Yfirmaður Bandaríkjaflota í Evrópu var á Íslandi 30. október síðastliðinn. Í samtali við fréttamenn kom fram hjá honum að áhugi væri hjá flotanum að fá aukna þjónustu fyrir herskip í höfnum á Íslandi.
Áhugi á aðstöðu fyrir Bandaríkjaflota í höfnum á Íslandi – og einnig Grænlandi, Færeyjum og norður-Noregi – virðist vera einn þáttur af mörgum í norðurslóðastefnu sem er í mótun hjá bandaríska landvarnarráðuneytinu og deildum Bandaríkjahers. Stefnunni er beint gegn bæði Rússlandi og Kína og í henni er horft langt í norður og langt fram í tímann. Lykilforsenda lýtur að bráðnun hafíss vegna hlýnunar Jarðar og auknu aðgengi að svæðinu hennar vegna.
Einnig viðraði flotaforinginn við fréttamenn hugmynd um að sveit kafbátaleitarflugvéla yrði staðsett á Keflavíkurflugvelli. Það vekur undrun því mjög fáir rússneskir kafbátar hafa komið á hafsvæði í nágrenni Íslands á undanförnum árum. Nánar tiltekið einn á ári að meðaltali. Í kjölfar fréttamannafundar flotaforingjans sögðu reyndar hann og bandaríska sendiráðið að hugmyndir hans hefðu verið vangaveltur og jafnframt að þær hefðu ekki verið ræddar við íslensk stjórnvöld.
Flotaforinginn var Robert P. Burke, aðmíráll, sem í sumar tók við stöðu yfirmanns Bandaríkjaflota í Evrópu. Hingað kom hann frá Kaupmannahöfn og frá Þórshöfn í Færeyjum þar sem hann fór fram á að bandarísk herskip gætu fengið þjónustu í höfnum í Færeyjum og á Grænlandi svo sem til að taka eldsneyti og fá viðgerðir.
Hvað varðar óskir um aukna þjónustu og aðstöðu í höfnum á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi þá virðist það ríma við norðurslóðastefnu sem Bandaríkjaher er að móta. Um hana verður fjallað meðal annars hér á vefsíðunni i tveimur greinum á næstunni undir heitinu Ísland og umheimurinn 2020-2050.
Að baki norðurslóðastefnu Bandaríkjahers er aðallega tvennt.
Annars vegar að styrkja fælingarstefnu gegn Rússlandi bæði vegna varna Norður-Ameríku og Evrópu. Þáttur í því að halda Rússum í skefjum í Evrópu er að sýna fram á í fælingarskyni að kæmi til átaka yrði ráðist gegn Norðurflota Rússa á norðanverðu Noregshafi og Barentshafi og gegn stöðvum hans í norðvestur Rússlandi. Annað og sérstakt mál, sem flotaforinginn nefndi við íslensku fréttamennina, er deila við Rússland um rétt annarra ríkja til siglinga á norðurleiðinni svonefndu, það er siglingaleið úti fyrir norðurströnd Rússlands milli Atlantshafs og Kyrrahafs.
Hins vegar snýst norðurslóðastefnan um að halda Kína í skefjum á svæðinu og sýna að vilji og staðfesta sé bak við þá ætlan.
Bráðnun hafíss sem búist er við á næstu árum og áratugum vegna hlýnunar Jarðar er lykilforsenda í stefnunni vegna aukins aðgengis að norðurslóðum. Mest breyting yrði ef Norður-Íshaf opnaðist og þar með siglingaleið þvert yfir Norðurheimsskaut. Það er talið hugsanlegt en ekki fyrr en um og upp úr miðri öldinni.
Umsvif Bandaríkjahers á norðurslóðum – einkum flughers og flota – hafa aukist nokkuð á undanförnum árum, einkum á Barentshafi. Það á einnig við bandamenn í NATO. Umsvifin eru þó ekki mikil ennþá hvað varðar ferðir herskipa og flugvéla og eru að mestu á afmörkuðu svæði – norðanverðu Noregshafi og Barentshafi. Skiljanlega er ekki vitað jafn mikið um ferðir kafbáta frá NATO ríkjum. Þó er vitað að bandarískir kafbátar hafa á undanförum árum haft mun oftar en áður viðkomu í norður-Noregi til að fá þjónustu og vegna áhafnaskipta.
