
Höfundur vefsíðunnar tekur í aðalatriðum undir það sem fram kemur í skýrslu samráðshóps þingmanna um “Inntak og áherslur í varnar- og öryggismálum” og kom út 12. september síðastliðinn. Meðfylgjandi er innlegg sem hann var beðinn um í apríl vegna undirbúnings skýrslunnar. Hér birtist það með nokkrum minniháttar breytingum sem höfundur gerði ýmist í þágu skýrleika eða til áhersluauka.
———-
Albert Jónsson
11. apríl 2025.
Svar við beiðni frá samráðshópi þingmanna um innlegg vegna öryggis – og varnarstefnu fyrir Ísland (samkvæmt tölvupósti frá utanríkisráðuneyti dags. 4. apríl 2025):
Helstu áhersluatriði:
– Megináskoranir í öryggis- og varnarmálum sem íslensk stjórnvöld þurfa að mæta lúta að borgaralegum öryggismálum. Þetta á við öryggi landamæranna, sem er mikil áskorun og þar er úrbóta þörf. Önnur borgaraleg öryggismál lúta að hafsvæðum við landið og fjarskiptastrengjum sem liggja að því neðansjávar, að netöryggi og að viðnámi gegn fjölþátta ógnum. Framangreind mál eru á forræði íslenskra stjórnvalda en jafnframt háð samstarfi við erlend ríki og stofnanir.
– Hervarnir Íslands kæmu eingöngu til sögu ef stefndi í styrjöld milli NATO og Rússlands. Slík styrjöld er sem fyrr almennt talin ólíkleg. Eftir hrakför rússneska hersins í Úkrænu mun taka jafnvel mörg ár að koma honum í það horf að geta tekist á við NATO. Það á ekki bara við búnað heldur einnig við alvarlega veikleika sem lúta að stjórnun, þjálfun og skipulagi. Á sama tíma munu NATO ríki ekki sitja aðgerðalaus heldur er ætlunin að auka framlög til hermála, jafnvel verulega í sumum tilvikum.
– Hervarnir Íslands heyra undir varnarsamstarfið við Bandaríkin sem rekja má aftur til ársins 1941 í síðari heimsstyrjöld. Í varnarsamstarfinu felst jafnframt mikilvægt framlag til hernaðarlegs öryggis á norðurslóðum og meginlandi Evrópu.
– Ekki er ástæða til að ætla annað en að Bandaríkjaher mundi gera nauðsynlegar ráðstafanir á hættutíma til að verja Keflavíkurflugvöll vegna hernaðarlegs mikilvægis hans og til að vernda fjölmennt lið bandarískra hermanna sem þar yrði.
– Það þarf að hafa áfram reglulegt samráð við bandarísk stjórnvöld um varnarmálin, þar á meðal hvernig aðstaða Bandaríkjahers í landinu er notuð af hans hálfu og hvernig hún nýtist best í þágu öryggishagsmuna beggja ríkjanna á hverjum tíma; sem og hvort og hvernig þurfi hugsanlega að uppfæra aðstöðuna. Umræða um þetta og varnarsamstarfið almennt á að vera opin og gagnsæ enda hvílir það á skýrum hagmunum og á mikilvægum en einföldum forsendum. Leyndar er ekki þörf nema að litlu leyti.
– Vandséð er hvaða þörfum “íslenskur her” – sem stundum kemur upp í umræðunni – mundi sinna sem íslenskar öryggisstofnanir sinna ekki nú þegar varðandi borgaraleg öryggismál. Einnig er erfitt að greina hvaða virðisauki gæti fylgt íslenskum her fyrir hernaðarlegt öryggi ríkis sem á varnarsamstarfi við öflugasta herveldi heims. Loftvarnir Keflavíkurflugvallar eru hryggjarstykkið í hervörnunum og ekki ástæða til að ætla annað en að þeim yrði sinnt ef á þyrfti að halda með fullnægjandi hætti af hálfu Bandaríkjahers vegna þeirrar hernaðarlegu þýðingar sem landið og flugvöllurinn hafa.
