Stefna ríkisstjórnarinnar um “öryggi og varnir” er skýr og skynsamleg

Ríkisstjórnin hefur svarað kalli NATO – og Bandaríkjastjórnar – um að evrópsku bandalagsríkin og Kanada verji einu og hálfu prósenti af vergri landsframleiðslu til “öryggis- og varnartengdra” útgjalda. Það á við útgjöld vegna ýmissa innviða, netöryggi, landhelgisgæslu o.fl.

Markmiðinu á að ná á tíu árum. Svigrúm í öryggismálum virðist því töluvert.

Til viðbótar 1,5% framlagi til öryggis og varnartengdra verkefna verður þremur og hálfu prósenti landsframleiðslu varið ár hvert til hervarna. Sú skuldbinding á ekki við Ísland, sem hefur enda ekki her, en lætur í té mikilvæga aðstöðu fyrir NATO en einkum Bandaríkjaher. Bandaríkin eru skuldbundin til að verja landið í samræmi við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951.

Miðað við núverandi landsframleiðslu Íslands og 1,5% af henni er um að ræða um 70 milljarða króna á ári. Ýmis öryggis og varnartengd verkefni hafa auðvitað þegar verið framkvæmd og önnur eru væntanlega í bígerð óháð samþykktum NATO.

Forsendur og markmið stefnunnar eru rakin í grein formanna ríkisstjórnarflokkanna, “Öryggi og varnir Íslands”, sem var birt 25. júní. Í undirfyrirsögn segir “Skýr skilaboð til þjóðarinnar um öryggi og varnir Íslands” og þau eru það vissulega.

Í greininni er horft til þeirrar grundvallarspurningar hver sé “skynsamleg nýting á okkar fjármagni og framlagi” til sameiginlegra varna NATO ríkja. Svarið felst í að verja fé til að efla Landhelgisgæslu Íslands, eftirlit á landamærum, netöryggi, löggæslu og aðra þætti í réttarvörslukerfinu. Ennfremur á að auka áfallaþol samfélagsins með því að byggja upp og verja innviði sem snúa að orku, fjarskiptum og samgöngum.

Málin sem ríkisstjórnin leggur áherslu á í “skilaboðum” hennar um öryggi og varnir eru því borgaraleg öryggismál, verkefni sem eru á könnu íslenskra ríkisstofnana og sem engin ástæða er til að ætla að þær ráði ekki við hafi þær þann búnað og mannskap sem til þarf. Enda segir í grein formannanna að fyrst og fremst eigi að styrkja stöðu Íslands með því að “einbeita okkur að því sem við þekkjum, kunnum og getum hér heima. Þannig tryggjum við hagsmuni Íslands.”

Það er að þessum borgaralegu öryggismálum sem beina á auknum fjármunum á næstu tíu árum en einnig á samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar að halda áfram stuðningi við Úkrænu í stríðinu við Rússa.

Hernaðarleg öryggismál Íslands heyra hinsvegar undir varnarsamstarfið við Bandaríkin sem rekja má aftur til ársins 1941 í síðari heimsstyrjöld. Í varnarsamstarfinu felst jafnframt mikilvægt framlag til hernaðarlegs öryggis á norðurslóðum og friðar á meginlandi Evrópu.

Hernaðarlegt framlag Íslands ræðst af staðsetningu þess og lýtur aðallega að fælingarstefnu NATO gegn Rússlandi. Fælingin snýst um að reyna að sannfæra rússnesk stjórnvöld um það fyrirfram að árás á NATO – sem rétt er að taka fram að er almennt talin ólíkleg – yrði ekki bara svarað á meginlandinu. Það yrði einnig gert með árásum frá flugvélum, kafbátum og herskipum á norðurslóðum á Norðurflotann, stöðvar hans í norðvestur Rússlandi og á skotmörk inni í Rússlandi. Í Norðurflotanum er að finna hryggjarstykkið í langdrægum kjarnorkuvopnum Rússlands sem eru í eldflugakafbátum flotans sem haldið er úti í Barentshafi.

Aðstaða Bandaríkjahers á Íslandi eykur trúverðugleika fælingarstefnunnar. Sýnt er fram á að frá Keflavíkurflugvelli mundi stutt ef þá þyrfti að halda við fyrrnefndar hernaðaraðgerðir gegn Norðurflotanum og Rússlandi með gagnkafbátahernaði, eldsneytisflugvélum, ratsjárþotum og jafnvel langdrægum sprengjuþotum.

Í skilaboðum ríkisstjórnarinnar um öryggi og varnir kemur fleira til en hervarnir og borgaraleg öryggismál þegar hugað er að öryggi þjóðarinnar – og réttilega svo. Þannig er lögð áhersla á að standa vörð um “traust og samheldni í íslensku samfélagi”, sem sé sterkasta vörnin gegn áföllum og árásum í nútímavæddum heimi eins og þar segir.

Loks kemur fram sú afar mikilvæga ábending í skilaboðum ríkisstjórnarinnar um öryggi og varnir að það sé “engin ástæða til ótta – en það er rík ástæða til að vera vel undirbúin.” Það er einmitt grundvallaratriði trúverðugrar fælingar- og öryggisstefnu.

Mynd frá leiðtogafundi NATO í Hag í Hollandi 25.júní 2025.

Veikleikar Írans verða sífellt ljósari, en er komin upp staða til að þoka málum í átt til friðasamlegra lausna í Miðausturlöndum?

Eldflaugaárás Írana í dag á bækistöð Bandaríkjahers í Qatar endurspeglaði mikla veikleika Írans og grundvallarbreytingar á valdajafnvægi í Miðausturlöndum. Íranar sendu fáar flaugar til árásarinnar, álíka margar og Bandaríkjaher notaði í árásina á kjarnorkustöðvar Írana aðfaranótt sunnudags. Íranar létu vita af árásinni svo tryggt væri að varnarkerfi gætu mætt henni og grandað árásarflaugunum. Árásin á bækistöðina í Qatar var með öðrum orðum táknræn.

Þetta minnir á viðbrögð Írana þegar Bandaríkjamenn réðu Soleimani af dögum 2020 til að hefna fyrir árásir á bandarískar herstöðvar í Írak. Solemani var einn af æðstu yfirmönnum byltingarvarðanna í Íran.

Í kjölfar drápsins á Soleimani voru væntingar um harkaleg viðbrögð Írana sem ekkert varð úr.

