Friðaráætlun Evrópuríkja fyrir Úkrænu, sem varð til á leiðtogafundi í London fyrir örfáum dögum, inniheldur mikilvæg atriði. Hún er þó enn einungis vísir að friðaráætlun jafnframt því að síauknar líkur eru á að Bandaríkin verði ekki með í að hrinda henni í framkvæmd. Þá hefur Trump nú stöðvað vopnasendingar frá Bandaríkjunum til Úkrænu.
Vesturlönd hafa brugðist Úkrænu frá upphafi árásarstríðs Rússa gegn landinu
Atlaga Rússa að Úkrænu hófst 2014 með hernámi Krímskaga og hernaðaríhlutun í borgarastríð í austurhluta landsins, sem Rússlandsstjórn kynti undir. Viðbrögð NATO ríkjanna voru máttlaus, sem gróf auðvitað undan trúverðugleika bandalagsins og stöðu Úkrænu. Sama gerðist þegar Rússar virtu ekki svonefnt Minsk samkomulag frá 2015. Trúverðugleiki bandalagsins veiktist enn frekar.
Eftir að allsherjar innrás Rússa hófst í febrúar 2022 barst aðstoð frá NATO ríkjunum en seint og illa og ætíð í kjölfar umræðu og angistar sem gróf enn frekar undan stefnu bandalagsins og veikti auðvitað Úkrænu. En kraftaverk gerast og Úkrænuher tókst að stöðva innrásarherinn og hrekja á flótta á mikilvægum stöðum, þar á meðal frá höfuðborginni Kyiv.
Engin áætlun kom fram af hálfu NATO ríkjanna um hvernig mætti binda enda á átökin með því annaðhvort að reyna að styðja Úkrænu til sigurs eða stöðva stríðið með samningum við Rússa um vopnahlé.
Eftir að ljóst virtist að vopnahlé væri eini möguleikinn til að stöðva stríðið, var ekkert plan um það af hálfu NATO hvernig mætti koma því á eða hvernig mætti búa þannig um hnútana að það héldi og öryggi Úkrænu yrði tryggt í framhaldinu.
Og allan tímann hvikuðu Rússar ekki frá markmiðum sínum í Úkrænu þrátt fyrir mikla hrakför sem hefur leitt þá svo gott sem að niðurlotum í stríðinu – í bili. En Úkræna stendur veikar en Rússland og er áfram afar háð utanaðkomandi hernaðar og fjárhags aðstoð.
Og nú eftir að Trump forseti benti réttilega á að mál væri að linnti og stöðva yrði stríðið í beggja þágu er komið í ljós að hann hefur enga friðaráætlun sem heitið getur.
Eina sem hann og ráðherrar hans og ráðgjafar hafa lagt til mála er að Úkrænumenn verði að fallast á kröfu Rússlands um að þeir láti af hendi land í Úkrænu, svæði sem Rússar hertóku fljótlega eftir innrásina og stofnuðu rússnesk lýðveldi á. Einnig þurfi Úkræna að mati Trump stjórnarinnar að afsegja þann möguleika að hún geti gengið í NATO. Það má ræða hvað er raunsætt og á hvaða tíma hvað þessi tvö mál varðar. En þau lúta að grundvallaratriðum sem verður að halda í.
Það sem komið hefur frá Trump og hans mönnum er því auðvitað ekki friðaráætlun fyrir Úkrænu, heldur undanhald og flótti frá prinsippum. Þá hefur Trump stjórnin ofan í kaupið hallað Bandaríkjunum að Rússum og sjónarmiði þeirra um að Úkræna beri í reynd ábyrgð á stríðinu og að gagnrýnt Zelensky, Úkrænuforseta, og niðurlægt – og tekið ennfremur undir lýsingar Rússa á honum sem einræðisherra.
Og hver hefði trúað því að það ætti fyrir Bandaríkjunum að liggja að standa með Rússlandi, Norður Kóreu og Hvíta Rússlandi í atvæðagreiðslu í Sameinuðu þjóðunum um Úkrænustríðið og í reynd líta á fórnarlambið sem sökudólgi í málinu.
Og nú hefur Trump stöðvað vopnasendingar frá Bandaríkjunum til Úkrænu.
Allt þetta felur auðvitað í sér gerbreytta stefnu Bandaríkjanna og grefur augljóslega og enn frekar undan málstað og samningsstöðu Úkrænu.
En hvernig gæti friðaráætlun fyrir Úkrænu litið út?
Í fyrsta lagi fæli hún í sér að stöðva eigi átökin með vopnahléi enda báðir herir í grunninn að niðurlotum komnir. Jafnframt að Úkrænu yrðu látin í té með mesta mögulega hraða þau vopn sem þarf til að efla hana, halda aftur af rússneska hernum og styrkja samningsstöðu Úkrænu.
Herða þarf efnahagsþvinganir gegn Rússlandi, en lýsa jafnframt yfir vilja til að létta einhverjum þvingunum gegn vopnahléi.
Halda verður þeirri kröfu inni að Rússar skili landi því sem þeir hafa hertekið frá Úkrænu, enda óásættanlegt að verðlauna innrás og árásarstríð með því að afhenda sökudólgunum svæði af landi fórnarlambsins. Það væri ennfremur hættulegt fordæmi í alþjóðakerfinu.
