Er Keflavíkurflugvöllur ný útstöð fyrir langdrægar bandarískar sprengjuþotur?

(Undanfarið hafa ekki birst greinar á síðunni sakir þess að höfundur tók að sér að leiða kosningaeftirlit á vegum Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í tvo og hálfan mánuð í Georgíu. – Sjá m.a. https://www.osce.org/odihr/elections/georgia/496309)

Aðstæður í öryggismálum á svæðum í námunda við Ísland gerbreyttust eftir kalda stríðið og hernaðarumsvif þar hafa verið lítil eins og fram hefur komið í greinum á þessari vefsíðu um þau efni og það sem ræður þeim. Norðurflotinn rússneski er margfalt minnni en sovéski forverinn. Á því verða ekki breytingar. Að auki hafa þarfir Norðurflotans breyst þannnig að hann fer takmarkað út á Atlantshaf. Litlar líkur eru á að skip og kafbátar flotans, eða langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar, verði þar aftur á ferð í umtalsverðum mæli. 

Enda hefur lítið borið til tíðinda í hernaðarlegum öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið og ekkert nýtt gerst í þeim efnum.

Þar til í ágúst 2021 – Að því er virðist.

Hinn 23. ágúst komu þrjár langdrægar sprengjuþotur bandaríska flughersins af gerðinni B-2 Spirit til Keflavíkurflugvallar. Þær dvöldu á öryggissvæðinu á vellinum til 11. september og flugu þaðan til æfinga. Flugvélar af þessari gerð höfðu ekki komið til Íslands áður með einni undantekningu, þegar slík vél hafði skamma viðdvöl á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2019 til að æfa eldsneytistöku. 

Dvöl sprengjuflugvélanna á Keflavikurflugvelli virðist samkvæmt yfirlýsingum Bandaríkjahers og ummælum fulltrúa hans boða nýtt og aukið hlutverk Íslands í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO. Íslensk stjórnvöld hafa ekki staðfest að svo sé og þau hafa að svo komnu tjáð sig með öðrum og mun almennari hætti en talsmenn Bandaríkjahers um dvöl B-2 sprengjuflugvélanna á landinu.

Áratugum saman hefur lykilatriði í stefnu Bandaríkjanna og NATO verið að kæmi til styrjaldar yrði ráðist á her Sovétríkjanna og síðar Rússlands meðal annars með langdrægum bandarískum sprengjuflugvélum frá norðurslóðum. Varnarviðbúnaður sovéska hersins tók mið af þessu og sama á við viðbúnað Rússlandshers, þar á meðal Norðurflotans.

Á sjötta áratugnum var gert ráð fyrir í bandarískum hernaðaráætlunum að Keflavíkursherstöðin yrði áningarstaður langdrægra sprengjuflugvéla og eldsneytisflugvéla þeirra í hugsanlegri styrjöld við Sovétríkin. Þótt samið væri sérstaklega um allmikil umsvif í æfingaflugi sprengjuflugvéla á landinu voru þær lítið hér. Í lok áratugarins þegar öflugri sprengju- og eldsneytisflugvélar voru komnar til sögu ásamt langdrægum eldflaugum sem báru kjarnavopn var Keflavíkurstöðin tekin út úr áætlunum að þessu leyti. Nú kemur Ísland við sögu á ný.

B-2 þoturnar þrjár komu til Keflavíkurflugvallar beint frá Whiteman flugherstöðinni í Missouri í Bandaríkjunum. Komu þeirra má rekja til breyttrar stefnu bandaríska flughersins varðandi langdrægar sprengjuflugvélar. Aðdragandi hennar nær aftur til 2018 en ný stefna tók formlega gildi í apríl 2020. Hún lýtur að úthaldi langdrægra sprengjuþota flughersins, sem hafa fast aðsetur í herstöðvum í Bandaríkjunum. Eftir breytinguna verður þeim haldið úti í auknum mæli utan Bandaríkjanna með tímabundinni dvöl á ýmsum stöðum í Miðausturlöndum, Asíu og Evrópu. Í Evrópu hafa þeir staðir verið á Bretlandi en einnig á Spáni og í Noregi. 

Keflavíkurflugvöllur er ný útstöð í þessu fyrirkomulagi að sögn bandaríska flughersins (“new forward operating location” – Defense Visual Information Distribution Service, 09.20 2021.). Jafnframt hefur komið fram að engar áætlanir séu uppi um meira en tímabundna dvöl langdrægra sprengjuflugvéla á Íslandi með tilheyrandi mannskap og búnaði líkt og í ágúst og september síðastliðnum. Herstöð við Fairford í Bretlandi verði áfram helsta útstöð slíkra flugvéla Evrópu. Þar er enda sérstök aðstaða fyrir sprengjuflugvélar Bandaríkjahers meðal annars í flugfskýli þar sem sinna má mjög sérhæfðu viðhaldi á B-2 sprengjuþotum. Það lýtur meðal annars að því að halda við lagi af viðkvæmu efni sem þekur flugvélarnar og er þáttur í að gera ratsjám erfitt um vik að greina þær – þ.e. gera þær “torséðar” (stealthy).

Áætlanir um Keflavíkurflugvöll sem nýja útstöð fyrir sprengjuflugvélar passa vel við yfirstandandi endurbætur á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir eldsneytisflugvélar, sem þaðan yrðu gerðar út á hættu- og stríðstímum til stuðnings herflugvélum af ýmsu tagi. Stækkun flughlaða og annarrar aðstöðu í þessu skyni er í gangi og tilheyrandi eldsneytisbirgðastöð hefur verið í undirbúningi.

Yfilýst markmið með hinni breyttu stefnu um úthald langdrægra sprengjuflugvéla utan Bandaríkjanna er að auka hernaðargetu og trúverðugleika fælingarstefnu Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á heimsvísu. Kína og Rússland eru nefnd sérstaklega. Með framkvæmd nýju stefnunnar sé andstæðingum sýnt fram á að flugherinn geti eftir þörfum og hentugleikum beitt langdrægum sprengjuflugvélum frá ýmsum ólíkum stöðum og þannig að andstæðingar sjá ekki fyrir hvar flugvélar kunna að verða staðsettar. Með þessu megi hafa flugvélakostinn “kvikan” (agile) og hefur sú hlið stefnunnar sérstakt heiti – “Agile Combat Employment”. Það flæki áætlanir andstæðinga og geri þeim erfiðara fyrir að ráðast á flugvélar flughersins á jörðu niðri. Vaxandi ógn sé frá eldflaugum, langdrægum stýriflaugum og flaugum sem verið er að þróa til að fljúga á ofurhraða (hypersonic). Vegna ógnar frá þessum vopnum við stöðvar flughersins á stefnan í átt að “kvikari” flugher einnig við úthald orrustuþota, eldsneytisflugvéla og ratsjárflugvéla.

Dvöl sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli tengist þessari stefnu og einnig er sérstaklega bent af hálfu flughersins á að dvöl þotanna þjóni markmiðum herstjórnar NATO í Evrópu. Ennfremur hefur norðurslóðastrategía bandaríska landvarnaráðuneytisins verið nefnd í þessu samhengi.  Loks lýtur mikilvægur þáttur þess að halda tímabundið úti sprengjuþotum utan Bandaríkjanna að þjálfun og hærra viðbúnaðarstigi ásamt því að æfa með flugherjum bandamanna. B-2 flugvélarnar flugu frá Íslandi til æfinga yfir hafinu meðal annars með orrustuþotum breska og norska flughersins og með bandarískum orrustuþotum sem hafa aðsetur í herstöð á Bretlandi. 

Aðrar sprengjuþotur sem sendar eru til tímabundinnar dvalar utan Bandaríkjanna eru af gerðinni B-52 og B-1. Bandaríkjaher ræður yfir samtals tæplega 160 langdrægum sprengjuþotum. Þegar slíkar flugvélar eru gerðar út til tímabundinnar dvalar á stöðum utan Bandaríkjanna er talað um “verkefnissveit sprengjuflugvéla” (Bomber Task Force). Sveitinni sem hingað kom fylgdi 200 manna lið og flutningaflugvélar og hún fékk ennfremur stuðning bandarískra eldsneytisþota frá Bretlandi. 

Allar þrjár tegundir langdrægra sprengjuflugvéla Bandaríkjahers eru gerðar til að bera sprengjur af ýmsu tagi sem og stýriflaugar. Allar tegundirnar geta borið kjarnavopn.

Koma B-2 flugvélanna og – að því er virðist – frekari tímabundin dvöl langdrægra bandarískra sprengjuflugvéla á Íslandi í framhaldi af komu B-2 vélanna fellur að hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO vegna öryggis á meginlandi Evrópu. Hún fellur einnig að vaxandi áherslu Bandaríkjahers á norðurslóðir og loks þeirri stefnu hans um áratuga skeið – og fyrr var nefnd – að í stríði yrði langdrægum sprengjuflugvélum beitt til árása frá norðurslóðum gegn sovéska hernum og nú þeim rússneska.

Dvöl B-2 sprengjuþotanna á Keflavíkurflugvelli telst til verulegra tíðinda í öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið. Fremur lítil umfjöllun varð þó um málið og engin umræða hefur orðið – a.m.k. ekki opinberlega. 

Það sem komið hefur fram í þessari grein um komu B-2 þotanna og hvernig hún tengist áætlunum og markmiðum Bandaríkjahers og NATO er byggt á yfirlýsingum bandaríska flughersins og ummælum foringja í honum.  Af hálfu íslenskra stjórnvalda hafa að svo komnu einungis birst almenn ummæli utanríkisráðherra í frétt Morgublaðsins 8. september síðastliðinn.

„Þetta er í sam­ræmi við það sem er að ger­ast í ör­ygg­is­mál­um í Evr­ópu og hér á þessu svæði. Æfing­ar sem þess­ar hafa verið að fara fram í Evr­ópu að und­an­förnu,“ út­skýr­ir Guðlaug­ur og seg­ir að vera vél­anna hér sé hluti af gisti­ríkj­astuðningi Íslands við bandalagsþjóðir okk­ar, en vél­arn­ar æfa nú á norður­slóðum. „Það skipt­ir máli fyr­ir okk­ur að hér sé æft reglu­lega og það ör­ygg­is­net sem við reiðum okk­ur á þekki vel til aðstæðna…Okk­ar varn­ir byggj­ast fyrst og fremst á veru okk­ar í Atlants­hafs­banda­lag­inu og tví­hliða varn­ar­samn­ingi við Banda­rík­in. Þess vegna erum við með búnað og aðstöðu hér, til að taka á móti þeim aðilum sem þurfa að sinna vörn­um. Aðkoma Íslands að þess­um æf­ing­um felst fyrst og fremst í gisti­ríkj­astuðningi en starfs­fólk Land­helg­is­gæsl­unn­ar og starfs­stöðvar Atlants­hafs­banda­lags­ins á ör­ygg­is­svæðinu á Kefla­vík­ur­flug­velli kem­ur að æf­ing­unni” 

Blaðamaður Morgunblaðsins spurði: “Er þetta nýr raun­veru­leiki sem við eig­um að venj­ast? Að hér séu sprengjuflug­vél­ar við æf­ing­ar? Svar utanríkisráðherra var að „Við þekkj­um það að út af stór­aukn­um víg­búnaði á þessu svæði erum við að sjá aukn­ingu til varn­ar­mála í öll­um lönd­um sem við ber­um okk­ur sam­an við. Aukn­ing­in er mest, frá fyrri heims­styrj­öld, hjá Sví­um til dæm­is. Það sama má segja um Nor­eg og hin Norður­lönd­in. Þetta end­ur­spegl­ar þá stöðu sem er uppi. Öll lönd í Atlants­hafs­banda­lag­inu hafa stór­aukið fram­lög sín á und­an­förn­um árum. Vendipunkt­ur­inn var árið 2014 eft­ir at­b­urðina á Krímskaga.Það er raun­veru­leik­inn sem við horf­um fram á. Þetta er breytt um­hverfi og banda­lags­ríki okk­ar hafa brugðist við eins og við.”

Spurningar sem vakna

Ekki hefur verið greint frá því hvernig koma B-2 þotanna bar að íslenskum stjórnvöldum – eða hvert verði framhald mála umfram það sem ráða má af þeim upplýsingum hafa komið frá bandaríska flughernum. 

Í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands, sem hefur með öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli að gera, sagði við komu sprengjuþotanna að þær yrðu á landinu “næstu daga”. Það reyndist ríflega hálfur mánuður. Bandaríski flugherinn sagði að koma þeirra hefði lengi legið fyrir (“long-planned”) og afar ólíklegt annað en að einnig hafi verið ljóst þá að þær yrðu hér lengur en í örfáa daga.

Í viðtali Air Force Magazine við Timothy M. Ray, hershöfingja í flughernum, 25. febrúar síðastliðinn sagði að margir möguleikar varðandi tímabundna dvöl sprengjuflugvéla utan Bandaríkjanna væru í skoðun. Ekki væri unnt að fara nánar út í það fyrr en gengið hefði verið frá málum við gistiríki (“until details are worked out with host countries”).

Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja frá Bandaríkjaher má ráða að Ísland hafi fengið nýtt og aukið hlutverk í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO. 

Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki staðfest að Keflavíkurflugvöllur sé ný útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar. Þau hafa tjáð sig með öðrum og mun almennari hætti en talsmenn Bandaríkjahers um komu B-2 sprengjuþotanna til landsins.

Eftir stendur því spurning um hvort Ísland sé ný útstöð fyrir langdrægar sprengjuflugvélar bandaríska flughersins eða ekki.

Heimildir

Norðurslóðir orðnar viðfangsefni leiðtogafunda

Forsetar Bandaríkjanna og Rússlands ræddu meðal annars um norðurslóðir á fundi sínum í Genf 16. júní síðastliðinn. Í fyrsta sinn voru málefni norðurslóða á dagskrá fundar á æðsta stigi milli þessara stórvelda. Það er sögulegt og til marks um vaxandi mikilvægi svæðisins. 

Þær upplýsingar sem liggja fyrir opinberlega um hvað bar á góma um norðurslóðir komu fram á fréttamannafundum forsetanna, ítarlegast í máli Putins Rússlandsforseta.

Málefni norðurslóða virðast hafa verið rædd á Genfarfundinum að bandarísku frumkvæði. Annarsvegar mun Biden forseti hafa tekið upp aukna hernaðarlega uppbyggingu og umsvif Rússa á svæðinu. Putin svaraði því til, eins og Rússar hafa gert áður, að í grunninn væri ekkert nýtt á ferðinni – heldur væri aðallega verið að hverfa aftur til þess viðbúnaðar sem var áður á Sovéttímanum. 

Hins vegar, og það er athyglisvert, var rætt um norðurleiðina; siglingaleið sem hefur verið að opnast úti fyrir norðurströnd Rússlands vegna þess að hafís hörfar í kjölfar hlýnunar Jarðar. Lögfræðilegur ágreiningur er uppi við Rússland, og reyndar Kanada einnig, sem lýtur að því hve mikil afskipti strandríki megi hafa í lögsögu sinni af siglingum skipa frá öðrum ríkjum á leiðum sem opnast af því hafís hörfar. Á leiðtogafundinum  virðist Biden hafa haldið fram þeim málstað í þessu samhengi að norðurslóðir yrðu “frjálst svæði” (free zone). Hér var verið að horfa til meginreglna og bandarískra lykilhagsmuna á norðurslóðum til lengri tíma litið.  Norðurleiðin verður hins vegar af ýmsum ástæðum ekki til þess að breyta heimssiglingum í grundvallaratriðum og hún mun í sjálfri sér vart snerta stóra bandaríska hagsmuni (sjá nánar um þessi atriði öll í fyrri greinum á vefsíðunni meðal annars í 
Ísland og umheimurinn 2020-2050 – Annar hluti: Á norðurslóðum, 2. febrúar 2021.). 

Meginatriði er að norðurslóðir voru ekki viðfangsefni leiðtogafundarins í Genf vegna hernaðarumsvifa eingöngu heldur einnig vegna hlýnunar Jarðar á norðurslóðum. Áhrif hennar hafa þegar komið í ljós og kunna að verða svo mikil upp úr miðri öldinni að Norður-Íshaf opnist milli Atlantshafs og Kyrrahafs, sem mundi breyta í grundvallaratriðum heimsmyndinni, siglingum, alþjóðapólitík og öryggismálum. Umræðan  á leiðtogafundinum í Genf um norðurleiðina er til marks um almennt vaxandi vitund um þennan möguleika og aukinn áhuga á honum, þótt tímaramminn sé áfram mældur í áratugum.

Þá var í fyrsta sinn fjallað um norðurslóðir í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO, sem var haldinn í aðalstöðvum bandalagsins í Brussel 14. júní síðastliðinn. Í yfirlýsingunni er talað um öryggishagsmuni bandalagsins á norðurslóðum (“high north”) en með almennum og femur varfærnislegum hætti. Við því mátti búast í yfirlýsingu 30 aðildarríkja bandalags sem nær frá norður Noregi til Miðjarðarhafs. Orðalagið breytir ekki því að NATO ríki, en einkum Bandaríkin, hafa mikilla hernaðarlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og hafa haft um margra áratuga skeið. Mikilvægið fer vaxandi sem hafísinn hörfar en einnig til skemmri tíma litið vegna tiltekinna herfræðilegra og hertæknilegra þátta á norðurslóðum, sem snerta lykilatriði í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO (sjá tilvísun að ofan í grein á vefsíðunni og einnig Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands, 28. maí 2020.).

Ennfremur má geta þess að norðurslóðir voru á dagskrá leiðtogafundar ESB í desember 2019 þegar leiðtogaráð sambandsins afgreiddi norðurslóðastefnu, sem hafði verið mótuð á vettvangi framkvæmdastjórnar þess og utanríkisráðherra. Áður hafði ráðið ályktað á árunum 2014 og 2016 að norðurslóðastefna skyldi mótuð. Rétt er að nefna að ráðið tekur fram að ESB hafi ekki beina aðkomu að málefnum norðurslóða heldur sé hún á hendi norðurslóðaríkja þess, þ.e. Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, sem eru aðildarríki Norðurskautsráðsins.ReplyForward

Reykjavíkurfundur Norðurskautsráðsins – Heimsókn utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Íslands

Norðurskautsráðið byggir að segja má á sameiginlegum skilningi aðildarríkanna á skýrum hagsmunum íbúa norðurslóða á sviði loftslagsmála, mengunarmála, líffræðilegs fjölbreytileika, málefna hafsins og náttúruvár. Í grunninn er áherslan í starfi ráðsins á sjálfbæra þróun og umhverfisvernd til að vinna að velferð samfélaga á norðurslóðum og ráðið er leiðandi vettvangur fyrir samstarf, samræmingu og samráð um þessi mál milli ríkisstjórna, frumbyggja og annarra íbúa svæðisins. Í starfsemi ráðsins er sjónum í vaxandi mæli beint að loftslagsmálum því haldi hlýnun Jarðar áfram mun það hafa róttæk áhrif á á samfélög og lífskjör á norðurslóðum; og kalla á sameiginleg viðbrögð á svæðinu, sem einungis Norðurskautsráðið verður fært um að móta og samræma. Ráðið getur þannig gegnt lykilhlutverki í heimshluta sem líkur benda til að eigi eftir að fá mjög aukið vægi í heimsmálum eftir því sem líður á öldina.

Aðildarríki ráðsins eru Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Svíþjóð og Rússland. Að auki eiga fimm frumbyggjasamtök  aðild að ráðinu. Áheyrnaraðilar eru Bretland, Frakkland, Holland, Ítalía, Japan, Kína, Pólland, Spánn og Þýskaland. Ísland hefur haft formennsku í ráðinu frá 2019 en á ráðherrafundi þess í Reykjavík 19.-20. maí tekur Rússland við og hefur formennskuna með höndum til 2023.

Með stofnun Norðurskautsráðsins fyrir 25 árum var notað tækifæri sem gafst norðurslóðaríkjunum, þegar stórveldadeilur kalda stríðsins stóðu ekki lengur í vegi, til að fást sameiginlega við málefni norðurslóða og tryggja hagsmuni samfélaga þar varðandi sjálfbæra þróun og umhverfismál. Jafnframt var ákveðið að hernaðarleg öryggismál yrðu ekki þáttur í starfsemi ráðsins, enda mundu þau trufla hana. 

Að halda norðurslóðum sem “lágspennusvæði” er yfirlýst stefna allra aðildarríkja norðurskautsráðsins sem og að halda samkeppni og hernaðarlegum umsvifum stórveldanna utan við starfsemi ráðsins. Það hefur tekist þrátt fyrir afar stirð samskipti að öðru leyti milli Rússlands og annarra aðildarríkja ráðsins í kjölfar Úkrænudeilunnar 2014. 

Hvort norðurslóðir verða áfram lágspennusvæði ræðst aðallega af samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands. Þegar fram í sækir, og að því gefnu að stefni í að hlýnun Jarðar leiði til þess að Norður-Íshaf opnist, mun þróun mála einnig litast mjög af samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu og samkeppni þeirra á norðurslóðum. Til skemmri tíma litið verður gangur mála aðallega háður samkeppni Bandaríkjanna og Rússlands. 

Hernaðarlegir hagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum hafa þróast þannig í veigamiklum atriðum að leitt hefur til nýrra og aukin umsvifa þeirra á svæðinu: 

Norðurfloti Rússlands er lítill miðað við sovéska forverann. Hernaðarleg þýðing Íslands og Norður-Atlantshafs hefur minnkað af þeim sökum frá því sem var í kalda stríðinu, enda koma skip og kafbátar Norðurflotans lítið út á Norður-Atlantshaf en halda sig að mestu við forgangsverkefni í heimahöfum og nálægum svæðum, það er í norður Noregshafi, Barentshafi og Hvítahafi. 

Til að komast í tæri við Norðurflotann í eftirlits og æfingaskyni og til að undirstrika fælingarstefnu gegn Rússlandi þarf Bandaríkjaher því í vaxandi mæli að halda lengra norður en áður – inn á athafnasvæði Norðurflotans. Sömu áhrif hefur að Norðurflotinn er að taka í notkun langdrægar stýriflaugar sem gerir kleift að ná til skotmarka í Norður-Evrópu frá heimahöfum og nærliggjandi svæðum.  Þegar fram í sækir mun bæði rússneski flotinn og flugherinn ráða yfir stýriflaugum sem mundu ná til skotmarka í Evrópu og Norður -Ameríku frá skipum, kafbátum og flugvélum langt inni á Norður-Íshafi. 

Þannig hafa NATO-ríki aukinna hagsmuna að gæta í lofti og á legi lengra inni á norðurslóðum en áður líkt og ítarlega hefur verið fjallað um í fyrri greinum á þessari vefsíðu. Hernaðarleg umsvif Bandaríkjanna og eftir atvikum annarra NATO-ríkja á svæðinu hafa sem fyrr sagði breyst og aukist í takt við áðurnefnda þróun og enn hefur bæst við á síðustu vikum: 

Í fyrsta lagi fær Bandaríkjafloti samkvæmt nýlegu samkomulagi Bandaríkjanna og Noregs sérstaka aðstöðu á herflugvelli í Norður-Noregi fyrir kafbátaleitarflugvélar. Flotinn fær að byggja flugskýli og eldsneytisgeyma og leggja eldsneytiskerfi. Þetta er skýr vísbending um enn aukna áherslu Bandaríkjaflota á norður Noregshaf og Barentshaf;

í öðru lagi hafa norsk stjórnvöld ákveðið að Bandaríkin og önnur NATO ríki fái aðgang fyrir kjarnorkuknúna kafbáta að höfn skammt frá Tromsö í norður Noregi vegna áhafnaskipta og til að taka vistir og varahluti. Slíkur aðgangur sparar tíma, sem annars færi í að sigla til flotahafna í suðurhluta Noregs eða Skotlandi, og eykur tímann sem gefst til athafna á þeim stöðum í norðri þar sem Norðurflotinn heldur sig aðallega;

þá er athyglisvert að AWACS ratsjárþota NATO flaug yfir Norður-Íshafi fyrir norðan Grænland 23. mars síðastliðinn vegna loftvarnaæfingar. Flug þotunnar sést á twitter síðunni Aircraft Spots þennan dag.  Um var að ræða reglubundna æfingu á vegum NORAD (North American Aerospace Defense Command), sem er sameiginleg loftvarnaherstjórn Bandaríkjanna og Kanada. Æfingin fór fram 20.-26. mars og náði frá Alaska til Thule á Grænlandi. Þáttaka ratsjárþotu frá NATO skýrist væntanlega af því að herstjórnarsvæði Evrópuherstjórna Bandaríkjanna og NATO nær meðal annars yfir Grænland og inn á Norður-Íshaf. Orrustuþotur og eldsneytisþotur sem tóku þátt í æfingunni komu frá Bandaríkjunum og Kanada. Þess má vænta að loftvarnaviðbúnaður og æfingar nái í auknum mæli inn á Norður-Íshaf vegna fyrrnefndra langdrægra rússneskra stýriflauga og viðbragða við þeim.

Hvað varðar hagsmuni Rússlands þá hafa norðurslóðir mikla efnahagsleg þýðingu. Þegar koma um 10 prósent af þjóðartekjunum og 20 prósent af útflutningnum frá norðurslóðum – málmar, gas, olía og kol – og auðlindir á svæðinu eru lykilþáttur í væntingum og áætlunum um hagþróun í landinu.

Norðurflotinn og stöðvar hans á Kolaskaga á norðvestur Rússlandi skipta Rússa afar miklu máli. Hryggjarstykki í rússneska kjarnorkuhernum er í eldflaugakafbátum Norðurflotans. Kjarnavopn kafbátanna og öryggi þeirra lúta frá sjónarhóli stjórnvalda að tilvistarhagsmunum Rússlands og kjarnorkuherinn hefur lykilþýðingu fyrir stefnu og stöðu þess í heiminum. Endurnýjun eldflaugakafbátanna og árásarkafbáta til að gæta öryggis þeirra fyrrnefndu í Barentshafi hefur verið forgangsatriði við framkvæmd áætlunar Putin-stjórnarinnar undanfarin 15 ár um endurnýjun og uppbyggingu hersins í kjölfar margra ára vanrækslu og fjársvelti eftir fall Sovétríkjanna. 

Þó hefur Norðurflotinn minnkað mjög sem fyrr sagði og sú þróun heldur áfram í mikilvægum atriðum. Þannig er nú útlit fyrir að eldflaugakafbátar hans gætu orðið 7 talsins um 2030 (en voru 40 á árinu 1985) og að kjarnorkuknúnir árásarkafbátar, af því tagi sem geta athafnað sig á úthöfum, verði einungis 4-8 (eru nú 13-17 – næstum allir frá Sovéttímanum – en voru 75 talsins á árinu 1985). Þess ber að geta að einungis tekst, og með ærnum tilkostnaði, að halda úti helmingi kafbátanna á hverjum tíma. Herskip Norðurflotans af því tagi sem beita má á úhöfum eru orðin örfá og ekki útlit fyrir að þeim fjölgi. Hins vegar er verið að endurnýja minni skip af því tagi sem gæta heimahafa og nærsvæða þeirra. Einnig er verið að efla loftvarnir norðurslóða Rússlands. 

Þannig hafa bæði Bandaríkin og Rússland mikilvægra öryggishagsmuna að gæta á norðurslóðum og herfræðileg þróun og hagsmunir Bandaríkjanna virðast kalla á áframhaldandi aukin umsvif þeirra. Bæði stórveldin láta hvort um sig reglulega í ljós óánægju og tortryggni varðandi aukinn viðbúnað og umsvif hins. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við umsvifum Bandaríkjanna hafa harðnað að undanförnu.

