Veikleikar Írans verða sífellt ljósari, en er komin upp staða til að þoka málum í átt til friðasamlegra lausna í Miðausturlöndum?

Eldflaugaárás Írana í dag á bækistöð Bandaríkjahers í Qatar endurspeglaði mikla veikleika Írans og grundvallarbreytingar á valdajafnvægi í Miðausturlöndum. Íranar sendu fáar flaugar til árásarinnar, álíka margar og Bandaríkjaher notaði í árásina á kjarnorkustöðvar Írana aðfaranótt sunnudags. Íranar létu vita af árásinni svo tryggt væri að varnarkerfi gætu mætt henni og grandað árásarflaugunum. Árásin á bækistöðina í Qatar var með öðrum orðum táknræn.

Þetta minnir á viðbrögð Írana þegar Bandaríkjamenn réðu Soleimani af dögum 2020 til að hefna fyrir árásir á bandarískar herstöðvar í Írak. Solemani var einn af æðstu yfirmönnum byltingarvarðanna í Íran.

Í kjölfar drápsins á Soleimani voru væntingar um harkaleg viðbrögð Írana sem ekkert varð úr.

Nú eru Íranar í enn veikari stððu en 2020. Bandamenn þeirra, hryðjuverkasamtök í Líbanon, Sýrlandi og á Gaza hafa lotið í lægra haldi gagnvart ísraelska hernum og Mossad, ísraelsku leyniþjónustunni. Það kemur í kjölfar aðgerða Ísraelsmanna vegna árásar Hamas samtakanna á Ísrael frá Gaza 7. október 2023.

Íranar eiga fáa vænlega kosti nú til að svara árásum Ísraelshers undanfarna 10 daga eða árás Bandaríjanna um síðusut helgi og hafa engan stuðning – annan en munnlegan – frá öðrum ríkjum á svæðinu, og sama gildir um afstöðu Rússa og Kínverja.

Áhugaverða spurningin er hvort nú sé að verða lag til að hefja viðræður um raunhæfan samning um kjarnorkuáætlun Írana, samning sem allir aðilar telja þjóna öryggi sínu, viðræður jafnframt um frið og stöugleika í Sýrlandi og loks viðræður um tveggja ríkja lausn á deilum Ísraels og Palestínu.

Með öðrum orðum: Kunna þær grundvallarbreytingar sem greinilega hafa orðið á valdastrúktúr og valdajafnvægi í Miðausturlöndum að leiða með tímanum til grundvallarbreytinga á samskiptum ríkjanna á svæðinu?

Leave a comment