Halda fast við þá stefnu NATO að Úkræna eigi rétt á að ákveða eigin utanríkisstefnu – þar á meðal hvaða bandalög eða ríkjasamtök hún vilji taka þátt í. Hafna þar með þeirri kröfu Rússa að Úkræna verði í reynd hluti af áhrifasvæði þeirra og þar með auðvitað hvorki fullvalda né frjálst og sjálfstætt ríki.
Vopnahlé felur auðvitað ekki í sér varanlega lausn – hefur þann augljósa veikleika að það endurheimtir ekki í sjálfu sér landsvæðin sem Rússar hafa hertekið og Úkrænumenn skortir getu til að taka aftur með hervaldi. Þetta vita allir sem vilja vita en kröfuna um að Rússar skili herteknu landi má samt ekki gefa eftir sem fyrr sagð.
Loks þarf að búa þannig um hnútana að vopnahlé haldi og tryggja öryggi og fullveldi Úkrænu eftir vopnahléð með þeirri aðstoð sem þarf til að halda aftur af Rússum og fæla þá frá annarri atlögu.
Oft er bent á Kóreustríðið til stuðnings því sjónarmiði að þótt vopnahlé geti ekki leyst grundvallarmál megi koma því á og þannig að haldi. Kóreustríðinu lauk 1953 með vopnahléi sem stendur enn og er stutt og varið af suður kóreska hernum og Bandaríkjaher.
Drög Evrópuríkjanna að friðaráætlun gera ráð fyrir áframhaldandi og aukinni hernaðaraðstoð við Úkrænu, að hert verði á efnahagsþvingunum gegn Rússlandi og séð til þess að að unnt verði að halda Rússum í skefjum eftir að vopnahlé kemst á.
Staða Úkrænu er erfið á vígvellinum og að óbreytttu er hún í veikri stöðu til lengri tíma litið, þó einkum eftir einhver ár þegar Rússar hafa að líkindum endurreist herinn eftir ófarir hans í stríðinu og nægilega til að hann geti ógnað Úkræna á ný.
Þá er enn engin vísbending um samningsvilja af hálfu Rússa. Þvert á móti. Hins vegar nálgast í kjölfar framkomu og yfirlýsinga Trumps og hans manna að áratuga draumur Kremlarherra um klofið NATO verði hugsanlega að veruleika.
Geta Evrópuríkin fyllt í skarðið ef Bandaríkin ganga úr skaftinu?
Það er augljóslega ekki eining meðal NATO ríkjanna né heldur í ESB um stefnuna í Úkrænumálinu. Þess vegna er ekki talað bandalagið eða ESB friðaráætluninni frá London fundinum, heldur um “samsteypu hinna viljugu” (colition of the willing).
Evrópuríkin eru til saman miklu fjölmennari og margfalt auðugri en Rússland, þau hafa mikla almenna tæknilega yfirburði yfir Rússa og sum þeirra ráða þegar yfir öflugum her. Þá er Rússland miklu veikara en áður eftir hrakför rússneska hersins í Úkrænu en stríðið hefur leitt ljósi marga grundvallarveikleika í her og stjórnkerfi Rússa.
Það virðist líða að því óháð stefnu Bandaríkjanna og þróun NATO að Evrópuríki NATO og ESB verði að beita sér af þeim þunga sem þau geta haft ef vilji er fyrir hendi og svo koma megi í veg fyrir að Rússar herði róðurinn í Úkrænu. Þau munu ekki hefja þátttöku í stríðinu með Úkrænu en geta stutt hana í því svo um munar. Ennfremur ef vopnahlé kemst á tekið þátt í að tryggja það og styðja Úkrænu þannig að hún geti haldið aftur af Rússum í framhaldinu.
Nú hefur framkvæmdastjórn ESB stigið mikilvægt skref og lagt fram tillögu um 800 milljarða evra til varna Evrópu og stuðnings Úkrænu á næstu fimm árum. Fljótlega kemur í ljós hvort tillagan hlýtur stuðning. Það mundi marka tímamót í sögu álfunnar.
Það hriktir í NATO
Á skömmum tíma hefur orðið mikil óvissa um framtíð NATO vegna stefnu Trumps í málefnum Úkrænu. Spurningunni um hvað rekur Trump áfram verður ekki svarað hér en sjónir margra beinast í því efni gjarnan og skiljanlega að stjórnmálum í Bandaríkjunum og en einnig að persónueinkennum Bandaríkjaforseta.
En til lengri tíma litið og óháð Trump verður að horfa til þess að alþjóðakerfið hefur breyst í grundvallaratriðum og ekki vegna Úkrænu og Evrópu heldur vegna uppgangs Kína sem er orðið næst mesta stórveldi heims á eftir Bandaríkjunum.
Þungamiðja alþjóðakerfisins liggur ekki lengur á Evró-Atlantshafssvæðinu heldur á Asíu-Kyrrahafi og vægi Evrópu í alþjóðakerfinu á eftir að minnka enn frekar en orðið er. Rubio, nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt réttilega að saga 21. aldar verði saga samkeppni Bandaríkjanna og Kína. Bandaríkin verða upptekin í Asíu.
Þessar miklu breytingar valda því að Evrópuríki verða fyrr en síðar að gera upp hug sinn. Hvort þau hafi vilja til þess að bera hita og þunga af öryggi og vörnum álfunnar?