Fall Sovétríkjanna fyrir 30 árum batt enda á áhrif Íslands í heimsmálum


Fyrir þremur áratugum lauk hálfrar aldar tímabili þegar Ísland tengdist beinlínis þróun heimsmálanna og hafði áhrif á þau. Þetta einstaka skeið í Íslandssögunni hófst með hernámi Breta á Íslandi í maí 1940 og falli Frakklands nokkrum vikum síðar undan sókn þýska hersins, og því lauk 1991 þegar Sovétríkin leystust upp og voru formlega lögð niður 26. desember á því ári. 

Lega Íslands á Norður-Atlantshafi réði mestu um þátt landsins í þróun mála, en einnig komu til íslenskar ákvarðanir um herverndarsamning við Bandaríkin 1941, aðild að stofnun NATO 1949 og um varnarsamning við Bandaríkin 1951.

Staða Íslands var aðallega undir því komin að stórveldi gæti hugsanlega náð að verða ráðandi á meginlandi Evrópu og í kjölfarið ógnað Norður Atlantshafi og Norður Ameríku. 

Þessi möguleiki er horfinn. Hann fólst fyrst í uppgangi Þýskalands í fyrri heimsstyrjöld, en einkum voru það þó Þýskaland nasismans og Sovétríkin sem gátu hugsanlega náð á sínum tíma að drottna yfir Evrópu og sækja þaðan út á Atlantshaf og að vesturhveli Jarðar.

Ógn af því tagi gerði Ísland ómissandi fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna en fól einnig í sér að löndin tvö áttu sameiginlega öryggishagsmuni. Drottnun stórveldis yfir meginlandinu hefði fyrr en síðar leitt til styrjaldar á Atlantshafi milli þess og Bandaríkjanna – og óhjákvæmilega til átaka um Ísland.

Í síðari heimsstyrjöld skiptu bækistöðvar bandamanna á Íslandi miklu í orrustunni um Atlantshaf, sem hafði grundvallaráhrif á gang styrjaldarinnar við Þýskaland. Í kalda stríðinu hafði lega Íslands og Keflavíkurherstöðin þýðingu fyrir fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO gegn Sovétríkjunum; mesta á níunda ártugnum þegar Ísland varð lykilstaður fyrir stefnuna og í stórfelldum áætlunum um hernað gegn Sovétríkjunum frá norðurhöfum ef til átaka kæmi.

Rússland er ekki og verður ekki stórveldi í líkingu við Sovétríkin og eftir fall þeirra skipti Keflavíkurherstöðin ekki máli fyrir þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Enda stóð til að leggja stöðina niður að mestu leyti fljótlega eftir að Sovétríkin voru horfin. Henni var ekki lokað fyrr en 2006, en það réðist af stefnu og aðgerðum íslenskra stjórnvalda.

Litlar líkur eru á því að Bandaríkjaher hafi aftur fasta viðveru á Íslandi á friðartímum. Áhugi hersins á Íslandi kviknaði á ný á árinu 2014 af því þá kom rússneskur kafbátur út á Norður-Atlantshaf og í námunda við landið í fyrsta sinn í mörg ár. Áhuginn nú hefur leitt til tímabundinnar viðveru á Keflavíkurflugvelli, einkum kafbátaleitarflugvéla. Aðallega hefur verið um þjálfun og æfingar að ræða því umferð rússneskra kafbáta og önnur rússnesk umsvif hafa verið lítil í námunda við Ísland. Þar til í ár hafði enda fátt borið til tíðinda í hernaðarlegum öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið og ekkert nýtt gerst í þeim efnum. Nú virðist hins vegar að Keflavíkurflugvöllur sé meðal nýrra útstöðva í ýmsum löndum fyrir tímabundna viðveru langdrægra sprengjuflugvéla bandaríska flughersins. Um það er fjallað í grein sem birtist á vefsíðunni 16. nóvember 2021.

Af því tilefni að 30 ár eru frá falli Sovétríkjanna er hér birtur hluti af grein, sem var á vefsíðunni 4. mars 2018 og bar heitið Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma. Greininbyggði á samnefndri ritgerð eftir höfund vefsíðunnar. Í ritgerðinni eru meðal annars dregin fram þau umskipti sem urðu á stöðu Íslands með falli Sovétríkjanna fyrir 30 árum, og fjallað um áhrif þess á varnarsamstarfið við Bandaríkin og á aðdragandann að því að Keflavíkurherstöðin var lögð niður 2006.

