Ísland og Grænland á áhrifasvæði Bandaríkjanna

Þótt Úkrænustríðið hafi leitt í ljós mikla veikleika Rússlands sem herveldis og rússnesk hernaðarumsvif hafi orðið hverfandi lítil í nágrenni Íslands og Grænlands valda lykilþættir því að bæði löndin eru á áhrifasvæði Bandaríkjanna. Þannig hefur verið um langa hríð – allt frá 1941 í annarri heimsstyrjöld. 

Áhrifasvæðið hvílir á sameiginlegum hagsmunum en ræðst endanlega af þjóðaröryggi Bandaríkjanna, kjarnorkujafnvæginu milli þeirra og Rússlands á norðurslóðum og hagsmunum Bandaríkjanna af stöðugleika í öryggismálum Evrópu. 

Þá skiptir miklu nýr þáttur sem hefur aukið áhuga Bandaríkjanna á norðurslóðum á undanförnum árum. Þetta er harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu, sem þegar hefur snert Ísland og Grænland og mun hugsanlega þegar fram í sækir ná í síauknum mæli til norðurslóða. 

Ólíklegt má telja að yfirlýsingar Trumpls Bandaríkjaforseta undanfarið um að Bandaríkin þurfi að eiga Grænland skaði hagsmuni Bandaríkjanna og árifavæðið – til lengri tíma litið að minnsta kosti – og það er langtíminn sem einkennir þróun á norðurslóðum. Stórar breytingar þar, hvort heldur í öryggismálum eða hvað varðar aðgang að auðæfum í jörðu eru háðar hlýnun Jarðar og hve mikið heimskautaísinn hörfar á næstu áratugum. 

Enn er það Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sem hefur að mati höfundar vefsíðunnar komist best að orði um glannaleg ummæli og flumbrugang Bandaríkjaforseta varðandi Grænland. Ráðherrann sagði að taka bæri yfirlýsingar forsetans alvarlega en ekki bókstaflega

Áhrifasvæði Bandaríkjanna sem nær til Íslands og Grænlands er ekki klassískt áhrifasvæði, haldið gangandi með kúgun og undirokun af hálfu viðkomandi stórveldis. Þess í stað er áhrifasvæði Bandaríkjanna á norðurslóðum í grunninn byggt á sameiginlegum hagsmunum og gildismati ríkjanna þriggja enda hefur svæðið verið friðsamt og stöðugt. Það styðst ennfremur við tvíhliða samninga milli ríkjanna og við aðild Íslands og Danmerkur – og Grænlands – að NATO. 

Á hinn bóginn hefur sú breyting orðið á undanförnum árum að Bandaríkin hafa talið sig þurfa að gæta hagsmuna sinna á áhrifasvæðinu með afskiptum af samskiptum Íslands og Grænlands við Kína. Bandaríkin komu, þegar Trump var fyrst forseti, í veg fyrir að kínverskt fjármagn og fyrirtæki byggðu flugvelli á Grænlandi og vöruðu Íslendinga við kínverska fyrirtækinu Huawei, sem er risafyrirtæki á fjarskiptamarkaði, og við þátttöku Íslands í kínverskri áætlun sem kennd er við Belti og braut. (sjá “Trump girnist Grænland – á ný”, vefsíða um alþjóðamál, 30. desember 2024.) 

Yfirlýsingar Trumps Bandaríkjaforseta hafa verið áberandi en Biden stjórnin hafði auðvitað einnig áhuga á svæðinu. Hún framkvæmdi ákvörðun Trump stjórnarinnar fyrri um að opna aðalræðisskrifstofu Bandaríkjanna á Grænlandi og um að veita Grænlendingum fjárhagslegan stuðning vegna menntamála og til að þróa ferðamennsku og námavinnslu. Blinken, utanríkisráðherra Bidens, heimsótti Grænland 2021.

Áhrifasvæðið ræðst áfram af kjarnorkujafnvæginu milli Bandaríkjanna og og Rússlands á norðurslóðum. Rétt er að taka fram að þetta jafnvægi er stöðugt og verið hefur alla tíð. Jafnframt koma til hagsmunir sem varða fælingasstefnu Bandaríkjanna og NATO gegn Rússum á meginlandi Evrópu.

Ennfremur tekur stefna Bandaríkjanna á áhrifasvæðinu mið af gerbreyttu alþjóðakerfi þar sem Asíu-Kyrrahafssvæðið og samkeppni US og Kína hafa orðið ráðandi þættir. Samkeppnin fer harðandi og mun sem fyrr segir ná í auknum mæli til norðurslóða þegar fram í sækir, auk þess að samvinna Rússlands og Kína mun aukast.

Svæðið ræðst sem fyrr segir af þjóðaröryggi Bandaríkjanna en byggir einnig áfram á sameiginlegum hagsmunum og gildismati þeirra, Íslands og Grænlands. Engar líkur á að þetta eðli og einkenni svæðisins breytist í aðalatriðum. Afar ólíklegt verður að teljast að Ísland halli sér að Kína í samkeppni við Bandaríkin og enn minni líkur á því að það halli sér að Rússlandi. Bandaríkin munu á hinn bóginn hafa sérstakar  gætur á Kínverjum á áhrifasvæðinu og bregðast sem fyrr við hugsanlegri ásælni þeirra á Grænlandi og Íslandi. 

Ísland er og verður á áhrifasvæðinu óháð því hver er forseti Bandaríkjanna, óháð stöðu NATO hverju sinni og óháð tengslum Íslands við Evrópusambandið.Hvorki ESB né Evrópuríki NATO munu nokkurntíma hafa burði til að koma í stað Bandaríkjanna í hernaðarlegum efnum í okkar heimshluta eða á norðurslóðum almennt. 