– ESB eða ríki þess hafa um fyrirsjáanlega framtíð ekki getu til að tryggja hervarnir Íslands.
– Lykilhagsmunir í alþjóðlegu öryggissamstarfi Íslands lúta að því að leggja af mörkum til að viðhalda og efla einingu NATO ríkjanna til að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu. Ísland þarf að sýna vilja í verki þessu efni. Framlög til stuðnings Úkrænu – hernaðarlega og að öðru leyti – eru því ánægjuefni.
————
Með hruni Sovétríkjanna 1991 hvarf möguleiki á því að stórveldi gæti náð ráðandi stöðu á meginlandi Evrópu og í framhaldinu ógnað þaðan öryggi á Norður-Atlantshafi og á vesturhveli Jarðar. Þetta var hætta sem stafaði frá þýska keisaradæminu í fyrri heimsstyrjöld, frá Þýskalandi nasimans í síðari heimsstyrjöld og frá Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Þetta var jafnframt mikikilvægasti þátturinn í öryggismálum Evrópu og Norður-Atlantshafs megnið af 20. öldinni – en hann á ekki afturkvæmt. Rússland er ekki og verður ekki arftaki Sovétríkjanna, hvorki sem stórveldi né herveldi.
Rússland telst ekki stórveldi á venjulegum mælikvörðum í því efni. Alþjóðleg almenn, pólitísk áhrif Rússa eru takmörkuð, efnahagurinn afar einhæfur og hagkerfið álíka stórt og til dæmis hagkerfi Kanada, sem hefur þó margfalt færri íbúa en Rússland. Rússland á kjarnavopn en er að öðru leyti ekki stórveldi í hernaðarlegum efnum líkt og Úkrænustríðið hefur leitt glögglega í ljós.
Í Rússlandi er hins vegar stjórnvald sem einkennist af einræði og kemst upp með að leggja áherslu á herinn og útjöld til hermála á kostnað almennra lífskjara og framfara. Að óbrreyttu verður Rússland aftur ógn við næstu nágrannaríki þess og þar með stöðuleika í Evrópu. Til að koma í veg fyrir það þarf NATO að hafa trúverðuga fælingarstefnu. Hún var vart til staðar á árunum 2014-2022 – það er í aðdraganda innrásarinnar Úkrænu.
Eftir kalda stríðið var rússneski herinn í lamasessi vegna fjársveltis. Meðal annars hurfu flugvélar hans kafbátar og herskip af Norður Atlantshafssvæðinu. Um 2010 var byrjað að endurreisa herinn. Upp úr 2014 sáust flugvélar hans og kafbátar aftur úti á Norður-Atlantshafi en í miklu minni mæli en í kalda stríðinu enda Norðurflotinn ekki svipur hjá sjón samanborið við það sem var á Sovéttímanum. Sama átti við langdræga sprengjuflugvélaflotann en flugvélar hans sáust áður oft við Ísland. Eftir endurreisn hersins voru forgangsverkefni rússneska Norðurflotans áfram að gæta öryggis eldflaugakafbáta í Barentshafi sem geyma hryggjarstykkið í kjarnorkuherstyrknum og að verja stöðvar flotans.
Bandaríkin og önnur NATO ríki – en einkum Bretland og Frakkland – brugðust við þróuninni á öðrujm áratugnum með því að halda flugvélum, kafbátum og herskipum úti í auknum mæli norðar en áður. Þjónustuheimsóknir bandarískra kafbáta til Íslands – en einnig til Færeyja og í mestum mæli til norður Noregs – eru angi af þessari þróun. Að þurfa ekki að halda til heimahafna vegna áhafnaskipta og til að sækja varahluti lengir úthaldstíma kafbátanna á norðurslóðum, bætir þannig nýtingu og lækkar kostnað.
