Áhrif Covid-19 faraldursins á alþjóðavettvangi

Covid-19 faraldurinn hefur varpað ljósi á ýmis alþjóðamál. Hann staðfestir að í alþjóðakerfinu hafa einungis ríki þess í senn skýra skyldu til að sinna grundvallarþörfum fólks fyrir velferð og öryggi sem og einstaka getu til þeirra hluta. Jafnframt er óvissa um hvort tekst að bæta samvinnu um alþjóðlegar sóttvarnir, en einkum á vettvangi alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Hún hefur áður beðið hnekki vegna slælegra viðbragða við faröldrum en nú dragast mistök hennar inn í harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína.

Efnahagslegar afleiðingar faraldursins valda því að veikleikar Parísarsamningsins frá 2015 um loftslagsmál eru enn ljósari en áður. Kórónuveiran hefur hægt á hagkerfi heimsins og þannig haft í för með sér minni orkunotkun, sem í kjölfarið hefur leitt til minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Afleiðingin er mikill efnahagssamdráttur, sem gefur skýra vísbendingu um hvað það mundi kosta án nýrra orkugjafa að ná markmiðum Parísarsamningsins.

Faraldurinn hefur veikt Evrópusambandið af því hann bæði varpar ljósi á og eykur á innri vandamál, sem ESB er ekki í stakk búið til að leysa. Hann undirstrikar að ESB er í erfiðri klemmu svo lengi sem það þróast ekki til sambandsríkis.

Covid-19 hefur ekki áhrif á grundvallaratriði í samkeppni Bandaríkjanna og Kína. Hún var til staðar löngu áður en faraldurinn kom upp. Hreyfiafl hennar lýtur að stærri þáttum en svo að faraldurinn breyti miklu.

Efnisyfirlit:    Mikilvægi ríkjanna í alþjóðakerfinu; – Kórónuveiran, efnahagssamdrátturinn af hennar völdum og vandi loftslagsmálanna; – Faraldurinn staðfestir alvarlega veikleika Evrópusambandsins – Þeir knýja á um sambandsríki, sem er ekki í sjónmáli; – Harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína er að mestu óháð faraldrinum.

Að svo komnu máli virðist Covid-19 faraldurinn hafa breytt alþjóðamálum minna en ætla mætti í ljósi þess hve alvarlegar og fordæmalausar aðstæður hann hefur skapað í mörgum ríkjum. Hann virðist einkum hafa þau áhrif að varpa ljósi á ýmis mikilvægar hliðar mála fremur en að breyta þeim í meginatriðum. Hér verður auðvitað að slá mikilvægan fyrirvara sem lýtur að því hve lengi faraldurinn kann að vara og hve alvarlegur efnahagssamdrátturinn hans vegna verður.

Miklar hraðar breytingar í alþjóðastjórnmálum eru sjaldgæfar í sögunni og kórónufaraldurinn breytir því ekki. Til róttækra breytinga hefur yfirleitt þurft stórstyrjaldir, sem breyta strúktúr alþjóðakerfisins í grundvallaratriðum, það er uppbyggingu þess, fjölda stórvelda í því og valdreifingu.

Styrjöld leiddi reyndar ekki til falls Sovétríkjanna, heldur ytri og innri veikleikar, þar á meðal af völdum þjóðernishyggju í sovétlýðveldunum. En fall þessa stórveldis gerbreytti strúktúr alþjóðakerfisins og þar með heimsmálunum. Þá er Kína rísandi stórveldi, sem hefur þegar valdið miklum breytingum á strúktúr alþjóðakerfisins, sem stafa þó enn sem komið er að minnsta kosti einkum af efnhagslegum uppgangi Kína.

Löngu áður en faraldurinn kom til hafði alþjóðavæðing náð nýjum hæðum í veröldinni, aðallega af tæknilegum ástæðum, sem lutu að samgöngum, tölvutækni og fjarskiptum. Þessir þættir eru auðvitað áfram til staðar, en einnig væntanlega hvati til að viðhalda og auka alþjóðavæðingu. Hún hefur á undanförnum áratugum haft rík jákvæð áhrif á hagvöxt, lífskjör og velferð í heiminum. Að svo komnu virðist ekki ástæða til að ætla að kórónuveirufaraldurinn veiki alþjóðavæðinguna í grundvallaratriðum.

