Svarið við spurningunni er: Já, að vissu marki. Þá er átt við hvernig vaxandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu hefur náð til norðurslóða. Skýr merki þessa sáust í ummælum bandarískra ráðamanna í heimsóknum til Íslands á árinu 2019 og uppástungu sem Bandaríkjaforseti gerði í ágúst um að Bandaríkin keyptu Grænland af Dönum.
Hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna og Rússlands á norðurslóðum eru í grunninn hinir sömu og þeir hafa verið í áratugi og lúta að kjarnorkujafnvæginu milli þessara tveggja stórvelda.
Aðeins einu sinni á árinu 2019 virðist rússneskur kafbátur hafa komið út á Atlantshaf og á svæði í námunda við Ísland. Lítil rússnesk hernaðarleg umsvif úti á Atlantshafi eru í samræmi við undanfarin ár og reyndar allan tímann frá falli Sovétríkjanna enda er Norðurfloti Rússlands miklu minni en sá sovéski var. Við það bætist að forgangshlutverk flotans er í norðurhöfum – norðanverðu Noregshafi og Barentshafi en ekki úti á Atlantshafi.
Mikilvæg þróun er að hefjast sem mun þegar fram í sækir auka hernaðarþýðingu norðurslóða. Það stafar af því að langdrægar stýriflaugar sem Norðurflotinn er að byrja að taka í notkun munu væntanlega á næsta áratug eða svo gefa norðurslóðum nýtt og aukið hlutverk og þá varðandi hernaðarjafnvægið í Evrópu.
Á sama tíma mun hernaðarleg þungamiðja á Norður Atlantshafi færast enn norðar og fjær Íslandi en þegar er orðið. Það ræðst af því að nýju flaugarnar geta náð til skotmarka á meginlandinu frá skipum og kafbátum í norðanverðu Noregshafi og Barentshafi. Jafnframt eykst verulega mikilvægi þessara svæða fyrir NATO sem í átökum þyrfti að geta sótt inn á þau til að ná til herskipa og kafbáta sem bæru stýriflaugarnar .
Sem fyrr mundu eftirlits- og kafbátaleitarflugvélar frá Íslandi – sem og eldsneytisflutningaflugvélar – styðja við hernaðaraðgerðir NATO í norðurhöfum í hugsanlegum átökum þó þau færu aðallega fram langt fyrir norðan landið.
Hernaðarumsvif á vegum Kína eru enn ekki til staðar á norðurslóðum. Hins vegar hefur aukinn áhugi Kínverja á svæðinu birst í áheyrnarþátttöku í starfi Norðurskautsráðsins og þeir hafa mótað sérstaka norðurslóðastefnu.
Efnahagsleg umsvif Kínverja á norðurslóðum hafa vaxið verulega á undanförnum örfáum árum en eru næstum eingöngu í norður Rússlandi vegna stóraukinnar vinnslu jarðefnaeldsneytis þar. Kínverjar eru fjárfestar í þessari vinnslu og stærstu kaupendurnir. Áhugi og umsvif Kínverja á norðurslóðum eiga ef að líkum lætur eftir að vaxa vegna aukins aðgengis að náttúruauðlindum og frekari opnunar siglingaleiða við norðurströnd Rússlands í kjölfar hlýnunar Jarðar.
Leiði hlýnunin til þess að siglingar hefjist þvert yfir Norðurskautið – sem að sumra mati gæti orðið um miðja öldina – mun það valda grundvallarbreytingu á þýðingu norðurslóða. Upp úr því væri viðbúið að samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu kæmi að fullu fram á norðurslóðum.
—
Efnisyfirlit: Bandaríkin og Rússland á norðurslóðum – Þróun Norðurflota Rússlands – Kafbáti veitt eftirför frá Keflavíkurflugvelli – Nýtt hlutverk Norðurflotans og aukið hernaðarlegt mikilvægi norðurslóða – Kína á norðurslóðum – Samkeppni Bandaríkjanna og Kína
Bandaríkin og Rússland á norðurslóðum
Norðurslóðir tengjast náið kjarnorkujafnvæginu milli Bandaríkjanna og Rússlands. Þær mundu því hafa mikla hernaðarlega þýðingu færi svo ólíklega að alvarlegur hættutími eða átök yrðu milli NATO og Rússlands. Þannig hefur verið frá því á áttunda áratugnum þegar Sovétríkin hófu að taka í notkun svo langdrægar eldflaugar í kafbátum að ekki varð lengur að sigla niður Atlantshaf til að ná til skotmarka í Bandaríkjunum heldur mátti gera það frá norðurhöfum. Upp úr þessu var eldflaugakafbátum sovéska Norðurflotans, sem hefur bækistöðvar á Kolaskaga í norðvestur Rússlandi, haldið úti í Barentshafi, sem gaf norðurslóðum nýja og mjög aukna hernaðarlega þýðingu.
Þótt aðeins sé um nokkra kafbáta að ræða bera eldflaugar þeirra stóran hluta kjarnorkuherstyrks Rússlands. Enda er meginmarkmið Norðurflotans að tryggja varnir þessara kafbáta og bækistöðva flotans á Kolaskaga. Þar er einnig ratsjárstöð sem mundi vara við bandarískri eldflaugaárárás yfir Norðurheimsskaut. Loks eru þar flugvellir sem langdrægar flugvélar geta notað til millilendinga á leið til árása. Þær geta ýmist borið kjarnavopn eða venjuleg vopn.