Þrátt fyrir allt sem gengið hefur á undanfarin ár vegna Úkrænu er styrjöld milli NATO og Rússlands áfram almennt talin ólíkleg. Hvað öryggi og varnir Íslands varðar mundi einungis slík styrjöld (gjarnan kölluð þriðja heimsstyrjöldin) fela í sér þannig ógn að kallaði á hervarnir á Ísland og hún mundi aðallega beinast að Keflavíkurflugvelli og einkum kalla á loftvarnir hans. Varnirnar yrðu gegn stýriflaugum og flugvélum sem bæru þær og sendu þær af stað langt fyrir norðan landið. Einnig má gera ráð fyrir að bregðast þyrfti með kafbátahernaðarflugvélum gegn kafbátum sem bera stýriflaugar.
Styrjöld milli NATO og Rússlands er nú væntanlega enn ólíklegri en áður. Því veldur afar slök frammistaða rússneska hersins í Úkrænustríðinu og gífurlegt tjón sem hann hefur orðið fyrir. Ennfremur þeir alvarlegu veikleikar Rússlandshers sem stríðið hefur leitt í ljós og eiga við landher, flugher og flota, stjórn hersins, skipulag, búnað og þjálfun. Almenn vanhæfni ríkis og hers og landlæg spilling fela einnig auðvitað í sér djúpstæða veikleika sem hafa löngum háð rússneska hernum og hergagnaframleiðslunni.
Það mun taka mörg ár að eyða þessum veikleikum, koma á nauðsynlegum endurbótum og endurreisa herinn þannig að hann yrði í stakk búinn til að geta tekist á við NATO. Það mun líða skemmri tími auðvitað þar til Rússar geta hert róðurinn gegn Úkrænu og ógnað öðrum nágrannaríkjum, það er þeim sem ekki eru í NATO.
Það segir sína sögu að rússneski herinn – það er flugher og floti, þar á meðal kafbátar – hefur svo gott sem horfið á undanförnum árum af Norður Atlantshafi. Það endurspeglar minni burði og jafnframt að forgangsverkefni Norðurflotans – varnir kjarnorkuherstyrksins og herstöðva á Kolaskaga – eru langt í norðri í heimahöfum eða nálægt þeim.
Flugvélar Bandaríkjahers sem hafa tímabundna viðveru á Keflavíkurflugvelli eru eftirlits og njósnaflugvélar af gerðinni Boeing Poseidon P-8. Þær sinna þaðan eftirliti frá Íslandi á norðurhöfum en einnig eftirliti og njósnum á Eystrasalti úti fyrir rússneska landsvæðinu þar sem heitir Kaliningrad. Svo hefur verið undanfarin ár. Jafnframt er farið reglulega slíkar ferðir frá Keflavíkurflugvelli til Barentshafs þar sem Norðurfloti Rússa heldur sig og þar sem eru hafnir og aðrar stöðvar flotans.
Hernaðarlegt hlutverk Íslands lýtur aðallega að því að leggja til fælingarstefnu gegn Rússlandi til að tryggja frið og öryggi á meginlandi Evrópu. Markmiðið er að reyna að sannfæra rússnesk stjórnvöld um það fyrirfram að árás á NATO yrði ekki bara svarað á meginlandinu. Það yrði einnig gert með árásum frá flugvélum, kafbátum og herskipum á norðurslóðum á Norðurflotann, stöðvar hans í norðvestur Rússlandi og eftir þörfum á skotmörk lengra inni í Rússlandi.
Aðstaða Bandaríkjahers á Íslandi eykur trúverðugleika fælingarstefnunnar. Sýnt er fram á að í stríði yrði stutt frá Keflavíkurflugvelli við fyrrnefndar hernaðaraðgerðir gegn Norðurflotanum og Rússlandi með gagnkafbátahernaði, eldsneytisflugvélum, ratsjárþotum og jafnvel sprengjuþotum. Jafnframt yrði sýnt fram á að Keflavíkurflugvöllur yrði varinn sem er einnig til að auka trúverðugleika fælingarinnar.
Ekki er ástæða til að ætla annað en að Bandaríkjaher mundi gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á hættutíma til að verja Keflavíkurflugvöll vegna hernaðarlegs mikilvægis hans og einnig auðvitað til að tryggja öryggi þess fjölda flugliða og annarra hermanna sem þar hefðu aðsetur.
