Utanríkisstefna Rússlands – Hvað ræður för?

Ráðandi þættir í utanríkisstefnu Rússlands lúta annarsvegar að því að tryggja ítök á áhrifasvæði, sem nær til fyrrverandi Sovétlýðvelda nema Eystasaltsríkjanna. Hins vegar ræður einkum för að varðveita stöðugleika og ríkisvald í Rússlandi.  Náin tengsl eru hér á milli þannig að óstöðugleiki á áhrifasvæðinu er talin fela í sér hættu á óróa í Rússlandi sjálfu og ógn við ríkisvaldið. Ennfremur er litið á áhrifasvæðið sem stuðpúða gegn utanaðkomandi ógn.

Í huga rússneskra stjórnvalda lúta þessir þættir að tilvistarhagsmunum og ógn við þá er tilvistarógn. Því breyta viðskiptaþvinganir gegn Rússum í kjölfar Úkrænudeilunnar ekki stefnu rússneskra stjórnvalda varðandi Úkrænu. Endanlegt markmið þeirra er að hafa neitunarvald yfir utanríkisstefnu Úkrænu til að koma í veg fyrir aðild hennar að NATO og ESB. Ríki á áhrifsvæðinu njóta enda ekki fullveldis- og sjálfsákvörðunarréttar.

Trump stjórnin hefur ekki breytt neinu grundvallaratriði í stefnu Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi, enda hurfu hvorki deilumál né gerólíkir hagsmunir ríkjanna við forsetaskiptin. Að áliti Moskvustjórnarinnar hafa Bandaríkin þá stefnu að styðja við innlend sundrungaröfl í Rússlandi, skáka því á alþjóðavettvangi, einangra það, og veikja efnahagslega. Einnig stefni Bandaríkjamenn á að ná hernaðarlegum yfirburðum með eldflaugavörnum.

Horfur eru því á áframhaldandi mjög stirðum samskiptum Rússlands við Bandaríkin og önnur NATO ríki, og ekki unnt að útiloka alvarlegan hættutíma í samskiptunum, jafnvel átök, vegna Eystrasaltsríkjanna, átakanna í Úkrænu, eða vegna stríðsins í Sýrlandi.

Rússneskir ráðamenn leggja mikla áherslu á kjarnorkuherstyrkinn meðal annars vegna hernaðarlegra veikleika á öðrum sviðum og til að undirstrika að þrátt fyrir þá sé Rússland stórveldi og beri að hafa slíkan sess í alþjóðamálum.

Í norðurhöfum hafa Rússar grundvallarhagsmuna að gæta, sem lúta að kjarnorkuheraflanum og öryggi hans. Alvarlegur hættutími í alþjóðamálum gæti því valdið spennu milli Rússlands og Bandaríkjanna á norðurslóðum vegna kjarnorkujafnvægisins. Í stríði yrðu hafsvæði norður og norðaustur af Íslandi vettvangur átaka milli Rússlands og Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja. Rússar mundu reyna að verja úthaldssvæði eldflaugakafbáta í Barentshafi og herbækistöðvar á Kolaskaga gegn sókn flota Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja, og reyna að koma í veg fyrir að liðsauki bærist til Norður Noregs.

Þessi atriði eru meðal þess sem kemur fram í ritgerð minni Utanríkisstefna Rússlands: helstu áhrifaþættir. Hér er krækja á ritgerðina en meginniðurstöður hennar eru eftirfarandi:

Helstu áhrifaþættir í utanríkisstefnu Rússlands, eins og hún birtist meðal annars í átökunum í Úkrænu, lúta annarsvegar að varðveislu ríkisvaldsins í Rússlandi og hins vegar að því að tryggja ítök á áhrifasvæði Rússa. Það nær til allra nágrannaríkja, það er allra fyrrverandi Sovétlýðvelda nema Eystasaltsríkjanna.