Eftirfarandi er umræddur hluti úr greininni frá 2018:

“Á tuttugustu öldinni hófu Bandaríkjamenn þrisvar bein afskipti af öryggismálum í Evrópu. Fyrsta íhlutunin kom í fyrri heimsstyrjöld á árinu 1917, þegar útlit var fyrir að Þýskaland sigraði. Slík grundvallarbreyting á uppbyggingu alþjóðakerfisins og valdajafnvægi á meginlandinu var talin mundu leiða til þess á endanum að vesturhveli jarðar og öryggi Bandaríkjanna yrði ógnað.

Sama átti við í síðari heimsstyrjöld þegar fall Frakklands í júní 1940 leiddi til þess að þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna breyttist í grundvallaratriðum. Eftir að Frakkland var úr leik gat Þýskaland ógnað Bretlandi, sótt enn frekar en orðið var út á Atlantshaf og í kjölfarið orðið ógn við vesturhvel. Þótt stjórnmál í Bandaríkjunum kæmu í veg fyrir beina þátttöku þeirra  í stríðinu  voru útgjöld til hermála margfölduð og sett lög um almenna herkvaðningu. Bandaríkin hófu og haustið 1940 stórfelldan stuðning við Breta með því að senda þeim hergögn og vistir og, örfáum mánuðum síðar, með því að lána þeim í stað þess að krefjast staðgreiðslu fyrir vopn og vistir. Bandaríkjamenn byrjuðu ennfremur að fikra sig inn í átökin á Atlantshafi sem leiddi til þess meðal annars að bandarískar hersveitir voru sendar til Íslands sumarið 1941.

Eftir síðari heimsstyrjöld voru Sovétríkin nálægt því að ná ráðandi stöðu í Evrópu. Þetta leiddi til róttækrar breytingar á stefnu Bandaríkjanna, sem stofnuðu Atlantshafsbandalagið, hófu að halda stóran her á friðartímum og halda úti miklu liði í bandarískum herstöðvum í Evrópu. Markmiðið var að halda aftur af útþenslustefnu Sovétstjórnarinnar og fæla hana frá því að hefja átök við vesturlönd.

Þegar kalda stríðinu lauk með  hruni kommúnismans og Sovétríkjanna varð aftur grundvallarbreyting, en nú í þá veru að ekki stóð lengur ógn af stórveldi á meginlandinu. Lykilforsendur þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna í kalda stríðinu hurfu. Það leiddi til þess að þau minnkuðu stórlega herlið sitt og umsvif í Evrópu og gerðu róttækar breytingar á stærð og starfsemi Bandaríkjahers að öðru leyti til að laga hann að gerbreyttum aðstæðum.

Stórstíg þróun í hernaðartækni hafði og áhrif á þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á tuttugustu öld. Í síðari heimsstyrjöld gátu langdrægar flugvélar sótt sífellt lengra út á Atlantshaf frá meginlandi Evrópu. Í kalda stríðinu gátu flugvélar og eldflaugar borið kjarnavopn frá Sovétríkjunum norðurleiðina til skotmarka í  Norður Ameríku.

Ísland vakti ekki áhuga Bandaríkjamanna í fyrri heimstyrjöld, enda fór hernaðurinn á Atlantshafi fram á austurhluta þess.

Á fyrstu mánuðum síðari heimsstyrjaldar náðu umsvif þýskra kafbáta og skipa vestur til Íslands og Grænlands og flugvélar höfðu margfalt flugþol á við það sem áður var. Það var þó ekki fyrr en stóraukin ógn var talin steðja að Bretlandi og Atlantshafi eftir fall Frakklands sumarið 1940 að Ísland birtist í bandarískum hernaðaráætlunum. Stjórnmál í Bandaríkjunum áttu þátt í að bandarískar hersveitir héldu til Íslands sumarið 1941, en gerbreytt staða á meginlandi Evrópu og áhrif hennar á öryggi vesturhvels voru undirliggjandi ástæður. Í styrjöldinni var landið í lykilhlutverki í orrustunni um Atlantshaf og vegna stórfellds ferjuflugs og annarra loftflutninga frá Bandaríkjunum til Evrópu.

Í kjölfar seinni heimsstyrjaldar varð Ísland útvörður vesturhvels. Nú voru það Sovétríkin, sem gátu náð drottnandi stöðu á meginlandinu og við því varð að bregðast. Áhugi Bandaríkjanna af þessum sökum á að halda úti liði og flugvélum á Íslandi leiddi til varnarsamningsins 1951. Tilkoma langdrægra flugvéla sem gátu borið kjarnavopn hafði einnig mikil áhrif á stefnuna á þessum tíma.

