Norðurslóðir 2021 – Staða Íslands

Ísland hefur áfram þýðingu fyrir hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO eins og hún birtist á norðurslóðum. Hins vegar heldur Norðurfloti Rússa sig sem fyrr að mestu í norður-Noregshafi og Barentshafi og í takt við það er þunginn í umsvifum Bandaríkjanna og NATO áfram miklu norðar en var í kalda stríðinu. Tilkoma langdrægra rússneskra stýriflauga mun styrkja þá þróun enn frekar en orðið er og færa fókusinn en meira á heimahöf Norðurflotans og inn á Norður Íshaf. 

Keflavíkurflugvöllur mundi á hættutíma gegna stuðningshlutverki við aðgerðir NATO í norðurhöfum, einkum með eldsneytisflutningaflugvélum og Boeing P-8 kafbátaleitar- og eftirlitsflugvélum. P-8 flugvélar sinna eftirliti frá vellinum meðal annars yfir norður Noregshafi og Barentshafi. Þær eru þotur ólíkt forveranum, skrúfuþotu af gerðinni P-3 Orion. P-8 eru því fljótari í förum en P-3 var og geta að auki tekið eldsneyti á flugi frá eldsneytisflutningaþotum. Líklegt er að ferðum frá Keflavíkurflugvelli langt norður í höf fækki á næstu árum með nýrri aðstöðu fyrir bandarískar P-8 flugvélar í norður Noregi. 

Einnig hafa P-8 vélar flogið tíðar ferðir frá Keflavíkurflugvelli yfir Eystrasalt, að því er virðist vegna spennu í samskiptum NATO og Rússlands vegna Úkrænu. Eftirlit bandarískra P-8 véla yfir norður Evrópu kann eftir nokkur ár að fara aðallega fram frá Lossiemouth, breskum herflugvelli í Skotlandi, gangi eftir bandarískar áætlanir um að koma upp aðstöðu þar fyrir P-8.

Þá virðist Keflavíkurflugvöllur hafa ásamt ýmsum öðrum stöðum í Evrópu nýlega fengið hlutverk sem útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar bandaríska flughersins. Það kom í ljós þegar B-2 sprengjuþotur höfðu aðsetur á Keflavíkurflugelli í ágúst og september 2021 og fóru þaðan til æfinga, meðal annars með orrustuþotum úr breska og norska flughernum. Útstöð fyrir sprengjuþotur á Íslandi fellur að stefnu Bandaríkjanna og NATO  á norðurslóðum en tengist einnig að sögn talsmanna bandaríska flughersins almennri fælingarstefnu gegn Rússlandi og fælingarstefnu Bandaríkjanna á heimsvísu. “Útstöð” (forward location) felur eingöngu í sér tímabundna viðveru flugvéla. Hvert framhaldið verður kemur í ljós, en íslensk stjórnvöld hafa enn ekki tjáð sig um Keflavíkurflugvöll sem útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar –  að minnsta kosti ekki opinberlega (sjá grein á vefsíðunni 16. nóvember 2021, “Er Keflavíkurflugvöllur ný útstöð fyrir langdrægar bandarískar sprengjuþotur?”). 

Framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli halda áfram samkvæmt áætlun frá 2018 og á að ljúka á árinu 2023. Þetta eru litlar framkvæmdir og kostnaður þeirra vegna smápeningar í hernaðarlegu samhengi. Þær lúta að mestu leyti að endurgerð flughlaða og breytingum á einu flugskýli af tæknilegum ástæðum af því P-8 flugvél er stærri og þyngri en forverinn, P-3. (sjá grein á vefsíðunni 13. mars 2019, “Bandaríski flugherinn hyggur á framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir tæpa 7 milljarða króna”)

