Úkrænustríðið, Ísland og Norður Kórea

Hersveitir frá Norður Kóreu hafa nýlega gengið til liðs við Rússa í Úkrænustríðinu. Áður höfðu þeir sótt mikið af skotfærum til norður kóreska hersins og gera enn.

Norður Kórea er frumstætt land og bláfátækt og jafnframt einkar ömurlegt einræðis og harðstjórnarríki sem kúgar þegnana miskunnarlaust og getur að auki vart brauðfætt þá. Norður Kórea á kjarnavopn en það hefur vitanlega ekki bætt hag almennings með neinum hætti eða rofið einangrun landsins, sem umfram annað einkennir stöðu þess á alþjóðavettvangi.

Að Rússar neyðist til að reiða sig á Norður Kóreu um mannskap og skotfæri í stríði gegn Úkrænu er enn ein vísbending um að Rússland er hvorki stórveldi né burðugt herveldi 

Fall einræðis og harðstjórnar Assads forseta Sýrlands er nýjasta vísbendingin um þetta. Assad var náinn bandamaður – enda flúinn til Rússlands – sem Rússar höfðu stutt með ráðum og dáð og haldið uppi árum saman hernaðarlega og að öðru leyti í borgarastríðinu í landinu.

Rússneski landherinn hefur farið hrakför í stríðinu í Úkrænu og mátt þola hræðilegt manntjón, með hundruð þúsunda særða og fallna, og gífurlegt hergagnatjón að auki. Taktískur árangur á tilteknum stöðum í Donbass héraði í Úkrænu á undanförnum mánuðum breytir ekki því að rússneski landherinn er í molum. Þá hefur Svartahafsflotinn orðið fyrir miklu tjóni og langt síðan hann flúði af hólmi. Flugherinn sást ekki að ráði lengi vel í stríðinu og samræmdar aðgerðir landhers og flughers voru lítt eða ekki reyndar, sem segir mikla sögu um djúpstæða veikleika í þjálfun, stjórn og búnaði Rússlandshers. 

Við þessa grundvallarveikleika bætast alvarlegir og vaxandi efnahagslegir örðugleikar Rússlands – meðal annars skortur á hæfu vinnuafli, þar á meðal fólki til að manna hergagnaiðnaðinn. Efnahags- og viðskiptaþvinganir Vesturlanda halda áfram og þótt þær hafi reynst gloppóttar þá bíta þær auðvitað og harkalega á ýmsum mikilvægum sviðum sem varða herinn. Loks er ljóst að rússnesk stjórnvöld treysta sér ekki af pólitískum og félagslegum ástæðum til að hefja herútboð í þeim mæli sem þyrfti vegna Úkrænustríðsins.

Hér skal tekið skýrt fram að öðrum ríkjum en Úkrænu í nágrenni Rússlands, þeim sem eins og hún njóta ekki skjóls í NATO, kann að standa hernaðarógn frá Rússlandi. Það getur orðið eftir einhver ár takist að endurreisa rússneska herinn eftir ófarirnar í Úkrænu. Stundum er nefnt að það geti tekið 5-10 ár, sem kann þó hæglega að vera ofmat í ljósi almennra mikilla veikleika Rússlands og alvarlegra veikleika hersins og hergagnaframleiðslunnar. Að ná aftur herstyrk til þess að hugsanlega ógna NATO hernaðarlega er talið að mundi taka Rússa mörg ár. 

Ennfremur skal tekið skýrt fram að þótt Rússland sé hvorki stórveldi né burðugt herveldi þá á það ýmsa aðra möguleika gegn Vesturlöndum en venjulegan hernað – svonefndan fjölþátta (hybrid) hernað, það er undirróður af ýmsu tagi og hugsanleg skemmdarverk. 

Rússneski herinn er hægt og sígandi, en með miklu mannfalli og hergagnatjóni, að ná árangri í Donbass héraði í austur Úkrænu líkt og áður sagði. Ekki er útilokað að Rússar klári að leggja Donbass undir sig á næstu vikum. 

Það er ljóst að Úkrænuher er í veikri stöðu á  vígvellinum.

Upp úr stendur að herir beggja eru að niðurlotum komnir í stríðinu.

Norður kóresku hersveitirnar sem styðja rússneska herinn eru í Kursk héraði í Rússlandi. Markmiðið er að aðstoða Rússa til að hrekja úrkænskar hersveitir frá héraðinu  og auðvelda honum að einbeita sér að sókninni í Donbass.

