Að því að fram kom í ummælum Donalds Tumps, verðandi Bandaríkjaforseta, 22. desember síðastliðinn líta Bandaríkin svo á að þjóðaröryggi þeirra sem og frelsi um víða veröld krefjist þess að þau eigi og ráði yfir Grænlandi,(“For purposes of National Security and Freedom throughout the World, the United States of America feels that the ownership and control of Greenland is an absolute necessity.”) Ummælin birtust þegar Trump tilkynnti val á sendiherraefni Bandaríkjanna í Danmörku. Í “jólaskilaboððum” á netinu 25. desember fór Trump um víðan völl, meðal annars í alþjóðamálum og ítrekaði þá mikilvægi Grænlands fyrir öryggi Bandaríkjanna.
Grænland hefur haft mikla hernaðarlega þýðingu fyrir Bandaríkin um langa hríð, fyrst í síðari heimsstyrjöld og síðan í enn ríkari mæli í kalda stríðinu og einnig í kjölfar þess. Á árinu 1946 hafði stjórn Harry Trumans, forseta, áhuga á að kaupa Grænland og lét hann í ljós í trúnaðarviðræðum við dönsk stjórnvöld. Þau höfnuðu hugmyndinni og eftir það voru eftir þörfum gerðir samingar um hernaðaraðstöðu Bandaríkjanna á Grænlandi.
Trump lýsti fyrst áhuga á að kaupa Grænland í ágúst 2019 þegar hann var forseti. Grænland væri strategískt mikilvægt. Hann tók þó fram að það að kaupa Grænlandi væri ekki meðal forgangsatriða stjórnar hans.
Þá og nú hafna Danir og Grænlendingar að Bandaríkin eignist Grænland. Í fyrra sinnið, 2019, kvað forsætisráðherra Danmerkur hugmyndina “fáránlega” (absurd). Trump aflýsti í kjölfarið heimsókn til Danmerkur í september 2019.
Burtséð frá klaufalegri nálgun Trumps í málinu – sem kemur ekki á óvart þegar hann á í hlut svo sérstakur sem er og hneigður fyrir flumbrugang – þá á málið sér hlið sem lýtur að bandarísku þjóðaröryggi.
Þar er um að ræða kjarnorkujafnvægið milli Bandaríkjanna og Rússlandsog bandaríska hagsmuni í þeim efnum sem hafa verið til staðar í marga áratugi. Ennfremur hafa norðurslóðir tengst fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO gegn Sovétríkjunum og síðar Rússlandi á meginlandi Evrópu.
En hagsmunir Bandaríkjanna á norðurslóðum lúta einnig að nýrri og afar mikilvægri hlið mála – samkeppni sem þegar er hafin milli Bandaríkjanna og Kína á heimsvísuog á eftir að harðna og verða ráðandi þáttur í alþjóðamálum á þessari öld. Samkeppnin snertir meðal annars áhuga og umsvif Kínverja á norðurslóðum þótt þau séu lítil enn sem komið er. Ennfremur er að finna sjaldgæfa málma á Grænlandi, sem hafa lykilþýðingu fyrir þróun og framleiðslu hátæknivara og tengjast því náið samkeppni Bandaríkjanna og Kína á því mikilvæga sviði.
Trump skýrði ekki hvað lægi að baki yfirlýsingum hans nú um Grænland, umfram þau almennu atriði sem komu fram og áður greindi.
En 2019 heimsóttu tveir háttsettir fulltrúar Trump stjórnarinnar þáverandi Ísland. Svo tignir bandarískir gestir höfðu ekki komið til landsins svo árum skipti. Heimsókn þeirra gaf vísbendingar um sýn og hagsmuni Bandaríkjanna á norðurslóðum, þar á meðal á Íslandi, sem og hvað liggur að baki áhuga Trumps á Grænlandi.
Þetta voru Pompeo, utanríkisráðherra, og Pence, varaforseti. Það var áhugavert að erindi þeirra var ekki einkum að tala um Rússa eða ógn úr þeirri átt á norðurslóðum, heldur aðallega að vara við Kínverjum og ásælni þeirra og kínverskra fyrirtækja á svæðinu (Sjá Ísland og Bandaríkin – og norðurslóðir – og Kína!, Vefsíða um alþjóðamál, 10. október 2019 og Ísland og umheimurinn 2020-2050 Annar hluti: Á norðurslóðum, Vefsíða um alþjóðamál, 24. febrúar 2021.)
Um þetta leyti byrjaði öryggisstefna Bandaríkjanna að tengjast norðurslóðum nánar en áður og með áherslu á Kína auk Rússlands. Ástæðan var ekki sú að Kína væri þegar orðið áberandi á norðurslóðum, heldur var horft til lengri tíma og þess að Kína er öflugast andstæðingur sem Bandaríkin hafa átt og harðnandi samkeppni við það fyrirsjáanleg á heimsvísu.
Það á við á hernaðarsviðinu en einnig – og ólíkt Rússlandi og Sovétríkjunum þar áður – á efnahags-, viðskipta- og hátæknisviðum. Sovétríkin voru dvergur í þessum efnum samanborið við Bandaríkin – og önnnur Vesturlönd og sama á við um Rússland.
Þannig endurspeglar áhugi Trumps á Grænlandi nú og fyrir fimm árum raunverulega hagsmuni. Í grunninn er samstaða um það í bandarískum stjórnmálum að Kína sé öflugasti keppinautur Bandaríkjanna í bráð og lengd.
Auk almennrar samkeppi Kína og Bandaríkjanna um áhrif og ítök í alþjóðamálum kemur til bráðnun heimskautaíssins í kjölfar hlýnunar Jarðar. Hún auðveldar aðgengi að sjaldgæfum málum og opnar nýjar siglingaleiðir á norðurslóðum.
Samkeppnin milli Bandaríkjanna og Kína er staðreynd og hefur þegar snert norðurslóðir. Áhugi beggja þessara stórvelda á að efla umsvif sín og ítök á svæðinu á eftir að aukast á næstu árum og áratugum vegna harðnandi samkeppni þeirra á heimsvísu og vegna áhrifa hlýnunar Jarðar á hagsmuni þeirra á norðurslóðum.