Rússnesk hernaðarumsvif á svæðum í námunda við Ísland virðast hafa verið enn minni en undanfarin ár og nánast engin árið 2021 – Í þessu efni er sem áður meðal annars byggt á upplýsingum um ferðir herflugvéla, herskipa og kafbáta á twitter síðum áhugafólks um flug og hermál (Mil Radar360 RadarManu GomezAircraft Spotsthe LookoutRivetJointMilitary Air Tracking AllianceLieseIntel Air & Sea o.fl. – sjá dæmi um upplýsingar af þessu tagi í heimildalista) og á ýmsum vefmiðlum sem fjalla um öryggismál og hernaðarleg málefni. Þessir aðilar byggja meðal annars á vefsíðum eins og flightradar24.com og adsbexchange.com til að fylgjast með ferðum flugvéla víða um heim.

Svo virðist að enginn rússneskur kafbátur hafi farið á árinu 2021 um hafsvæði í námunda við Ísland. Mynstur í flugi kafbátaleitarflugvéla frá Noregi, Íslandi og Azor eyjum, sem verða greinileg þegar kafbátum er veitt eftirför, sáust ekki líkt og hefur gerst á undanförnum árum í þau fáu skipti sem um ræðir. Auðvitað er ekki unnt að útiloka að rússneskir kafbátar hafi verið á ferð á árinu 2021 án þess að vitað hafi verið um þá en það er ólíklegt. Af þeirri kafbátagerð sem kæmi til greina – svonefndir árásarkafbátar – var einungis einn nýr bátur í Norðurflotanum þar til í maí 2021 þegar annar bættist við. Þótt þeir kunni að vera miklu hljóðlátari og torfundnari en eldri rússneskir kafbátar – sem allir eru komnir til ára sinna – verður að telja ólíklegt að nýju bátarnir hafi farið ferðir út á norður-Atlantshaf. Engar vísbendingar komu fram um það eða merki um tilraunir til að finna þá. Hafa ber í huga að grannt er að öllum líkindum fylgst með kafbátalægjum og ferðum kafbáta frá þeim. Þá er forgangsverkefni þessara báta sem annarra í Norðurflotanum að verja úthaldssvæði eldflaugakafbáta í Barentshafi, bækistöðvar Norðurflotans og Rússland sjálft frá árás úr norðvestri.

Eitt rússneskt herskip virðist hafa komið á hafsvæði við Ísland 2021. Rússnesk herskip fóru, samkvæmt ýmsum fjölmiðlum og vefsíðum, um Norður-Atlantshaf en langt fyrir austan Ísland  – aðallega að því er virðist ýmist á leið frá bækistöðvum Norðurflotans á Kolaskaga til Eystrasalts eða Miðjarðarhafs eða á heimleið frá þessum svæðum. Einnig komu skip út á austur Atlantshaf sem voru á leið frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs og til baka 

Eina rússneska herskipið sem vitað er um nálægt Íslandi á árinu 2021 var tundurspillirinn Severomorsk, sem var þar í nokkra daga í ágúst ásamt olíuskipi og björgunarskipi. Severomorsk er einn af fjórum tundurspillum af Udaloy gerð, sem tilheyra Norðurflotanum og voru gerðir fyrir gagnkafbátahernað. Severomorsk var að þessu sinni forystuskip í árlegri ferð á vegum Norðurflotans um norðurslóðir. Óútskýrt er af hverju leiðangurinn lagði lykkju á leið sína svo sunnarlega sem til Íslands. Leiðin lá reyndar fyrst að vesturströnd Svalbarða sem líkt og Íslandsssiglingin var nýlunda í þessum árlegu norðurslóðaleiðöngrum. Nánast allur leiðangurinn fór hinsvegar fram annarsstaðar en við Ísland og Svalbarða og stóð fram yfir miðjan október.  Skipin fóru víða um norðurslóðir Rússlands. Þann 10. september var Severomorsk til dæmis á Yenisei fljóti við æfingu á hertöku bæjarins Dudinka úr höndum óskilgreindra aðila og undir lok september var hann langt í austri á svipaðri æfingu við Kotelny eyju á Laptev hafi úti fyrir strönd Síberíu.

