós þáttur í samkeppni um áhrif og ítök við önnur stórveldi, einkum Bandaríkin, en einnig Indland og Japan.

Þótt Belti og braut sé umdeild og þótt Bandaríkin hafi beitt sér gegn henni, hafa kínversk stjórnvöld samið við tugi ríkja víða um heim um þátttöku í áætluninni og samvinnu henni tengdri. Þar á meðal er tæpur helmingur ESB ríkjanna og önnur Evrópuríki. Flest Vestur-Evrópuríki hafa þó ekki gert samkomulag um þátttöku í áætluninni, né heldur Norðurlöndin. 

Í Íslandsheimsókninni þakkaði Pence stjórnvöldum fyrir að hafa hafnað boði Kínverja um þátttöku Íslands í Belti og braut. Í ljós kom að þau höfðu reyndar ekki svarað boðinu. Að fresta málinu áfram og um óákveðinn tíma yrði væntanlega ásættanlegt fyrir Bandaríkin en kynni að hafa neikvæð áhrif á samskipti Íslands við Kína þótt slíkt hafi ekki komið fram opinberlega. 

Engar sjáanlegar íslenskar þarfir kalla á þátttöku í Belti og braut. Íslendingar eru ekki í vandræðum með að útvega fjármagn til innviðaframkvæmda. Reyndar verður heldur ekki séð að brýnir kínverskir hagsmunir liggi undir. Kínverjar hafa í tengslum við Belti og braut nefnt áhuga á umskipunarhöfn á landinu, þá væntanlega vegna siglinga á norðurslóðum. Einhverjir áratugir eru þó í það, að minnsta kosti, að slík höfn verði að veruleika og þá að því gefnu að siglingaleið opnist yfir norðurheimskaut eins og fjallað verður um í öðrum hluta þessarar greinar um Ísland og umheiminn 2020-2050. Kæmi að því mundi ekki skorta áhuga erlendra fyrirtækja og fjárfesta, að því gefnu auðvitað að umskipunarhöfn á landinu uppfyllti kröfur um arðsemi. 

Eini hugsanlegur ávinningur Kínverja væri ef í samkomulagi nú um þátttöku í áætluninni fælust skuldbindingar af Íslands hálfu langt fram í tímann, eðli máls samkvæmt, sem gæfu Kína fótfestu á landinu. Má vera að það sé ætlan kínverskra stjórnvalda en væri augljóslega skuldbinding sem ástæðulaust væri fyrir Íslendinga að gangast undir. Undirtektir íslenskra stjórnvalda að svo komnu benda ekki til að það komi til greina. 

Í Íslandsheimsókninni réði Pence, varaforseti, Íslendingum eindregið frá því að eiga samstarf við kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei um uppsetningu 5G fjarskiptakerfa á Íslandi. Slíkt væri varasamt því fyrirtækinu bæri samkvæmt sérstökum kínverskum lögum að láta stjórnvöldum Kína í té upplýsingar úr fjarskiptakerfum fyrirtækisins væri þess krafist. Þetta eru lög sem munu eiga almennt við kínversk fyrirtæki og eru um starfsemi leyniþjónustu (National Intelligence Law) og um gagnnjósnir (Counter Espionage Law). 

Samkeppni Kína og Bandaríkjanna birtist meðal annars á tæknisviðinu og á eftir að gera það í auknum mæli. Bandaríkin hafa beitt stjórnir ýmissa ríkja þrýstingi vegna Huawei. Bandarísk stjórnvöld eru auðvitað að hugsa um stöðu bandarískra fyrirtækja í samkeppninni en telja einnig – og eru ekki ein um það meðal vestrænna stjórnvalda  – að tækjabúnaður fyrirtækisins kunni að verða notaður til upplýsingaöflunar, njósna, eftirlits eða annarrar íhlutunar í ríkjum sem nota hann. Bandarísk stjórnvöld segja meðal annars að leyniþjónustu- og hernaðarsamstarf við Bandaríkin verði í hættu í ríkjum sem taki búnað Huawei í notkun.