 

Mikilvægi ríkjanna í alþjóðakerfinu – óviss samvinna um sóttvarnir

Þótt kórónuveiran virði ekki landamæri hefur faraldurinn hnykkt á þýðingu hins fullvalda ríkis (sovereign state) í alþjóðakerfinu. Faraldurinn hefur staðfest að þrátt fyrir alþjóðavæðingu og alþjóðastofnanir eru ríkin einu aðilarnir á alþjóðavettvangi sem hafa skýra skyldu til að sinna grundvallarþörfum fólks fyrir velferð og öryggi. Enda eru það ríki en ekki alþjóðastofnanir, sem fólk horfir til um hjálp þegar hætta steðjar að og ríkin hafa jafnframt einstaka lögformlega stöðu og einstakt afl til þess að verja fólk. Undantekning að vissu marki laut að aðgerðum Seðlabanka Evrópu gegn efnahagslegum afleiðingum faraldursins eins og fjallað er um síðar í pistlinum.

Þrátt fyrir brokkgeng viðbrögð flestra ríkisstjórna framan af við Covid-19 tóku þær við sér þegar syrti í álinn. Þá nýttu þær formlega stöðu sína, fullveldisrétt, landamæri og aðrar bjargir til að mæta faraldrinum og draga úr honum.

Þótt ríki hafi verið í lykilhlutverki varðandi viðbrögð við Covid-19 kalla farsóttir og hætta á þeim eðli máls samkvæmt á nána alþjóðlega samvinnu og skilvirkar alþjóðastofnanir ef tryggja á skjót og samræmd viðbrögð. Faraldurinn varpaði ljósi á alvarlega veikleika í þessu efni. Þeir munu væntanlega leiða til kröfu í kjölfarið um úrbætur. Alþjóðlegar sóttvarnir svara augljósri sameiginlegri þörf – svipað og alþjóðasamstarf um flugumferðarstjórn og veðurfræði til dæmis – sem fyrst og fremst eru tæknileg mál (functional) sem má og á að leysa utan við pólitík og deilur enda hafi öll ríki sömu þörf fyrir samstarfið og sama ávinning af því. Hvort þannig tekst að bæta samstarf um sóttvarnir á heimsvísu er þó óvíst meðal annars vegna þessa að faraldurinn dróst inn í harðnandi samkeppni milli Kína og Bandaríkjanna eins og geint er nánar frá síðar í pistlinum.

Ennfremur há ýmsir veikleikar alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, þar á meðal pólitískir. Hún hlaut harða gagnrýni fyrir slök viðbrögð við Ebola faraldrinum í Vestur-Afríku 2014 og stóð sig einnig slælega framan af Ebola faraldri í Alþýðulýðveldinu Congo 2019. Í báðum tilvikum virðist stofnunin hafa látið undan pólitískum þrýstingi ríkisstjórna sem töldu sig hafa hag af því að gera lítið úr hættunni eða fela hana.

Sama átti við vikum saman þegar Covid-19 faraldurinn var að ná sér á strik í mörgum ríkjum auk þess að stofnunin gekk vitandi eða óafvitandi á sama tíma erinda kínverskra stjórnvalda sem reyndu að fela faraldurinn eftir að að hann var hafinn í Kína. Kínversk stjórnvöld reyndu einnig að fela raunverulega útbreiðslu SARS veirunnar 2003, en fengu fyrir harða gagnrýni þáverandi forstjóra WHO (Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs). Nú er hugsanlegt að stofnunin hafi veikst varanlega vegna framkomu hennar og kínverskra stjórnvalda á fyrstu vikum Covid-19 faraldursins.

