Enn og áfram engar líkur á friði í Úkrænu

Meginástæða þessa er einföld. Markmið Rússa um að Úkræna verði áhrifasvæði Rússlands hafa í engu breyst og leyfa ekki þess háttar forsendur fyrir friði sem verið hafa uppi í samningaviðræðum undanfarinna vikna og mánaða. Þar á meðal eru erlendar friðargæslusveitir og utanaðkomandi öryggistryggingar. Rússlandsstjórn tekur – vel a merkja – ekki þátt í samningaviðræðunum heldur einungis Úkræna og Bandaríkin. Árásaraðilinn er ekki með og markmið hans er að ná fullum tökum á Úkrænu, í reynd leggja landið allt undir Rússland.

Í öðru lagi hefur Rússlandsstjórn ekki ástæðu til að ætla annað en að Trump stjórnin haldi Bandaríkjunum áfram frá beinum stuðningi við Úkrænu með fé og vopnum og skirrist við að beita Rússland auknum þrýstingi í orði og á borði.

Í þriðja lagi virðist Putinstjórnin áfram mega treysta á stuðning Kína við rússneska hergagnaframleiðslu, sem gerir Rússum kleift að standa í landhernaðinum í Úkrænu. Líkt og ítrekað hefur verið bent á af hálfu NATO.

Ennfremur og þrátt fyrir góðan vilja á sumum bæjum gengur Evrópuríkjum hægt að fylla í skarðið sem brotthvarf Bandaríkjanna frá stuðningi í stríðinu skilur eftir í vopnabúri Úkrænuhers. Rússar vona að stuðningur Evrópuríkjanna verði aldrei nægur.

Meðan þessi atriði öll standa óbreytt eru engar líkur á vopnahléi, hvað þá friðarsamningum.

Markmið Úkrænustjórnar í viðræðum undanfarinna vikna og mánaða við Trump stjórnina er og hefur verið að því að virðist að gefa Trump ekki ástæðu til að kenna Úkrænustjórn um að ekki semst. Úkrænu berast enn bandarísk vopn sem Evrópuríki NATO borga fyrir. Úkrænuher fær ennfremur afar mikilvægt framlag frá Bandaríkjunum sem felst í upplýsingum frá njósnakerfum þeirra og fást ekki annarsstaðar frá nema að litlu leyti. Trump lét loka fyrir þessar upplýsingar í viku í mars eftir að í odda skarst milli hans og Zelensky á fundi í Hvíta húsinu. Afleiðing lokunarinnar var martröð fyrir stjórnendur Úkrænuhers og hún olli skiljanlega örvæntingu í Kyiv.

Góðu fréttirnar fyrir Úkrænu eru að hernum tekst áfram að standa í Rússum og gott betur sumstaðar og kemur í veg fyrir fyrir að þeim takist að leggja undir sig það sem upp á vantar í Donetsk héraði í austurhluta Úkrænu. (Institute for the Study of War – https://x.com/TheStudyofWar/status/2005497757222817820). Þar er er um að ræða staði sem ef þér féllu í hendur Rússa mundi af landfræðilegum og herfræðilegum ástæðum breyta miklu í óhag Úkrænu í stríðinu, jafnvel gerbreyta stöðunni til lengri tíma litið.

Það vill til að rússneski herinn í Úkrænu er sem fyrr óburðugur hvar og hvernig sem á er litið. Jafnvel er talið að það tæki herinn 2-3 ár að ná undir sig afgangnum af Donestsk.

En hve lengi hjálpa veikleikar rússneska hersins og frammistaða Úkrænuhers? Einungis svo lengi sem Úkrænu berst hratt og örugglega nauðsynlegur stuðningur frá Evrópuríkjum NATO, sem þau hafa alla burði til hafi þau vilja til þess. Hagsmunir þeirra eru svo skýrir og augljósir að annað kemur vart til greina.

Leave a comment