Meðfylgjandi er krækja á grein á netsíðu tímaritsins Foreign Policy. Titill hennar er Europe’s Northern Flank Is More Stable Than You Think (https://foreignpolicy.com/2023/07/28/arctic-nato-russia-china-finland-sweden-norway-northern-europe-defense-security-geopolitics-energy/) Greinin er eftir tvo sérfræðinga hjá “rannsóknastofnun varnarmála í Noregi” (Institutt for forsvarsstudier).
Foreign Policy er þekkt tímarit um alþjóðamál. Í umræddri grein fara höfundar yfir helstu áhrifaþætti í þróun öryggismála á norðurslóðum. Inntak greinarinnar er að á “norðurvæng” Evrópu og norðurslóðum ríki stöðugleiki í öryggismálum og ólíklegt, í náinni framtíð að minnsta kosti, að það breytist.
Þessi niðurstaða er í aðalatriðum í samræmi við það, sem komið hefur fram um norðurslóðir í greinum á þessari vefsíðu á undanförnum árum, þar á meðal eftir innrás Rússa í Úkrænu í febrúar 2022. Norðurslóðir eru lágspennusvæði, eins og það er kallað. Sú hefur í aðalatríðum verið staða mála um langa hríð og þar hefur ekki gætt aukinnar spennu eða aukinna hernaðarlegra umsvifa vegna Úkrænustríðsins.
Sunnar – á svæðum í nágrenni Íslands – bendir flest til að rússnesk hernaðarumsvif séu áfram mjög lítil. Rússnesk herflugvél kom síðast í námunda við landið sumarið 2020. Rússneskur tundurspillir sást þar 2021 en þá höfðu rússnesk herskip vart komið þangað svo áratugum skipti. Loks virðast ferðir rússneskra kafbáta áfram mjög strjálar um svæði nálægt Íslandi. Það sést meðal annars af því að bandarískar eftirlitsflugvélar af gerðinni Boeing P-8 Poseidon fara, eins og undanfarin tvö ár, tíðar eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli til Eystrasalts fremur en stunda þær aðallega yfir Norður-Atlantshafi. Um allar þessar vísbendingar um hernaðarlegan stöðugleika á svæðum í námunda við Ísland var síðast fjallað hér á vefsíðunni í byrjun þessa árs (“Sinna íslensk stjórnvöld ekki sem skyldi öryggis- og varnarmálum?”, 4. janúar 2023.).
Að öryggismál séu í aðalatriðum í föstum skorðum á norðurslóðum hefur einkennt stöðu mála þar um áratuga skeið frá í kalda stríðinu.
Norðurslóðir hafa fyrst og síðast strategíska þýðingu í hernaðarlegu tilliti. Hún tengist annarsvegar kjarnorkujafnvæginu, og hinsvegar möguleika á stríði milli NATO og Rússlands sem brytist út á meginlandi Evrópu. Átök á meginlandinu mundu ná til norðurslóða.
Kjarnorkujafnvægið veldur stöðugleika á svæðinu, sem hefur verið hvorugum í hag að raska – síst Rússlandi. Kjarnorkuvopn lúta að tilvistarhagsmunum og eru til að verja þá. Kjarnorkuvopn Rússlands þess fela ennfremur í sér að þeirra vegna getur það talist stórveldi í hernaðarlegum skilningi og þau skipta enn meira máli en áður að þessu leyti í kjölfar Úkrænustríðsins. Norðurslóðir hafa sérstaka þýðingu í því efni.
Langmikilvægasti eini hernaðarlegi þátturinn á norðurslóðum lýtur að grundvallarhagsmunum Rússlands. Hann felst í því að stór hluti langdrægra kjarnorkuvopna þess er á norðurslóðum – nánar tiltekið í Barentshafi og Íshafi. Eldflaugakafbátar rússneska Norðurflotans bera þessi vopn, sem eru í senn nýjustu og öruggustu kjarnavopn Rússlands. Þegar byrjað var um 2010 að endurreisa rússneska herinn eftir mikla hrörnun hans í kjölfar kalda stríðsins hlutu forgang þessi vopn og kafbátarnir sem bera þau.
Meginbreytingin á stöðunni á norðurslóðum í kjölfar innrásar Rússa í Úkrænu felst í aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO. En hún eflir hernaðargetu og fælingarmátt bandalagsins á norðurslóðum og eykur þannig stöðugleika á svæðinu eins og höfundar umræddrar greinar í Foreign Policy benda á.
