
Hér á vefsíðunni hefur loftslagsstefna Íslands verið ítrekað gagnrýnd fyrir að endurspegla ekki þá sérstöðu landsins að um 80 prósent af orkunni sem notuð er koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
Þvert á móti og þrátt fyrir þessa augljósu sérstöðu er stefna Íslands og hefur verið árum saman í aðalatriðum eins og í öðrum Evrópuríkjum og aðferðin í grunninn hin sama, það er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og kaupa svonefndar loftslagsheimildir ef upp á vantar að yfirlýst markmið náist. Svo mikið vantar upp á hér á landi að umhverfisráðherra hefur sagt að kaupa þurfi heimildir fyrir allt að 11 milljarða miðað við markmið um samdrátt í losun til ársins 2035.
Ástæður þess að markmið Íslands nást ekki lúta að því meðal annars og ekki síst að hlutfall endurnýjanlegrar orku er svo hátt sem fyrr sagði – eða um 80 prósent af orkubúskapnum. Hjá Evrópuríkjum er hlutfallið að meðaltali milli 15 og 20 prósent.
Hið háa hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á á landi veldur því að það er dýrt að halda áfram að minnka losun – dýrara en annarsstaðar. Það er þekkt og auðskilið að eftir því sem hlutfall endurnýjanlegrar orku verður hærra og eftir því sem ríki ná lengra samkvæmt því í að draga úr losun, þeim mun dýrara verður að halda áfram að minnka losun.
Það er auðveldast að tína ávextina neðst á trénu eins og sagt er. Þegar ofar dregur á trénu verður það vitanlega erfiðara og fyrirhafnarmeira.
Loftslagsstefna Íslands hvílir ekki á framangreindum lykilatriðum – öðru nær – og er því í þeim ógöngum sem við blasa og verið hefur um margra ára skeið.
Leið út úr öngstrætinu væri að byggja stefnuna á algerri og óumdeildri sérstöðu landsins í orkumálum.
Það þýddi að Íslendingar biðu með frekari samdrátt í losun þar til önnur ríki hefðu að minnsta kosti nálgast Ísland hvað hlutfall endurnýjanlegrar orku varðar.
Á þessa leið hefur verið bent á hér á vefsíðunni með rökum og skýrum forsendum; þeim sem getið er hér að ofan og útskýrðar hafa verið frekar í öðrum og ítarlegum greinum á síðunni.
Hinn 12. nóvember síðastliðinn spurði alþingismaðurinn Sigríður Á. Andersen umhverfisráðherra á alþingi hvort ekki væri tímabært að hætta við yfirlýst markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. ”Því eins og allir vita” sagði þingmaðurinn, “er Ísland heimsmeistari … þegar kemur að loftslagsmálum og við eigum svo sannarlega ekki að vera með markmið um samdrátt eins og önnur Evrópuríki.”
“Nei, það kemur ekki til greina” svaraði ráðherrann, “ að Ísland dragi sig út úr alþjóðlegu loftslagssamstarfi. Það mun aldrei gerast á minni vakt og á vakt þessarar ríkisstjórnar….Við setjum okkur sjálfstæð markmið sem eru í samræmi við aðstæður okkar hér. Við njótum góðs af þeim árangri sem við höfum náð þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Við horfum til sérstöðu okkar þegar kemur að heildarsamsetningu losunar en um leið beitum við okkur af fullum þunga fyrir því að heimsbyggðin, og þar erum við í samstarfi við önnur ríki, gangi rösklega til verka þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar ætlum við að taka fullan þátt. Það kemur ekkert annað til greina.”
Stefnan er óbreytt og áfram í ógöngum: Að loftslagsstefnu Íslands verði sett “sjálfstæð markmið sem eru í samræmi við aðstæður okkar hér” – eins og umhverfisráðherra orðaði það -er í bága við að loftslagsstefnan er í grundvallaratriðum óbreytt og eins og hjá öðrum Evrópuríkjum. Hún byggir áfram á sömu nálgun og aðferðum og áður en ekki á þeirri sérstöðu Íslands að um 80 prósent af orkunotkun á landinu koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum – svo því sé enn og aftur haldið til haga.
Og hvernig hyggst Ísland beita sér af “fullum þunga” fyrir því að “heimsbyggðin” taki sér tak í loftslagsmálum? Er risið áður óþekkt stórveldi í loftslagsmálum? Hvað þýðir þessi stefnuyfirlýsing?
Og hvernig á að ganga af Íslands hálfu “rösklega til verka þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda”?
Með því að kaupa losunarheimildir fyrir milljarða af því Ísland nær ekki yfirlýstum markmiðum stjórnvald um minni losun sakir þess meðal annars og ekki síst að hér á landi er hlutfall endurnýjanlegrar orku hið hæsta sem þekkist.
Sem veldur aftur því að Íslendingar eiga sem fyrr sagði örðugt með að halda lengra en þegar hefur verið gert í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Sjá nánar á vefsíðu um alþjóðamál og utanríkismál:
Hvers vegna næst ekki árangur á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum og hvað þýðir það fyrir Ísland? 8. desember 2023.
Loftslagsstefna Íslands er í ógöngum og samræmist ekki grundvallarreglum í alþjóðasamstarfi 17. mars 2024
Umræða að kvikna um vanda loftslagsstefnu Íslands? 22.ágúst 2024
Loftslagsstefna, viðtal í hlaðvarpinu Ein pæling, 14. ágúst 2024.