Utanríkisstefna Rússlands – Hvað ræður för?

Ráðandi þættir í utanríkisstefnu Rússlands lúta annarsvegar að því að tryggja ítök á áhrifasvæði, sem nær til fyrrverandi Sovétlýðvelda nema Eystasaltsríkjanna. Hins vegar ræður einkum för að varðveita stöðugleika og ríkisvald í Rússlandi.  Náin tengsl eru hér á milli þannig að óstöðugleiki á áhrifasvæðinu er talin fela í sér hættu á óróa í Rússlandi sjálfu og ógn við ríkisvaldið. Ennfremur er litið á áhrifasvæðið sem stuðpúða gegn utanaðkomandi ógn.

Í huga rússneskra stjórnvalda lúta þessir þættir að tilvistarhagsmunum og ógn við þá er tilvistarógn. Því breyta viðskiptaþvinganir gegn Rússum í kjölfar Úkrænudeilunnar ekki stefnu rússneskra stjórnvalda varðandi Úkrænu. Endanlegt markmið þeirra er að hafa neitunarvald yfir utanríkisstefnu Úkrænu til að koma í veg fyrir aðild hennar að NATO og ESB. Ríki á áhrifsvæðinu njóta enda ekki fullveldis- og sjálfsákvörðunarréttar.

Trump stjórnin hefur ekki breytt neinu grundvallaratriði í stefnu Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi, enda hurfu hvorki deilumál né gerólíkir hagsmunir ríkjanna við forsetaskiptin. Að áliti Moskvustjórnarinnar hafa Bandaríkin þá stefnu að styðja við innlend sundrungaröfl í Rússlandi, skáka því á alþjóðavettvangi, einangra það, og veikja efnahagslega. Einnig stefni Bandaríkjamenn á að ná hernaðarlegum yfirburðum með eldflaugavörnum.

Horfur eru því á áframhaldandi mjög stirðum samskiptum Rússlands við Bandaríkin og önnur NATO ríki, og ekki unnt að útiloka alvarlegan hættutíma í samskiptunum, jafnvel átök, vegna Eystrasaltsríkjanna, átakanna í Úkrænu, eða vegna stríðsins í Sýrlandi.

Rússneskir ráðamenn leggja mikla áherslu á kjarnorkuherstyrkinn meðal annars vegna hernaðarlegra veikleika á öðrum sviðum og til að undirstrika að þrátt fyrir þá sé Rússland stórveldi og beri að hafa slíkan sess í alþjóðamálum.

Í norðurhöfum hafa Rússar grundvallarhagsmuna að gæta, sem lúta að kjarnorkuheraflanum og öryggi hans. Alvarlegur hættutími í alþjóðamálum gæti því valdið spennu milli Rússlands og Bandaríkjanna á norðurslóðum vegna kjarnorkujafnvægisins. Í stríði yrðu hafsvæði norður og norðaustur af Íslandi vettvangur átaka milli Rússlands og Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja. Rússar mundu reyna að verja úthaldssvæði eldflaugakafbáta í Barentshafi og herbækistöðvar á Kolaskaga gegn sókn flota Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja, og reyna að koma í veg fyrir að liðsauki bærist til Norður Noregs.

Þessi atriði eru meðal þess sem kemur fram í ritgerð minni Utanríkisstefna Rússlands: helstu áhrifaþættir. Hér er krækja á ritgerðina en meginniðurstöður hennar eru eftirfarandi:

Helstu áhrifaþættir í utanríkisstefnu Rússlands, eins og hún birtist meðal annars í átökunum í Úkrænu, lúta annarsvegar að varðveislu ríkisvaldsins í Rússlandi og hins vegar að því að tryggja ítök á áhrifasvæði Rússa. Það nær til allra nágrannaríkja, það er allra fyrrverandi Sovétlýðvelda nema Eystasaltsríkjanna.

Áhrifasvæðið á sér ýmsar sögulegar og efnahagslegar skýringar en aðalatriði er að í Kreml er litið svo á að öryggi Rússlands sé háð stöðugleika á áhrifasvæðinu. Þar á meðal er að ríki á því gangi ekki ríkjum eða ríkjasamtökum utan svæðisins á hönd. Litið er á áhrifasvæðið sem stuðpúða í vörnum Rússlands gegn utanaðkomandi ógn.

Áhrifasvæðið og varðveisla ríkisvaldsins í Rússlandi eru nátengdir þættir þannig að óstöðugleiki á áhrifasvæðinu er talinn fela í sér hættu á óstöðugleika í Rússlandi sjálfu og ógn við ríkisvaldið. Ógn við þessa grundvallarhagsmuni flokkast undir tilvistarógn í augum rússneskra stjórnvalda.

Þess vegna hafa viðskiptaþvinganir sem vesturlönd hafa beitt Rússa í kjölfar innlimunar Krímar og íhlutunar í átökin í austurhluta Úkrænu ekki breytt stefnu Moskvustjórnarinar og afar ólíklegt að þær eigi eftir að gera það.