Sérstakt mál er að Rússar hafa sagst vera að þróa kjarnorkuknúið tundurskeyti sem bæri kjarnorkusprengju og drægi neðansjávar frá norðurslóðum til árása á austurströnd Bandaríkjanna. Vopnið, sem einnig yrði hjá Rússlandsflota á Kyrrahafi, er sagt verða tilbúið innan tíu ára. Hugsanlegt er að viðbrögð Bandaríkjahers mundu meðal annars leiða til áætlana um að reyna að granda slíkum tundurskeytum á leið þeirra suður Atlantshaf í GIUK hliðinu svonefnda milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands. Því er ástæða til að fylgjast með þessu máli þó það sé með ólíkindum.
Norðurslóðir skipta nú strategískt meira máli en Norður-Atlantshaf, en Ísland fær ekki þá hernaðarlegu þýðingu vegna norðurslóða, sem það hafði í kalda stríðinu vegna legu þess á Norður-Atlantshafi. Ísland liggur að segja má mun sunnar en áður í herfræðilegu tilliti.
Bandaríkjaher sækir meira en áður inn á norðurslóðir af því þar er rússneska flotann að finna og sakir þess að heimskautsísinn hörfar.
Öryggishagsmunir Rússlands og umsvif á svæðinu eru þekkt í grundvallaratriðum og óbreytt en efnahagslegt mikilvægi norðurslóða fyrir Rússland á að líkindum eftir að aukast mikið og hagsmunir í takt við það.
Umskipti gætu orðið eftir einhverja áratugi á norðurslóðum opnist Íshafið vegna hlýnunar Jarðar. Það mundi meðal annars leiða til þess að samkeppni Kína og Bandaríkjanna – í sívaxandi mæli ráðandi þáttur alþjóðamála – næði að fullu inn á norðurslóðir og um þær til Norður Atlantshafs og Íslands. Ógn við öryggi Íslands ykist í takt við þessa þróun.
Í tengslum við erfiðleika í samskiptum Trump stjórnarinnar og NATO ríkja hefur örlað á efasemdum hér á landi um að treysta mætti því að Bandaríkin stæðu við varnarskuldbindingar gagnvart Íslandi. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess. Reyndar má ætla má að svo lengi sem Íslendingar vilja halda í varnarsamstarfið muni þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum – ef ekki á meginlandi Evrópu – viðhalda áhuga Bandaríkjahers á aðstöðu á Íslandi. Hann á sögu sem senn fyllir 84 ár.
En gæti ESB eða ríki þess annast varnir Íslands ef Bandaríkin gengju úr skaftinu í NATO? Svo afdrifaríkt skref af hálfu Bandaríkjannaer ólíklegt en ekki útilokað eftir að Trump stjórnin kom til sögu með efasemdir um bandalagið og gagnrýni á það og gælur við höfuðandstæðingana Rússa. Óháð þessu eru miklar líkur á að Bandaríkin eigi eftir að draga verulega úr her sínum og hernaðarumsvifum í Evrópu og snúa athyglinni enn frekar en þegar er orðið að Kína og Asíu-Kyrrahafssvæðinu. En þessi atriði hefðu þó, eins og fyrr sagði, ekki áhrif á varnir Íslands svo lengi sem Íslendingar vildu halda áfram varnarsamstarfinu við Bandaríkin.
Hvað sem öðru líður er grundvallaratriði að ESB eða ríki þess hafa ekki og munu ekki um fyrirsjáanlega framtíð hafa getu til að tryggja hernaðarlegt öryggi eyríkisins Íslands langt úti á Norður-Atlantshafi.Það sem þyrfti væru fyrst og síðast öflugar loftvarnir gegn rússneskum stýriflaugum, sem kæmu að landinu, einkum til árása á Keflavíkurflugvöll, og geta til að ráðast gegn rússneskum flugvélum langt norður af landinu áður en stýriflaugar þeirra yrðu sendar af stað. Ennfremur þyrfti hernaðargetu gegn kafbátum sem bera stýriflaugar. Loftvarnirnar mundu kalla á marga tugi orrustuþotna á Íslandi, ratsjárþotur og eldsneytisþotur. Einungis Bandaríkjaher hefur þá hernaðargetu sem þyrfti.
