Glittir í að Trump beiti loksins Rússa þrýstingi – eða snýr hann baki við Úkrænu?

Já, það glittir í stefnubreytingu og þrýsting, En bara glittir. Meira er það ekki enn sem komið er.

Jafnframt er hugsanlegt – jafnvel líklegt – að Trump Bandaríkjaforseti missi einfaldlega áhuga á Úkrænustríðinu.

Bandaríkin eru lykilaðili varðandi þróun Úkrænustríðsins en um stefnu þeirra í málinu hefur löngum ríkt óvissa. Það á bæði við stefnu Trumps og forvera hans, Bidens.

Biden stjórnin stóð staðfastlega með Úkrænu pólitískt og diplómatískt. Hún dró hinsvegar lappirnar ítrekað þegar kom að því úrslitaatriði að láta Úkrænu tímanlega í té þau vopn sem þurfti og stjórnvöld í Kænugarði báðu um. 

Ennfremur hafði Biden ekkert plan um hvernig mætti leiða stríðið til lykta þannig að tryggði vopnahlé en jafnframt fullveldi og öryggi Úkrænu í framhaldinu. Eina “planið” var að styðja Úkrænu “svo lengi sem þarf”, sem vitanlega var ekkert plan, auk þess að hergögn sem Úkræna bað um bárust oftar en ekki of seint sem fyrr sagði.

Með Trump varð sú grundvallarbreyting á stefnu Bandaríkjanna að upp kom óvissa um hvort Úkræna nyti yfir höfuð stuðnings þeirra gegn Rússum. Einnig varð til óvissa um afstöðu Bandaríkjanna til Rússlands og Putin stjórnarinnar. Markmiðið virtist allt að því vera að vingast við Putin á kostnað Úkrænu. Standa með andstæðingi NATO á örlagatímum í Evrópu.

Þrýstingur af hálfu Trump stjórnarinnar vegna stríðsins beindist ekki gegn Rússum heldur gegn Úkrænu. Þó hefur Úkrænustjórn verið reiðubúin til að fallast á skilyrðislaust vopnahlé sem fyrsta skref til viðræðna en Rússar hafa ekki fallist á slíkt vopnahlé. Þeir hafa ítrekað kröfur sínar og markmið þeira með innrásinni í Úkrænu eru óbreytt. 

Trump stjórnin virðist nú ætla að hætta vopnasendingum til Úkrænu. Þá fólu tillögur stjórnarinnar í viðræðum við annarsvegar Rússa og hinsvegar Úkrænumenn að Úkræna féllist á helstu kröfur Rússa. Jafnframt gagnrýndi Bandaríkjaforseti ítrekað Zelensky, Úkrænuforseta, reyndi að grafa undan honum, og sagði nokkrum sinnum að Úkræna væri sökudólgurinn í stríðinu. 

Í þessu fólst auðvitað engin eiginleg friðaráætlun enda gekk hvorki né rak í viðræðunum sem Bandaríkjastjórn beitti sér fyrir til að leita lausnar. Úkræna gat ekki fallist á tillögur Trump stjórnarinnar og Rússar höfðu augljóslega engan hvata til að gefa eftir og hætta við það lykilmarkmið með stríðinu að festa Úkrænu inni á rússsnesku áhrifasvæði auk þess að hirða um fimmtung af úkrænsku landi. 

Hið undarlegasta við eftirlátssemi Trumps við Rússa er að þeir eru í veikri stöðu eftir hrakfarir rússneska hersins í stríðinu, mikið manntjón og gífurlegt hergagnatjón. Jafnframt hefur stríðið leitt í ljós alvarlega veikleika landhers, flughers og flota hvað varðar grundvallaratriði eins og skipulag, stjórnun, þjálfun, hæfni svo ekki sé minnst á landlæga spillingu sem nær auvitað inn í raðir hersins og til hergagnaframleiðslunnar.

Vísbendingar hafa komið fram um að glitti í stefnubreytingu hjá Trump og að hugsanlega verði settur þrýstingur á Rússa.

