Er Keflavíkurflugvöllur ný útstöð fyrir langdrægar bandarískar sprengjuþotur?

(Undanfarið hafa ekki birst greinar á síðunni sakir þess að höfundur tók að sér að leiða kosningaeftirlit á vegum Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í tvo og hálfan mánuð í Georgíu. – Sjá m.a. https://www.osce.org/odihr/elections/georgia/496309)

Aðstæður í öryggismálum á svæðum í námunda við Ísland gerbreyttust eftir kalda stríðið og hernaðarumsvif þar hafa verið lítil eins og fram hefur komið í greinum á þessari vefsíðu um þau efni og það sem ræður þeim. Norðurflotinn rússneski er margfalt minnni en sovéski forverinn. Á því verða ekki breytingar. Að auki hafa þarfir Norðurflotans breyst þannnig að hann fer takmarkað út á Atlantshaf. Litlar líkur eru á að skip og kafbátar flotans, eða langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar, verði þar aftur á ferð í umtalsverðum mæli. 

Enda hefur lítið borið til tíðinda í hernaðarlegum öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið og ekkert nýtt gerst í þeim efnum.

Þar til í ágúst 2021 – Að því er virðist.

Hinn 23. ágúst komu þrjár langdrægar sprengjuþotur bandaríska flughersins af gerðinni B-2 Spirit til Keflavíkurflugvallar. Þær dvöldu á öryggissvæðinu á vellinum til 11. september og flugu þaðan til æfinga. Flugvélar af þessari gerð höfðu ekki komið til Íslands áður með einni undantekningu, þegar slík vél hafði skamma viðdvöl á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2019 til að æfa eldsneytistöku. 

Dvöl sprengjuflugvélanna á Keflavikurflugvelli virðist samkvæmt yfirlýsingum Bandaríkjahers og ummælum fulltrúa hans boða nýtt og aukið hlutverk Íslands í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO. Íslensk stjórnvöld hafa ekki staðfest að svo sé og þau hafa að svo komnu tjáð sig með öðrum og mun almennari hætti en talsmenn Bandaríkjahers um dvöl B-2 sprengjuflugvélanna á landinu.

Áratugum saman hefur lykilatriði í stefnu Bandaríkjanna og NATO verið að kæmi til styrjaldar yrði ráðist á her Sovétríkjanna og síðar Rússlands meðal annars með langdrægum bandarískum sprengjuflugvélum frá norðurslóðum. Varnarviðbúnaður sovéska hersins tók mið af þessu og sama á við viðbúnað Rússlandshers, þar á meðal Norðurflotans.

Á sjötta áratugnum var gert ráð fyrir í bandarískum hernaðaráætlunum að Keflavíkursherstöðin yrði áningarstaður langdrægra sprengjuflugvéla og eldsneytisflugvéla þeirra í hugsanlegri styrjöld við Sovétríkin. Þótt samið væri sérstaklega um allmikil umsvif í æfingaflugi sprengjuflugvéla á landinu voru þær lítið hér. Í lok áratugarins þegar öflugri sprengju- og eldsneytisflugvélar voru komnar til sögu ásamt langdrægum eldflaugum sem báru kjarnavopn var Keflavíkurstöðin tekin út úr áætlunum að þessu leyti. Nú kemur Ísland við sögu á ný.

B-2 þoturnar þrjár komu til Keflavíkurflugvallar beint frá Whiteman flugherstöðinni í Missouri í Bandaríkjunum. Komu þeirra má rekja til breyttrar stefnu bandaríska flughersins varðandi langdrægar sprengjuflugvélar. Aðdragandi hennar nær aftur til 2018 en ný stefna tók formlega gildi í apríl 2020. Hún lýtur að úthaldi langdrægra sprengjuþota flughersins, sem hafa fast aðsetur í herstöðvum í Bandaríkjunum. Eftir breytinguna verður þeim haldið úti í auknum mæli utan Bandaríkjanna með tímabundinni dvöl á ýmsum stöðum í Miðausturlöndum, Asíu og Evrópu. Í Evrópu hafa þeir staðir verið á Bretlandi en einnig á Spáni og í Noregi. 