Því vaknar spurning um hve lengi takist að halda stirðum samskiptum stórveldanna frá Norðurskautsráðinu og koma í veg fyrir að hún skaði starfsemi þess. Stundum kviknar umræða – einkum meðal sérfræðinga – um hvort Norðurskautsráðið eigi hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð var við stofnun þess að það haldi sig frá því hermálum. Skoðanir virðast gjarnan skiptast í tvö horn, annarsvegar að ráðið verði að láta hernaðarleg mál til sín taka af því spenna og hernaðarleg umsvif fari vaxandi; hinsvegar að með því muni opnast “askja Pandóru” það er uppspretta deilna og vandræða sem á endanum komi í veg fyrir að ráðið geti sinnt þeim verkefnum sem því var falið í byrjun og skipti afar miklu fyrir íbúa norðurslóða.

Fyrir Úkrænudeiluna átti sér árlega stað formlegt samráð ríkjanna sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu þar sem hermál og öryggismál voru rædd. Þessi vettvangur, sem var utan við ráðið, var lagður niður að frumkvæði NATO í kjölfar versnandi samskipta við Rússland vegna Úkrænudeilunnar. Rússnesk stjórnvöld tala fyrir því að slíku samráði verði aftur komið á.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, munu funda í Reykjavík um samskipti ríkjanna meðan á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Það verður fyrsti tvíhliða fundur svo háttsettra fulltrúa Bandaríkjanna og Rússlands eftir að Biden forseti tók við í janúar og yrði væntanlega mikilvægur liður í undirbúningi fyrir líklegan fund Bidens og Putins, Rússlandsforseta, í júní. Almennt virðast ekki uppi væntingar um að samskipti Rússlands og Bandaríkjanna geti batnað í grundvallaratriðum, hvorki í bráð né lengd. 

Blinken kemur við í Kaupmannahöfn á leið á Norðurskautsráðsfundinn í Reykjavík. Í Kaupmannahöfn á Blinken fundi með utanríkisráðherra Grænlands og utanríkisráðherra Færeyja, auk þess auðvitað að hitta danska ráðamenn. Frá Reykjavík heldur Blinken til Grænlands til frekari viðræðna við þarlenda ráðamenn. Það er því greinilega áfram aukin áhersla í stefnu Bandaríkjanna á norðurslóðir, líkt og var hjá Trump stjórninni.  Áhugavert verður að sjá hvað ferðir Blinkens nú til norðurslóðalanda leiða í ljós um helstu áhrifaþætti í stefnu Biden stjórnarinnar í málefnum svæðisins; að hve miklu leyti stefnan tekur mið af af umhverfismálum og að hve miklu leyti af hernaðarlegum hagsmunum.

Hvað varðar fundi Blinkens með íslenskum ráðamönnum verður einkum áhugavert að sjá hvað kemur fram um áhrif aukins vægis norðurslóða í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á tvíhliða samskiptin við Ísland – í öryggismálum og viðskiptamálum. Einnig hvort Blinken viðrar svipaðar áhyggjur af Kína almennt og á norðurslóðum sérstaklega og þeir Pence, varaforseti Trumps, og Pompeo, utanríkisráðherra, gerðu í Íslandsheimsóknum 2019. 

Loftslagsmál verða vafalaust ofarlega á baugi bæði á tvíhliða fundum og á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Ráðið skiptir miklu varðandi rannsóknir á hlýnun Jarðar og viðbrögð við henni á norðurslóðum, en hefur jafnframt lítið með það að gera að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Ísland og Bandaríkin eiga það sameiginlegt (með næstum öllum ríkjum heims) að mjög langt er í land með að þau nái yfirlýstum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, hvað þá að fullnægi markmiðum Parísarsamningsins um loftslagsmál.

Að öðru leyti er himinn og haf milli Íslands og Bandaríkjanna í loftslagsmálum, af þeirri ástæðu að hlutfall endurnýjanlegrar orku Bandaríkjunum er rúm 10 prósent en um 80 prósent á Íslandi. Þetta mjög háa hlutfall á Íslandi þýðir meðal annars, líkt og fjallað hefur verið um í fyrri greinum á þessari vefsíðu, að Íslendingar eiga dýrari og færri kosti til að minnka losun en á við Bandaríkin og flest önnur ríki í því efni, þótt þeirra kostir séu auðvitað einnig erfiðir.

Ísland og umheimurinn 2020-2050 Fjórði hluti: forsendur utanríkismálanna

Eftirfarandi samantekt er gerð í kjölfar greina á undanförnum vikum á vefsíðunni um Ísland og umheiminn 2020-2050, og byggir samantektin að mestu á því sem þar kemur fram. Fyrsta greinin fjallaði um Ísland í nýrri heimsmynd, önnur var um þróun mála á norðurslóðum og áhrif hennar á utanríkismálin og hin þriðja um áhrif loftslagsmála á samskipti Íslands við umheiminn.

Loftslagsmálin geta orðið stærsta utanríkismálið og þá sakir þess að illa gangi að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Til að breyta því þurfa þessi mál að ná miklum pólitískum skriðþunga, eða umbylting að verða í orkubúskap mannkyns. Ekkert er útilokað í þessum efnum, en flest bendir þó enn til að Ísland og mörg önnur ríki eigi þegar fram í sækir eftir að standa frammi fyrir afar krefjandi kostum í samskiptum við umheiminn vegna loftslagsmála. 

Þar á meðal er að íslensk stjórnvöld þurfi að taka afstöðu í viðskiptadeilum, sem eru á uppsiglingu á alþjóðavettvangi vegna þess að loftslagsmál snerta náið samkeppnishæfni ríkja. 

Vegna þess hve hlutfall endurnýjanlegrar orku er hátt á Íslandi eru færri raunhæfir og hagkvæmir kostir þar en í öðrum ríkjum til að minnka losun. Því má gera ráð fyrir að Ísland standi fyrr en þau frammi fyrir erfiðum kostum í loftslagsmálum og samskiptum við önnur ríki.

Einn slíkur verður að ákveða hvort kaupa eigi losunarheimildir fyrir háar fjárhæðir á alþjóðlegum markaði til að reyna að ná settum markmiðum. 

Ennfremur þarf að gera ráð fyrir að á einhverju stigi kunni að þurfa að ákveða hvort halda eigi áfram aðgerðum eða draga úr þeim sakir sívaxandi kostnaðar samfélagsins og lítils árangurs í loftslagsmálum á heimsvísu.

Ísland á í sérstöku samstarfi við önnur EES-ríki í loftslagsmálum, þótt hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi sé margfalt hærra en í þessum samstarfsríkjum. 

Því kann að koma til þess að taka þurfi afstöðu til hvort halda eigi áfram samstarfi við hin EES-ríkin eða hverfa til áherslu á íslenska sérstöðu og vísa til hennar í því skyni að reyna að komast hjá kostnaði og deilum við þessi og jafnvel fleiri ríki.

Heimsmyndin hefur breyst í grundvallaratriðum. Þungamiðja alþjóðakerfisins er ekki lengur á Evró-Atlantshafssvæðinu, heldur á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Evrópa og ESB hafa þannig minnkandi vægi, pólitískt og efnahagslega, en Bandaríkin eru áfram risaveldi og lykilaðili á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. ESB er enn fjarri þeim samruna sem þarf til að styrkja stöðu þess á alþjóðavettvangi og óljóst hvort það tekst en til þess þarf ESB að verða í grunninn sambandsríki.

Ísland er því á jaðri svæðis, Evró-Atlantshafssvæðisins, sem er undirkerfi í alþjóðamálum. Þetta er önnur staða en á 20. öld þegar þungamiðja þeirra lá á Evró-Atlantshafssvæðinu og Ísland tengdist henni náið af geópólitískum og herfræðilegum ástæðum sem hurfu með kalda stríðinu.

Ísland fær ekki aftur þá stöðu varðandi hagsmunagæslu, sem hernaðarlegt mikilvægi landsins veitti á stundum í kalda stríðinu. 

Þegar haldið er fram að mikilvægi Íslands hafi aukist á ný í tengslum við aukin hernaðarumsvif Rússa, einkum kafbátaumferð þeirra, á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, þá þarf að setja það í samhengi við að umsvifin voru engin á Norður-Atlantshafi um margra ára skeið eftir fall Sovétríkjanna. Þótt rússnesk umsvif á svæðinu hafi aukist úr engu eru þau lítil og flest bendir til að svo verði áfram. 

Norðurslóðir skipta strategískt meira máli en Norður-Atlantshaf, en Ísland fær ekki þá hernaðarlegu þýðingu vegna norðurslóða, sem það hafði í kalda stríðinu vegna legu þess á Norður-Atlantshafi. Ísland liggur að segja má mun sunnar en áður vegna herfræðilegra þátta sem snúa að Rússlandsher og landið verður enn sunnar í þessu efni haldi heimsskautsísinn áfram að hörfa. 

Það eru því litlar líkur á að aftur komi til fastrar viðveru Bandaríkjahers á Íslandi á friðartímum.

Bandaríkjaher sækir meira en áður inn á norðurslóðir af herfræðilegum og hertæknilegum ástæðum sem tengjast þróun í Rússlandsher og sakir þess að heimskautsísinn hörfar. Öryggishagsmunir Rússlands og umsvif á svæðinu eru hinsvegar þekkt og breytast ekki í grundvallaratriðum.

Átök milli Rússlands og NATO eru ólíkleg. Ísland á áfram almenna öryggishagsmuni með Bandaríkjunum, sem lúta að friði og stöðugleika í Evrópu. Stefna Bandaríkjahers á norðurslóðum tengist fælingarstefnu NATO gegn Rússlandi á meginlandinu. Ísland hefði hlutverki að gegna kæmi til hernaðaraðgerða af hálfu Bandaríkjanna í norðurhöfum, en það yrði mun veigaminna en áður.

Rússar eru sagðir vera að þróa kjarnorkuknúið tundurskeyti sem bæri kjarnorkusprengju og drægi neðansjávar frá norðurslóðum til árása á austurströnd Bandaríkjanna. Vopnið, sem einnig yrði hjá Rússlandsflota á Kyrrahafi, er talið verða tilbúið innan tíu ára. Hugsanlegt er að viðbrögð Bandaríkjahers leiði meðal annars til áætlana um að reyna að granda slíkum tundurskeytum á leið þeirra suður Atlantshaf í GIUK hliðinu svonefnda milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands. Þótt þetta mál kunni að virðast með ólíkindum er ástæða til að fylgjast með því.

Bandaríkin eru skuldbundin til að verja Ísland og einungis flugher Bandaríkjanna hefur næga burði til að halda uppi loftrýmisgæslu á Íslandi á hættutíma. Varnarsamstarf við Evrópuríki NATO og loftrýmisgæsla sem þau hafa innt af hendi undanfarinn áratug hefur takmarkað gildi hvað varðar beinar varnir landsins.

Á hættutíma mundi loftrýmisgæsla reyndar ekki beinast gegn rússneskum herflugvélum því þær gætu sent stýriflaugar á skotmörk á Íslandi frá stöðum í allt að 3000 kílómetra fjarlægð, og því augljóslega fjarri ratsjám og loftvörnum á landinu. Flugþol rússneskra stýriflauga fer enn vaxandi. Þeim má einnig skjóta frá kafbátum og herskipum langt í norðri frá Íslandi. Varnir gegn stýriflaugum eru torveldar eftir að þær eru sendar af stað til skotmarka. Skásti kosturinn er að grípa til varna tiltölulega nálægt líklegum skotmörkum en jafnvel þá er erfitt að verjast flaugunum sem fljúga undir ratsjárgeislum og gjarnan eftir krókaleiðum.

Auk þess að öryggi Íslands hefur verið tryggara en áður eftir kalda stríðið hefur gengið afar vel efnahagslega þegar litið er á tímabilið í heild. Ísland býr að sterkri stöðu hvað varðar aðgang að mörkuðum, eftirsóttar útflutningsvörur og áhuga ferðamanna á að heimsækja landið. 

Ísland mun (eins og önnur Evró-Atlantshafsríki) horfa í vaxandi mæli á Asíu-Kyrrahafssvæðið í utanríkisviðskiptum til að auka verðmæti útflutningsvara og fá hærra verð fyrir ferðaþjónustu. Hlutdeild þessa svæðis – hinnar nýju þungamiðju heimsins – í íslenskum utanríkisviðskiptum er líkleg til að vaxa verulega. Þar verða einnig aukin tækifæri til að finna nýja samstarfsaðila og fjárfesta þar á meðal á nýsköpunar-  og tæknisviði.

Gera verður ráð fyrir að Ísland þurfi á næstu árum og áratugum að taka afstöðu til ýmissa deilumála sem lúta að harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjanna. Stundum kann niðurstaðan að vera augljós vegna skýrra hagsmuna og grundvallarreglna, í öðrum tilvikum kann að vera möguleiki fyrir Ísland að standa á hliðarlínunni, í enn öðrum leyfir hagsmunamat ef til vill ekki slíkt svigrúm.

Miklu getur skipt að utanríkisviðskiptin verði ekki um of háð Kínamarkaði og að ekki verði síður sótt á aðra vaxandi markaði í Asíu en þann kínverska. Ísland mun þurfa að taka afstöðu til deilumála í harðnandi samkeppni Kína og Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og það eru meiri líkur en minni á að Ísland standi með Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum fremur en með Kína. Það getur leitt til refsisaðgerða af Kína hálfu gegn Íslandi.

Eiginleg samkeppni Kína og Bandaríkjanna á norðurslóðum er enn ekki til staðar, en samkeppni þeirra á heimsvísu hefur skilað sér þangað. Það hefur þó hingað til aðallega birst í bandarískum yfirlýsingum að því að virðist til að minna Kínverja á að Ísland og Grænland eru á bandarísku áhrifasvæði.

Ef og þegar stefndi ákveðið í að Norður-Íshaf opnaðist vegna bráðnunar mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þess meðal annars birtast með mjög auknum áhuga Kína og Bandaríkjanna á Íslandi, sem og þrýstingi af þeirra hálfu. 

Aukinn áhugi stórveldanna tveggja á norðurslóðum og hugsanlegir miklir framtíðarhagsmunir þeirra þar kunna að veita Íslandi meira svigrúm í utanríkismálum en ella væri. Eftir að samkeppnin næði beinlínis til norðurslóða kynni svigrúmið á einhverju stigi að minnka af því Bandaríkin mundu eftir þörfum reyna að auka þrýsting á Ísland.

Líkur á að norðurslóðir yrðu áfram “lágspennusvæði”, sem er markmið íslenskra stjórnvalda, færu auðvitað minnkandi ef stórveldasamkeppni yxi á svæðinu.

Jaðarstaða Íslands í alþjóðakerfinu breytist augljóslega nái hlýnun Jarðar af mannavöldum því stigi að Norður-Íshaf opnist yfir pólinnn og bein tenging verði þar um norðurslóðir milli Evró-Atlantshafs og þungamiðju alþjóðakerfisins á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Þar yrði svonefnd norðurskautsleið.

Hugsanlegt er, en ekki víst, að Ísland gæti eftir nokkra áratugi orðið mikilvægur staður fyrir umskipun og aðra þjónustu við siglingar á norðurskautsleiðinni.

Ísland og umheimurinn 2020-2050 Þriðji hluti: Loftslagsmálin

Ágrip: Loftslagsmál hafa orðið fyrirferðarmikil á alþjóðavettvangi. Þá er átt við umræðu um þau og alþjóðlega starfsemi til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum í því skyni að draga úr hlýnun Jarðar af mannavöldum. Eftir meira en tveggja áratuga viðleitni er árangurinn hverfandi lítill en jafnframt væntingar uppi um að Parísarsamningurinn um loftslagsmál frá 2015 bæti úr því.

Íslensk stjórnvöld hafa í tengslum við Parísarsamninginn markað stefnu um að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir 2040. Ekki liggur fyrir áætlun um hvernig ná á markmiðinu né heldur mat á því hvað það kann að kosta samfélagið. Það á reyndar við í öðrum ríkjum þar sem sama markmið hefur verið sett. Kostnaður ríkissjóðs Íslands, einstaklinga og fyrirtækja vegna aðgerða í loftslagsmálum nemur þegar samtals nokkrum milljörðum á ári og á Ísland þó  – eins og langflest önnur ríki – langt í land með að ná settum markmiðum.  Á heimsvísu stendur jarðefnaeldsneyti – olía, kol og gas – undir um 80 prósentum af orkuframleiðslunni og ekki útlit fyrir að það breytist að ráði. Losun gróðurhúsalofttegunda eykst og væntingar milljarða manna í þróunarríkjum um bætt lífskjör krefjast mikillar orku sem að óbreyttu mun aðallega koma frá jarðefnaeldsneyti og valda mikilli losun. 

Loftslagsmálin hafa sérstakar hliðar miðað við önnur alþjóðamál. Ein snýr að mjög miklum kostnaði samfara því að minnka losun svo um muni, önnur að því að aðgerðir snerta náið lífskjör fólks og starfsemi samfélagsins. Enn ein hlið lýtur að ótta við hamfarahlýnun, sem svo er nefnd, og hefur orðið fyrirferðarmikil í umræðunni. Höfundur þessarar greinar hefur ekki forsendur til að fjalla um hamfarahlýnun, en nái kenningar um hana almennri pólitískri fótfestu kunna markmið Parisarsamningsins að rætast á næstu áratugum. Nái loftslagsmálin – með öðrum orðum – að breyta pólitískum forsendum í grundvallaratriðum; umbylta alþjóðapólitíkinni og gangverki alþjóðakerfisins. 

Enn bendir flest til annars og að áfram ríki óvissa um að takast megi að minnka svo notkun jarðefnaeldsneytis að markmiðum Parísarsamningsins verði náð. Svo kann að fara að mörg ríki, stór og smá, komist að þeirri niðurstöðu að kostnaðurinn yrði samfélaginu ofviða. Takist þannig ekki að skipta byrðum af aðgerðum í loftslagsmálum milli ríkja og ríkjahópa má búast við hörðum ágreiningi um þau á alþjóðavettvangi. Deilur sem lúta að milliríkjaviðskiptum eru þegar á uppsiglingu af því samkeppnistaða hefur raskast sakir þess að kröfur í loftslagsmálum er ólíkar eftir ríkjum. 

Það er því hugsanlegt að Ísland þurfi að taka afstöðu í viðskiptadeilum vegna samkeppnistöðu og loftslagsmála. Einnig þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að taka þurfi afstöðu til þess, komi í ljós eftir einhver ár og mikil úgjöld að losun minnki ekki í heiminum, hvort eigi að halda óbreyttri stefnu með sívaxandi kostnaði eða draga úr aðgerðum eða jafnvel hætta þeim. Að draga úr eða hætta gæti leitt til ágreinings við önnur ríki, einkum Evrópuríki sem Ísland á í nánu samstarfi við í loftslagsmálum. Fleiri ríki en Ísland stæðu auðvitað frammi fyrir slíkum kostum en það gæti lent þar fyrr en önnur sakir þess að svigrúm íslensks samfélags til að minnka losun svo um muni er þrengra en margra annarra. Af því að Íslendingar hafa þegar náð langt í að nýta hreina og endurnýjanlega orku eiga þeir færri mögulega kosti en margir aðrir til að minnka losun. Í því efni verða auðveldustu og hagkvæmustu kostirnir fyrst fyrir hendi en kostnaður eykst og svigrúm minnkar þegar fram í sækir. Um tíma naut Ísland sérstöðu og undanþágu í alþjóðlegu samstarfi um loftslagsmál aðallega í krafti þess hve hátt hlutfall slíkrar orku væri í þjóðarbúskapnum. Íslensk stjórnvöld gáfu þetta eftir 2009 með þeim rökum að sérstaðan þýddi að ekki þyrfti undanþágu í stað þess að sérstaðan gæfi tækifæri til að fá svigrúm, sem hafði verið stefnan. Ekki er unnt að útiloka að til þess komi að aftur þurfi að leggja megináherslu á sérstöðuna. 

Í fyrri hlutum þessarar greinar um Ísland og umheiminn 2020-50 hefur verið ríkur fókus á norðurslóðir og gjarnan horft fram um áratugi enda hæg og óviss sú þróun á svæðinu sem hugsanlega gæti haft mikil áhrif á samskiptin við umheiminn. Þótt eigi eftir að koma í ljós hverju fram vindur í loftslagsmálum almennt og um framkvæmd Parísarsamningsins sérstaklega, kunna þau til skemmri tíma litið að skipta meira máli í samskiptum við umheiminn en norðurslóðir og verða mjög krefjandi í utanríkismálunum.

Efnisyfirlit: Kostnaðurinn – Parísarsamningurinn – Samkeppnishæfni og milliríkjadeilur – Staða Íslands 

Kostnaðurinn
Í Parísarsamningnum frá 2015 um loftslagsmál felst markmið um að hlýnun Jarðar verði haldið undir 2 gráðum á öldinni, helst við 1,5 gráður. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál telur nauðsynlegt að setja markið við lægri töluna. Það kallar að hennar mati á “skjótar, víðtækar og fordæmalausar breytingar á öllum hliðum samfélagsins” (“rapid, far-reaching and unprecedented changes in all aspects of society” – Summary for Policymakers of IPCC Special Report on Global Warming of 1.5°C approved by governments, IPCC, 8. október 2012.).

Losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum er um 60% meiri nú en hún var 1990. Um 80% af framleiddri orku í heiminum stafa frá jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og jarðgasi. Þótt hlutfall vind- og sólarorku hafi aukist verulega þá er það enn lítið brot af heildinni og væri enn minna ef ekki væru veittir miklir opinberir styrkir vegna þessara orkugjafa. Að mati alþjóðaorkumálastofnunarinnar virðist að hlutfall jarðefnaeldsneytis í orkubúskap heimsins lækki ekki umtalsvert næstu áratugi. Eftirspurn í heiminum eftir orku stefni hinsvegar í að aukast um fjórðung á næstu tveimur áratugum og aukningunni verði aðallega mætt með jarðefnaeldsneyti. Jafnframt er talið að svo ná megi markmiðum Parísarsamningsins þurfi losun gróðurhúsalofttegunda að minnka um 5-8 prósent á ári. Það er enn ekki að fara að gerast og að óbreyttu stefnir í að hlýnun verði meira en þrjár gráður á öldinni en ekki 1,5-2 gráður. 

Mannkynið er háð jarðefnaeldsneyti vegna fjölmargra og ólíkra þarfa en einnig vegna væntinga milljarða manna um bætt lífskjör. Þær kalla á enn aukna notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum með tilheyrandi aukinni losun gróðurhúsalofttegunda.  Og með bættum efnahag koma fram nýjar væntingar og orkufrekar þarfir, sem leiða til aukinnar raforkuframleiðslu, fjölgunar bifreiða, fjölgunar loftkælitækja og kæliskápa, til stóraukinnar byggingar steinsteyptra mannvirkja af margvíslegu tagi, til meiri kjötneyslu og þeirrar orkuþarfar sem henni fylgir, til meira farþega- og fraktflugs, til meiri vöruflutninga á sjó og landi og svo má lengi telja. 

Til marks um skýr tengsl loftslagsmála við gang hagkerfa er að losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum minnkaði að talið er um 6 prósent á árinu 2020 vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins og kreppunnar sem af honum leiddi. Losun minnkaði einnig í kjölfar fjármálakeppunnar 2008 en óx fljótlega aftur þegar hagvöxtur varð á ný. Það mun einnig gerast í kjölfar kórónuveirufaraldursins. 

Sakir þess að hlýnun Jarðar af mannavöldum stafar af notkun jarðefnaeldsneytis þarf að koma til umbreyting í orkumálum mannkynsins, nánar tiltekið bylting í notkun kjarnorku eða sólarorku. Einnig er fræðilegur möguleiki á að fanga megi með hagkvæmum hætti kolefni úr andrúmsloftinu. Þar til umbreyting verður í þessum efnum þarf að fást við hlýnun Jarðar með því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda; enda er það inntakið í aðgerðum ríkja heima fyrir og í viðleitni alþjóðasamfélagsins með Parísarsamningnum. Þessi eina tiltæka aðferð er mjög dýr.

Parísarsamningurinn
Forveri Parísarsamningsins var Kyoto-bókunin. Meðal veikleika hennar var að hún náði ekki til Kína eða annarra þróunarríkja, sem leiddi til þess að Bandaríkin voru frá upphafi ekki með í framkvæmd bókunarinnar og ýmis önnur ríki sögðu sig frá henni eins og fjallað hefur verið um á vefsíðunni (17. desember 2018, Alþjóðakerfið og aðgerðir í loftslagsmálum – Samingafundur í Póllandi og 28. maí 2018, Parísarsamkomulagið um loftslagsmál: áskorunin og alþjóðakerfið.) Meginástæðan var að bókunin næði ekki til þróunarríkja, þar á meðal Kína, og mundi því skaða samkeppnishæfni ríkjanna sem féllu undir hana og raska samkeppnisstöðu þeirra gagnvart hinum.

Kyoto bókunin kom því á endanum eingöngu til framkvæmda gagnvart litlum hópi ríkja sem losuðu afar lítið af gróðurhúsalofttegundum þegar litið var á heiminn allan. Það virðist óumdeilt að Kyoto bókunin hafi engu breytt fyrir loftslagið enda hefur losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum aukist mikið frá því um bókunina var samið fyrir um aldarfjórðungi.

Á leiðtogafundi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009 var án árangurs reynt að ná samkomulagi um að minnka losun og þannig að næði til þróunarríkja. Það tókst loksins með Parísarsamningnum 2015 en þá þannig að í honum felast ekki skuldbindingar um aðgerðir, einungis að ríki skuli stefna að því að minnka losun. Samningurinn kemur ekki í veg fyrir að fjölmenn rísandi efnahagsveldi eins og Kína og Indland auki heildarlosun fram til 2030 og ekkert er handfast um framhaldið hvað varðar þau eða önnur þróunarríki. Einu markmiðin sem Kína og Indland hafa sett sér er að nýta orku betur og minnka þannig losun fyrir hverja framleidda einingu eins og það er stundum kallað. Með vexti þjóðarframleiðslunnar eykst hinsvegar heildarlosun. Í Kína verður nú þegar til næstum þriðjungur allrar losunar í heiminum en hún er um fimmtíu milljarðar tonna á ári. Hlutur Indverja er 7 prósent og fer hækkandi. Í Bandaríkjunum verða til um 15 prósent af heildarlosuninni.

Á framhaldsfundi aðildarríkja Parísarsamningsins í Madrid í desember 2019 mistókst að ná samkomulagi um mikilvæg atriði sem lúta að framkvæmd hans. Umhverfisráðherra Íslands sagði við fréttamann að Madridfundurinn vekti

“…upp spurningar um hversu skilvirkt þetta kerfi er, þetta kerfi alþjóðasamninga. Þetta er ekki eini samningurinn á sviði umhverfismála þar sem þarf að ná samþykki allra til þess að ákvarðanir nái í gegn og það hefur verið umræða á alþjóðavettvangi og í fræðunum um það hvort að það eigi að breyta þessum samningum með þeim hætti að það þurfi einungis meirihluta eða aukinn meirihluta – tvo þriðju ríkja – til þess að geta komið ákvörðunum í gegn og ég persónulega er að mörgu leyti fylgjandi því að skoða slíkt í framtíðinni eða sem fyrst. En ég held að það sé ekki mikill stuðningur við það því allt snýst þetta líka um sjálfsákvörðunarrétt…ríkjanna …og hvaða áhrif [hann] hefur á [ákvarðanir] en þegar maður er að horfa á jafn stór mál og jafn alvarleg mál og loftslagsbreytingar þá í rauninni er það óásættanleg útkoma að við getum ekki náð niðurstöðu…” (“Vill að meirihlutinn fái að ráða í loftslagsmálum”,ruv.is, 17. desember 2019.)