Engar rússneskar herflugvélar komu í námunda við Ísland 2021. Þær sáust eins og undanfarin ár yfir norðanverðu Noregshafi, aðallega úti fyrir norður Noregi, og yfir Barentshafi, en fóru einnig suður í Norðursjó að Bretlandi. Minna var um flug rússneskra herflugvéla við Noreg 2021 en árin þar á undan að sögn norska flughersins. Sama átti við flug rússneskra herflugvéla við Alaska sem voru mun færri 2021 en 2020 þegar flogið var fjórtán sinnum í veg fyrir rússneskar flugvélar. Árið 2021 virðist hafa verið flogið einu sinni í janúar og aftur einu sinni í október og í nóvember.

Umsvif Bandaríkjahers og NATO á norðurslóðum – Sem fyrr er töluverð þróun í öryggis- og hernaðarmálum á norðurslóðum hvað umsvif Bandaríkjahers og Rússlandshers varðar. Í grunninn er þó um að ræða sömu hagsmuni og stefnu og ráðið hefur ferðinni í marga áratugi. 

Megin breyting á undanförnum árum hefur lotið að Bandaríkjaher, sem hefur aukið umsvif sín á norðurslóðum – einkum norður Noregshafi og Barentshafi. Það virðist stafa af stirðari samskiptum við Rússland en áður en einnig og væntanlega ekki síst vegna þess að rússneski Norðurflotinn heldur sig aðallega á þessum hafsvæðum auk Hvítahafs. Til lengri tíma litið eykur þróun langdrægra rússneskra stýriflauga áherslu Bandaríkjahers á norðurslóðir almennt en Norður-Íshaf sérstaklega. Bandaríski flugherinn heldur áfram að senda langdrægar sprengjuflugvélar á norðurslóðir eins og fyrr var nefnt.  Þá hafa Bandaríkin aukið hernaðargetu og viðbúnað í Alaska vegna Rússa en einnig vegna öryggishagsmuna í Asíu varðandi Kína. 

Rússar hafa frá því um 2010 verið að endurnýja herbúnað sinn á norðurslóðum í takt við almenna endurnýjun Rússlandshers. Herstyrkur þeirra á norðurslóðum hefur og verið efldur vegna væntinga um stóraukna nýtingu rússneskra auðlinda og auknar siglingar á víðfeðmum norðurslóðum Rússlands.

Vegna vaxandi mikilvægis norðurslóða, væntanlega bæði hernaðarlega og efnahgslega, fékk Norðurflotinn stöðu sjálfstæðrar herstjórnar og norðurslóðir urðu sérstakt herstjórnarsvæði undir henni, ásamt fjórum herstjórnarsvæðum sem fyrir voru í Rússlandi. Undir herstjórn Norðurflotans falla því gervallar norðurslóðir Rússlands, þar á meðal öryggi norðurleiðarinnar, sem er siglingaleiðin eftir allri norðurstrandlengjunni.  

Sem fyrr eru náin tengsl í hernaðarlegu tilliti milli norðurslóða og meginlands Evrópu. Rússneski Norðurflotinn var því þáttakandi í september í heræfingunni Zapad 2021, stór æfing sem sneri aðallega að Hvíta Rússlandi, vestur Rússlandi og Eystrasalti. Meginframlag Norðurflotans var að æfa á Barentshafi varnir Rússlands gegn árás frá norðurhöfum. 

Herskip frá NATO ríkjum fóru að því er virðist ekki norður í höf 2021 í sama mæli og 2020 þegar þau fóru ítrekað inn á Barentshaf, en kafbátaumferð kann að hafa aukist. Bandarískir kafbátar hafa nú aðgang að höfnum í norður Noregi og víst að breskir og franskir kafbátar fara reglulega norður í Barentshaf. 