Þegar og ef bráðnun heimskautaíssins breytir veröldinni með opnun Íshafsins milli Atlantshafs og Kyrrahafs,hugsanlega á seinni hluta aldarinnar, yrði samkeppni Kína við Bandaríkin ráðandi á norðurslóðum. Ísland og Grænland fengju enn aukna þýðingu fyrir Bandaríkin.

image.png

Greinar um tengd efni á vefsíðunni:

Trump girnist Grænland á ný, 30. desember 2024.

Stöðugleiki í öryggismálum á norðurslóðum, 31. ágúst 2023.

Breytt heimsmynd og norðurslóðir, 4. október 2022.

Ísland og umheimurinn 2020-2050 Annar hluti: Á norðurslóðum, 24. febrúar 2021.

Ísland og Bandaríkin – og norðurslóðir – og Kína!, 10. október 2019.

Trump girnist Grænland – á ný

Að því að fram kom í ummælum Donalds Tumps, verðandi Bandaríkjaforseta, 22. desember síðastliðinn líta Bandaríkin svo á að þjóðaröryggi þeirra sem og frelsi um víða veröld krefjist þess að þau eigi og ráði yfir Grænlandi,(“For purposes of National Security and Freedom throughout the World, the United States of America feels that the ownership and control of Greenland is an absolute necessity.”) Ummælin birtust þegar Trump tilkynnti val á sendiherraefni Bandaríkjanna í Danmörku. Í “jólaskilaboððum” á netinu 25. desember fór Trump um víðan völl, meðal annars í alþjóðamálum og ítrekaði þá mikilvægi Grænlands fyrir öryggi Bandaríkjanna.

Grænland hefur haft mikla hernaðarlega þýðingu fyrir Bandaríkin um langa hríð, fyrst í síðari heimsstyrjöld og síðan í enn ríkari mæli í kalda stríðinu og einnig í kjölfar þess. Á árinu 1946 hafði stjórn Harry Trumans, forseta, áhuga á að kaupa Grænland og lét hann í ljós í trúnaðarviðræðum við dönsk stjórnvöld. Þau höfnuðu hugmyndinni og eftir það voru eftir þörfum gerðir samingar um hernaðaraðstöðu Bandaríkjanna á Grænlandi.

Trump lýsti fyrst áhuga á að kaupa Grænland í ágúst 2019 þegar hann var forseti. Grænland væri strategískt mikilvægt. Hann tók þó fram að það að kaupa Grænlandi væri ekki meðal forgangsatriða stjórnar hans.

Þá og nú hafna Danir og Grænlendingar að Bandaríkin eignist Grænland. Í fyrra sinnið, 2019, kvað forsætisráðherra Danmerkur hugmyndina “fáránlega” (absurd). Trump aflýsti í kjölfarið heimsókn til Danmerkur í september 2019.

Burtséð frá klaufalegri nálgun Trumps í málinu – sem kemur ekki á óvart þegar hann á í hlut svo sérstakur sem er og hneigður fyrir flumbrugang – þá á málið sér hlið sem lýtur að bandarísku þjóðaröryggi. 

Þar er um að ræða kjarnorkujafnvægið milli Bandaríkjanna og Rússlandsog bandaríska hagsmuni í þeim efnum sem hafa verið til staðar í marga áratugi. Ennfremur hafa norðurslóðir tengst fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO gegn Sovétríkjunum og síðar Rússlandi á meginlandi Evrópu.

En hagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum lúta einnig að nýrri og afar mikilvægri hlið mála – samkeppni sem þegar er hafin milli Bandaríkjanna og Kína á heimsvísuog á eftir að harðna og verða ráðandi þáttur í alþjóðamálum á þessari öld. Samkeppnin snertir meðal annars áhuga og umsvif Kínverja á norðurslóðum þótt þau séu lítil enn sem komið er. Ennfremur er að finna sjaldgæfa málma á Grænlandi, sem hafa lykilþýðingu fyrir þróun og framleiðslu hátæknivara og tengjast því náið samkeppni Bandaríkjanna og Kína á því mikilvæga sviði.

Trump skýrði ekki hvað lægi að baki yfirlýsingum hans nú um Grænland, umfram þau almennu atriði sem komu fram og áður greindi. 

En 2019 heimsóttu tveir háttsettir fulltrúar Trump stjórnarinnar þáverandi Ísland. Svo tignir bandarískir gestir höfðu ekki komið til landsins svo árum skipti. Heimsókn þeirra gaf vísbendingar um sýn og hagsmuni Bandaríkjanna á norðurslóðum, þar á meðal á Íslandi, sem og hvað liggur að baki áhuga Trumps á Grænlandi. 

Þetta voru Pompeo, utanríkisráðherra, og Pence, varaforseti. Það var áhugavert að erindi þeirra var ekki einkum að tala um Rússa eða ógn úr þeirri átt á norðurslóðum, heldur aðallega að vara við Kínverjum og ásælni þeirra og kínverskra fyrirtækja á svæðinu (Sjá Ísland og Bandaríkin – og norðurslóðir – og Kína!, Vefsíða um alþjóðamál, 10. október 2019 og Ísland og umheimurinn 2020-2050 Annar hluti: Á norðurslóðum, Vefsíða um alþjóðamál, 24. febrúar 2021.)

Um þetta leyti byrjaði öryggisstefna Bandaríkjanna að tengjast norðurslóðum nánar en áður og með áherslu á Kína auk Rússlands. Ástæðan var ekki sú að Kína væri þegar orðið áberandi á norðurslóðum, heldur var horft til lengri tíma og þess að Kína er öflugast andstæðingur sem Bandaríkin hafa átt og harðnandi samkeppni við það fyrirsjáanleg á heimsvísu. 

Það á við á hernaðarsviðinu en einnig – og ólíkt Rússlandi og Sovétríkjunum þar áður – á efnahags-, viðskipta- og hátæknisviðum. Sovétríkin voru dvergur í þessum efnum samanborið við Bandaríkin – og önnnur Vesturlönd  og sama á við um Rússland.

Þannig endurspeglar áhugi Trumps á Grænlandi nú og fyrir fimm árum raunverulega hagsmuni. Í grunninn er samstaða um það í bandarískum stjórnmálum að Kína sé öflugasti keppinautur Bandaríkjanna í bráð og lengd. 