Bandaríkjafloti er vanbúinn hvað skipakost varðar til að starfa allt árið á svæðinu. Til þess skortir ísbrjóta og herskip styrkt til siglinga í hafís. Áætlun er uppi um að smíða ísbrjóta en hún er ekki komin á framkvæmdastig og smíði styrktra herskipa er heldur ekki hafin. Það eru því mörg ár í mikil umsvif Bandaríkjaflota á norðurslóðum, að minnsta kosti ofansjávar.
Í forsendum þeirrar stefnu sem er í mótun hjá Bandaríkjaher um norðurslóðir kemur fram að litið sé á þær sem mögulegan vettvang fyrir vaxandi stórveldasamkeppni og yfirgangssemi (“potential avenue for expanded great power competition and aggression”). Fram kemur að auk þess að norðurslóðir tengist áfram náið vörnum Norður-Ameríku (sem þær hafa gert í áratugi) tengi þær Asíu-Kyrrahaf og Evró-Atlantshaf, svæði sem gegni lykilhlutverki í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Tryggja þurfi að aðgang að norðurslóðum svo þaðan megi styðja við Bandaríkjaher eftir þörfum á lykilsvæðum. Takmarka þurfi getu Kína og Rússlands til að nýta norðurslóðir til að styðja við strategísk markmið þeirra með fjandsamlegum aðgerðum (“limiting the ability of China and Russia to leverage the region as a corridor for competition that advances their strategic objectives through malign or coercive behavior.”) þar á meðal með því að hefta frelsi Bandaríkjanna til siglinga og yfirflugs á norðurslóðum Ennfremur séu áfram líkur á að krísur eða átök í öðrum heimshlutum leiði til átaka á norðurslóðum (Report to Congress, Department of Defense Arctic Strategy, júní 2019, bls. 5.)
Hvað Ísland varðar kom fram í maí s.l. á þessari vefsíðu að “Ísland gegnir áfram almennu hlutverki varðandi liðsflutninga í lofti til Evrópu og stuðning við sókn NATO norður fyrir GIUK-hliðið og upp Noregshaf í hugsanlegum átökum á norðurslóðum, en þungamiðja aðgerða yrði langt fyrir norðan landið…Viðbúnaður á Íslandi yrði miklu minni á hættutíma eða í átökum, en gert var ráð fyrir í kalda stríðinu. Það sést meðal annars af forsendum í áætlunum bandaríska flughersins um viðhald og endurnýjun flughlaða á Keflavíkurflugvelli.” (Vefsíða um alþjóðamál, 28. maí 2020: Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands.) Einnig hefur verið bent á að “Sem fyrr mundu eftirlits- og kafbátaleitarflugvélar frá Íslandi – sem og eldsneytisflutningaflugvélar – að líkindum styðja við hernaðaraðgerðir NATO í norðurhöfum í hugsanlegum átökum þó þau færu aðallega fram langt fyrir norðan landið” (Vefsíða um alþjóðamál, 29. janúar 2020: Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum?)
Einn rússneskur kafbátur á ári – þarf kafbátaleitarflugsveit á Keflavíkurflugvelli?
Í samtali sínu við íslenska fréttamenn viðraði Burke möguleika á að staðsetja kafbátaleitarflugsveit á Íslandi, en henni mundu fylgja „hundruð manna, byggingaframkvæmdir og húsnæði.“„Við höfum rætt þetta sem möguleika og þetta er eitthvað til að skoða betur,“ sagði Burke samkvæmt frétt á visir.is.
Í símtali við fréttamann Vísis nokkrum klukkustundum síðar óskaði Burke reyndar eftir, eins og vefmiðillinn lýsti orðaði það, að undirstrika að hugmyndirnar sem hann lýsti væru vangaveltur og jafnframt kom fram að þær hefðu ekki verið ræddar við íslensk stjórnvöld. Það var ítrekað í yfirlýsingu frá sendiráðinu sem send var vefmiðlinum.