Áhrifasvæðið á sér ýmsar sögulegar og efnahagslegar skýringar en aðalatriði er að í Kreml er litið svo á að öryggi Rússlands sé háð stöðugleika á áhrifasvæðinu. Þar á meðal er að ríki á því gangi ekki ríkjum eða ríkjasamtökum utan svæðisins á hönd. Litið er á áhrifasvæðið sem stuðpúða í vörnum Rússlands gegn utanaðkomandi ógn.

Áhrifasvæðið og varðveisla ríkisvaldsins í Rússlandi eru nátengdir þættir þannig að óstöðugleiki á áhrifasvæðinu er talinn fela í sér hættu á óstöðugleika í Rússlandi sjálfu og ógn við ríkisvaldið. Ógn við þessa grundvallarhagsmuni flokkast undir tilvistarógn í augum rússneskra stjórnvalda.

Þess vegna hafa viðskiptaþvinganir sem vesturlönd hafa beitt Rússa í kjölfar innlimunar Krímar og íhlutunar í átökin í austurhluta Úkrænu ekki breytt stefnu Moskvustjórnarinar og afar ólíklegt að þær eigi eftir að gera það.

Endanlegt markmið Rússa í átökunum í Úkrænu er að koma í veg fyrir aðild landsins að NATO og ESB. Ríki á áhrifasvæðinu njóta ekki fullveldis- og sjálfsákvörðunarréttur þegar kemur að ákvörðunum um utanríkis og öryggismál þeirra eins og hefur sést bæði í Úkrænu og Georgíu. Jafnframt áskilja rússnesk stjórnvöld sér íhlutunarrétt þótt þau tali ekki þannig opinberlega. Áhrifasvæðið veldur því grundvallarágreiningi milli vesturlanda og Rússlands um meginreglur í utanríkis- og alþjóðamálum.

Í Georgíu viðhalda Rússar spennu og ágreiningi innanlands til að koma í veg fyrir að landið geti fengið aðild að NATO og ESB. Í Úkrænu er markmiðið endanlega að stjórnarskrá landsins verði breytt þannig að héruðin og þar með fólk af rússnesku bergi, sem býr aðallega í Donbass héraði í austurhlutanum, fái í reynd neitunarvald yfir utanríkisstefnunni.

Með hernaðaríhlutun Rússa í borgarastyrjöldina í Sýrlandi er höfðað með árangri til þjóðernishyggju og þjóðernisstolts almennings í Rússlandi og rennt frekari stoðum undir valdastöðu elítunnar og þar með varðveislu ríkisvaldsins.

Með íhlutuninni er unnið því að fá Rússland viðurkennt sem stórveldi, en einkum jafningja Bandaríkjanna, og sýna fram á að engin lausn verði í Sýrlandi án samþykkis Rússa. Það hefur tekist með íhlutuninni að ná þeirri stöu, en miklu skiptir í því efni að Bandaríkin hafa ekki beitt sér gegn henni nema að mjög takmörkuðu leyti.

Hvað skýrir það er ekki viðfangsefni þessarar ritgerðar, en væntanlega ræður miklu að frá sjónarhóli Bandaríkjanna lúta hvorki Úkræna né Sýrland að grundvallaröryggi Bandaríkjanna. Rússland er ekki og verður ekki arftaki Sovétríkjanna þannig að það eigi möguleika á að ná drottnandi stöðu í Evrópu og ógna öryggi Bandaríkjanna með svipuðum hætti og Sovétríkin í kalda stríðinu.

Rússnesk stjórnvöld líta svo á að vesturlönd, en einkum Bandaríkin hafi þá stefnu að skáka Rússlandi, einangra það, veikja efnahagslega, og reyna að ná hernaðarlegum yfirburðum. Þá sé reynt að skapa óánægju meðal almennings, reka fleyg milli hans og stjórnvalda í þeim tilgangi að skapa óstöðugleika til að fella stjórnina og koma að í staðinn aðilum sem fari að vilja Bandaríkjanna.

Horfur eru því á áframhaldandi mjög stirðum samskiptum Rússlands við Bandaríkin og önnur NATO ríki og jafnvel aukinni spennu. Ekki er unnt að útiloka alvarlegan hættutíma í samskiptunum, jafnvel átök, vegna Úkrænu, Eystrasaltsríkjanna eða vegna stríðsins í Sýrlandi.