Fljótlega eftir að faraldurinn hafði náð sér á strik kom krafa frá fjölda ríkja um að starfshættir alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar yrðu endurskoðaðir og viðbrögð hennar við Covid-19 rannsökuð. Hinn 18 maí samþykktu aðild­ar­ríkin að hefja “hlutlæga, óháða og heildstæða” rann­sókn á “alþjóðlegum viðbrögðum” við kór­ónu­veirufaraldrin­um, þar á meðal á viðbrögðum stofnunarinnar. Hvernig tekst til með rannsóknina kann að skipta miklu máli fyrir fyrir möguleika á alþjóðlegri samvinnu um sóttvarnir.

 

Kórónuveiran, efnahagssamdrátturinn af hennar völdum og vandi loftslagsmálanna

Gróðurhúsalofttegundir virða ekki landamæri fremur en kórónuveiran. Gróðurhúsaáhrifin eru hins vegar þess eðlis að ólikt veðurfræðum, flugumferðarstjórn, og sóttvörnum er þess ekki kostur að gera gróðurhúsaáhrifin fyrst og fremst að tæknilegu viðfangsefni, sem í aðalatriðum megi halda utan við ólíka hagsmuni ríkja og pólitískar deilur. Þvert á móti eru loftslagsmálin hápólitísk sakir þess að þau snerta mikla og ólíka hagsmuni ríkja og ríkjahópa og þess hve náið þau tengjast hagvexti og lífskjörum. Faraldurinn varpar skýru ljósi á það.

Líkt og gert er í fyrri pistlum um loftslagsmál á vefsíðunni skal tekið fram hér að höfundur hefur ekki þekkingu til að fjalla um vísindalega hlið mála. Þess í stað byggir umfjöllunin á pólitísku en einkum alþjóðapólitísku sjónarhorni. Til grundvallar er lögð sú stefna sem mótuð hefur verið á alþjóðavettvangi um að Jörðin hlýni af mannavöldum og að gera verði ráðstafanir til að takmarka hlýnunina. Stefna þessi birtist í Parísarsamningnum frá 2015 um loftslagsmál og sameiginlegu markmiði í honum um að halda hlýnun Jarðar innan við 2 gráður, helst við 1.5 gráður.

Í kjölfar Parísarsamningsins hefur loftslagsnefnd Sameinðu þjóðanna gefið út að setja verði markið ákveðið við 1.5 gráður og að stórlega verði þegar á næstu árum að herða róðurinn við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Enn er unnið að því að koma Parísarsamningnum á framkvæmdastig en takmarkaður árangur orðið að svo komnu í viðræðum um lykilatriði sem varða það.

Vandi samninga um aðgerðir í loftslagsmálum lýtur í hnotskurn að því að losun gróðurhúsalofttegunda sem hefur áhrif á hlýnun Jarðar ræðst af orkubúskap mannkynsins. Hann byggir aðallega á jarðefnaeldsneyti, það er olíu, kolum og jarðgasi. Það yrði afar dýrt að minnka verulega notkun þessara orkugjafa til að draga svo úr losun að markmiðum Parísarsamningsins yrði náð. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna telur enda að það kalli á „fordæmalausar breytingar“ á samfélögum ríkja heims að halda hlýnun við 1.5 gráður.

Orkugjafar frá jarðefnaeldsneyti mæta um 80 prósentum af heildarorkuþörf mannkynsins. Hlutfallið hefur haldist að mestu óbreytt í um fjóra ártugi og er talið geta lækkað einungis um nokkkur prósent – í um 75 prósent á næstu 20 árum.  Því er ljóst að það að minnka verulega notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda í kjölfarið leiðir að óbreyttu til skertra lífskjara í heiminum sem og til skertra möguleika á betri lífskjörum í framtíðinni. Hér er þess ekki kostur að fara út í það, en nefna má í þessu samhengi að milljarður manna í heiminum hefur engan aðgang að rafmagni. Þrír milljarðar manna brenna kolum, viðarkolum og taði til að elda mat. Það veldur öndunarfærasjúkdómum í heiminum sem enn dregur að talið er eina og hálfa milljón manna til dauða á hverju ári. Þá skiptir miklu varðandi loftslagsmálin að lífskjör hafa þrátt fyrir allt batnað verulega í mörgum þróunarríkjum. Af þeim sökum leiðir vaxandi millistétt í þeim til aukinna krafna um neyslu og um lífskjör og lífshætti í átt til þess sem er í þróuðu ríkjunum. Það kallar að óbreyttum orkubúskap á enn aukna notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum.