Í mars 2022 verður haldin stór heræfing NATO í og við norður Noreg. Hún ber heitið Cold Response og í henni munu taka þátt meðal annars tvær flugvélamóðurskipadeildir, ein bandarísk og ein bresk. Síðast kom flugvélamóðurskip vegna æfinga í norðurhöfum þangað 2018 en þá höfðu slík skip ekki sést á þeim slóðum síðan 1988. Áhugavert verður að sjá hvort og þá hvernig Keflavíkurflugvöllur fær hlutverk í Cold Response æfingunni í mars.

Eftirlit frá Keflavíkurflugvelli yfir Barentshafi  – Bandarískar kafbátaleitar-og eftirlitsflugvélar sjóhersins, af gerðinni Boeing P-8A Poseidon, notuðu Keflavíkurflugvöll mikið á árinu 2021 og meira en áður að því er virðist. Það eru þessar flugvélar sem einkum nota flugvöllinn af hálfu Bandaríkjahers með tímabundinni viðveru. Hún tengdist á árinu 2021 reglubundnum æfingum Bandaríkjaflota og NATO á Norður Atlantnshafi og norðanverðu Noregshafi. Einnig virðast ýmsar aðrar æfingar og þjálfun áhafna skýra tímabundna viðveru bandarískra P-8 flugvéla á Keflavíkurflugvelli. Þar á meðal var þegar P-8 flugvélar þaðan gerðu samræmda “árás” í lok maí með Harpoon flugskeytum á “skotmarkapramma” (target barge) nálægt Andöya í norður Noregi. 

Auk þess að vera leitar og eftirlitsflugvél getur P-8 skotið flugskeytum gegn skotmörkum á láði og legi, beitt tundurskeytum og djúpsprengjum gegn kafbátum og lagt tundurdufl. P-8 er einnig búin nákvæmri ratsjá sem greinir hluti jafnt á sjó sem landi, og hefur búnað fyrir rafeindahernað og ýmiskonar rafræna upplýsingaöflun.

P-8 flugvélar fóru árið 2021 í eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli allt norður í Barentshaf á svæði úti fyrir Murmansk. Þegar þær fara frá Keflavíkurflugvelli norður í Barentshaf taka þær, í sumum tilvikum að minnsta kosti, eldsneyti yfir norður Noregshafi frá bandarískum KC-135 eldsneytisflugvélum frá Mildenhall herstöðinni á Bretlandi. 

Bandaríski sjóherinn áætlar að byggja flugskýli í Evenesflugbækistöðinni í norður Noregi fyrir P-8 flugvélar sínar. Verði af því má gera ráð fyrir að eftirlitsflug langt norður í höf frá Keflavíkurflugvelli minnki eða hætti. Evenes verður líka bækistöð nýrrar P-8 sveitar norska flughersins. Þá er gert ráð fyrir að P-8 vélar breska flughersins, sem hafa bækistöði í Lossiemouth flugbækistöðinni á Skotlandi, noti einnig Evenes. Þær nota reyndar einnig Keflavíkurflugvöll.

Eftirlitsflug frá Keflavíkurflugvelli yfir Eystrasalti  – Á árinu 2021 flugu P-8 flugvélar að minnsta kosti nokkrum sinnum frá Íslandi í eftirlitsflug yfir Eystrasalti. Frá því milli jóla og nýárs 2021 og fram til 20. janúar 2022 héldu slíkar flugvélar nánast daglega frá Keflavíkurflugvelli til Eystrasalts. Ætla má að það hafi verið vegna spennunnar í samskiptum NATO og Rússlands vegna Úkrænu. 

Hvað þessar ferðir varðar er byggt á fyrrnefndum twitter síðum sem fylgjast með flugi herflugvéla víða um heim (sjá dæmi í heimildalista um upplýsingar á þessum síðum). Eftirlitsflugvélar sænska hersins hafa einnig verið athafnasamar yfir Eystrasalti, þar á meðal úti fyrir Kaliningrad og einnig breskar og bandarískar hlerunarflugvélar af gerðinni RC-135 eins og einnig sést á áðurnefndum twitter síðum. 