Það var rétt hjá umhverfisráðherra að ákvörðunarréttur hinna fullvalda ríkja hefði mikil áhrif í þessu efni. Parísarsamningurinn er auðvitað afkvæmi alþjóðakerfisins og ber þau einkenni þess sem ráðherrann vísaði til í viðtalinu. Samningurinn er því almenn málamiðlun en einnig sérstök málamiðlun milli þróaðra ríkja og þróunarríkja. 

Það var líka rétt athugað hjá umhverfisráðherra að það væri ekki mikill stuðningur við að breyta alþjóðakerfinu. Næstum fjögur hundruð ár eru frá því að það varð til í núverandi mynd. Grunneining þess er hið fullvalda ríki. Engin fyrirætlan er uppi um að breyta því. Hvert og eitt ríki hefur þannig formlega neitunarvald á vettvangi Parísarsamningsins eins og annarra alþjóðasamninga. Ákvarðanir endurspegla því lægsta samnefnara eins og það er kallað. Þá er í samræmi við alþjóðakerfið ekkert yfirríkjavald sem annast framkvæmd Parísarsamningsins og engin viðurlög heldur en reyndar fylgir honum, sem fyrr sagði, engin skuldbinding önnur en að stefna að því að ná markmiðum hans. Það er undir hverju ríki komið hvernig það hyggst fara að því.

Samkeppnishæfni  og milliríkjadeilur 
Parísarsamningurinn er óhjákvæmilega veikburða tæki til að ná markmiði sem felur í sér „fordæmalausar breytingar“ á samfélögum ríkja heims. Þá er það svo að það að draga úr hlýnun Jarðar með því að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti snýst meðal annars um fyrirbæri sem í hagfræði er kallað “sameiginleg gæði” (public/collective good). Þau fela í sér að aðgerðir gagnast öllum án tillits til framlags hvers og eins. Þau ríki sem ekkert legðu á sig, eða minna en önnur, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda mundu samt njóta áhrifa aðgerða hinna á loftslag í heiminum. Ríki sem með þessum hætti mundi njóta árangurs af erfiði og fórnum annarra væri það sem kallað er “free rider”,  sem má þýða sem “sníkill”. 

Skylt þessu er annað lykilatriði en það er samkeppnishæfni ríkja og samkeppnistaða gagnvart öðrum ríkjum. Hún hefur raskast vegna loftslagsmála sem hefur þegar leitt til tillagna á alþjóðavettvangi um sérstök innflutningsgjöld á vörur frá ríkjum, sem ekki standi sig í loftslagsmálum.

Skipting byrða af aðgerðum á milli ríkja og ríkjahópa verður meðal lykilatriða varðandi framkvæmd Parísarsamningsins. Almennt munu ríki gæta þess að aðgerðir  og tilkostnaður heima fyrir verði í takt við stefnu og frammistöðu annarra ríkja. Með öðrum orðum að ekki sé verið að leggja skatta og aðrar álögur vegna loftslagsmála á fyrirtæki heima fyrir umfram það sem gert er annarsstaðar. 

Ástæða er til að ætla að líkur séu á því að eftir einhver ár og eigi síðar en upp úr 2030 – þegar skýrist nánar hvert stefnir í Kína, á Indlandi og fleiri fjölmennum þróunarríkjum og þa með hver stefnir á heimsvísu –  hafi sum samfélög tekið á sig mikinn kostnað vegna aðgerða í loftslagsmálum. Önnur hafi ekki séð sér fært að gera hið sama.

Ísland er í samfloti með ríkjum sem setja markið hærra en þekkist annarsstaðar í loftslagsmálum og stefna að kolefnishlutleysi innan næstu 20-30 ára. Þetta er hópur sem samanstendur af ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) það er ESB og EFTA-ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi. 

Hugveita sem fylgist með frammistöðu ríkja í loftslagsmálum og virðist njóta trausts (climateactiontracker.org) telur að frammistaða evrópska hópsins sé – þrátt fyrir metnaðinn – “ófullnægjandi” (insufficient) með tilliti til markmiða Parísarsamningsins. Það þýðir að mati hugveitunnar að væri frammistaða allra ríkja heims hin sama og EES hópsins mundi hlýnun jarðar verða milli 2 og 3 gráður, ekki innan við 2, hvað þá ekki meiri en 1,5 gráður líkt og felst í Parísarsamningnum. EES ríkin hafa nú ákveðið að setja sér markmið til samræmis við hann og ætla að minnka losun um 55 prósent eða meira til ársins 2030 miðað við 1990 og stefna að kolefnishlutleysi í framhaldinu. 

Fyrrnefndur matsaðili telur samt sem áður að frammistaða hópsins sé “ófullnægjandi”; það þurfi að fara í 65 prósent. Því er enn aukinn kostnaður framundan hjá Evrópuríkjunum eigi að herða róðurinn. Þá er svo að eftir því sem á líður eykst kostnaður sakir þess að “ódýrustu” aðgerðirnar koma fyrst. Þannig nutu mörg ESB ríkin þess að við lok kalda stríðsins 1989 var mikið af mengandi starfsemi og mikið af “ódýrri” losun til staðar í fyrrum kommúnistaríkjum. Annað sem var að koma til sögu í Evrópu var stóraukin vinnsla á jarðgasi en notkun þess losar mun minna en orka frá kolum og olíu.

Hjá ESB er í meðförum tillaga frá framkvæmdastjórn sambandsins um að leggja kolefnisskatt á vörur sem fluttar eru á innri markaðinn frá ríkjum sem ekki standi sig í loftslagsmálum. Slíkur kolefnisskattur á landamærum er leið til að jafna samkeppnistöðu fyrirtækja, sem búa við meiri kostnað af völdum aðgerða í loftslagsmálum en keppinautar utan innri markaðarins gera. Aðallega er á þessu stigi horft til Kína og einkum til framleiðslu þar á áburði, sementi, stáli og áli. Í Bandaríkjunum mun einnig uppi þrýstingur af hálfu fyrirtækja og fyrirtækjasamtaka um að Bandaríkjastjórn taki upp álíka skatt og felst í tillögu framkvæmdastjórnar ESB. Biden stjórnin hefur það til skoðunar.

Þótt Ísland sé ekki aðili að tollabandalagi ESB virðist koma til álita að það verði aðili að kolefnisskattinum af því það er þáttakandi á grundvelli EES samningsins í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (“Political Assessment of Possible Reactions of EU Main Trading Partners to EU Border Carbon Measures”, bls. 8 – birt í Four briefings on Trade-related Aspects of Carbon Border Adjustment Mechanisms, European Parliament, apríl 2020.)

Viðbrögð Kínverja við tillögunni í ESB hafa auðvitað verið neikvæð. Það á einnig við um viðbrögð Rússlandsstjórnar, Úkrænu og fleiri ríkja sem telja réttilega að sér vegið með tillögunni.

Af sama meiði og kolefnisskattur á innflutning er skilyrði sem bresk stjórnvöld hafa sett við stefnu um kolefnishlutleysi landsins. Skilyrðið er að bresk fyrirtæki verði ekki fyrir “óréttlátri samkeppni” af því keppinautar búi ekki við þær kvaðir og útgjöld vegna loftslagsmála sem þau bresku geri. Stefnan í loftslagsmálum verður endurskoðuð reglulega með tilliti til þessa og því hugsanlegt að Bretar leggi á kolefnisskatt.

Gjarnan er haldið fram að svo minnka megi losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum þannig að um muni og jafnframt koma í veg fyrir að samkeppnistaða raskist þurfi að verðleggja losun í þeim tilgangi að notkun jarðefnaeldsneytis verði mun dýrari en nú er. Verðleggja verði losun – það er kolefnið – þannig að “rétt verð” myndist, sem endurspegli afleiðingar sem notkun jarðefnaeldsneytis hafi í för með sér fyrir loftslagið. “Rétt verð” fyrir kolefni, sem leiða mundi endanlega til mikillar verðhækkunar á jarðefnaeldsneyti, mundi hvetja til bæði breyttrar hegðunar og nauðsynlegra aðgerða til að draga úr losun og til þess að meira fjármagn rataði til rannsókna og þróunar nýrra orkugjafa.

Meðal þeirra mörgu sem leggja áherslu á að eina leiðin til árangurs í loftslagsmálunum liggi um “rétt verð” fyrir notkun jarðefnaeldsneytis – með markaðslögmálum eða skattlagningu – er bandaríski hagfræðiprófessorinn William Nordhaus. Hann fékk Nóbelsverðlaunin í hagvísindum á árinu 2018 fyrir líkan sem lýsti samspili hagvísinda og umhverfismála. 

Nordhaus heldur fram að ríki sem raunverulega vilji að árangur náist í baráttu gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum þurfi að mynda hóp eða “klúbb” um að hækka sameiginlega verð á kolefni en ekki bíða eftir öðrum ríkjum heimsins. Hann bendir á að tvennt skipti mestu máli svo þessi leið skili árangri.  Annars vegar að samið verði um eitt alþjóðlegt lágmarksverð fyrir kolefni, sem endurspegli kostnaðinn af því fyrir umhverfið að nota jarðefnaeldsneyti og leiði til hærra eldsneytisverð sem honum nemur. Hins vegar verði beitt viðurlögum gegn ríkjum sem ekki vilji slást í hópinn og taka upp verðið. Einfaldast og skilvirkast verði að leggja innflutningsskatt á vörur frá þeim ríkjum. Án viðurlaga yrði þessi aðferð gagnslaus eins og Kýotó bókunin og Parísarsamningurinn, segir Nordhaus. Ef kostnaðurinn af því að neita að ganga í klúbbinn væri hins vegar nógu hár, þá yrði til nægur hvati fyrir flest ríki að slást í hópinn. 

Tillaga Nordhaus undirstrikar mikilvægi samkeppnistöðu þegar kemur að aðgerðum i loftslagsmálum og hvernig samkeppnismál leiða til vanda fyrir Parísarsamninginn. Tillagan felur hins vegar í sér skiptingu byrða af aðgerðum í loftslagsmálum sem þróunarríki munu trauðla sættast á. Aðallega felur þessi leið í sér verðhækkun á orku frá jarðefnaeldsneyti, sem yrði flestum samfélögum þungbær og mörgum óbærileg. 

Nordhaus varpar ljósi á þann lykilvanda loftslagsmála sem birtist í röskun á samkeppnistöðu og veldur þegar deilum á alþjóðavettvangi. Komi einnig í ljós að losun gróðurhúsalofttegunda eykst jafnt og þétt í heiminum má búast við frekari ágreiningi á alþjóðavettvangi vegna aðgerða í loftslagsmálum. Ennfremur að ríki byrji að draga úr aðgerðum eða hætti við þær.

Staða Íslands
Ísland er ásamt Noregi aðili að loftslagsstefnu ESB-ríkjanna. Markmið hennar er 55% sam­dráttur í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda til ársins 2030 miðað við losun 1990. Ennfremur er markmiðið að ESB nái kolefnishlutleysi fyrir 2050, en markmið Íslands en að ná því fyrir 2040.

Gjöld á íslenskan almenning og fyrirtæki (þar á meðal losunarheimildir sem flugfélög og stóriðjufyrirtæki kaupa árlega) vegna aðgerða í loftslagsmálum nema þegar nokkrum milljörðum króna á ári. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda kemur fram að gert er ráð fyrir að ríkissjóður verji langt í 50 milljörðum til málaflokssins á næstu fimm árum. Þá er beðið eftir uppgjöri vegna Kyoto bókunarinnar og kaupa á losunarheimildum hennar vegna. Af því að Ísland stendur ekki við skuldbindingar í bókuninni þarf ríkissjóður að kaupa losunarheimildir fyrir því sem upp á vantar. Hugsanlegur kostnaður virðist mjög á reiki, frá nokkur hundruð milljónum króna til nokkurra milljarða.

Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands benda á að markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040 hafi ekki verið “verðlagt”. Einnig sé nauðsynlegt að sett verði lög um kolefn­is­hlut­leysi árið 2040, hug­takið skil­greint og áætlun mótuð til árs­ins 2040. Ennfremur gagnrýna þessir aðilar aðgerðaáætlun stjórnvalda fyrir að í hana vanti aðgerðir sem séu fjárhagslega  íþyngjandi eins og sagt er. Meðal annars er bent á að kolefnisgjaldið sé of lágt en hátt gjald þurfi svo nauðsynlegur árangur náist. Samtökin gera ekki tillögu um hve hátt gjaldið ætti að vera.

Sumar aðgerðir eiga rétt á sér óháð loftslagsmálum. Það á við rafvæðingu einkabíla með hreinni orku en Íslendingar eiga þann kost ólíkt öðrum þjóðum þar sem rafbílavæðing byggir yfirleitt á rafmagni framleiddu með jarðefnaeldsneyti. Reyndar kallar rafbílavæðingin allsstaðar á ríkisstyrki því gjöld eru felld niður til að gera fólki kleift að kaupa rafbíla. Án styrkjanna tækist rafbílavæðingin ekki því enn sem komið er að minnsta kosti eru rafbílar mun dýrari en þeir sem ganga fyrir bensíni eða dísilolíu. Annar kostnaður íslenska ríkisins lýtur að því að skatttekjur þess af olíu og bensíni rýrna auðvitað. Aðgerðirnar eiga að mestu við einkabíla, því orkuskipti í stórum rútubílum og vöruflutningabílum eru ekki handan við hornið – langt í frá að því er virðist – þótt dregið hafi úr losun frá þessum ökutækjum vegna sparneytnari véla og gæti orðið framhald á því. 

Hins vegar er losun frá bílum – öllum bílum – lítill hluti af losun á Íslandi. Þótt sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður losi verulegt magn stendur eftir að meirihluti heildarlosunar á landinu er frá landnotkun og ljóst sýnist að kolefnisbinding þyrfti að verða hryggjarstykki í aðgerðum sem næðu á endanum að skila kolefnishlutleysi. Það er hins vegar vandkvæðum bundið að mæla og meta árangur af kolefnisbindingu og fá hana viðurkennda þegar kemur að Parísarsamningnum. Sama á við um endurheimt votlendis sem er langstærsti eini losunarvaldurinn á landinu. 

Aðgerðir sem varða landnotkun skila sér þannig með takmarkaðri hætti en árangur af öðrum aðgerðum, svo sem orkuskipti í bílaflotanum,  þegar kemur að því að meta losun í heild og hvar Ísland stendur miðað við yfirlýst markmið. Unnið er að því að bæta aðferðir við að meta árangur af kolefnisbindingu og fá sem mest metið af henni upp í markmiðin. 

Í umsögn Náttúrverndarsamtaka Íslands um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá sumrinu 2020 segir: “Losun frá landi virðist vera eitt stórt spurningamerki. Nauðsynlegt er að fullnægjandi þekking liggi fyrir. Ekki bara vegna skuldbindinga Íslands heldur til að unnt verði að meta hvort meginmarkmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040 sé raunhæft.” (Kröfur Náttúrverndarsamtaka Íslands, 1. október 2020, umsögn í Samráðsgátt – island.is) Hér er á ferð sérstakur stór óvissuþáttur varðandi kostnað Íslands vegna þess að væntanlega þyrfti að kaupa losunarheimildir komi í ljós að kolefnisbinding og endurheimt votlendis dugi ekki til að kolefnishlutleysi náist. 

—-

Hugsanlegt er að í ljós komi að eftir mikil útgjöld íslensks samfélags verði losun gróðurhúsalofttegunda umfram markmið í loftslagsmálum í grunninn óleystur vandi bæði á heimsvísu og á Íslandi; og enn meiri kostnaður framundan í íslensku samfélagi eigi að standa við markmið um kolefnishlutleysi 2040, þar á meðal mikil kaup á losunarheimildum á alþjóðlegum markaði. Jafnframt kynni að hafa komið fram að mörg önnur ríki hefðu lagt mun minna á sig en Ísland í viðleitni til að minnka losun.

Ísland gæti því – ásamt mörgum öðrum ríkjum – átt eftir að standa frammi fyrir erfiðum valkostum í loftslagsmálum. Einn kostur gæti orðið sá að halda áfram að minnka losun með ærnum og sívaxandi tilkostnaði en þótt ýmis önnur ríki gerðu það ekki, eða ekki í sama mæli, þar á meðal þau þar sem mest væri losað af gróðurhúsalofttegundum. Annar kostur væri að draga verulega úr aðgerðum og lenda af þeim sökum hugsanlega upp á kant við önnur ríki, þar á meðal Evrópuríki sem Ísland er í samfloti með, drægju þau ekki úr aðgerðum eða færu hægar í því efni en Ísland.

Mikil og almennt þekkt sérstaða Íslands í orkumálum gæti ef nauðsyn krefði gefið færi á að forðast aukinn kostnað og komast hjá ágreiningi við önnur ríki. Í fyrsta lagi má hnykkja á sérstöðunni með því að hampa því að hlutfall hreinnar endurnýjanlegar orku er yfir 70 prósent í íslenskum þjóðarbúskap sem er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Þótt losun sé þrátt fyrir það hlutfallslega mikil á mann gildir allt öðru máli þegar kemur að losun miðað við framleiðslu. Á þeim mælikvarða eru Íslendingar framarlega. Enn ein rök eru að stóriðja sem ekki væri stunduð á Íslandi yrði það annarsstaðar og þá knúin jarðefnaeldsneyti.

Ísland varð aðili að Kyoto bókuninni af því “íslenska ákvæðið” svonefnda náðist fram. Það var skilyrði þess að Ísland gæti orðið aðili og jafnframt hrint í framkvæmd áætlunum um að virkja fallvötn og um aukna álframleiðslu. Samkvæmt ávkæðinu var losun frá nýjum álverum undanþegin í bókuninni enda væri notuð hrein, endurnýjanleg orka. Að auki var hnykkt enn frekar á sérstöðu Íslands með því að tekið var tilliti til hlutfallslega mikils efnahagslegs vægis álvera og virkjanaframkvæmda vegna smæðar hagkerfisins. Lykillinn að því að ákvæðið náði í gegn fólst þó í því hve stór hlutur endurnýjanlegrar orku væri í þjóðarbúskapnum. 

Íslensk stjórnvöld gáfu síðar eftir “íslenska ákvæðið” á árinu 2009 með þessari skýringu umhverfisráðherra á alþingi: “Takist ekki að finna viðunandi lausn með Evrópusambandinu (varðandi áframhaldandi þátttöku Íslands í Kyoto bókuninni og aðild að viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir) hafa íslensk stjórnvöld því haldið þeim möguleika opnum…að framlengja íslenska ákvæðið óbreytt. Slíkt væri slæmur kostur að mínu mati því að það er vont að þurfa að byggja á undanþágum í alþjóðlegu kerfi, sérstaklega fyrir ríki sem hefur alla burði til að vera fyrirmyndarríki í loftslagsmálum.”(Íslenska undanþáguákvæðiðalthingi.is 16. júní 2009.) 

Það má líka færa rök fyrir því að vegna sérstöðu í orkumálum eigi Ísland erfiðara um vik í loftslagsmálum en önnur ríki. Afar mikilvægt atriði í því efni er að Íslendingar hafa fyrir áratugum náð svo langt sem raun ber vitni í að nýta hreina og endurnýjanlega orku. Það veldur því að það eru færri “ódýrir” og “auðveldir” kostir eftir til að minnka losun en hjá mörgum öðrum ríkjum, sem enn eiga þess kost að minnka notkun jarðefnaeldsneytis; þar á meðal notkun kola sem og að auka notkun jarðgass sem losar minna en kol og olía. Þar með er auðvitað og alls ekki haldið fram að önnur ríki eigi “ódýra” og “auðvelda” kosti til að minnka losun í þeim mæli sem felst í Parísarsamningum. 

Með stefnumótuninni 2009 varð niðurstaðan sú að vegna sérstöðunnar þyrfti ekki undanþágu í stað þess, eins og áður var talið, að sérstaðan veitti tækifæri til að réttlæta undanþágu. Til þess gæti komið að hverfa verði frá stefnunni sem mótuð var 2009. Hvort það kann að reynast óhjákvæmilegt skýrist ekki fyrr en nánar kemur í ljós hvernig loftslagsmálum vindur fram almennt og varðandi framkvæmd Parísarsamningsins sérstaklega. Enn er of snemmt að slá einhverju föstu en rétt að gera ráð fyrir þeim möguleika  – eins og reynt hefur verið að færa rök fyrir í greininni – að loftslagsmálin verði mjög krefjandi í samskiptum Íslands við umheiminn á næstu áratugum.

Greinin tengist eftirfarandi fyrri greinum á vefsíðunni: 

Alþjóðakerfið og aðgerðir í loftslagsmálum – Samingafundur í Póllandi  https://albert-jonsson.com/2018/12/17/althjodakerfid-og-adgerdir-i-loftslagsmalum-samingafundur-i-pollandi/

Parísarsamkomulagið um loftslagsmál: áskorunin og alþjóðakerfið  https://albert-jonsson.com/2018/05/28/parisarsamkomulagid-um-loftslagsmal-askorunin-og-althjodakerfid/

Ísland og umheimurinn 2020-2050 Annar hluti: Á norðurslóðum

Ágrip: Öryggismál á meginlandi Evrópu leiddu til þess að um fimmtíu ára skeið á 20. öld tengdist Ísland náið þungamiðju alþjóðakerfisins á Evró-Atlantshafssvæði heimsins. Það stafaði af legu landsins á Norður-Atlantshafi í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu, sem gaf Íslandi hernaðarlega þýðingu, einkum fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.  

Allt aðrir þættir koma til sögu þegar reynt er að leggja mat á stöðu Íslands fram á miðja þessa öld. Þeir eru bráðnun hafíss á Norður-Íshafi vegna loftslagsbreytinga og samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu. Ennfremur er ekki um að ræða að þróun mála hefði aðallega hernaðarlegar afleiðingar fyrir Ísland eins og áður heldur hefði hún einnig efnahagslega möguleika í för með sér vegna siglinga og fiskveiða á norðurslóðum. 

Vaxandi siglingar með norðurströnd Rússlands eins og nú eiga sér stað í kjölfar bráðnunar heimsskautsíssins breyta ekki stöðu Íslands í neinum aðalatriðum. Öðru máli gegndi yrði fært um Norður-Íshaf. Þá mundi Ísland tengjast um norðurslóðir við þungamiðju alþjóðakerfisins sem liggur nú á Asíu-Kyrrahafssvæðinu

Spár gera ráð fyrir að Norður-Íshaf opnist, að einhverju marki að minnsta kosti, um og upp úr 2050. Stefndi í slíkar grundvallarbreytingar á heimsmyndinni mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þeirra á norðurslóðum að líkindum hefjast á næstu 10-20 árum og litast af samkeppni Kína og Bandaríkjanna. Kínaher skortir enn flest sem þarf til að standa undir verulegum hernaðarumsvifum þar, sem að sumu leyti að minnsta kosti krefðist aðstöðu hjá Rússum. Ekki væri víst að hún stæði til boða. Meginforsendur hagvaxtar í Rússlandi liggja í náttúruauðlindum á norðurslóðum og því hugsanlegt að Rússum yrði í mun að stuðla að stöðugleika fremur en aukinni hervæðingu. 

Öryggishagsmunir og stefna Rússa á norðurslóðum eru í aðalatriðum þekkt og það á einnig við hagsmuni Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi á svæðinu. Þó er í gangi hertækniþróun sem mun gera Rússum í vaxandi mæli kleift að ná með stýriflaugum til skotmarka í Evrópu og Norður Ameríku frá flugvélum og kafbátum langt inni á norðurslóðum; þróun sem dregur úr tilteknum veikleikum Rússlandshers. Hún mun líklega leiða til aukinna hernaðarumsvifa á svæðinu af hálfu Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja, en stefna þeirra þar er í grunninn óbreytt.

Markmið íslenskra stjórnvalda er að norðurslóðir verði áfram “lágspennusvæði”. Hinsvegar þarf að gera ráð fyrir að á næstu árum og áratugum gæti þar vaxandi stórveldaspennu og hernaðarumsvifa, þar á meðal á vegum nýs aðila – Kína. Ennfremur má búast við að þessari þróun allri fylgdi þrýstingur á utanríkismál Íslands og að auknar líkur yrðu á fjölþátta ógnum, en þær fela í sér íhlutun og undirróður af ýmsu tagi.

Ísland fengi hins vegar ekki sama hernaðarlegt mikilvægi vegna norðurslóða og það hafði fyrir Bandaríkin í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu vegna legu landsins á Norður-Atlantshafi. Ólíklegt virðist að aftur kæmi til fastrar viðveru Bandaríkjahers á Íslandi. 

Því lengra sem hafísinn hörfar þeim mun sunnar verður Ísland í hernaðarlegu tilliti. Langdrægari stýriflaugar munu einnig mikil áhrif í þessu efni. Þá getur Bandaríkjaher brugðist við hernaðarlegri þróun á norðurslóðum  annarsstaðar en á Íslandi. Hann á þess kost í nyrstu héruðum Kanada í samstarfi við kanadíska herinn, í Thule-herstöðinni á norður Grænlandi og frá herstöðvum í eigin landi í Alaska.

Efnisyfirlit: Ef Norður-Íshaf opnast – Nýjar siglingaleiðir – Fiskveiðar – Hervæðing – Staða Íslands

Ef Norður-Íshaf opnast
Yrði útlit fyrir að bráðnun hafíss næði svo langt að Norður-Íshaf opnaðist milli Norður-Atlantshafs og Norður-Kyrrahafs væri heimsmyndin að breytast með miklum efnahagslegum og strategískum afleiðingum. Þótt líklega séu minnst 30-40 ár í það mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi slíkra grundvallarbreytinga hefjast mörgum árum áður. Hann er reyndar hafinn, eins og fjallað var um í fyrsta hluta greinarinnar, en að mjög takmörkuðu leyti. Kína og Bandaríkin hafa þó sýnt norðurslóðum aukinn pólitískan áhuga og Bandaríkjaher hefur mótað sérstaka stefnu varðandi norðurslóðir. Þá hafa kínverskir hernaðarsérfræðingar bent á að norðurslóðir geti haft strategíska þýðingu fyrir kínverska herinn.

Nýjar siglingaleiðir 
Bráðnun hafíss hefur þegar leitt til þess að norðurleiðin svonefnda (Northern Sea Route), siglingaleið úti fyrir norðurströnd Rússlands, er fær milli Atlantshafs og Kyrrahafs síðsumars og fram eftir hausti. Flutningar á norðurleiðinni hafa vaxið hratt vegna olíu- og gasvinnslu í norður Rússlandi, sem á eftir að aukast enn frekar. Þessu fylgja stórauknar siglingar frá stöðum á norðurströndinni og ýmist í vestur eða austur um norðurleiðina eftir árstíma og þörfum – oft með stuðningi ísbrjóta. Heildarflutningar námu um 30 milljónum tonna á árinu 2020. Þar af var jarðgas í vökvaformi um 20 milljónir tonna, afgangurinn var mest olía en einnig eiga sér stað flutningar á málmum og kolum. Fyrirætlan er uppi um mikla aukningu á kolaflutningum frá nýjum námum á svæðinu. 

Kaupendur á olíu og gasi eru í Evrópu og Asíu. Kínverjar eru stórir kaupendur ásamt Japönum og Kínverjar eru einnig stórir fjárfestar í vinnslunni. Enn fer þó mest af afurðunum til Evrópu og þannig verður ef til vill áfram því Kínverjar kaupa mikið af gasi frá Mið-Asíuríkjum og geta aukið þau kaup. Indverjar munu verða stærstu kolakaupendurnir. Rússnesk stjórnvöld spá því að 2035 fari samtals 160 milljónir tonna frá stöðum á norðurströndinni, þar af verði 80 prósent jarðgas í vökvaformi. 