Spár gera ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram að aukast enda er vaxandi orkuþörf í heiminum áfram aðallega mætt með jarðefnaeldsneyti. Núverandi möguleikar á sviði vindorku og sólarorku munu vera mjög langt frá því að breyta þessu á heimsvísu. Svo minnka mætti losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Parísarsamningsins þyrfti orkubúskapur mannkynsins að taka stakkaskiptum.

Tækist að þróa aðra orkugjafa þannig að þeir yrðu samkeppnisfærir við jarðefnaeldsneyti mundi kostnaðurinn af aðgerðum í loftslagsmálum ekki ráða ferð né heldur alþjóðapólitíkin. Það hefði miklu minni þýðingu en áður hvernig kostnaður skiptist milli ríkja og ríkjahópa og hvernig hann hefði áhrif á samkeppnisstöðu. Endanlega mundu þessi atriði, og sjálf alþjóðastjórnmálin, ekki skipta máli vegna þess augljósa ávinnings sem allir hlytu af því nýta nýju hreinu orkugjafana.

Tengsl milli hagvaxtar, orkunotkunar og losunar gróðurhúsalofttegunda eru auðvitað almennt skýr og þekkt. Losun í heiminum minnkaði um 3% í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 en jókst fljótlega aftur þegar hagvöxtur tók við sér á ný. Alþjóðaorkumálastofnunin telur að vegna samdráttar af völdum kórónuveirufaraldursins gæti losun í heiminum minnkað um 8% á árinu 2020. Afleiðingar þess birtast í hinum mikla efnahagslega samdrætti sem við blasir með tilheyrandi atvinnuleysi og skertum lífskjörum víða um heim og er mesti samdráttur í áratugi. Til samanburðar telur loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna að losun þurfi að minnka um 7.6 prósent á hverju ári til 2030 eigi að takast að halda hlýnun við 1.5 gráður á öldinni.

Um leið og kórónuveirufaraldurinn veldur því að kostnaður af því að minnka verulega notkun jarðefnaeldsneytis verður svo sýnilegur sem raun ber vitni nú blasir áfram við óhjákvæmilegur vanmáttur alþjóðkerfsins til að uppfylla markmið Parísarsamningsins.

Það er einmitt kostnaðurinn af því að minnka notkun jarðefnaeldneytis sem stendur í vegi Parísarsamningsins. Kostnaður, sem væri langflestum ríkjum, ef ekki öllum, um megn, er meginástæða þess að samningurinn skuldbindur ekki aðildarríkin til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þeim er að mestu í sjálfsvald sett hvernig þau ætla að standa að málum.

Ekkert yfirríkjavald er til staðar til að taka bindandi ákvarðanir með meirihluta og til að framfylgja þeim með eftirliti og viðurlögum. Engin ætlan er uppi meðal ríkja heims að gera þá grundvallarbreytingu á alþjóðkerfinu að ýta fullveldinu til hliðar og setja ríkin undir yfirvald alþjóðastofnana; enda gæti ekki orðið samkomulag þar um.

Efnahagssamdrátturinn vegna faraldursins mun að líkindum valda því að pólitískur vilji meðal ríkisstjórna til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda verður enn minni en áður. Fyrsta skrefið til að minnka losun umtalsvert væri að stórhækka verð á olíu, kolum og jarðgasi með augljósum afleiðingum fyrir efnahaginn almennt og vitanlega um leið fyrir möguleika til að rétta hann við að faraldrinum gengnum. Allar líkur eru á að í kjölfar hans fái hagvöxtur forgang en ekki loftslagsmál. Það gerðist eftir fjármálakreppuna 2008 og losun jókst á ný.

Það er ekki umdeilt að Parísarsamningurinn um loftslagsmál er veikburða andspænis risastóru verkefninu sem í honum felst. Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins valda því að veikleikar samningsins til lengri og skemmri tíma eru enn ljósari en áður.  Umræða um loftslagsmálin fer gjarnan fram í litlum eða lausum tengslum við efnahagslegar afleiðingar aðgerða til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda. Hvort faraldurinn breytir þessu á eftir að koma í ljós.