Þessar flugvélar, sem og langdrægar eftirlits og kafbátaleitarflugvélar (maritime patrol aircraft), fljúga út á Atlantshaf í æfingaskyni en það er sjaldan. Þær virðast hafa komið tvisvar í námunda við Ísland á árinu 2019, í mars og í júlí. Sömu sögu er að er að segja um ferðir langdrægra rússneskra flugvéla nálægt Alaska og Kanada. Flugvélar af þessu tagi í Rússlandsher telja aðeins nokkra tugi, eru komnar til ára sinna og óvissa er um framtíð þessa hluta hersins.
Bandaríkin hafa augljóslega mikilvægra öryggishagsmuna að gæta á norðurslóðum vegna eldflaugakafbáta Rússa. Þeir valda því að Bandaríkjafloti (einnig breski og franski flotinn) halda uppi eftirliti með kafbátunum og afla upplýsinga um þá; einnig um svonefnda árásarkafbáta (attack submarine) sem gæta eldflaugakafbátanna en geta líka sinnt öðrum hlutverkum. Vesturveldin stunda þessa upplýsingaöflun með árásarkafbátum og með eftirlits og kafbátaleitarflugvélum.
Ferðum árásarkafbáta NATO ríkja til norðurhafa hefur fjölgað á síðustu árum, sem sést af norskum fréttum um hvenær þeir leita til hafna í norður Noregi til að taka vistir og skipta um áhafnir. Þessi aukning stafar ef til vill einkum af því að verið er að afla upplýsinga um nýja kafbáta sem Rússar hafa verið að taka í notkun. Einkum er reynt að afla upplýsinga um hljóð sem stafa frá kafbátunum. Einnig hafa Bandaríkin hagsmuni á norðurslóðum sem lúta að ratsjárstöðvum í Thule á norður Grænlandi sem þar hafa verið frá 1960 og mundu vara við kjarnorkuárás frá rússneskum eldflaugum yfir Norðurheimsskaut í átt til Norður Ameríku.
Ennfremur hafa norðurslóðir tengst náið hernaðarstefnu NATO þannig að Bandaríkjafloti og flotar annarra NATO ríkja gera ráð fyrir að sækja inn á norðurslóðir til að tryggja öryggi norður Noregs og ógna rússneska Norðurflotanum og bækistöðvum hans. Þetta er þáttur í fælingarstefnu NATO í Evrópu.
Að öðru leyti en því sem lýtur að öryggi kjarnorkuheraflans snúast hernaðarumsvif Rússa á norðurslóðum um fullveldi, eftirlit og öryggi á feikna stóru svæði sem fellur undir lögsögu þeirra. Þarna eru gífurlegar náttúruauðlindir og eftir því stórir efnahagslegir möguleikar. Stórfelld vinnsla á olíu og jarðgasi og kolum er hafin og miklar áætlanir eru uppi um að auka hana. Þessir mikilvægu efnahagslegu hagsmunir Rússa fara vaxandi eftir því sem hlýnun Jarðar gerir auðlindir á svæðinu aðgengilegri en áður. Siglingaleiðin úti fyrir norðurströnd Rússlands er lykilatriði varðandi flutning á olíu, gasi, kolum frá svæðinu sem og fyrir flutning á nauðsynlegum aðföngum vegna vinnslunnar og uppbyggingar hafna og annarra innviða sem henni tengjast.
Þróun Norðurflota Rússlands
Norðurflotinn einbeitir sér að norðanverðu Noregshafi og Barentshafi til að sinna forgangshlutverki sínu, sem eins og fyrr var nefnt er að tryggja öryggi eldflaugakafbáta í Barentshafi og verja norðvestur Rússland. Hertæknileg þróun veldur því að framangreind hafsvæði munu fá enn aukna þýðingu fyrir Rússa.
Rússneskur kafbátur virðist aðeins einu sinni hafa komið út á Atlantshaf og á svæði í námunda við Ísland á árinu 2019. Þá mun rússneskur kafbátur hafa verið í rússneskri flotadeild sem æfði í Noregshafi í ágúst á leið frá æfingum í Eystrasalti.
Að einn kafbátur hafi komið í námunda við Ísland allt árið 2019 er ályktun dregin af upplýsingum, sem eru meðal annars aðgengilegar á alnetinu, um ferðir eftirlits og kafbátaleitarflugvéla um Keflavíkurflugvöll og víðar. Spurningin er hvort og hvenær þær eru nógu margar þar til að anna eftirför óslitið. Til þess þarf 3-5 flugvélar, 3 ef eftirför er í samvinnu við flugvélar annarsstaðar, 5 ef hún er eingöngu gerð frá Keflavíkurflugvelli.
Kafbáti veitt eftirför frá Keflavíkurflugvelli: Í seinni hluta október 2019 hófst rússnesk kafbátaæfing í norðurhöfum. Um hana var fjallað ítarlega í norskum fjölmiðlum og byggt á opinberum upplýsingum hers og upplýsingaþjónustu um fjölda, gerðir sem og staðsetningu sumra kafbátanna við upphaf æfingarinnar.
Kafbátarnir voru 10 að sagt var, þar af 8 kjarnorkuknúnir og tveir dísilbátar. Svo virðist að 4 bátanna, allir kjarnorkuknúnir, hafi verið þeirrar gerðar sem kemur út á Atlantshaf, svonefndir árásarkafbátar (attack submarine). Við upphaf æfingarinnar voru þeir í norðanverðu Noreghafi. Hinir 4 kjarnorkuknúnu bátarnir hafa væntanlega verið eldflaugakafbátar og árásarkafbátar í Barentshafi.