Nú eru Íranar í enn veikari stððu en 2020. Bandamenn þeirra, hryðjuverkasamtök í Líbanon, Sýrlandi og á Gaza hafa lotið í lægra haldi gagnvart ísraelska hernum og Mossad, ísraelsku leyniþjónustunni. Það kemur í kjölfar aðgerða Ísraelsmanna vegna árásar Hamas samtakanna á Ísrael frá Gaza 7. október 2023.

Íranar eiga fáa vænlega kosti nú til að svara árásum Ísraelshers undanfarna 10 daga eða árás Bandaríjanna um síðusut helgi og hafa engan stuðning – annan en munnlegan – frá öðrum ríkjum á svæðinu, og sama gildir um afstöðu Rússa og Kínverja.

Áhugaverða spurningin er hvort nú sé að verða lag til að hefja viðræður um raunhæfan samning um kjarnorkuáætlun Írana, samning sem allir aðilar telja þjóna öryggi sínu, viðræður jafnframt um frið og stöugleika í Sýrlandi og loks viðræður um tveggja ríkja lausn á deilum Ísraels og Palestínu.

Með öðrum orðum: Kunna þær grundvallarbreytingar sem greinilega hafa orðið á valdastrúktúr og valdajafnvægi í Miðausturlöndum að leiða með tímanum til grundvallarbreytinga á samskiptum ríkjanna á svæðinu?

Njósnaflug undanfarin ár frá Keflavík til Kaliningrad – Hvað er þar?

Bandarískar herflugvélar af gerðinni Boeing Poseidon P-8 hafa stöðugt en tímabundið aðsetur á Keflavíkurflugvelli. Þetta eru eftirlits- og njósnaflugvélar (multi-mission maritime patrol and reconnaissance aircraft). 

Frá Keflavíkurflugvelli eru P-8 vélarnar þó ekki að fylgjast með rússneskum herskipum, kafbátum eða herflugvélum við Ísland eða á Norður Atlantshafi. Væntanlega sakir þess að rússneski herinn hefur ekki sést í námunda við Ísland á síðustu árum og afar lítið á Norður Atlantshafi. Norðurfloti Rússa heldur sig að mestu leyti á nærsvæðum Rússlands á norðurslóðum og í heimahöfum. Langdrægar herflugvélar Rússa halda sig einnig á sömu stöðum. Svona hefur verið í nokkur undanfarin ár eins og ítrekað hefur verið bent á í greinum á þessari vefsíðu um alþjóða- og utanríkismál.

Fylgjast má með flugi Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli á sérhæfðum netsíðum um herflug. Höfundur vefsíðunnar hefur í mörg ár farið daglega inn á slíkar síður til að fylgjast með herflugi, sem tengist Íslandi. Það er gerlegt í öllum aðalatriðum fyrir tilstilli einstaklinga sem halda úti netsíðum þar sem þeir hafa gætur á herflugi í heiminum. Það er gert með aðferðum og búnaði sem skilur herflug frá borgaralegu flugi á síðum eins og flightradar24.com.

Auk æfinga- og þjálfunarflugs við Ísland fara P-8 flugvélar hernaðarflug frá Keflavíkurflugvelli. Það er annarsvegar norður í Barentshaf en hinsvegar og aðallega fljúga vélarnar frá Keflavík til Eystrasalts til að njósna um Kaliningrad. Þessar ferðir hófust í apríl 2021. Oft hefur verið flogið daglega og komið hefur fyrir að tvær P-8 flugvélar fari sama sólarhringinn frá Keflavík til Kaliningrad.

Hvað er Kaliningrad? Það er rétt rúmlega 15 þúsund ferkílómetra rússnesk hólmlenda (semi enclave/exclave) við Eystrasalt á milli Póllands og Litháens og er þannig landfræðilega aðskilin frá Rússlandi. 

Auk þess að vera búnar til árása á kafbáta og herskip eru P-8 vélar fjölhæfar langdrægar eftirlits og njósnaflugvélar sem afla upplýsinga frá sjó en hafa einnig búnað sem getur sótt upplýsingar frá hafi inn í nærliggjandi landsvæði, þar á meðal myndrænar upplýsingar og upplýsingar frá fjarskiptum og rafeindabúnaði. (Sjá t.d.: https://www.navair.navy.mil/product/P-8A-Poseidonhttps://www.boeing.com/defense/p-8-poseidon#overviewhttps://www.flightglobal.com/fixed-wing/germany-signs-for-five-boeing-p-8a-poseidon-maritime-patrol-aircraft/144396.article) Auk flugsins frá Keflavík er reglulega farið í njósnaflug við Kaliningrad af hálfu breska, pólska, sænska og þýska hersins

Hvað er í Kaliningrad sem veldur þessum sérstaka og mikla áhuga sem hófst hjá Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli í apríl 2021 og virðist þannig mega rekja til aðdraganda innrásar Rússa í Úkrænu í febrúar 2022? Um þau atriði verður ekki fullyrt hér auðvitað en meðfylgjandi er krækja á síðu þar sem áhugasamir geta kynnt sér hvað það er af hernaðarlegum toga, sem Rússar hafa og geyma í Kaliningrad. https://www.usni.org/magazines/proceedings/2024/october/strategic-relevance-kaliningrad

Hér eru krækjur sem gefa sýnishorn um nýjasta eftirlits og njósnaflug frá Keflavík til Kaliningrad. Eins og sést á krækjunum er flogið frá Keflavíkurflugvelli til að sveima á stöðum yfir hafi fyrir utan Kaliningrad. 

Segir Trump stjórnin sig frá friðarumleitunum í Úkrænustríðinu – og þar með frá öryggismálum Evrópu? Hvað fælist í því?

Trump Bandaríkjaforseti átti símtal við Putin Rússlandsforseta í gær um Úkrænustríðið. Í símtalinu fékk Rússlandsforseti það sem hann vildi – enn og aftur. Enn einu sinni heyktist Trump á að beita Rússa þrýsitingi eða – sem virðist líklegra – hann ætlaði sér það ekki og hefur aldei ætlað sér að gera það.

Trump kafðist ekki skilyrðislauss vopnahlés eins og Bandaríkin og Evrópuríki í NATO höfðu áður sammælst um, heldur þvert á móti lagði hann til viðræður Rússa og Úkærnumanna um vopnahlé. Fyrst viðræður svo vopnahlé. Það er krafa Rússa. Þeir meina þó ekkert með henni – vilja einungis tefja málin og halda stríðinu áfram óháð því hversu illa það hefur gengið hjá þeim.

Þetta var í annað sinn sem Trump yfirgefur sameiginlega kröfu NATO og Úkrænu um skilyrðislaust vopnahlé.