Auk almennrar samkeppi Kína og Bandaríkjanna um áhrif og ítök í alþjóðamálum kemur til bráðnun heimskautaíssins í kjölfar hlýnunar Jarðar. Hún auðveldar aðgengi að sjaldgæfum málum og opnar nýjar siglingaleiðir á norðurslóðum.

Samkeppnin milli Bandaríkjanna og Kína er staðreynd og hefur þegar snert norðurslóðir. Áhugi beggja þessara stórvelda á að efla umsvif sín og ítök á svæðinu á eftir að aukast á næstu árum og áratugum vegna harðnandi samkeppni þeirra á heimsvísu og vegna áhrifa hlýnunar Jarðar á hagsmuni þeirra á norðurslóðum.

Úkrænustríðið, Ísland og Norður Kórea

Hersveitir frá Norður Kóreu hafa nýlega gengið til liðs við Rússa í Úkrænustríðinu. Áður höfðu þeir sótt mikið af skotfærum til norður kóreska hersins og gera enn.

Norður Kórea er frumstætt land og bláfátækt og jafnframt einkar ömurlegt einræðis og harðstjórnarríki sem kúgar þegnana miskunnarlaust og getur að auki vart brauðfætt þá. Norður Kórea á kjarnavopn en það hefur vitanlega ekki bætt hag almennings með neinum hætti eða rofið einangrun landsins, sem umfram annað einkennir stöðu þess á alþjóðavettvangi.

Að Rússar neyðist til að reiða sig á Norður Kóreu um mannskap og skotfæri í stríði gegn Úkrænu er enn ein vísbending um að Rússland er hvorki stórveldi né burðugt herveldi 

Fall einræðis og harðstjórnar Assads forseta Sýrlands er nýjasta vísbendingin um þetta. Assad var náinn bandamaður – enda flúinn til Rússlands – sem Rússar höfðu stutt með ráðum og dáð og haldið uppi árum saman hernaðarlega og að öðru leyti í borgarastríðinu í landinu.

Rússneski landherinn hefur farið hrakför í stríðinu í Úkrænu og mátt þola hræðilegt manntjón, með hundruð þúsunda særða og fallna, og gífurlegt hergagnatjón að auki. Taktískur árangur á tilteknum stöðum í Donbass héraði í Úkrænu á undanförnum mánuðum breytir ekki því að rússneski landherinn er í molum. Þá hefur Svartahafsflotinn orðið fyrir miklu tjóni og langt síðan hann flúði af hólmi. Flugherinn sást ekki að ráði lengi vel í stríðinu og samræmdar aðgerðir landhers og flughers voru lítt eða ekki reyndar, sem segir mikla sögu um djúpstæða veikleika í þjálfun, stjórn og búnaði Rússlandshers. 

Við þessa grundvallarveikleika bætast alvarlegir og vaxandi efnahagslegir örðugleikar Rússlands – meðal annars skortur á hæfu vinnuafli, þar á meðal fólki til að manna hergagnaiðnaðinn. Efnahags- og viðskiptaþvinganir Vesturlanda halda áfram og þótt þær hafi reynst gloppóttar þá bíta þær auðvitað og harkalega á ýmsum mikilvægum sviðum sem varða herinn. Loks er ljóst að rússnesk stjórnvöld treysta sér ekki af pólitískum og félagslegum ástæðum til að hefja herútboð í þeim mæli sem þyrfti vegna Úkrænustríðsins.

Hér skal tekið skýrt fram að öðrum ríkjum en Úkrænu í nágrenni Rússlands, þeim sem eins og hún njóta ekki skjóls í NATO, kann að standa hernaðarógn frá Rússlandi. Það getur orðið eftir einhver ár takist að endurreisa rússneska herinn eftir ófarirnar í Úkrænu. Stundum er nefnt að það geti tekið 5-10 ár, sem kann þó hæglega að vera ofmat í ljósi almennra mikilla veikleika Rússlands og alvarlegra veikleika hersins og hergagnaframleiðslunnar. Að ná aftur herstyrk til þess að hugsanlega ógna NATO hernaðarlega er talið að mundi taka Rússa mörg ár. 

Ennfremur skal tekið skýrt fram að þótt Rússland sé hvorki stórveldi né burðugt herveldi þá á það ýmsa aðra möguleika gegn Vesturlöndum en venjulegan hernað – svonefndan fjölþátta (hybrid) hernað, það er undirróður af ýmsu tagi og hugsanleg skemmdarverk. 

Rússneski herinn er hægt og sígandi, en með miklu mannfalli og hergagnatjóni, að ná árangri í Donbass héraði í austur Úkrænu líkt og áður sagði. Ekki er útilokað að Rússar klári að leggja Donbass undir sig á næstu vikum. 

Það er ljóst að Úkrænuher er í veikri stöðu á  vígvellinum.

Upp úr stendur að herir beggja eru að niðurlotum komnir í stríðinu.

Norður kóresku hersveitirnar sem styðja rússneska herinn eru í Kursk héraði í Rússlandi. Markmiðið er að aðstoða Rússa til að hrekja úrkænskar hersveitir frá héraðinu  og auðvelda honum að einbeita sér að sókninni í Donbass.

Fljótlega verður að líkindum látið reyna á hvort semja megi um vopnahlé í Úkrænustríðinu og hvort það geti í framhaldinu leitt til þess að réttlátur og varanlegur friður fyrir Úkrænu komist á. Það er alls óvíst hvort Rússlandsstjórn féllist á slíka niðurstöðu. Mikið verður komið undir vinaríkjum Úkrænu – þar á meðal Íslandi, sem ef til friðarsamninga kemur verður væntanlega beðið um verulegan fjárhagslegan stuðning bæði vegna vopnakaupa til að tryggja vanir Úkrænu i kjölfar hugsanlegra samninga og vegna endurreisnar landsins.