Í lok greinarinnar benda höfundarnir á tvennt sem gæti hróflað við stöðugleika á norðurslóðum. Annar þátturinn lýtur að því að “endurrísandi” (resurgent) Rússland sækti í sig veðrið meðal annars í skjóli þess að Bandaríkin yrðu upptekin af Kína og hugsanlegum ófriði í austur Asíu á kostnað tengsla þeirra við NATO og öryggi í Evrópu.
En svo er komið – og höfundar greinarinnar í Foreign Policy taka undir það – að Rússum mundi reynast örðugt að öðlast þá burði að fæli í sér alvarlega hernaðarleg ógn við Evrópu utan Úkrænu.
Fyrir liggur að mörg ár, jafnvel áratugi, mun taka að bæta tjónið sem rússneski landherinn hefur orðið fyrir í stríðinu í Úkrænu. Jafnframt þarf að laga alvarlega veikleika sem stríðið hefur leitt í ljós og lúta að búnaði, flutningagetu, þjálfun og stjórnun hersins. Einnig hefur birst vandi Rússlandshers vegna landlægrar spillingar í Rússlandi og systur hennar vanhæfninnar. Þá býr þjóðarbúskapur Rússa við ýmsa alvarlega veikleika til viðbótar þeim sem stafa af refsiaðgerðum Vesturlanda vegna Úkrænustríðsins og hann er lítill í samanburði við efnahag vesturlanda. Þjóðarbúskapur Rússlands er til dæmis á við hagkerfi Kanada að stærð þótt íbúar Rússlands séu tæplega 150 milljónir og því næstum fjórum sinnum fleiri en Kanadamenn.
Veikleikarnir sem Úkrænustríðið hefur leitt í ljós, ná auðvitað til annarra deilda Rússlandshers en landhersins. Flugherinn hefur haft sig lítið í frammi í Úkrænustríðinu og á greinilega við ýmsa veikleika að etja, sem lúta meðal annars að þjálfun og virðast koma í veg fyrir að hann geti tekið þátt í samræmdum aðgerðum með landhernum. Þá hefur flugherinn enn ekki ráðist gegn herflutningum til Úkrænuhers frá Póllandi. Þaðan berast vestræn hergögn sem skipta öllu fyrir Úkrænumenn en rússneski flugherinn hefur greinilega ekki burði til að stöðva flutningana. Svartahafsflotinn hefur haldið sig til hlés að mestu eftir apríl 2022 þegar Úkrænumenn, sem eiga ekki flota, sökktu með flugskeytum beitiskipinu Moskvu sem var flaggskip Svartahafsflotans og sérstaklega útbúið til loftvarna. Samt fór sem fór gegn loftárás Úkrænumanna og nýlega stórlöskuðu þeir rússneskt landgönguskip með dróna.
Í Úkrænustríðinu hefur rússneski herinn enn ekki tekist á hendur – í neinum mæli sem máli skipti – svonefndar samræmdar aðgerðir (combined operations) fótgönguliðs, stórskotaliðs, brynvagna, skriðdreka og flughers. Það er grundvallarveikleiki sem bendir til að rússneski herinn sé að segja má ekki nútímaher.
Hinn þátturinn sem höfundar Foreign Policy greinarinnar telja að gæti leitt til óstöðugleika á norðurslóðum væri ef Kína yrði herveldi þar í kjölfar þess meðal annars segja þeir að Rússland hefði veikst vegna Úkrænustríðsins og því orðið miklu háðara Kína en áður. Niðurstaðan er hins vegar að Kína verði vart herveldi á norðurslóðum í náinni framtíð. Það er vafalítið rétt.
Í greinum hér á vefsíðunni hefur verið bent á að stefndi ákveðið í opnun Norður-Íshafs af völdum hlýnunar Jarðar mundi alþjóðapólitískur og hernaðarlegur aðdragandi þess á norðurslóðum að líkindum hefjast á næstu 10-20 árum. Hann mundi litast mjög af samkeppni Kína og Bandaríkjanna, sem þegar er hafin á heimsvísu og verður að líkindum ráðandi þáttur alþjóðamála á öldinni. Jafnframt sé ljóst að með Úkrænustríðinu hafi samvinna Rússa og Kínverja orðið enn nánari en var, sameiginlegir hagsmunir þeirra og sýn á veröldina enn ljósari en fyrr, og Rússland miklu háðara Kína en áður. Líkur fari þannig vaxandi á að samvinna þeirra nái til norðurslóða og að Kína geri sig hernaðarlega gildandi þar þegar kemur lengra fram á öldina .