Putin gaf greinilega hvergi eftir í símtalinu varðandi lykilmarkmið Rússa í Úkrænu.

Nú eftir símtal Putins og Trumps hefur Zelensky lagt til viðræður Úkrænu, Rússlands, Bandaríkjanna, Bretlands og ESB.

Lýsir þetta örvæntingu Zelenskys varðandi stefnu Trump stjórnarinnar? Að mínu mati virðist svo vera og hann tekur með þessu þá áhættu að Rússar gæfu eftir eitthvað til að fá Bandaríkin, Bretland og ESB til að þrýsta sameiginlega á Úkærnu.

En sérstaka athygli vekur að Vance varaforseti Bandaríkjanna var látinn endurtaka í gær þá hótun Trump stjórnarinnar að náist ekki árangur fljótlega í viðræðum um Úkrænustríðið segi hún sig frá tilraunum til að koma á friði. Hótun þessi hafði áður komið fram hjá Rubio, utarníkisráðherra. Trump viðraði sjálfur þessa hótun við fréttamenn í gærkvöldi.

Þar með hefðu Bandaríkin í reynd – eins og bent var á hér á vefsíðunni 30. apríl s.l. – sagt sig frá því að gegna áfram forystuhlutverki í öryggismálum Evrópu.

Þá drægi ekki bara til stórtíðinda heldur grundvallarbreytinga á alþjóðamálum og til loka sögu sem spannar meira en 80 ár og felur í sér kjölfestu NATO, sem er Bandaríkin og skuldbindingar þeirra í garð Evrópu.

Bíður Putin eftir þessu? Og þar með eftir því að ná lykilmarkmið iRússa og þar áður Sovétmanna um að sundra NATO og eyðileggja?

Glittir í að Trump beiti loksins Rússa þrýstingi – eða snýr hann baki við Úkrænu?

Já, það glittir í stefnubreytingu og þrýsting, En bara glittir. Meira er það ekki enn sem komið er.

Jafnframt er hugsanlegt – jafnvel líklegt – að Trump Bandaríkjaforseti missi einfaldlega áhuga á Úkrænustríðinu.

Bandaríkin eru lykilaðili varðandi þróun Úkrænustríðsins en um stefnu þeirra í málinu hefur löngum ríkt óvissa. Það á bæði við stefnu Trumps og forvera hans, Bidens.

Biden stjórnin stóð staðfastlega með Úkrænu pólitískt og diplómatískt. Hún dró hinsvegar lappirnar ítrekað þegar kom að því úrslitaatriði að láta Úkrænu tímanlega í té þau vopn sem þurfti og stjórnvöld í Kænugarði báðu um. 

Ennfremur hafði Biden ekkert plan um hvernig mætti leiða stríðið til lykta þannig að tryggði vopnahlé en jafnframt fullveldi og öryggi Úkrænu í framhaldinu. Eina “planið” var að styðja Úkrænu “svo lengi sem þarf”, sem vitanlega var ekkert plan, auk þess að hergögn sem Úkræna bað um bárust oftar en ekki of seint sem fyrr sagði.

Með Trump varð sú grundvallarbreyting á stefnu Bandaríkjanna að upp kom óvissa um hvort Úkræna nyti yfir höfuð stuðnings þeirra gegn Rússum. Einnig varð til óvissa um afstöðu Bandaríkjanna til Rússlands og Putin stjórnarinnar. Markmiðið virtist allt að því vera að vingast við Putin á kostnað Úkrænu. Standa með andstæðingi NATO á örlagatímum í Evrópu.

Þrýstingur af hálfu Trump stjórnarinnar vegna stríðsins beindist ekki gegn Rússum heldur gegn Úkrænu. Þó hefur Úkrænustjórn verið reiðubúin til að fallast á skilyrðislaust vopnahlé sem fyrsta skref til viðræðna en Rússar hafa ekki fallist á slíkt vopnahlé. Þeir hafa ítrekað kröfur sínar og markmið þeira með innrásinni í Úkrænu eru óbreytt. 

Trump stjórnin virðist nú ætla að hætta vopnasendingum til Úkrænu. Þá fólu tillögur stjórnarinnar í viðræðum við annarsvegar Rússa og hinsvegar Úkrænumenn að Úkræna féllist á helstu kröfur Rússa. Jafnframt gagnrýndi Bandaríkjaforseti ítrekað Zelensky, Úkrænuforseta, reyndi að grafa undan honum, og sagði nokkrum sinnum að Úkræna væri sökudólgurinn í stríðinu. 

Í þessu fólst auðvitað engin eiginleg friðaráætlun enda gekk hvorki né rak í viðræðunum sem Bandaríkjastjórn beitti sér fyrir til að leita lausnar. Úkræna gat ekki fallist á tillögur Trump stjórnarinnar og Rússar höfðu augljóslega engan hvata til að gefa eftir og hætta við það lykilmarkmið með stríðinu að festa Úkrænu inni á rússsnesku áhrifasvæði auk þess að hirða um fimmtung af úkrænsku landi. 

Hið undarlegasta við eftirlátssemi Trumps við Rússa er að þeir eru í veikri stöðu eftir hrakfarir rússneska hersins í stríðinu, mikið manntjón og gífurlegt hergagnatjón. Jafnframt hefur stríðið leitt í ljós alvarlega veikleika landhers, flughers og flota hvað varðar grundvallaratriði eins og skipulag, stjórnun, þjálfun, hæfni svo ekki sé minnst á landlæga spillingu sem nær auvitað inn í raðir hersins og til hergagnaframleiðslunnar.

Vísbendingar hafa komið fram um að glitti í stefnubreytingu hjá Trump og að hugsanlega verði settur þrýstingur á Rússa.

Á Bandaríkjaþingi er uppi tillaga sem kom fram að frumkvæði áhrifamikilla þingmanna repúblikana um mánaðarmótin mars apríl. 

Flutningsmenn í öldungadeild þingsins segja að það sé ráðandi skoðun þar á bæ að Rússar séu árásaraðilinn í Úkrænustríðinu. Þessi málflutningur gengur gegn yfirlýsingum Trumps um orsakasamhengi mála.  Málflutningur þingmannanna felur í sér siðferðilega prinsippafstöðu sem forsetinn hefur aldrei haft – að minnsta kosti ekki opinberlega.

Jafnframt krefjast flutningsmenn tillögunnar að Rússar hætti strax árásarstríðinu gegn Úkrænu. Þá verði í framhaldinu að láta Úkrænuher í té vopn til að fæla Rússa frá frekari hernaðaraðgerðum gegn landinu.  