Keflavíkurflugvöllur er ný útstöð í þessu fyrirkomulagi að sögn bandaríska flughersins (“new forward operating location” – Defense Visual Information Distribution Service, 09.20 2021.). Jafnframt hefur komið fram að engar áætlanir séu uppi um meira en tímabundna dvöl langdrægra sprengjuflugvéla á Íslandi með tilheyrandi mannskap og búnaði líkt og í ágúst og september síðastliðnum. Herstöð við Fairford í Bretlandi verði áfram helsta útstöð slíkra flugvéla Evrópu. Þar er enda sérstök aðstaða fyrir sprengjuflugvélar Bandaríkjahers meðal annars í flugfskýli þar sem sinna má mjög sérhæfðu viðhaldi á B-2 sprengjuþotum. Það lýtur meðal annars að því að halda við lagi af viðkvæmu efni sem þekur flugvélarnar og er þáttur í að gera ratsjám erfitt um vik að greina þær – þ.e. gera þær “torséðar” (stealthy).

Áætlanir um Keflavíkurflugvöll sem nýja útstöð fyrir sprengjuflugvélar passa vel við yfirstandandi endurbætur á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir eldsneytisflugvélar, sem þaðan yrðu gerðar út á hættu- og stríðstímum til stuðnings herflugvélum af ýmsu tagi. Stækkun flughlaða og annarrar aðstöðu í þessu skyni er í gangi og tilheyrandi eldsneytisbirgðastöð hefur verið í undirbúningi.

Yfilýst markmið með hinni breyttu stefnu um úthald langdrægra sprengjuflugvéla utan Bandaríkjanna er að auka hernaðargetu og trúverðugleika fælingarstefnu Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á heimsvísu. Kína og Rússland eru nefnd sérstaklega. Með framkvæmd nýju stefnunnar sé andstæðingum sýnt fram á að flugherinn geti eftir þörfum og hentugleikum beitt langdrægum sprengjuflugvélum frá ýmsum ólíkum stöðum og þannig að andstæðingar sjá ekki fyrir hvar flugvélar kunna að verða staðsettar. Með þessu megi hafa flugvélakostinn “kvikan” (agile) og hefur sú hlið stefnunnar sérstakt heiti – “Agile Combat Employment”. Það flæki áætlanir andstæðinga og geri þeim erfiðara fyrir að ráðast á flugvélar flughersins á jörðu niðri. Vaxandi ógn sé frá eldflaugum, langdrægum stýriflaugum og flaugum sem verið er að þróa til að fljúga á ofurhraða (hypersonic). Vegna ógnar frá þessum vopnum við stöðvar flughersins á stefnan í átt að “kvikari” flugher einnig við úthald orrustuþota, eldsneytisflugvéla og ratsjárflugvéla.

Dvöl sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli tengist þessari stefnu og einnig er sérstaklega bent af hálfu flughersins á að dvöl þotanna þjóni markmiðum herstjórnar NATO í Evrópu. Ennfremur hefur norðurslóðastrategía bandaríska landvarnaráðuneytisins verið nefnd í þessu samhengi.  Loks lýtur mikilvægur þáttur þess að halda tímabundið úti sprengjuþotum utan Bandaríkjanna að þjálfun og hærra viðbúnaðarstigi ásamt því að æfa með flugherjum bandamanna. B-2 flugvélarnar flugu frá Íslandi til æfinga yfir hafinu meðal annars með orrustuþotum breska og norska flughersins og með bandarískum orrustuþotum sem hafa aðsetur í herstöð á Bretlandi. 