Í kalda stríðinu var Ísland lykilstaður fyrir varnir vesturhvels og Vestur-Evrópu. Auk loftvarna tengdist landið upp úr miðjum sjöunda áratugnum í vaxandi mæli vörnum þessara staða gegn sovéskum eldflaugakafbátum sem héldu til í Atlantshafi með eldflaugar sem báru kjarnaodda.

Eftir því sem sovéska norðurflotanum óx ásmegin jókst ógn frá kafbátum hans, herskipum og flugvélum við herflutninga yfir Atlantshaf til Evrópu. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands fór enn vaxandi fyrir áætlanir NATO og fælingarstefnuna gagnvart Sovétríkjunum. Flutningaleiðir yfir Atlantshaf voru taldar mundu skipta sköpum fyrir örlög Evrópu í styrjöld. Ísland tengdist þannig náið þeim grundvallarhagsmunum sem voru í húfi fyrir Bandaríkin og önnur NATO ríki á meginlandinu, sem aftur var nátengt öryggi Bandaríkjanna og loks kjarnavopnajafnvæginu milli þeirra og Sovétríkjanna.

Tengsl Íslands við loftvarnir Bandaríkjanna urðu enn nánari en áður um og eftir 1980 með tilkomu nýrra sovéskra langdrægra stýriflauga sem gátu náð til skotmarka frá flugvélum yfir hafinu suðvestur af landinu.

Hápunkti náði hernaðarlegt mikilvægi Íslands á níunda áratugnum þegar landið hefði í hugsanlegum átökum gegnt lykilhlutverki í stórsókn gegn sovéska flotanum í norðurhöfum og herbækistöðvum hans og sovéska flughersins á Kolaskaga.

Þessi stefna laut einkum að því að sýna sovéskum ráðamönnum með trúverðugum hætti að kæmi til átaka yrði grundvallarþáttum í herstyrk Sovétríkjanna ógnað, það er norðurflotanum, bækistöðvum hans og eldflaugakafbátum í Barentshafi.  Jafnframt yrði öryggi siglingaleiða á Atlantshafi tryggt með því að halda norðurflotanum uppteknum við að sinna því forgangsverkefni hans að verja eldflaugakafbátana, sem voru hryggjarstykki í kjarnorkuherafla Sovétríkjanna. Ennfremur yrði með þessu komið í veg fyrir að flughersstyrk norðurflotans yrði beitt gegn NATO í átökum á meginlandinu og jafnvel að Sovétherinn mundi neyðast til að senda liðsauka frá meginlandinu til norðurflotans. Af öllum þessum ástæðum var stefnan um stórsókn í norðurhöfum talin lykilþáttur í að fæla Sovétstjórnina frá því að hefja styrjöld.

Með falli kommúnismans 1989 og Sovétríkjanna 1991 hurfu lykilforsendur í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Ekki voru lengur neinir þeir öryggishagsmunir í húfi á meginlandinu sem kallaði á fasta viðveru Bandaríkjahers á Íslandi. Sama átti auðvitað við á mörgum öðrum stöðum og fækkun í liði Bandaríkjamanna á Íslandi, sem hófst strax eftir kalda stríðið, var auðvitað hluti af miklu stærri mynd og gerbreyttri stöðu í alþjóðamálum.

Þrettán ár liðu frá því að fyrir lá af hálfu Bandaríkjanna skömmu eftir kalda stríðið að aðstöðu fyrir Bandaríkjaher væri ekki lengur þörf á Íslandi nema að litlu leyti og þar til herstöðinni var lokað haustið 2006.  Það fækkaði þó hratt í Keflavíkurstöðinni fljótlega eftir kalda stríðið og reyndar voru uppi áætlanir sem fólu í sér að starfsemi hennar hefði að mestu leyti lagst niður þegar upp úr 1994.

Ástæða þess að það dróst að loka herstöðinni var andstaða íslenskra stjórnvalda, sem vildu að í landinu væru lágmarksvarnir þrátt fyrir lok kalda stríðsins og líkt og væri í öðrum NATO ríkjum. Án andófs íslenskra stjórnvalda hefðu breytingarnar á uppbyggingu alþjóðakerfisins og valdajafnvæginu á meginlandi Evrópu, sem fólust í lokum kalda stríðsins, alfarið ráðið ferðinni og leitt til þess að varnarliðið færi að mestu úr landi fljótlega eftir kalda stríðið.

Bandaríkjaher hafði eftir lok kalda stríðsins einungis áhuga á að halda úti kafbátaeftirliti frá Keflavíkurstöðinni. Því var hætt 2003 vegna þess að rússneskir kafbátar komu ekki lengur vestur fyrir Norður Noreg út á Atlantshaf. Nokkrum árum áður hafði komum kafbátaleitarvéla til Keflavíkur fækkað mjög vegna þess að rússnesk hernaðarumsvif á Atlantshafi voru nánast engin.