Einnig þyrfti flugvélar til að flytja stöðugt til landsins varahluti og nauðsynlegan mannskap og búnað til að halda loftvarnaflugvélaflotanum í starfhæfu standi á Íslandi undir miklu álagi. Það er einnig langt í frá að ESB ríki gætu þetta.
Herir næstum allra ESB ríkjanna eru um margt veikburða eftir áratuga vanrækslu og fjársvelti. Það mun kosta mikið átak og taka að lágmarki við bestu fjárhagsleg skilyrði allmörg ár – 5 -10 ár gjarnan nefnd – að byggja upp hernaðargetuna að því marki að herirnir gætu tryggt öryggi eigin landa hvað þá annarra og fjarlægra ríkja.
Borgaraleg öryggismál: Ein lykilforsenda ríkisvalds er að tryggja landamærin og halda uppi löggæslu. Það er þannig grundvallaratriði að fullnægjandi eftirlit sé á landamærunum til að koma í veg fyrir að skipulögð glæpaöfl og hættulegir einstaklingar komist til landsins og nái að hreiðra um sig. Og ekki er unnt að útiloka að hryðjuverkahópar kunni að horfa hingað.
Á landamærunum er úrbóta þörf.
Það er spurning hvort eyríkið Ísland eigi heima í Schengen samstarfi Evrópurikja um opin landamæri. Ein lykilforsenda Schengen samstarfsins er að þátttökuríkin eiga landamæri með öðrum Schengen ríkjum. Það á vitanlega ekki við Ísland, ekki frekar en við eyríkið Bretland sem tók ekki þátt í Schengen og var þó í ESB þegar samstarfinu var komið á fót.
Það þarf að láta reyna á hvaða möguleikar eru á því í Schengen með vísan í landfræðilega sérstöðu Íslands að herða eftirlit á landamærunum. Í því fælist að taka aftur upp almenna vegabréfaskoðun hjá þeim sem koma til Íslands frá Schengen ríkjum, taka upp myndgreiningarkerfi á landamærastöðvum og ganga eftir því að öll flugfélög afhendi farþegalista.
Það þarf vart að taka fram að auk þess að herða landamæraeftirlit þarf auðvitað að tryggja öfluga löggæslu en einnig landhelgisgæslu sem er útbúin til þess að hafa fullnægjandi eftirlit með hafsvæðum við landið.
Vond samskipti NATO ríkja við Rússa auka hættu á ógn við öryggi fjarskiptastrengja sem liggja að Íslandi neðansjávar. Hér er auðvitað umgrundvallaraöryggisatriði að ræða fyrir samfélagið. Jafnframt ætti að vera fremur auðvelt að fylgjast með ferðum tiltölulega fárra erlendra skipa við landið í þeim tilgangi að gæta öryggis strengjanna. Nú stendur til að landhelgisgæslan fái ómannaðan kafbát til eftirlits með strengjunum og er það góð ráðstöfun.
Líkur á ógn viðnetöryggi á landinu aukast einnig vegna erfiðra samskipta við Rússland.
Loks þarf að gæta að hugsanlegum fjölþátta ógnum. Það á við mögulegar ógnir sem lúta meðal annars að óeðlilegum þrýstingi og undirróðri af hálfu erlendra ríkja. Í þessu samhengi þarf sérstaklega að horfa til harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu og á norðurslóðum.
Öll þessi mál – landamæraeftirlit, öryggi sæstrengja, netöryggi og viðnám gegn fjölþátta ógnum – eru borgaraleg öryggismál eins og sagði í inngangi. Verkefni á könnu íslenskra stofnana og sem engin ástæða er til að ætla að þær ráði ekki við hafi þær þann búnað og mannskap sem til þarf.
Það er að þessum öryggismálum sem beina á auknum fjármunum eftir þörfum auk stuðnings við Úkrænu og önnur málefni eftir því sem við á og tengjast hagsmunum Íslands sem lúta að öryggi, velferð og stöðugleika í Evrópu.