Hugsanlega mun Covid-19 faraldurinn á endanum, vegna þess hvernig hann varpar ljósi á efnahagslegar afleiðingar aðgerða, eiga þátt í því að stóraukið fé verði lagt til þess, meðal annarra af hálfu ríkisstjórna, að reyna að þróa aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Þá er átt við sólarorku og kjarnorku og þannig að umbreyti á orkubúskap mannkynsins. Meðfram þessu kann önnur afleiðing faraldursins að verða sú að ríki heims leggi stóraukna áherslu á að að setja fé á næstu árum og áratugum í að reyna að þróa skilvirkar aðferðir til að ná koltvísýringi í umtalsverðu magni úr andrúmsloftinu.

 

Faraldurinn staðfestir alvarlega veikleika Evrópusambandsins – Þeir knýja á um að það verði að sambandsríki, sem er ekki í sjónmáli

Faraldurinn hefur veikt Evrópusambandið. Annars vegar stafar það af slælegum viðbrögðum af hálfu sambandsins við sjálfum faraldrinum þegar hann var að ná sé á strik í álfunni. Hins vegar kom í ljós að ESB gat ekki rétt efnahagslega veikburða aðildarríkjum þá hjálparhönd sem þau vildu fá þegar fjárhagslega áfallið vegna faraldursins blasti við þeim. Í kjölfarið var allt útlit fyrir enn versnandi skuldastöðu þeirra. Jafnframt blasti við vandi, sem ESB er enn ekki í stakk búið til að leysa. Rökrétt leið til að bæta úr því væri að auka samrunaþróunina til sambandsríkis, en pólitískar forsendur eru ekki fyrir því. Nú er uppi tillaga af hálfu voldugustu ríkja ESB, sem er gerð til að forða því að vandræði sambandsins komi í veg fyrir að það aðstoði aðildarríkin sem verst verða fyrir barðinu á efnahagslegum afleiðingum Covid-19.

Efnahagslegar afleiðingar faraldursins hafa bitnað einkar illa á Grikklandi, Ítalíu og Spáni. Þótt staða mála sé ekki eins í þessum ríkjum öllum þá eiga þau sameiginlegt að hafa búið við langvarandi efnahagsvanda og miklar skuldir sem og að gengi evrunnar hefur verið þeim óhagstætt. Þau hafa því öll takmarkaða burði til að taka á sig efnahagslegan skell af því tagi sem faraldurinn veldur.

Seðlabanki Evrópu brást vissulega við með því að byrja að kaupa skuldabréf af ríkjunum sem stóðu höllum fæti. Hins vegar eykst jafnframt skuldavandi umræddra ríkja enda eru þau með kaupunum að auka skuldir og á þeim löku kjörum sem lánshæfismat þeirra leiðir til. Þau fóru því fram á það með stuðningi 6 annarra evruríkja (Frakklands, Portúgals, Slóveníu, Lúxemborgar, Írlands og Belgíu) að gefin yrðu út sameiginleg skuldabréf allra evruríkjanna vegna kórónuveirufaraldursins. Svonefnd kórónuskuldabréf (corona bonds). Skuldir veikburða ríkjanna hefðu þá aukist miklu minna en ella og kjörin verið mun betri af því skuldabréfin hefðu verið á ábyrgð allra þar á meðal Þýskalands og fleiri ríkja með traust lánshæfismat. Vandinn er sá að ríki norðar í ESB, með Þýskaland, í fararbroddi vildu ekki bera þannig ábyrgð á skuldum aðildarríkjanna, en einkum Miðjarðarhafsríkjanna þriggja. Einnig var uppi ótti við að sameiginleg skuldabréfaútgáfa mundi jafnvel auka á agaleysi við efnahagsstjórn í þeim ríkjum og gera illt verra.