Endanlegt markmið Rússa í átökunum í Úkrænu er að koma í veg fyrir aðild landsins að NATO og ESB. Ríki á áhrifasvæðinu njóta ekki fullveldis- og sjálfsákvörðunarréttur þegar kemur að ákvörðunum um utanríkis og öryggismál þeirra eins og hefur sést bæði í Úkrænu og Georgíu. Jafnframt áskilja rússnesk stjórnvöld sér íhlutunarrétt þótt þau tali ekki þannig opinberlega. Áhrifasvæðið veldur því grundvallarágreiningi milli vesturlanda og Rússlands um meginreglur í utanríkis- og alþjóðamálum.

Í Georgíu viðhalda Rússar spennu og ágreiningi innanlands til að koma í veg fyrir að landið geti fengið aðild að NATO og ESB. Í Úkrænu er markmiðið endanlega að stjórnarskrá landsins verði breytt þannig að héruðin og þar með fólk af rússnesku bergi, sem býr aðallega í Donbass héraði í austurhlutanum, fái í reynd neitunarvald yfir utanríkisstefnunni.

Með hernaðaríhlutun Rússa í borgarastyrjöldina í Sýrlandi er höfðað með árangri til þjóðernishyggju og þjóðernisstolts almennings í Rússlandi og rennt frekari stoðum undir valdastöðu elítunnar og þar með varðveislu ríkisvaldsins.

Með íhlutuninni er unnið því að fá Rússland viðurkennt sem stórveldi, en einkum jafningja Bandaríkjanna, og sýna fram á að engin lausn verði í Sýrlandi án samþykkis Rússa. Það hefur tekist með íhlutuninni að ná þeirri stöu, en miklu skiptir í því efni að Bandaríkin hafa ekki beitt sér gegn henni nema að mjög takmörkuðu leyti.

Hvað skýrir það er ekki viðfangsefni þessarar ritgerðar, en væntanlega ræður miklu að frá sjónarhóli Bandaríkjanna lúta hvorki Úkræna né Sýrland að grundvallaröryggi Bandaríkjanna. Rússland er ekki og verður ekki arftaki Sovétríkjanna þannig að það eigi möguleika á að ná drottnandi stöðu í Evrópu og ógna öryggi Bandaríkjanna með svipuðum hætti og Sovétríkin í kalda stríðinu.

Rússnesk stjórnvöld líta svo á að vesturlönd, en einkum Bandaríkin hafi þá stefnu að skáka Rússlandi, einangra það, veikja efnahagslega, og reyna að ná hernaðarlegum yfirburðum. Þá sé reynt að skapa óánægju meðal almennings, reka fleyg milli hans og stjórnvalda í þeim tilgangi að skapa óstöðugleika til að fella stjórnina og koma að í staðinn aðilum sem fari að vilja Bandaríkjanna.

Horfur eru því á áframhaldandi mjög stirðum samskiptum Rússlands við Bandaríkin og önnur NATO ríki og jafnvel aukinni spennu. Ekki er unnt að útiloka alvarlegan hættutíma í samskiptunum, jafnvel átök, vegna Úkrænu, Eystrasaltsríkjanna eða vegna stríðsins í Sýrlandi.

Þótt Trump Bandaríkjaforseti hafi framan af hugsanlega viljað breyta áherslum í stefnu Bandaríkjanna til að bæta samskiptin við Rússa var aldrei skýrt hvað það gæti verið nákvæmlega. Og deilumálin hurfu ekki við það eitt að nýr forseti tæki við.  Áfram eru til staðar mjög ólíkir hagsmunir þessara ríkja og ólík sýn á grundvallarreglur í stjórnmálum og alþjóðamálum.

Trump stjórnin hefur heldur ekki breytt stefnu Bandarikjanna gagnvart Rússlandi í neinu grundvallaratriði. Þá stendur hún að verulegri hækkun á útgjöldum til hermála sem eykur enn almenna yfirburði Bandaríkjahers yfir þann rússneska og reyndar öll helstu ríki önnur. Vegna framferðis Rússlands undanfarin ár er því lýst sem megin andstæðingi Bandaríkjanna – ásamt Kína – í endurvakinni samkeppni stórvelda eins og það er kallað.

Efnahagslega er Rússland ekki stórveldi. Þjóðarbúskapurinn stendur einungis undir örlitlum hluta af heimsframleiðslunni. Hagvaxtarhorfur eru fremur daprar, bæði vegna þess hve mjög Rússar eru háðir útflutningi á olíu og gasi og vegna undirliggjandi vandamála, sem afar erfitt er fyrir valdhafana að bregðast við.

Rússland telst vart stórveldi í hernaðarlegu tilliti nema að því leyti að eiga kjarnorkuvopn. Þau þjóna þó illa eða alls ekki pólitískum markmiðum, en eru fyrst og síðast fælingarvopn og til þrautavara gegn tilvistarógn.