Flutningar eftir norðurleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs eru hins vegar enn mjög litlir samanborið við flutningana frá stöðum við leiðina. Megnið af siglingum eftir allri norðurleiðinni  – nú nokkrir tugir skipa á ári – er ríkisrekið, aðallega á vegum rússneskra stjórnvalda. Þau spá því að 2 milljónir tonna fari milli heimshafanna um norðurleiðina á árinu 2030 en síðan verði mikil aukning upp í 10 milljónir tonna 2035. Það er þó smáræði samanborið við flutninga um leiðina sem liggur um Súez skurð, sem nema um þúsund milljón tonnum á ári; og tæp fimm hundruð milljón tonn fara um Panama skurðinn. 

Þótt norðurleiðin yrði fær miklu stærri hluta úr ári en nú er, og jafnvel allt árið, kæmi hún að takmörkuðu gagni hvað varðar möguleika á stórfelldum skipaflutningum milli heimshafanna tveggja. Það stafar af því að vegna grunnsævis hentar hún ekki fyrir risatankskip eða risagámaflutningaskip. Sama á við norðvesturleiðina við Kanada og Alaska en flutningar á henni eru enn mjög litlir.

Gámaflutningar eru ólíkir þeim flutningum sem eiga sér stað frá höfnum á norðurleiðinni, sem eru flutningar á olíu, gasi, kolum og málmum. Í þannig flutningum er yfirleitt allur farmurinn í eigu eins viðskiptavinar og siglt frá einni höfn til annarrar. Siglingatími er sveigjanlegur að einhverju marki og stundvísi upp á dag ekki aðalatriði. 

Á hinn bóginn eru forsendur hagkvæmra gámaflutninga milli heimshafa að þeir fari fram með sem mestri stærðarhagkvæmni, en einnig eftir nákvæmum áætlunum um afhendingu til margra viðskiptavina. Svo að hagkvæmir gámaflutningar gætu hafist milli Atlantshafs og Kyrrahafs þyrfti Norður-Íshaf að opnast en þar væri nægilegt dýpi fyrir risaskip. Þessi leið væri einnig á alþjóðlegu hafsvæði og siglingar um hana ekki háðar leyfi Rússa eins og á norðurleiðinni.

Þar með hefði komið til sögu stysta siglingaleiðin milli Asíu og Evrópu, svonefnd norðurskautsleið (Transpolar Sea Route). Hafa ber í huga að þó talið sé hugsanlegt að hún opnist um miðja öldina þá er óljóst hve stóran hluta úr ári það væri. Einnig er afar líklegt að rekís, óstöðugt veðurfar og aðrar umhverfisaðstæður mundu torvelda umferð þótt segja mætti að leiðin hefði opnast. Slíkt drægi auðvitað úr hagkvæmni og gæti jafnvel komið í veg fyrir stórfellda flutninga á norðurskautsleiðinni fram eftir öldinni.

Fiskveiðar
Miðbik Norður-Íshafs er alþjóðlegt hafsvæði álíka að flatarmáli og Miðjarðarhaf. Úthaf þetta hefur að mestu verið lokað fyrir fiskveiðum og rannsóknum af augljósum ástæðum og því lítið vitað um veiðimöguleika. Frá 2015 hefur verið undirbúið að koma á milliríkjasamstarfi til að forða því að stjórnlausar veiðar hefjist á úthafssvæðinu hörfi hafísinn enn frekar en orðið er.  Aðilar eru strandríkin á norðurslóðum – Bandaríkin, Danmörk, Ísland, Kanada, Noregur og Rússland – auk þátttöku Japans, Suður-Kóreu, Kína og ESB. Samningur frá 2018 bannar veiðar á svæðinu í að minnsta kosti 16 ár frá gildistöku meðan rannsóknir á því fari fram. Jafnframt er stefnt að því að koma á sameiginlegri rannsóknaáætlun og stofna samtök um fiskveiðistjórnun. 

Hér eru mál vitanlega á frumstigi og óvíst hvort og þá hve miklar sjálfbærar fiskveiðar eru mögulegar á alþjóðlega svæðinu.

Aukin hervæðing
Bandaríska varnarmálaráðuneytið og deildir Bandaríkjahers hafa á síðustu árum mótað stefnu um norðurslóðir. Hún er fremur almennt orðuð og í henni er horft til næstu áratuga (the decades ahead). Meðal annars kemur fram í stefnunni að litið sé á norðurslóðir sem mögulegan vettvang fyrir vaxandi stórveldasamkeppni og yfirgangssemi (“potential avenue for expanded great power competition and aggression”). Einnig er bent á að auk þess að norðurslóðir hafi áfram mikla þýðingu fyrir varnir Norður-Ameríku tengi þær Kyrrahaf og Atlantshaf. Tryggja þurfi að aðgang að norðurslóðum svo þaðan megi styðja við Bandaríkjaher eftir þörfum á þessum lykilsvæðum.

Einnig segir að takmarka þurfi möguleika Kína og Rússlands til að nýta norðurslóðir til að styðja við strategísk markmið þeirra, þar á meðal með því að hefta frelsi Bandaríkjanna til siglinga og flugs á norðurslóðum Þá séu áfram líkur á að krísur eða átök í öðrum heimshlutum nái til norðurslóða og leiði til átaka þar. Loks er litið svo á að norðurslóðir hafi aukna beina þýðingu fyrir varnir Bandaríkjanna. Yfirmaður loftvarna Norður-Ameríku bendir á að norðurslóðir feli í vaxandi mæli í sér mögulega leið fyrir andstæðinga Bandaríkjanna til árása á Norður-Ameríku. 

Þótt bandarísk stjórnvöld – þing, ráðuneyti, og herinn – horfi mun meira en áður til norðurslóða er stefnan þeirra vegna enn þess eðlis að fjárveitingar tengdar henni eru hlutfallslega mjög litlar; enda enn ekki vitað hve langt eða hve hratt heimskautsísinn kann að hörfa. 

Athafnasemi Bandaríkjahers á norðurslóðum – einkum flughers og flota – hefur aukist á undanförnum árum. Umsvifin eru þó lítil hvað varðar ferðir herskipa og þær hafa að mestu átt sér stað á Noregshafi norðanverðu og á Barentshafssvæðinu. Skiljanlega er ekki vitað náið um ferðir kafbáta. Þó liggur fyrir að bandarískir kafbátar hafa á undanförum árum haft oftar viðkomu í norður-Noregi en áður til að fá þjónustu og vegna áhafnaskipta. Langdrægum sprengju- og stýriflaugaþotum Bandaríkjahers hefur á undanförnum árum verið stefnt á norðurslóðir meðal annars langt inn á Barentshaf.  Loks eru bandarískar kafbátaleitarflugvélar og njósnaflugvélar nokkuð tíðir gestir yfir Barentshafi og norðanverðu Noregshafi. 

Bandaríkjaher er vanbúinn til þess að halda úti skipum á norðurslóðum nema þegar greiðfært er takmarkaðan tíma úr ári. Það vantar ísbrjóta svo breyta megi þessu en einnig vantar herskip styrkt til siglinga í hafís. Áætlun um smíði 6 ísbrjóta hefur nú verið hrint í framkvæmd og stefnt að því að hinn fyrsti þeirra verði afhentur 2024. Engar áætlanir liggja fyrir um smíði styrktra herskipa, enda ekki tímabært að áliti sjóhersins. Auk ísbrjóta og sérútbúinna herskipa skortir hafnir eða aðstöðu í höfnum til að styðja við umsvif flotans á norðurslóðum. Það virðast því allmörg ár í að bandarísk  herskip verði í auknum mæli á svæðinu nema þá takmarkaðan hluta úr ári.

Kínverjar líta greinilega á norðurslóðir sem mikilvægan heimshluta. Þeir hafa aukið umsvif sín þar en einkum á stöðum á norðurströnd Rússlands vegna olíu- og gasvinnslu þar sem þeir eru fjárfestar og kaupendur eins og fyrr sagði. Þeir taka þátt í starfi Norðurskautsráðsins sem áheyrnaraðilar og hafa mótað og birt sérstaka norðurslóðastefnu. Ennfremur hafa þeir unnið að því að fá norðurslóðaríki til þátttöku í Belti og braut-áætluninni, sem þá er kölluð Silkileið norðursins (Polar Silkroad), og um var fjallað í fyrsta hluta greinarinnar. Loks eru Kínverjar þátttakendur í samstarfi um rannsóknir á fiskistofnum í Norður-Íshafi og þeir hafa löngum stundað ýmsar vísindarannsóknir á svæðinu.

Kínverjar eiga tvo ísbrjóta sem báðir hafa siglt á norðurslóðum á undanförnum árum og áætlanir eru í gangi um að smíða fleiri og stærri slík skip. Vísindarannsóknir, svo sem á hafsbotninum vegna áhuga á auðlindum, geta gagnast hugsanlegri hernaðarlegri starfsemi. Í norðurslóðastefnu Kína frá 2018 er ekki talað um hernaðarhagsmuni á svæðinu og ekki er kunnugt um kínversk hernaðarleg umsvif þar. Enn virðist nokkuð í að kínverski flotinn verði almennt að úthafsflota en hann er á leið til þess. Þá er viðbúið að Kyrrahafssvæðið hafi forgang fram yfir norðurslóðir þegar kemur að flotaumsvifum. Kínversk herskip sjást því varla í einhverjum mæli á norðurslóðum fyrr en eftir allmörg ár. Kínverskir hernaðarsérfræðingar horfa þó þegar til þess að með hlýnun Jarðar fengju norðurslóðir þýðingu fyrir kínverska flotann eftir því sem hafísinn hörfaði. Þar mætti halda Bandaríkjunum uppteknum við að bregðast við athafnasemi kínverska flotans og um leið veikja þau á öðrum svæðum.

Kínaher er að byrja að taka í notkun kjarnorkuknúna kafbáta sem bera langdrægar eldflaugar með kjarnaodda.  Kínverskir herforingjar hafa bent á að með því að halda slíkum kafbátum úti í Norður-Íshafinu megi auka öryggi kjarnorkuhersins og efla fælingarmátt hans. Að því kann að koma að áliti bandarískra hernaðaryfirvalda að kínverjar haldi úti eldflaugakafbátum á Norður-Íshafi. Það mundi vafalítið kalla á önnur kínversk hernaðarumsvif með kafbátum, flugvélum og herskipum til að fylgjast með herjum annarra og koma í veg fyrir hugsanlega ógn við öryggi kínversku eldflaugakafbátanna.

Kínverjar eiga enn ekki nógu marga eldflaugakafbáta til að geta stöðugt haldið úti einhverjum bátum í Norður-Íshafi. Einnig munu þeir eiga mikið verk óunnið við að gera kafbáta almennt hljóðlátari en þeir eru nú, sem er lykilatriði varðandi öryggi bátanna.  Því er óvíst hvenær Kínverjar gætu átt þess kost að halda úti eldflaugkafbátum á svæðinu en líklegt að allmörg ár séu í það. Sá kostur mundi vissulega auka öryggi og fælingarmátt kjarnorkuhersins. Öryggið ykist mest ef hægt væri að halda kafbátum undir hafís. Hyrfi hann mundi Norður-Íshaf eftir sem áður gefa möguleika umfram aðra staði til að ná til skotmarka í Norður Ameríku og Evrópu.

Af þessum sökum öllum virðist ekki yfirvofandi að mjög aukin hernaðarumsvif verði á hafinu á norðurslóðum á vegum Kína og Bandaríkjanna. Umferð bandarískra herflugvéla og kafbáta gæti aukist mun fyrr. Bandaríski flugherinn á margar langdrægar flugvélar og þessháttar kjarnorkuknúna kafbáta sem vitað er að sigla reglulega á norðurslóðir og hafa gert um áratuga skeið. Þá er næsta víst að samskonar breskir og franskir kjarnorkukafbátar sigli reglulega á norðurslóðir. Kínverjar vinna að því að fjölga langdrægum kjarnorkukafbátum en hafa ekki sent þá til norðurslóða svo vitað sé.

Kínverjar eiga herskip sem gætu birst á þessum áratug á úti fyrir norðurströnd Rússlands, þar sem liggur fyrrnefnd norðurleið. Það yrði þó væntanlega í litlum mæli og þá auðvitað með leyfi Rússa því leiðin liggur um rússneska lögsögu. Rússnesk stjórnvöld gera þá kröfu – sem er umdeild – að sækja verði um leyfi til þeirra fyrir hverskyns siglingum í efnahagslögsögu Rússlands á norðurleiðinni.

Hernaðarlegir hagsmunir Rússa á norðurslóðum eru þekktir – líkt og kom fram í fyrsta hluta greinarinnar og fjallað hefur verið um í öðrum fyrri greinum á vefsíðunni(sjá t.d. 29. janúar 2020, “Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum?” og 2. apríl 2019, “Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland”.). Þessir rússnesku hagsmunir breytast ekki í grundvallaratriðum né heldur starfsemi Rússlandshers á svæðinu. Hryggjarstykki í kjarnorkuher Rússa er í eldflaugakafbátum Norðurflotans, sem er aðallega haldið úti í Barentshafi. Meginhlutverk Norðurflotans er annars vegar að tryggja öryggi þessara kafbáta og hins vegar verja Rússland gegn árásum úr lofti frá hafinu (með stýriflaugum sem skotið væri úr flugvélum, herskipum og kafbátum Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja). Rússar hafa eflt hernaðargetu sína á norðurslóðum, aðallega loftvarnir og varnir gegn herskipum, sem miðar að því að gera andstæðingum dýrt að sækja í stríði að Rússlandi (kallað A2/AD – Anti Access/Area Defense). Þar á meðal er ný gerð eldflauga gegn flugvélamóðurskipum sem skotið er frá flugvélum og draga 2000 kílómetra að talið er. 

Norðurfloti Rússlands er að taka í notkun langdrægar stýriflaugar sem draga allt að 2500 kílómetra og gera skipum og kafbátum kleift að ná til skotmarka í norðanverðri Evrópu frá heimahöfum – Barentshafi og Hvíta hafi. Rússneskar sprengjuþotur bera þegar stýriflaugar sem draga 2500-3500 kílómetra. Enn langdrægari gerðir rússneskra stýriflauga munu vera í þróun og verða í herskipum, kafbátum og flugvélum. Flugþol verður allt að 5000 kílómetrar, jafnvel lengra segja sumar heimildir, sem gerir kleift að ná til skotmarka víðsvegar í Evrópu frá heimahöfum Norðurflotans og til staða í Bandaríkjunum frá Norður-Íshafi. 

Langdrægar stýriflaugar draga úr þeim veikleikum Rússlandshers sem lúta að því að hann á miklu færri langdrægar flugvélar en sovéski forverinn og sama á við kafbáta sem bera stýriflaugar. Langdrægari flaugar en áður mæta þessum veikleika; koma í veg fyrir að hætta þurfi dýrmætum flugvélum og kafbátum of nálægt loft- og kafbátavörnum NATO ríkjanna. Líklegt er að þau bregðist við með því að búa sig undir að geta athafnað sig í átökum lengra í norðri en áður, eins og fyrr hefur verið fjallað um á vefsíðunni(28. maí 2020, “Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands” og 29. janúar 2020, “Er aukin samkeppni stórvelda á norðurslóðum?”).

Líkur eru á að enn frekari opnun norðurslóða vegna hlýnunar Jarðar mundi leiða til stórveldasamkeppni þar og aukinnar hervæðingar. Þó er hugsanlegt að mál þróuðust með öðrum hætti. 

Hernaðarlegur viðbúnaður Rússa á norðurslóðum á sér að nokkru leyti skýringar í því feiknastóra haf- og landsvæði og miklu fjárhagslegu hagsmunum sem þeir eiga þar. Víst er að þarna má finna mikið af olíu og jarðgasi, að minnsta kosti 15 prósent af olíulindum Rússlands að talið er og 40 prósent af gaslindum þess. Þá er svæðið ríkt af málmum og kolum. Norðurleiðin hefur því augljóst mikilvægi og öryggi hennar sömuleiðis. Loks eru auðug fiskimið í rússneskri lögsögu og hugsanlegir möguleikar, líkt og nefnt var að framan,  á veiðum á Norður-Íshafi í kjölfar þess að hafísinn hörfi frekar en orðið er. Norðurslóðir gegna því lykilhlutverki hvað varðar framtíðarhorfur í Rússlandi. 

Því má ætla að Rússar hafi hag af því að stöðugleiki og lágspenna ríki á norðurslóðum. Jafnframt er ljóst að kínversk herskip fara ekki um norðurleiðina úti fyrir Rússlandsströnd án leyfis þarlendra stjórnvalda. Kínversk herskip á alþjóðlegu svæði á Norður-Íshafi þyrftu væntanlega aðstöðu í rússneskum höfnum, þótt langdrægir kafbátar gætu augljóslega verið undantekning. Kínverjar eiga enn ekki herflugvélar sem gætu athafnað sig á norðurslóðum án þess að þurfa að reiða sig á rússneska flugvelli, en það á væntanlega eftir að breytast með frekari þróun langdrægra kínverskra herflugvéla sem taka eldsneyti á lofti.

Verði samskipti NATO og Rússlands áfram stirð og efnahagslegum refsiaðgerðum viðhaldið gegn Rússum aukast líkur á að þeir halli sér nær Kínverjum en þegar er orðið. Það mundi auðvelda kínversk hernaðarumsvif á norðurlslóðum. Hins vegar kann að koma að því að Bandaríkin leggi kapp á vegna samkeppninnar við Kína að bæta samskiptin við Rússa og reka fleyg milli þeirra og Kínverja.

Þá yrði bæði Kína og Bandaríkjunum væntanlega í mun að siglingar á norðurskautsleiðinni færu þegar þar að kæmi fram við tryggar aðstæður. Þótt þeir hagsmunir kæmu ekki í veg fyrir aukna hervæðingu kynnu þeir að setja henni mörk, kalla á lágmarskssamvinnu og draga þannig úr spennu á norðurslóðum. 

Staða Íslands
Horft hefur verið til þess möguleika að Ísland verði umskipunarstaður fyrir siglingar á norðurslóðum; nánar tiltekið að stórskipahöfn verði gerð í þeim tilgangi við Finnafjörð á Norðausturlandi. Það er hugsanlegt en ekki fyrr en eftir einhverja áratugi.

Þótt flutningar ykjust enn frekar á norðurleiðinni úti fyrir norðurströnd Rússlands virðist afar ólíklegt að Ísland yrði umskipunarstaður á henni. Það stafar af því að áfram yrði hagkvæmast að umskipa alfarið í norðvestur Rússlandi, ef til vill einnig í norður Noregi, í stað þess að sigla að þarflausu mun lengri leið til Íslands. 

Yrði hinsvegar norðurskautsleiðin um Norður-Íshaf fær mundi gegna öðru máli og gæti Ísland ef til vill komið til greina sem umskipunarstaður vegna áframflutninga (transshipment) til margra staða bæði í Evrópu og Ameríku. Þá yrðu einnig flutningar til Íslands frá Evrópu og Ameríku og umskipað þar í skip á leið til Asíu eftir norðurskautsleiðinni. 

Allt yrði þetta þó auðvitað háð fjárhagslegum og viðskiptalegum forsendum og ekki víst að þörf yrði almennt fyrir umskipunarhafnir eða, ef svo væri, að hagkvæmast yrði að hafa viðkomu í höfn á Íslandi. Staðir í Norðanverðum Noregi og á Svalbarða kæmu einnig til greina. 

Hvað sem þessum þáttum öllum líður er langt í – nokkrir áratugir hið minnsta sem fyrr sagði – að stórfelldar siglingar hefjist á norðurskautsleiðinni og að Ísland verði hugsanlega umskipunarstaður á henni. 

Hins vegar má ætla að í aðdraganda þess að Norður-Íshaf opnaðist mundi Ísland finna fyrir vaxandi áhuga og umsvifum af hálfu Bandaríkjanna og Kína á norðurslóðum. Hernaðarleg umsvif Bandaríkjanna á norðurslóðum mundu vaxa hratt; einkum þó ef vart yrði kínverskra hernaðarumsvifa jafnvel þótt lítil væru á því stigi. Ísland og Grænland eru á áhrifasvæði Bandaríkjanna eins og fjallað var um í fyrsta hluta þessarar greinar um Ísland og umheiminn 2020-2050, framvarnir Norður-Ameríku eru á norðurslóðum og loks eiga Bandaríkin mikið land á svæðinu þar sem er Alaska.

Hið augljósa er að opnun Norður-Íshafs mundi hafa áhrif á öryggishagsmuni Bandaríkjanna og auka mjög mikilvægi norðurslóða í þjóðaröryggisstefnunni. Á 20. öld lá þungamiðja alþjóðakerfisins á Evró-Atlantshafssvæðinu og Ísland tengdist henni náið vegna legu landsins á Norður-Atlantshafi sem gaf því mikla hernaðarlega þýðingu. Þegar kemur að norðurslóðum og hugsanlegu strategísku mikilvægi þeirra í framtíðinni birtist önnur mynd.

Ísland fengi ekki sömu hernaðarlega þýðingu vegna norðurslóða og það hafði í kalda stríðinu
Fái norðurslóðir stóran sess í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á næstu áratugum hefði það væntanlega í för með sér að Norður Atlantshaf og nágrenni Íslands fengi almennt vægi í stefnunni. Hún felur hinsvegar í sér breyttar forsendur varðandi þetta svæði frá því sem var í kalda stríðinu (Ítarlega umfjöllun hlutverk landsins þá má finna í grein frá 4.mars 2018, “Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma”). GIUK-hliðið (Greenland-Iceland-United Kingdom Gap) svonefnda (hafsvæðin milli Grænlands og Íslands, Íslands og Færeyja og Færeyja og Skotlands), sem hafði lykilþýðingu í kalda stríðinu nær nú einnig til Noregs og verður í bandarísku skýrslunum um norðurslóðir að “GIUK-N” hliði. Litið er svo á að það eigi eftir að verða “strategískur gangur” (strategic corridor) milli Norðurskautssvæðisins og Norður-Atlantshafs. Ekki er útskýrt hvaða hlutverki slíkur gangur mundi gegna umfram hið augljósa. Hann er svæði allt frá Grænlandi til Noregs og á honum liggur leið frá Norður-Atlantshafi norður í Barentshaf og Norður-Íshaf og jafnframt frá norðurhöfum suður á Atlantshaf. 

Ekki er útilokað að Rússar geri ráð fyrir að senda kafbáta á hættutíma eða í stríði um GIUK-hliðið og út á Atlantshaf til að ná til skotmarka í Norður-Ameríku og sunnanverðri Evrópu. Á móti kemur að rússneski Norðurflotinn ræður yfir einungis örfáum nýjum kafbátum sem gætu hugsanlega komist klakklaust út á Atlantshaf á hættutíma eða í stríði. Jafnframt er forgangsverkefni þessara dýrmætu kafbáta að sinna áðurnefndu meginhlutverki sem er að gæta kjarnorkuherstyrks Rússlands í elflaugakafbátum í Barentshafi. Af þessum sökum má ætla að fremur litlar líkur séu á að reynt yrði að senda þá út á Atlantshaf á hættutíma eða í stríði; og lítil umferð rússneskra kafbáta þangað styður þá ályktun (sjá grein á vefsíðunni 2. apríl 2019, “Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland”). Enn langdrægari stýriflaugar en eru nú í rússneskum kafbátum valda því þegar fram í sækir að það væri alger óþarfi að taka mikla áhættu með því að reyna að koma kafbátum út á Atlantshaf.

Sérfræðingar hafa bent á annað “hlið” en GIUK-hliðið og þá milli norðaustur Grænlands, Svalbarða og norður Noregs. Svonefnt Fram sund milli Grænlands og Svalbarða gæti fengið sérstaka þýðingu eftir því sem hernaðarlegt mikilvægi Norður-Íshafs ykist. Ennfremur þarf að hafa í huga að Beringssund milli Síberíu og Alaska er afar mikilvægur strategískur staður sem tengir Norður-Íshaf við Kyrrahaf. Beringssund skiptir augljósu og vaxandi máli fyrir Bandaríkjamenn og Rússa, en hefur jafnframt greinilega vaxandi þýðingu fyrir Kínverja og aðgang þeirra að norðurslóðum. 

Þá geta Bandaríkin brugðist við hernaðarlegri þróun á norðurslóðum annarsstaðar en á Íslandi. Í Alaska eru stórar flughersstöðvar, sem hafa verið efldar undanfarið. Til að skýra það er vísað til þess að tiltölulega stutt flugleið er frá þessum stöðvum til strategískra staða í Asíu og Rússlandi og ennfremur út yfir Norður-Íshaf. Þá hafa Bandaríkin herstöð langt í norðri í Thule á Grænlandi vegna viðvörunarkerfa gegn eldflaugaárásum (Ballistic Missile Early Warning System). Í Thule er flugvöllur og höfn. Loks hafa Bandaríkin sameiginlega herstjórn og varnir með Kanada þegar kemur að loftvörnum Norður-Ameríku. Það samstarf hefur varað í marga áratugi og snýst einkum um varnir gegn ógn úr norðri og nú með fyrrnefndri áherslu á langdrægar stýriflaugar. Þær fela í sér nýja áskorun sem trauðla verður mætt frá Íslandi því þær mætti senda á skotmörk frá Norður-Íshafi.

Erfitt er að verjast stýriflaugum af því þær fljúga undir ratsjám og eftir krókaleiðum ef þarf. Besti möguleikinn lýtur að því að granda flugvélum, skipum og kafbátum sem bera stýriflaugar áður en þær eru sendar af stað. Eftir það eru varnir mjög torveldar. Þessari áskorun er stundum líkt við það að reyna að granda ör eftir að bogmaður skýtur henni. Skásti möguleikinn væri að reyna varnir tiltölulega nálægt skotmörkum flauganna en jafnvel þá er erfitt að verjast.

Til að mæta ógn frá langdrægum stýriflaugum á norðurslóðum þyrfti að ná til skipa, kafbáta og flugvéla inni á Norður-Íshafi – og langt frá Íslandi. Það er því ólíklegt að slík ógn mundi leiða til beiðni um fasta aðstöðu fyrir bandaríska flugherinn á Íslandi til að mæta henni – hvort heldur rússneskri ógn á næstu árum eða kínverskri í fjarlægari framtíð. 

Hins vegar mun koma til skoðunar í tengslum við fyrrnefnda endurnýjun loftvarnakerfisins Norður-Ameríku að flytja loftvarnasveitir mun norðar en þær eru nú staðsettar, nánar tiltekið til Thule, og jafnvel enn norðar til Ellesmere eyjar, nyrsta hluta Kanada. Þar er nú eftirlits- (SIGINT – Signals Intelligence) og fjarskiptastöð á vegum kanadíska hersins. Af því geislar ratsjárstöðva ná auðvitað takmarkaða vegalengd út á Norður-Íshaf mun í skoðun hvernig einnig megi nota gervihnetti til að finna flugvélar á svæðinu. 

Eftir því sem áhersla Bandaríkjahers á norðurslóðir eykst, vex jafnframt þörf flotans fyrir hafnir á svæðinu. Hve mikil hún yrði og hvar henni yrði mætt er óljóst á þessu stigi enda tímaramminn “næstu áratugir” eins og flotinn bendir á og fyrr var nefnt. Um leið segir að innviðir eins og hafnir yrðu nauðsynlegir vegna fjarlægða og til að stytta siglingatíma. 

Bandaríkjafloti virðist þegar hafa augastað á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi fyrir hafnaraðstöððu, sem er ótilgreind en virðist ekki eiga að verða mikil. Hér má nefna að gerður hefur verið að frumkvæði færeyskra stjórnvalda (nóvember 2020) samstarfssamningur milli Færeyja og Bandaríkjanna. Við Thule herstöðina á norður Grænlandi er höfn og Bandaríkjaher á einnig möguleika í Alaska á enn auknum viðbúnaði og innviðum vegna hugsanlegra aukinna umsvifa. 

