Flugher Bandaríkjanna stefnir á næstu árum að framkvæmdum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Fyrir liggur áætlun um þær að fjárhæð 57 milljónir dollara fram til ársins 2021 eða sem svarar til um 6.8 milljarða króna.( Construction Programs (C-1), Department of Defense Budget Fiscal Year 2020, March 2019, Office of the Under Secretary of Defense (Comptroller), State-1.) Það bætist við um 20 milljónir dollara, eða rúma 3 milljarða króna, sem bandaríski sjóherinn ætlar að verja vegna flugskýlis fyrir kafbátaleitarflugvélar á flugvellinum. Þótt næstum 80 milljónir dollara sé umtalsverð fjárhæð fela þessar áætlanir ekki í sér grundvallarbreytingu eða kaflaskipti í varnarsamstarfi Bandaríkjanna og Íslands. Bandaríkjaher er ekki að koma aftur til Keflavíkur.
Áður hefur verið fjallað hér á vefsíðunni um aðstöðuna fyrir kafbátaleitarflugvélar bandaríska sjóhersins og hér á eftir verður eingöngu rætt um áætlun flughersins. Féð, sem rennur til hennar, kemur úr sjóðum sem standa undir auknum viðbúnaði Bandaríkjahers í Evrópu samkvæmt sérstakri stefnu um að efla fælingu gegn Rússlandi. Á ensku heitir stefna Europan Deterrence Initiative og hefur verið veitt um 6 milljörðum dollara til hennar á ári (af um 700 milljarða árlegum heildarútgjöldum Bandaríkjanna til hermála). Obama stjórnin mótaði stefnuna í kjölfar þess að samskipti NATO og Rússlands versnuðu eftir að Rússar innlimuðu Krím og hófu hernaðaríhlutun í innanlandsátök í Donbass héraði í austurhluta Úkrænu. Stefnan felur í sér aukna tímabundna (rotational) viðveru hersveita og flugsveita í Evrópuríkjum og hefur einnig leitt til þess að fé hefur verið varið til viðhalds, endurnýjunar og byggingar innviða í herstöðvum og á flugvöllum. Framkvæmdirnar sem standa til á Keflavíkurflugvelli lúta að viðhaldi og endurnýjun flughlaða og akstursbrauta á öryggissvæðinu sem og að stækkun á flughlaði og byggingu á nýju hlaði. Einnig verður viðeigandi ljósabúnaður endurnýjaður. Umrædd svæði eru ekki notuð af flugvélum í almennri umferð um Keflavíkurflugvöll og því ekki hluti af viðhaldskerfi flugvallarins.
Í gögnum flughersins um áætlunina, sem birt eru á alnetinu, kemur fram að þörf sé fyrir að ráða yfir öruggri og nægri aðstöðu (infrastructure) á öryggissvæðinu svo að ætíð (24-hour operational requirement) megi taka við allt að tveimur orrustuflugsveitum. Í einni flugsveit eru á bilinu 18-24 orrustuþotur. Að auki á að tryggja að allt að tvær sveitir stuðningsflugvéla (support aircraft squadrons) geti notað aðstöðuna á öryggissvæðinu. Þar er væntanlega einkum átt við eldsneytisflutningaþotur, sem þjóna orrustuþotunum, og í hverri slíkri sveit eru yfirleitt 12 flugvélar. Þá segir í áætlun flughersins að hún muni „beinlínis bæta nýtingu á flugvellinum, efla aðstöðu þar og viðbragðsgetu og tryggja áframhaldandi og aukna notkun í framtíðinni til að styðja við tvíhliða og fjölhliða æfingar og þjálfun með bandamönnum og samstarfsaðilum.“ (This project will directly improve airfield presence, bolster airfield capability and readiness and secure continued and expanded airfield use into the future to support bilateral and multilateral exercises and training with allies and partners.) (Department of the Air Force, Military Construction Program, Fiscal year (FY) 2018 Budget Estimates, Justification Data Submitted to Congress, May 2017, bls. 261-262.)
Í aðalatriðum er í fyrsta lagi um að ræða viðhald og endurbætur á akstursbrautum og flughlöðum sem og ljósabúnaði. Þessi hluti verður unnin í ár. Í öðru lagi verður útbúið svæði fyrir búðir (Beddown Site) fyrir færanlegt lið og búnað. Þetta er skipulagt í færanlegum einingum sem kallast Deployable Air Base Systems og hver slík eining felur í sér skýli – tjöld og gáma – til íbúðar og fyrir ýmiskonar starfsemi, rafala, farartæki, vinnuvélar, birgðir af ýmsu tagi o.s.frv. Þessar færanlegu einingar eru annaðhvort fluttar með hraði til staða þar sem þeirra er þörf eða búnaðinum komið fyrir þar þannig að einungis þurfi að flytja þangað flugvélar og mannskap. Í þriðja lagi ráðgerir flugherinn að stækka flughlað svo taka megi við umræddum flugvélafjölda. Sem fyrr segir er stefnt að því að þessum framkvæmdum öllum verði lokið á árinu 2021.
Í skýringum við áætlunina kemur fram að umrætt viðhald sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir frekari skemmdir og niðurníðslu flughlaða og akstursbrauta, en einnig er ljóst að um nýframkvæmdir er að ræða sem lúta að stækkun á flughlaði og svæði fyrir herbúðir.
Fram kemur að áætluninni sé ætlað að styðja við fyrrnefnda fælingarstefnu í Evrópu sem og þann þátt í henni sem nefnd er Operation Atlantic Resolve. Hann felst í því að halda úti tímabundið hersveitum, þar á meðal flugssveitum, í ýmsum Evrópulöndum, þó einkum Eystrasaltsríkjunum, Pólandi, Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjalandi.
Þá er ljóst að áætlun flughersins varðandi Keflavíkurflugvöll hefur hernaðarlega þýðingu sem lýtur að viðbúnaði á Íslandi á hugsanlegum hættutíma eða í átökum. Um þá hlið mála var fjallað hér á vefsíðunni í október síðastliðnum í færslu um heræfinguna Trident Juncture 2018 og hernaðarlega þýðingu norðurslóða. Einnig í ritgerðinni Hernaðarlega staða Íslands í sögu og samtíma, sem var birt á vefsíðunni í mars 2018.
Áætlun flughersins nú felur ekki í sér að áhugi Bandaríkjahers á Íslandi sé að taka grundvallarbreytingu. Fyrst og fremst virðist verið að viðhalda almennu hlutverki Íslands varðandi liðsflutninga í lofti til Evrópu og hlutverki þess í hugsanlegum átökum á norðurslóðum. Þungamiðja þeirra yrði að líkindum langt fyrir norðan landið. Þá eru forsendur áætlunarinnar að miklu minni að umfangi en þær sem uppi voru í kalda stríðinu varðandi liðsaukaáætlanir vegna Íslands og fyrirætlanir í nágrenni þess (Sjá Albert Jónsson, Ísland, Atlantshafsbandalagið og Keflavíkurstöðin, Öryggismálanefnd 1989).
Pingback: Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum? – Alþjóðamál og utanríkismál
Pingback: Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands – Alþjóðamál og utanríkismál