Þótt Trump Bandaríkjaforseti hafi framan af hugsanlega viljað breyta áherslum í stefnu Bandaríkjanna til að bæta samskiptin við Rússa var aldrei skýrt hvað það gæti verið nákvæmlega. Og deilumálin hurfu ekki við það eitt að nýr forseti tæki við.  Áfram eru til staðar mjög ólíkir hagsmunir þessara ríkja og ólík sýn á grundvallarreglur í stjórnmálum og alþjóðamálum.

Trump stjórnin hefur heldur ekki breytt stefnu Bandarikjanna gagnvart Rússlandi í neinu grundvallaratriði. Þá stendur hún að verulegri hækkun á útgjöldum til hermála sem eykur enn almenna yfirburði Bandaríkjahers yfir þann rússneska og reyndar öll helstu ríki önnur. Vegna framferðis Rússlands undanfarin ár er því lýst sem megin andstæðingi Bandaríkjanna – ásamt Kína – í endurvakinni samkeppni stórvelda eins og það er kallað.

Efnahagslega er Rússland ekki stórveldi. Þjóðarbúskapurinn stendur einungis undir örlitlum hluta af heimsframleiðslunni. Hagvaxtarhorfur eru fremur daprar, bæði vegna þess hve mjög Rússar eru háðir útflutningi á olíu og gasi og vegna undirliggjandi vandamála, sem afar erfitt er fyrir valdhafana að bregðast við.

Rússland telst vart stórveldi í hernaðarlegu tilliti nema að því leyti að eiga kjarnorkuvopn. Þau þjóna þó illa eða alls ekki pólitískum markmiðum, en eru fyrst og síðast fælingarvopn og til þrautavara gegn tilvistarógn.

Vel er hugsanlegt að vegna ýmissa veikleika Rússlands samanborið við vesturlönd – hernaðarlega, pólitíska og enfahagslega – leggi rússnesk stjórnvöld meira en ella væri upp úr undirróðri til að reyna að veikja andstæðinga og styrkja sig í sessi. Möguleikar hafa opnast með ódýrri tækni til að beita í vaxandi mæli tölvu- og netárásum, falsfréttum, ”auglýsingum” á samfélagsmiðlum og öðrum undirróðri byggðum á tölvu og upplýsingatækni til að ná markmiðum utanlands. Meint afskipti rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016 með undirróðri af þessu tagi hafa auðvitað haft neikvæð áhrif á samskipti þeirra við Rússland og lagt af mörkum til spennu milli þessara aðila.

Ávinningur Rússa af tilraunum með tölvu og upplýsingatækni til að hafa áhrif á stjórnmál og kosningar er hins vegar harla óljós, að minnsta kosti hvað vesturlönd varðar.  Þá ber að hafa í huga að þótt Rússar hafi beitt blönduðum (hybrid) hernaði með vissum árangri á stöðum eins og Úkrænu hafa vegið miklu þyngra eldri og hefðbundnari aðferðir. Þar munar mest um þungvopnað herlið og sérsveitir.

Rússland er einungis svæðisbundið stórveldi, ef svo má kalla það, þegar litið er til venjulegra vopna. Hernaðargetan að þessu leyti er nægileg til að tryggja nauðsynleg ítök á áhrifasvæðinu og líklega einnig til að valda andstæðingi sem sækti að nágrenni Rússland eða landinu sjálfu verulegri áhættu og tjóni.

Rússneski herinn hefur verið efldur að búnaði á undanförnum árum eftir næstum tveggja áratuga vanrækslu í kjölfar falls Sovétríkjanna. Mikið af búnaði hersins er þó enn frá Sovéttímanum. Efnahagsörðugleikar í kjölfar verðfalls á olíumarkaði hafa nú leitt til minnkandi útgjalda til hermála og því hægir á endurnýjun.

