Eru Rússar að sigra í Úkrænu?

Stutta svarið við spurningunni er Nei, þótt rússneski herinn hafi að undanförnu náð takmörkuðu frumkvæði í stríðinu.

Það breytir því ekki að Úkræna er í þröngri stöðu. 

Á hinn bóginn hefur stríðið frá upphafi leitt í ljós grundvallar veikleika í rússneska hernum og hann hefur orðið fyrir miklu manntjóni og tapað gríðarlegum fjölda hergagna.

Bandaríkin og önnur NATO ríki geta, ef viji er til þess, snúið taflinu við á allra næstu árum með því að láta Úkrænu fá nóg af vopnum og annan nauðsynlegan stuðning – í krafti yfirburða þessara ríkja yfir Rússland. 

Hinn 8. janúar síðastliðinn talaði ég á fundi hjá Rotary Reykjavík miðborg um Úkrænustríðið og átök Hamaz og Ísraelshers á Gaza ströndinni. Eftirfarandi er í aðalatriðum það sem ég benti á varðandi stríðið í Úkrænu:

Úkrænumenn hafa ekki hernaðargetu til að reka innrásarher Rússa af höndum sér. Misheppnuð gagnsókn Úkrænuhers síðastliðið sumar bendir til að Úkrænuher verði að hafa mun meiri slagkraft en hann hefur haft hingað til. Honum þarf að berast mun meira en áður af hergögnum af flestu tagi frá Vesturlöndum og liðsmenn hans þurfa betri og lengri þjálfun en þeir hafa hlotið. Úkrænuher þarf með öðrum orðum tíma til að byggja sig upp og eiga möguleika á að sækja og sigra í stríðinu.

Hernaðarlegur stuðningur Evrópuríkja hefur verið of lítill og borist of hægt. Stuðningur Bandaríkjanna hefur skipt sköpum. Það stefnir í að hann haldi áfram á þessu ári en er óviss þegar fram í sækir vegna bandarískra stjórnmála – einkum þing og forsetakosninga í haust.

Rússar eru ekki í sterkri stöðu í stríðinu til skemmri tíma litið. Hrakför rússneska hersins í Úkrænu og á Svartahafi heldur í grunninn áfram. 

Það sem hefur breyst Rússum í vil í stríðinu er að öflugar varnarlínur þeirra hafa komið til sögu og torvelda möguleika Úkrænuhers til að sækja á vígvellinum. 

Rússar eru og þrátt fyrir allt í þeirri stöðu að hafa lagt undir sig milli 15 og 20 prósent af Úkrænu í innrásinni fyrir tæpum tveimur árum – á Krímskaga og í suður og austurhluta landsins. 

Til lengri tíma litið njóta þeir þess ennfremur að vera miklu fjölmennari þjóð en Úkrænumenn og hafa miklu stærra hagkerfi og hergagnaiðnað. 

En þeir þættir duga ekki einir sér. Eftir sem áður eru til staðar þeir alvarlegu veikleikar hjá rússneska hernum sem stríðið hefur leitt í ljós og lúta að forystu hans, skipulagi, þjálfun, aðflutningum og búnaði. Sá mikilvægi hluti hersins sem líta mátti á sem fastaher og atvinnuher virðist að miklu leyti úr leik; flestir liðsmanna hans fallnir eða særðir. Og áfram má gera ráð fyrir að landlæg spilling og vanhæfni sem af henni leiðir hái hernum og hergagnaframleiðslunni. 

Rússar eiga ekki – að minnsta kosti ekki á næstu árum – möguleika á sigri í þeim skilningi að ná upphaflegum markmiðum hvað landvinninga varðar, hvað þá leggja Úkrænustjórn að velli með hertöku höfuðborgarinnar. Það tókst þeim ekki, eins og frægt er, á fyrstu vikum innrásarinnar og urðu frá að hverfa.

En dragist stríðið á langinn án nauðsynlegs stuðnings Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja er hætta á að Úkrænu bíði með tímanum að verða almennt afar veikburða ríki og að auki með verulegan hluta landsins áfram í höndum innrásarhersins og innlendra leppa Rússa. 

Aðild Úkrænu að ESB og NATO yrði endanlega úr sögunni. Úkræna sæti í grunninn föst á rússnesku áhrifasvæði.

Í Rússlandi yrði slík niðurstaða álitin fela í sér sigur. Að koma í veg fyrir aðild Úkrænu að NATO og ESB er eitt helsta markmið Rússa.

En að ná þeim árangri væri ekki nóg því hann mundi ekki styrkja Rússland til að verða stórveldi á pari við Vesturlönd. Að því hefur verið stefnt um langa hríð – bæði í Sovétríkjunum sálugu og á tímum rússneska keisaradæmsins. Það hefur auðvitað ekki náðst en virðist útilokað í huga Kremlverja gengi Úkræna þeim úr greipum.

Enginn grundvöllur virðist fyrir friðarsamningum. Úkrænustjórn þvertekur fyrir að kaupa frið með því að gefa eftir landssvæði sem Rússar hertóku í innrásinni 2022. Ekkert bendir til að breytinga sé að vænta á stefnu Rússlands gagnvart Úkrænu. 

Bandarískir fjölmiðlar fullyrða að innan Biden stjórnarinnar megi finna þá skoðun að samingaviðræður um frið séu eina færa leiðin fyrir Úkrænu. Stuðningur Bandaríkjanna við hana hljóti að snúast um að reyna að tryggja samningsstöðu hennar gagnvart Rússum í friðarviðræðum.

Donald Trump, væntanlegt forsetaefni repúblikana, telur sig geta beitt bæði Úkrænu og Rússland þeim þrýstingi að leiði hratt til friðarsamninga.

Í báðum tilvikum yrðu Úkrænumenn að láta af hendi land til Rússa.

Tveir kostir virðast uppi:  

Annarsvegar langvarandi átök sem leiði til þess með tímanum að Rússland nái undirtökum í Úkrænu sem verði hluti af áhrifasvæði Rússa.

Hins vegar að Úkrænumenn reki Rússa af höndum sér á næstu árum með auknum stuðningi Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja.

Leave a comment