Ísland og Grænland á áhrifasvæði Bandaríkjanna

Þótt Úkrænustríðið hafi leitt í ljós mikla veikleika Rússlands sem herveldis og rússnesk hernaðarumsvif hafi orðið hverfandi lítil í nágrenni Íslands og Grænlands valda lykilþættir því að bæði löndin eru á áhrifasvæði Bandaríkjanna. Þannig hefur verið um langa hríð – allt frá 1941 í annarri heimsstyrjöld. 

Áhrifasvæðið hvílir á sameiginlegum hagsmunum en ræðst endanlega af þjóðaröryggi Bandaríkjanna, kjarnorkujafnvæginu milli þeirra og Rússlands á norðurslóðum og hagsmunum Bandaríkjanna af stöðugleika í öryggismálum Evrópu. 

Þá skiptir miklu nýr þáttur sem hefur aukið áhuga Bandaríkjanna á norðurslóðum á undanförnum árum. Þetta er harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína á heimsvísu, sem þegar hefur snert Ísland og Grænland og mun hugsanlega þegar fram í sækir ná í síauknum mæli til norðurslóða. 

Ólíklegt má telja að yfirlýsingar Trumpls Bandaríkjaforseta undanfarið um að Bandaríkin þurfi að eiga Grænland skaði hagsmuni Bandaríkjanna og árifavæðið – til lengri tíma litið að minnsta kosti – og það er langtíminn sem einkennir þróun á norðurslóðum. Stórar breytingar þar, hvort heldur í öryggismálum eða hvað varðar aðgang að auðæfum í jörðu eru háðar hlýnun Jarðar og hve mikið heimskautaísinn hörfar á næstu áratugum. 

Enn er það Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sem hefur að mati höfundar vefsíðunnar komist best að orði um glannaleg ummæli og flumbrugang Bandaríkjaforseta varðandi Grænland. Ráðherrann sagði að taka bæri yfirlýsingar forsetans alvarlega en ekki bókstaflega

Áhrifasvæði Bandaríkjanna sem nær til Íslands og Grænlands er ekki klassískt áhrifasvæði, haldið gangandi með kúgun og undirokun af hálfu viðkomandi stórveldis. Þess í stað er áhrifasvæði Bandaríkjanna á norðurslóðum í grunninn byggt á sameiginlegum hagsmunum og gildismati ríkjanna þriggja enda hefur svæðið verið friðsamt og stöðugt. Það styðst ennfremur við tvíhliða samninga milli ríkjanna og við aðild Íslands og Danmerkur – og Grænlands – að NATO. 

Á hinn bóginn hefur sú breyting orðið á undanförnum árum að Bandaríkin hafa talið sig þurfa að gæta hagsmuna sinna á áhrifasvæðinu með afskiptum af samskiptum Íslands og Grænlands við Kína. Bandaríkin komu, þegar Trump var fyrst forseti, í veg fyrir að kínverskt fjármagn og fyrirtæki byggðu flugvelli á Grænlandi og vöruðu Íslendinga við kínverska fyrirtækinu Huawei, sem er risafyrirtæki á fjarskiptamarkaði, og við þátttöku Íslands í kínverskri áætlun sem kennd er við Belti og braut. (sjá “Trump girnist Grænland – á ný”, vefsíða um alþjóðamál, 30. desember 2024.) 

Yfirlýsingar Trumps Bandaríkjaforseta hafa verið áberandi en Biden stjórnin hafði auðvitað einnig áhuga á svæðinu. Hún framkvæmdi ákvörðun Trump stjórnarinnar fyrri um að opna aðalræðisskrifstofu Bandaríkjanna á Grænlandi og um að veita Grænlendingum fjárhagslegan stuðning vegna menntamála og til að þróa ferðamennsku og námavinnslu. Blinken, utanríkisráðherra Bidens, heimsótti Grænland 2021.

Áhrifasvæðið ræðst áfram af kjarnorkujafnvæginu milli Bandaríkjanna og og Rússlands á norðurslóðum. Rétt er að taka fram að þetta jafnvægi er stöðugt og verið hefur alla tíð. Jafnframt koma til hagsmunir sem varða fælingasstefnu Bandaríkjanna og NATO gegn Rússum á meginlandi Evrópu.

Ennfremur tekur stefna Bandaríkjanna á áhrifasvæðinu mið af gerbreyttu alþjóðakerfi þar sem Asíu-Kyrrahafssvæðið og samkeppni US og Kína hafa orðið ráðandi þættir. Samkeppnin fer harðandi og mun sem fyrr segir ná í auknum mæli til norðurslóða þegar fram í sækir, auk þess að samvinna Rússlands og Kína mun aukast.

Svæðið ræðst sem fyrr segir af þjóðaröryggi Bandaríkjanna en byggir einnig áfram á sameiginlegum hagsmunum og gildismati þeirra, Íslands og Grænlands. Engar líkur á að þetta eðli og einkenni svæðisins breytist í aðalatriðum. Afar ólíklegt verður að teljast að Ísland halli sér að Kína í samkeppni við Bandaríkin og enn minni líkur á því að það halli sér að Rússlandi. Bandaríkin munu á hinn bóginn hafa sérstakar  gætur á Kínverjum á áhrifasvæðinu og bregðast sem fyrr við hugsanlegri ásælni þeirra á Grænlandi og Íslandi. 

Ísland er og verður á áhrifasvæðinu óháð því hver er forseti Bandaríkjanna, óháð stöðu NATO hverju sinni og óháð tengslum Íslands við Evrópusambandið.Hvorki ESB né Evrópuríki NATO munu nokkurntíma hafa burði til að koma í stað Bandaríkjanna í hernaðarlegum efnum í okkar heimshluta eða á norðurslóðum almennt. 

Þegar og ef bráðnun heimskautaíssins breytir veröldinni með opnun Íshafsins milli Atlantshafs og Kyrrahafs,hugsanlega á seinni hluta aldarinnar, yrði samkeppni Kína við Bandaríkin ráðandi á norðurslóðum. Ísland og Grænland fengju enn aukna þýðingu fyrir Bandaríkin.

image.png

Greinar um tengd efni á vefsíðunni:

Trump girnist Grænland á ný, 30. desember 2024.

Stöðugleiki í öryggismálum á norðurslóðum, 31. ágúst 2023.

Breytt heimsmynd og norðurslóðir, 4. október 2022.

Ísland og umheimurinn 2020-2050 Annar hluti: Á norðurslóðum, 24. febrúar 2021.

Ísland og Bandaríkin – og norðurslóðir – og Kína!, 10. október 2019.

Leave a comment