Á Bandaríkjaþingi er uppi tillaga sem kom fram að frumkvæði áhrifamikilla þingmanna repúblikana um mánaðarmótin mars apríl. 

Flutningsmenn í öldungadeild þingsins segja að það sé ráðandi skoðun þar á bæ að Rússar séu árásaraðilinn í Úkrænustríðinu. Þessi málflutningur gengur gegn yfirlýsingum Trumps um orsakasamhengi mála.  Málflutningur þingmannanna felur í sér siðferðilega prinsippafstöðu sem forsetinn hefur aldrei haft – að minnsta kosti ekki opinberlega.

Jafnframt krefjast flutningsmenn tillögunnar að Rússar hætti strax árásarstríðinu gegn Úkrænu. Þá verði í framhaldinu að láta Úkrænuher í té vopn til að fæla Rússa frá frekari hernaðaraðgerðum gegn landinu.  

Tillagan er sögð hafa fengið nægan stuðning hjá þingmönnum repúblikana og demókrata til að ná fram. 

Lykilatriði er að tillagan felur í sér mjög hertar efnahagslegar þvinganir Bandaríkjanna gegn Rússlandi; reyndar stigmögnun aðgerða og gerbreytt eðli þeirra.

Tillagan snýst annarsvegar um að þrengja enn frekar að rússneskum fjármálastofnunum en hins vegar, sem væri eðlisbreyting, að taka upp aðgerðir ekki einungis gegn Rússum heldur einnig gegn ríkjum sem kaupa olíu og gas og úran frá Rússlandi. 

Þar væri um risastóra kaupendur að ræða hvað olíu og gas varðar. Þetta eru Kína og Indland sem samkvæmt þingtillögunni fengju á sig háa refsitolla á útflutning til Bandaríkjanna héldu þessi ríki áfram að kaupa af Rússum. Tilgangurinn væri í aðalatriðum að valda hruni í tekjum Rússlandsstjórnar og gera henni þar með einkar erfitt um vik og jafnvel ókleift að fjármagna hernaðinn gegn Úkrænu.

Trump átti samtal við Zelensky Úkrænuforseta í Vatíkaninu á útfarardegi Francis páfa 26. apríl. Dagana áður höfðu Rússar gert harðar loftárásir á borgir í Úkrænu. Eftir samtalið vakti Trump máls á því að til þess gæti komið að grípa þyrfti til einmitt sömu aðgerða gegn Rússum og felast í tillögunni sem uppi er á Bandaríkjaþingi um mjög hertar efnahagsþvinganir og stigmögnun þeirra. 

Þarna glitti sem sagt í stefnubreytingu hjá forsetanum og hugsanlegt upphaf að því að loksins yrði þrýst í alvöru á Rússa til að knýja þá til vopnahlés og friðarsamninga.

Tillagan er þó enn sem komið er auðvitað bara tillaga og vel hugsanlegt miðað við það sem á undan er gengið að hún gangi allt of langt að mati forsetans og hans manna. 

Mestu kann þó að skipta í þessu máli öllu að utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur ítrekað viðrað að undanförnu þann möguleika að Trump stjórnin hætti viðleitni til að koma á vopnahléi og samningum í Úkrænustríðinu. Ráðherrann hefur í reynd sagt að náist ekki árangur fljótlega missi forsetinn áhuga á málinu og beini þess í stað athygli og atorku Bandaríkjanna í utanríkismálum að öðrum stöðum en Úkrænu og Evrópu, en aðallega að Asíu-Kyrrahafssvæðinu vegna Kína og að Miðausturlöndum. Þeim virðist fara fjölgandi sem telja þennan kost líklegan.

Þar með hefðu Bandaríkin í reynd sagt sig frá því að gegna forystuhlutverki í evrópskum öryggismálum og jafnframt sagt skilið við sögu sem spannar 84 ár – til síðari heimsstyrjaldar.

Leave a comment