Stjórnlagadómstóll Þýskalands bætti í byrjun maí í vanda ESB varðandi björgunaraðgerðir með því að úrskurða að evrópski seðlabankinn hefði farið út fyrir valdheimildir sínar með skuldabréfakaupunum. Bankinn þarf nú að sýna fram á að hann hafi gætt meðalhófs við þau. Óháð niðurstöðu í því efni stendur eftir að með þessu tók þýski dómstóllinn fram fyrir hendurnar á dómstóli ESB, Evrópudómstólnum. Það er atlaga að grundvallarreglum í starfsemi ESB, sem kann hæglega að draga dilk á eftir sér fyrir sambandið.

Í grunninn endurspeglar úrskurður þýska dómstólsins það að samrunaþróunin í ESB hefur ekki leitt til sambandsríkis. Úskurðurinn minnti í reynd á að þess vegna gilda enn stjórnarskrár aðildarríkjanna. Í kjölfar úrskurðarins stóð sú staðreynd í vegi fyrir aðgerðum til að hjálpa þeim ESB ríkjum sem verst eru að fara efnhagslega út úr kórónuveirufaraldrinum. Nú var ljóst að kaup evrópska seðlabankans á skuldabréfum vegna kórónuveirufaraldursins voru í hættu því niðurstaða dómstólsins fól í sér að óbreyttu að Þýskaland mætti ekki taka þátt í kaupunum; ákvarðanir evrópska seðlabankans um þau giltu ekki þar í landi. Jafnframt var víst að úrskurðurinn útilokaði endanlega útgáfu fyrrnefndra kórónubréfa.

Rökrétt leið fyrir ESB til að fyrirbyggja vandræði af þessu tagi, sem mundi jafnframt treysta grundvöll evrunnar, væri að stórefla samruna og taka upp sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum. Stóru ríkin í ESB fengju þá mikil áhrif á hagstjórn og efnahagsmál í sambandinu öllu, enda bæru þau hlutfallslega mesta ábyrgð á skuldabréfum gefnum út í nafni ESB sem og á evrunni. ESB yrði að sambandsríki, sem gæti efnt til útgjalda og lagt á skatta -og bætt í til að mæta krísum – eins og ríki geta gert. En ESB er ekki á þessari vegferð og litlar líkur enn sem komið er á að aðildarríkin sammælist um hana. Faraldurinn haggar ekki þeirri stöðu.

Hann hefur hins vegar leitt til þess að nú hafa kanslari  Þýskalands og forseti Frakklands gert tillögu um sérstakan afturbatasjóð (recovery fund) til að aðstoða ríkin sem verst standa vegna faraldursins. Um yrði að ræða styrki til þeirra en ekki lán. Lagt er til að ESB komi á fót 500 milljarða evra sjóði til að standa undir styrkjunum. Þetta yrði gert þannig að framkvæmdastjórn ESB gæfi út skuldabréf og sækti féð á lánamarkaði. Aðildarríkin mundu greiða skuldina þegar þar að kæmi í hlutfalli við framlög þeirra til sameiginlegra útgjalda ESB. Þýskaland mundi samkvæmt því greiða mest.

Með þessu er ljóst að faraldurinn hefur leitt til róttækrar breytingar á stefnu þýsku stjórnarinnar. Nú á eftir að koma í ljós hvor hann hefur þau áhrif á önnur ESB ríki. Þá er einkum horft til Austurríkis, Finnlands og Hollands en þessi ríki hafa ásamt Þýskalandi verið tregust evruríkjanna til að fallast á sameiginlegar skuldir, bæði almennt og vegna faraldursins.

Þótt tillagan feli í sér róttæka breytingu á afstöðu þýsku stjórnarinnar og endurspegli ríkan ótta við afleiðingar Covid-19 fyrir samandið og framtíð þess er hún ekki liður í nánari samrunaþróun heldur auðvitað skammtímaráðstöfun. Hún leiðir ekki til lausnar á þeim vandræðum ESB, sem faraldurinn hefur varpað ljósi á, né losar hún það úr þeirri klemmu að hafa sameiginlegan gjaldmiðil án sameiginlegra ríkisfjármála. Öll þessi vandkvæði munu aftur há sambandinu þegar næsta krísa kemur óhjákvæmilega upp á einhverjum tímapunkti.