Rússneski Norðurflotinn er lítill miðað við Sovéttímann og hefur takmarkaða möguleika til að athafna sig á úthafinu. Litlar líkur eru á að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð. Meginmarkmið hans er að verja hafsvæði nálægt Rússlandi með sérstakri áherslu á öryggi eldflaugakafbáta í Barentshafi og herbækistöðva á Kolaskaga. Viðbúið er að Norðurflotinn minnki enn frekar. Endurnýjun kafbáta hefur forgang og nýjar gerðir og uppfærðar eldri gerðir ráða yfir fullkomnari vopnum en flotinn hafði áður. Langdrægar flugvélar sem stundum fljúga suður á Norður-Atlantshaf eru áfram til staðar og verða að hluta endurnýjaðar.

Á norðurslóðum hafa Rússar ýmis almenn markmið með hernaðarlegum viðbúnaði og umsvifum, sem lúta að gæslu og yfirráðum þeirra yfir feiknastórri efnhagslögsögu og hagsmunagæslu utan hennar, sem og að ýmsum langtímahagsmunum.

Þá á hernaðarlegur viðbúnaður Rússa á norðurslóðum rætur í þeim grundvallarþætti í stefnu þeirra að tryggja ítök á áhrifasvæðinu og varðveita ríkisvaldið í Rússlandi og þar með öryggi lands og þjóðar.

Forgangsatriði í endurnýjun og uppbyggingu hersins sýna áherslu á að tryggja þessa hagsmuni. Annars vegar með nógu öflugum landher til að stjórnvöld í Moskvu geti haft nauðsynleg tök á áhrifasvæðinu þegar þurfa þyki. Hinsvegar með fælingarmætti langdrægra kjarnavopna.

Rík áhersla á að endurnýja eldflaugakafbáta og á að geta varið þá í norðurhöfum er til marks um hið síðarnefnda, en eldflaugar í þessum kafbátum eru stór hluti rússneska kjarnorkuheraflans. Þannig tengjast norðurslóðir afar mikilvægum strategískum hernaðarhagsmunum Rússlands og hafa gert allt frá áttunda áratug tuttugustu aldar.

Átök milli Rússlands og Bandaríkjanna eru almennt talin ólíkleg hvort heldur litið er til deilumála í Evrópu eða Miðausturlöndum. Ef alvarlegur hættutími yrði í alþjóðamálum gæti hann valdið spennu á norðurslóðum í samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna vegna kjarnorkujafnvægisins og mikilvægra hagsmuna þar að lútandi á svæðinu. Í stríði yrðu hafsvæði norður og norðaustur af Íslandi vettvangur átaka milli Rússlands og Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja. Í þeirri orrustu mundu Rússar reyna að verja úthaldssvæði eldflaugakafbáta Norðurflotans í Barentshafi og herbækistöðvar á Kolaskaga gegn sókn flota Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja, og reyna að koma í veg fyrir að liðsauki bærist til Norður Noregs frá NATO ríkjum.

 

Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma

Hernaðarumsvif hafa aukist aftur á Norður-Atlantshafi en eru enn lítil miðað við það sem var í kalda stríðinu. Ferðir rússneskra kafbáta í nágrenni Íslands eru fátíðar þótt þeim hafi fjölgað á síðustu árum frá því að hafa verið nánast engar um langa hríð eftir kalda stríðið. Úthafsfloti Rússa er lítill miðað við það sem var á tímum Sovétríkjanna.

Komum bandarískra kafbátaleitarflugvéla til Keflavíkurflugvallar hefur farið fjölgandi á undanförnum árum, en ekki er um fasta viðveru þeirra að ræða.  Þær koma til landsins að mestu leyti að því að virðist vegna æfinga og þjálfunar fremur en til að leita að eða elta rússneska kafbáta.

Með lokum kalda stríðsins hurfu lykilforsendur sem réðu mikilvægi Íslands í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á tuttugustu öldinni. Ísland fær ekki sömu stöðu aftur því Rússland er ekki og verður ekki arftaki Sovétríkjanna á hernaðarsviðinu. Hætta á að stórveldi nái ráðandi stöðu á meginlandi Evrópu, líkt og var í heimsstyrjöldunum og kalda stríðinu, er því ekki til staðar.