Meðan á æfingunni stóð sigldi kafbátur suður á bóginn og var honum veitt eftirför af hálfu eftirlits og leitarflugvéla (Maritime Patrol Aircraft) frá Noregi og Íslandi. Að einn kafbátur hafi verið á ferð er ályktun byggð á tölu leitarflugvéla á Keflavíkurflugvelli. Hún varð mest 5 flugvélar en talan hefði að líkindum verið hærri ef fleiri kafbátar hefðu verið á kreiki. Þá má næstum slá föstu að einn eða fleiri bandarískir árásarkafbátar hafi veitt þeim rússneska eftirför, jafnvel einnig breskir og franskir árásarkafbátar.
Eftirfarandi er lýsing á umræddri eftirför flugvéla frá Íslandi eins og hún virðist hafa gengið fyrir sig í aðalatriðum. Hernaðaryfirvöld láta skiljanlega ekkert uppi um aðgerðir af þessu tagi. Hér er byggt á ýmsum upplýsingum. Að miklu leyti eru það upplýsingar sem eru aðgengilegar á Twitter síðunni Mil Radar og koma fram í heimildaskrá sem fylgir þessum pistli.
Þegar vitað er að rússneskur kafbátur sé á ferð suður á Norður Atlantshafi safnast nokkrar eftirlits og leitarflugvélar til Keflavíkurflugvallar til að fylgja kabátnum eftir óslitið. Hópur flugvéla af þessu tagi er því eins og fyrr sagði vísbending um að kafbátur sé talinn vera á kreiki. Reyndar var slíkur viðbúnaður einnig á flugvellinum frá 28. janúar til 20. febrúar 2019 en ekki virðist hafa komið til þess að vart yrði við kafbát og eftirför hæfist.
Um og eftir mánaðarmótin október-nóvember 2019 hófst eftirför frá Keflavíkurflugvelli. Að tala um eftirför (tracking) en ekki leit er ályktun byggð á því að svo virtist að flugið hafi ekki verið dreift eins og við leit heldur var flogið að mestu leyti í ákveðnar áttir, fyrst suðaustur og suður af landinu og síðar í suðvesturátt.
Fyrstu daga nóvembermánaðar tóku kafbátaleitarflugvélar Bandaríkjaflota af gerðinni P-8 Poseidon að safnast til Keflavíkurflugvallar, fyrst frá Andoya herflugvellinum í Noregi þaðan sem eftirförin hófst. Um tíma virðist hún hafa verið gerð bæði frá Andoya og Keflavíkurflugvelli en síðan eingöngu frá Íslandi þegar kafbáturinn kom sunnar á bóginn. Um hríð tók einnig kanadísk leitarflugvél af gerðinni P-3C Orion þátt í eftirförinni.
Frá og með 8.nóvember héldu 5 bandarískar P-8 flugvélar til skiptis uppi eftirförinni. Upp úr miðjum nóvember var kafbáturinn greinilega kominn langt suður í haf því þá barst leikurinn frá Keflavíkurflugvelli til Lajesflugvallar á Asoreyjum. Þangað tíndust flugvélarnar frá Íslandi dagana 17.-20.nóvember.
Síðar í mánuðinum var von á flugvélamóðurskipinu Harry S. Truman ásamt fylgdarskipum á leið hjá Asoreyjum til Miðjarðarhafs áleiðis til Persaflóa. Ekki er ólíklegt að kafbátnum hafi verið stefnt að Asoreyjasvæðinu til að fylgjast með bandarísku skipunum og ef til vill æfa gegn þeim. Opinberlega var kunnugt um ferðir þeirra með drjúgum fyrirvara.
Hinn 27.desember flugu 3 P-8 flugvélar frá Lajes til Keflavíkurflugvallar. Daginn eftir var byrjað að fljúga þaðan en 7. janúar var því hætt og héldu flugvélarnar aftur til bækistöðvar sinnar við Sigonella á Sikiley.
Að einungis einn rússneskur kafbátur hafi komið í námunda við Ísland á árinu 2019 er í samræmi við afar lítil rússnesk hernaðarumsvif á svæðinu undanfarin ár – og reyndar allt frá lokum kalda stríðsins – líkt og komið hefur fram í fyrri greinum á þessari vefsíðu. Einn kafbátur virðist hafa komið í námunda við landið á árinu 2014 og sömu sögu virðist mega segja um 2017 og 2018 og nú 2019. Samkvæmt því hafa einungis 4 rússneskir kafbátar komið út á Atlantshaf frá því að slíkar ferðir hófust að nýju 2014 eftir langt hlé.
Nærtækasta skýringin er að kafbátum af því tagi í Norðurflotanum sem geta sótt út á Atlantshaf fer fækkandi. Um sömu báta er að ræða og þá sem sinna forgangshlutverki Norðurflotans við varnir eldflaugakafbáta og norðvestur Rússlands. Þessir bátar eru nú líklega 14 talsins og í mesta lagi helmingurinn til taks(operational) að talið er eða 7 bátar. Líkur eru á að um og upp úr 2030 verði kafbátar af þessu tagi jafnvel færri en nú er. Það stafar af því að flestir kafbátar í flotanum voru smíðaðir í kalda stríðinu eða skömmu eftir það og endurnýjun kafbátaflotans gengur hægt.