Tillagan er sögð hafa fengið nægan stuðning hjá þingmönnum repúblikana og demókrata til að ná fram. 

Lykilatriði er að tillagan felur í sér mjög hertar efnahagslegar þvinganir Bandaríkjanna gegn Rússlandi; reyndar stigmögnun aðgerða og gerbreytt eðli þeirra.

Tillagan snýst annarsvegar um að þrengja enn frekar að rússneskum fjármálastofnunum en hins vegar, sem væri eðlisbreyting, að taka upp aðgerðir ekki einungis gegn Rússum heldur einnig gegn ríkjum sem kaupa olíu og gas og úran frá Rússlandi. 

Þar væri um risastóra kaupendur að ræða hvað olíu og gas varðar. Þetta eru Kína og Indland sem samkvæmt þingtillögunni fengju á sig háa refsitolla á útflutning til Bandaríkjanna héldu þessi ríki áfram að kaupa af Rússum. Tilgangurinn væri í aðalatriðum að valda hruni í tekjum Rússlandsstjórnar og gera henni þar með einkar erfitt um vik og jafnvel ókleift að fjármagna hernaðinn gegn Úkrænu.

Trump átti samtal við Zelensky Úkrænuforseta í Vatíkaninu á útfarardegi Francis páfa 26. apríl. Dagana áður höfðu Rússar gert harðar loftárásir á borgir í Úkrænu. Eftir samtalið vakti Trump máls á því að til þess gæti komið að grípa þyrfti til einmitt sömu aðgerða gegn Rússum og felast í tillögunni sem uppi er á Bandaríkjaþingi um mjög hertar efnahagsþvinganir og stigmögnun þeirra. 

Þarna glitti sem sagt í stefnubreytingu hjá forsetanum og hugsanlegt upphaf að því að loksins yrði þrýst í alvöru á Rússa til að knýja þá til vopnahlés og friðarsamninga.

Tillagan er þó enn sem komið er auðvitað bara tillaga og vel hugsanlegt miðað við það sem á undan er gengið að hún gangi allt of langt að mati forsetans og hans manna. 

Mestu kann þó að skipta í þessu máli öllu að utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur ítrekað viðrað að undanförnu þann möguleika að Trump stjórnin hætti viðleitni til að koma á vopnahléi og samningum í Úkrænustríðinu. Ráðherrann hefur í reynd sagt að náist ekki árangur fljótlega missi forsetinn áhuga á málinu og beini þess í stað athygli og atorku Bandaríkjanna í utanríkismálum að öðrum stöðum en Úkrænu og Evrópu, en aðallega að Asíu-Kyrrahafssvæðinu vegna Kína og að Miðausturlöndum. Þeim virðist fara fjölgandi sem telja þennan kost líklegan.

Þar með hefðu Bandaríkin í reynd sagt sig frá því að gegna forystuhlutverki í evrópskum öryggismálum og jafnframt sagt skilið við sögu sem spannar 84 ár – til síðari heimsstyrjaldar.

Utanríkisstefnan: Grundvallaratriði, umræðan og samfélagið 

Um margt sem fram kemur í þessari grein hefur verið fjallað ítarlega – og ítrekað í sumum tilvikum – á þessari vefsíðu um utanríkismál og alþjóðamál og á henni er auðvelt aðgengi að því efni.

Öryggi lands og þjóðar

Ein lykilforsenda ríkisvalds er að tryggja landamæri ríkisins og halda uppi löggæslu. Hvort tveggja er jafnframt háð samvinnu stjórnvalda við erlenda aðila – ríki og stofnanir.

Íslensk stjórnvöld eiga auðvitað að geta stjórnað því hverjir komi til landsins og vita í hvaða tilgangi þeir eru hingað komnir. Flóknara er það ekki, en reynsla sýnir að umbóta er þörf í svonefndum útlendingamálum. Að því mun vera unnið að bæta úr með því að færa hælisleitendamál til sama horfs og er á hinum Norðurlöndunum.

Óháð því þarf að tryggja fullnægjandi eftirlit á landamærunum til að koma í veg fyrir að skipulögð glæpaöfl og hættulegir einstaklingar komist til landsins.

Það er grundvallarspurning hvort eyríkið Ísland eigi heima í Schengen samstarfi Evrópurikja um opin landamæri. Ein lykilforsenda Schengen samstarfsins er að þátttökuríkin eiga landamæri með öðrum Schengen ríkjum. Það á vitanlega ekki við Ísland, ekki frekar en til dæmis við eyríkið Bretland sem tók ekki þátt í Schengen og var þó í ESB þegar samstarfinu var komið á fót.

Það þarf að láta reyna á hvaða möguleikar eru á því í Schengen með vísan í landfræðilega sérstöðu Íslands að herða eftirlit á landamærunum. Í því fælist að taka aftur upp almenna vegabréfaskoðun hjá þeim sem koma til Íslands frá Schengen ríkjum, taka upp myndgreiningarkerfi á landamærastöðvum og ganga eftir því að öll flugfélög afhendi farþegalista áður en flugvélar þeirra koma til landsins.

Auk þess að herða landamæraeftirlit þarf auðvitað að tryggja öfluga löggæslu í landinu en einnig landhelgisgæslu sem er útbúin til þess að hafa fullnægjandi eftirlit með hafsvæðum við landið.

Vond samskipti NATO ríkja við Rússa auka hættu á ógn við öryggi fjarskiptastrengja sem liggja að landinu neðansjávar.  Hér er umgrundvallaraöryggisatriði að ræða fyrir samfélagið. Jafnframt ætti að vera tiltölulega auðvelt að fylgjast með ferðum erlendra skipa við landið í þeim tilgangi að gæta öryggis strengjanns. Nú stendur til að landhelgisgæslan fái ómannaðan kafbát til eftirlits með strengjunum.

Líkur á ógn við netöryggi á landinu aukast einnig vegna erfiðra samskipta við Rússland. Verði séð fyrir nægum björgum í tækjum og mannskap og þekkingu virðist mega sinna netöryggi áfram með fullnægjandi hætti.

Loks þarf að huga að hugsanlegum fjölþátta ógnum. Það á við mögulegar ógnir sem lúta meðal annars að óeðlilegum þrýstingi og að undirróðri af hálfu erlendra ríkja. Í þessu samhengi þarf sérstaklega að horfa til harðandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu og á norðurslóðum.

