Rússar hafa farið hrakför í Úkrænustríðinu. Almennir og miklir veikleikar rússneska hersins hafa komið sífellt betur í ljós, sem breytir þó ekki því að á undanförnum vikum og mánuðum hefur staða Úkrænumanna smám saman veikst verulega á vígvellinum.
Rússneskar herssveitir halda áfram að sækja hægt og bítandi að lykilstöðum í Donbass héraði í austurhluta landsins þó með harmkvælum sé – áframhaldandi hræðilegu mannfalli og miklu hergagnatjóni. Þá hafa úkrænskar hersveitir neyðst til að láta undan síga í Kursk héraði í Rússlandi eftir herför Úkrænumanna þangað í ágúst. En Donbass skiptir mestu í bili fyrir framgang stríðsins.
Úkrænuher skortir vopn og í vaxandi mæli mannskap. Síðarnefndi þátturinn er alvarlegur og lagast ekki með tímanum. Enda virðist Úkrænustjórn til í að semja um um vopnahlé og hugsanleg stríðslok, en þó ekki þannig enn sem komið er að vilja gefa mikið eftir til að ná samningum.
Það eru á hinn bóginn vaxandi líkur á að þrýstingur verði lagður á Úkrænu af hálfu Bandaríkjanna og annarra NATO ríkja í þá veru að til að koma á vopnahléi og hugsanlegum friðarsamningum gefi hún gefi eftir land sem Rússar hertóku skömmu eftir innrás þeirra í febrúar 2022. Slíkur þrýstingur hefst eftir að Trump verður forseti 20. janúar næstkomandi, jafnvel fyrr ef vígstaða Úkrænuhers versnar til muna á næstu vikum, sem er alls ekki útilokað.
Það yrði auðvitað ekki ákjósanleg lausn fyrir Úkrænu að neyðast til að láta hernumið land fyrir frið – og hafa ber í huga að Rússar ráða yfir um 20 prósentum af úkrænsku landi.
Miklu skiptir hvort tækist að búa þannig um hnútana í samningum að í staðinn fyrir eftirgjöf í landi yrði öryggi og fullveldi Úkrænu tryggt. Forsenda þess væri að NATO ríkin sæju Úkrænu fyrir þeim hernaðarlega og fjárhagslega stuðningi sem dygði til að tryggja hana til lengri tíma.
Lykilatriði mundu auðvitað snúast annarsvegar um vilja Rússa og hinsvegar vilja og staðfestu Bandaríkjanna og NATO í bráð og lengd fyrir hönd Úkrænu.
Meginforsendur mála virðast skýrar ef til kemur. En hvað verður er auðvitað önnur saga og afar mikilvæg atriði að sjálfsögðu óviss enn sem komið er.
Meðfylgjandi er videopistill frá Ian Bremmer um stöðu mála í Úkrænustríðinu, stefnu Trumps og fleiri áhugaverð atriði sem snerta stríðið og hugsanlega samninga um lyktir þess. Ég hef áður birt efni frá Bremmer á vefsíðunni enda er hann virtur og skýr og skeleggur álitsgjafi með meiru – (“American political scientist, author, and entrepreneur focused on global political risk. He is the founder and president of Eurasia Group, a political risk research and consulting firm. He is also a founder of GZERO Media, a digital media firm.”)
Hér er krækja á pistil Bremmers: https://www.youtube.com/watch?v=_XA7Ff-cgRE&t=348s