Hernaðarlegur viðbúnaður Rússa á norðurslóðum á rætur í almennri hernaðarstefnu þeirra, einkum í þeim þætti er lýur að kjarnorkuvopnastefnu. Rússneskir eldflaugakafbátar í norðurhöfum, en einkum Barentshafi, eru hryggjarstykki í kjarnorkuherafla Rússa og öryggi þeirra er því forgangsverkefni Norðurflotans rússneska.

Þessi atriði eru meðal þess sem kemur fram í ritgerð minni Staða Íslands í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna 1917-2017.

Hér er krækja á ritgerðina en meginniðurstöður hennar eru eftirfarandi:

Staða Íslands í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna hefur aðallega ráðist af stórum breytingum á alþjóðakerfinu. Þær  hafa varðað uppbyggingu þess og einkum í því efni valdajafnvægið á meginlandi Evrópu. Einnig hefur þróun hernaðartækni haft mikilvæg áhrif á þessa sögu.

Á tuttugustu öldinni hófu Bandaríkjamenn þrisvar bein afskipti af öryggismálum í Evrópu. Fyrsta íhlutunin kom í fyrri heimsstyrjöld á árinu 1917, þegar útlit var fyrir að Þýskaland sigraði. Slík grundvallarbreyting á uppbyggingu alþjóðakerfisins og valdajafnvægi á meginlandinu var talin mundu leiða til þess á endanum að vesturhveli jarðar og öryggi Bandaríkjanna yrði ógnað.

Sama átti við í síðari heimsstyrjöld þegar fall Frakklands í júní 1940 leiddi til þess að þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna breyttist í grundvallaratriðum. Eftir að Frakkland var úr leik gat Þýskaland ógnað Bretlandi, sótt enn frekar en orðið var út á Atlantshaf og í kjölfarið orðið ógn við vesturhvel. Þótt stjórnmál í Bandaríkjunum kæmu í veg fyrir beina þátttöku þeirra  í stríðinu  voru útgjöld til hermála margfölduð og sett lög um almenna herkvaðningu. Bandaríkin hófu og haustið 1940 stórfelldan stuðning við Breta með því að senda þeim hergögn og vistir og, örfáum mánuðum síðar, með því að lána þeim í stað þess að krefjast staðgreiðslu fyrir vopn og vistir. Bandaríkjamenn byrjuðu ennfremur að fikra sig inn í átökin á Atlantshafi sem leiddi til þess meðal annars að bandarískar hersveitir voru sendar til Íslands sumarið 1941.

Eftir síðari heimsstyrjöld voru Sovétríkin nálægt því að ná ráðandi stöðu í Evrópu. Þetta leiddi til róttækrar breytingar á stefnu Bandaríkjanna, sem stofnuðu Atlantshafsbandalagið, hófu að halda stóran her á friðartímum og halda úti miklu liði í bandarískum herstöðvum í Evrópu. Markmiðið var að halda aftur af útþenslustefnu Sovétstjórnarinnar og fæla hana frá því að hefja átök við vesturlönd.

Þegar kalda stríðinu lauk með  hruni kommúnismans og Sovétríkjanna varð aftur grundvallarbreyting, en nú í þá veru að ekki stóð lengur ógn af stórveldi á meginlandinu. Lykilforsendur þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna í kalda stríðinu hurfu. Það leiddi til þess að þau minnkuðu stórlega herlið sitt og umsvif í Evrópu og gerðu róttækar breytingar á stærð og starfsemi Bandaríkjahers að öðru leyti til að laga hann að gerbreyttum aðstæðum.

Stórstíg þróun í hernaðartækni hafði og áhrif á þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna á tuttugustu öld. Í síðari heimsstyrjöld gátu langdrægar flugvélar sótt sífellt lengra út á Atlantshafi frá meginlandi Evrópu. Í kalda stríðinu gátu flugvélar og eldflaugar borið kjarnavopn frá Sovétríkjunum norðurleiðina til skotmarka í  Norður Ameríku.