Öll þessi framangreindu grundvallarmál eru borgaraleg öryggismál. Verkefnin eru á könnu íslenskra stjórnvalda – lögreglu, tollgæslu, landhelgisgæslu, og fjarskiptastofu (CERTIS) – verkefni sem engin ástæða er til að ætla að þessir aðilar ráði ekki við hafi þeir þann búnað og mannskap sem til þarf.

Öðru máli gegnir um hervarnirnar, sem íslensk stjórnvöld geta ekki ráðið við. Þæreru hins vegar í föstum skorðum með varnarsamstarfinu við Bandaríkin og hvíla á mikilli hernaðargetu þeirra. Jafnframt er ólíklegt að reyni á hana því þrátt fyrir allt er styrjöld milli NATO og Rússlands áfram almennt talin ólíkleg. Grundvallaratriði er að einungis slík styrjöld fæli í sér þannig ógn að kallaði á hervarnir og hún ætti nær eingöngu við Keflavíkurflugvöll og loftvarnir hans vegna.

Líkur á styrjöld milli NATO og Rússlands hafa væntanlega minnkað enn frekar en áður var. Afar slök frammistaða rússneska hersins í Úkrænustríðinu bendir til þess sem og mjög bágt ástand hans í kjölfar stríðsins. Þeir alvarlegu veikleikar Rússlandshers sem það hefur ýmist valdið eða leitt í ljós eiga við landher, flugher og flota. Það mun taka mörg ár að koma á fullnægjandi endurbótum og endurreisa herinn þannig að hann yrði í stakk búinn til að geta tekist á við NATO. 

Það segir sína sögu í þessum efnum að rússneski herinn – flugher og floti, þar á meðal kafbátar – hefur svo gott sem horfið á undanförnum árum af Norður Atlantshafi. Flugvélar Bandaríkjahers sem hafa tímabundna viðveru á Keflavíkurflugvelli sinna þaðan að langmestu leyti eftirliti og njósnum á Eystrasalti úti fyrir rússneska landsvæðinu þar sem heitir Kaliningrad. Svo hefur verið undanfarin ár.

Stundum koma fram hugmyndir um aukinn hlut Íslendinga í vörnum landsins. En grundvallaratriði er að ekkert mögulegt slíkt framlag fæli í sér virðisauka fyrir hervarnirnar, sem snúast fyrst og síðast um loftvarnir gegn flugvélum og stýriflaugum frá þeim – og hernað gegn kafbátum sem bera stýriflaugar.

Í tengslum við erfiðleika í samskiptum Trump stjórnarinnar og NATO ríkja hefur örlað á efasemdum hér á landi um að treysta mætti því að Bandaríkin stæðu við varnarskuldbindingar gagnvart Íslandi ef á þyrfti að halda í stórveldastríði. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess. Ætla má að það sé grundvallaratriði að svo lengi sem Íslendingar vilja halda varnarsamstarfinu áfram muni þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum – ef ekki á meginlandi Evrópu – viðhalda áhuga Bandaríkjahers á aðstöðu á Íslandi. Ef til vill annað mál hvað Íslendingar kynnu að vilja 

Loftslagsstefnan og þjóðaratkvæði um ESB – umræðan og samfélagið

Loftslagsstefna Íslands endar að óbreyttu í ógöngum jafnt innanlands sem út á við.  Hún mun fyrr en síðar valda samfélaginu miklu meiri kostnaði en þegar er orðið og leiða í ofanálag til deilna og sundrungar. Og það án þess að yfirlýst óraunsæ markmið Íslands í loftslagsmálum náist. 

Vandi loftslagsstefnunnar felst í því grundvallaratriði að íslenskur orkubúskapur er allt annars eðlis en hjá næstum öllum öðrum ríkjum. Það stafar af því að hlutfall endurnýjanlegrar orku er margfalt hærra á Íslandi en annarsstaðar. Það á við almennt og hvað varðar ESB sérstaklega. Þar eru nánustu samstarfsríki Íslands í loftslagsmálum vegna sameiginlegra markmiða með þeim um minni losun gróðurhúsalofttegunda og vegna sameiginlegs viðskiptakerfis með loftslagsheimildir. 

Þeirri grundvallarspurningu er enn ósvarað í íslenskri umræðu og stefnumótun hvaða afleiðingar afgerandi munur á orkubúskap á Íslandi og í öðrum ríkjum hafi fyrir loftslagsstefnuna. 

Að minnka losun enn frekar en þegar hefur verið gert hér á landi í krafti endurnýjanlegrar orku yrði miklu dýrara hér en annarsstaðar. Það er þekkt að því lengra sem ríki ná í að minnka losun þeim mun dýrara verður framhaldið auk þess að í síauknum mæli þarf að kaupa svonefndar loftslagsheimildir á markaði fyrir sífellt fleiri milljarða á ári. 

Leið út úr vanda loftslagsstefnunnar væri að taka upp nýja stefnu byggða á sérstöðu Íslands í orkumálum samanborið við önnur ríki. Stefnan fælist í því að Ísland mundi bíða með frekari aðgerðir í loftslagsmálum þangað til önnur ríki, ein einkum evrópsku samstarfsríkin, hefðu að minnsta kosti nálgast verulega stöðu Íslands í orkumálum. Á hinn bóginn er ástæða til að ætla að samstarfsríkin í ESB gætu ekki fallist á slíka undanþágu vegna meginreglna í starfsemi þess. Á það yrði að reyna. Að öðrum kosti yrði óhjákvæmilega að hætta samstarfinu.

 Stefnt er að því af hálfu ríkisstjórnarinnar að eigi síðar en 2027 fari fram “Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna (feitletrun mín) um aðild Íslands að Evrópusambandinu” eins og segir í stjórnarsáttmála en virðist pólitískur orðaleikur. Grundvallaratriði er, líkt og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB orðaði það: „Ef Ísland tekur upp nýja stefnu og ákveður að ræða aftur (feitletrun mín)um aðild [að Evrópusambandinu], þá verður það spurning sem aðildarríkin taka fyrir og ákveða næstu skref” (RÚV, 15. janúar 2025).

Hér er ekki pláss til að ræða hvers vegna fyrri aðildarviðræður 2009-2013 runnu út í sandinn. Að ýmsra áliti var vandinn meðal annars falinn í því að umsóknina skorti nauðsynlegar pólitískar forsendur og skýrt umboð þjóðarinnar. Nú virðist eiga að bæta úr með því að þjóðin ákveði hvort ræða eigi aftur um aðild. 