Nýtt hlutverk Norðurflotans og aukið hernaðarlegt mikilvægi norðurslóða:
Líkt og fram hefur komið í fyrri pistlum á vefsíðunni mundi meginþungi átaka á Norður Atlantshafi vera sífellt fjær Íslandi en áður. Hin hernaðarlega og herfræðilega þungamiðja hefur færst norður fyrir svonefnt GIUK-hlið. Það er herfræðilegt hugtak og á við hafsvæðin milli Grænlands, Íslands og Bretlands. Tilfærslan í norður stafar af því að forgangsverkefni Norðurflotans er sem fyrr í Barentshafi og nágrenni jafnframt því að hann er miklu minni en sá sovéski var.
Þegar til lengri tíma er litið – næstu 10-15 ár – munu líklega eiga sér stað breytingar sem færa þungamiðjuna enn norðar en orðið er. Breytingarnar varða hernaðarlegt hlutverk Norðurflotans og norðurslóða og eiga rætur í þróun rússneskrar hertækni sem leiðir til langdrægra stýriflauga af svonefndri Kalibr gerð í vopnabúri Norðurflotans. Slíkar flaugar hafa lengi verið í skipum og kafbátum bandaríska flotans en Norðurflotinn er er rétt að byrja að taka í notkun flaugar af þessu tagi.
Það mun að líkum taka að minnsta kosti allan þriðja áratuginn og jafnvel lengur, að koma smám saman upp vopnabúri Kalbir flauga og smíða nýja árásarkafbáta og herskip með nauðsynlegan búnað um borð til að skjóta flaugunum. Herskipa og kafbátasmíði er feikna dýr og flókin. Ætlunin er að smíða 7 kafbáta af nýrri gerð, svonefndri Yasen gerð. Smíði tveggja er lokið en það virðist munu taka þriðja áratuginn að smíða þá 5 sem eftir eru. Þá eru nýju stýriflaugarnar væntanlega dýrar. Bandarískar flaugar sambærilegar Kalibr flaugunum rússnesku kosta eina og hálfa milljón dollara hver flaug. Að einhverju leyti verður Kalibr flaugunum komið fyrir í uppfærðum eldri kafbátum – að því að virðist í tveimur slíkum af svonefndri Oscar gerð.
Kalibr flaugarnar draga að talið er á bilinu 1500-2500 kílómetra og geta ýmist borið venjulegan sprengjuodd eða kjarnaodd. Unnið er að þróun Kalibr flauga sem munu ef til vill draga allt að 4500 kílómetra. Þær gætu verið komnar í notkun í lok þriðja áratugarins að talið er.
Í kalda stríðinu gerði NATO ráð fyrir að Norðurflotinn mundi í hugsanlegum átökum reyna að ráðast gegn herflutningum á siglingaleiðum yfir Atlantshaf frá Norður Ameríku til Evrópu. Öryggi þessara flutningaleiða á hafinu var augljóst lykilatriði fyrir NATO í landhernaði á meginlandinu. Gjarnan er þó álitið að það hafi í reynd aldrei verið ætlunin með Norðurflotanum að herja á flutningaleiðirnar. Sú var skoðun upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna, CIA, sem kom fram í leyniskýrslu á síðari stigum kalda stríðsins. Í skýrslunni sagði að forgangshlutverk Norðurflotans væri og hefði verið varnir Barentshafs og norðvestur Rússlands gegn flota NATO en einkum gegn Bandaríkjaflota og flugvélamóðurskipum hans. [1]Þetta voru verkefni sem kröfðust þess að stórum hluta af herstyrk sovéska Norðurflotans væri haldið í norðurhöfum fjarri siglingaleiðum suður í Atlantshafi.
Nýju flaugarnar mundu gera Norðurflotanum kleift í átökum að ná til skotmarka víða í Evrópu frá norðanverðu Noregshafi og Barentshafi; og auðvitað þar á meðal til hafna, flugvalla og mannvirkja á hraðbrautum og mannvirkja tengdum lestasamgöngum. Þannig mundi Norðurflotinn fá möguleika til þess í átökum að hindra að hergögn og annar búnaður frá Norður Ameríku næði til hersveita og vígvalla– og án þess að hann þyrfti að sækja út á Atlantshaf til að herja á siglingaleiðir.
Gangi þetta eftir sem allt bendir til þótt ekki sé fyllilega ljóst hve langan tíma það kann að taka, fylgja því í aðalatriðum þrennskonar afleiðingar.[2]
Í fyrsta lagi mundu Norðurflotinn og norðurslóðir tengjast öryggi í Evrópu með nýjum hætti sem hefði mikla þýðingu færi svo ólíklega að til átaka kæmi milli NATO og Rússlands.
Í öðru lagi yrði floti Bandaríkjanna og flotar annarra NATO ríkja að búa sig undir að geta barist enn lengra í norðri en áður til að koma í veg fyrir ógn frá hinum nýju flaugum Norðurflotans. Eftir því sem sækja þyrfti lengra inn á meginathafnasvæði hans og heimahöf ykist auðvitað áskorun og áhætta NATO flotans.
