Trump, Grænland og Ísland

Þrátt fyrir móðgandi ummæli Trumps Bandaríkjaforseta í garð Grænlendinga í þá veru að Bandaríkin eigi að fá yfirráð yfir landi þeirra munu þau ekki ráðast inn með hervaldi. Engar upplýsingar styðja slíkt. Þó er eðlilegt að bregðast við með þeim hætti og raunar hófsemd sem grænlenskir og danskir forystumenn hafa sýnt þrátt fyrir ögrandi framkomu forsetans.

En innrás er afar ólíkleg. Komi hins vegar til þess á einhverjum punkti að Trump stjórnin seilist með öðrum ósæmilegum hætti til Grænlands, svo sem með undirróðri og þrýstingi, þá hefði það afdrifaríkar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar – þar á meðal og ekki síst fyrir NATO.

Hafa þarf hugfast í umrótinu sem yfirlýsingar Trumps valda að Grænland, Ísland og Bandaríkin eiga ríka sameiginlega hagsmuni á norðurslóðum; hagsmuni sem eiga að líkindum eftir að stækka mjög á komandi árum og áratugum. Hlýnun jarðar og tilkoma Kína sem risaveldis munu líklega valda mestu þar um eins og áður hefur verið fjallað um í greinum hér á vefsíðunni.

Af þessum sökum þurfa íslensk stjórnvöld að eiga svo náið samráð og samskipti við Bandaríkin um norðurslóðir og kostur er. Jafnframt þarf auðvitað að efla enn frekar samráð og tengsl Íslands við Grænlendinga. Eðlilegt samráð eftir þörfum við Danmörku einnig er auðvitað sjálfsagt.

Hagsmunir þessara aðila á norðurslóðum eru augljósir og Ísland felur að áliti bandarískra stjórnvalda í sér aðkomuleið (gateway) að norðurslóðum sakir landfræðilegrar legu landsins. 

Enn ríkir í aðalatriðum stöðugleiki á norðurslóðum. Trump hefur á ný látið út úr sér að Grænland sé “umkringt rússneskum og kínverskum skipum” en það eru staðlausir stafir. 

Í hernaðarlegu tilliti hafa Bandaríkin það sem þau vilja á Grænlandi líkt og verið hefur í meira en áttatíu ár. Þar skipta mestu ratsjárstöðvar á norður Grænlandi þar sem áður hét Thule en er heitir nú Pituffik. Ratsjárstöðvarnar hafa úrslitaþýðingu fyrir varnir Norður Ameríku. Bandaríkin hafa ekki óskað eftir meiri hernaðarlegri aðstöðu á Grænlandi.

Þjóðaröryggi Bandaríkjanna er greinilega ekki í húfi og bandarísk fyrirtæki hafa almennt ekki haft neinn verulegan áhuga á að fá aðgengi að málmum og námagreftri á Grænlandi. Nauðsynlega innviði til þess skortir víðast í risastóru landinu.

Um þessa þætti alla hefur verið fjallað í greinum hér á vefsíðunni (Trump girnist Grænland – á ný, 20. desember 2024 og Ísland og Grænland á áhrifasvæði Bandaríkjanna, 29. janúar 2025.)

Hvað gengur forsetanum til með flumbruganginum? Fátt er um svör annað en getgátur. Ein er að hann vilji verða forsetinn sem stækkaði Bandaríkin líkt og þegar Andrew Johnson, forseti, lét kaupa Alaska 1867. 

Leave a comment