 

Staða Íslands

Ísland vakti ekki áhuga Bandaríkjamanna í fyrri heimstyrjöld, enda fór hernaðurinn á Atlantshafi fram á austurhluta þess.

Á fyrstu mánuðum síðari heimsstyrjaldar náðu umsvif þýskra kafbáta og skipa vestur til Íslands og Grænlands og flugvélar höfðu margfalt flugþol á við það sem áður var. Það var þó ekki fyrr en stóraukin ógn var talin steðja að Bretlandi og Atlantshafi eftir fall Frakklands sumarið 1940 að Ísland birtist í bandarískum hernaðaráætlunum. Stjórnmál í Bandaríkjunum áttu þátt í að bandarískar hersveitir héldu til Íslands sumarið 1941, en gerbreytt staða á meginlandi Evrópu og áhrif hennar á öryggi vesturhvels voru undirliggjandi ástæður. Í styrjöldinni var landið í lykilhlutverki í orrustunni um Atlantshaf og vegna stórfellds ferjuflugs og annarra loftflutninga frá Bandaríkjunum til Evrópu.

Í kjölfar seinni heimsstyrjaldar varð Ísland útvörður vesturhvels. Nú voru það Sovétríkin, sem gátu náð drottnandi stöðu á meginlandinu og við því varð að bregðast. Áhugi Bandaríkjanna af þessum sökum á að halda úti liði og flugvélum á Íslandi leiddi til varnarsamningsins 1951. Tilkoma langdrægra flugvéla sem gátu borið kjarnavopn hafði einnig mikil áhrif á stefnuna á þessum tíma.

Í kalda stríðinu var Ísland lykilstaður fyrir varnir vesturhvels og Vestur-Evrópu. Auk loftvarna tengdist landið upp úr miðjum sjöunda áratugnum í vaxandi mæli vörnum þessara staða gegn sovéskum eldflaugakafbátum sem héldu til í Atlantshafi með eldflaugar sem báru kjarnaodda.

Eftir því sem sovéska norðurflotanum óx ásmegin jókst ógn frá kafbátum hans, herskipum og flugvélum við herflutninga yfir Atlantshaf til Evrópu. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands fór enn vaxandi fyrir áætlanir NATO og fælingarstefnuna gagnvart Sovétríkjunum. Flutningaleiðir yfir Atlantshaf voru taldar mundu skipta sköpum fyrir örlög Evrópu í styrjöld. Ísland tengdist þannig náið þeim grundvallarhagsmunum sem voru í húfi fyrir Bandaríkin og önnur NATO ríki á meginlandinu, sem aftur var nátengt öryggi Bandaríkjanna og loks kjarnavopnajafnvæginu milli þeirra og Sovétríkjanna.

Tengsl Íslands við loftvarnir Bandaríkjanna urðu enn nánari en áður um og eftir 1980 með tilkomu nýrra sovéskra langdrægra stýriflauga sem gátu náð til skotmarka frá flugvélum yfir hafinu suðvestur af landinu.

Hápunkti náði hernaðarlegt mikilvægi Íslands á níunda áratugnum þegar landið hefði í hugsanlegum átökum gegnt lykilhlutverki í stórsókn gegn sovéska flotanum í norðurhöfum og herbækistöðvum hans og sovéska flughersins á Kolaskaga.

Þessi stefna laut einkum að því að sýna sovéskum ráðamönnum með trúverðugum hætti að kæmi til átaka yrði grundvallarþáttum í herstyrk Sovétríkjanna ógnað, það er norðurflotanum, bækistöðvum hans og eldflaugakafbátum í Barentshafi.  Jafnframt yrði öryggi siglingaleiða á Atlantshafi tryggt með því að halda norðurflotanum uppteknum við að sinna því forgangsverkefni hans að verja eldflaugakafbátana, sem voru hryggjarstykki í kjarnorkuherafla Sovétríkjanna. Ennfremur yrði með þessu komið í veg fyrir að flughersstyrk norðurflotans yrði beitt gegn NATO í átökum á meginlandinu og jafnvel að Sovétherinn mundi neyðast til að senda liðsauka frá meginlandinu til norðurflotans. Af öllum þessum ástæðum var stefnan um stórsókn í norðurhöfum talin lykilþáttur í að fæla Sovétstjórnina frá því að hefja styrjöld.

