Þetta kemur fram í mati leyniþjónustunnar (Forsvarets Efterretningstjeneste – FE) á fjölþátta ógn (hybrid trussel) gegn Danmörku útgefið 3. október síðastliðinn.
“Truslen fra regulære militære angreb mod Danmark er INGEN”stendur þar. Í ensku útgáfunni frá leyniþjónustunni segir: “The threat of conventional military attacks against Denmark is NONE”. (https://www.fe-ddis.dk/globalassets/fe/dokumenter/2025/trusselsvurderinger/-vurdering-af-den-hybride-trussel-mod-danmark.pdf)
Þessi skýra niðurstaða kemur reyndar ekki á óvart og er í grunninn í takt við mat leyniþjónustustofnana annarra ríkja undanfarin ár, þar á meðal í Finnlands, Svíþjóðar og Noregs.
Höfundi þessarar vefsíðu þykir þó rétt að birta þetta álit dönsku leyniþjónustunnar í því skyni að árétta grundvallaratriði íslenskra varnarmála, sem oft hefur verið bent á hér á síðunni.
Það lýtur að því að líkur á stríði milli NATO og Rússlands eru almennt taldar litlar. Mat dönsku leyniþjónustunnar undirstrikar þessa lykilforsendu. Svo lengi sem hún á við stafar ekki hernaðarógn frá Rússum að Íslandi.
Ekki er unnt að útiloka að forsendur breytist en Rússar hefðu ekki afl í NATO fyrr en hugsanlega eftir einhver ár – jafnvel mörg ár í ljósi þeirra djúpstæðu veikleika rússneska hersins sem Úkrænustríðið hefur leitt í ljós.
Í febrúar síðastliðnum gaf danska leyniþjónustan út það álit að Rússar gætu verið reiðubúnir í stórstríð (storskalakrig) á meginlandi Evrópu á um það bil fimm árum (https://www.fe-ddis.dk/globalassets/fe/dokumenter/2025/trusselsvurderinger/-20250209_opdateret_vurdering_af_truslen_fra_rusland_mod–.pdf).
En spá leyniþjónustunnar er háð ákveðnum og róttækum skilyrðum:
- Að Úkrænustríðið hætti. Meðan það stæði segir í spánni hefðu Rússar fangið fullt og gætu ekki jafnframt átt í stríði við eitt eða fleiri NATO ríki. Hér skal bætt við að Úkrænustríðið er talið líklegt til að halda áfram – jafnvel lengi.
- Að Bandaríkin stæðu ekki að baki NATO. Því má bæta við að þótt blikur séu á lofti bendir enn ekkert til að Bandaríkin yfirgefi bandalagið.
- Að NATO mundi ekki byggja upp herstyrk sinn á sama hraða og Rússar sinn her. Evrópuríki NATO eru byrjuð að taka sér tak í þessum efnum og hafa alla burði til þess. Þjóðarframleiðsla þeirra samanlögð er margfalt meiri en Rússlands.
Danska leyniþjónustan leggur megináherslu á að önnur hætta en bein hernaðarleg ógn – svonefnd fjölþátta ógn – stafi frá Rússlandi að Danmörku og öðrum NATO ríkjum. Fjölþátta ógn á einkum við nethernað, hernaðarlegar ögranir – þar á meðal með drónaflugi – skemmdarverk og undirróður. Mat leyniþjónustunnar er að miklar líkur séu á skemmdarverkum gegn danska hernum og á hernaðarlegum ögrunum.
Í mati dönsku þjónustunnar kemur meðal annars fram að Rússsar noti fjölþátta aðgerðir í viðleitni til að veikja pólitíska einingu og staðfestu NATO ríkjanna. Markmiðið sé ekki að ná skjótum ávinningi heldur skapa viðvarandi óvissuástand og grafa þannig með tímanum undan einingu bandalagsríkjanna. Jafnframt segir að líklegt sé að Rússar herði róðurinn að þessu leyti bregðist bandalagið ekki við fjölþátta aðgerðum þeirra. (Målet for Rusland er ikke at opnå hurtige gevinster, men at skabe en vedvarende tilstand af usikkerhed, hvor NATO’s sammenhold langsomt undermineres. Det er sandsynligt, at Rusland vil blive mere villig til at skærpe de hybride angreb, hvis alliancen ikke reagerer på dem.)