Flest bendir því til að Ísland fengi ekki sama vægi í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna vegna norðurslóða og það hafði vegna heimsstyrjaldarinnar og kalda stríðsins. Þótt ekki kæmi ekki til fastrar viðveru Bandaríkjahers á Íslandi mundi landið væntanlega tengjast áhuga hans á norðurslóðum, en ekki er ljóst hvernig það gæti orðið. Hinsvegar er næsta víst að áhugi Bandaríkjanna – og Kína – á Íslandi mundi aukast almennt, jafnvel í því skyni að koma í veg fyrir að keppinauturinn næði einhverskonar fótfestu eða ítökum á landinu. Bandaríkin yrðu af augljósum ástæðum sérstaklega á varðbergi að þessu leyti gagnvart Íslandi og Grænlandi, enda um nágranna að ræða, og mikilvægi Grænlands og herstöðvarinnar í Thule fyrir Bandaríkin augljóst.

Þótt Ísland skipti ekki sama máli og áður fyrir þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna er rík tilhneiging til þess almennt í stórveldasamkeppni að líta svo á að ávinningur keppinautarins, hversu lítill sem hann kann að sýnast, hljóti að skaða mann sjálfan og veikja í samkeppninni (svonefnt zero-sum einkenni). Jafnframt er sóst eftir hylli og stuðningi ríkja, stórra sem smárra, til að styrkja eigin stöðu og loks reynt að grafa undan keppinautnum. Með yfirlýsingum Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra, í Íslandsheimsóknunum 2019 (sjá fyrsta hluta greinarinnar) var með dæmigerðum hætti stórvelda verið að senda Kínverjum merki; skilaboð um að Ísland væri á áhrifasvæði Bandaríkjanna og Kína ekki velkomið.

Ein afleiðing aukinnar stórveldasamkeppni á norðurslóðum yrði á einhverju stigi að þær væru ekki lengur “lágspennusvæði” sem er stefna Íslands og allra aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Jafnframt verður að gera ráð fyrir að í aðdraganda þess að Norður-Íshaf opnaðist ykjust mjög líkur á aukinni hervæðingu og stórveldaspennu. Í kjölfarið mætti búast við fjölþátta ógnum við fullveldi og öryggi Íslendinga; það er áróðri, undirróðri og jafnvel netárásum.

Miklar breytingar á stöðu Íslands eru hugsanlegar vegna norðurslóða – en til lengri tíma litið.  Til skemmri tíma litið er hugsanlegt að alþjóðapólitísk óvissa í loftslagsmálum og erfiðir valkostir í því efni verði fyrirferðarmest í íslenskum utanríkismálum. Um þann möguleika verður fjallað í þriðja hluta greinarinnar um Ísland og umheiminn 2020-2050.

Ísland og umheimurinn 2020-2050 Fyrsti hluti: Í nýrri heimsmynd

Ágrip: Með falli Sovétríkjanna 1991 færðist Ísland á jaðar alþjóðakerfisins eftir að hafa tengst þungamiðju þess náið af herfræðilegum ástæðum í síðari heimsstyrjöld og kalda stríðinu. Þá lá þungamiðjan á Evró-Atlantshafssvæði heimsins í pólitísku, efnahagslegu og hernaðarlegu tilliti. Nú liggur hún á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. 

Íslandi hefur farnast vel á jaðri kerfisins undanfarna áratugi og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. Efnahagsleg velgengni hefur verið mikil á heildina litið á tímabilinu. Þá hefur öryggi þjóðarinnar verið tryggara en þegar lega landsins tengdi það náið við helstu átök og ágreining í heiminum. Þrátt fyrir stirð samskipti NATO og Rússlands eru átök milli þeirra almennt talin ólíkleg. Hernaðarleg umsvif á norðurslóðum hafa aukist en eru enn miklu minni en í kalda stríðinu og að að mestu leyti langt fyrir norðan Ísland.

Eftir því sem Asía eflist minnkar hlutfallslegt vægi Evró-Atlantshafssvæðisins í heimsbúskapnum, hlutur Evrópusambandsríkjanna meira en hlutur Bandaríkjanna en þar hefur hagvöxtur verið meiri en í ESB. Bandaríkin eru risaveldi sem fyrr og lykilríki í hinni nýju þungamiðju alþjóðakerfisins á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Samrunaþróunin í ESB, sem hefur verið fyrirferðarmikil saga á Evró-Atlantshafssvæðinu einkennist nú af mikilli óvissu. Það að samruninn hefur ekki leitt til sambandsríkis kann ásamt langvarandi efnahagserfiðleikum í sumum aðildarríkjum að leiða til þess að þau yfirgefi evruna. Það er útbreidd skoðun að þessi hætta hljóti að beina ESB í átt til sambandsríkis. Hinsvegar er því haldið fram að ESB ríkin séu þegar allt kemur til alls of ólík til að geta náð samkomulagi um þá leið. 

Drifkraftar alþjóðamála liggja í aðalatriðum annarsstaðar en á Evró-Atlantshafssvæðinu og það virðist einnig eiga við helstu áhrifaþætti þegar kemur að stöðu Íslands. Beggja vegna Atlantshafs eru stærstu markaðir fyrir íslenskar vörur og þjónustu. Hlutur ESB í utanríkisviðskiptum landsins hefur þó minnkað vegna útgöngu Bretlands og mjög líklegt að hlutfallið minnki enn frekar vegna vaxandi viðskiptasamstarfs milli Íslands og Asíuríkja. Sama á við vægi Bandaríkjamarkaðar. 

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína hefur orðið meginþáttur alþjóðamála og margt bendir til að hún harðni í bráð og lengd og við það er miðað í greininni. Einnig er gengið út frá því að hafís hörfi áfram á Norður-Íshafi, sem veldur auknum alþjóðlegum áhuga á norðurslóðum, þar á meðal af hálfu Kína og Bandaríkjanna. Samkeppni þessara stórvelda og bráðnun heimskautsíssins virðast lykilforsendur þegar lagt er mat á stöðu Íslands næstu áratugi. 

Mest áhrif hefði ef stefndi í að Norður-Íshaf opnaðist vegna bráðnunar heimskautsíssins. Aðdragandi þess mundi í mikilvægum atriðum litast af samkeppni Kína og Bandaríkjanna á norðurslóðum. Hún er enn mjög takmörkuð á svæðinu og umsvif Kínverja þar afar lítil nema í norður Rússlandi þar sem þeir taka þátt í hratt vaxandi olíu- og gasvinnslu. Hinsvegar má gera ráð fyrir að Ísland verði líkt og önnur ríki fyrir þrýstingi af völdum samkeppninnar á heimsvísu. Þegar eru uppi mál í henni, sem kalla á afstöðu íslenskra stjórnvalda og hagsmunamat. 

Gera verður ráð fyrir að Ísland þurfi á næstu árum og áratugum að taka afstöðu til ýmissa deilumála stórveldanna og að hún kunni að snerta mikilvæga íslenska hagsmuni. Hvert verður svigrúm Íslands? Stundum kann niðurstaðan að vera augljós vegna skýrra hagsmuna og grundvallarreglna, í öðrum tilvikum kann að vera möguleiki fyrir Ísland að standa á hliðarlínunni, í enn öðrum leyfir hagsmunamat ef til vill ekki slíkt svigrúm. Miklu getur skipt að utanríkisviðskiptin verði ekki um of háð Kínamarkaði. Aukinn áhugi stórveldanna tveggja á norðurslóðum og hugsanlegir miklir framtíðarhagsmunir þeirra þar kunna að veita Íslandi meira svigrúm en ella væri.

Gangi eftir spár um að Norður-Íshaf opnist virðist það ekki verða að einhverju marki fyrr en um eða upp úr 2050. Þá mundi Ísland tengjast um norðurslóðir við hina nýju þungamiðju alþjóðakerfisins á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.  Alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi slíkra grundvallarbreytinga á heimsmyndinni sem fælust í opnun Norður-Íshafs gæti hafist í alvöru á næstu 10-20 árum. Um hann verður fjallað í öðrum hluta greinarinnar um Ísland og umheiminn 2020-2050.

Efnisyfirlit: Umskipti á stöðu Íslands með falli Sovétríkjanna – Þungamiðja alþjóðakerfisins liggur nú hinum megin á hnettinum og samkeppni Bandaríkjanna og Kína er ráðandi þáttur alþjóðamála – Samkeppni Bandaríkjanna og Kína snertir norðurslóðir og íslensk stjórnvöld eru krafin um afstöðu til deilumála stórveldanna – Hvert verður svigrúm Íslands?

Umskipti á stöðu Íslands með falli Sovétríkjanna 

Í síðari heimsstyrjöld tengdist Ísland náið þungamiðju alþjóðakerfisins, sem lá á Evró-Atlantshafssvæðinu. Það nær til Norður-Ameríku, Atlantshafs og meginlands Evrópu. Á þessu svæði voru ríkin sem mestu réðu á 20.öld. Drifkraftar alþjóðamála og heimssögunnar fólust einkum í samskiptum þeirra, deilum og átökum, þótt Japan hefði einnig áhrif. Lega Íslands og herstöðvar Bandamanna þar höfðu umtalsverð áhrif á gang mála í heimsstyrjöldinni og þannig fékk landið tengsl við þungamiðju alþjóðakerfisins sem þá var. 

Mesta þýðingu fékk Ísland fyrir þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Það átti bæði við í heimsstyrjöldinni og í kalda stríðinu allt til þess að Sovétríkin féllu 1991.  Eftir það hafði Ísland miklu minna hernaðarlegt vægi en áður fyrir Bandaríkin. Meginatriði var að með Sovétríkjunum hvarf ekki bara tiltekinn andstæðingur heldur einnig sá möguleiki að stórveldi gæti náð ráðandi stöðu á meginlandi Evrópu og orðið ógn við öryggi á Norður-Atlantshafi og vesturhveli.

Um þessar grundvallarbreytingar, áhrif þeirra á stöðu Íslands og þróun öryggismála eftir kalda stríðið hefur verið fjallað ítarlega í fyrri greinum á vefsíðunni og því látið nægja hér að rifja upp aðalatriði. Hernaðarleg umsvif í nágrenni Íslands eru miklu minni en í kalda stríðinu og hernaðarlegir meginþættir, eins og þeir þróast á norðurslóðum, eru langt fyrir norðan Ísland. Keflavíkurflugvöllur hefði hlutverki að gegna á hættutíma í Evrópu, aðallega varðandi flutning á herliði og búnaði í lofti yfir Atlantshaf til meginlandsins og einnig að einhverju leyti varðandi stuðning kafbátaleitarflugvéla og eldsneytisflutningaflugvéla frá landinu við aðgerðir á norðurslóðum. Ísland hefur að þessu leyti áfram gildi fyrir fælingarstefnu NATO á meginlandi Evrópu og þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna, þó ekki í líkingu við mikilvægi landsins hefði komið til átaka í kalda stríðinu. Ísland tengist áfram stöðu öryggismála í Evrópu þótt hún sé önnur en þegar Sovétríkin voru uppi og gátu hugsanlega náð ráðandi stöðu þar. Norðurfloti þeirra var og margfalt stærri en sá rússneski er nú. Þá er svo að þrátt fyrir stirð samskipti er stríð milli NATO og Rússlands almennt talið ólíklegt. 

Þungamiðja alþjóðakerfisins liggur nú hinum megin á hnettinum – Samkeppni Bandaríkjanna og Kína er ráðandi þáttur alþjóðamála

Helstu ríki heims – Bandaríkin, Kína, Indland – eru á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Þar er að finna drifkrafta alþjóðakerfisins; í stjórnmálum, efnahagsmálum, tæknilegum efnum, viðskiptum og öryggismálum. Samkeppni milli Bandaríkjanna, mesta stórveldis heims, og Kína sem er rísandi stórveldi, hefur orðið ráðandi þáttur í alþjóðamálum. Hún birtist sérstaklega í austur Asíu en einnig á Asíu-Kyrrahafssvæðinu öllu sem og á heimsvísu. Uppgangur Kína hefur þegar valdið grundvallarbreytingu á strúktúr alþjóðakerfisins, breytingu sem veikir Bandaríkin og sem þau hljóta að bregðast við – og gera í síauknum mæli.

Kína býr við ýmsa innri veikleika sem kunna að hægja á efnahagslegum vexti þess og draga samkvæmt því úr samkeppninni við Bandaríkin. Í þessari grein og næsta hluta hennar er gert ráð fyrir að Kína eflist áfram og samkeppnin harðni, enda er ætlunin með þessum skrifum að átta sig á hvort búast megi við miklum breytingum á norðurslóðum og stöðu Íslands. Það verður endanlega háð hlýnun Jarðar og bráðnun hafíss af hennar völdum, sem er meginástæða aukins áhuga stórveldanna tveggja á norðurslóðum. 

Kína hefur þegar náð að verða stærsta hagkerfi heims á eftir því bandaríska og styttist í að hið kínverska verði stærst, þótt þjóðartekjur á mann séu enn um fjórfalt hærri í Bandaríkjunum en í Kína. Það er einnig orðið stórveldi á ýmsum tæknilegum sviðum,  og á í mjög harðnandi samkeppni við Bandaríkin í þeim efnum, en er enn ekki herveldi til jafns við keppinautinn, sérstaklega hvað varðar möguleika á að beita sér á fjarlægum slóðum. Kínverjar eru um 1400 milljónir á móti 330 milljónum Bandaríkjamanna. Nálgist Kínverjar að hafa þjóðartekjur á mann á við til dæmis Suður Kóreu, Hong Kong eða Singapore verða heildarþjóðartekjur Kína miklu meiri en Bandaríkjanna; jafnvirði nokkurra tuga trilljóna dollara á ári. Framlög í Kína til utanríkismála  – þar á meðal til ýmiskonar fjárhagsaðstoðar við önnur ríki – og til hermála mundu endurspegla það.

Rússland er stórveldi í Evrópu þótt það sé ekki, eins og fyrr sagði, arftaki Sovétríkjanna að þessu leyti. Efnahagslega er Rússland á svipuðum stað og Ítalía þegar kemur að heildarþjóðartekjum. Þjóðartekjur á mann eru hins vegar mun lægri en á Ítalíu því Rússland er fjölmennara; og munar 80 milljónum manna. Þrátt fyrir þetta eiga Rússar öflugri her en Ítalir sem endurspeglar meðal annars ólíkan pólitískan vilja í þessum efnum og ólíkt stjórnarfar. Þá fær Rússland af ýmsum fjárhagslegum ástæðum meira en Ítalía og önnur NATO ríki fyrir fjármuni sem varið er til vopnakaupa og annarra útgjalda til hermála. Mannfjöldi og þjóðartekjur segja því alls ekki alla söguna þegar kemur að hernaðarmætti.

Rússland á sameiginlegt með Kína að vera endurskoðunarsinnað (revisionist) stórveldi; að vilja grafa undan ríkjandi fyrirkomulagi heimsmála í þeim tilgangi að auka eigin völd og virðingu og veikja önnur stórveldi. Markmið Rússa og Kínverja er auðvitað fyrst og fremst að veikja stöðu Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu. 

Harðni samkeppni Kína og Bandaríkjanna enn frekar verður rökrétt afleiðing, einkum ef samskipti NATO og Rússlands verða áfram svo stirð sem nú er, að böndin milli Kína og Rússlands verði enn nánari en ella. Það er þó ekki víst að svo fari. Ýmsir hagsmunir Kínverja og Rússa eru ólíkir og Kína er auðvitað margfalt fjölmennara en Rússland og miklu öflugra í fjárhagslegu og tæknilegu tilliti. Bandalag milli þeirra yrði ekki á jafningjagrundvelli sem kynni að há nánari samvinnu.

Uppgangur Kína hefur gerbreytt strúktúr alþjóðakerfisins, sem fyrr var nefnt, og Kína er langöflugasti keppinautur sem Bandaríkin hafa átt enda samkeppnin við það orðin ráðandi í bandarískri utanríkis- og þjóðaröryggisstefnu. Líkur eru á að samkeppnin verði hörð og einnig að Bandaríkjamenn muni þegar fram í sækir eiga fullt í fangi með að keppa við Kínverja. Samkeppnin mun gera miklar kröfur til Bandaríkjahers á víðáttumiklu Asíu-Kyrrahafssvæðinu og megináherslur hans liggja þar nú þegar. 

Jafnframt því að beina kröftum að Asíu er viðbúið að Bandaríkjamenn horfi mjög inn á við vegna mikilla ríkisskulda, og vaxandi útgjalda sakir hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar. Einnig þarf að bæta lífskjör hópa sem hafa orðið útundan, styrkja menntun, vísindi og rannsóknir og gera stórátak í endurnýjun innviða. Bandaríkjamenn hafa trauðla efni á að leysa þessi stóru og fjárfreku verkefni heima fyrir, beina sífellt meiri diplómatískum og hernaðarlegum kröftum að Asíu-Kyrrahafi og halda jafnframt úti verulegu herliði í öðrum heimshlutum, þar á meðal í Evrópu vegna NATO.

Stöðugleiki og velferð í Evrópu er augljóslega áfram í hag Bandaríkjanna vegna mikilla viðskiptahagsmuna þeirra í álfunni og annarra náinna tengsla við ríki þar. Þáttakan í NATO nýtur stuðnings meirihluta Bandaríkjamanna og mikillar velvildar á þingi og í stjórnkerfinu. Þó eru líkur á til lengri tíma litið að Bandaríkin hætti að miklu leyti, vegna uppgangs Kína og af fyrrnefndum innanlandsástæðum, að hafa herlið í Evrópu; en einnig af því að það er ekki til stórveldi í Evrópu sem getur náð ráðandi stöðu þar og ógnað vesturhveli og Bandaríkjunum í framhaldinu.

Evrópuríki NATO þurfa að bregðast við því að helstu þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna og áherslur Bandaríkjahers eru í Asíu. Evrópsku bandamennirnir verða fyrr en síðar að mæta gerbreyttum aðstæðum með því að leggja mun meira af mörkum til sameiginlegra varna bandalagsins en flestir þeirra gera nú. Framtíð NATO verður undir því komin. Hún verður einnig háð því að Bandaríkin njóti stuðnings Evrópuríkjanna. Víst er að Bandaríkin munu sækja fast að það verði gert af hálfu NATO og ESB. Bæði hafa skilgreint Kína sem keppinaut en á móti kemur að Evrópuríki eiga mikið undir viðskiptum við það; sum þiggja að auki fjárfestingar þeirra og lán gegnum svonefnda Belti og braut áætlun, sem síðar verður nánar vikið að.

Efnahagslegt vægi Evró-Atlantshafssvæðisins í heimshagkerfinu fer hlutfallslega minnkandi. Það stafar af því að Asíu-Kyrrahafssvæðið vex hratt efnahagslega, áætlað að það muni upp úr 2030 standa undir meira en helmingi heimsframleiðslunnar og að meirihluti hagvaxtar í heiminum verði til þar. Hlutfall Bandaríkjanna í heimshagkerfiu hefur minnkað heldur minna en ESB vegna meiri hagvaxtar í Bandaríkjunum. Hagkerfin tvö eru álíka stór hlutfallslega en ESB hefur fleiri íbúa en Bandaríkin. Þá er svo að þótt ESB sé efnahagslegt stórveldi og næstum 450 milljónir íbúa er vægi sambandsins á alþjóðavettvangi ekki í takt við það. 

Það háir ESB að samruni í því nær ekki til ríkisfjármála (fiscal union) né heldur til öryggis- og varnarmála og utanríkisstefna er ekki sameiginleg nema að hluta til. Evran er, einn helstu gjaldmiðla, ekki afkvæmi ríkis og á ábyrgð þess. Það er útbreidd skoðun að þarna fari grundvallarveikleiki ESB og evrunnar. Þá er aðallega átt við að ekki er staðið sameiginlega við bakið á gjaldmiðlinum eins og ríki Bandríkjanna standa að dollarnum með sambandsríki. Það felur meðal annars í sér að sambandsríkið getur efnt til skulda sem ríkin bera sameiginlega ábyrgð á. Hér í liggur til dæmis munurinn á viðbrögðum ESB og Bandaríkjanna við fjármálakreppunni 2008 og við kreppunni sem Covid-19 hefur valdið. Hann felst í því að seðlabanki og ríkissjóður Bandaríkjanna geta gefið hagkerfinu miklu öflugri fjárhagslega innspýtingu en mögulegt er af hálfu stofnana ESB; enda er mikill munur á spám um hagvöxt og þenslu í ESB og Bandaríkjunum í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Almennt skortir pólitískan vilja til nánari samruna í ESB, hvort heldur er á sviði ríkisfjármála eða í öryggis- og varnarmálum þótt hann sé gjarnan talinn forsenda þess að ná megi markmiðum um meira vægi sambandsins í heiminum. Einnig er gjarnan bent á að ESB ríkin muni – þrátt fyrir að vera sundurleit (óhjákvæmilega af því þetta eru 27 ríki og um margt ólík hvað varðar tungumál, menningu, sögu, stærð, afl og hagsmuni) og sundurlynd (meðal annars af því aðild að ESB þjónar að nokkru leyti ólíkum markmiðum og hagsmunum eftir aðildarríkjum)— ná saman um að nauðsynlegan aukinn samruna. Á endanum verði ekki komist hjá því að gera það í ríkisfjármálum til að styrkja evruna og skjóta almennt styrkari stoðum undir stöðu ESB. 

Á meðan ríkir óvissa um hvernig evrunni og ESB reiði af. Sum aðildarríki eiga í miklum fjárhagserfiðleikum. Þar á meðal eru stór ríki eins og Spánn og Ítalía og einnig á þjóðarbúskapur Grikkja mjög erfitt. Þótt staða mála sé ekki eins í ríkjunum þremur þá eiga þau sameiginlegt að hafa búið við langvarandi efnahagsvanda og mikla skuldasöfnun. Stór þáttur í þessu hefur verið að gengi evrunnar hefur verið þeim óhagstætt, einkum hvað Grikkland og Ítalíu varðar. Ríki norðar í ESB, með Þýskaland, í fararbroddi vilja ekki bera ábyrgð á skuldum aðildarríkjanna, en einkum á miklum skuldum Grikklands og Ítalíu. Einnig er bent á að það mundi jafnvel auka á agaleysi við efnahagsstjórn í þessum ríkjum og gera illt verra. Hinsvegar sést gjarnan sú skoðun í umræðunni að ESB geti ekki velt málum á undan sér mikið lengur. Fyrr en síðar hljóti að koma að ögurstundu í samrunaþróuninni. Verði ekki tekið á málum sé hætt við að Miðjarðarhafsríkin – eitt eða fleiri – segi sig frá gjaldmiðilssamstarfinu; hætti við evruna til að reyna að bjarga þjóðarbúskapnum. 

Sameiginleg ábyrgð á skuldum kemur ekki til nema ríkisfjármálastefna verði sameiginleg. Samruni að því leyti fæli óhjákvæmilega í sér meira vald í til stofnana sambandsins og til stóru ríkjanna í því í samræmi við ábyrgð þeirra á sameiginlegum skuldum og í takt við stærra umfang ríkisfjármála þeirra samanborið við smærri ríkin. Slík tilfærsla á valdi til stofnana og stóru ríkjanna er þáttur í andstöðu innan ESB við aukinn samruna. 

Þá hefur nýr alvarlegur ágreiningsþáttur komið til sögu í ESB á undanförnum árum. Hann lýtur að uppgangi svonefnds popúlisma í stjórnmálum, sem meðal annars birtist í andófi gegn stefnu og stofnunum sambandsins og andstöðu við aukinn samruna. Vandi ESB að þessu leyti birtist meðal annars í ágreiningi og átökum við Póland og Ungverjaland en einnig Búlgaríu og Slóveníu, þar á meðal um mál sem snerta grundvallaratriði eins og réttarríkið. Í öðrum ESB ríkjum, en einkum Grikklandi, Ítalíu og Spáni, kyndir versnandi efnahagur og vanmáttur stofnana ESB til að fást við fjármálaafleiðingar kórónuveirufaraldursins undir óánægju og popúlisma. Þá hefur vandaræðagangur í ESB vegna bóluefna valdið því að ímynd þess hefur skaðast víða í sambandinu og vantrú á stofnunum aukist.

Þótt þungamiðja alþjóðamála liggi ekki lengur á Evró-Atlantshafssvæðinu hefur það áfram mikla og augljósa þýðingu fyrir Ísland af pólitískum, menningarlegum og efnahagslegum ástæðum. Beggja vegna Atlantshafs eru stærstu markaðir fyrir íslenskar vörur og þjónustu. Bandaríkin skipta mjög miklu fyrir bæði vöruútflutning og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustu, og markaðsstaða íslenskra fyrirtækja þar er í meginatriðum góð. Bandaríkjamenn eru einnig með miklar fjárfestingar á Íslandi. Þá eru stórir íslenskir hagsmunir sem fyrr komnir undir nánu viðskiptasamstarfi við ESB þótt Bretland, stærsti markaður Íslands fyrir vörur og þjónustu í Evrópu, hafi gengið úr ESB. Ísland er í sterkri stöðu á Evrópumarkaði og allar líkur á að svo verði áfram. Meðal annars er mikil eftirspurn er eftir sjávarvörum í mörgum aðildarríkjum og víst má telja að Ísland verði áfram eftirsóttur áfangastaður evrópskra ferðamanna.

Viðskiptajöfnuður við Kína er Íslendingum afar óhagstæður. Þess má hins vegar vænta að að miklir möguleikar geti verið á næstu árum og áratugum fyrir íslensk fyrirtæki í Kína og í öðrum Asíulöndum. Þar á meðal er Indland sem hefur hartnær sama íbúafjölda og Kína. Meirihluti mannkyns mun brátt tilheyra millistétt og er vöxtur hennar nær allur rakinn til Asíu. Árið 2030 er gert ráð fyrir að tveir þriðju hlutar millistéttar í heiminum verði þar. Neysla þessa fjölmenna hóps eykst hratt eins og við má búast. Með sívaxandi fjölda efnafólks getur Asíumarkaður eflt mjög möguleika íslenskra fyrirtækja til að auka verðmæti útflutningsvara og fá hærra verð fyrir ferðaþjónustu; einnig til að finna nýja samstarfsaðila og fjárfesta þar á meðal á nýsköpunar-  og tæknisviði.

Ísland hefur undanfarna tæpa þrjá áratugi tekið að nokkru leyti þátt í efnahags- og viðskiptalegri samrunaþróun á meginlandi Evrópu sem grunnur var lagður að fljótlega eftir síðari heimsstyrjöld. Frá þeim tíma hefur samrunaþróunin verið fyrirferðarmikil saga á Evró-Atlantshafssvæðinu einkum þó eftir kalda stríðið þegar hún tók eðlisbreytingu sem leiddi til ESB. Þátttaka Íslands í samrunanum hefur að mestu einskorðast við aðild að innri markaðnum í gegnum EES samstarfið, sem hófst 1994. Nú kann að líða að ögurstundu í langri sögu samrunans eins og fyrr var rætt. Annarsvegar er enn hugsanlegt að samrunaþróunin leiði til sambandsríkis – sem hefur gjarnan verið talin rökrétt niðurstaða; auk þess að það er útbreidd skoðun að evran hafi leitt í ljós grundvallarveikleika í ESB sem hrindi því óhjákvæmilega í átt til sambandsríkis. Hinsvegar er því haldið fram að það sé ekki lengur mögulegt, hafi sambandsríki nokkurntíma verið raunhæfur kostur.