Með falli kommúnismans 1989 og Sovétríkjanna 1991 hurfu lykilforsendur í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna. Ekki voru lengur neinir þeir öryggishagsmunir í húfi á meginlandinu sem kallaði á fasta viðveru Bandaríkjahers á Íslandi. Sama átti auðvitað við á mörgum öðrum stöðum og fækkun í liði Bandaríkjamanna á Íslandi, sem hófst strax eftir kalda stríðið, var auðvitað hluti af miklu stærri mynd og gerbreyttri stöðu í alþjóðamálum.

Þrettán ár liðu frá því að fyrir lá af hálfu Bandaríkjanna skömmu eftir kalda stríðið að aðstöðu fyrir Bandaríkjaher væri ekki lengur þörf á Íslandi nema að litlu leyti og þar til herstöðinni var lokað haustið 2006.  Það fækkaði þó hratt í Keflavíkurstöðinni fljótlega eftir kalda stríðið og reyndar voru uppi áætlanir sem fólu í sér að starfsemi hennar hefði að mestu leyti lagst niður þegar upp úr 1994.

Ástæða þess að það dróst að loka herstöðinni var andstaða íslenskra stjórnvalda, sem vildu að í landinu væru lágmarksvarnir þrátt fyrir lok kalda stríðsins og líkt og væri í öðrum NATO ríkjum. Án andófs íslenskra stjórnvalda hefðu breytingarnar á uppbyggingu alþjóðakerfisins og valdajafnvæginu á meginlandi Evrópu, sem fólust í lokum kalda stríðsins, alfarið ráðið ferðinni og leitt til þess að varnarliðið færi að mestu úr landi fljótlega eftir kalda stríðið.

Bandaríkjaher hafði eftir lok kalda stríðsins einungis áhuga á að halda úti kafbátaeftirliti frá Keflavíkurstöðinni. Því var hætt 2003 vegna þess að rússneskir kafbátar komu ekki lengur vestur fyrir Norður Noreg út á Atlantshaf. Nokkrum árum áður hafði komum kafbátaleitarvéla til Keflavíkur fækkað mjög vegna þess að rússnesk hernaðarumsvif á Atlantshafi voru nánast engin.

Frá sjónarhóli Bandaríkjanna þjónaði Keflavíkurstöðin ekki lengur öryggishagsmunum þeirra, reyndar heldur ekki hagsmunum Íslands að áliti bandarískra stjórnvalda. Stöðinni var lokað 2006 en varnarsamningurinn var áfram í gildi. Varnaráætlun Bandaríkjahers sem var gerð vegna Íslands við brottför varnarliðsins byggði á þeirri forsendu að fyrirsjáanlega steðjaði ekki hernaðarógn að landinu.

Efnahagur Rússlands er í grunninn bágborin vegna alvarlegra undirliggjandi veikleika, sem ekki er tekið á.  Hagvaxatartölur í Rússlandi eru því daprar og litlar líkur á að rætist úr og herinn líður fyrir efnahagsástandið. Framlög til hans fara minnkandi og eru reyndar mjög lítil í samanburði við helsta keppinautinn, Bandaríkin. Við tiltölulega þrönga fjárhagsstöðu rússneska hersins bætist að hergagnaframleiðslan er óhagkvæm og óskilvirk.

Rússland er því ekki stórveldi á hernaðarsviðinu nema vegna þess að það á kjarnavopn. Engar líkur eru því á að það verði arftaki Sovétríkjanna á meginlandi Evrópu eða yfir höfuð stórveldi þar. En það hefur yfirburði yfir nágrannaríki og er svæðisbundið stórveldi, ef svo má orða það, á áhrifasvæði sem nær til nágrannaríkjua og fyrrum Sovétlýðvelda.