Her sem er svo illa staddur að neyðast til að nota Norður Kóreu sem hækju og kemst að auki ekki klakklaust um sveitahéruð í Úkrænu – hann vinnur augljóslega ekki hernaðarafrek af neinu tagi á Íslandi í 4000 kílómetra fjarlægð. 

Fjarlægð er þó auðvitað ekki aðalatriði heldur þeir miklu og alvarlegu hernaðarlegu veikleikar Rússa sem hafa blasað við í Úkrænustríðinu og voru greinilega til staðar áður en það hófst með innrás þeirra í febrúar 2022.

Áhyggjur sem stundum örlar á hér á landi um að Íslandi stafi hernaðarleg hætta frá Rússlandi eru óþarfar, þótt fjölþátta aðgerðir kunni að vera hugsanlegar eins og áður sagði. Keflavíkurflugvöllur er vafalaust skotmark og hefur verið það í marga áratugi, en forsenda slíkrar árásar er stríð milli Rússlands og NATO sem litlar líkur eru taldar á að brjótist út, enda ljóst eftir Úkrænustríðið að Rússland færi mjög halloka í þeim átökum.

Hernaðarleg umsvif Rússa á svæðum í nágrenni Íslands höfðu hætt fyrir Úkrænustríðið 

Hnignun rússneska hersins höfðu birst í nágrenni Íslands þegar fyrir Úkrænustríðið. 

Rússnesk herflugvél hefur ekki komið yfir svæði nálægt Íslandi frá því um sumarið 2020. Það var eftirlitsflugvél. Rússneskur tundurspillir sást í nágrenni landsins 2021 en þá höfðu rússnesk herskip vart komið þangað svo áratugum skipti. Loks virðast ferðir rússneskra kafbáta áfram mjög strjálar um svæði nálægt Íslandi, reyndar hafa ekki sést merki undanfarin ár um kafbátaleit með flugvélum NATO ríkja á þessum slóðum. Merki um færi ekki fram hjá einstaklingum, sem fylgjast af miklum áhuga og náið með herflugi á netinu og nota til þess sérstakan búnað. Líkt og áður hefur oft komið fram á þessari vefsíðu er fremur auðvelt aðra að fylgjast með herflugi á alnetinu með aðstoð þessara aðila. 

Bandarískar eftirlits og njósnaflugvélar af gerðinni Boeing P-8 Poseidon hafa tímabundna viðveru á Keflavíkurflugvelli. Undanfarin ár hafa þær farið eftirlitsferðir frá Íslandi til Eystrasalts fremur en stunda þær aðallega yfir Norður-Atlantshafi. Herflug frá Íslandi til Barentshafs heldur áfram, þó ekki reglulega. 

Um vísbendingar um lítil eða engin rússnesk hernaðarleg umsvif á svæðum í námunda við Ísland var síðast fjallað hér á vefsíðunni í byrjun árs 2023 (“Sinna íslensk stjórnvöld ekki sem skyldi öryggis- og varnarmálum?”, 4. janúar 2023.). 

Engin breyting hefur orðið í aðalatriðum á flugi P-8 flugvéla frá Keflavíkurflugvelli eftir það. Nýjast er að P-8 flugvél fór frá Keflavíkurflugvelli í eftirlits og njósnaflug 12. desember síðastliðinn og þá til Barentshafs. Keflavíkurflugvöllur tengist áfram kjarnorkujafnvæginu á norðurslóðum líkt og hann hefur gert frá því um miðja síðustu öld og Barentshaf og Kolaskagi eru og hafa verið lykilstaðir í því efni.

Viðtal á RÚV um Sýrland

Ég var í viðtali á RÚV í kvöld um Sýrland. Ég lagði meðal annars áherslu á að fall Assad stjórnarinnar væri enn ein niðurlæging og hrakför Rússa, enn eitt merki um þá miklu veikleika Rússlands og rússneska hersins sem Úkrænustríðið hefur leitt í ljós. Ég bætti við að vonandi mundu þessir veikleikar Rússslands greiða fyirir samingum um vopnahlé og frið í Úkrænustríðinu, samningum sem væntingar væru uppi um að gætu hafist á næstu mánuðum eða vikum.

https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir/30762/ag9nap/breytt-valdajafnvaegi-i-midausturlondum?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR3Fl8nMAKlum0m5HibO_pT2Cdepe7vFZqi8uC7GgsjyERaCV2kEmAB0jvY_aem_ye3CqWZYQ16A724GJcACbw

Hvers vegna næst ekki árangur á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum og hvað þýðir það fyrir Ísland?

Enn einn milliríkjafundur á vegum loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – að þessu sinni í Baku í Azerbaijan nú í nóvember – skilaði litlum sem engum árangri. Það er jafnframt greinilegt að áhugi fjölmiðla heimsins á þessum fundum fer áfram mjög dvínandi, enda kemur aftur og aftur í ljós að þeir breyta engu sem máli skiptir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og stöðva hlýnun Jarðar. Á hinn bóginn eykst losun í heiminum enda vex notkun kola, olíu og gass?

Hér heldur áfram umfjöllun á vefsíðunni um loftslagsmál, bæði íslensk og alþjóðleg, en þó sem fyrr með sérstakri áherslu á loftslagsstefnu Íslands og sérstaka og erfiða stöðu hennar að óbreyttu.

Loftslagsmál eru í grunninn alþjóðamál enda virða gróðurhúsalofttegundir auðvitað ekki landamæli. Loftslagsmál eru jafnframt innanlandsmál af því að á þeim vettvangi þarf að taka ákvarðanir sem nauðsynlegar eru svo árangur náist á alþjóðavettvangi.