Örlög aðildarumsóknarinnar beina meðal annars sjónum að því um hvað eigi að spyrja í þjóðarakvæðinu og auðvitað að því um hvað eigi að upplýsa kjósendur í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar og um hvað skuli ræða. Að fram fari upplýst umræða og eftir það atkvæðagreiðsla um spurningu sem samstaða ríki um. Að öðrum kosti verða enn harkalegri deilur en ella um málið í samfélaginu.

Lykilspurning í aðdraganda þjóðaratkvæðis hlýtur að vera hvaða íslenskir grundvallarhagsmunir kalli á aðildarviðræður? 

Fyrir liggur að íslenskt samfélag spjarar sig afar vel utan ESB. Ísland er eitt af ríkustu og farsælustu löndum í veröldinni. Ein ástæða af mörgum er sú að EES samningurinn tryggir næstum fulllan aðgang að markaði ESB. Það er því grundvallaratriði að það þarf ekki aðild að ESB til að fá þann mikilvæga markaðsaðgang.

Gjarnan er bent á að með aðild að ESB fái Ísland “sæti við borðið” og áhrif á ákvarðanir sem snerta mikilvæga íslenska hagsmuni. Möguleikar Íslands til að hafa áhrif á mótun reglna á innri markaði ESB eru þegar tryggðir í EES samningnum. Þegar líklegt vægi Íslands sem aðila að ESB er reiknað út frá reglum sambandsins kemur eðlilega í ljós að vægið yrði afar lítið enda Íslendingar brotabrot af tæplega 450 milljónum borgara ESB landanna.

Þá er grundvallarspurning hver ætti síðasta orðið um fiskveiðar við Ísland eftir aðild. Skýrt er í sáttmálum ESB að stofnanir sambandsins eiga síðasta orðið þegar um er að ræða verndun og viðhald fiskistofna. Ennfremur liggur fyrir að ekki fást varanlegar undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB heldur svonefndar sérlausnir. Álykta má út frá sögu og veiðireynslu að ekki þyrfti að úthluta afla af Íslandsmiðum til skipa frá öðru ESB ríkjum. En óvíst er hvort tækist jafnframt að girða fyrir fjárfestingar aðila í ESB í íslenskum sjávarútvegi sem þannig kæmust bakdyramegin í afla af Íslandsmiðum.

Í aðildarviðræðunum 2009-2013 reyndi ekki á nein aðalatiði í sjávarútvegsmálum því viðræður um þau komust að heita má aldrei í gang. Því var haldið fram að þeim hefði hvort eð er verið sjálfhætt vegna þess að fulltrúar ESB hefðu talið ljóst að samningsgrundvöllur væri ekki til staðar. Að minnsta kosti er ljóst að á það reyndi ekki og því jafn óvíst sem fyrr hvort Ísland fengi fullnægjandi lausn fyrir sjávarúveg í aðildarviðæðum.

Ein spurning er: gæti ESB eða ríki þess annast varnir Íslands ef Bandaríkin gengju úr skaftinu í vörnum Evrópu? Að Bandaríkin stígi það skref er ólíklegt en ekki útilokað eftir að Trump stjórnin kom til sögu með efasemdir um bandalagið og gagnrýni á það, gælur við höfuðandstæðingana Rússa og í ofanálag með ófrið við NATO ríkin í tollamálum. Að mati höfundar vefsíðunnar hefðu þessi atriði eins og fyrr sagði þó ekki áhrif á varnir Íslands svo lengi sem Íslendingar vildu halda áfram varnarsamstarfinu við Bandaríkin. 

Hvað sem öðru líður er grundvallaratriði að ESB eða ríki þess hafa ekki og munu ekki um fyrirsjáanlega framtíð hafa getu til að tryggja hernaðarlegt öryggi eyríkis úti á Norður-Atlantshafi. Það sem þyrfti væru fyrst og síðast öflugar loftvarnir gegn rússneskum stýriflaugum, sem kæmu að landinu, og varnir gegn rússneskum flugvélum langt norður af því áður en stýriflaugar þeirra yrðu sendar af stað. Væru mál á því stigi að stríð NATO og Rússlands væri talið hugsanlegt yrði varðstaða flugvéla (CAP – Combat Air Patrol) nauðsynleg allan sólarhringinn á stórum svæðum vegna loftvarna Íslands. Það mundi kalla á marga tugi orrustuþotna, ratsjárþotur  og eldsneytisþotur. Einungis Bandaríkin hafa slíka hernaðargetu. Einnig þyrfti flugvélar til að flytja stöðugt til landsins varahluti og nauðsynlegan mannskap og búnað til að halda loftvarnaflotanum í starhæfu standi á Íslandi og það undir miklu álagi. Það er langt, langt í frá að ESB ríki gætu þetta.

Herir næstum allra ESB ríkjanna eru almennt veikir eftir áratuga vanrækslu og það mun kosta mikið átak og taka að lágmarki við bestu fjárhagsleg skilyrði allmörg ár að byggja þá upp að því marki að þeir gætu tryggt öryggi eigin landa hvað þá annarra og fjarlægra ríkja. ESB er enn fjarri þeim pólitíska samruna sem þarf til að efla svo um munar stöðu þess á alþjóðavettvangi, hvað þá koma á fót sameiginlegum vörnum. 

Þannig virðist grundvallaratriði að þjóðaratkvæðið muni væntanlega snúast að miklu leyti um evruna. Aðild að henni er er það eina virðist standa út af í samskiptum Íslands við ESB. Að meta kosti og galla aðildar hlýtur að verða lykilmál í aðdraganda þjóðaratkvæðsins.

Það er grundvallaratriði að aðild að ESB tryggir ekki aðild að evru. Af henni verður ekki hjá viðkomandi ríki eftir aðild fyrr en að loknum aðlögunartíma og að tilteknum skilyrðum uppfylltum.  Í þessu felst að ríki eru eftir að þau verða aðilar að ESB og sækjaum evru yrst í einskonar biðstofu evruaðildar. Þar þarf að uppfylla skilyrði um efnahagslegan og fjárhagslegan stöðugleika – þar á meðal ríkisfjármál, gengi og vexti — í að minnsta kosti tvö ár. Það er auðvitað undir viðkomandi ríki komið hve langan tíma það tekur að uppfylla skilyrðin – tvö ár eða lengur.

Þessi grundvallaratriði – biðstofu evruaðildar og skilyrði aðildar –  þarf að útskýra í aðdraganda þjóðaratkvæðis. Og þá virðist þurfa að komast að innanlandspólitísku samkomulagi og samkomulagi á vinnumarkaði til að tryggja að gengi, vextir og ríkisfjármál séu innan þeirra marka sem skilyrðin setja. Þau fela almennt í sér róttæka breytingu frá því sem gjarnan hefur viðgengist í íslenskum kjaramálum, verðlagsmálum og ríkisfjármálum. 