Fljótlega verður að líkindum látið reyna á hvort semja megi um vopnahlé í Úkrænustríðinu og hvort það geti í framhaldinu leitt til þess að réttlátur og varanlegur friður fyrir Úkrænu komist á. Það er alls óvíst hvort Rússlandsstjórn féllist á slíka niðurstöðu. Mikið verður komið undir vinaríkjum Úkrænu – þar á meðal Íslandi, sem ef til friðarsamninga kemur verður væntanlega beðið um verulegan fjárhagslegan stuðning bæði vegna vopnakaupa til að tryggja vanir Úkrænu i kjölfar hugsanlegra samninga og vegna endurreisnar landsins.

Her sem er svo illa staddur að neyðast til að nota Norður Kóreu sem hækju og kemst að auki ekki klakklaust um sveitahéruð í Úkrænu – hann vinnur augljóslega ekki hernaðarafrek af neinu tagi á Íslandi í 4000 kílómetra fjarlægð. 

Fjarlægð er þó auðvitað ekki aðalatriði heldur þeir miklu og alvarlegu hernaðarlegu veikleikar Rússa sem hafa blasað við í Úkrænustríðinu og voru greinilega til staðar áður en það hófst með innrás þeirra í febrúar 2022.

Áhyggjur sem stundum örlar á hér á landi um að Íslandi stafi hernaðarleg hætta frá Rússlandi eru óþarfar, þótt fjölþátta aðgerðir kunni að vera hugsanlegar eins og áður sagði. Keflavíkurflugvöllur er vafalaust skotmark og hefur verið það í marga áratugi, en forsenda slíkrar árásar er stríð milli Rússlands og NATO sem litlar líkur eru taldar á að brjótist út, enda ljóst eftir Úkrænustríðið að Rússland færi mjög halloka í þeim átökum.

Hernaðarleg umsvif Rússa á svæðum í nágrenni Íslands höfðu hætt fyrir Úkrænustríðið 

Hnignun rússneska hersins höfðu birst í nágrenni Íslands þegar fyrir Úkrænustríðið. 

Rússnesk herflugvél hefur ekki komið yfir svæði nálægt Íslandi frá því um sumarið 2020. Það var eftirlitsflugvél. Rússneskur tundurspillir sást í nágrenni landsins 2021 en þá höfðu rússnesk herskip vart komið þangað svo áratugum skipti. Loks virðast ferðir rússneskra kafbáta áfram mjög strjálar um svæði nálægt Íslandi, reyndar hafa ekki sést merki undanfarin ár um kafbátaleit með flugvélum NATO ríkja á þessum slóðum. Merki um færi ekki fram hjá einstaklingum, sem fylgjast af miklum áhuga og náið með herflugi á netinu og nota til þess sérstakan búnað. Líkt og áður hefur oft komið fram á þessari vefsíðu er fremur auðvelt aðra að fylgjast með herflugi á alnetinu með aðstoð þessara aðila. 

Bandarískar eftirlits og njósnaflugvélar af gerðinni Boeing P-8 Poseidon hafa tímabundna viðveru á Keflavíkurflugvelli. Undanfarin ár hafa þær farið eftirlitsferðir frá Íslandi til Eystrasalts fremur en stunda þær aðallega yfir Norður-Atlantshafi. Herflug frá Íslandi til Barentshafs heldur áfram, þó ekki reglulega. 

Um vísbendingar um lítil eða engin rússnesk hernaðarleg umsvif á svæðum í námunda við Ísland var síðast fjallað hér á vefsíðunni í byrjun árs 2023 (“Sinna íslensk stjórnvöld ekki sem skyldi öryggis- og varnarmálum?”, 4. janúar 2023.). 

Engin breyting hefur orðið í aðalatriðum á flugi P-8 flugvéla frá Keflavíkurflugvelli eftir það. Nýjast er að P-8 flugvél fór frá Keflavíkurflugvelli í eftirlits og njósnaflug 12. desember síðastliðinn og þá til Barentshafs. Keflavíkurflugvöllur tengist áfram kjarnorkujafnvæginu á norðurslóðum líkt og hann hefur gert frá því um miðja síðustu öld og Barentshaf og Kolaskagi eru og hafa verið lykilstaðir í því efni.

Leave a comment