Bæði Bandaríkin og Kína hafa beitt sér gagnvart ríkjum í Evrópu og víðar í Huawei málinu. Huawei hefur náð mikilli útbreiðslu í heiminum en Kínverjar virðast standa höllum fæti hvað það varðar í ýmsum Evrópuríkjum. Nokkur þeirra hafa þegar hafnað samstarfi við Huawei, önnur sett ýmis skilyrði fyrir samstarfi.  Sumar evrópskar ríkisstjórnir bera fyrir sig áðurnefnd tengsl fyrirtækisins við kínversk stjórnvöld og horfa jafnframt til þess hvers eðlis stjórnvaldið er í Kína, hvernig það hvílir á einræði kommúnistaflokksins og tilheyrandi lögregluríki. Leyniþjónustur ýmissa Evrópuríkja hafa mælt gegn samvinnu við fyrirtækið, bent á fyrrgreind lög um skyldur kínverskra fyrirtækja gagnvart Kínastjórn; reyndar varað almennt við Kína, stjórnvöldum þess og fyrirtækjum, vegna iðnaðarnjósna og hugverkaþjófnaðar og vegna netöryggis. 

Íslensku fjarskiptafyrirtækin Nova og Vodafone nota að einhverju leyti búnað frá Huawei en næsta víst er að full þátttaka þess í þróun 5G fjarskiptatækni á Íslandi mundi af kínverskri hálfu vera talin mikill sigur í samkeppninni við Bandaríkin. Bæði stórveldin munu hafa beitt sér í málinu en íslensk stjórnvöld virðast ekki hafa gert upp hug sinn. Þó er svo að verði frumvarpsamönguráðherra um fjarskipti að lögum geta stjórnvöld útilokað Huawei á Íslandi. Frumvarpið mun samið að evrópskri fyrirmynd og felur í sér heimild til að banna búnað af ástæðum sem lúta að þjóðaröryggi. Samgönguráðherra útilokar ekki í samtölum við fjölmiðla að hann beiti heimildinni, segir að það eigi eftir að koma í ljós.

Í frumvarpinu kemur meðal annars fram að telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á að farnetskerfi á landsvísu séu eða geti orðið mjög háð búnaði frá einum framleiðanda er stofnuninni, á grundvelli öryggishagsmuna, heimilt að setja skilyrði er stuðla að fjölbreytni í gerð búnaðar eða grípa til annarra viðeigandi ráðstafana. Þá segir “Að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu getur ráðherra kveðið á um í reglugerð að búnaður í tilteknum hlutum innlendra farneta, sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins, skuli í heild eða að ákveðnu hlutfalli búnaðar vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.” 

Í þeim tilvikum þar sem Huawei hefur verið útilokað hafa kínversk stjórnvöld brugðist hart við – þó meira í orði en á borði að svo komnu. Þetta á til dæmis við hörð ummæli sendiherra Kína í Svíþjóð og hótanir af hans hálfu í garð sænskra fyrirtækja sem starfa á Kínamarkaði.

Það verður áhugavert að fylgjast með málsmeðferð og ákvörðun íslenskra stjórnvalda í Huawei málinu; sjá hvernig hún varpar ljósi á svigrúm Íslendinga með tilliti til samkeppni Kína og Bandaríkjanna.

Hvert verður svigrúm Íslands?

Eflist Kína áfram og harðni samkeppni þess við Bandaríkin, má telja líklegt að fleiri mál eins og Huawei og Belti og braut komi upp í íslenskum utanríkismálum á næstu árum og áratugum. Bæði stórveldin muni beita Ísland þrýstingi. Jafnframt hafa Íslendingar áhuga á auknum viðskiptum við Kína sem stjórnvöld þar geta auðvitað og hæglega komið í veg fyrir með allskyns hindrunum þrátt fyrir fríverslunarsamning milli ríkjanna.  Einnig er áhugi á betri aðgangi fyrir íslensk fyrirtæki að Bandaríkjamarkaði, sem bandarísk stjórnvöld geta auðvitað komið sér hjá að semja um kjósi þau það af utanríkispólitískum ástæðum. 

Aðgangur að Kínamarkaði getur falið í sér mikla möguleika fyrir íslensk fyrirtæki sem fyrr var nefnt. Kínversk stjórnvöld eru hinsvegar þekkt fyrir að nota markaðsaðgang sem vopn í deilum við önnur ríki, þar á meðal vegna pólitískra mála; svo sem við Noreg, Tékkland, Japan, Ástralíu, Filippseyjar, Suður-Kóreu, Mongólíu og Nýja Sjáland á undanförnum árum. 