Hinn augljósi almenni ávinningur af evruaðild felst meðal annars í því að kostnaður sem fylgir gjaldeyrisviðskiptum með krónu fellur niður og skjól fæst hjá seðlabanka ESB sem verður lánveitandi til þrautavara ef alvarlega bjátar á þjóðarbúinu. Gengisstöðugleiki gæti aukist samanborið við krónuna en það ekki einhlítt og gengi krónunnar hefur verið sterkt og stöðugt allmörg undanfarin ár.

En með evruaðild hverfur hagstjórnartæki sem felst í vaxta og gengisstefnu  – ekki síst möguleika á að lækka gengi krónunnar til að mæta áföllum og styrkja efnahaginn ef á þarf að halda. Eftir aðild að evru er svonefnd innri gengisfelling kosturinn sem kemur í staðinn. Hún felst einkum í aðgerðum til að lækka laun og skera niður útgjöld ríkisins – aðgerðir sem eru flóknari og tímafrekari en gengisfelling og kalla á pólitískt samkomulag og valda að líkindum meiri og harðari deilum en gengislækkun.

Í aðdraganda þjóðaratkvæðis þarf að eiga sér stað ítarleg, almenn og opin umræða um þessi grundvallaratriði. Ennfremur þarf að koma fram að sögulega hefur íslenska hagkerfið oft ekki verið í takti við við stærstu hagkerfin á evrusvæðinu – oft á betri siglingu en þau hvað hagvöxt varðar en ekki verðlag og stöðugleika. Íslenska hagkerfið hefði smæðar vegna auðvitað aldrei áhrif á gengi evrunnar eða hagstærðir á evrusvæðinu.

Þá þarf að upplýsa að biðstofa evruaðildar snýst einmitt um að viðkomandi ríki sýni fram á efnahagur þess og hagstjórn sé traust og þarafleiðandi megi hleypa því inn í evruna. Á hinn bóginn sýnir þetta að það sé unnt að njóta stöðugleika og hagfelldra vaxta án aðildar að evru. Loks þarf að koma fram í umræðunni að vextir eru mismunandi á evrusvæðinu og að ekki eru öll ESB ríki aðilar að evrunni en spjara sig samt.

Trump hafði ekki áætlun um frið í Úkrænu – og önnur NATO ríki ekki fyrr en nýverið

Friðaráætlun Evrópuríkja fyrir Úkrænu, sem varð til á leiðtogafundi í London fyrir örfáum dögum, inniheldur mikilvæg atriði. Hún er þó enn einungis vísir að friðaráætlun jafnframt því að síauknar líkur eru á að Bandaríkin verði ekki með í að hrinda henni í framkvæmd. Þá hefur Trump nú stöðvað vopnasendingar frá Bandaríkjunum til Úkrænu.

Vesturlönd hafa brugðist Úkrænu frá upphafi árásarstríðs Rússa gegn landinu

Atlaga Rússa að Úkrænu hófst 2014 með hernámi Krímskaga og hernaðaríhlutun í borgarastríð í austurhluta landsins, sem Rússlandsstjórn kynti undir. Viðbrögð NATO ríkjanna voru máttlaus, sem gróf auðvitað undan trúverðugleika bandalagsins og stöðu Úkrænu. Sama gerðist þegar Rússar virtu ekki svonefnt Minsk samkomulag frá 2015. Trúverðugleiki bandalagsins veiktist enn frekar.

Eftir að allsherjar innrás Rússa hófst í febrúar 2022 barst aðstoð frá NATO ríkjunum en seint og illa og ætíð í kjölfar umræðu og angistar sem gróf enn frekar undan stefnu bandalagsins og veikti auðvitað Úkrænu. En kraftaverk gerast og Úkrænuher tókst að stöðva innrásarherinn og hrekja á flótta á mikilvægum stöðum, þar á meðal frá höfuðborginni Kyiv.

Engin áætlun kom fram af hálfu NATO ríkjanna um hvernig mætti binda enda á átökin með því annaðhvort að reyna að styðja Úkrænu til sigurs eða stöðva stríðið með samningum við Rússa um vopnahlé. 

Eftir að ljóst virtist að vopnahlé væri eini möguleikinn til að stöðva stríðið, var ekkert plan um það af hálfu NATO hvernig mætti koma því á eða hvernig mætti búa þannig um hnútana að það héldi og öryggi Úkrænu yrði tryggt í framhaldinu. 

Og allan tímann hvikuðu Rússar ekki frá markmiðum sínum í Úkrænu þrátt fyrir mikla hrakför sem hefur leitt þá svo gott sem að niðurlotum í stríðinu – í bili. En Úkræna stendur veikar en Rússland og er áfram afar háð utanaðkomandi hernaðar og fjárhags aðstoð.

Og nú eftir að Trump forseti benti réttilega á að mál væri að linnti og stöðva yrði stríðið í beggja þágu er komið í ljós að hann hefur enga friðaráætlun sem heitið getur.  

Eina sem hann og ráðherrar hans og ráðgjafar hafa lagt til mála er að Úkrænumenn verði að fallast á kröfu Rússlands um að þeir láti af hendi land í Úkrænu, svæði sem Rússar hertóku fljótlega eftir innrásina og stofnuðu rússnesk lýðveldi á. Einnig þurfi Úkræna að mati Trump stjórnarinnar að afsegja þann möguleika að hún geti gengið í NATO. Það má ræða hvað er raunsætt og á hvaða tíma hvað þessi tvö mál varðar. En þau lúta að grundvallaratriðum sem verður að halda í.

Það sem komið hefur frá Trump og hans mönnum er því auðvitað ekki friðaráætlun fyrir Úkrænu, heldur undanhald og flótti frá prinsippum. Þá hefur Trump stjórnin ofan í kaupið hallað Bandaríkjunum að Rússum og sjónarmiði þeirra um að Úkræna beri í reynd ábyrgð á stríðinu og að gagnrýnt Zelensky, Úkrænuforseta, og niðurlægt – og tekið ennfremur undir lýsingar Rússa á honum sem einræðisherra. 

Og hver hefði trúað því að það ætti fyrir Bandaríkjunum að liggja að standa með Rússlandi, Norður Kóreu og Hvíta Rússlandi í atvæðagreiðslu í Sameinuðu þjóðunum um Úkrænustríðið og í reynd líta á fórnarlambið sem sökudólgi í málinu. 