Jafnframt minnka enn líkur á að takist að ná megintilgangnum með ESB umfram forverann EBE, Efnahagsbandalag Evrópu. Hann hefur verið að styrkja – í gegnum náinn pólitískan samruna og sameiginlegan gjaldmiðil – stöðu og áhrif ESB ríkjanna á alþjóðavettvangi og í efnahagslegri samkeppni þar, en einkum við Kína og Bandaríkin. Í báðum efnum stendur ESB höllum fæti; hefur lítið að segja um gang helstu alþjóðastjórnmála og skiptir hlutfallslega minna máli en áður í heimsbúskapnum.

 

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína fer harðnandi en að mestu óháð faraldrinum

Þungamiðja alþjóðamála er að færast frá Evrópu og Atlantshafssvæðinu til Asíu og Kyrrahafs. Þetta á einkum við efnahagsmál og viðskipti en einnig og í vaxandi mæli við öryggismál. Samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu verður að líkindum ráðandi þáttur á alþjóðavettvangi næstu áratugi.

Covid-19 hefur leitt til orðaskaks og áróðursstríðs milli stjórnvalda Kína og Bandaríkjanna. Það stafar af því að Kína liggur undir ásökunum Bandaríkjastjórnar – og stjórnvalda í fleiri ríkjum – um að hafa fyrst leynt því að Covid-19 væri komin á kreik í Kína og síðan legið á nauðsynlegum upplýsingum. Þannig hafi kínversk stjórnvöld tafið viðbrögð, jafnvel gert illt miklu verra.  Af þessum sökum meðal annarra er líklegt að samskiptin við Kína verði eitt af aðalmálum forsetakosningabaráttunnar í Bandaríkjunum fyrir kosningarnar 3. nóvember næstkomandi, sem mun valda því að samskiptin versni hraðar en útlit var áður fyrir.

En það breytir litlu um grundvallaratriði. Um alllangt skeið hefur samkeppni Bandaríkjanna og Kína farið harðnandi í Asíu og á heimsvísu. Aðalatriði er að með uppgangi Kína sem rísandi stórveldis breytist strúktúr alþjóðakerfisins þannig að samkeppni milli Kína og annarra stórvelda, en einkum þó Bandaríkjanna, er óhjákvæmileg. Við harðar deilur undanfarinna ára um viðskipti milli Bandaríkjanna og Kína bætist vaxandi ágreiningur sem lýtur að ólíku gildismati þeirra tveggja, hugmyndafræði og stjórnarfari og að stöðu mannréttinda í Kína.

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína verður ekki eins og sú sem var í kalda stríðinu milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þótt ekki megi útiloka stórfellt vígbúnaðarkapphlaup og hættu á stríði milli Kína og Bandaríkjanna virðast meiri líkur í næstu framtíð að minnsta kosti á ágreiningi og átökum þeirra í milli sem tengjast baráttu um völd og áhrif á efnahags og tæknisviði og almennt á alþjóðavettvangi.

Einn mikilvægur munur samanborið við kalda stríðið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna er hve tengd Bandaríkin og Kína eru efnahagslega þrátt fyrir allt. Faraldurinn kann reyndar að draga úr því vegna þess að hann hefur kynt undir ótta við að bandarísk fyrirtæki, þeirra á meðal hátæknifyrirtæki, verði of háð kínverskum birgjum um ýmsar mikilvægar vörur og búnað.

Ágreiningur Bandaríkjanna og Kína um viðskipti hefur verið áberandi undanfarin ár, en áður en kórónuveirufaraldurinn hófst stefndi í samkomulagsátt. Til lengri tíma litið lýtur viðskiptadeilan hins vegar að því að ríkin nálgast hana úr mjög ólíkum áttum. Fyrir Bandaríkjamenn er og verður vandamál hve skammt Kínverjar eru komnir þrátt fyrir allt hvað varðar markaðshagkerfi og hve ríkisvaldið er fyrirferðarmikið á öllum sviðum þjóðarbúskaparins. Ágreiningsmál af þessum sökum eru mörg. Það á við beinan og óbeinan þjófnað á hugverkum, sem reyndar flestir virðast sammála um að Kínverjar stundi, og það er ágreiningur um gengisstefnu Kínverja og mikinn opinberan stuðning við fyrirtæki og stórfelldan ríkisrekstur á flestum sviðum.