Á Eystrasaltssvæðinu er Eystrsaltsfloti Rússlands – með bækistöðvar við Pétursborg og höfuðstöðvar í Kaliningrad, sem er rússneskt landsvæði milli Litháens. Þar eru einnig mikilvægar bækistöðvar Rússlandshers. Það er því eftir ýmsu að slægjast á Eystrasalti sem getur gefið vísbendingar um fyrirætlanir og viðbúnað Rússlandshers.

P-8 flugvélarnar frá Keflavíkurflugvelli hafa í einhverjum tilvikum tekið eldsneyti á flugi frá eldsneytisþotum sem komið hafa frá Mildenhall flugbækistöðinni á Bretlandi en reiða sig einnig að einhverju marki á aðgang að breska herflugvellinum í Lossiemouth á Skotlandi. 

Um tíma í janúar flugu P-8 flugvélar ennfremur frá Keflavíkurflugvelli yfir Stórabelti, Kattegat og Norðursjó til að fylgjast með 6 rússneskum herskipum, sem áttu leið frá Eystrasalti um þessi svæði, þar á meðal þremur landgönguskipum. Skipin voru á leið til Miðjarðarhafs og halda þaðan að talið er til Svartahafs. P-8 flugvélar breska flughersins tóku og þátt í að fylgjast með rússnesku skipunum. Núna beinist athygli meðal annars að flotaæfingu sem Rússar hafa tilkynnt að þeir ætli að standa að í byrjun febrúar 2021 suðvestur af Írlandi. Skip úr Norðurflotanum eru á leið þangað.

Spurning vaknar um hvers vegna ekki hefur verið notast við flugherstöðina í Lossiemouth í Skotlandi sem er auðvitað nær Eystrasalti og Norðursjó en Keflavíkurflugvöllur. Í Lossiemouth er mikil ný aðstaða fyrir P-8 flugvélar en breski flugherinn er að taka þar í notkun sveit 9 slíkra véla. Skýringin kann að liggja meðal annars í því að áætlun Bandaríkjahers um sérstaka aðstöðu í Lossieouth fyrir P-8 vélar á hans vegum og áhafnir þeirra er ekki komin til framkvæmda.

Ný norðurslóðastefna Bandaríkjanna mótast í áföngum en þróunin verður hægfara eins og efni standa til – Á undanförnum árum hefur verið þrýst á Bandaríkjastjórn – þar á meðal og ekki síst af hálfu þingmanna Alaska – um að mótuð verði norðurslóðastefna umfram þá hernaðarstefnu sem þegar er til staðar og varðar Rússland – þar áður Sovétríkin um áratuga skeið. Nýju stefnunni er einkum ætlað að taka tillit til væntinga um opnun Norður Íshafs á næstu áratugum með hlýnun Jarðar og afleiðinga bráðnunar hafíssins á stórveldasamkeppni á norðurslóðum og þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna. Þá er áfram horft til Rússlands en einnig þess að Kínverjar og Kínaher muni gera sig gildandi á norðurslóðum.

Áfanga í nýju norðurslóðastefnunni má finna í fjárlögum Bandaríkjanna til landvarna fyrir fjárlagaárið 2022, sem samþykkt voru í desember 2021. Í texta þeirra er í fyrsta lagi kveðið á um að lagt verði mat á öryggishagsmuni Bandaríkjanna á norðurslóðum. Í öðru lagi felst í lögunum heimild til landvarnarráðherra til að koma á sérstakri öryggismálstefnu fyrir norðurslóðir – Arctic Security Initiative. Ákveði ráðherrann að nýta heimildina og koma á slíkri stefnu skuli fylgja áætlun til fimm ára um framkvæmd og fjármögnun.

