Um margt sem fram kemur í þessari grein hefur verið fjallað ítarlega – og ítrekað í sumum tilvikum – á þessari vefsíðu um utanríkismál og alþjóðamál og á henni er auðvelt aðgengi að því efni.
Öryggi lands og þjóðar
Ein lykilforsenda ríkisvalds er að tryggja landamæri ríkisins og halda uppi löggæslu. Hvort tveggja er jafnframt háð samvinnu stjórnvalda við erlenda aðila – ríki og stofnanir.
Íslensk stjórnvöld eiga auðvitað að geta stjórnað því hverjir komi til landsins og vita í hvaða tilgangi þeir eru hingað komnir. Flóknara er það ekki, en reynsla sýnir að umbóta er þörf í svonefndum útlendingamálum. Að því mun vera unnið að bæta úr með því að færa hælisleitendamál til sama horfs og er á hinum Norðurlöndunum.
Óháð því þarf að tryggja fullnægjandi eftirlit á landamærunum til að koma í veg fyrir að skipulögð glæpaöfl og hættulegir einstaklingar komist til landsins.
Það er grundvallarspurning hvort eyríkið Ísland eigi heima í Schengen samstarfi Evrópurikja um opin landamæri. Ein lykilforsenda Schengen samstarfsins er að þátttökuríkin eiga landamæri með öðrum Schengen ríkjum. Það á vitanlega ekki við Ísland, ekki frekar en til dæmis við eyríkið Bretland sem tók ekki þátt í Schengen og var þó í ESB þegar samstarfinu var komið á fót.
Það þarf að láta reyna á hvaða möguleikar eru á því í Schengen með vísan í landfræðilega sérstöðu Íslands að herða eftirlit á landamærunum. Í því fælist að taka aftur upp almenna vegabréfaskoðun hjá þeim sem koma til Íslands frá Schengen ríkjum, taka upp myndgreiningarkerfi á landamærastöðvum og ganga eftir því að öll flugfélög afhendi farþegalista áður en flugvélar þeirra koma til landsins.
Auk þess að herða landamæraeftirlit þarf auðvitað að tryggja öfluga löggæslu í landinu en einnig landhelgisgæslu sem er útbúin til þess að hafa fullnægjandi eftirlit með hafsvæðum við landið.
Vond samskipti NATO ríkja við Rússa auka hættu á ógn við öryggi fjarskiptastrengja sem liggja að landinu neðansjávar. Hér er umgrundvallaraöryggisatriði að ræða fyrir samfélagið. Jafnframt ætti að vera tiltölulega auðvelt að fylgjast með ferðum erlendra skipa við landið í þeim tilgangi að gæta öryggis strengjanns. Nú stendur til að landhelgisgæslan fái ómannaðan kafbát til eftirlits með strengjunum.
Líkur á ógn við netöryggi á landinu aukast einnig vegna erfiðra samskipta við Rússland. Verði séð fyrir nægum björgum í tækjum og mannskap og þekkingu virðist mega sinna netöryggi áfram með fullnægjandi hætti.
Loks þarf að huga að hugsanlegum fjölþátta ógnum. Það á við mögulegar ógnir sem lúta meðal annars að óeðlilegum þrýstingi og að undirróðri af hálfu erlendra ríkja. Í þessu samhengi þarf sérstaklega að horfa til harðandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu og á norðurslóðum.
Öll þessi framangreindu grundvallarmál eru borgaraleg öryggismál. Verkefnin eru á könnu íslenskra stjórnvalda – lögreglu, tollgæslu, landhelgisgæslu, og fjarskiptastofu (CERTIS) – verkefni sem engin ástæða er til að ætla að þessir aðilar ráði ekki við hafi þeir þann búnað og mannskap sem til þarf.
Öðru máli gegnir um hervarnirnar, sem íslensk stjórnvöld geta ekki ráðið við. Þæreru hins vegar í föstum skorðum með varnarsamstarfinu við Bandaríkin og hvíla á mikilli hernaðargetu þeirra. Jafnframt er ólíklegt að reyni á hana því þrátt fyrir allt er styrjöld milli NATO og Rússlands áfram almennt talin ólíkleg. Grundvallaratriði er að einungis slík styrjöld fæli í sér þannig ógn að kallaði á hervarnir og hún ætti nær eingöngu við Keflavíkurflugvöll og loftvarnir hans vegna.
Líkur á styrjöld milli NATO og Rússlands hafa væntanlega minnkað enn frekar en áður var. Afar slök frammistaða rússneska hersins í Úkrænustríðinu bendir til þess sem og mjög bágt ástand hans í kjölfar stríðsins. Þeir alvarlegu veikleikar Rússlandshers sem það hefur ýmist valdið eða leitt í ljós eiga við landher, flugher og flota. Það mun taka mörg ár að koma á fullnægjandi endurbótum og endurreisa herinn þannig að hann yrði í stakk búinn til að geta tekist á við NATO.