Í sumum málum, eins og varðandi Belti og braut, kann að vera möguleiki fyrir Ísland að vera á hliðarlínunni eða fresta að taka afstöðu af því engir brýnir hagsmunir liggi undir. Í öðrum – líkt og varðandi Huawei – kann að gefast þrengra svigrúm eða ekkert, eftir því hvaða hagsmunamat íslensk stjórnvöld leggja á málið.

Ekki mun einungis þurfa að taka afstöðu með tilliti til íslenskra hagsmuna í málum sem koma upp í tvíhliða samskiptum við stórveldin tvö – svipað og Belti og braut og Huawei. Líklegt er að einnig komi upp önnur mál sem leiði til þess að kallað verði eftir íslenskri afstöðu. Þetta gætu orðið mál eins og samskipti stjórnarinnar í Beijing við Hong Kong, þróun mála í Tíbet og varðandi Tævan, lögsaga í Suður Kínahafi, mannréttindi í Kína, viðskiptahættir Kínverja, netöryggi, hugverkaþjófnaður, upphaf kórónuveirufaraldursins o.s.frv. Sum slík mál kunna að koma á borð í samstarfinu í NATO, önnur geta tengst samstarfinu við ESB í gegnum EES. Þá má nefna loftslagsmál, en eftir á að koma í ljós hvernig samskipti Bandaríkjanna og Kína verða í þeim efnum, hvort tekst að halda loftslagsmálum utan við samkeppni stórveldanna tveggja. Loftslagsmál, samkeppnishæfni og viðskipti eru nátengd.

Kínversk stjórnvöld stefna að því að efla ítök Kína á alþjóðavettvangi og auka áhrif þess á heimsmálin í takt við aukna burði til slíkra hluta. Eitt markmið, skiljanlega, er að fella alþjóðamálin eins og kostur er að hagsmunum Kína og gildismati kínverskra stjórnvalda; og sveigja alþjóðlegar samskiptareglur (norm) og stofnanir eins og kostur er í átt til stuðnings við stefnu Kína og stjórnarfar þar. Það er auðvitað andstætt gildismati, stefnu og hagsmunum Bandaríkjanna sem mótuðu alþjóðakerfið eftir síðari heimsstyrjöld með stuðningi bandamanna og annarra vestrænna ríkja.

Í utanríkisstefnu Kína felst að koma á nýju valdajafnvægi í heiminum þannig að veiki stöðu Bandaríkjanna. Þau munu bregðast við rísandi veldi Kína með því að beita sér af vaxandi krafti í samkeppninni en jafnramt með því að fara fram á stuðning bandamanna og safna liði að öðru leyti á alþjóðavettvangi, þar á meðal í alþjóðasamtökum og stofnunum.

Þrátt fyrir að Kínverjar búi við kapítalískt hagkerfi að mörgu leyti byggir stjórnarfarið á nútímaútgáfu af Leninisma. Það einkennist því í grunninn af valdboðsstjórn sem hvílir á einræði kommúnistaflokksins og stefna stjórnvalda miðar ekki síst að því að tryggja völd hans og velgengni heima fyrir; sem og styðja og styrkja valdboðsstjórnir utanlands. Jafnframt er rík þjóðhernishyggja í stefnu Kína, meðal annars knúin af sögu landsins á 19. og 20. öld sem Kínverjar telja, með réttu að mestu leyti, niðurlægingartímabil í sögu Kína þegar sjálfstæði þess og fullveldi var virt að vettugi með ásælni, íhlutun og hernaði erlendra stórvelda; vesturvelda og Japans. 

Stjórnarfar og stefna Kína er um margt á skjön við þær grundvallarreglur, hugmyndafræði og gildismati sem Ísland aðhyllist sem lýðræðis og réttarríki.  Af þeim sökum mun Ísland, auk þess að vera NATO ríki, væntanlega hneigjast almennt til samstöðu með Bandaríkjunum og fylgiríkjum þeirra í samkeppninni við Kína. Jafnframt verður þess freistað, líkt og mörg önnur ríki munu gera, að gæta hagsmuna í samskiptum við Kína, einkum viðskiptahagsmuna á þeim stóra og eftirsóknarverða markaði. 