Hvort heldur fyrrnefndir veikleikar verða áfram við lýði í ESB eða málum lýkur með sambandsríki má ætla að þessir tveir meginkostir sem sambandið stendur frammi fyrir feli í sér að líkur á aðild Íslands að ESB minnki enn frekar. Annar kosturinn fæli í sér þátttöku í óvissuástandi og fjárhagserfiðleikum, sem virðast aukast fremur en hitt, meðan hinn kosturinn, sambandsríki, fæli í sér að smáríki hefðu enn minna að segja en áður um helstu mál í sambandinu sem nú tæki einnig til ríkisfjármála. Báðir kostirnir eru því þess eðlis að veikja enn frekar forsendur fyrir aðild Íslands, smáríkis þar sem þjóðarbúskapurinn stendur styrkum fótum í grundvallaratriðum og ber hlutfallslega litlar skuldir, og þar sem aðgangur að markaði ESB er í öllum aðalatriðum tryggður. Við bætist að hlutur ESB í utanríkisviðskiptum Íslands hefur minnkað vegna útgöngu Breta úr sambandinu. Loks er þess að vænta að vægi innri markaðar ESB í íslenskum utanríkisviðskiptum minnki enn frekar eftir því sem viðskipti vaxa milli Íslands og Asíu, en afar líklegt má telja að þau eigi eftir að aukast verulega í takt við hagvöxt og samfélagsþróun í Asíuríkjum.

Verði veruleg breyting á stöðu Íslands og samskiptum þess við umheiminn virðist ólíklegt að það ráðist í Evrópu. Líklegri til að hafa slík áhrif verður annarsvegar þróun mála í hinni nýju þungamiðju á Asíu-Kyrrahafi og samkeppni Kína og Bandaríkjanna; hinsvegar bráðnun heimskautsíss og hugsanleg opnun Norður-Íshafs af hennar völdum.

Samkeppni Kína og Bandaríkjanna á heimsvísu snertir norðurslóðir og íslensk stjórnvöld eru krafin um afstöðu til deilumála stórveldanna

Aukinn áhugi kínverskra stjórnvalda á norðurslóðum hefur birst í áheyrnaraðild þeirra frá 2013 að starfi Norðurskautsráðsins. Sérstök norðurslóðastefna Kína var gefin út 2018. Kínverska innviða- og fjárfestingaáætlunin Belti og braut nær til norðurslóða og heitir þá Silkileið norðursins (Polar Silkroad). Vísindamenn þess hafa um langt skeið stundað rannsóknir á norðurslóðum og Kína á ísbrjóta sem undanfarið hafa siglt þar á hverju ári. Þær siglingar þjóna vísindarannsóknum en er væntanlega einnig ætlað að festa Kína í sessi sem “ríki nálægt norðurslóðum” (near Arctic state), eins og þeir kalla það, sem hafi þar réttindi og hagsmuni. 

Þá hefur efnahagsleg athafnasemi Kínverja á norðurslóðum aukist mjög á síðustu árum en einskorðast næstum alfarið við norður Rússland og hratt vaxandi olíu og gasvinnslu þar. Kínverjar eru þegar stórir fjárfestar og kaupendur. Japanar kaupa einnig mikið en meirihluti afurðanna fer þó enn sem komið er á Evrópumarkað. Athafnasemi Kínverja á þessu sviði á væntanlega eftir að vaxa vegna þarfa þeirra fyrir orku og vegna aukins aðgengis í kjölfar hlýnunar Jarðar að miklum náttúruauðlindum á svæðinu. Hve hratt aðkoma Kínverja eykst er þó ekki ljóst. Þeir fá mikið af gasi og olíu annarsstaðar frá, þar á meðal frá nálægum ríkjum í Mið-Asíu.

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu hefur gætt á norðurslóðum. Það er þó með mjög takmörkuðum hætti enn sem komið er og á aðallega við stefnu Bandaríkjanna gagnvart svæðinu, sérstaklega varðandi Ísland og Grænland. Hún virðist einkum felast í að minna Kínverja á að þessi lönd séu á áhrifasvæði Bandaríkjanna.

Það að samkeppni Kína og Bandaríkjanna á heimsvísu birtist á norðurslóðum fremur í bandarískum yfirlýsingum en kínverskum er það sem vænta má. Auk þess að litið er svo á að Grænland og Ísland séu á áhrifasvæði Bandaríkjanna, eiga þau mikið land á norðurslóðum þar sem er Alaska, og þær hafa í áratugi skipt miklu fyrir þjóðaröryggishagsmuni Bandaríkjanna. Áhugi Bandaríkjahers á norðurslóðum hefur aukist á undanförnum árum og deildir hans gefið út skýrslur um hernaðarhagsmuni þar. Einnig hefur Bandaríkjaþing komið að stefnumótuninni. Herinn er hinsvegar vanbúinn að mörgu leyti til að auka verulega hernaðarumsvif á norðurslóðum almennt og á Norður-Íshafi sérstaklega. Það á við ísbrjóta en einkum herskip styrkt til siglina í hafís og nokkuð langt í að það breytist; enda tekið fram að tímaramminn sé næstu áratugir (the decades ahead). 

Á árinu 2019 komu bæði Michael Pence,varaforseti Bandaríkjanna, og Michael Pompeo, utanríkisráðherra, til Íslands – líkt og fjallað var um á þessari vefsíðu í kjölfar heimsóknanna. Heimsóknirnar voru sögulegar í samskiptum ríkjanna; afar sjaldgæft að svo háttsettir Bandríkjamenn heimsæki Ísland. Eftirtektarvert var að báðir notuðu tækifærið að miklu leyti til að tala um norðurslóðir og til að senda Kína merki um að Ísland væri á þeirra áhrifasvæði og Kínverjar ekki velkomnir.

Pence varaforseti kom til Íslands í byrjun september, skömmu eftir að Trump forseti viðraði hugmynd um að Bandaríkin keyptu Grænland af “strategískum” ástæðum. Það var í kjölfar frétta af áhuga kínverskra fyrirtækja á verktöku vegna flugvallagerðar á Grænlandi og á námavinnslu, sem hafði verið lengi í bígerð. Eitt námafyrirtækið sóttist eftir að kaupa fyrrum herskipabryggju í nágrenni námu en sagt er að dönsk stjórnvöld hafi eftir þrýsting frá Washington komið í veg fyrir það með því að taka bryggjuna úr sölu. Einnig fréttist af þrýstingi Bandaríkjastjórnar á dönsk stjórnvöld sem hefði leitt til þess að kínverskir verktakar hættu við að bjóða í fyrrnefnda flugvallagerð. 

Hve djúpt áhugi Kína á Grænlandi ristir virðist óljóst að einhverju leyti að minnsta kosti. Grænlenska landsstjórnin mun hafa sýnt frumkvæði í samskiptunum og sóst í alllangan tíma eftir kínverskum fjárfestingum til landsins. Einnig virðist hún hafa átt upptök að því að Kínverjar skoðuðu flugvallargerðina. Þá er undirbúningur að námavinnslu í öðru tilviki af tveimur á vegum ástralsks fyrirtækis með aðkomu kínverskra fjárfesta.

Hvað Ísland varðar hefur gjarnan í erlendum tímaritum og á vefsíðum verið bent á rannsóknastöð sem Kínverjar fjármagna á Kárhóli í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu til marks um ásælni þeirra a á norðurslóðum og viðleitni til að ná fótfestu þar. Á vefsíðu stöðvarinnar segir að hún sé miðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurslóðir í alþjóðlegu samstarfi, s.s. í háloftarannsóknum, rannsóknum á gufuhvolfi og veðurfræði, líf- og vistfræði, haffræði, jöklafræði, jarðfræði, rannsóknum á loftslagsbreytingum og umhverfisrannsóknum. Einnig kemur fram að stöðin sé samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana þar sem Rannís leiði samstarf íslensku aðilanna en kínverska Norðurskautsrannóknastöðin (Polar Research Institute of China) samstarf kínversku aðilanna. 

Rannsóknastöðin er í myndarlegri byggingu sem reist var fyrir hana að Kárhóli og við hlið hennar eru lágreist möstur í röðum sem tengjast væntanlega einhverjum af yfirlýstum rannsóknamarkmiðum. Þegar að er komið er greinilegt af byggingunni að um töluverða kínverska fjárfestingu er að ræða. Frágangi að utan er þó ekki að fullu lokið. Ekki er ljóst hvort og þá hvaða ályktanir má draga af málinu um hugsanlegar fyrirætlanir með rannsóknastöðinni aðrar en þær sem lúta að vísindarannsóknum og almennum samskiptum við Íslendinga. Í Íslandsheimsóknunum nefndu Pence og Pompeo ekki stöðina að Kárhóli, að minnsta kosti ekki opinberlega.  

Pence varaði Íslendinga sérstaklega við kínversku innviðaáætluninni Belti og braut en stjórnvöld höfðu fengið boð um þáttöku Íslands í henni. Áætlunin mun vera upp á jafnvirði 1300 milljarða dollara að minnsta kosti gegnum lánveitingar og fjárfestingar víða um heim. Með henni á meðal annars að tengja Kína nánar við umheiminn með uppbyggingu innviða í öðrum ríkjum, sem einkum lúta að samgöngum, flutningi á orku og fjarskiptum. 

Belti og braut áætlunin lýtur auðvitað að þörfum hagkerfis Kína sem kallar meðal annars eftir miklu af hráefnum og orku frá öðrum löndum, nýjum mörkuðum og eftir betri tengingum við nálæg ríki sem og aðra heimshluta. Tilurð og framkvæmd áætlunarinnar er jafnframt nátengd æðstu ráðamönnum í Kína og kommúnistaflokknum og hún virðist vera einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar. Kínversk ríkisfyrirtæki eru fyrirferðarmikil við framkvæmd áætlunarinnar, líkt og þau eru almennt í kínverskum þjóðarbúskap. Belti og braut áætlunin er umdeild á alþjóðavettvangi og gjarnan talin vera lykilþáttur í sýn kínverskra stjórnvalda á framtíð alþjóðakerfisins, viðleitni þeirra til að móta það og augljós þáttur í samkeppni um áhrif og ítök við önnur stórveldi, einkum Bandaríkin, en einnig Indland og Japan.

Þótt Belti og braut sé umdeild og þótt Bandaríkin hafi beitt sér gegn henni, hafa kínversk stjórnvöld samið við tugi ríkja víða um heim um þátttöku í áætluninni og samvinnu henni tengdri. Þar á meðal er tæpur helmingur ESB ríkjanna og önnur Evrópuríki. Flest Vestur-Evrópuríki hafa þó ekki gert samkomulag um þátttöku í áætluninni, né heldur Norðurlöndin. 

Í Íslandsheimsókninni þakkaði Pence stjórnvöldum fyrir að hafa hafnað boði Kínverja um þátttöku Íslands í Belti og braut. Í ljós kom að þau höfðu reyndar ekki svarað boðinu. Að fresta málinu áfram og um óákveðinn tíma yrði væntanlega ásættanlegt fyrir Bandaríkin en kynni að hafa neikvæð áhrif á samskipti Íslands við Kína þótt slíkt hafi ekki komið fram opinberlega. 

Engar sjáanlegar íslenskar þarfir kalla á þátttöku í Belti og braut. Íslendingar eru ekki í vandræðum með að útvega fjármagn til innviðaframkvæmda. Reyndar verður heldur ekki séð að brýnir kínverskir hagsmunir liggi undir. Kínverjar hafa í tengslum við Belti og braut nefnt áhuga á umskipunarhöfn á landinu, þá væntanlega vegna siglinga á norðurslóðum. Einhverjir áratugir eru þó í það, að minnsta kosti, að slík höfn verði að veruleika og þá að því gefnu að siglingaleið opnist yfir norðurheimskaut eins og fjallað verður um í öðrum hluta þessarar greinar um Ísland og umheiminn 2020-2050. Kæmi að því mundi ekki skorta áhuga erlendra fyrirtækja og fjárfesta, að því gefnu auðvitað að umskipunarhöfn á landinu uppfyllti kröfur um arðsemi. 

Eini hugsanlegur ávinningur Kínverja væri ef í samkomulagi nú um þátttöku í áætluninni fælust skuldbindingar af Íslands hálfu langt fram í tímann, eðli máls samkvæmt, sem gæfu Kína fótfestu á landinu. Má vera að það sé ætlan kínverskra stjórnvalda en væri augljóslega skuldbinding sem ástæðulaust væri fyrir Íslendinga að gangast undir. Undirtektir íslenskra stjórnvalda að svo komnu benda ekki til að það komi til greina. 

Í Íslandsheimsókninni réði Pence, varaforseti, Íslendingum eindregið frá því að eiga samstarf við kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei um uppsetningu 5G fjarskiptakerfa á Íslandi. Slíkt væri varasamt því fyrirtækinu bæri samkvæmt sérstökum kínverskum lögum að láta stjórnvöldum Kína í té upplýsingar úr fjarskiptakerfum fyrirtækisins væri þess krafist. Þetta eru lög sem munu eiga almennt við kínversk fyrirtæki og eru um starfsemi leyniþjónustu (National Intelligence Law) og um gagnnjósnir (Counter Espionage Law). 

Samkeppni Kína og Bandaríkjanna birtist meðal annars á tæknisviðinu og á eftir að gera það í auknum mæli. Bandaríkin hafa beitt stjórnir ýmissa ríkja þrýstingi vegna Huawei. Bandarísk stjórnvöld eru auðvitað að hugsa um stöðu bandarískra fyrirtækja í samkeppninni en telja einnig – og eru ekki ein um það meðal vestrænna stjórnvalda  – að tækjabúnaður fyrirtækisins kunni að verða notaður til upplýsingaöflunar, njósna, eftirlits eða annarrar íhlutunar í ríkjum sem nota hann. Bandarísk stjórnvöld segja meðal annars að leyniþjónustu- og hernaðarsamstarf við Bandaríkin verði í hættu í ríkjum sem taki búnað Huawei í notkun.

Bæði Bandaríkin og Kína hafa beitt sér gagnvart ríkjum í Evrópu og víðar í Huawei málinu. Huawei hefur náð mikilli útbreiðslu í heiminum en Kínverjar virðast standa höllum fæti hvað það varðar í ýmsum Evrópuríkjum. Nokkur þeirra hafa þegar hafnað samstarfi við Huawei, önnur sett ýmis skilyrði fyrir samstarfi.  Sumar evrópskar ríkisstjórnir bera fyrir sig áðurnefnd tengsl fyrirtækisins við kínversk stjórnvöld og horfa jafnframt til þess hvers eðlis stjórnvaldið er í Kína, hvernig það hvílir á einræði kommúnistaflokksins og tilheyrandi lögregluríki. Leyniþjónustur ýmissa Evrópuríkja hafa mælt gegn samvinnu við fyrirtækið, bent á fyrrgreind lög um skyldur kínverskra fyrirtækja gagnvart Kínastjórn; reyndar varað almennt við Kína, stjórnvöldum þess og fyrirtækjum, vegna iðnaðarnjósna og hugverkaþjófnaðar og vegna netöryggis. 

Íslensku fjarskiptafyrirtækin Nova og Vodafone nota að einhverju leyti búnað frá Huawei en næsta víst er að full þátttaka þess í þróun 5G fjarskiptatækni á Íslandi mundi af kínverskri hálfu vera talin mikill sigur í samkeppninni við Bandaríkin. Bæði stórveldin munu hafa beitt sér í málinu en íslensk stjórnvöld virðast ekki hafa gert upp hug sinn. Þó er svo að verði frumvarpsamönguráðherra um fjarskipti að lögum geta stjórnvöld útilokað Huawei á Íslandi. Frumvarpið mun samið að evrópskri fyrirmynd og felur í sér heimild til að banna búnað af ástæðum sem lúta að þjóðaröryggi. Samgönguráðherra útilokar ekki í samtölum við fjölmiðla að hann beiti heimildinni, segir að það eigi eftir að koma í ljós.

Í frumvarpinu kemur meðal annars fram að telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á að farnetskerfi á landsvísu séu eða geti orðið mjög háð búnaði frá einum framleiðanda er stofnuninni, á grundvelli öryggishagsmuna, heimilt að setja skilyrði er stuðla að fjölbreytni í gerð búnaðar eða grípa til annarra viðeigandi ráðstafana. Þá segir “Að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu getur ráðherra kveðið á um í reglugerð að búnaður í tilteknum hlutum innlendra farneta, sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins, skuli í heild eða að ákveðnu hlutfalli búnaðar vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.” 

Í þeim tilvikum þar sem Huawei hefur verið útilokað hafa kínversk stjórnvöld brugðist hart við – þó meira í orði en á borði að svo komnu. Þetta á til dæmis við hörð ummæli sendiherra Kína í Svíþjóð og hótanir af hans hálfu í garð sænskra fyrirtækja sem starfa á Kínamarkaði.

Það verður áhugavert að fylgjast með málsmeðferð og ákvörðun íslenskra stjórnvalda í Huawei málinu; sjá hvernig hún varpar ljósi á svigrúm Íslendinga með tilliti til samkeppni Kína og Bandaríkjanna.

Hvert verður svigrúm Íslands?

Eflist Kína áfram og harðni samkeppni þess við Bandaríkin, má telja líklegt að fleiri mál eins og Huawei og Belti og braut komi upp í íslenskum utanríkismálum á næstu árum og áratugum. Bæði stórveldin muni beita Ísland þrýstingi. Jafnframt hafa Íslendingar áhuga á auknum viðskiptum við Kína sem stjórnvöld þar geta auðvitað og hæglega komið í veg fyrir með allskyns hindrunum þrátt fyrir fríverslunarsamning milli ríkjanna.  Einnig er áhugi á betri aðgangi fyrir íslensk fyrirtæki að Bandaríkjamarkaði, sem bandarísk stjórnvöld geta auðvitað komið sér hjá að semja um kjósi þau það af utanríkispólitískum ástæðum. 

Aðgangur að Kínamarkaði getur falið í sér mikla möguleika fyrir íslensk fyrirtæki sem fyrr var nefnt. Kínversk stjórnvöld eru hinsvegar þekkt fyrir að nota markaðsaðgang sem vopn í deilum við önnur ríki, þar á meðal vegna pólitískra mála; svo sem við Noreg, Tékkland, Japan, Ástralíu, Filippseyjar, Suður-Kóreu, Mongólíu og Nýja Sjáland á undanförnum árum. 

Í sumum málum, eins og varðandi Belti og braut, kann að vera möguleiki fyrir Ísland að vera á hliðarlínunni eða fresta að taka afstöðu af því engir brýnir hagsmunir liggi undir. Í öðrum – líkt og varðandi Huawei – kann að gefast þrengra svigrúm eða ekkert, eftir því hvaða hagsmunamat íslensk stjórnvöld leggja á málið.

Ekki mun einungis þurfa að taka afstöðu með tilliti til íslenskra hagsmuna í málum sem koma upp í tvíhliða samskiptum við stórveldin tvö – svipað og Belti og braut og Huawei. Líklegt er að einnig komi upp önnur mál sem leiði til þess að kallað verði eftir íslenskri afstöðu. Þetta gætu orðið mál eins og samskipti stjórnarinnar í Beijing við Hong Kong, þróun mála í Tíbet og varðandi Tævan, lögsaga í Suður Kínahafi, mannréttindi í Kína, viðskiptahættir Kínverja, netöryggi, hugverkaþjófnaður, upphaf kórónuveirufaraldursins o.s.frv. Sum slík mál kunna að koma á borð í samstarfinu í NATO, önnur geta tengst samstarfinu við ESB í gegnum EES. Þá má nefna loftslagsmál, en eftir á að koma í ljós hvernig samskipti Bandaríkjanna og Kína verða í þeim efnum, hvort tekst að halda loftslagsmálum utan við samkeppni stórveldanna tveggja. Loftslagsmál, samkeppnishæfni og viðskipti eru nátengd.

Kínversk stjórnvöld stefna að því að efla ítök Kína á alþjóðavettvangi og auka áhrif þess á heimsmálin í takt við aukna burði til slíkra hluta. Eitt markmið, skiljanlega, er að fella alþjóðamálin eins og kostur er að hagsmunum Kína og gildismati kínverskra stjórnvalda; og sveigja alþjóðlegar samskiptareglur (norm) og stofnanir eins og kostur er í átt til stuðnings við stefnu Kína og stjórnarfar þar. Það er auðvitað andstætt gildismati, stefnu og hagsmunum Bandaríkjanna sem mótuðu alþjóðakerfið eftir síðari heimsstyrjöld með stuðningi bandamanna og annarra vestrænna ríkja.

Í utanríkisstefnu Kína felst að koma á nýju valdajafnvægi í heiminum þannig að veiki stöðu Bandaríkjanna. Þau munu bregðast við rísandi veldi Kína með því að beita sér af vaxandi krafti í samkeppninni en jafnramt með því að fara fram á stuðning bandamanna og safna liði að öðru leyti á alþjóðavettvangi, þar á meðal í alþjóðasamtökum og stofnunum.

Þrátt fyrir að Kínverjar búi við kapítalískt hagkerfi að mörgu leyti byggir stjórnarfarið á nútímaútgáfu af Leninisma. Það einkennist því í grunninn af valdboðsstjórn sem hvílir á einræði kommúnistaflokksins og stefna stjórnvalda miðar ekki síst að því að tryggja völd hans og velgengni heima fyrir; sem og styðja og styrkja valdboðsstjórnir utanlands. Jafnframt er rík þjóðhernishyggja í stefnu Kína, meðal annars knúin af sögu landsins á 19. og 20. öld sem Kínverjar telja, með réttu að mestu leyti, niðurlægingartímabil í sögu Kína þegar sjálfstæði þess og fullveldi var virt að vettugi með ásælni, íhlutun og hernaði erlendra stórvelda; vesturvelda og Japans. 

Stjórnarfar og stefna Kína er um margt á skjön við þær grundvallarreglur, hugmyndafræði og gildismati sem Ísland aðhyllist sem lýðræðis og réttarríki.  Af þeim sökum mun Ísland, auk þess að vera NATO ríki, væntanlega hneigjast almennt til samstöðu með Bandaríkjunum og fylgiríkjum þeirra í samkeppninni við Kína. Jafnframt verður þess freistað, líkt og mörg önnur ríki munu gera, að gæta hagsmuna í samskiptum við Kína, einkum viðskiptahagsmuna á þeim stóra og eftirsóknarverða markaði. 

Íslensk stjórnvöld munu þurfa að meta hvernig megi hámarka svigrúm Íslands þannig að þjóni íslenskum hagsmunum gagnvart báðum stórveldunum. Það kann að reynast erfiður línudans á köflum. Vegna þess að líkur eru á að Ísland standi frekar með Bandaríkjunum en Kína, þarf væntanlega að forðast að eiga mjög mikið undir á Kínamarkaði og leggja því einnig ríka áherslu á viðskipti við önnur rísandi efnahagsveldi eins og Indland og fleiri aðra markaði í Asíu en þann kínverska. 

Þótt Ísland skipti mun minna máli en í kalda stríðinu og síðari heimsstyrjöld fyrir þjóðaröryggi Bandríkjanna fela fyrrnefnd ummæli Pence og Pompeo í Íslandsheimssóknunum í sér skýr merki stórveldasamkeppni sem snertir samskiptin við Ísland. Þetta á við tilhneigingu til að líta svo á að ávinningur keppinautarins, hversu lítill sem hann kann að sýnast, hljóti að skaða mann sjálfan og veikja í samkeppninni (þetta er svonefnt zero-sum einkenni). Jafnframt er sóst eftir hylli og stuðningi ríkja, stærri sem smærri, til að styrkja eigin stöðu og loks er reynt að grafa undan keppinautnum. Með yfirlýsingum Pence og Pompeo í Íslandsheimsóknunum virtist að verið væri með dæmigerðum hætti stórvelda að senda Kínverjum merki, skilaboð um að Ísland væri á áhrifasvæði Bandaríkjanna og þeir ekki velkomnir þar.

Ísland hefði hugsanlega verulegt svigrúm gagnvart Kína og Bandaríkjunum sakir vaxandi mikilvægis norðurslóða fyrir hagsmuni stórveldanna. Það er þó óvíst og einnig má gera ráð fyrir að eftir því sem samskipti Bandaríkjanna og Kína versnuðu og meira lægi undir á norðurslóðum mundi þrýstingur á Ísland aukast. Það ætti væntanlega einkum við Bandaríkin sem mundu að líkindum leggja ríka áherslu á að gæta áhrifasvæðis síns gegn kínverskri ásælni. 

Á móti kemur að mál munu að líkindum þróast hægt á norðurslóðum, einkum framan af. Jafnvel þótt spár um bráðnun hafíss á Norður-Íshafi rætist um miðja öldina er þess ekki að vænta að alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þeirra breytinga hefjist í alvöru fyrr en eftir 10-20 ár. Íslendingar fá því ráðrúm til að undirbúa stefnumótun vel, halda möguleikum opnum, reyna að hámarka svigrúm og hugsanlegan ávinning. 

Í næsta hluta þessarar greinar um Ísland og umheiminn 2020-2050 verður fjallað um afleiðingar þess að hafísinn hörfaði svo að stefndi í að Norður-Íshaf opnaðist og Evró-Atlantshafssvæðið og Asíu-Kyrrahafssvæðið tengdust um norðurslóðir. Hver yrðu áhrif þessa á samskipti stórvelda á norðurslóðum og á siglingaleiðir og fiskveiðar? Mætti búast við aukinni hervæðingu og stórveldaspennu á svæðinu? Miklum efnahagslegum ávinningi Íslands vegna siglinga? Hver yrði staða Íslands?

Greinin tengist meðal annarra eftirfarandi greinum á vefsíðunni:

Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands https://albert-jonsson.com/2020/05/28/herskipaleidangur-i-barentshaf-breytt-stada-islands/

Áhrif Covid-19 faraldursins á alþjóðavettvangi https://albert-jonsson.com/2020/05/24/ahrif-covid-19-faraldursins-a-althjodavettvangi/

Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum? https://albert-jonsson.com/2020/01/29/er-aukin-samkeppni-milli-storvelda-a-nordurslodum/

Ísland og Bandaríkin – og norðurslóðir – og Kína! https://albert-jonsson.com/2019/10/10/island-og-bandarikin-og-nordurslodir-og-kina/

Á NATO framtíð fyrir sér eftir sjötugt? https://albert-jonsson.com/2019/04/03/a-nato-framtid-fyrir-ser-eftir-sjotugt/

Norðurslóðastefna Bandaríkjahers í mótun – Flotaforingi heimsækir Ísland

Yfirmaður Bandaríkjaflota í Evrópu var á Íslandi 30. október síðastliðinn. Í samtali við fréttamenn kom fram hjá honum að áhugi væri hjá flotanum að fá aukna þjónustu fyrir herskip í höfnum á Íslandi.

Áhugi á aðstöðu fyrir Bandaríkjaflota í höfnum á Íslandi – og einnig Grænlandi, Færeyjum og norður-Noregi – virðist vera einn þáttur af mörgum í norðurslóðastefnu sem er í mótun hjá bandaríska landvarnarráðuneytinu og deildum Bandaríkjahers. Stefnunni er beint gegn bæði Rússlandi og Kína og í henni er horft langt í norður og langt fram í tímann. Lykilforsenda lýtur að bráðnun hafíss vegna hlýnunar Jarðar og auknu aðgengi að svæðinu hennar vegna.

Einnig viðraði flotaforinginn við fréttamenn hugmynd um að sveit kafbátaleitarflugvéla yrði staðsett á Keflavíkurflugvelli. Það vekur undrun því mjög fáir rússneskir kafbátar hafa komið á hafsvæði í nágrenni Íslands á undanförnum árum. Nánar tiltekið einn á ári að meðaltali. Í kjölfar fréttamannafundar flotaforingjans sögðu reyndar hann og bandaríska sendiráðið að hugmyndir hans hefðu verið vangaveltur og jafnframt að þær hefðu ekki verið ræddar við íslensk stjórnvöld.

Flotaforinginn var Robert P. Burke, aðmíráll, sem í sumar tók við stöðu yfirmanns Bandaríkjaflota í Evrópu. Hingað kom hann frá Kaupmannahöfn og frá Þórshöfn í Færeyjum þar sem hann fór fram á að bandarísk herskip gætu fengið þjónustu í höfnum í Færeyjum og á Grænlandi svo sem til að taka eldsneyti og fá viðgerðir. 