Vel er hugsanlegt að vegna ýmissa veikleika Rússlands samanborið við vesturlönd – hernaðarlega, pólitíska og enfahagslega – leggi rússnesk stjórnvöld meira en ella væri upp úr undirróðri til að reyna að veikja andstæðinga og styrkja sig í sessi. Möguleikar hafa opnast með ódýrri tækni til að beita í vaxandi mæli tölvu- og netárásum, falsfréttum, ”auglýsingum” á samfélagsmiðlum og öðrum undirróðri byggðum á tölvu og upplýsingatækni til að ná markmiðum utanlands. Meint afskipti rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016 með undirróðri af þessu tagi hafa auðvitað haft neikvæð áhrif á samskipti þeirra við Rússland og lagt af mörkum til spennu milli þessara aðila.

Ávinningur Rússa af tilraunum með tölvu og upplýsingatækni til að hafa áhrif á stjórnmál og kosningar er hins vegar harla óljós, að minnsta kosti hvað vesturlönd varðar.  Þá ber að hafa í huga að þótt Rússar hafi beitt blönduðum (hybrid) hernaði með vissum árangri á stöðum eins og Úkrænu hafa vegið miklu þyngra eldri og hefðbundnari aðferðir. Þar munar mest um þungvopnað herlið og sérsveitir.

Rússland er einungis svæðisbundið stórveldi, ef svo má kalla það, þegar litið er til venjulegra vopna. Hernaðargetan að þessu leyti er nægileg til að tryggja nauðsynleg ítök á áhrifasvæðinu og líklega einnig til að valda andstæðingi sem sækti að nágrenni Rússland eða landinu sjálfu verulegri áhættu og tjóni.

Rússneski herinn hefur verið efldur að búnaði á undanförnum árum eftir næstum tveggja áratuga vanrækslu í kjölfar falls Sovétríkjanna. Mikið af búnaði hersins er þó enn frá Sovéttímanum. Efnahagsörðugleikar í kjölfar verðfalls á olíumarkaði hafa nú leitt til minnkandi útgjalda til hermála og því hægir á endurnýjun.

Rússneski Norðurflotinn er lítill miðað við Sovéttímann og hefur takmarkaða möguleika til að athafna sig á úthafinu. Litlar líkur eru á að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð. Meginmarkmið hans er að verja hafsvæði nálægt Rússlandi með sérstakri áherslu á öryggi eldflaugakafbáta í Barentshafi og herbækistöðva á Kolaskaga. Viðbúið er að Norðurflotinn minnki enn frekar. Endurnýjun kafbáta hefur forgang og nýjar gerðir og uppfærðar eldri gerðir ráða yfir fullkomnari vopnum en flotinn hafði áður. Langdrægar flugvélar sem stundum fljúga suður á Norður-Atlantshaf eru áfram til staðar og verða að hluta endurnýjaðar.

Á norðurslóðum hafa Rússar ýmis almenn markmið með hernaðarlegum viðbúnaði og umsvifum, sem lúta að gæslu og yfirráðum þeirra yfir feiknastórri efnhagslögsögu og hagsmunagæslu utan hennar, sem og að ýmsum langtímahagsmunum.

Þá á hernaðarlegur viðbúnaður Rússa á norðurslóðum rætur í þeim grundvallarþætti í stefnu þeirra að tryggja ítök á áhrifasvæðinu og varðveita ríkisvaldið í Rússlandi og þar með öryggi lands og þjóðar.

Forgangsatriði í endurnýjun og uppbyggingu hersins sýna áherslu á að tryggja þessa hagsmuni. Annars vegar með nógu öflugum landher til að stjórnvöld í Moskvu geti haft nauðsynleg tök á áhrifasvæðinu þegar þurfa þyki. Hinsvegar með fælingarmætti langdrægra kjarnavopna.

Rík áhersla á að endurnýja eldflaugakafbáta og á að geta varið þá í norðurhöfum er til marks um hið síðarnefnda, en eldflaugar í þessum kafbátum eru stór hluti rússneska kjarnorkuheraflans. Þannig tengjast norðurslóðir afar mikilvægum strategískum hernaðarhagsmunum Rússlands og hafa gert allt frá áttunda áratug tuttugustu aldar.

Átök milli Rússlands og Bandaríkjanna eru almennt talin ólíkleg hvort heldur litið er til deilumála í Evrópu eða Miðausturlöndum. Ef alvarlegur hættutími yrði í alþjóðamálum gæti hann valdið spennu á norðurslóðum í samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna vegna kjarnorkujafnvægisins og mikilvægra hagsmuna þar að lútandi á svæðinu. Í stríði yrðu hafsvæði norður og norðaustur af Íslandi vettvangur átaka milli Rússlands og Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja. Í þeirri orrustu mundu Rússar reyna að verja úthaldssvæði eldflaugakafbáta Norðurflotans í Barentshafi og herbækistöðvar á Kolaskaga gegn sókn flota Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja, og reyna að koma í veg fyrir að liðsauki bærist til Norður Noregs frá NATO ríkjum.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s