Aðrar sprengjuþotur sem sendar eru til tímabundinnar dvalar utan Bandaríkjanna eru af gerðinni B-52 og B-1. Bandaríkjaher ræður yfir samtals tæplega 160 langdrægum sprengjuþotum. Þegar slíkar flugvélar eru gerðar út til tímabundinnar dvalar á stöðum utan Bandaríkjanna er talað um “verkefnissveit sprengjuflugvéla” (Bomber Task Force). Sveitinni sem hingað kom fylgdi 200 manna lið og flutningaflugvélar og hún fékk ennfremur stuðning bandarískra eldsneytisþota frá Bretlandi. 

Allar þrjár tegundir langdrægra sprengjuflugvéla Bandaríkjahers eru gerðar til að bera sprengjur af ýmsu tagi sem og stýriflaugar. Allar tegundirnar geta borið kjarnavopn.

Koma B-2 flugvélanna og – að því er virðist – frekari tímabundin dvöl langdrægra bandarískra sprengjuflugvéla á Íslandi í framhaldi af komu B-2 vélanna fellur að hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO vegna öryggis á meginlandi Evrópu. Hún fellur einnig að vaxandi áherslu Bandaríkjahers á norðurslóðir og loks þeirri stefnu hans um áratuga skeið – og fyrr var nefnd – að í stríði yrði langdrægum sprengjuflugvélum beitt til árása frá norðurslóðum gegn sovéska hernum og nú þeim rússneska.

Dvöl B-2 sprengjuþotanna á Keflavíkurflugvelli telst til verulegra tíðinda í öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið. Fremur lítil umfjöllun varð þó um málið og engin umræða hefur orðið – a.m.k. ekki opinberlega. 

Það sem komið hefur fram í þessari grein um komu B-2 þotanna og hvernig hún tengist áætlunum og markmiðum Bandaríkjahers og NATO er byggt á yfirlýsingum bandaríska flughersins og ummælum foringja í honum.  Af hálfu íslenskra stjórnvalda hafa að svo komnu einungis birst almenn ummæli utanríkisráðherra í frétt Morgublaðsins 8. september síðastliðinn.

„Þetta er í sam­ræmi við það sem er að ger­ast í ör­ygg­is­mál­um í Evr­ópu og hér á þessu svæði. Æfing­ar sem þess­ar hafa verið að fara fram í Evr­ópu að und­an­förnu,“ út­skýr­ir Guðlaug­ur og seg­ir að vera vél­anna hér sé hluti af gisti­ríkj­astuðningi Íslands við bandalagsþjóðir okk­ar, en vél­arn­ar æfa nú á norður­slóðum. „Það skipt­ir máli fyr­ir okk­ur að hér sé æft reglu­lega og það ör­ygg­is­net sem við reiðum okk­ur á þekki vel til aðstæðna…Okk­ar varn­ir byggj­ast fyrst og fremst á veru okk­ar í Atlants­hafs­banda­lag­inu og tví­hliða varn­ar­samn­ingi við Banda­rík­in. Þess vegna erum við með búnað og aðstöðu hér, til að taka á móti þeim aðilum sem þurfa að sinna vörn­um. Aðkoma Íslands að þess­um æf­ing­um felst fyrst og fremst í gisti­ríkj­astuðningi en starfs­fólk Land­helg­is­gæsl­unn­ar og starfs­stöðvar Atlants­hafs­banda­lags­ins á ör­ygg­is­svæðinu á Kefla­vík­ur­flug­velli kem­ur að æf­ing­unni” 

Blaðamaður Morgunblaðsins spurði: “Er þetta nýr raun­veru­leiki sem við eig­um að venj­ast? Að hér séu sprengjuflug­vél­ar við æf­ing­ar? Svar utanríkisráðherra var að „Við þekkj­um það að út af stór­aukn­um víg­búnaði á þessu svæði erum við að sjá aukn­ingu til varn­ar­mála í öll­um lönd­um sem við ber­um okk­ur sam­an við. Aukn­ing­in er mest, frá fyrri heims­styrj­öld, hjá Sví­um til dæm­is. Það sama má segja um Nor­eg og hin Norður­lönd­in. Þetta end­ur­spegl­ar þá stöðu sem er uppi. Öll lönd í Atlants­hafs­banda­lag­inu hafa stór­aukið fram­lög sín á und­an­förn­um árum. Vendipunkt­ur­inn var árið 2014 eft­ir at­b­urðina á Krímskaga.Það er raun­veru­leik­inn sem við horf­um fram á. Þetta er breytt um­hverfi og banda­lags­ríki okk­ar hafa brugðist við eins og við.”