Geta flota NATO ríkjanna til að berjast við Norðurflotann langt norður í höfum yrði að vera sýnileg og trúverðug til að styrkja fælingarstefnu NATO gagnvart Rússlandi. Samkvæmt því má búast við auknum umsvifum og æfingum herja NATO ríkja á norðurslóðum. Flug bandarískra sprengjuflugvéla yfir norðurhöfum í nóvember 2019 þar á meðal í fyrsta sinn langt austur í Barentshaf er ef til vill vísbending um líkur á slíkri þróun. Einnig má nefna að bandaríski flugherinn gerði úttekt á malarflugbraut á Jan Mayen í nóvember 2019 vegna hugsanlegra lendinga Herkúles flutningaflugvéla þar vegna æfinga og aðflutninga þangað eins og það var orðað. Á Jan Mayen reka norsk stjórnvöld veðurathugunarstöð en Bandaríkjaher hefur enn sem komið er að minnsta kosti enga starfsemi þar. Lokst er athyglisvert að í verkefnislýsingu hins endurreista Atlantshafsflota Bandaríkjanna eru norðurslóðir nefndar sérstaklega auk Norður Atlantshafs.
Staða Noregs er sérstakur þáttur í þessu öllu sem ekki er pláss til að fara út í hér. Norður Noregur hefur hernaðarlega þýðingu vegna mikilla öryggishagsmuna Rússa í norðurhöfum. Í átökum er líklegt að Rússar hæfu hernaðaraðgerðir gegn norður Noregi til að reyna að efla varnir sínar í Noregshafi, Barentshafi og norðvestur Rússlandi. Nýju stýriflaugarnar auka þýðingu norður Noregs að þessu leyti fyrir Rússa og auðvelda jafnframt sókn gegn hernaðarlega mikilvægum stöðum þar.
Þriðja afleiðing þess að Norðurflotinn verður búinn miklu langdrægari vopnum en áður verður að hernaðarleg þungamiðja sem löngum var í GIUK hliðinu á Norður Atlantshafi – milli Grænlands, Íslands og Bretlandseyja – færist norður fyrir það, inn á norðurslóðir langt ofan við heimsskautsbaug. Það mun væntanlega skila sér í stefnu og umsvifum NATO eins og áður sagði.
Í hugsanlegum átökum mundu eftirlits- og kafbátaleitarflugvélar frá Íslandi – sem og eldsneytisflutningaflugvélar – styðja við hernaðaraðgerðir NATO í norðurhöfum þótt átökin yrðu aðallega langt fyrir norðan landið. Væntanlega yrðu einnig gerðar ráðstafanir með orrustu- og ratsjárþotum til að verja landið gegn langdrægum stýriflaugum.
Það sjónarmið hefur komið fram að þrátt fyrir að langdrægu rússnesku stýriflaugarnar leiði til mikilla breytinga, verði GIUK hliðið ekki þar með úr sögunni (will not eliminate it) því Norðurflotinn mundi í átökum freista þess að hafa framvarnir sínar í GIUK hliðinu.[3] Það er í samræmi við niðurstöðu í norskri skýrlu 2015 um að „metnaður“ (ambition) Norðurflotans yrði að koma upp framvörnum í GIUK hliðinu)[4] en það er akkúrat sem það er: “metnaður” til að ná því markmiði en ekki þar með sagt að geta til þess sé fyrir hendi.
Rússnesk flotadeild æfði í ágúst 2019 á hafinu úti fyrir Helgeland og Lofoten í Noregi – þ.e. um og norðan við miðbik Noregshafs. Ekki er ljóst hvað má lesa í rússneskar fyrirætlanir út frá æfingunni því flotadeildin var á heimleið eftir æfingar í Eystrasalti. Eftir sem áður skiptir öllu fyrir Norðurflotann að verja eldflaugakafbátana í Barentshafi og norðvestur Rússland en jafnframt með miklu minni flotastyrk en sovéski flotinn hafði. Það eitt dregur úr þýðingu GIUK hliðsins. Þá er óumdeilt að hinar nýju langdrægu stýriflaugar Norðurflotans draga stórlega úr þörf Norðurflotans fyrir það í átökum að reyna að ráðast gegn flutningaleiðum á Norður Atlantshafi, sem reyndar var ef til vill aldrei ætlunin eins og fyrr var vikið að.
Kína á norðurslóðum
Kína er stórveldi með vaxandi umsvif á norðurslóðum. Þau lúta þó enn næstum eingöngu að vinnslu á jarðgasi í norður Rússlandi. Þar eru Kínverjar fjárfestar en þó aðallega kaupendur að milljónum tonna á ári af gasi í vökvaformi sem er flutt á skipum á norðurleiðinni úti fyrir ströndum norður Rússlands. Gert er ráð fyrir að þessi viðskipti aukist hratt og mikið á næstu árum. Þá standa kínverskir aðilar í samvinnu við rússnesk fyrirtæki að borunum eftir olíu og gasi í Barentshafi og Karahafi og hefur þegar fundist mikið magn.
Hernaðarumsvif á vegum Kína eru ekki til staðar á norðurslóðum. Hins vegar hafa pólitísk umsvif Kínverja aukist með þátttöku í starfi Norðurskautsráðsins. Þá hafa þeir nýlega mótað sérstaka norðurslóðastefnu. Ennfremur hafa þeir reynt að fá norðurslóðaríki til þátttöku í Belti og braut áætluninni en hún er um fjárfestingar í innviðum víða um heim. Kína og Rússland eiga þegar í samvinnu tengdri Belti og braut.