Hvað varðar óskir um aukna þjónustu og aðstöðu í höfnum á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi þá virðist það ríma við norðurslóðastefnu sem Bandaríkjaher er að móta. Um hana verður fjallað meðal annars hér á vefsíðunni i tveimur greinum á næstunni undir heitinu Ísland og umheimurinn 2020-2050.

Að baki norðurslóðastefnu Bandaríkjahers er aðallega tvennt. 

Annars vegar að styrkja fælingarstefnu gegn Rússlandi bæði vegna varna Norður-Ameríku og Evrópu. Þáttur í því að halda Rússum í skefjum í Evrópu er að sýna fram á í fælingarskyni að kæmi til átaka yrði ráðist gegn Norðurflota Rússa á norðanverðu Noregshafi og Barentshafi og gegn stöðvum hans í norðvestur Rússlandi. Annað og sérstakt mál, sem flotaforinginn nefndi við íslensku fréttamennina, er deila við Rússland um rétt annarra ríkja til siglinga á norðurleiðinni svonefndu, það er siglingaleið úti fyrir norðurströnd Rússlands milli Atlantshafs og Kyrrahafs. 

Hins vegar snýst norðurslóðastefnan um að halda Kína í skefjum á svæðinu og sýna að vilji og staðfesta sé bak við þá ætlan. 

Bráðnun hafíss sem búist er við á næstu árum og áratugum vegna hlýnunar Jarðar er lykilforsenda í stefnunni vegna aukins aðgengis að norðurslóðum. Mest breyting yrði ef Norður-Íshaf opnaðist og þar með siglingaleið þvert yfir Norðurheimsskaut. Það er talið hugsanlegt en ekki fyrr en um og upp úr miðri öldinni. 

Umsvif Bandaríkjahers á norðurslóðum – einkum flughers og flota – hafa aukist nokkuð á undanförnum árum, einkum á Barentshafi. Það á einnig við bandamenn í NATO. Umsvifin eru þó ekki mikil ennþá hvað varðar ferðir herskipa og flugvéla og eru að mestu á afmörkuðu svæði – norðanverðu Noregshafi og Barentshafi. Skiljanlega er ekki vitað jafn mikið um ferðir kafbáta frá NATO ríkjum. Þó er vitað að bandarískir kafbátar hafa á undanförum árum haft mun oftar en áður viðkomu í norður-Noregi til að fá þjónustu og vegna áhafnaskipta. 

Bandaríkjafloti er vanbúinn hvað skipakost varðar til að starfa allt árið á svæðinu. Til þess skortir ísbrjóta og herskip styrkt til siglinga í hafís. Áætlun er uppi um að smíða ísbrjóta en hún er ekki komin á framkvæmdastig og smíði styrktra herskipa er heldur ekki hafin. Það eru því mörg ár í mikil umsvif Bandaríkjaflota á norðurslóðum, að minnsta kosti ofansjávar.

Í forsendum þeirrar stefnu sem er í mótun hjá Bandaríkjaher um norðurslóðir kemur fram að litið sé á þær sem mögulegan vettvang fyrir vaxandi stórveldasamkeppni og yfirgangssemi (“potential avenue for expanded great power competition and aggression”). Fram kemur að auk þess að norðurslóðir tengist áfram náið vörnum Norður-Ameríku (sem þær hafa gert í áratugi) tengi þær Asíu-Kyrrahaf og Evró-Atlantshaf, svæði sem gegni lykilhlutverki í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Tryggja þurfi að aðgang að norðurslóðum svo þaðan megi styðja við Bandaríkjaher eftir þörfum á lykilsvæðum. Takmarka þurfi getu Kína og Rússlands til að nýta norðurslóðir til að styðja við strategísk markmið þeirra með fjandsamlegum aðgerðum (“limiting the ability of China and Russia to leverage the region as a corridor for competition that advances their strategic objectives through malign or coercive behavior.”) þar á meðal með því að hefta frelsi Bandaríkjanna til siglinga og yfirflugs á norðurslóðum Ennfremur séu áfram líkur á að krísur eða átök í öðrum heimshlutum leiði til átaka á norðurslóðum (Report to Congress, Department of Defense Arctic Strategy, júní 2019, bls. 5.)

Hvað Ísland varðar kom fram í maí s.l. á þessari vefsíðu að “Ísland gegnir áfram almennu hlutverki varðandi liðsflutninga í lofti til Evrópu og stuðning við sókn NATO norður fyrir GIUK-hliðið og upp Noregshaf í hugsanlegum átökum á norðurslóðum, en þungamiðja aðgerða yrði langt fyrir norðan landið…Viðbúnaður á Íslandi yrði miklu minni á hættutíma eða í átökum, en gert var ráð fyrir í kalda stríðinu. Það sést meðal annars af forsendum í áætlunum bandaríska flughersins um viðhald og endurnýjun flughlaða á Keflavíkurflugvelli.” (Vefsíða um alþjóðamál, 28. maí 2020: Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands.)  Einnig hefur verið bent á að “Sem fyrr mundu eftirlits- og kafbátaleitarflugvélar frá Íslandi – sem og eldsneytisflutningaflugvélar – að líkindum styðja við hernaðaraðgerðir NATO í norðurhöfum í hugsanlegum átökum þó þau færu aðallega fram langt fyrir norðan landið” (Vefsíða um alþjóðamál, 29. janúar 2020: Er aukin samkeppni milli stórvelda á norðurslóðum?)

Einn rússneskur kafbátur á ári – þarf kafbátaleitarflugsveit á Keflavíkurflugvelli?

Í samtali sínu við íslenska fréttamenn viðraði Burke möguleika á að staðsetja kafbátaleitarflugsveit á Íslandi, en henni mundu fylgja „hundruð manna, byggingaframkvæmdir og húsnæði.“„Við höfum rætt þetta sem möguleika og þetta er eitthvað til að skoða betur,“ sagði Burke samkvæmt frétt á visir.is

Í símtali við fréttamann Vísis nokkrum klukkustundum síðar óskaði Burke reyndar eftir, eins og vefmiðillinn lýsti orðaði það, að undirstrika að hugmyndirnar sem hann lýsti væru vangaveltur og jafnframt kom fram að þær hefðu ekki verið ræddar við íslensk stjórnvöld. Það var ítrekað í yfirlýsingu frá sendiráðinu sem send var vefmiðlinum.

Burtséð frá því hvernig á málinu var haldið vekur undrun að hugmynd komi upp um að sveit kafbátaleitarflugvéla verði mögulega staðsett á Íslandi. Meðal annars og einfaldlega vegna þess hve fáir rússneskir kafbátar koma út á Norður Atlantshaf. Bandaríkjafloti hefur nú þegar þá aðstöðu sem þarf til að kafbátaleitarflugvélar geti áfram haft svipaða tímabundna og takmarkaða viðveru og þær hafa haft. 

Daginn sem Burke flotaforingi hitti íslenska fréttamenn var reyndar verið að veita kafbáti eftirför frá Keflavíkurflugvelli. En það var í fyrsta sinn á árinu frá byrjun janúar. Sá kafbátur var þá á heimleið til Kolaskaga í norðvestur Rússlandi sunnan úr Atlantshafi. Honum hafði verið veitt eftirför frá Keflavíkurflugvelli í október-nóvember í fyrra þegar báturinn fór suður í haf um svæði við Ísland. Þetta virðist hafa verið eini rússneski kafbáturinn sem kom út á Atlantshaf í námunda við Ísland á árinu 2019. Um eftirförina var fjallað ítarlega í pistli um stórveldin á norðurslóðum á þessari vefsíðu 29. janúar síðastliðinn.

Einn kafbátur virðist hafa komið á svæði við landið á árinu 2014 og sömu sögu er að segja um 2017, 2018, 2019 og nú. Samkvæmt því hafa einungis 5 rússneskir kafbátar komið út á Atlantshaf á svæði í nágrenni Íslands frá því að slíkar ferðir hófust að nýju fyrir sex árum eftir langt hlé.

Fremur auðvelt er að átta sig á hvenær kafbátum er veitt eftirför frá Keflavíkurflugvelli. Til hennar þarf hóp leitarflugvéla til að halda uppi eftirlits og leitarflugi allan sólarhringinn. Þegar 3-5 flugvélar, eða fleiri, eru á Íslandi í einu er eftirför í gangi. Eftirförin nú hefur einnig náð til kafbátleitarflugvéla breska flughersins á Lossiemouth á Skotlandi og ennfremur hafa bandarískar flugvélar flogið frá Lajes á Asor eyjum sem gefur til kynna að kafbáturinn sé kominn áleiðis suður í haf. Ekki verður fullyrt auðvitað um hvort fleiri en einn kafbátur sé á ferð en væri það raunin má ætla að enn fleiri kafbátleitarflugvélar væru að störfum.

Auk þess að fylgjast með fjölda kafbátaleitarflugvéla á Keflavíkurflugvelli er það gjarnan svo að þegar þær eru að störfum kemur það gjarnan fram á twitter síðunni Mil Radar sem áhugamenn um herflug halda úti, þó ekki séu allar slíkar flugferðir skráðar. Upplýsingar um eftirförina undanfarna daga frá Keflavíkurflugvelli, frá Lossiemouth herflugvellinum á Skotlandi og frá Lajes flugvellinun á Azor eyjum má sjá hér og með því að “skrolla niður”: https://twitter.com/MIL_Radar

Hluti af skýringunni á því hve fáir rússneskir kafbátar hafa verið á ferðinni er að kafbátar af því tagi sem koma út á Atlantshaf eru fáir í Norðurflota Rússlands og fer fækkandi. Útlit er fyrir að um 2030 verði þeir jafnvel innan við tíu. Vegna viðhalds og þjálfunar er einungis helmingurinn á hafi úti hverju sinni. 

Forgangsverkefni Norðurflotans er ekki á Norður Atlantshafi, heldur að verja eldflaugakafbáta hans sem eru hryggjarstykki í kjarnorkuher Rússlands. Eldflaugakafbátunum er haldið úti í Barentshafi og Norðurflotinn er að mestu þar en stundum einnig í norðanverðu Noregshafi. Til þessara staða er styst að fljúga frá norður Noregi til að leita að kafbátum enda er það gert eftir þörfum frá flugvellinum í Andöya af hálfu bæði bandarískra og norskra kafbátaleitarflugvéla

Af öllu þessum ástæðum er vandséð hvaða tilgang það hefði að staðsetja kafbátaleitarflugsveit á Keflavíkurflugvelli umfram og vægast sagt erfitt að ímynda sér með hvaða rökum flotinn mundi réttlæta mikinn kostnað þess vegna.

Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands

Hinn 4. maí síðastliðinn sigldu þrír bandarískir tundurspillar og bresk freigáta ásamt birgðaskipi úr Bandaríkjaflota inn á Barentshaf. Bandarísk herskip höfðu ekki komið þangað frá því um miðjan níunda áratuginn. Þann 1. maí höfðu bandarísku og bresku skipin æft gagnkafbátahernað í norður Noregshafi vestur af Tromsö ásamt bandarískri eftirlits og kabátaleitarflugvél og bandarískum kafbáti.

Yfirlýst markmið með leiðangrinum í Barentshaf var að sýna áhuga Bandaríkjanna og Bretlands á norðurslóðum, undirstrika frelsi til siglinga þar, sýna flaggið eins og sagt er, sem og að æfa og þjálfa við aðstæður í norðri. Skipin sigldu til baka úr Barentshafi 8. maí.

Leiðangurinn felur í sér enn eina vísbendingu á undanförnum árum um hvernig hernaðarleg þungamiðja á Atlantshafi færist miklu norðar en áður. Jafnframt breytist hernaðarleg staða Íslands og hlutverk, þar á meðal varðandi eftirlit og kafbátaleit með flugvélum. Eftirliti yfir norður Noregshafi og Barentshafi verður einkum sinnt frá norður Noregi en einnig virðist Skotland hafa hlutverki að gegna.

Vægi Íslands og GIUK-hliðsins svonefnda (hafsvæðin milli Grænlands, Íslands, Færeyja, og Bretlands) minnkar vegna tveggja stórra áhrifaþátta, sem færa þungamiðjuna norðar. Í fyrsta lagi er Norðurfloti Rússlands of lítill til að ógna hagsmunum NATO á úthafinu. Engar líkur eru á að það breytist. Þvert á móti. Norðurflotinn kemur lítið út á Atlantshaf, enda verður hann að beina takmörkuðum styrk að því að sinna forgangsverkefninu, sem er að verja mikilvægan hluta kjarnorkuherstyrks Rússlands í kabátum i Barentshafi. Í öðru lagi hafa komið til sögu hjá Norðurflotanum langdræg vopn sem annars vegar valda því að hann þarf miklu síður að sækja út á Atlantshaf og hins vegar því að þýðing Barentshafs og norður Noregshafs eykst verulega fyrir NATO (um þetta var ítarlega fjallað hér á vefsíðunni í pistli 29. janúar 2020).

Þrátt fyrir lok kalda stríðsins og fall Sovétríkjanna 1991 héldu Rússar áfram úti í Barentshafi kafbátum búnum langdrægum eldflaugum sem bera kjarnaodda. Það lýtur að grundvallarhagsmunum Rússlands. Af þeim sökum eru varnir Barentshafs forgangshlutverk Norðurflotans rússneska sem hefur bækistöðvar á Kolaskaga.

Í kalda stríðinu miðaði sovéski Norðurflotinn við að í stríði yrðu framvarnir úti á Norður Atlantshafi við GIUK-hliðið svonefnda milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands. Nú hefur rússneski Norðurflotinn takmarkaða burði til þess enda miklu minni en sovéski forverinn.

Norðurflotinn kemur því í litlum mæli út á Atlantshaf. Kafbátar hans hafa verið þar í aðeins örfá skipti á undanförnum árum. Ofansjávarflotinn er ekki úthafsfloti nema að litlu leyti. Í honum eru aðallega skip af smærri gerðum til verndar heimahöfum. Af þessum sökum má ætla að Norðurflotinn geri fremur ráð fyrir framvörnum Barentshafs í norðanverðu Noregshafi en við GIUK-hliðið. Til marks um það er að í ágúst 2019 æfði hann á því svæði vestur af Tromsö. Þá fór stærsta kafbátaæfing hans í mörg ár fram á svipuðum slóðum í október-nóvember það ár og reyndar einnig enn norðar í “hliði” milli Bjarnareyjar og norður Noregs. Bresk-bandaríska æfingin 1. maí, sem fyrr var getið, var einmitt haldin í norður Noregshafi vestur af Tromsö. 

Annað sem veldur því að hernaðarleg þungamiðja færist langt norður fyrir Ísland og GIUK hliðið er að Norðurflotinn er að byrja að taka í notkun langdrægar stýriflaugar af svonefndri Kalibr gerð í herskipum og kafbátum. Það mun auka verulega hernaðarþýðingu norðurslóða, gefa þeim nýtt og stóraukið hlutverk varðandi hernaðarjafnvægið í Evrópu. Það ræðst af því að nýju flaugarnar geta náð til skotmarka á meginlandinu frá skipum og kafbátum í norðanverðu Noregshafi og Barentshafi. Það hefði mikla hernaðarlega þýðingu færi svo ólíklega að til átaka kæmi milli NATO og Rússlands. Jafnframt eykst mikilvægi þessara svæða fyrir NATO sem þyrfti í átökum enn frekar en áður að geta sótt inn á þau til þess meðal annars að ná til herskipa og kafbáta sem bæru stýriflaugarnar.

Í pistli á þessari vefsíðu í janúar síðastliðnum var meðal annars fjallað um framangreinda þróun alla. Þar kom fram að hennar vegna “…yrði floti Bandaríkjanna og flotar annarra NATO ríkja að búa sig undir að geta barist enn lengra í norðri en áður til að koma í veg fyrir ógn frá hinum nýju flaugum Norðurflotans.  Eftir því sem sækja þyrfti lengra inn á meginathafnasvæði hans og heimahöf ykist auðvitað áskorun og áhætta NATO flotans. Geta flota NATO ríkjanna til að berjast við Norðurflotann langt norður í höfum yrði að vera sýnileg og trúverðug til að styrkja fælingarstefnu NATO gagnvart Rússlandi.” Ályktunin var að “Samkvæmt því má búast við auknum umsvifum og æfingum herja NATO ríkja á norðurslóðum.”  Herskipaleiðangurinn í Barentshaf styður þá ályktun.

Ísland gegnir áfram almennu hlutverki varðandi liðsflutninga í lofti til Evrópu og stuðning við sókn NATO norður fyrir GIUK-hliðið og upp Noregshaf í hugsanlegum átökum á norðurslóðum, en þungamiðja aðgerða yrði langt fyrir norðan landið af fyrrnefndum ástæðum. Viðbúnaður á Íslandi yrði miklu minni á hættutíma eða í átökum, en gert var ráð fyrir í kalda stríðinu. Það sést meðal annars af forsendum í áætlunum bandaríska flughersins um viðhald og endurnýjun flughlaða á Keflavíkurflugvelli.

Það er áhugavert frá íslensku sjónarhorni að flugvélar frá Keflavíkurflugvelli tóku hvorki þátt í æfingunni í norður Noregshafi né leiðangrinum í Barentshaf, heldur að því er virðist flugvélar frá stöðvum á Bretlandi og í Noregi (reyndar hafa bandarískar eftirlits og kafbátaleitarflugvélar ekki verið á Keflavikurflugvelli á þessu ári frá því í fyrrihluta janúar).

Þann 4. maí flaug bandarísk kafbátaleitarflugvél af gerðinni P-8 til Barentshafs frá herstöð við Mildenhall á Bretlandi. Það er eina staðfesta ferð bandarískrar kafbátaleitarflugvélar til Barentshafs á þeim tíma, sem bresk-bandarísku herskipin voru á ferðinni (Mil Radar, 1. maí, 2020 – https://twitter.com/MIL_Radar/status/1256295563198435334) Þó má telja víst að slíkar flugvélar hafi verið með í för allan tímann eða því sem næst, ýmist frá Bretlandi eða norður Noregi.

Það kemur ekki á óvart að Keflavíkurflugvöllur hafi ekki verið notaður, enda sést þegar horft er á landakortið að Ísland er bæði sunnarlega og vestarlega miðað við norður Noregshaf og enn vestar miðað við Barentshaf. En fleira kemur til.

Bretar eru að byrja að taka í notkun sveit P-8 eftirlits og kafbátaleitarflugvéla sem verður staðsett í herstöð breska flughersins við Lossiemouth í Skotlandi og þar verða sérstaklega byggð flugskýli og öll nauðsynlega aðstaða að öðru leyti fyrir starfsemi og viðhald P-8 flugvéla. Bandarískar P-8 flugvélar nota Lossiemouth og virðast yfirleitt koma þangað frá Sigonella á Sikiley, þar sem um áratuga skeið hefur verið bækistöð bandarískra kafbátaleitarflugvéla og síðasta áratuginn sú eina í Evrópu. Bandarísku vélarnar hafa tímabundna viðveru í Lossiemouth meðan þær fljúga þaðan í eftirlitsferðir og til æfinga, og halda svo aftur til Sigonella. Nú er verið að endurnýja flugbrautir í Lossiemouth og líklegt að þess vegna hafi Mildenhall stöðin verið notuð, en ekki Lossiemouth, vegna bresk-bandarísku æfingarinnar í Noregshafi og leiðangursins í Barentshaf.

Samningur hefur verið gerður milli Breta og Bandaríkjamanna um samstarf í Lossiemouth og varðandi eftirlit á Norður Atlantshafi. Einnig hefur verið gerður samningur milli þessara aðila og norska hersins um samstarf við eftirlit, en Norðmenn eru líkt og Bretar að kaupa P-8 þotur. Þær verða staðsettar á herflugvelli við Evenes frá og með 2021 og þar verður aðstaða fyrir vélar af þessu tagi líkt og í Lossiemouth. Samstarfssamningarnir fela í sér að P-8 flugvélar þessara þriggja ríkja geta nýtt aðstöðu sem komið hefur verið upp fyrir P-8 flugvélar í Lossiemouth stöðinni, í Evenes stöðinni og á Keflavíkurflugvelli.

Evenes er skammt fyrir sunnan flugvöllinn í Andoya sem bandarískar kafbátaleitarflugvélar hafa notað tímabundið á undanförnum árum og þar hafa slíkar flugvélar norska hersins einnig verið staðsettar. Gera má ráð fyrir að Bandaríkjafloti muni í framtíðinni nota Evenes fyrir P-8 flugvélar eftir þörfum líkt og í Lossiemouth. Þá er þess að vænta eftir að norski herinn tekur P-8 vélar í notkun á árinu 2021 að hann sinni miklu af eftirliti NATO ríkja í norðurhöfum.

Það er álíka löng leið í lofti frá Íslandi og frá Skotlandi til norður Noregshafs og Barentshafs. Frá Andoya er auðvitað miklu styttra til þessara svæða en frá Íslandi eða Skotlandi og sama á við Evenes þegar aðstaðan þar verður tekin í notkun.

Af þessum ástæðum öllum er líklegt og eðlilegt að bandarískar kafbátaleitarflugvélar noti yfirleitt Evenes, og stundum Lossiemouth, vegna eftirlits á hafinu á norðurslóðum fremur en Keflavíkurflugvöll. Flugvélar frá honum komi til leiks ef rússneskir kafbátar eða herskip koma suður og vestur í Atlantshaf. Þannig hefur það verið í þau fáu skipti á undanförnum árum þegar rússneskir kafbátar hafa farið út á Atlantshaf. Þá hafa bandarískar kafbátaleitarflugvélar hafið eftirför frá Andoya og flutt sig til Keflavíkurflugvallar þegar kafbátarnir hafa haldið sunnar og inn á svæði við Ísland.

Þegar bandarísku og bresku herskipin stefndu inn í Barentshaf í byrjun maí hóf rússneski Norðurflotinn að fylgjast með þeim, fyrst með eftirlits og kafbátaleitarflugvélum af gerðinni Tu-142 sem flugu út á Noregshaf. Rússum var tilkynnt um gagnkafbáaæfinguna 1. maí og siglingu skipanna inn í Barentshaf og rússneski herinn fylgdi þeim að eigin sögn eftir í Barentshafi.

Bandaríkjamenn sendu eina njósna- (reconnaisance)fugvél af gerðinni RC-135 frá Mildenhall herstöðinni til Barentshafs 4. maí og breski herinn sendi þangað samskonar flugvél, sem þeir nefna Sentinel, hinn 5. maí frá herstöð við Waddington. Þessar tvær ferðir eru staðfestar (Mil Radar, 4. maí 2020 – https://twitter.com/MIL_Radar/status/125741935974983680 og 5. maí, 2020 – https://twitter.com/MIL_Radar/status/1257763673629700099) en afar líklegt er að fleirir njósnaferðir hafi verið farnar. Þegar bresk-bandaríska flotadeildin sigldi inn á Barentshaf brugðust Rússar auðvitað við eins og fyrr sagði. Það felur í sér ferðir rússneskra herskipa, kafbáta og flugvéla, sem hefur í för með sér mikið af fjarskiptum af margskonar tagi. Könnunarflugvélar eins og RC-135 og Sentinel eru meðal annars sérstaklega gerðar til að fylgjast með slíkum viðbrögðum og greina þau. Ekki er ólíklegt að einn tilgangur með leiðangrinum inn í Barentshaf hafi einmitt verið að fá tækifæri til þeirra hluta.

Greinin tengist eftirfarandi fyrri pistlum á vefsíðunni:

Er aukin samkeppni stórvelda á norðurslóðum? – 29. janúar 2020.

Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland – 2, apríl 2019.

Bandaríski flugherinn hyggur á framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir tæpa sjö milljarða króna – 13. mars 2019.

Heræfingin Trident Juncture 2018 og hernaðarleg þýðing norðurslóða – 14.október 2018.

Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma – 4. mars 2018.

Heimildir

Áhrif Covid-19 faraldursins á alþjóðavettvangi

Covid-19 faraldurinn hefur varpað ljósi á ýmis alþjóðamál. Hann staðfestir að í alþjóðakerfinu hafa einungis ríki þess í senn skýra skyldu til að sinna grundvallarþörfum fólks fyrir velferð og öryggi sem og einstaka getu til þeirra hluta. Jafnframt er óvissa um hvort tekst að bæta samvinnu um alþjóðlegar sóttvarnir, en einkum á vettvangi alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Hún hefur áður beðið hnekki vegna slælegra viðbragða við faröldrum en nú dragast mistök hennar inn í harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína.

Efnahagslegar afleiðingar faraldursins valda því að veikleikar Parísarsamningsins frá 2015 um loftslagsmál eru enn ljósari en áður. Kórónuveiran hefur hægt á hagkerfi heimsins og þannig haft í för með sér minni orkunotkun, sem í kjölfarið hefur leitt til minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Afleiðingin er mikill efnahagssamdráttur, sem gefur skýra vísbendingu um hvað það mundi kosta án nýrra orkugjafa að ná markmiðum Parísarsamningsins.

Faraldurinn hefur veikt Evrópusambandið af því hann bæði varpar ljósi á og eykur á innri vandamál, sem ESB er ekki í stakk búið til að leysa. Hann undirstrikar að ESB er í erfiðri klemmu svo lengi sem það þróast ekki til sambandsríkis.

Covid-19 hefur ekki áhrif á grundvallaratriði í samkeppni Bandaríkjanna og Kína. Hún var til staðar löngu áður en faraldurinn kom upp. Hreyfiafl hennar lýtur að stærri þáttum en svo að faraldurinn breyti miklu.

Efnisyfirlit:    Mikilvægi ríkjanna í alþjóðakerfinu; – Kórónuveiran, efnahagssamdrátturinn af hennar völdum og vandi loftslagsmálanna; – Faraldurinn staðfestir alvarlega veikleika Evrópusambandsins – Þeir knýja á um sambandsríki, sem er ekki í sjónmáli; – Harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína er að mestu óháð faraldrinum.

Að svo komnu máli virðist Covid-19 faraldurinn hafa breytt alþjóðamálum minna en ætla mætti í ljósi þess hve alvarlegar og fordæmalausar aðstæður hann hefur skapað í mörgum ríkjum. Hann virðist einkum hafa þau áhrif að varpa ljósi á ýmis mikilvægar hliðar mála fremur en að breyta þeim í meginatriðum. Hér verður auðvitað að slá mikilvægan fyrirvara sem lýtur að því hve lengi faraldurinn kann að vara og hve alvarlegur efnahagssamdrátturinn hans vegna verður.

Miklar hraðar breytingar í alþjóðastjórnmálum eru sjaldgæfar í sögunni og kórónufaraldurinn breytir því ekki. Til róttækra breytinga hefur yfirleitt þurft stórstyrjaldir, sem breyta strúktúr alþjóðakerfisins í grundvallaratriðum, það er uppbyggingu þess, fjölda stórvelda í því og valdreifingu.

Styrjöld leiddi reyndar ekki til falls Sovétríkjanna, heldur ytri og innri veikleikar, þar á meðal af völdum þjóðernishyggju í sovétlýðveldunum. En fall þessa stórveldis gerbreytti strúktúr alþjóðakerfisins og þar með heimsmálunum. Þá er Kína rísandi stórveldi, sem hefur þegar valdið miklum breytingum á strúktúr alþjóðakerfisins, sem stafa þó enn sem komið er að minnsta kosti einkum af efnhagslegum uppgangi Kína.

Löngu áður en faraldurinn kom til hafði alþjóðavæðing náð nýjum hæðum í veröldinni, aðallega af tæknilegum ástæðum, sem lutu að samgöngum, tölvutækni og fjarskiptum. Þessir þættir eru auðvitað áfram til staðar, en einnig væntanlega hvati til að viðhalda og auka alþjóðavæðingu. Hún hefur á undanförnum áratugum haft rík jákvæð áhrif á hagvöxt, lífskjör og velferð í heiminum. Að svo komnu virðist ekki ástæða til að ætla að kórónuveirufaraldurinn veiki alþjóðavæðinguna í grundvallaratriðum.