Loftslagsmál hafa því lotið lögmálum alþjóðakerfisins þá örfáu áratugi sem þau hafa verið viðfangsefni alþjóðamála. Kerfið er hinsvegar þannig gert að afar torvelt er að ná árangri þegar kostnaður er mikill, hagsmunir ólíkir og skipta þarf þungum byrðum milli ríkja og ríkjahópa. Í alþjóðakerfinu er ekki yfirvald og þar ræður eðlilega för lægsti samnefnari hagsmuna hinna fullvalda ríkja sem byggja kerfið. Engin hreyfing er uppi um að breyta þessum grundvallaratriðum. Ríkin í kerfinu ætla almennt ekki að gefa fullveldisréttinn eftir, hvorki í loftslagsmálum né öðrum.

Stærsta hindrunin í vegi loftslagsmálanna lýtur að kostnaði þeirra vegna – auðvitað – og hvernig megi skipta honum í bráð og lengd innan ríkja og milli þeirra. Þó virðist ekki unnt, þar á meðal ekki á Íslandi, að áætla nema að takmörkuðu leyti hvað aðgerðir til að minnka losun kosta, eða á hvaða bili kostnaður vegna yfirlýstra heildarmarkmiða geti legið. Er það ef til vill af því talið er að yrðu þau verðlögð mundi stuðningur við loftslagsaðgerðir minnka eða hverfa?

Hvað sem því líður þarf ekki annað en líta á orðalag í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2018 til að sjá að kostnaðurinn yrði feiknamikill. Þar sagði að markmið Parísarsamningsins um halda hlýnun við 1,5 gráður að hámarki á öldinni kallaði á “skjótar, víðtækar og fordæmalausar breytingar á öllum hliðum samfélagsins” (rapid, far-reaching and unprecedented changes in all aspects of society).

Einn lykilvandi loftslagsmála liggur í aðferðinni sem beitt er og felst að miklu leyti í því að minnka stórlega notkun jarðefnaeldsneytis. Aðferðin er svo augljóslega óhemju dýr fjárhagslega, félagslega og pólitískt fyrir flest ríki heims að augljósar hindranir stæðu í veginum og yrðu að líkindum óyfirstíganlegar ef látið væri á reyna. Fjölmennustu þróunarríkin stefna öll að því auðvitað að bæta lífskjör með aukinni notkun jarðefnaeldsneytis. Iðnríki hafa á undanförnum árum og áratugum náð umtalsverðum árangri. Þau eru samt mjög háð olíu og gasi og einnig kolum í sumum tilfellum og ekki líkur á að það breytist í grundvallaratriðum í fyrirsjáanlegri framtíð.

Ein leið er hugsanlega fær framhjá augljósum og skiljanlegum einkennum alþjóðakerfis fullvalda ríkja og eðli stjórnmálanna. Hún er að lögð verði sífellt meiri áhersla á að leita hagkvæmra leiða til að framleiða miklu meira af hreinni orku en tekist hefur hingað til. Þar beinast sjónir einkum að þróun kjarnorku – nánar tiltekið kjarnasamruna (nuclear fusion) – sem og að því hvernig megi nýta sólarorku í stórauknum mæli takist að leysa hvernig megi vinna, geyma og dreifa raforku sem frá ætti uppruna í sólarorku.

Einkum virðast vonir bundnar við að þannig framfarir verði varðandi kjarnasamruna að umbylti orkumálum á næstu áratugum þannig að losun koltvísýrings út í andrúmsloftið minnki verulega. Gróðurhúsaáhrifin dvíni í kjölfarið og að því marki með tímanum að takist að stöðva hlýnun Jarðar og snúa þróuninni við.

Loftslagsmálin eru hápólitísk sakir þess hvernig þau snerta valdapólitík í heiminum, dags daglegan starfa fólks og lífskjör þess, og vegna hins mikla kostnaðar sem fylgir því eins og áður sagði að minnka verulega notkun jarðefnaeldsneytis losun frá henni.

Takist hins vegar að umbreyta orkumálum heimsins þannig að hrein orka yrði almennt samkeppnisfær við jarðefnaeldsneyti, yrði kostnaður ekki lengur vandamál. Endanlega mundu sjálf alþjóðastjórnmálin ekki skipta máli vegna augljósra hvata sem allir fengju til að nýta hreinu orkuna. Það mundi á endanum aftengja loftslagsmálin frá bæði alþjóðastjórnmálum og innanlandsstjórnmálum. Loftslagsmálin og hlýnun Jarðar yrðu miklu fremur tæknileg viðfangsefni en pólitísk

Áhrif þess á stefnu Íslands hve árangur er rýr í loftslagsmálum

Eins og fram hefur komið í fyrri greinum á vefsíðunni er loftslagsstefnan eitt stærsta íslenska utanríkismálið. Það ræðst af þeim umtalsverða kostnaði sem þegar er lagður á samfélagið – einstaklinga og fyrirtæki – vegna aðgerða í loftslagsmálum og af því að hann á að óbreyttu eftir að aukast mjög mikið.

Loftslagsstefnan snertir einnig samskipti við önnur ríki, en einkum náið samstarf Íslands við ESB á vettvangi EES samningsins um viðskipti með svonefndar loftslagsheimildir og sameiginlega markmið um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda.

Stefnt er að því að Ísland nái svonefndu kolefnishlutleysi árið 2040. Íslenskt samfélag er enn og áfram fjarri því eins og önnur ríki að nálgast þetta markmið.

Loftslagsstefna Íslands á að auki í sérstökum vanda. Hann stafar frá því grundvallaratriði að íslenskur orkubúskapur er allt annars eðlis og á allt öðrum stað en hjá næstum öllum öðrum ríkjum heims. Það ræðst af því að hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi er margfalt hærra en víðast annarsstaðar vegna stórfelldrar nýtingar endurnýjanlegrar orku sem hófst með hitaveituvæðingu upp úr 1930 og stórjókst um og eftir 1970 með enn aukinni beislun jarðhita og byggingu stórra vatnsaflsvirkjana. Hlutfall endunýjanlegrar orku er um 85 prósent á Íslandi, en rétt undir 20 prósentum hjá evrópsku samstarfsríkjunum og langt undir þeim mörkum víðast annarsstaðar.