Kínverjar munu auka athafnasemi sína á norðurslóðum hratt á næstu árum vegna frekari vinnslu olíu og gaslinda í norður Rússlandi og undan ströndum far. Á Grænlandi stefnir kínverskt fyrirtæki að námagreftri á einum stað með áströlskum samstarfsaðila.
Þegar kemur lengra fram á öldina eru það einkum tvö atriði sem geta leitt til þess að hagsmunir Kínverja á norðurslóðum aukist mjög verulega.
Fyrra atriðið lýtur að öryggi kjarnavopna Kína með svipuðum hætti og á við kjarnavopn Rússlands og fyrr var nefnt. Kínverjar eru að byrja að taka í notkun kafbáta sem bera eldflaugar með kjarnaodda. Að því kann að koma að áliti bandaríska landvarnaráðuneytisins að Kínverjar haldi slíkum kafbátum úti í Íshafinu til að tryggja öryggi þeirra.[5] Það mundi kalla á önnur kínversk hernaðarumsvif til að annast eftirlit og til að tryggja varnir kafbátana.
Enn er langt í land að Kínverjum takist að smíða nógu marga kafbáta til að geta stöðugt haldið úti einhverjum bátum í Íshafinu. Einnig mundu þeir eiga mikið verk óunnið við að gera kafbáta almennt hljóðlátari en nú er, en það er lykilatriði varðandi öryggi bátanna. Því er með öllu óvíst hvenær af því gæti orðið, ef nokkurntíma, að kínverskir eldflaugkafbátar héldu til á norðurslóðum. Á einhverjum punkti í þróun kjarnorkuherstyrks Kína gæti þó verið rökrétt að efla öryggi hans með þessum hætti og þar með fælingarmátt hans. Til marks um það munu vera til tilvitnanir í kínverska hernaðarsérfræðinga.[6]
Síðara atriðið mundi hafa grundvallarbreytingar í för með sér og stórefla áhuga ríkja heims, stórvelda sem annarra, á norðurslóðum. Það yrði ef hlýnun Jarðar næði því stigi að Norðurskautsleiðin þvert yfir Íshafið opnaðist fyrir skipaflutninga og þá þannig að stór gámaflutningaskip gætu siglt eftir henni. Hún gæti orðið álíka mikilvæg – jafnvel mikilvægari – en leiðirnar um Súez skurð og Panama skurð.
Opnun Norðurskautsleiðarinnar er talin hugsanleg um og upp úr miðri öldinni. Það mundi kalla á umskipunarhafnir austan og vestan megin leiðarinnar- þar á meðal líklega á Íslandi.
Samkeppni Bandaríkjanna og Kína á norðurslóðum og á heimsvísu
Norðurslóðir eru enn ekki áberandi í stefnumörkun sem varðar þjóðaröryggi og hernaðarstefnu Bandaríkjanna. Sérstakar skýrslur hafa reyndar verið gerðar um þær af hálfu varnarmálaráðuneytis, sjóhers og strandgæslu en eru fremur almennt orðaðar þegar kemur að bandarískum hagsmunum og fyrirætlunum.
Vaxandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu hefur þó birst með skýrum hætti í stefnu Bandaríkjanna gagnvart svæðinu og sérstaklega varðandi Ísland og Grænland.
Árið 2019 var afar sérstakt í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Bæði Pence,varaforseti Bandaríkjanna, og Pompeo, utanríkisráðherra, komu til landsins. Heimsóknir svo háttsettra bandarískra ráðamanna hafa verið mjög sjaldgæfar í áratuga langri sögu samskipta ríkjanna. Og báðir komu þeir Pence og Pompeo – líkt og fjallað var um á þessari vefsíðu í kjölfar heimsóknanna – til að tala einkum um Kína og norðurslóðir.
Pompeo kom í febrúar vegna þess að bandarísk stjórnvöld litu svo á að Kínverjar vildu ná fótfestu á Íslandi, meðal annars með hafnaraðstöðu í þeim tilgangi að Ísland yrði að flutningamiðstöð fyrir þá vegna norðurslóða. Í máli hans á fréttamannafundi kom fram að Ísland væri dæmigert fyrir stað þar sem Bandaríkin þyrftu að vera diplómatískt sýnilegri en þau væru til að sýna bandamönnum að þeir ættu stuðning Bandaríkjanna vísan og til að gefa þeim aðra kosti en biðlun (courtship) Kínverja. Bandaríkin hefðu vanrækt Ísland og til að skapa mótvægi við Rússa og Kínverja á norðurslóðum yrðu þau að eiga vini og bandamenn á svæðinu. Bandarísk stjórnvöld mundu ekki lengur taka vini, sanna bandamenn og samstarfsaðila sem sjálfsagðan hlut enda hefðu þau hreinlega ekki efni á að vanrækja þá. Því má bæta við hér að í ræðu, sem Pompeo hélt á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í maí 2019 kom fram veruleg gagnrýni og tortryggni í garð Kína hvað norðurslóðir varðaði.
Pence varaforseti kom til Íslands í byrjun september, skömmu eftir að Trump forseti viðraði hugmynd um að Bandaríkin keyptu Grænland. Hugmyndina kynnti forsetinn að haft var eftir ónefndum heimildarmönnum í bandaríska stjórnkerfinu í kjölfar samtala við embættismenn sína og hún kom fram af “strategískum” ástæðum. Einnig lá fyrir ætlan Bandaríkjastjórnar að opna aðalræðisskrifstofu í Nuuk á árinu 2020.