Áhugi Bandaríkjahers á Íslandi verður takmarkaður um fyrirsjáanlega framtíð og litlar líkur á að hann hafi hér aftur fasta viðveru á friðartímum. Forsenda þess væri að grundvallarbreytingar yrðu í uppbygginu alþjóðakerfisins og á valdajafnvægi á meginlandinu.

Hernaðarlegur viðbúnaður Rússa á norðurslóðum á rætur í almennri hernaðar og öryggisstefnu Rússlands, einkum að þeim þætti er lýtur að öryggi kjarnorkuheraflans. Í þeirri endurnýjun rússneska hersins sem nú á sér stað hefur forgang að varðveita öryggi ríkis og ríkisvalds með fælingarmætti kjarnavopna annars vegar og hins vegar með landher sem beita megi til að tryggja áhrifasvæði Rússlands í fyrrum sovétlýðveldum.

Áhugi Bandaríkjahers á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli hefur kviknað á ný. Hann lýtur ekki að fastri viðveru, heldur tímabundinni staðsetningu kafbátaleitarflugvéla á flugvellinum til æfinga og til að leita að eða veita eftirför rússneskum kafbátum þegar þeir eru á kreiki á svæðum út frá landinu.

Þótt á síðustu árum hafi sést aftur til rússneskra kafbáta á Norður-Atlantshafi virðast þeir hafa verið fáir og mjög langt frá því sem var í kalda stríðinu, enda kafbátafloti Rússlands margfalt minni en hinn sovéski var og að auki kominn mjög til ára sinna. Komum leitarflugvéla til Keflavíkur hefur farið fjölgandi en að mestu leyti að því að virðist vegna æfinga og þjálfunar fremur en til að leita að eða elta rússneska kafbáta.

Áhuginn á aðstöðu fyrir kafbátaleit lýtur að því að geta aflað nauðsynlegra tæknilegra upplýsinga um rússneska kafbáta, þegar færi gefst til þess og viðhaldið leikni áhafna leitarflugvéla við að finna þá og fylgja þeim eftir. Þetta er gert frá Íslandi þegar kafbátar leggja leið sína vestur um Atlantshaf til hafsvæða í nágrenni Íslands og út fyrir leitarsvæði sem sinnt er frá bækistöðvum í Noregi eða Skotlandi.

Þetta varðar einkum þá varanlegu hagsmuni Bandaríkjanna að vera viðbúin ef hættutími í alþjóðamálum hreyfði við kjarnavopnajafnvæginu og mikilvægum öryggishagsmunum þeirra þar að lútandi í norðurhöfum.

Í öðru lagi eru áfram til staðar þeir augljósu varanlegu hagsmunir Bandaríkjanna og annarra NATO-ríkja að öryggi siglingaleiða yfir Norður Atlantshaf sé ætíð tryggt. Aðstæður eru þó aðrar að þessu leyti en í kalda stríðinu þegar allt hékk á hernaðarlegu stöðunni i miðri Evrópu og siglingaleiðum þangað og fyrirvari var naumur.

Ógn við siglingaleiðirnar er alls ekki sambærileg nú og þegar sovéski Norðurflotinn var og hét og var margfalt stærri en sá rússneski.  Enn virðast fáir rússneskir árásarkafbátar sigla út á Norður Atlantshaf. Á hættutíma og í átökum yrðu forgangsverkefni Norðurflotans þar að auki ekki að herja á siglingaleiðir heldur að verja eldflaugakafbáta í Barentshafi, sem eru hryggjarstykki í kjarnorkuheraflanum, og verja herbækistöðvar í Norðvestur Rússlandi. Þetta hefur verið forgangsverkefni flotans um áratuga skeið.

Hvað sem því líður hljóta Bandaríkin og önnur NATO ríki að hyggja að þeim augljósu varanlegu hagsmunum sem bandalagið hefur af öryggi siglingaleiða á Norður Atlantshafi. Hve mikið verður í lagt að þessu leyti á eftir að koma í ljós en aðstæður kalla ekki á viðbúnað í neinni líkingu við það sem var í kalda stríðinu.