Það segir sína sögu í þessum efnum að rússneski herinn – flugher og floti, þar á meðal kafbátar – hefur svo gott sem horfið á undanförnum árum af Norður Atlantshafi. Flugvélar Bandaríkjahers sem hafa tímabundna viðveru á Keflavíkurflugvelli sinna þaðan að langmestu leyti eftirliti og njósnum á Eystrasalti úti fyrir rússneska landsvæðinu þar sem heitir Kaliningrad. Svo hefur verið undanfarin ár.
Stundum koma fram hugmyndir um aukinn hlut Íslendinga í vörnum landsins. En grundvallaratriði er að ekkert mögulegt slíkt framlag fæli í sér virðisauka fyrir hervarnirnar, sem snúast fyrst og síðast um loftvarnir gegn flugvélum og stýriflaugum frá þeim – og hernað gegn kafbátum sem bera stýriflaugar.
Í tengslum við erfiðleika í samskiptum Trump stjórnarinnar og NATO ríkja hefur örlað á efasemdum hér á landi um að treysta mætti því að Bandaríkin stæðu við varnarskuldbindingar gagnvart Íslandi ef á þyrfti að halda í stórveldastríði. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess. Ætla má að það sé grundvallaratriði að svo lengi sem Íslendingar vilja halda varnarsamstarfinu áfram muni þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum – ef ekki á meginlandi Evrópu – viðhalda áhuga Bandaríkjahers á aðstöðu á Íslandi. Ef til vill annað mál hvað Íslendingar kynnu að vilja
Loftslagsstefnan og þjóðaratkvæði um ESB – umræðan og samfélagið
Loftslagsstefna Íslands endar að óbreyttu í ógöngum jafnt innanlands sem út á við. Hún mun fyrr en síðar valda samfélaginu miklu meiri kostnaði en þegar er orðið og leiða í ofanálag til deilna og sundrungar. Og það án þess að yfirlýst óraunsæ markmið Íslands í loftslagsmálum náist.
Vandi loftslagsstefnunnar felst í því grundvallaratriði að íslenskur orkubúskapur er allt annars eðlis en hjá næstum öllum öðrum ríkjum. Það stafar af því að hlutfall endurnýjanlegrar orku er margfalt hærra á Íslandi en annarsstaðar. Það á við almennt og hvað varðar ESB sérstaklega. Þar eru nánustu samstarfsríki Íslands í loftslagsmálum vegna sameiginlegra markmiða með þeim um minni losun gróðurhúsalofttegunda og vegna sameiginlegs viðskiptakerfis með loftslagsheimildir.
Þeirri grundvallarspurningu er enn ósvarað í íslenskri umræðu og stefnumótun hvaða afleiðingar afgerandi munur á orkubúskap á Íslandi og í öðrum ríkjum hafi fyrir loftslagsstefnuna.
Að minnka losun enn frekar en þegar hefur verið gert hér á landi í krafti endurnýjanlegrar orku yrði miklu dýrara hér en annarsstaðar. Það er þekkt að því lengra sem ríki ná í að minnka losun þeim mun dýrara verður framhaldið auk þess að í síauknum mæli þarf að kaupa svonefndar loftslagsheimildir á markaði fyrir sífellt fleiri milljarða á ári.
Leið út úr vanda loftslagsstefnunnar væri að taka upp nýja stefnu byggða á sérstöðu Íslands í orkumálum samanborið við önnur ríki. Stefnan fælist í því að Ísland mundi bíða með frekari aðgerðir í loftslagsmálum þangað til önnur ríki, ein einkum evrópsku samstarfsríkin, hefðu að minnsta kosti nálgast verulega stöðu Íslands í orkumálum. Á hinn bóginn er ástæða til að ætla að samstarfsríkin í ESB gætu ekki fallist á slíka undanþágu vegna meginreglna í starfsemi þess. Á það yrði að reyna. Að öðrum kosti yrði óhjákvæmilega að hætta samstarfinu.
Stefnt er að því af hálfu ríkisstjórnarinnar að eigi síðar en 2027 fari fram “Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna (feitletrun mín) um aðild Íslands að Evrópusambandinu” eins og segir í stjórnarsáttmála en virðist pólitískur orðaleikur. Grundvallaratriði er, líkt og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB orðaði það: „Ef Ísland tekur upp nýja stefnu og ákveður að ræða aftur (feitletrun mín)um aðild [að Evrópusambandinu], þá verður það spurning sem aðildarríkin taka fyrir og ákveða næstu skref” (RÚV, 15. janúar 2025).