Íslensk stjórnvöld munu þurfa að meta hvernig megi hámarka svigrúm Íslands þannig að þjóni íslenskum hagsmunum gagnvart báðum stórveldunum. Það kann að reynast erfiður línudans á köflum. Vegna þess að líkur eru á að Ísland standi frekar með Bandaríkjunum en Kína, þarf væntanlega að forðast að eiga mjög mikið undir á Kínamarkaði og leggja því einnig ríka áherslu á viðskipti við önnur rísandi efnahagsveldi eins og Indland og fleiri aðra markaði í Asíu en þann kínverska. 

Þótt Ísland skipti mun minna máli en í kalda stríðinu og síðari heimsstyrjöld fyrir þjóðaröryggi Bandríkjanna fela fyrrnefnd ummæli Pence og Pompeo í Íslandsheimssóknunum í sér skýr merki stórveldasamkeppni sem snertir samskiptin við Ísland. Þetta á við tilhneigingu til að líta svo á að ávinningur keppinautarins, hversu lítill sem hann kann að sýnast, hljóti að skaða mann sjálfan og veikja í samkeppninni (þetta er svonefnt zero-sum einkenni). Jafnframt er sóst eftir hylli og stuðningi ríkja, stærri sem smærri, til að styrkja eigin stöðu og loks er reynt að grafa undan keppinautnum. Með yfirlýsingum Pence og Pompeo í Íslandsheimsóknunum virtist að verið væri með dæmigerðum hætti stórvelda að senda Kínverjum merki, skilaboð um að Ísland væri á áhrifasvæði Bandaríkjanna og þeir ekki velkomnir þar.

Ísland hefði hugsanlega verulegt svigrúm gagnvart Kína og Bandaríkjunum sakir vaxandi mikilvægis norðurslóða fyrir hagsmuni stórveldanna. Það er þó óvíst og einnig má gera ráð fyrir að eftir því sem samskipti Bandaríkjanna og Kína versnuðu og meira lægi undir á norðurslóðum mundi þrýstingur á Ísland aukast. Það ætti væntanlega einkum við Bandaríkin sem mundu að líkindum leggja ríka áherslu á að gæta áhrifasvæðis síns gegn kínverskri ásælni. 

Á móti kemur að mál munu að líkindum þróast hægt á norðurslóðum, einkum framan af. Jafnvel þótt spár um bráðnun hafíss á Norður-Íshafi rætist um miðja öldina er þess ekki að vænta að alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þeirra breytinga hefjist í alvöru fyrr en eftir 10-20 ár. Íslendingar fá því ráðrúm til að undirbúa stefnumótun vel, halda möguleikum opnum, reyna að hámarka svigrúm og hugsanlegan ávinning. 

Í næsta hluta þessarar greinar um Ísland og umheiminn 2020-2050 verður fjallað um afleiðingar þess að hafísinn hörfaði svo að stefndi í að Norður-Íshaf opnaðist og Evró-Atlantshafssvæðið og Asíu-Kyrrahafssvæðið tengdust um norðurslóðir. Hver yrðu áhrif þessa á samskipti stórvelda á norðurslóðum og á siglingaleiðir og fiskveiðar? Mætti búast við aukinni hervæðingu og stórveldaspennu á svæðinu? Miklum efnahagslegum ávinningi Íslands vegna siglinga? Hver yrði staða Íslands?

Greinin tengist meðal annarra eftirfarandi greinum á vefsíðunni:

Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands https://albert-jonsson.com/2020/05/28/herskipaleidangur-i-barentshaf-breytt-stada-islands/

Áhrif Covid-19 faraldursins á alþjóðavettvangi https://albert-jonsson.com/2020/05/24/ahrif-covid-19-faraldursins-a-althjodavettvangi/

Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum? https://albert-jonsson.com/2020/01/29/er-aukin-samkeppni-milli-storvelda-a-nordurslodum/

Ísland og Bandaríkin – og norðurslóðir – og Kína! https://albert-jonsson.com/2019/10/10/island-og-bandarikin-og-nordurslodir-og-kina/

Á NATO framtíð fyrir sér eftir sjötugt? https://albert-jonsson.com/2019/04/03/a-nato-framtid-fyrir-ser-eftir-sjotugt/

Leave a comment