Þetta var í kjölfar frétta af áhuga kínverskra fyrirtækja á verktöku vegna flugvallagerðar á Grænlandi og námavinnslu þar. Fullyrt er að bandaríska stjórnin hafi með þrýstingi á dönsk stjórnvöld náð því fram að kínversk fyrirtæki fengu ekki að bjóða í flugvallagerð á Grænlandi.
Í Íslandsheimsókn sinni hitti Pence fréttamenn. Í ljós kom að honum lá all mikið niðri fyrir varðandi Kínverja og gekk enn lengra en Pompeo hvað þá varðaði. Meðal annars varaði Pence Íslendinga við Huawei fyrirtækinu. Hann kvaðst hafa bent utanríkisráðherra Íslands á hættur sem væru því samfara að eiga samvinnu við Huawei sem bæri skylda til þess að láta kínverskum stjórnvöldum í té upplýsingar úr fjarskiptakerfum fyrirtækisins.
Pence þakkaði íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa hafnað tilboði Kína um þátttöku í kínversku innviðaáætluninni Belti og braut. Að sögn utanríkisráðherra Íslands höfðu stjórnvöld ekki hafnað tilboðinu en ekki tekið því heldur. Sendiherra Kína á Íslandi brást við með því að saka Pence í viðtali við Morgunblaðið um „meinfýsinn rógburð“ og „falsfréttir“ vegna ummæla varaforsetans um Belti og braut og fullyrðinga hans um afstöðu íslenskra stjórnvalda í því efni.
Stefna Bandaríkjanna gagnvart Grænlandi og ummæli Pence og Pompeo í Íslandsheimssóknunum bera skýr merki stórveldasamkeppni. Þetta á við tilhneigingu til að líta svo á að ávinningur keppinautarins, hversu lítill sem hann kann að sýnast, hljóti að skaða mann sjálfan og veikja í samkeppninni (þetta er svonefnt zero-sum einkenni). Jafnframt er sóst eftir hylli og stuðningi ríkja, stórra sem smárra, til að styrkja eigin stöðu og loks reynt að grafa undan keppinautnum.
Með yfirlýsingum Pence og Pompeo í Íslandsheimsóknunum var með dæmigerðum hætti stórvelda verið að senda Kínverjum merki, skilaboð um að Ísland væri á áhrifasvæði Bandaríkjanna og Kína ekki velkomið. Tilboð um kaup á Grænlandi og afskipti af fyrirætlunum kínverskra verktaka þar í landi voru að sama skapi til að undirstrika að það er á bandarísku áhrifasvæði.
Mál kínverska fjarskiptarisans Huawei er angi af samkeppni Bandaríkjanna og Kína og hefur greinilega mikla þýðingu í augum stjórnvalda beggja stórvelda. Bandarísk stjórnvöld líta beinlínis fjandsamlegum augum á kínverska fyrirtækið og reyna að grafa undan því. Sendiherrar bæði Bandaríkjanna og Kína hafa reynt að þrýsta á Færeyinga varðandi Huawei. Bandaríski sendiherrann gerði það með fyrrnefndum öryggisrökum, sá kínverski með því að tengja Huawei við möguleika Færeyinga á viðskiptum við Kína.
Þá hefur Bandaríkjaþing pantað skýrslu frá landvarnaráðherranum um kínverskar fjárfestingar á norðurslóðum. Í skýrslunni skuli sjónum beint að áhrifum slíkra fjárfestinga á þjóðaröryggi Bandaríkjanna og stöðu þeirra í samkeppni stórvelda á norðurslóðum. Einnig hefur þingið beðið um skýrslu um hernaðarumsvif Kínverja og Rússa á svæðinu.
—
Bandaríkin eru enn öflugust stórveldanna en Kína er næst í röðinni. Kína er þegar orðið efnahagslegt stórveldi og hefur markað sér stórveldastefnu. Kína er (og einnig Rússland) endurskoðunarsinnað (revisionist) stórveldi, en markmið slíkra velda er almennt að grafa undan ríkjandi skipulagi, heimsmála í þeim tilgangi að auka vald sitt og virðingu. Markmið Kínverja er einkum að veikja stöðu Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu. Kína hefur stóraukið diplómatísk og pólitísk umsvif sín í alþjóðamálum og er í krafti efnahagslegrar burða í útrás í Asíu, Evrópu og víðar, þar á meðal með Belti og braut áætluninni.
Samkeppni Kína og Bandaríkjanna á eftir að þróast á næstu áratugum. Hætta á stríði milli þeirra virðist lítil – með eðlilegum fyrirvara um hugsanlega hættutíma sem upp kunna að koma og geta haft neikvæð áhrif á ákvarðanatöku og atburðarás og valdið mistökum. Framan af að minnsta kosti munu Kína og Bandaríkin fyrst og fremst eigast við á pólitísku, efnahagslegu og tæknilegu sviði. Þetta er þegar svo gott sem orðin samkeppni á heimsvísu og hún mun væntanlega harðna með tímanum í efnahagslegu og hernaðarlegu tilliti vegna þess að Kína vex áfram ásmegin og vegna hugmyndafræðilegra þátta og ágreinings milli Bandaríkjanna og Kína.