Og nú hefur Trump stöðvað vopnasendingar frá Bandaríkjunum til Úkrænu.

Allt þetta felur auðvitað í sér gerbreytta stefnu Bandaríkjanna og grefur augljóslega og enn frekar undan málstað og samningsstöðu Úkrænu.

En hvernig gæti friðaráætlun fyrir Úkrænu litið út?

Í fyrsta lagi fæli hún í sér að stöðva eigi átökin með vopnahléi enda báðir herir í grunninn að niðurlotum komnir. Jafnframt að Úkrænu yrðu látin í té með mesta mögulega hraða þau vopn sem þarf til að efla hana, halda aftur af rússneska hernum og styrkja samningsstöðu Úkrænu.

Herða þarf efnahagsþvinganir gegn Rússlandi, en lýsa jafnframt yfir vilja til að létta einhverjum þvingunum gegn vopnahléi.

Halda verður þeirri kröfu inni að Rússar skili landi því sem þeir hafa hertekið frá Úkrænu, enda óásættanlegt að verðlauna innrás og árásarstríð með því að afhenda sökudólgunum svæði af landi fórnarlambsins. Það væri ennfremur hættulegt fordæmi í alþjóðakerfinu. 

Halda fast við þá stefnu NATO að Úkræna eigi rétt á að ákveða eigin utanríkisstefnu – þar á meðal hvaða bandalög eða ríkjasamtök hún vilji taka þátt í. Hafna þar með þeirri kröfu Rússa að Úkræna verði í reynd hluti af áhrifasvæði þeirra og þar með auðvitað hvorki fullvalda né frjálst og sjálfstætt ríki.

Vopnahlé felur auðvitað ekki í sér varanlega lausn – hefur þann augljósa veikleika að það endurheimtir ekki í sjálfu sér landsvæðin sem Rússar hafa hertekið og Úkrænumenn skortir getu til að taka aftur með hervaldi. Þetta vita allir sem vilja vita en kröfuna um að Rússar skili herteknu landi má samt ekki gefa eftir sem fyrr sagð.

Loks þarf að búa þannig um hnútana að vopnahlé haldi og tryggja öryggi og fullveldi Úkrænu eftir vopnahléð með þeirri aðstoð sem þarf til að halda aftur af Rússum og fæla þá frá annarri atlögu. 

Oft er bent á Kóreustríðið til stuðnings því sjónarmiði að þótt vopnahlé geti ekki leyst grundvallarmál megi koma því á og þannig að haldi. Kóreustríðinu lauk 1953 með vopnahléi sem stendur enn og er stutt og varið af suður kóreska hernum og Bandaríkjaher.

Drög Evrópuríkjanna að friðaráætlun gera ráð fyrir áframhaldandi og aukinni  hernaðaraðstoð við Úkrænu, að hert verði á efnahagsþvingunum gegn Rússlandi og séð til þess að að unnt verði að halda Rússum í skefjum eftir að vopnahlé kemst á.

Staða Úkrænu er erfið á vígvellinum og að óbreytttu er hún í veikri stöðu til lengri tíma litið, þó einkum eftir einhver ár þegar Rússar hafa að líkindum endurreist herinn eftir ófarir hans í stríðinu og nægilega til að hann geti ógnað Úkræna á ný.

Þá er enn engin vísbending um samningsvilja af hálfu Rússa. Þvert á móti. Hins vegar nálgast í kjölfar framkomu og yfirlýsinga Trumps og hans manna að áratuga draumur Kremlarherra um klofið NATO verði hugsanlega að veruleika. 

Geta Evrópuríkin fyllt í skarðið ef Bandaríkin ganga úr skaftinu?

Það er augljóslega ekki eining meðal NATO ríkjanna né heldur í ESB um stefnuna í Úkrænumálinu. Þess vegna er ekki talað bandalagið eða ESB friðaráætluninni frá London fundinum, heldur um “samsteypu hinna viljugu” (colition of the willing). 

Evrópuríkin eru til saman miklu fjölmennari og margfalt auðugri en Rússland, þau hafa mikla almenna tæknilega yfirburði yfir Rússa og sum þeirra ráða þegar yfir öflugum her. Þá er Rússland miklu veikara en áður eftir hrakför rússneska hersins í Úkrænu en stríðið hefur leitt ljósi marga grundvallarveikleika í her og stjórnkerfi Rússa. 

Það virðist líða að því óháð stefnu Bandaríkjanna og þróun NATO að Evrópuríki NATO og ESB verði að beita sér af þeim þunga sem þau geta haft ef vilji er fyrir hendi og svo koma megi í veg fyrir að Rússar herði róðurinn í Úkrænu. Þau munu ekki hefja þátttöku í stríðinu með Úkrænu en geta stutt hana í því svo um munar. Ennfremur ef vopnahlé kemst á tekið þátt í að tryggja það og styðja Úkrænu þannig að hún geti haldið aftur af Rússum í framhaldinu.

Nú hefur framkvæmdastjórn ESB stigið mikilvægt skref og lagt fram tillögu um 800 milljarða evra  til varna Evrópu og stuðnings Úkrænu á næstu fimm árum. Fljótlega kemur í ljós hvort tillagan hlýtur stuðning. Það mundi marka tímamót í sögu álfunnar.

Það hriktir í NATO 

Á skömmum tíma hefur orðið mikil óvissa um framtíð NATO vegna stefnu Trumps í málefnum Úkrænu. Spurningunni um hvað rekur Trump áfram verður ekki svarað hér en sjónir margra beinast í því efni gjarnan og skiljanlega að stjórnmálum í Bandaríkjunum og en einnig að persónueinkennum Bandaríkjaforseta. 

En til lengri tíma litið og óháð Trump verður að horfa til þess að alþjóðakerfið hefur breyst í grundvallaratriðum og ekki vegna Úkrænu og Evrópu heldur vegna uppgangs Kína sem er orðið næst mesta stórveldi heims á eftir Bandaríkjunum. 

Þungamiðja alþjóðakerfisins liggur ekki lengur á Evró-Atlantshafssvæðinu heldur á Asíu-Kyrrahafi og vægi Evrópu í alþjóðakerfinu á eftir að minnka enn frekar en orðið er. Rubio, nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt réttilega að saga 21. aldar verði saga samkeppni Bandaríkjanna og Kína. Bandaríkin verða upptekin í Asíu.

Þessar miklu breytingar valda því að Evrópuríki verða fyrr en síðar að gera upp hug sinn. Hvort þau hafi vilja til þess að bera hita og þunga af öryggi og vörnum álfunnar?