Spurningar sem vakna

Ekki hefur verið greint frá því hvernig koma B-2 þotanna bar að íslenskum stjórnvöldum – eða hvert verði framhald mála umfram það sem ráða má af þeim upplýsingum hafa komið frá bandaríska flughernum. 

Í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands, sem hefur með öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli að gera, sagði við komu sprengjuþotanna að þær yrðu á landinu “næstu daga”. Það reyndist ríflega hálfur mánuður. Bandaríski flugherinn sagði að koma þeirra hefði lengi legið fyrir (“long-planned”) og afar ólíklegt annað en að einnig hafi verið ljóst þá að þær yrðu hér lengur en í örfáa daga.

Í viðtali Air Force Magazine við Timothy M. Ray, hershöfingja í flughernum, 25. febrúar síðastliðinn sagði að margir möguleikar varðandi tímabundna dvöl sprengjuflugvéla utan Bandaríkjanna væru í skoðun. Ekki væri unnt að fara nánar út í það fyrr en gengið hefði verið frá málum við gistiríki (“until details are worked out with host countries”).

Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja frá Bandaríkjaher má ráða að Ísland hafi fengið nýtt og aukið hlutverk í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO. 

Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki staðfest að Keflavíkurflugvöllur sé ný útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar. Þau hafa tjáð sig með öðrum og mun almennari hætti en talsmenn Bandaríkjahers um komu B-2 sprengjuþotanna til landsins.

Eftir stendur því spurning um hvort Ísland sé ný útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar bandaríska flughersins eða ekki.

Heimildir

One thought on “Er Keflavíkurflugvöllur ný útstöð fyrir langdrægar bandarískar sprengjuþotur?

  1. tvhiis

    Mér þætti fróðlegt að vita hvort þetta þýðir að þyrlubjörgunarsveit komi aftur til landsins. Aukin umferð skemmtiferða-, fiski- og flutningaskipa fyrir norðan og austan Ísland, þýðir að efla verður viðbúnað þar til aðstoðar og björgunar. Nýtt varðskip “Freyja” er nú staðsett á Siglufirði, og mun aðstaða vera á palli til taka á móti litlum þyrlum og bæta á þær eldsneyti. Þyrlur kynni að þurfa nota mörg hundruð mílur úti í hafi… langt utan þjónusturadíusar lítilla þyrlna í landi. (Eru uppi hugmyndir að staðsetja þyrlu fyrir norðan eða austan?). Ég held að við þurfum alþjóðlega hjálp í framtíðinni við að rækja björgunarhlutverk vegna landhelginnar í norðri, og jafnvel ennþá lengra norður. Ætli sé til áætlun um hvernig við fáumst við t.d. eldvoða í skemmtiferðaferðaskipi (er Freyja með slökkvibúnað um borð?), með etv. 2000 gamalmenni sem farþega. Ætti ekki sjúkrahúsið á Akureyri í erfiðleikum að sinna þessu fólki eftir að búið væri að koma því til lands… væntanlega með þyrlum, ef tiltækar eru? Ef þyrlusveit kæmi með nýju langdrægu sprengiflugvélunum til Keflavíkur, gæti hún mikið hjálpað í svona tilvikum.
    Set hér krækju á bók mína “How the World will Change… with Global Warming”, sem ég gaf úr fyrir 15 árum, 2006. Hún fjallar mikið um framtíðarþróun á norðurslóðum: https://notendur.hi.is/tv/Content/Books/How%20the%20world%20will%20change%20-%20with%20global%20warming.pdf

    Like

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s