Enn er ósvarað þeirri grundvallarspurningu í íslenskri umræðu um loftslagsmál hvaða afleiðingar þetta hafi fyrir loftslagsstefnu Íslands og reyndar látið eins og þessi afgerandi munur skipti ekki máli. Ísland eigi þrátt fyrir hann að hafa samskonar loftslagsstefnu og samstarfsríkin, sem búa við gerólíkar aðstæður í orkumálum. Slík stefna er greinilega í ósamræmi við grundvallarreglur í alþjóðasamvinnu og þjónar augljóslega ekki íslenskum hagsmunum.

Loftslagsstefna Íslands snýst um það eins og annarsstaðar að reyna að minnka verulega losun gróðurhúsalofttegunda. Það verður hinsvegar miklu dýrara á Íslandi en annarsstaðar, einmitt vegna þess hve hlutfall endurnýjanlegrar orku er hátt hér á landi samanborið við önnur ríki. Það er þekkt að eftir því sem ríki ná lengra í að minnka losun þeim mun dýrara verður að halda áfram. Af þessum sökum eru möguleikar til að minnka losun á Íslandi enn frekar en orðið er færri en hjá öðrum ríkjum og mun dýrari en þar.

Að óbreyttu fælu aðgerðir til að reyna að ná kolefnishlutleysi í sér óbærilegan kostnað fyir íslenskt samfélag og stefnan er dæmd til þess að lenda fyrr en síðar ógöngum eins og útskýrt hefur verið í fyrri greinum á vefsíðunni. Um stefnuna getur ekki þegar fram í sækir orðið pólitískt samkomulag.

Jafnframt hefur verið bent á vefsíðunni á leið út úr vandanum. Hún felst í því að taka upp loftslagsstefnu byggða á augljósri sérstöðu Íslands í orkumálum. Það var stefnan fram til 2009 með góðum árangri á vettvangi Kyoto bókunarinnar um loftslagsmál þar sem svonefnt íslenskt ákvæði fékkst samþykkt. Það fól í sér alþóðlega undanþágu fyrir stóriðju á Íslandi í aðallega í krafti þess að hún yrði knúin endurnýjanlegri orku.

Yrði sérstöðustefna tekin upp á ný fælist í henni í grundvallatriðum að beðið yrði með að reyna að ná yfirlýstum markmiðum um kolefnishlutleysi Íslands þangað til önnur ríki hefðu almennt nálgast svipað hlutfall endurnýjanlegrar orku og er á Íslandi.

Sá rýri árangur sem við blasir í loftslagsmálum eftir áratuga viðleitni á alþjóðavettvangi – nú síðast eftir fundinn í Azerbaijan – veldur því á hinn bóginn að önnur ríki eiga enn lengra en áður í land með að ná Íslandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku.

Því er enn síður ástæða en áður til að hafa stefnu sem hefur þá undalegu afleiðingu að hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku á landinu leiðir til þess að það taki á sig þyngri byrðar en önnur ríki. Jafnframt gefst aukið svigrúm til að leggja aftur áherslu á sérstöðu landsins í orkumálum og afla því sjónarmiði stuðnings á alþjóðavettvangi að tillit sé tekið til hennar hvað Ísland varðar.

Nálgast lyktir Úkrænustríðsins?

Rússar hafa farið hrakför í Úkrænustríðinu. Almennir og miklir veikleikar rússneska hersins hafa komið sífellt betur í ljós, sem breytir þó ekki því að á undanförnum vikum og mánuðum hefur staða Úkrænumanna smám saman veikst verulega á vígvellinum. 

Rússneskar herssveitir halda áfram að sækja hægt og bítandi að lykilstöðum í Donbass héraði í austurhluta landsins þó með harmkvælum sé – áframhaldandi hræðilegu mannfalli og miklu hergagnatjóni. Þá hafa úkrænskar hersveitir neyðst til að láta undan síga í Kursk héraði í Rússlandi eftir herför Úkrænumanna þangað í ágúst. En Donbass skiptir mestu í bili fyrir framgang stríðsins.

Úkrænuher skortir vopn og í vaxandi mæli mannskap. Síðarnefndi þátturinn er alvarlegur og lagast ekki með tímanum. Enda virðist Úkrænustjórn til í að semja um um vopnahlé og hugsanleg stríðslok, en þó ekki þannig enn sem komið er að vilja gefa mikið eftir til að ná samningum. 

Það eru á hinn bóginn vaxandi líkur á að þrýstingur verði lagður á Úkrænu af hálfu Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja í þá veru að til að koma á vopnahléi og hugsanlegum friðarsamningum gefi hún gefi eftir land sem Rússar hertóku skömmu eftir innrás þeirra í febrúar 2022. Slíkur þrýstingur hefst eftir að Trump verður forseti 20. janúar næstkomandi, jafnvel fyrr ef vígstaða Úkrænuhers versnar til muna á næstu vikum, sem er alls ekki útilokað.

Það yrði auðvitað ekki ákjósanleg lausn fyrir Úkrænu að neyðast til að láta hernumið land fyrir frið – og hafa ber í huga að Rússar ráða yfir um 20 prósentum af úkrænsku landi. 

Miklu skiptir hvort tækist að búa þannig um hnútana í samningum að í staðinn fyrir eftirgjöf í landi yrði öryggi og fullveldi Úkrænu tryggt. Forsenda þess væri að NATO ríkin sæju Úkrænu fyrir þeim hernaðarlega og fjárhagslega stuðningi sem dygði til að tryggja hana til lengri tíma.

Lykilatriði mundu auðvitað snúast annarsvegar um vilja Rússa og hinsvegar vilja og staðfestu Bandaríkjanna og NATO í bráð og lengd fyrir hönd Úkrænu. 

Meginforsendur mála virðast skýrar ef til kemur. En hvað verður er auðvitað önnur saga og afar mikilvæg atriði að sjálfsögðu óviss enn sem komið er.