Frá sjónarhóli Bandaríkjanna þjónaði Keflavíkurstöðin ekki lengur öryggishagsmunum þeirra, reyndar heldur ekki hagsmunum Íslands að áliti bandarískra stjórnvalda. Stöðinni var lokað 2006 en varnarsamningurinn var áfram í gildi. Varnaráætlun Bandaríkjahers sem var gerð vegna Íslands við brottför varnarliðsins byggði á þeirri forsendu að fyrirsjáanlega steðjaði ekki hernaðarógn að landinu.

…Rússland er ekki stórveldi á hernaðarsviðinu nema vegna þess að það á kjarnavopn. Engar líkur eru því á að það verði arftaki Sovétríkjanna á meginlandi Evrópu eða yfir höfuð stórveldi þar. En það hefur yfirburði yfir nágrannaríki og er svæðisbundið stórveldi, ef svo má orða það, á áhrifasvæði sem nær til nágrannaríkja og fyrrum Sovétlýðvelda.

Áhugi Bandaríkjahers á Íslandi verður takmarkaður um fyrirsjáanlega framtíð og litlar líkur á að hann hafi hér aftur fasta viðveru á friðartímum. Forsenda þess væri að grundvallarbreytingar yrðu á uppbygginu alþjóðakerfisins og á valdajafnvægi á meginlandinu.”

Greininni á vefsíðunni 4. mars 2018, sem ofangreindur hluti er úr, fylgir hlekkur á ritgerð eftir höfund vefsíðunnar, sem hann samdi fyrir utanríkisráðuneytið á árinu 2017. Ritgerðin heitir Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma og henni fylgir ítarleg heimildaskrá.

One thought on “Fall Sovétríkjanna fyrir 30 árum batt enda á áhrif Íslands í heimsmálum

 1. Stefán Lárus Stefánsson

  Blessaður og sæll Albert
  Þakka þér fyrir slóðina á skrifin þín, sem ég les reyndar oftast nær. Mér finnst þau tímabær og mjög gagnleg á tímum þegar umræður og skrif um utanríkismál eru frekar fátækleg og almenn þekking af skornum skammti.
  Þetta á sérstaklega við um atburði nálægrar fortíðar þar sem hæst ber fall Sovétríkjanna. Þú stóðst á góðum sjónarhól á sínum tíma og kemur þeirri þekkingu sem þú öðlaðist þar vel til skila með þessum greiningum.

  Ég vil benda þér á eitt atriði sem vert væri að leiðrétta, frá minni lögfræðilegu afstöðu, sem og að ég var í Moskvu frá 1990-1994, og upplausn Sovétríkjanna blöstu þá við mér. Undir haustið 1991 var löngu orðið ljóst að Gorbatsjoff og Sovétríki væru búin að vera en út frá íslenskum hagsmunum snérust hlutirnir um viðskiptasamning Íslands og Sovétríkjanna sem fyrirtæki á Íslandi vildu klára fyrir alla muni. Sá samningur var undirritaður í Rúgbrauðsgerðinni, líklega í október 1991, en varð dauður skráfþurr pappír áður en blekið þornaði.

  Þá er ég kominn að leiðréttingunni.

  Sovétríkin leystust upp, formlega þann 8. desember 1991 í Minsk í Belarus, þegar Boris N. Jelstin forseti Rússlands, Leonid Kravchuk foseti Úkraínu og Stansilav Shushkevich forseti Belarus undirrituðu samninginn um Samveldi Sjálfstæðra Ríkja, þar sem Sovétríkin hurfu endanlega í myrkur sögunnar.

  Það var ekki hægt að hafa Sovétríki til á sama tíma og Samveldi sjálfstæðra ríkja.

  Athöfnin 26. desember í Kreml í Mosku var formleg athöfn Rússneska Sambandslýðveldisins þar sem Sovétfánin hvarf endanlega sjónum af Kremlarhöll, merkingin var formleg, en ekki lagaleg, eins og Minsksamningurinn.

  Þannig var reynsla mín af þessari ógleymanleg atburðarás 1990-1994, og varðandi íslensku hagsmunina þá tók Rússland ekki yfir viðskiptaskyldur Sovétríkjanna, sem var mér augljóst þarna, og íslensku fyrirtækin glopruðu niður það sem hefði getað verið viðskiptasamingur aldarinnar.

  En það er svo önnur saga.

  Með bestu kveðjum
  Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra

  Like

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s