Stefnumótunin mun fremur ráðast af frumkvæði fyrrnefndra þingmanna Alaska en ákveðnum vilja hers og landvarnarráðuneytis. Þá segir í fjárlögunum að það verði landvarnarráðherrans að ákveða hvernig að framkvæmdinni verður staðið. Lisa Murkowski, öldungadeilarþingmaður frá Alaska er meðal þeirra sem látið hafa í ljós vonbrigði með hægagang í fjárveitingum en jafnframt tekið fram að vissulega séu norðurslóðir ekki “spennusvæði” (hotspot). 

Það eru því vísbendingar að framkvæmd stefnunnar kunni að verða hægfara. Enda er tímaramminn rúmur – langt í þann möguleika að Norður-Íshaf verði opið sem og að Kínaher láti að sér kveða að ráði á norðurslóðum. 

Olíu-, gas- og kolanámuvinnsla í Síberíu er sem fyrr langstærsta efnahagsmál á norðurslóðum – Framkvæmd stórfelldra áætlana um olíu-, gas- og kolanámavinnslu við Karahaf í Síberíu heldur áfram í samvinnu Rússa við aðallega Kínverja og Indverja, en einnig eiga japönsk og suður-kóresk fyrirtæki aðild. Í þessum áætlunum felst langstærsta efnhagsmálið sem uppi er á norðurslóðum. Þess vegna halda skipaflutningar á norðurleiðinni sem liggur með norðurströnd Rússlands áfram að aukast mikið. Flutningar eftir norðurleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrhafs eru hins vegar áfram hlutfallslega mjög litlir enda hafa engar verulegar breytingar orðið á lykilforsendum, hvorki fjárhagslegum né hvað varðar bráðnun heimskautaíssins.  Reyndar tepptust siglingar á norðurleiðinni töluvert haustið 2021 vegna meiri kulda og hafíss en undanfarin ár. 

Nú er uppi fyrirætlan um lagningu sæstrengs milli Asíu og Evrópu, frá Japan með norðurströnd Kanada. Strengurinn á að tengjast stöðum í Alaska, norður-Kanada, Grænlandi, Íslandi, Írlandi og koma í land í endastöð í norður Noregi.  Áætlun um lagningu strengs milli heimálfanna tveggja úti fyrir norðurströnd Rússlands hefur verið lögð á hilluna í bili.

Fjármál og geópólitík: Ekki verður úr námavinnslu Kínverja á Grænlandi, en Bandaríkjastjórn hefur hafist handa – Á árinu 2019 lagði Trump Bandaríkjaforseti, sem frægt varð, fram þá hugmynd að Bandaríkin keyptu Grænland. Bandaríkjastjórn var rekin áfram í þessu máli af ótta við ásælni Kínverja á Grænlandi einkum er varðaði áhuga þeirra á námavinnslu. Þær áhyggjur virðast einnig hafa leitt til þess að bandarísk aðalræðisskrifstofa var opnuð í Nuuk og til þess að Grænlendingar fengu bandaríska efnahagsaðstoð – 12 milljónir dala árið 2020 og 10 milljónir 2021.

Ekkert hefur hins vegar orðið úr fyrirætlunum um námavinnslu á Grænlandi tengdri kínverskum fyrirtækjum og ríkisbönkum. Grænlensk stjórnvöld hafa afturkallað leyfi fyrir járnnámu – að því er virðist vegna áhugaleysis kínverska fyrirtækisins sem hlut átti að máli. Þá lítur út fyrir að ekki verði af úranvinnslu á vegum Kínverja vegna andstöðu nýrrar grænlenskrar landstjórnar gegn úranvinnslu almennt. Loks hefur komið í ljós að ástralskt fyrirtæki um zink- og blýnámu, sem kínverskt ríkisfyrirtæki átti hlut í og fjármagna átti gegnum kínverskan ríkisbanka, fær líklega fé til starfseminnar frá bandaríska Export Import bankanum sem er ríkisbanki. Þar með virðist aðild kínverska fyrirtækisins úr sögunni. Kínverjar eru greinilega ekki á leið til Grænlands – ekki í bili að minnsta kosti.

Heimildir

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s