Meðfylgjandi er videopistill frá Ian Bremmer um stöðu mála í Úkrænustríðinu, stefnu Trumps og fleiri áhugaverð atriði sem snerta stríðið og hugsanlega samninga um lyktir þess. Ég hef áður birt efni frá Bremmer á vefsíðunni enda er hann virtur og skýr og skeleggur álitsgjafi með meiru – (“American political scientist, author, and entrepreneur focused on global political risk. He is the founder and president of Eurasia Group, a political risk research and consulting firm. He is also a founder of GZERO Media, a digital media firm.”)

Hér er krækja á pistil Bremmers: https://www.youtube.com/watch?v=_XA7Ff-cgRE&t=348s

„Hann veit hvað hann er að gera“ – umfjöllun á Vísi

Hér kemur umfjöllun uppúr viðtali við mig sem tekið var fyrr í vikunni á Vísi um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.
https://www.visir.is/g/20242639588d/barattan-um-bandarikin-hann-veit-hvad-hann-er-ad-gera-

„Hann veit hvað hann er að gera, að mínu mati. Og þess vegna heldur hann sínu,“ sagði Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra í Washington, um Donald Trump í Baráttunni um Bandaríkin í vikunni.

Staðan í skoðanakönnunum er enn þannig að vart sér á milli Trump og Kamölu Harris. Harris sótti verulega á eftir að hún tók við kyndlinum fyrir Demókrataflokkinn af Joe Biden forseta en síðan hefur dregist saman á milli frambjóðendanna og stuðningur við Trump staðið óhaggaður í gegnum hin ýmsu hneyksli.

Meðal þeirra sem Trump hefur örugglega í horni sínu er enda stór hópur fólks sem þykir það hafa borið skarðan hlut frá borði í allmörg ár og verið hunsað af stjórnmálaelítinunni „í feninu“ í Washington, eins og Trump verður gjarna að orði.

Þetta er til að mynda fólk sem býr í svokölluðu ryðbelti, þar sem verksmiðjustörf hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar framleiðsla fluttist úr landi. Albert, sem var sendiherra í Washington frá 2006 til 2009, segir þessa sögu ná 40 ár aftur í tímann.

„Það er hægt að mæla þetta einhver fjörtíu ár aftur í tímann,“ sagði hann. „Þetta er kjaraskerðing sem á margar rætur; þetta er mjög flókið en eitt er að störfin fóru, það er eitt. Og síðan eru aðrir hópar, á öðrum svæðum í Bandaríkjunum, að fá launahækkanir og hagnast á hlutabréfum og hvað það er… aftur, þetta er flókið. Og þetta fólk er ekki að fá það, þetta er ekki að skila sér til þessa fólks.”

„Hann er bara að spila á píanóið“

„Trump er ekki með eitthvað trix í þessum skilningi,“ sagði Albert. 

„Það er raunverulegur hópur sem hefur orðið illa úti. Það er bara þannig. Síðan er úti á kanti alls kyns furðulið, sem okkur finnst, og sást á 6. janúar 2021, þegar árásin var gerð á þinghúsið. En í grunninn eru þetta venjulegir Ameríkanar, mikið í þessum sveifluríkjum, lykilríkjum sem skipta öllu máli í þessum kosningum, og bara hafa umkvörtunarefni.“

„Hann er bara að spila á píanóið,“ sagði Albert um hinar ýmsu yfirlýsingar Trump, sem hafa vakið ótta hjá mörgum sem eru uggandi yfir mögulegu öðru kjörtímabili hans í Hvíta húsinu. Má þar nefna nýleg ummæli þar sem hann talaði um að kalla herinn til gegn andstæðingum sínum.

Albert gefur ekki mikið fyrir stórkarlalega tilburði Trump og segir hann vera að höfða til ákveðins hóps.

„Horfum bara á hans kjörtímabil; Bandaríkin fóru náttúrulega ekki á hliðina. Og hann fór ekkert stórkostlega út af sporinu. Með einni mjög mikilvægri undantekningu, sem var í kjölfar kosninganna 2020, þegar hann sakaði kerfið og andstæðinginn um kosningasvindl. Og árásin á þinghúsið, sem var skelfilegt fyrirbæri fyrir Bandaríkjamenn, flesta, hún átti auðvitað rætur í þessum ásökunum Trump um kosningasvindl, að kosningunum hefði verið stolið.“

Úkræna er í erfiðri og áhættusamri stöðu

Úkrænustríðið hefur leitt í ljós að Rússland er ekki burðugt herveldi – og í grunninn ekki stórveldi. Má telja líklegt eftir hrakför rússneska hersins í Úkrænu að Rússland geti haft í té við NATO og ógnað öðrum ríkjum í Evrópu hernaðarlega?

Svarið virðist vera klárt nei, en breytir því ekki að Úkræna er í afar þröngri stöðu í stríðinu.

Herir beggja virðast reyndar vera að niðurlotum komnir. Á hinn bóginn ráða Rússar enn yfir um 20 prósentum af úkrænsku landi.

Heldur stríðið áfram eða nálgast sú stund sem margir telja óhjákvæmilega? Að komið verði á vopnahléi og samningum, sem byggist á þeirrri lykilforsendu að Úkræna gefi eftir land? Og hvað fengi hún i staðinn – og þá ekki frá Rússum heldur frá NATO ríkjunum?

Líkleg meginskýring á óvæntri innrás Úkrænuhers inn í Kursk hérað í Rússlandi, sem hófst 6. ágúst, virðist hafa verið að niðurlægja Putin stjórnina til þess einkum að þvinga hana til að flytja herlið frá Donbass svæðinu í austurhluta Úkrænu til að verjast í Kursk.

Mikið hefur skiljanlega verið gert úr djarfri sókn Úkrænuhers inn í Kursk og jafnvel haldið fram að hún gerbreyti stöðunni í Úkrænustríðinu. Þó hægt hafi mjög á henni felur innrásin vissulega í sér mikla niðurlægingu fyrir Putin forseta, rússneska herinn og rússneska stjórnkerfið. Innrásarlið hefur ekki farið inn í Rússland síðan 1941 þegar her nasista réðist þar inn í síðari heimsstyrjöld.