Hér er ekki pláss til að ræða hvers vegna fyrri aðildarviðræður 2009-2013 runnu út í sandinn. Að ýmsra áliti var vandinn meðal annars falinn í því að umsóknina skorti nauðsynlegar pólitískar forsendur og skýrt umboð þjóðarinnar. Nú virðist eiga að bæta úr með því að þjóðin ákveði hvort ræða eigi aftur um aðild.
Örlög aðildarumsóknarinnar beina meðal annars sjónum að því um hvað eigi að spyrja í þjóðarakvæðinu og auðvitað að því um hvað eigi að upplýsa kjósendur í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar og um hvað skuli ræða. Að fram fari upplýst umræða og eftir það atkvæðagreiðsla um spurningu sem samstaða ríki um. Að öðrum kosti verða enn harkalegri deilur en ella um málið í samfélaginu.
Lykilspurning í aðdraganda þjóðaratkvæðis hlýtur að vera hvaða íslenskir grundvallarhagsmunir kalli á aðildarviðræður?
Fyrir liggur að íslenskt samfélag spjarar sig afar vel utan ESB. Ísland er eitt af ríkustu og farsælustu löndum í veröldinni. Ein ástæða af mörgum er sú að EES samningurinn tryggir næstum fulllan aðgang að markaði ESB. Það er því grundvallaratriði að það þarf ekki aðild að ESB til að fá þann mikilvæga markaðsaðgang.
Gjarnan er bent á að með aðild að ESB fái Ísland “sæti við borðið” og áhrif á ákvarðanir sem snerta mikilvæga íslenska hagsmuni. Möguleikar Íslands til að hafa áhrif á mótun reglna á innri markaði ESB eru þegar tryggðir í EES samningnum. Þegar líklegt vægi Íslands sem aðila að ESB er reiknað út frá reglum sambandsins kemur eðlilega í ljós að vægið yrði afar lítið enda Íslendingar brotabrot af tæplega 450 milljónum borgara ESB landanna.
Þá er grundvallarspurning hver ætti síðasta orðið um fiskveiðar við Ísland eftir aðild. Skýrt er í sáttmálum ESB að stofnanir sambandsins eiga síðasta orðið þegar um er að ræða verndun og viðhald fiskistofna. Ennfremur liggur fyrir að ekki fást varanlegar undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB heldur svonefndar sérlausnir. Álykta má út frá sögu og veiðireynslu að ekki þyrfti að úthluta afla af Íslandsmiðum til skipa frá öðru ESB ríkjum. En óvíst er hvort tækist jafnframt að girða fyrir fjárfestingar aðila í ESB í íslenskum sjávarútvegi sem þannig kæmust bakdyramegin í afla af Íslandsmiðum.
Í aðildarviðræðunum 2009-2013 reyndi ekki á nein aðalatiði í sjávarútvegsmálum því viðræður um þau komust að heita má aldrei í gang. Því var haldið fram að þeim hefði hvort eð er verið sjálfhætt vegna þess að fulltrúar ESB hefðu talið ljóst að samningsgrundvöllur væri ekki til staðar. Að minnsta kosti er ljóst að á það reyndi ekki og því jafn óvíst sem fyrr hvort Ísland fengi fullnægjandi lausn fyrir sjávarúveg í aðildarviðæðum.
Ein spurning er: gæti ESB eða ríki þess annast varnir Íslands ef Bandaríkin gengju úr skaftinu í vörnum Evrópu? Að Bandaríkin stígi það skref er ólíklegt en ekki útilokað eftir að Trump stjórnin kom til sögu með efasemdir um bandalagið og gagnrýni á það, gælur við höfuðandstæðingana Rússa og í ofanálag með ófrið við NATO ríkin í tollamálum. Að mati höfundar vefsíðunnar hefðu þessi atriði eins og fyrr sagði þó ekki áhrif á varnir Íslands svo lengi sem Íslendingar vildu halda áfram varnarsamstarfinu við Bandaríkin.
Hvað sem öðru líður er grundvallaratriði að ESB eða ríki þess hafa ekki og munu ekki um fyrirsjáanlega framtíð hafa getu til að tryggja hernaðarlegt öryggi eyríkis úti á Norður-Atlantshafi. Það sem þyrfti væru fyrst og síðast öflugar loftvarnir gegn rússneskum stýriflaugum, sem kæmu að landinu, og varnir gegn rússneskum flugvélum langt norður af því áður en stýriflaugar þeirra yrðu sendar af stað. Væru mál á því stigi að stríð NATO og Rússlands væri talið hugsanlegt yrði varðstaða flugvéla (CAP – Combat Air Patrol) nauðsynleg allan sólarhringinn á stórum svæðum vegna loftvarna Íslands. Það mundi kalla á marga tugi orrustuþotna, ratsjárþotur og eldsneytisþotur. Einungis Bandaríkin hafa slíka hernaðargetu. Einnig þyrfti flugvélar til að flytja stöðugt til landsins varahluti og nauðsynlegan mannskap og búnað til að halda loftvarnaflotanum í starhæfu standi á Íslandi og það undir miklu álagi. Það er langt, langt í frá að ESB ríki gætu þetta.