Burtséð frá því hvernig á málinu var haldið vekur undrun að hugmynd komi upp um að sveit kafbátaleitarflugvéla verði mögulega staðsett á Íslandi. Meðal annars og einfaldlega vegna þess hve fáir rússneskir kafbátar koma út á Norður Atlantshaf. Bandaríkjafloti hefur nú þegar þá aðstöðu sem þarf til að kafbátaleitarflugvélar geti áfram haft svipaða tímabundna og takmarkaða viðveru og þær hafa haft.
Daginn sem Burke flotaforingi hitti íslenska fréttamenn var reyndar verið að veita kafbáti eftirför frá Keflavíkurflugvelli. En það var í fyrsta sinn á árinu frá byrjun janúar. Sá kafbátur var þá á heimleið til Kolaskaga í norðvestur Rússlandi sunnan úr Atlantshafi. Honum hafði verið veitt eftirför frá Keflavíkurflugvelli í október-nóvember í fyrra þegar báturinn fór suður í haf um svæði við Ísland. Þetta virðist hafa verið eini rússneski kafbáturinn sem kom út á Atlantshaf í námunda við Ísland á árinu 2019. Um eftirförina var fjallað ítarlega í pistli um stórveldin á norðurslóðum á þessari vefsíðu 29. janúar síðastliðinn.
Einn kafbátur virðist hafa komið á svæði við landið á árinu 2014 og sömu sögu er að segja um 2017, 2018, 2019 og nú. Samkvæmt því hafa einungis 5 rússneskir kafbátar komið út á Atlantshaf á svæði í nágrenni Íslands frá því að slíkar ferðir hófust að nýju fyrir sex árum eftir langt hlé.
Fremur auðvelt er að átta sig á hvenær kafbátum er veitt eftirför frá Keflavíkurflugvelli. Til hennar þarf hóp leitarflugvéla til að halda uppi eftirlits og leitarflugi allan sólarhringinn. Þegar 3-5 flugvélar, eða fleiri, eru á Íslandi í einu er eftirför í gangi. Eftirförin nú hefur einnig náð til kafbátleitarflugvéla breska flughersins á Lossiemouth á Skotlandi og ennfremur hafa bandarískar flugvélar flogið frá Lajes á Asor eyjum sem gefur til kynna að kafbáturinn sé kominn áleiðis suður í haf. Ekki verður fullyrt auðvitað um hvort fleiri en einn kafbátur sé á ferð en væri það raunin má ætla að enn fleiri kafbátleitarflugvélar væru að störfum.
Auk þess að fylgjast með fjölda kafbátaleitarflugvéla á Keflavíkurflugvelli er það gjarnan svo að þegar þær eru að störfum kemur það gjarnan fram á twitter síðunni Mil Radar sem áhugamenn um herflug halda úti, þó ekki séu allar slíkar flugferðir skráðar. Upplýsingar um eftirförina undanfarna daga frá Keflavíkurflugvelli, frá Lossiemouth herflugvellinum á Skotlandi og frá Lajes flugvellinun á Azor eyjum má sjá hér og með því að “skrolla niður”: https://twitter.com/MIL_Radar
Hluti af skýringunni á því hve fáir rússneskir kafbátar hafa verið á ferðinni er að kafbátar af því tagi sem koma út á Atlantshaf eru fáir í Norðurflota Rússlands og fer fækkandi. Útlit er fyrir að um 2030 verði þeir jafnvel innan við tíu. Vegna viðhalds og þjálfunar er einungis helmingurinn á hafi úti hverju sinni.
Forgangsverkefni Norðurflotans er ekki á Norður Atlantshafi, heldur að verja eldflaugakafbáta hans sem eru hryggjarstykki í kjarnorkuher Rússlands. Eldflaugakafbátunum er haldið úti í Barentshafi og Norðurflotinn er að mestu þar en stundum einnig í norðanverðu Noregshafi. Til þessara staða er styst að fljúga frá norður Noregi til að leita að kafbátum enda er það gert eftir þörfum frá flugvellinum í Andöya af hálfu bæði bandarískra og norskra kafbátaleitarflugvéla
Af öllu þessum ástæðum er vandséð hvaða tilgang það hefði að staðsetja kafbátaleitarflugsveit á Keflavíkurflugvelli umfram og vægast sagt erfitt að ímynda sér með hvaða rökum flotinn mundi réttlæta mikinn kostnað þess vegna.