Skrif mín sem birtust hér 7. mars, um Úkrænustríðið og íslensk öryggismál hafa vakið viðbrögð
…og það er vel. Viðbrögðin hafa aðallega birst á vefsíðu Björns Bjarnasonar (bjorn.is) 8. mars og facebook síðu Baldurs Þórhallssonar undanfarna daga. Í aðalatriðum virðast þeir telja að í kjölfar Úkrænustríðsins sé nauðsyn á varanlegri viðveru herafla á Íslandi í fælingar og varnarskyni.
Í þessum skrifum, sem birtust 7. mars, bendi ég í grunninn á að Úkrænustriðið – og þá eins og það fer fram en ekki ef svo illa færi að það breiddist út og yrði að stórveldastyrjöld – boði ekki tímamót í íslenskum öryggismálum sem kalli á fasta viðveru. Engin hernaðarleg ógn steðji að Íslandi fyrr en í ólíklegu stórveldastríði – þriðju heimsstyrjöld eins og kallað er – og þá mundi ógnin beinast að Keflavíkurflugvelli, sem að líkindum yrði fyrir árás rússneskra stýriflauga sem skotið yrði af stað í 3000-5000 kílómetra fjarlægð frá landinu.
Líkur á að Rússar leggðu í stórveldastyrjöld í árásarleiðangur gegn Íslandi langt úti á Atlantshafi – þar sem rússnesk hernaðarumsvif hafa verið mjög lítil undanfarin ár og nánast engin 2021 – væru hverfandi litlar. Eini staðurinn á Íslandi sem skipta mundi Rússa máli í stríði við NATO væri Keflavíkurflugvöllur og þeir mundu reyna að setja hann úr leik með áðurnefndum stýrifaugum. Í aðdraganda slíkrar styrjaldar mundu Bandaríkin gera ráðstafanir til að verja Ísland gegn stýriflaugaógn með orrustuþotum og ratsjárþotum.
Í umræddum skrifum er ég eingöngu að tala um hernaðarlega ógn, og þessa einu ógn, sbr. fyrirsögnina “Ekki til staðar hernaðarleg ógn við Ísland …með einni undantekningu”. Undantekningin lýtur að Keflavíkurflugvelli eins og fram hefur komið.
Aðrar ógnir, sem Baldur Þórhallsson nefnir, svo sem hryðjuverkaógn, eru annars eðlis en hernaðarógn af því tagi sem ég miða við – hefðbundin hernaðarleg ógn – og herlið á Íslandi hefði ekki áhrif á hryðjuverkaógn, hvað þá á öryggi sæstrengja eða á netöryggi. Ríki sem eiga volduga heri verða þrátt fyrir það fyrir hryðjuverkaárásum og netárásum. Þær ógnir heyra í aðalatriðum undir aðra aðila en heri.
Ég vil ekki orðlengja en bendi á vefsíðuna og greinar á henni sem snerta öll þessi atriði.
Björn Bjarnason bendir á að ég hafi á sínum tíma farið fyrir viðræðum við Bandaríkjamenn til að fylgja fram þeirri stefnu ríkisstjórnar Íslands að ekki yrði bundinn endir á fasta viðveru bandaríska varnarliðsins í herstöðinni í Keflavík – og gefur mér það kompliment að ég hafi sýnt “rökfestu og harðfylgi” í þeim. Björn spyr hvort nú sé minni þörf á varanlegri viðveru herafla á Íslandi en fyrir 20 árum.
Viðræðurnar um varnarliðiðið snerust í grunninn um þá kröfu af Íslands hálfu að lágmarksloftvarnir yrðu á landinu. Viðræðurnar byggðu á því að engin hernaðarógn stæði að Íslandi frá tilgreindum aðila. Krafa íslenskra stjórnvalda laut enda ekki að því heldur að á Íslandi ættu að vera lágmarksloftvarnir gegn óþekktum ógnum, 4-6 orrustuþotur. Þetta var eina krafan um fasta viðveru og við bentum henni til stuðnings á að önnur NATO ríki hefðu svipaða stefnu enda ekki lagt niður loftvarnir sínar þrátt fyrir fall Sovétríkjanna og þótt Rússland væri langt í frá hernaðarlegur arftaki þeirra.
Aðstæður eru auðvitað allt aðrar nú nema að því mikilvæga leyti að Rússland er sem fyrr ekki arftaki Sovétríkjanna á hernaðarsviðinu og alls ekki úti á Norður Atlantshafi. En Rússar eiga ný vopn sem bæta fyrir þann veikleika meðal annarra. Það eru áðurnefndar langdrægar stýriflaugar sem gætu náð til Íslands frá nærsvæðum Rússlands og jafnvel heimahöfum þess.
Fast herlið á Íslandi mundi engu breyta um þessa hernaðarlegu ógn sem steðja mundi að Íslandi í stórveldastyrjöld. Ráðstafanir til að reyna að fást við hana yrðu gerðar sem fyrr sagði af hálfu Bandaríkjahers í aðdraganda slíkra átaka. Ekki er ástæða til að ætla annað.
Ég hvet sem fyrr til umræðu um öryggismál Íslands – og hef reynt að leggja til hennar undanfarin ár með vefsíðu minni og facebook hópi.
En ég er áfram á þeirri skoðun að stríðið sem nú geisar í Úkrænu gefi ekki tilefni til þess að endurskoða íslensk öryggismál í hernaðarlegu tilliti og að hér þurfi fast herlið þess vegna.
En hvað segja ábyrgðarmenn varnarsamningsins? Hvert er þeirra hættumat fyrir Ísland?
Telja bandarísk hermálayfirvöld að þörf sé á varanlegri viðveru herafla á Íslandi og þá hverskonar herafla og til hvers? Fróðlegt væri að vita.
Hér er hlekkur á viðtal við mig í Speglinum á Rás 1 hinn 7. mars:
https://www.ruv.is/frett/2022/03/08/ekki-thorf-a-her-med-fasta-setu-a-islandi