Það var á tíma Obama stjórnarinnar að ákveðið var að beina þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna í auknum mæli að Kína og að Asíu-Kyrrahafssvæðið fengi forgang í henni. Það hefur hert á þessu eftir að Trump varð forseti og deilur magnast um tækni og viðskipti, en það er alls ekki aðalatriði hvað samkeppnina við Kína varðar hvað stjórn er við völd í Washington hverju sinni. Bandaríkin munu í sívaxandi mæli beina sjónum að því að skapa mótvægi gegn Kína sem getur líklega orðið öflugasti keppinautur sem Bandaríkin hafa staðið frammi fyrir. Kína ætlar sér greinilega ráðandi stöðu í Asíu og mikil áhrif í öðrum heimshlutum og alþjóðakerfinu í heild.
Samkeppnin milli þessara tveggja mestu stórvelda heims verður meginþáttur í stefnu þeirra og afstöðu til flestra mála og ríkja í heiminum. Þess er ekki kostur í stuttri grein að fjalla nánar um samkeppni þeirra en gjarnan er gert ráð fyrir að hún eigi eftir að harðna og ráða mestu um alþjóðamál á öldinni.
Komi til þess eftir einhverja áratugi að Norðurskautsleiðin verði greiðfær, verður eins og áður sagði grundvallarbreyting á skipaflutningum í heiminum en áhrif á öryggismál yrðu einnig mikil. Íshafið yrði að mestu opið og Bandaríkin og Kína mundu gera ráðstafanir til að tryggja öryggi sitt gegn hugsanlegri ógn frá norðurslóðum. Það mundi, ásamt opnun Norðurskautsleiðarinnar, leiða til þess að samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu kæmi að fullu fram á norðurslóðum.
Greinin tengist eftirfarandi fyrri greinum á vefsíðunni :
Bandaríkin og Ísland og norðurslóðir – og Kína! – 10. október 2019.
Lítil hernaðarleg umsvif Rússa við Ísland – 2, apríl 2019.
Heræfingin Trident Juncture 2018 og hernaðarleg þýðing norðurslóða – 14.október 2018.
Hernaðarleg staða Íslands í sögu og samtíma – 4. mars 2018.
[1] The Role of Interdiction at Sea in Soviet Naval Strategy and Operations: An Intelligence Assessment, Central Intelligence Agency, National Foreign Assessment Center, maí 1978 (skýrsla gerð opinber og birt á alnetinu í júní 2017). https://www.cia.gov/library/readingroom/docs/DOC_0005530564.pdf
[2] Um hernaðarleg áhrif hinna nýju langdrægu stýriflauga Norðurflotans, sjá: Unified Effort, Expert Commission on Norwegian Security and Defence Policy, Norwegian Ministry of Defence, 2015, Andrew Metrick and Kathleen H. Hicks, Contested Seas: Maritime Domain Awareness in Northern Europe, Center for Strategic and International Studies, mars 2018, Ísland og Bandaríkin – og norðurslóðir – og Kína!, Vefsíða um alþjóðamál og utanríkismál, 10 október 2019, Heræfingin Trindent Juncture 2018 og hernaðarleg þýðing norðurslóða, ibid, 14. Október 2018, Bandaríski flugherinn hyggur á framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir tæpa 7 milljarða króna, ibid 13. Mars 2019, Steve Wills, “Mind the (High North) Gap”, The Maritime Executive, 18. júlí 2018, Magnus F. Nordenman, “Five Questions NATO Must Answer in the North Atlantic”, US Naval Institute Proceedings, mars 2019, Magnus F. Nordenman, The New Battle for the Atlantic, Naval Institute Press 2019, Andrew Metrick, “(Un) Mind the Gap”, US Naval Institute Proceedings, október 2019.
[3] „The GIUK Gap´s Strategic Significance“, Strategic Comments, International Institute for Strategic Studies, október 2019.
[4] Unified Effort, Expert Commission on Norwegian Security and Defence Policy, Norwegian Ministry of Defence, 2015.
[5] Annual Report to Congress: Military and Security Developments Involving the People´s Republic of China 2019, Office of the Secretary of Defense, 2. maí 2019., bls. V.
[6] Ann-Marie Brady, „Facing up to China´s Military Interests in the Arctic“, China Brief, Jamestown Foundation, 10. desember 2019, og Ryan D. Martinson, The Role of the Arctic in China´s Naval Strategy, Jamestown Foundation, 24. desember 2019.
Pingback: Samkeppni stórveldanna hefur náð til norðurslóða - VILJINN
Hlýnun norðurslóða, með opnun sigligaleiða og mikilla auðæfa N-Íshafs og aðliggjandi landflæma, skiptir öll stórveldin miklu máli… og mikilvægi Íslands í miðju GIUK-hliðinu mun að sama skapi aukast… sérstaklega ef litið er langt fram í tímann. Skipulagsannsókn á þessu gaf ég út fyrir 14 árum í bókinni “How the World will Change -with Global Warming”, en hún er á https://notendur.hi.is/tv/ (undir BOOKS). Þar er t.d. á bls.120 fjallað um mikilvægi Íshafsleiðarinnar, ef spennur og átök trufla sjóflutninga til og frá SA-Asíu.
Fyrir 25 árum, fjölluðum við Albert um norðurleiðina í bók okkar “Við aldahvörf – Staða Íslands i breyttum heimi” á bls.39: https://notendur.hi.is/tv/Content/Books/Vid%20aldahvorf.pdf
LikeLike
Pingback: Herskipaleiðangur í Barentshaf – Breytt staða Íslands – Alþjóðamál og utanríkismál
Pingback: Ísland og umheimurinn 2020-2050 – Alþjóðamál og utanríkismál