Spurningin sem skiptir mestu er hvort innrás Úkrænuhers í Rússland í Kursk styrki hann í stríðinu í Úkrænu en einkum í Donbass þar sem hann hefur átt undir högg að sækja? Þar hefur þungamiðja stríðsins legið um langa hríð og Rússar verið í sókn að undanförnu þótt hægt hafi gengið.

Að tapa Donbass yrði alvarlegt áfall fyrir Úkrænu. Jafnframt mundu margir líta á það sem rússneskan sigur því á Donbass eru héruðin Donetsk og Luhansk, yfirlýst rússnesk lýðveldi á úkrænsku landi. Þar var upphaf stríðsins 2014. Áður en kom til stórfelldrar innrásar í Úkrænu í febrúar 2022 höfðu Rússar og rússneskumælandi úkrænskir bandamenn þeirra lagt 2/3 hluta Donbass undir sig.

Aðalatriði í stríðinu nú er hvort innrásin í Kursk veiki eða stöðvi sókn rússneskra herssveita í átt að lykilstöðum á Donbass. Til að það gerist þarf hún að neyða Rússa til að flytja herlið frá Donbass til Kursk.

Það hefur ekki gerst og fjótlega virtist líklegt að Putin mundi ekki bíta á agnið heldur láta innrásina í Kursk yfir sig ganga – í bili – og vegna þess að ekkert mætti trufla sókn Rússa í Donbass. Nýlega sagði Putin hreint út í ræðu að með innrásinni í Kursk hafi Úkrænumenn ætlað “stöðva sókn okkar gegn lykilstöðum í Donbass” en það hafi ekki gengið eftir.

Rússar hafa sótt að bæjunum Pokrovsk, Chasiv Yar og Kramatursk. Ef þeir féllu í hendur Rússa yrðu svæðin sem þeir eiga enn eftir að taka í Donbass innan seilingar.

Rússar eiga einungis eftir að taka um þriðjung af Donbas, en hafa jafnframt nauman tíma eða fram á haustið þegar svæðið breytist í forað þar til um áramót og jafnvel lengur. En þeir eiga möguleika á að ljúka sókninni í Donbass með sigri á þessu mikilvæga svæði. Áfallið fyrir Úkrænu yrði mikið sem fyrr sagði og í kjölfarið mundu Rússar geta flutt lið frá Donbass til Kursk til að sækja að Úkrænuher þar og hrekja út úr Rússlandi.

Þetta er hin áhættusama staða nú fyrir Úkrænu auk þeirrar hættu sem stafar frá eldfauga- og flugskeytaárásum Rússa á mikilvæga innviði en einkum raforkuver.

En Úkrænustríðið hefur jafnframt leitt í ljós að Rússland er ekki burðugt herveldi – og ekki stórveldi

Innrás Rússa í Úkrænu, sem hófst í febrúar 2022, hefur verið næstum samfelld hrakför rússneskra hersveita. Svartahafsfloti Rússa er fyrir löngu flúinn af hólmi í átökum gegn ríki sem á ekki flota. Rússneski flugherinn hefur verið í aukahlutverki í átökunum í Úkrænu. Rússar hafa ekki sem heitið getur komið samræmdum hernaðaraðgerðum flughers og landhers í verk í stríðinu og Rússlandsher getur samkvæmt því ekki talist vera öflugur nútímaher. Allt þetta endurspeglar mikla og almenna veikleika rússneska hersins og Rússlands, veikleika sem Úkrænustríðið hefur afhjúpað og magnað.

Sókn rússneska hersins í Donbass hefur vissulega náð árangri en það er gegn veikburða andstæðingi og hún hefur gengið afar hægt og reynst hræðilega mannfrek talið í föllnum og særðum – og henni er enn ekki lokið. Hergagnatjón heldur áfram og er svo mikið að rússneski herinn verður að sækja skriðdreka, brynvagna og annan búnað í áratuga gamlar birgðir frá tíma Sovétríkjanna. Auk þess að neyðast til að kaupa hergögn frá ríkjum eins og Íran og Norður Kóreu.

Hver trúir í alvöru eftir vægast sagt slaka frammistöðu rússneska hersins í Úkrænustríðinu að Rússland sé stórveldi; herveldi sem geti haft í té við NATO og ógnað ríkjum þess eða öðrum Evrópuríkjum hernaðarlega?

Á hinn bóginn hefur Úkræna ekki sterka stöðu

Veikleikar Úkrænu í stríðinu eru margir en birtast skýrast á einum stað. Hann er sá að þrátt fyrir hraklega frammistöðu Rússlandshers og augljósa alvarlega veikleika hans má heita útilokað að Úkrænuher reki Rússa út úr Úkrænu.

Báðir herir virðast nálgast að vera að niðurlotum komnir í stríðinu í Úkrænu. Sá meginmunur er þó á að Rússar ráða enn yfir næstum 20 prósentum af úkrænsku landi.

Mun stríðið halda áfram eða nálgast það þann stað sem margir telja óhjákvæmilegan? Að komið verði á vopnahléi og samningum byggt á þeirri lykilforsendu að Úkræna gefi eftir land. Og hvað fengi hún i staðinn? Hvaða öryggistryggingar, hve mikinn hernaðarlegan stuðning til að styðja við þær, og hve mikla fjárhagslega aðstoð til að reisa við efnahaginn og byggja upp?

Þar yrði um risastórt verkefni að ræða sem kæmi að miklu leyti til kasta NATO ríkjanna að leysa og þeirra á meðal er Ísland auðvitað.

Stefna og staðfesta NATO ríkjanna, örlæti þeirra í garð Úkrænu og fórnfýsi í þágu stöðugleika í Evrópu mun skipta mestu þegar kemur að eftirmálum stríðsins í Úkrænu.