Kínversk stjórnvöld eru ekki líkleg til að fallast á grundvallarbreytingar í þessum efnum. Ríkisreksturinn er nauðsynlegur vegna þess að hann veitir tækifæri til að ná opinberum markmiðum kommúnistaflokksins um framleiðslu- og atvinnustig, oft á skjön við efnahagslegar og viðskiptalegar forsendur, og til að viðhalda áróðri um heillavænlega forystu hans og hæfileika til að koma samfélaginu enn lengra á leið framfara. Jafnframt tengist ríkisreksturinn úthlutunarvaldi, sem er meðal lykilatriða fyrir kínverska valdhafa líkt og ætíð á við einræðis- og valdboðsstjórnir.

Kína mun í síauknum mæli gera sig gildandi á alþjóðavettvangi og reyna að grafa undan stöðu Bandaríkjanna og veikja þau sem víðast í alþjóðakerfinu og stofnunum þess. Lykiláhersla verður þó að líkindum lögð framan af á Asíu og að hún verði kínverskt áhrifasvæði með sama hætti og Bandaríkin líta á á vesturhvel Jarðar þannig fyrir sitt leyti. Kína á enn langt í land með þetta, einkum þó hvað það varðar að verða herveldi til jafns við Bandaríkin. Kínaher vex þó hratt ásmegin og Kínverjar munu leitast við að efla hann og þróa áfram, ekki til landvinninga (Tævan er hugsanleg undantekning) heldur þannig að hefti og veiki möguleika Bandaríkjahers í Asíu. Kína mun einnig reyna að grafa undan bandalögum Bandaríkjamanna í heimshlutanum og á endanum bola her þeirra þaðan; freista þess að leysa Bandaríkin af hólmi sem stórveldi Asíu. Það sem getur breytt þessari stefnu er ef efnahagslegur vöxtur Kína stöðvast eða það hægir umtalsvert á honum til lengri tíma litið. Ekki er ástæða til að ætla að kórónuveirufaraldurinn hafi þau áhrif.  Hins vegar er hugsanlegt að ýmsir innri veikleikar, sem ekki er unnt að fara út í hér,  leiði til þess síðar að Kína neyðist til að breyta um stefnu.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna tekur áfram einkum mið af samkeppninni við Kína óháð því í grundvallaratriðum hvort demókrati eða repúblikani situr á forsetastóli í Hvíta húsinu. Bandaríkin munu beina sífellt meira sjónum að því að skapa mótvægi gegn Kína á heimsvísu en einkum í Asíu. Þau munu leitast við að styrkja bandalög sín í heimshlutanum og að mynda önnur. Áhersla Bandaríkjahers á Asíu og Kyrrahaf á eftir að aukast enn frekar en orðið er og verða ásamt bandalögum Bandaríkjamanna þar að þungamiðju í þjóðaröryggisstefnunni.

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína mun skýrast frekar á næstu árum og áratugum. En uppgangur Kína hefur þegar gerbreytt strúktúr alþjóðakerfisins og flest bendir til að Kína verði langöflugasta stórveldi sem Bandaríkin hafa fengist við. Fari Kína á næstu áratugum að nálgast að verða ráðandi stórveldi í Asíu verða viðbrögð Bandaríkjanna sífellt harðari. Þau eru eina stórveldið sem ræður sínum heimshluta sem er vesturhvel jarðar. Næði Kína slíkri ráðandi stöðu í Asíu yrði það keppinautur við Bandaríkin á jafningjagrunni og bein ógn við þau.

Pistillinn tengist eftirfarandi fyrri greinum á vefsíðunni:

Erindi um geópólitík og vestnorrænu löndin – 11. febrúar 2019.

Alþjóðakerfið og aðgerðir í loftslagsmálum – Samningafundur í Póllandi – 17. desember 2018.

Parísarsamkomulagið um loftslagsmál: áskorunin og alþjóðakerfið – 28. maí 2018.

Heimildir

Leave a comment