 

Mikilvægi ríkjanna í alþjóðakerfinu – óviss samvinna um sóttvarnir

Þótt kórónuveiran virði ekki landamæri hefur faraldurinn hnykkt á þýðingu hins fullvalda ríkis (sovereign state) í alþjóðakerfinu. Faraldurinn hefur staðfest að þrátt fyrir alþjóðavæðingu og alþjóðastofnanir eru ríkin einu aðilarnir á alþjóðavettvangi sem hafa skýra skyldu til að sinna grundvallarþörfum fólks fyrir velferð og öryggi. Enda eru það ríki en ekki alþjóðastofnanir, sem fólk horfir til um hjálp þegar hætta steðjar að og ríkin hafa jafnframt einstaka lögformlega stöðu og einstakt afl til þess að verja fólk. Undantekning að vissu marki laut að aðgerðum Seðlabanka Evrópu gegn efnahagslegum afleiðingum faraldursins eins og fjallað er um síðar í pistlinum.

Þrátt fyrir brokkgeng viðbrögð flestra ríkisstjórna framan af við Covid-19 tóku þær við sér þegar syrti í álinn. Þá nýttu þær formlega stöðu sína, fullveldisrétt, landamæri og aðrar bjargir til að mæta faraldrinum og draga úr honum.

Þótt ríki hafi verið í lykilhlutverki varðandi viðbrögð við Covid-19 kalla farsóttir og hætta á þeim eðli máls samkvæmt á nána alþjóðlega samvinnu og skilvirkar alþjóðastofnanir ef tryggja á skjót og samræmd viðbrögð. Faraldurinn varpaði ljósi á alvarlega veikleika í þessu efni. Þeir munu væntanlega leiða til kröfu í kjölfarið um úrbætur. Alþjóðlegar sóttvarnir svara augljósri sameiginlegri þörf – svipað og alþjóðasamstarf um flugumferðarstjórn og veðurfræði til dæmis – sem fyrst og fremst eru tæknileg mál (functional) sem má og á að leysa utan við pólitík og deilur enda hafi öll ríki sömu þörf fyrir samstarfið og sama ávinning af því. Hvort þannig tekst að bæta samstarf um sóttvarnir á heimsvísu er þó óvíst meðal annars vegna þessa að faraldurinn dróst inn í harðnandi samkeppni milli Kína og Bandaríkjanna eins og geint er nánar frá síðar í pistlinum.

Ennfremur há ýmsir veikleikar alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, þar á meðal pólitískir. Hún hlaut harða gagnrýni fyrir slök viðbrögð við Ebola faraldrinum í Vestur-Afríku 2014 og stóð sig einnig slælega framan af Ebola faraldri í Alþýðulýðveldinu Congo 2019. Í báðum tilvikum virðist stofnunin hafa látið undan pólitískum þrýstingi ríkisstjórna sem töldu sig hafa hag af því að gera lítið úr hættunni eða fela hana.

Sama átti við vikum saman þegar Covid-19 faraldurinn var að ná sér á strik í mörgum ríkjum auk þess að stofnunin gekk vitandi eða óafvitandi á sama tíma erinda kínverskra stjórnvalda sem reyndu að fela faraldurinn eftir að að hann var hafinn í Kína. Kínversk stjórnvöld reyndu einnig að fela raunverulega útbreiðslu SARS veirunnar 2003, en fengu fyrir harða gagnrýni þáverandi forstjóra WHO (Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs). Nú er hugsanlegt að stofnunin hafi veikst varanlega vegna framkomu hennar og kínverskra stjórnvalda á fyrstu vikum Covid-19 faraldursins.

Fljótlega eftir að faraldurinn hafði náð sér á strik kom krafa frá fjölda ríkja um að starfshættir alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar yrðu endurskoðaðir og viðbrögð hennar við Covid-19 rannsökuð. Hinn 18 maí samþykktu aðild­ar­ríkin að hefja “hlutlæga, óháða og heildstæða” rann­sókn á “alþjóðlegum viðbrögðum” við kór­ónu­veirufaraldrin­um, þar á meðal á viðbrögðum stofnunarinnar. Hvernig tekst til með rannsóknina kann að skipta miklu máli fyrir fyrir möguleika á alþjóðlegri samvinnu um sóttvarnir.

 

Kórónuveiran, efnahagssamdrátturinn af hennar völdum og vandi loftslagsmálanna

Gróðurhúsalofttegundir virða ekki landamæri fremur en kórónuveiran. Gróðurhúsaáhrifin eru hins vegar þess eðlis að ólikt veðurfræðum, flugumferðarstjórn, og sóttvörnum er þess ekki kostur að gera gróðurhúsaáhrifin fyrst og fremst að tæknilegu viðfangsefni, sem í aðalatriðum megi halda utan við ólíka hagsmuni ríkja og pólitískar deilur. Þvert á móti eru loftslagsmálin hápólitísk sakir þess að þau snerta mikla og ólíka hagsmuni ríkja og ríkjahópa og þess hve náið þau tengjast hagvexti og lífskjörum. Faraldurinn varpar skýru ljósi á það.

Líkt og gert er í fyrri pistlum um loftslagsmál á vefsíðunni skal tekið fram hér að höfundur hefur ekki þekkingu til að fjalla um vísindalega hlið mála. Þess í stað byggir umfjöllunin á pólitísku en einkum alþjóðapólitísku sjónarhorni. Til grundvallar er lögð sú stefna sem mótuð hefur verið á alþjóðavettvangi um að Jörðin hlýni af mannavöldum og að gera verði ráðstafanir til að takmarka hlýnunina. Stefna þessi birtist í Parísarsamningnum frá 2015 um loftslagsmál og sameiginlegu markmiði í honum um að halda hlýnun Jarðar innan við 2 gráður, helst við 1.5 gráður.

Í kjölfar Parísarsamningsins hefur loftslagsnefnd Sameinðu þjóðanna gefið út að setja verði markið ákveðið við 1.5 gráður og að stórlega verði þegar á næstu árum að herða róðurinn við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Enn er unnið að því að koma Parísarsamningnum á framkvæmdastig en takmarkaður árangur orðið að svo komnu í viðræðum um lykilatriði sem varða það.

Vandi samninga um aðgerðir í loftslagsmálum lýtur í hnotskurn að því að losun gróðurhúsalofttegunda sem hefur áhrif á hlýnun Jarðar ræðst af orkubúskap mannkynsins. Hann byggir aðallega á jarðefnaeldsneyti, það er olíu, kolum og jarðgasi. Það yrði afar dýrt að minnka verulega notkun þessara orkugjafa til að draga svo úr losun að markmiðum Parísarsamningsins yrði náð. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna telur enda að það kalli á „fordæmalausar breytingar“ á samfélögum ríkja heims að halda hlýnun við 1.5 gráður.

Orkugjafar frá jarðefnaeldsneyti mæta um 80 prósentum af heildarorkuþörf mannkynsins. Hlutfallið hefur haldist að mestu óbreytt í um fjóra ártugi og er talið geta lækkað einungis um nokkkur prósent – í um 75 prósent á næstu 20 árum.  Því er ljóst að það að minnka verulega notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda í kjölfarið leiðir að óbreyttu til skertra lífskjara í heiminum sem og til skertra möguleika á betri lífskjörum í framtíðinni. Hér er þess ekki kostur að fara út í það, en nefna má í þessu samhengi að milljarður manna í heiminum hefur engan aðgang að rafmagni. Þrír milljarðar manna brenna kolum, viðarkolum og taði til að elda mat. Það veldur öndunarfærasjúkdómum í heiminum sem enn dregur að talið er eina og hálfa milljón manna til dauða á hverju ári. Þá skiptir miklu varðandi loftslagsmálin að lífskjör hafa þrátt fyrir allt batnað verulega í mörgum þróunarríkjum. Af þeim sökum leiðir vaxandi millistétt í þeim til aukinna krafna um neyslu og um lífskjör og lífshætti í átt til þess sem er í þróuðu ríkjunum. Það kallar að óbreyttum orkubúskap á enn aukna notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum.

Spár gera ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram að aukast enda er vaxandi orkuþörf í heiminum áfram aðallega mætt með jarðefnaeldsneyti. Núverandi möguleikar á sviði vindorku og sólarorku munu vera mjög langt frá því að breyta þessu á heimsvísu. Svo minnka mætti losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Parísarsamningsins þyrfti orkubúskapur mannkynsins að taka stakkaskiptum.

Tækist að þróa aðra orkugjafa þannig að þeir yrðu samkeppnisfærir við jarðefnaeldsneyti mundi kostnaðurinn af aðgerðum í loftslagsmálum ekki ráða ferð né heldur alþjóðapólitíkin. Það hefði miklu minni þýðingu en áður hvernig kostnaður skiptist milli ríkja og ríkjahópa og hvernig hann hefði áhrif á samkeppnisstöðu. Endanlega mundu þessi atriði, og sjálf alþjóðastjórnmálin, ekki skipta máli vegna þess augljósa ávinnings sem allir hlytu af því nýta nýju hreinu orkugjafana.

Tengsl milli hagvaxtar, orkunotkunar og losunar gróðurhúsalofttegunda eru auðvitað almennt skýr og þekkt. Losun í heiminum minnkaði um 3% í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 en jókst fljótlega aftur þegar hagvöxtur tók við sér á ný. Alþjóðaorkumálastofnunin telur að vegna samdráttar af völdum kórónuveirufaraldursins gæti losun í heiminum minnkað um 8% á árinu 2020. Afleiðingar þess birtast í hinum mikla efnahagslega samdrætti sem við blasir með tilheyrandi atvinnuleysi og skertum lífskjörum víða um heim og er mesti samdráttur í áratugi. Til samanburðar telur loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna að losun þurfi að minnka um 7.6 prósent á hverju ári til 2030 eigi að takast að halda hlýnun við 1.5 gráður á öldinni.

Um leið og kórónuveirufaraldurinn veldur því að kostnaður af því að minnka verulega notkun jarðefnaeldsneytis verður svo sýnilegur sem raun ber vitni nú blasir áfram við óhjákvæmilegur vanmáttur alþjóðkerfsins til að uppfylla markmið Parísarsamningsins.

Það er einmitt kostnaðurinn af því að minnka notkun jarðefnaeldneytis sem stendur í vegi Parísarsamningsins. Kostnaður, sem væri langflestum ríkjum, ef ekki öllum, um megn, er meginástæða þess að samningurinn skuldbindur ekki aðildarríkin til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þeim er að mestu í sjálfsvald sett hvernig þau ætla að standa að málum.

Ekkert yfirríkjavald er til staðar til að taka bindandi ákvarðanir með meirihluta og til að framfylgja þeim með eftirliti og viðurlögum. Engin ætlan er uppi meðal ríkja heims að gera þá grundvallarbreytingu á alþjóðkerfinu að ýta fullveldinu til hliðar og setja ríkin undir yfirvald alþjóðastofnana; enda gæti ekki orðið samkomulag þar um.

Efnahagssamdrátturinn vegna faraldursins mun að líkindum valda því að pólitískur vilji meðal ríkisstjórna til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda verður enn minni en áður. Fyrsta skrefið til að minnka losun umtalsvert væri að stórhækka verð á olíu, kolum og jarðgasi með augljósum afleiðingum fyrir efnahaginn almennt og vitanlega um leið fyrir möguleika til að rétta hann við að faraldrinum gengnum. Allar líkur eru á að í kjölfar hans fái hagvöxtur forgang en ekki loftslagsmál. Það gerðist eftir fjármálakreppuna 2008 og losun jókst á ný.

Það er ekki umdeilt að Parísarsamningurinn um loftslagsmál er veikburða andspænis risastóru verkefninu sem í honum felst. Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins valda því að veikleikar samningsins til lengri og skemmri tíma eru enn ljósari en áður.  Umræða um loftslagsmálin fer gjarnan fram í litlum eða lausum tengslum við efnahagslegar afleiðingar aðgerða til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda. Hvort faraldurinn breytir þessu á eftir að koma í ljós.

Hugsanlega mun Covid-19 faraldurinn á endanum, vegna þess hvernig hann varpar ljósi á efnahagslegar afleiðingar aðgerða, eiga þátt í því að stóraukið fé verði lagt til þess, meðal annarra af hálfu ríkisstjórna, að reyna að þróa aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Þá er átt við sólarorku og kjarnorku og þannig að umbreyti á orkubúskap mannkynsins. Meðfram þessu kann önnur afleiðing faraldursins að verða sú að ríki heims leggi stóraukna áherslu á að að setja fé á næstu árum og áratugum í að reyna að þróa skilvirkar aðferðir til að ná koltvísýringi í umtalsverðu magni úr andrúmsloftinu.

 

Faraldurinn staðfestir alvarlega veikleika Evrópusambandsins – Þeir knýja á um að það verði að sambandsríki, sem er ekki í sjónmáli

Faraldurinn hefur veikt Evrópusambandið. Annars vegar stafar það af slælegum viðbrögðum af hálfu sambandsins við sjálfum faraldrinum þegar hann var að ná sé á strik í álfunni. Hins vegar kom í ljós að ESB gat ekki rétt efnahagslega veikburða aðildarríkjum þá hjálparhönd sem þau vildu fá þegar fjárhagslega áfallið vegna faraldursins blasti við þeim. Í kjölfarið var allt útlit fyrir enn versnandi skuldastöðu þeirra. Jafnframt blasti við vandi, sem ESB er enn ekki í stakk búið til að leysa. Rökrétt leið til að bæta úr því væri að auka samrunaþróunina til sambandsríkis, en pólitískar forsendur eru ekki fyrir því. Nú er uppi tillaga af hálfu voldugustu ríkja ESB, sem er gerð til að forða því að vandræði sambandsins komi í veg fyrir að það aðstoði aðildarríkin sem verst verða fyrir barðinu á efnahagslegum afleiðingum Covid-19.

Efnahagslegar afleiðingar faraldursins hafa bitnað einkar illa á Grikklandi, Ítalíu og Spáni. Þótt staða mála sé ekki eins í þessum ríkjum öllum þá eiga þau sameiginlegt að hafa búið við langvarandi efnahagsvanda og miklar skuldir sem og að gengi evrunnar hefur verið þeim óhagstætt. Þau hafa því öll takmarkaða burði til að taka á sig efnahagslegan skell af því tagi sem faraldurinn veldur.

Seðlabanki Evrópu brást vissulega við með því að byrja að kaupa skuldabréf af ríkjunum sem stóðu höllum fæti. Hins vegar eykst jafnframt skuldavandi umræddra ríkja enda eru þau með kaupunum að auka skuldir og á þeim löku kjörum sem lánshæfismat þeirra leiðir til. Þau fóru því fram á það með stuðningi 6 annarra evruríkja (Frakklands, Portúgals, Slóveníu, Lúxemborgar, Írlands og Belgíu) að gefin yrðu út sameiginleg skuldabréf allra evruríkjanna vegna kórónuveirufaraldursins. Svonefnd kórónuskuldabréf (corona bonds). Skuldir veikburða ríkjanna hefðu þá aukist miklu minna en ella og kjörin verið mun betri af því skuldabréfin hefðu verið á ábyrgð allra þar á meðal Þýskalands og fleiri ríkja með traust lánshæfismat. Vandinn er sá að ríki norðar í ESB, með Þýskaland, í fararbroddi vildu ekki bera þannig ábyrgð á skuldum aðildarríkjanna, en einkum Miðjarðarhafsríkjanna þriggja. Einnig var uppi ótti við að sameiginleg skuldabréfaútgáfa mundi jafnvel auka á agaleysi við efnahagsstjórn í þeim ríkjum og gera illt verra.

Stjórnlagadómstóll Þýskalands bætti í byrjun maí í vanda ESB varðandi björgunaraðgerðir með því að úrskurða að evrópski seðlabankinn hefði farið út fyrir valdheimildir sínar með skuldabréfakaupunum. Bankinn þarf nú að sýna fram á að hann hafi gætt meðalhófs við þau. Óháð niðurstöðu í því efni stendur eftir að með þessu tók þýski dómstóllinn fram fyrir hendurnar á dómstóli ESB, Evrópudómstólnum. Það er atlaga að grundvallarreglum í starfsemi ESB, sem kann hæglega að draga dilk á eftir sér fyrir sambandið.

Í grunninn endurspeglar úrskurður þýska dómstólsins það að samrunaþróunin í ESB hefur ekki leitt til sambandsríkis. Úskurðurinn minnti í reynd á að þess vegna gilda enn stjórnarskrár aðildarríkjanna. Í kjölfar úrskurðarins stóð sú staðreynd í vegi fyrir aðgerðum til að hjálpa þeim ESB ríkjum sem verst eru að fara efnhagslega út úr kórónuveirufaraldrinum. Nú var ljóst að kaup evrópska seðlabankans á skuldabréfum vegna kórónuveirufaraldursins voru í hættu því niðurstaða dómstólsins fól í sér að óbreyttu að Þýskaland mætti ekki taka þátt í kaupunum; ákvarðanir evrópska seðlabankans um þau giltu ekki þar í landi. Jafnframt var víst að úrskurðurinn útilokaði endanlega útgáfu fyrrnefndra kórónubréfa.

Rökrétt leið fyrir ESB til að fyrirbyggja vandræði af þessu tagi, sem mundi jafnframt treysta grundvöll evrunnar, væri að stórefla samruna og taka upp sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum. Stóru ríkin í ESB fengju þá mikil áhrif á hagstjórn og efnahagsmál í sambandinu öllu, enda bæru þau hlutfallslega mesta ábyrgð á skuldabréfum gefnum út í nafni ESB sem og á evrunni. ESB yrði að sambandsríki, sem gæti efnt til útgjalda og lagt á skatta -og bætt í til að mæta krísum – eins og ríki geta gert. En ESB er ekki á þessari vegferð og litlar líkur enn sem komið er á að aðildarríkin sammælist um hana. Faraldurinn haggar ekki þeirri stöðu.

Hann hefur hins vegar leitt til þess að nú hafa kanslari  Þýskalands og forseti Frakklands gert tillögu um sérstakan afturbatasjóð (recovery fund) til að aðstoða ríkin sem verst standa vegna faraldursins. Um yrði að ræða styrki til þeirra en ekki lán. Lagt er til að ESB komi á fót 500 milljarða evra sjóði til að standa undir styrkjunum. Þetta yrði gert þannig að framkvæmdastjórn ESB gæfi út skuldabréf og sækti féð á lánamarkaði. Aðildarríkin mundu greiða skuldina þegar þar að kæmi í hlutfalli við framlög þeirra til sameiginlegra útgjalda ESB. Þýskaland mundi samkvæmt því greiða mest.

Með þessu er ljóst að faraldurinn hefur leitt til róttækrar breytingar á stefnu þýsku stjórnarinnar. Nú á eftir að koma í ljós hvor hann hefur þau áhrif á önnur ESB ríki. Þá er einkum horft til Austurríkis, Finnlands og Hollands en þessi ríki hafa ásamt Þýskalandi verið tregust evruríkjanna til að fallast á sameiginlegar skuldir, bæði almennt og vegna faraldursins.

Þótt tillagan feli í sér róttæka breytingu á afstöðu þýsku stjórnarinnar og endurspegli ríkan ótta við afleiðingar Covid-19 fyrir samandið og framtíð þess er hún ekki liður í nánari samrunaþróun heldur auðvitað skammtímaráðstöfun. Hún leiðir ekki til lausnar á þeim vandræðum ESB, sem faraldurinn hefur varpað ljósi á, né losar hún það úr þeirri klemmu að hafa sameiginlegan gjaldmiðil án sameiginlegra ríkisfjármála. Öll þessi vandkvæði munu aftur há sambandinu þegar næsta krísa kemur óhjákvæmilega upp á einhverjum tímapunkti.

Jafnframt minnka enn líkur á að takist að ná megintilgangnum með ESB umfram forverann EBE, Efnahagsbandalag Evrópu. Hann hefur verið að styrkja – í gegnum náinn pólitískan samruna og sameiginlegan gjaldmiðil – stöðu og áhrif ESB ríkjanna á alþjóðavettvangi og í efnahagslegri samkeppni þar, en einkum við Kína og Bandaríkin. Í báðum efnum stendur ESB höllum fæti; hefur lítið að segja um gang helstu alþjóðastjórnmála og skiptir hlutfallslega minna máli en áður í heimsbúskapnum.

 

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína fer harðnandi en að mestu óháð faraldrinum

Þungamiðja alþjóðamála er að færast frá Evrópu og Atlantshafssvæðinu til Asíu og Kyrrahafs. Þetta á einkum við efnahagsmál og viðskipti en einnig og í vaxandi mæli við öryggismál. Samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu verður að líkindum ráðandi þáttur á alþjóðavettvangi næstu áratugi.

Covid-19 hefur leitt til orðaskaks og áróðursstríðs milli stjórnvalda Kína og Bandaríkjanna. Það stafar af því að Kína liggur undir ásökunum Bandaríkjastjórnar – og stjórnvalda í fleiri ríkjum – um að hafa fyrst leynt því að Covid-19 væri komin á kreik í Kína og síðan legið á nauðsynlegum upplýsingum. Þannig hafi kínversk stjórnvöld tafið viðbrögð, jafnvel gert illt miklu verra.  Af þessum sökum meðal annarra er líklegt að samskiptin við Kína verði eitt af aðalmálum forsetakosningabaráttunnar í Bandaríkjunum fyrir kosningarnar 3. nóvember næstkomandi, sem mun valda því að samskiptin versni hraðar en útlit var áður fyrir.

En það breytir litlu um grundvallaratriði. Um alllangt skeið hefur samkeppni Bandaríkjanna og Kína farið harðnandi í Asíu og á heimsvísu. Aðalatriði er að með uppgangi Kína sem rísandi stórveldis breytist strúktúr alþjóðakerfisins þannig að samkeppni milli Kína og annarra stórvelda, en einkum þó Bandaríkjanna, er óhjákvæmileg. Við harðar deilur undanfarinna ára um viðskipti milli Bandaríkjanna og Kína bætist vaxandi ágreiningur sem lýtur að ólíku gildismati þeirra tveggja, hugmyndafræði og stjórnarfari og að stöðu mannréttinda í Kína.

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína verður ekki eins og sú sem var í kalda stríðinu milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þótt ekki megi útiloka stórfellt vígbúnaðarkapphlaup og hættu á stríði milli Kína og Bandaríkjanna virðast meiri líkur í næstu framtíð að minnsta kosti á ágreiningi og átökum þeirra í milli sem tengjast baráttu um völd og áhrif á efnahags og tæknisviði og almennt á alþjóðavettvangi.

Einn mikilvægur munur samanborið við kalda stríðið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna er hve tengd Bandaríkin og Kína eru efnahagslega þrátt fyrir allt. Faraldurinn kann reyndar að draga úr því vegna þess að hann hefur kynt undir ótta við að bandarísk fyrirtæki, þeirra á meðal hátæknifyrirtæki, verði of háð kínverskum birgjum um ýmsar mikilvægar vörur og búnað.

Ágreiningur Bandaríkjanna og Kína um viðskipti hefur verið áberandi undanfarin ár, en áður en kórónuveirufaraldurinn hófst stefndi í samkomulagsátt. Til lengri tíma litið lýtur viðskiptadeilan hins vegar að því að ríkin nálgast hana úr mjög ólíkum áttum. Fyrir Bandaríkjamenn er og verður vandamál hve skammt Kínverjar eru komnir þrátt fyrir allt hvað varðar markaðshagkerfi og hve ríkisvaldið er fyrirferðarmikið á öllum sviðum þjóðarbúskaparins. Ágreiningsmál af þessum sökum eru mörg. Það á við beinan og óbeinan þjófnað á hugverkum, sem reyndar flestir virðast sammála um að Kínverjar stundi, og það er ágreiningur um gengisstefnu Kínverja og mikinn opinberan stuðning við fyrirtæki og stórfelldan ríkisrekstur á flestum sviðum.

Kínversk stjórnvöld eru ekki líkleg til að fallast á grundvallarbreytingar í þessum efnum. Ríkisreksturinn er nauðsynlegur vegna þess að hann veitir tækifæri til að ná opinberum markmiðum kommúnistaflokksins um framleiðslu- og atvinnustig, oft á skjön við efnahagslegar og viðskiptalegar forsendur, og til að viðhalda áróðri um heillavænlega forystu hans og hæfileika til að koma samfélaginu enn lengra á leið framfara. Jafnframt tengist ríkisreksturinn úthlutunarvaldi, sem er meðal lykilatriða fyrir kínverska valdhafa líkt og ætíð á við einræðis- og valdboðsstjórnir.

Kína mun í síauknum mæli gera sig gildandi á alþjóðavettvangi og reyna að grafa undan stöðu Bandaríkjanna og veikja þau sem víðast í alþjóðakerfinu og stofnunum þess. Lykiláhersla verður þó að líkindum lögð framan af á Asíu og að hún verði kínverskt áhrifasvæði með sama hætti og Bandaríkin líta á á vesturhvel Jarðar þannig fyrir sitt leyti. Kína á enn langt í land með þetta, einkum þó hvað það varðar að verða herveldi til jafns við Bandaríkin. Kínaher vex þó hratt ásmegin og Kínverjar munu leitast við að efla hann og þróa áfram, ekki til landvinninga (Tævan er hugsanleg undantekning) heldur þannig að hefti og veiki möguleika Bandaríkjahers í Asíu. Kína mun einnig reyna að grafa undan bandalögum Bandaríkjamanna í heimshlutanum og á endanum bola her þeirra þaðan; freista þess að leysa Bandaríkin af hólmi sem stórveldi Asíu. Það sem getur breytt þessari stefnu er ef efnahagslegur vöxtur Kína stöðvast eða það hægir umtalsvert á honum til lengri tíma litið. Ekki er ástæða til að ætla að kórónuveirufaraldurinn hafi þau áhrif.  Hins vegar er hugsanlegt að ýmsir innri veikleikar, sem ekki er unnt að fara út í hér,  leiði til þess síðar að Kína neyðist til að breyta um stefnu.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna tekur áfram einkum mið af samkeppninni við Kína óháð því í grundvallaratriðum hvort demókrati eða repúblikani situr á forsetastóli í Hvíta húsinu. Bandaríkin munu beina sífellt meira sjónum að því að skapa mótvægi gegn Kína á heimsvísu en einkum í Asíu. Þau munu leitast við að styrkja bandalög sín í heimshlutanum og að mynda önnur. Áhersla Bandaríkjahers á Asíu og Kyrrahaf á eftir að aukast enn frekar en orðið er og verða ásamt bandalögum Bandaríkjamanna þar að þungamiðju í þjóðaröryggisstefnunni.

Samkeppni Bandaríkjanna og Kína mun skýrast frekar á næstu árum og áratugum. En uppgangur Kína hefur þegar gerbreytt strúktúr alþjóðakerfisins og flest bendir til að Kína verði langöflugasta stórveldi sem Bandaríkin hafa fengist við. Fari Kína á næstu áratugum að nálgast að verða ráðandi stórveldi í Asíu verða viðbrögð Bandaríkjanna sífellt harðari. Þau eru eina stórveldið sem ræður sínum heimshluta sem er vesturhvel jarðar. Næði Kína slíkri ráðandi stöðu í Asíu yrði það keppinautur við Bandaríkin á jafningjagrunni og bein ógn við þau.

Pistillinn tengist eftirfarandi fyrri greinum á vefsíðunni:

Erindi um geópólitík og vestnorrænu löndin – 11. febrúar 2019.

Alþjóðakerfið og aðgerðir í loftslagsmálum – Samningafundur í Póllandi – 17. desember 2018.

Parísarsamkomulagið um loftslagsmál: áskorunin og alþjóðakerfið – 28. maí 2018.

Heimildir