Herir næstum allra ESB ríkjanna eru almennt veikir eftir áratuga vanrækslu og það mun kosta mikið átak og taka að lágmarki við bestu fjárhagsleg skilyrði allmörg ár að byggja þá upp að því marki að þeir gætu tryggt öryggi eigin landa hvað þá annarra og fjarlægra ríkja. ESB er enn fjarri þeim pólitíska samruna sem þarf til að efla svo um munar stöðu þess á alþjóðavettvangi, hvað þá koma á fót sameiginlegum vörnum.
Þannig virðist grundvallaratriði að þjóðaratkvæðið muni væntanlega snúast að miklu leyti um evruna. Aðild að henni er er það eina virðist standa út af í samskiptum Íslands við ESB. Að meta kosti og galla aðildar hlýtur að verða lykilmál í aðdraganda þjóðaratkvæðsins.
Það er grundvallaratriði að aðild að ESB tryggir ekki aðild að evru. Af henni verður ekki hjá viðkomandi ríki eftir aðild fyrr en að loknum aðlögunartíma og að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í þessu felst að ríki eru eftir að þau verða aðilar að ESB og sækjaum evru yrst í einskonar biðstofu evruaðildar. Þar þarf að uppfylla skilyrði um efnahagslegan og fjárhagslegan stöðugleika – þar á meðal ríkisfjármál, gengi og vexti — í að minnsta kosti tvö ár. Það er auðvitað undir viðkomandi ríki komið hve langan tíma það tekur að uppfylla skilyrðin – tvö ár eða lengur.
Þessi grundvallaratriði – biðstofu evruaðildar og skilyrði aðildar – þarf að útskýra í aðdraganda þjóðaratkvæðis. Og þá virðist þurfa að komast að innanlandspólitísku samkomulagi og samkomulagi á vinnumarkaði til að tryggja að gengi, vextir og ríkisfjármál séu innan þeirra marka sem skilyrðin setja. Þau fela almennt í sér róttæka breytingu frá því sem gjarnan hefur viðgengist í íslenskum kjaramálum, verðlagsmálum og ríkisfjármálum.
Hinn augljósi almenni ávinningur af evruaðild felst meðal annars í því að kostnaður sem fylgir gjaldeyrisviðskiptum með krónu fellur niður og skjól fæst hjá seðlabanka ESB sem verður lánveitandi til þrautavara ef alvarlega bjátar á þjóðarbúinu. Gengisstöðugleiki gæti aukist samanborið við krónuna en það ekki einhlítt og gengi krónunnar hefur verið sterkt og stöðugt allmörg undanfarin ár.
En með evruaðild hverfur hagstjórnartæki sem felst í vaxta og gengisstefnu – ekki síst möguleika á að lækka gengi krónunnar til að mæta áföllum og styrkja efnahaginn ef á þarf að halda. Eftir aðild að evru er svonefnd innri gengisfelling kosturinn sem kemur í staðinn. Hún felst einkum í aðgerðum til að lækka laun og skera niður útgjöld ríkisins – aðgerðir sem eru flóknari og tímafrekari en gengisfelling og kalla á pólitískt samkomulag og valda að líkindum meiri og harðari deilum en gengislækkun.
Í aðdraganda þjóðaratkvæðis þarf að eiga sér stað ítarleg, almenn og opin umræða um þessi grundvallaratriði. Ennfremur þarf að koma fram að sögulega hefur íslenska hagkerfið oft ekki verið í takti við við stærstu hagkerfin á evrusvæðinu – oft á betri siglingu en þau hvað hagvöxt varðar en ekki verðlag og stöðugleika. Íslenska hagkerfið hefði smæðar vegna auðvitað aldrei áhrif á gengi evrunnar eða hagstærðir á evrusvæðinu.
Þá þarf að upplýsa að biðstofa evruaðildar snýst einmitt um að viðkomandi ríki sýni fram á efnahagur þess og hagstjórn sé traust og þarafleiðandi megi hleypa því inn í evruna. Á hinn bóginn sýnir þetta að það sé unnt að njóta stöðugleika og hagfelldra vaxta án aðildar að evru. Loks þarf að koma fram í umræðunni að vextir eru mismunandi á evrusvæðinu og að ekki eru öll ESB ríki aðilar að evrunni en spjara sig samt.